Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 513/2006

Nr. 513/2006 9. júní 2006
REGLUR
um úthlutun styrkja Jafnréttissjóðs.

1. gr.

Tilgangur.

Starfræktur skal sérstakur rannsóknarsjóður, Jafnréttissjóður. Tilgangur sjóðsins er að efla kynjarannsóknir og stuðla þannig að bættri stöðu kvenna og karla og framgangi jafnréttis.

Styrkir Jafnréttissjóðs skulu að meginstefnu veittir til rannsókna á stöðu kvenna og karla á vinnumarkaði en einnig á öðrum sviðum samfélagsins, samkvæmt nánari fyrirmælum í reglum þessum og starfsreglum stjórnar sjóðsins.

2. gr.

Stjórn og skipulag.

Forsætisráðherra skipar stjórn Jafnréttissjóðs til fjögurra ára, þrjá aðalmenn og þrjá til vara. Skal einn tilnefndur af félagsmálaráðherra, einn af menntamálaráðherra og einn án tilnefningar sem jafnframt er formaður. Varamenn eru skipaðir með sama hætti.

Stjórn sjóðsins skiptir með sér verkum og setur sér starfsreglur eftir því sem þurfa þykir. Starfsreglur sjóðsins skulu vera aðgengilegar.

Forsætisráðuneyti sér stjórn sjóðsins fyrir skrifstofuaðstöðu og fyrir aðstoð að öðru leyti samkvæmt nánara samkomulagi milli ráðuneytisins og sjóðstjórnar.

3. gr.

Fjármunir og greiðsluáætlun.

Ríkissjóður leggur sjóðnum til 10 millj. kr. fyrir hvert starfsár samkvæmt sérstökum lið á fjárlögum. Til sjóðsins leggjast enn fremur önnur framlög eftir því sem tilefni gefst til.

Sjóðstjórn semur greiðsluáætlun fyrir sjóðinn ár hvert þar sem gerð er grein fyrir kostnaði við umsýslu hans, fjölda styrkveitinga og upphæð þeirra. Kostnaður vegna starfsemi sjóðsins er greiddur úr sjóðnum.

4. gr.

Styrkveitingar.

Styrkir Jafnréttissjóðs eru veittir einu sinni á ári og skal úthlutun fara fram á degi Sameinuðu þjóðanna, 24. október. Sjóðstjórn ákveður fjölda styrkja og skal við það miðað að þeir séu ekki færri en 3 og ekki fleiri en 5 hvert sinn.

Stjórn sjóðsins getur að höfðu samráði við forsætisráðuneyti ákveðið að styrkir Jafnréttissjóðs verði veittir annað hvert ár.

5. gr.

Auglýsing um styrkveitingar.

Fyrir 1. júlí skal stjórn Jafnréttissjóðs auglýsa þá styrki sem sjóðurinn veitir 24. október ár hvert. Heimilt er stjórn sjóðsins að ákveða í auglýsingu að veittir verði styrkir til tiltekinna eða afmarkaðra viðfangsefna.

Í auglýsingu skal greina þær kröfur sem gerðar eru til umsókna og fyrir hvaða tíma þær skuli berast sjóðnum. Jafnframt skal í starfsreglum stjórnar Jafnréttissjóðs kveðið nánar á um efni auglýsingar.

6. gr.

Skyldur styrkþega.

Styrkþegar skulu gera grein fyrir framvindu verkefna og ráðstöfun fjár samkvæmt nánari reglum sjóðstjórnar. Verði misbrestur á eða önnur skilyrði stjórnar fyrir styrkveitingu eru ekki uppfyllt er heimilt að fara fram á endurgreiðslu styrksins.

Sé styrks ekki vitjað innan tveggja ára frá dagsetningu tilkynningar um styrk fellur hann niður.

Rannsóknir og niðurstöður þeirra sem hlotið hafa styrk samkvæmt reglum þessum skulu birtar almenningi samkvæmt nánari fyrirmælum sjóðstjórnar.

7. gr.

Reikningar og endurskoðun.

Reikningsár Jafnréttissjóðs er almanaksárið. Ríkisendurskoðun endurskoðar reikninga sjóðsins.

8. gr.

Gildistaka o.fl.

Reglum þessum verður í fyrsta sinn beitt við úthlutun styrkja 24. október 2006.

Forsætisráðuneytinu, 9. júní 2006.

Halldór Ásgrímsson.

Bolli Þór Bollason.

B deild - Útgáfud.: 26. júní 2006