Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Leiðréttingar:

HTML-texti: Í stað „REGLUGERГ í yfirskrift í fyrirsögn á að vera: REGLUR


Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 516/2011

Nr. 516/2011 20. maí 2011

REGLUGERÐ
um sérstakar aðferðir og aðgerðir lögreglu við rannsókn sakamála.

I. KAFLI

Almenn ákvæði.

1. gr.

Gildissvið.

Reglur þessar gilda um sérstakar aðferðir og aðgerðir lögreglu við rannsókn sakamála samkvæmt 89. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

2. gr.

Skilgreining.

Þau rannsóknarúrræði sem kveðið er á um í reglum þessum nefnast sérstakar aðferðir og aðgerðir lögreglu við rannsókn sakamála. Þau miða að því að fyrirbyggja, rannsaka og afla allra tiltækra gagna um refsiverða háttsemi og leita þess sem grunaður er um brot, allt með þeim hætti að sá sem rannsókn beinist að verði þess ekki var.

3. gr.

Skilyrði.

Til að heimilt sé að nota sérstakar aðferðir og aðgerðir lögreglu þarf að uppfylla öll eftirtalin skilyrði, nema annað sé tekið fram í reglum þessum:

  1. Rökstuddur grunur sé um að verið sé að fremja alvarlegt brot, eða reynt verði að fremja alvarlegt brot, sem varðað getur að lágmarki átta ára fangelsi eða brot gegn 108. gr., 175. gr. a., 2. og 3. mgr. 202. gr., 206. gr., 244. gr., 245. gr., 247. gr., 248. gr., 249. gr., 249. gr. a., 250. gr., 251. gr., 254. gr., 262. gr. eða 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, 117. gr., 123. gr. og 124. gr., sbr. 146. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti, 41. gr. a., samkeppnislaga nr. 44/2005 eða 4. mgr. 2. gr., sbr. 4. gr. eða 4. gr. a. og 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974.
  2. Ástæða sé til að ætla að upplýsingar, sem geti skipt miklu fyrir rannsókn málsins, fáist með þeim hætti.
  3. Ætla verður að önnur rannsóknarúrræði dugi ekki til að fá slíkar upplýsingar.

Rannsóknarúrræðum samkvæmt reglum þessum verður ekki beitt ef það kallar fram refsiverða háttsemi sem ella hefði ekki verið framin. Ávallt skal gæta meðalhófs við beitingu úrræðanna.

4. gr.

Ákvörðun.

Ákvörðun um beitingu sérstakra aðferða og aðgerða lögreglu skal tekin af lögreglustjóra eða öðrum yfirmanni samkvæmt ákvörðun lögreglustjóra. Mögulegur kostnaður vegna notkunar sérstakra aðferða eða aðgerða samkvæmt reglum þessum greiðist úr sjóðum lögreglu, þ.m.t. vegna kaupa á ólöglegum varningi eða þjónustu. Slíkur kostnaður getur þó eftir því sem við á talist vera sakarkostnaður skv. lögum um meðferð sakamála nr. 88/2008.

5. gr.

Þegar aðferð og aðgerð lögreglu skv. reglum þessum er lokið skal lögregla tilkynna þeim sem aðgerðin beindist að um hana án tafar, þó þannig að það skaði ekki frekari rannsókn málsins.

6. gr.

Ríkissaksóknari hefur eftirlit með framkvæmd aðferða og aðgerða skv. reglum þessum. Lögreglustjórar skulu tilkynna ríkissaksóknara um beitingu aðferða og aðgerða skv. reglum þessum svo fljótt sem kostur er.

II. KAFLI

Tálbeitur.

7. gr.

Skilgreining.

Tálbeita er lögreglumaður eða annar starfsmaður lögreglu sem fer með lögregluvald og hefur samskipti við sakborning sem grunaður er um að ætla að fremja refsivert brot og samskiptin leiða til þess að brotið er fullframið og/eða að upplýsingar fást um deili á þeim sem fullframið hefur refsivert brot.

8. gr.

Fíkniefnabrot.

Beinist rannsókn að broti gegn lögum um ávana- og fíkniefni verða ávana- og fíkniefni að vera komin inn á íslenskt yfirráðasvæði svo unnt sé að beita tálbeitu.

III. KAFLI

Uppljóstrarar.

9. gr.

Skilgreiningar og markmið.

Uppljóstrari er einstaklingur sem gefur lögreglu upplýsingar um afbrot eða menn sem tengjast brotastarfsemi og getur ætlast til nafnleyndar. Gerður er greinarmunur á uppljóstrara, þ.e. annars vegar þeim sem er í föstu upplýsingasambandi við lögreglu og hins vegar uppljóstrara sem gefur lögreglu upplýsingar án þess að til eiginlegs upplýsingasambands sé stofnað.

Upplýsingasamband er tvíhliða samband lögreglu og uppljóstrara undir umsjón og eftirliti yfirmanns lögreglu.

Markmiðið með upplýsingasambandi er að fyrirbyggja brotastarfsemi, upplýsa um afbrot og tryggja öryggi uppljóstrara og lögreglumanna, vitneskju yfirmanna, ábyrgð og eftirlit.

Reglur þessa kafla gilda um uppljóstrara í föstu sambandi, sem og um aðra upplýsingagjafa eftir því sem við á.

10. gr.

Stofnun og slit upplýsingasambands.

Upplýsingasambandi verður aðeins komið á í samráði við og með samþykki yfirmanns. Við mat á því hvort stofna skuli til upplýsingasambands skal meðal annars leggja til grundvallar aldur, kyn, sakaferil og áreiðanleika upplýsingagjafa, hvaða ástæður og hvatir búa að baki vilja til upplýsingagjafar, hver sé líklegur árangur af upplýsingagjöf og hvort unnt sé að tryggja öryggi lögreglumanns og upplýsingagjafa eftir að til upplýsingasambands hefur verið stofnað.

Óheimilt er að stofna til upplýsingasambands nema í hlut eigi lögreglumaður sem telst til þess hæfur að mati lögreglustjóra. Við mat á hæfi skal meðal annars litið til líf- og starfsaldurs, starfsreynslu og/eða annarrar reynslu, þekkingar eða færni sem lögð verður að jöfnu við starfsreynslu hjá lögreglu. Upplýsingasambandi skal slitið ef það skilar ekki tilætluðum árangri eða forsendur þess eru ekki lengur fyrir hendi.

11. gr.

Skráning upplýsingasambands.

Þegar stofnað hefur verið til upplýsingasambands skal haldin stofnskrá þar sem eftirfarandi upplýsingar skulu skráðar:

  1. Nafn, heimili, kennitala og símanúmer uppljóstrara.
  2. Dulnefni og númer.
  3. Upplýsingar um stofnun og forsendur upplýsingasambands.
  4. Ferill upplýsingagjafa.
  5. Önnur atriði sem kunna að skipta máli.

Á meðan upplýsingasamband varir skal haldin samskiptaskrá þar sem eftirfarandi upplýsingar skulu skráðar:

  1. Fundir lögreglumanns og uppljóstrara, símtöl og/eða önnur samskipti þeirra.
  2. Mótteknar upplýsingar.
  3. Árangur af fengnum upplýsingum.
  4. Nýjar upplýsingar um uppljóstrara.
  5. Samráð lögreglumanns og yfirmanns og endurmat á upplýsingasambandi.
  6. Slit upplýsingasambands og ástæður.

Tryggja skal nafnleynd uppljóstrara og trúnað gagnvart honum á öllum stigum rannsóknar og eftir að rannsókn lýkur. Upplýsingar um nafn, kennitölu, heimilisfang og aðrar persónurekjanlegar upplýsingar skal haldið leyndum í rannsóknargögnum.

12. gr.

Meginreglur um samskipti.

Upplýsingasamband skal vera skipulagt og því stjórnað af lögreglu. Í upphafi upplýsingasambands skal uppljóstrara gerð skýr grein fyrir þeim reglum sem gilda um samskiptin og tilgangi með sambandinu. Lögreglumaður skal gæta fyllstu varkárni í öllum samskiptum við uppljóstrara og meðal annars tilkynna um og hafa samráð við yfirmann um fundi, fundarstaði og annað er máli kann að skipta.

Lögreglumaður skal leitast við að eiga föst og reglubundin samskipti við uppljóstrara og leitast við að sannreyna sannleiksgildi móttekinna upplýsinga svo fljótt sem kostur er. Lögreglumaður skal ekki eiga önnur samskipti við uppljóstrara en þau er varða beinlínis starf hans og samræmast lögbundnu hlutverki lögreglu. Óheimilt er að stofna til kynferðislegs eða tilfinningalegs sambands við uppljóstrara. Almennt skulu tveir lögreglumenn eiga samskipti eða fundi með uppljóstrara og rita skýrslu um þau samskipti.

13. gr.

Eftirlit.

Lögreglumaður sem annast upplýsingasamband skal hafa náið samráð við næsta yfirmann um alla þætti sem varða samskipti við uppljóstrara. Viðkomandi yfirmaður skal eiga fund með uppljóstrara, ásamt þeim lögreglumanni sem annast upplýsingasamband, ef þörf er á til að meta forsendur sambandsins eða af öðrum brýnum ástæðum.

Lögreglustjóri skal sjá til þess að reglulegt eftirlit sé haft með upplýsingasamböndum og setur nánari starfsfyrirmæli um ábyrgð og hlutverk yfirmanna, fyrirkomulag samskipta, skipulagningu, áhættugreiningu, þjálfun og leggur mat á hæfni lögreglumanns til samskipta við uppljóstrara og hæfi uppljóstrara til samstarfs við lögreglu.

14. gr.

Greiðslur til uppljóstrara og önnur úrræði.

Lögreglumanni er óheimilt að gefa uppljóstrara fyrirheit um ívilnanir eða fríðindi ef hann ber á ákveðinn hátt, enda séu slík fyrirheit ólögleg eða ekki á valdi lögreglumanns að veita þau.

Lögreglumanni er rétt að vekja athygli á því að upplýsingagjöf til lögreglu geti leitt til lækkunar við ákvörðun refsingar, sbr. 9. tölulið 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, og 2. mgr. 4. gr. reglugerðar um réttarstöðu handtekinna manna, yfirheyrslur hjá lögreglu o.fl., nr. 651/2009.

Heimilt er að greiða uppljóstrara fyrir upplýsingar, sem leiða til þess að komið er í veg fyrir að alvarlegt brot sé framið eða að alvarleg brot upplýsist. Fjárhæð greiðslu í hverju tilviki skal ákveðin með hliðsjón af vægi upplýsinganna, eðli og alvarleika brots, vinnu og kostnaði uppljóstrara og áhættu sem hann tekur.

Lögreglustjóri metur endanlega heimild lögreglu til greiðslu til uppljóstrara.

Greiðsla skal ekki innt af hendi fyrr en ljóst er að upplýsingagjöfin hafi skilað árangri.

Ákvörðun um greiðslu til uppljóstrara tekur lögreglustjóri og staðfestir hana með áritun á greiðslubeiðni.

Viðkomandi lögreglumaður skal afhenda uppljóstrara greiðslu að viðstöddum yfirmanni hans. Uppljóstrari skal kvitta fyrir móttökunni ef þess er kostur og staðfest skal af lögreglumanni og yfirmanni að greiðsla hafi átt sér stað.

IV. KAFLI

Afhending undir eftirliti.

15. gr.

Skilgreining og markmið.

Afhending undir eftirliti felst í því að fresta að leggja hald á, en hafa undir stöðugu eftirliti, fíkniefnasendingu eða aðra ólöglega eða grunsamlega vörusendingu á leið til landsins, um landið eða úr landi.

Markmið afhendingar undir eftirliti er að upplýsa um viðtakanda sendingar, aðferðir við flutning og hugsanlegt dreifikerfi og afla þannig sönnunargagna um refsiverða háttsemi.

16. gr.

Ákvörðun og stjórn.

Ríkislögreglustjóri tekur ákvörðun um afhendingu undir eftirliti og mælir fyrir um stjórn aðgerða. Hann getur jafnframt óskað eftir samvinnu við löggæsluyfirvöld annarra ríkja.

Áður en ríkislögreglustjóri ákveður að afhending undir eftirliti fari fram hér á landi eða leitar samvinnu um það við löggæsluyfirvöld annarra ríkja ber honum að tilkynna það ríkissaksóknara og tollstjóra.

17. gr.

Skilyrði.

Heimilt er að afhending undir eftirliti fari fram eftir beiðni frá erlendu ríki að eftirtöldum skilyrðum uppfylltum:

  1. Tæknibúnaður og mannafli er til staðar sem tryggir órofa eftirlit með sendingunni á meðan aðgerðin stendur yfir.
  2. Athugað hefur verið hvort unnt er að skipta um innihald sendingarinnar, t.d. fíkniefni, að öllu leyti eða að hluta.

Þegar um ræðir sendingu undir eftirliti sem flutt er milli landa með viðkomu á Íslandi (e. transit) eru að auki sett þau skilyrði að lokaáfangastaður sé þekktur, viðkomandi erlend yfirvöld tryggi órofa eftirlit með sendingunni, að hald verði lagt á hana og að þeir sem hlut eiga að máli verði sóttir til saka.

18. gr.

Beiðni um aðgerð.

Beiðni erlendra yfirvalda um aðstoð vegna afhendingar undir eftirliti skal send ríkislögreglustjóra þar sem fram komi eftirfarandi atriði:

  1. Hvaða yfirvald óskar aðgerðarinnar og staðfesting þess að það sé bært til að setja fram slíka beiðni.
  2. Rökstuðningur fyrir nauðsyn þess að aðgerðin fari fram.
  3. Frá hvaða löggæslustofnun í viðkomandi ríki upplýsingar um sendinguna hafa borist.
  4. Nákvæmar upplýsingar liggi fyrir eftir því sem við verður komið um:
    1. innihald og umfang sendingar,
    2. flutningsleið, flutningsaðferð og tímasetningar,
    3. persónuupplýsingar um grunaða og tengsl við aðra brotamenn,
    4. önnur atvik sem kunna að skipta máli fyrir aðgerðina.
  5. Hvaða aðstoðar er óskað.
  6. Hvaða löggæslustofnanir viðkomandi ríkis taka þátt í aðgerðinni, nöfn og stöður stjórnenda og hvernig tryggt verði að ávallt sé hægt að ná sambandi við þá meðan á aðgerð stendur.
  7. Hvernig eftirliti verði hagað.
  8. Hvort önnur ríki sem sendingin fer um hafa samþykkt aðgerðina.

Heimilt er að setja beiðni fram í símtali, þoli aðgerðin ekki bið, enda sé tryggt að skrifleg beiðni verði send tafarlaust í kjölfarið sem uppfylli skilyrði 1. mgr.

Ríkislögreglustjóri metur hvort beiðni fullnægi skilyrðum 1. og 2. mgr.

19. gr.

Störf löggæslumanna utan heimaríkis.

Ríkislögreglustjóri getur heimilað löggæslumönnum annarra ríkja að fylgjast með afhendingu undir eftirliti á íslensku yfirráðsvæði, enda hafi þeir tilskilin leyfi yfirvalda í heimaríki sínu. Þeir fara þó ekki með lögregluvald.

Ríkislögreglustjóri getur heimilað íslenskum lögreglumönnum að fylgjast með afhendingu undir eftirliti utan íslensks yfirráðasvæðis og að vinna undir stjórn erlendra löggæslu­yfirvalda meðan á aðgerðinni stendur.

20. gr.

Stöðvun aðgerðar.

Stöðva ber afhendingu undir eftirliti tafarlaust, leggja hald á sendingu og handtaka grunaða í eftirfarandi tilvikum:

  1. Þeir sem grunur beinist að hafa komist að því að sendingin er undir eftirliti.
  2. Hætta steðjar að lögreglumönnun, tollvörðum, áhöfnum skipa og loftfara Landhelgisgæslu Íslands eða öðrum sem taka þátt í aðgerðinni.
  3. Hætta er á að eftirlit með sendingu rofni þannig að hún verði ekki haldlögð.

21. gr.

Skráning aðgerðar.

Allt ferli aðgerðar skal skráð þar sem lýst er upphafi hennar og lyktum, hvaða yfirvöld tóku þátt í henni og önnur atriði sem máli skipta.

Að lokinni aðgerð skal ríkislögreglustjóri gera skýrslu þar sem m.a. kemur fram hver var árangur aðgerðarinnar, upplýsingar um grunaða og handtekna og haldlagðan varning. Skýrsluna skal afhenda ríkissaksóknara.

22. gr.

Aðgerð fer fram innanlands.

Ríkislögreglustjóri getur, að fengnu samþykki ríkissaksóknara, mælt fyrir um eftirlit með sendingu á milli tveggja eða fleiri umdæma lögreglustjóra innanlands. Ákvæði þessara reglna skulu þá gilda eftir því sem við á.

V. KAFLI

Skygging.

23. gr.

Skilgreining og markmið.

Skygging er rannsóknarúrræði sem felst í því að hafa stöðugt eftirlit með mannaferðum um húsnæði eða á öðru afmörkuðu svæði eða á almannafæri með því að fylgjast með ferðum þess sem grunaður er um brot.

Markmið skyggingar er að upplýsa hver sé grunaður um að hafa framið refsivert brot, afla upplýsinga um ferðir og samskipti og afla þannig sönnunargagna um refsiverða háttsemi.

24. gr.

Framkvæmd.

Skygging skal að jafnaði vera varðstaða lögreglumanns um húsnæði eða annað afmarkað svæði eða eftirlit með ferðum þess sem er grunaður um brot, þar með talin eftirför með bifreið eða öðru farartæki. Umferðarreglur samkvæmt reglum um neyðarakstur gilda eftir því sem við á.

Upptaka mynda og hljóðs á öðrum stöðum en þeim sem greindir eru í 2. mgr. 82. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008, er óheimil nema samkvæmt dómsúrskurði. Hið sama á við sé notuð önnur sérstök tækni til að fylgjast með mannaferðum á stöðum sem ekki falla undir 2. mgr. 82. gr. laganna.

25. gr.

Flugumenn.

Flugumaður er lögreglumaður eða annar starfsmaður lögreglu sem fer með lögregluvald, íslenskur eða erlendur, og tekur stöðu innan hóps manna sem grunaðir eru um að standa fyrir alvarlegri brotastarfsemi og veitir lögreglu upplýsingar um þá starfsemi og þá menn sem henni tengjast. Reglur um uppljóstrara skulu gilda um flugumenn eftir því sem við á. Ákvörðun um beitingu þessarar rannsóknaraðferðar er háð samþykki ríkissaksóknara.

VI. KAFLI

Aðrar rannsóknaraðferðir.

26. gr.

Dulargervi.

Lögreglu er heimilt, að fengnu samþykki fyrirsvarsmanns fyrirtækis eða stofnunar, að nota sem dulargervi vinnufatnað, farartæki eða aðra auðkennda muni fyrirtækis eða stofnunar í þágu rannsóknar sakamáls. Lögreglu er með sömu skilyrðum heimilt að láta lögreglumann í dulargervi taka varðstöðu innan umráðasvæðis fyrirtækis eða stofnunar, þar með talið að taka þátt í starfsemi fyrirtækis eða stofnunar eins og um starfsmann væri að ræða, án vitneskju annarra starfsmanna eða þess sem rannsókn beinist að.

27. gr.

Vefsíður.

Lögreglu er heimilt að fylgjast með og skrá upplýsingar um það sem birtist á vefsíðum sem opnar eru almenningi að öllu leyti eða hluta, þar með talið vefsíður fyrir samskipti og tengslanet. Í því skyni er lögreglu heimilt að stofna til notandaheitis og tölvupóstfangs, án þess að auðkenni lögreglu komi fram, og senda og taka við skilaboðum með tölvupósti eða öðrum sambærilegum hætti.

VII. KAFLI

28. gr.

Gildistaka.

Reglur þessar, sem settar eru samkvæmt heimild í 89. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008, öðlast þegar gildi.

Innanríkisráðuneytinu, 20. maí 2011.

Ögmundur Jónasson.

Bryndís Helgadóttir.


B deild - Útgáfud.: 23. maí 2011