Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 226/2011

Nr. 226/2011 8. mars 2011
REGLUR
um niðurfellingu reglna nr. 211/2011 og breytingu á reglum nr. 569/2009 fyrir Háskóla Íslands.

1. gr.

Úr gildi falla reglur nr. 211/2011 um breytingu á reglum nr. 569/2009 fyrir Háskóla Íslands.

2. gr.

3. mgr. 56. gr. reglna nr. 569/2009 orðast svo:

Almenn próf eru haldin 2. til 18. desember og á tímabilinu 25. apríl til 10. maí eftir nánari ákvörðun deilda í samráði við prófstjóra. Próf eða prófhlutar í einstökum greinum geta þó farið fram á öðrum tímum, samkvæmt ákvörðun prófstjóra. Sjúkrapróf eru haldin í fjóra daga í kjölfar almennra próftímabila í desember og maí samkvæmt nánari ákvörðun prófstjóra. Deildum er heimilt, að höfðu samráði við prófstjóra og með samþykki stjórnar viðkomandi fræðasviðs, að nýta tímabil sjúkraprófa að vori fyrir sjúkrapróf í einstökum námskeiðum beggja kennslumissera. Ákvörðun um það liggi fyrir við upphaf kennslu á haustmisseri.

3. gr.

57. gr. reglna nr. 569/2009 orðast svo:

Stúdent er heimilt að þreyta próf í hverju námskeiði tvisvar. Nú stenst stúdent ekki próf, gengur frá því eftir að hann hefur byrjað próf eða kemur ekki til prófs og hefur ekki boðað forföll, og er honum þá heimilt að þreyta prófið næst þegar almennt próf er haldið í námskeiðinu og eigi síðar en innan árs. Standist hann þá ekki prófið, gangi frá því eða komi ekki til prófs án þess að boða forföll, hefur hann fyrirgert rétti sínum til þess að gangast oftar undir það. Úrsögn úr prófi skal vera rafræn eða skrifleg og hafa borist nemendaskrá háskólans eigi síðar en 1. október vegna prófa á haustmisseri, 1. febrúar vegna prófa á vormisseri og eigi síðar en sólarhring eftir birtingu próftöflu sjúkraprófa. Berist ekki úrsögn fyrir tilskilinn frest telst stúdent hafa staðfest skráningu sína í próf í viðkomandi námskeiði. Háskóladeild getur veitt undanþágu frá ákvæðum þessarar málsgreinar, ef sérstaklega stendur á.

Deildum er heimilt í samráði við prófstjóra að halda sérstök endurtökupróf í einstökum námskeiðum. Slík sérstök endurtökupróf eru einungis fyrir þá stúdenta sem áður hafa þreytt próf í viðkomandi námskeiði og skulu fara fram strax að lokinni brautskráningu í júní ár hvert. Fyrir lok janúar og fyrir 25. maí skal auglýst hvaða próf í námskeiðum viðkomandi missera verða endurtekin. Deildum er ennfremur heimilt í samráði við prófstjóra að halda endurtökupróf í einstökum námskeiðum ef þannig stendur á að stúdent á kost á að brautskrást við næstu brautskráningu að prófi loknu.

Stúdent er heimilt að endurtaka próf, sem hann hefur staðist, innan árs frá því hann stóðst það, enda sé á því tímabili haldið próf í sama námskeiði. Nú byrjar stúdent prófið, og fellur þá fyrra próf í grein eða prófhluta úr gildi. Þar sem flokki greina er skipað saman í prófhluta verður stúdent að taka upp próf í öllum greinum prófhlutans ef hann vill ekki una fyrra prófi.

Sérstakt gjald er tekið fyrir endurtökupróf samkvæmt nánari ákvörðun háskólaráðs.

4. gr.

Reglur þessar, sem samþykktar hafa verið í háskólaráði Háskóla Íslands, eru settar á grundvelli laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla. Ákvæði 2. og 3. gr. reglna þessara öðlast gildi 1. júlí 2011. Að öðru leyti öðlast ákvæði reglna þessara þegar gildi.

Háskóla Íslands, 8. mars 2011.

Kristín Ingólfsdóttir.

Þórður Kristinsson.

B deild - Útgáfud.: 10. mars 2011