1. gr. Með vísan til 2. og 3. gr. reglugerðar nr. 605, 24. júní 2008 um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2007/2008 staðfestir ráðuneytið sérstök skilyrði vegna úthlutunar aflaheimilda í eftirfarandi sveitarfélögum: Sveitarfélagið Garður. Ákvæði reglugerðar nr. 605 frá 24. júní 2008 gilda um úthlutun byggðakvóta sveitarfélagsins Garðs með eftirfarandi viðauka/breytingum á 4. gr.: Úthluta skal aflamarki miðað við landaðan afla í þorskígildum talið á tímabilinu 1. maí 2007 til 30. apríl 2008. Vesturbyggð, Patreksfjörður og Brjánslækur. Ákvæði reglugerðar nr. 605 frá 24. júní 2008 gilda um úthlutun byggðakvóta Patreksfjarðar og Brjánslækjar með eftirfarandi viðauka/breytingum: a) Breyting á 4. gr.: Úthluta skal aflamarki hlutfallslega miðað við landaðan afla til vinnslu í Vesturbyggð frá 1. maí 2007 til 30. apríl 2008. b) Breyting á 6. gr.: Fiskiskipum er skylt að landa til vinnslu innan sveitarfélagsins afla sem nemur ... o.s.frv. c) Viðbót: Ekkert fiskiskip getur sótt um byggðakvóta nema frá einu byggðarlagi. Vesturbyggð, Bíldudalur. Ákvæði reglugerðar nr. 605 frá 24. júní 2008 gilda um úthlutun byggðakvóta Bíldudals með eftirfarandi viðauka/breytingum: a) 1. gr. b-liðar verður: Eru skráð í sveitarfélaginu 1. maí 2008. b) Ákvæði 4. gr. um 15 þorskígildislesta hámarksúthlutun fellur niður. c) Byggðakvóta Vesturbyggðar, 68 þorskígildistonnum og byggðakvóta Bíldudals 140 þorskígildistonnum skal úthlutað til fiskiskipa samkvæmt lönduðum afla í Vesturbyggð, sem unninn hefur verið á Bíldudal á tímabilinu 1. maí 2007 til 30. apríl 2008. d) Ekkert fiskiskip getur sótt um byggðakvóta nema frá einu byggðarlagi. Ísafjarðarbær. Ákvæði reglugerðar nr. 605 frá 24. júní 2008 gilda um úthlutun byggðakvóta Ísafjarðarbæjar með eftirfarandi viðauka/breytingum: a) Byggðakvóta þeim er úthlutað var til Ísafjarðar, samtals 70 þorskígildislestum, skal úthlutað til skel- og rækjuveiðibáta þannig: 26 þorskígildislestir koma í hlut skelveiðibáta og 44 þorskígildislestir koma í hlut rækjuveiðibáta. Skipting byggðakvótans milli skelveiðibáta verður jöfn, en skipting milli einstakra rækjuveiðibáta verður í hlutfalli við aflahlutdeild þeirra í rækju þann 1. september 2007. Fiskiskip sem fá úthlutað samkvæmt þessum lið geta ekki sótt um frekari úthlutun byggðakvóta hjá Ísafjarðarbæ á þessu fiskveiðiári. b) Öðrum úthlutuðum byggðakvóta verður skipt þannig að af 129 þorskígildislestum sem úthlutað var á Ísafjarðarbæ koma: 36,9 þorskígildislestir í hlut fiskiskipa á Ísafirði; 8,9 þorskígildislestir í hlut fiskiskipa á Þingeyri, auk þeirra 17 þorskígildislesta, sem er sérúthlutað til Þingeyrar; 10,6 þorskígildislestir í hlut fiskiskipa á Suðureyri, auk þeirra 20 þorskígildislesta sem er sérúthlutað á Suðureyri; 54,7 þorskígildislestir í hlut fiskiskipa á Flateyri, auk þeirra 104 þorskígildislesta sem er sérúthlutað á Flateyri; 17,9 þorskígildislestir í hlut fiskiskipa í Hnífsdal, auk þeirra 34 þorskígildislesta sem er sérúthlutað í Hnífsdal. c) Ákvæði í 4. gr. reglugerðar nr. 605, um hámarksúthlutun 15 þorskígildistonna til einstaks fiskiskips/báts, verði fellt niður hvað varðar úthlutanir byggðakvóta í Ísafjarðarbæ. Sveitarfélagið Skagaströnd. Ákvæði reglugerðar nr. 605 frá 24. júní 2008 gilda um úthlutun byggðakvóta sveitarfélagsins Skagastrandar með eftirfarandi viðauka/breytingum: a) b-liður 1. gr. reglugerðarinnar fellur brott. b) 50 þorskígildistonnum verður úthlutað jafnt til fiskiskipa með leyfi til innfjarðarækjuveiða í Húnaflóa. c) 90 þorskígildistonnum verður skipt samkvæmt ákvæðum 4. gr. reglugerðarinnar til fiskiskipa sem uppfylla ákvæði reglnanna. d) Ákvæði 4. gr. um 15 þorskígildislesta hámarksúthlutun fellur niður. e) Fiskiskip eiga rétt á úthlutun úr báðum liðum b og c. Fjallabyggð. Ákvæði reglugerðar nr. 605 frá 24. júní 2008 gilda um úthlutun byggðakvóta Siglufjarðar og Ólafsfjarðar með eftirfarandi viðauka/breytingum á 6. gr.: Fiskiskipum er skylt að landa til vinnslu innan sveitarfélagsins afla sem nemur ....o.s.frv. 2. gr. Auglýsing þessi, sem birt er samkvæmt heimild í 5. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, 25. júlí 2008. F. h. r. Steinar I. Matthíasson. Hinrik Greipsson. |