1. gr. Skilyrði löggildingar. Til að umsækjandi geti fengið heimild til að nota starfsheitin húsgagnaarkitekt og/eða innanhússarkitekt skal hann uppfylla eftirfarandi kröfur: Hafa lokið námsgráðu í öðru hvoru eða báðum fögum sem samanstendur af minnst 300 ECTS einingum sem að jafnaði felur í sér minnst fimm ára nám á háskólastigi, eða þar sem námsgráða leiðir af skemmra námi en skv. 1. tl., skal umsækjandi auk hennar hafa aflað sér starfsreynslu hjá aðila sem hefur löggildingu til að nota það starfsheiti sem sótt er um eða réttindi til að leggja fyrir byggingaryfirvöld uppdrætti á fagsviði viðkomandi umsækjanda, sbr. eftirfarandi: Eftir fjögurra ára nám sem samanstendur af minnst 240 ECTS einingum, 12 mánaða starfsreynslu. Eftir þriggja ára nám sem samanstendur af minnst 180 ECTS einingum, 42 mánaða starfsreynslu.
Umsækjendur sem lokið hafa skemmra námi en að ofan greinir geta ekki fengið löggildingu til að nota starfsheiti skv. reglum þessum. Starfsreynsla, sem aflað er skv. 2. tl., skal ekki nýtast til öflunar réttinda skv. 3. mgr., sbr. 5. mgr. 48. gr. laga nr. 73/1997. 2. gr. Viðurkenndar námsgráður. Sú námsgráða getur ein verið grundvöllur löggildingar skv. reglum þessum sem viðurkennd er sem slík af fagfélagi húsgagna- og/eða innanhússarkitekta í því landi þar sem hennar var aflað. Staðfesting á viðurkenningu fagfélags í námslandi er á ábyrgð umsækjanda. 3. gr. Umsagnir. Réttindanefnd Félags húsgagna- og innanhússarkitekta fer yfir þær umsóknir um löggildingu skv. reglum þessum sem henni berast frá iðnaðarráðuneytinu og sendir ráðuneytinu niðurstöður sínar. 4. gr. Lagagrunnur og gildistaka. Reglur þessar eru settar á grundvelli 3. gr. laga nr. 8/1996, með síðari breytingum og öðlast gildi við birtingu í Stjórnartíðindum. Ákvæði til bráðabirgða. Þeir sem hófu nám fyrir 1. júní árið 2010 eiga þess kost að fá próf sitt metið eftir eldri matsreglum Félags húsgagna- og innanhússarkitekta. Iðnaðarráðuneytinu, 12. janúar 2010. Katrín Júlíusdóttir. Kristján Skarphéðinsson. |