Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 181/2007

Nr. 181/2007 19. febrúar 2007
AUGLÝSING
um skipulag menntamálaráðuneytis.

Meginákvæði þau sem menntamálaráðuneyti starfar eftir eru í lögum nr. 73 frá 28. maí 1969, um Stjórnarráð Íslands, með síðari breytingum, og reglugerð samkvæmt þeim, nr. 3 frá 1. febrúar 2004. Samkvæmt lögunum kveður ráðherra á um skiptingu ráðuneytisins í skrifstofur og deildir eftir verkefnum.

Skipulag ráðuneytisins er í meginatriðum þannig:

Ráðuneytisstjóri stýrir ráðuneytinu undir yfirstjórn ráðherra, sem setur honum erindis­bréf. Ráðherra felur einum skrifstofustjóra ráðuneytisins að vera staðgengill ráðu­neytis­stjóra.

Með ráðherra starfar aðstoðarmaður og eftir atvikum ráðunautar við sérstök verkefni.

Skrifstofu eða sviði ráðuneytis stýrir skrifstofustjóri og deild deildarstjóri undir umsjón ráðuneytisstjóra.

Sérfræðingar starfa innan einstakra skrifstofa eða sviða. Sama gildir um annað starfslið. Skrifstofustjórum eru sett erindisbréf en deildarstjórar og sérfræðingar starfa skv. starfs­lýsingu.

Ráðuneytið starfar sem ein heild og skiptist í þrjár skrifstofur og fjögur svið.

Skrifstofurnar eru:

skrifstofa menningarmála,
skrifstofa menntamála og
skrifstofa vísinda- og háskólamála.

Sviðin eru:
fjármálasvið,
lögfræðisvið,
mats- og greiningarsvið og
upplýsinga- og þjónustusvið.

Ráðuneytisstjóri annast samræmingu á starfsemi skrifstofa og sviða og felur einum starfsmanna hverrar skrifstofu og sviðs staðgöngu fyrir skrifstofustjóra í fjarveru hans. Ráðuneytisstjóri og skrifstofustjórar sjá um miðlun upplýsinga til ráðherra.

Verkefni skiptast milli sviða og skrifstofa á eftirfarandi hátt:

Fjármálasvið fer með málefni er varða fjárlagagerð og framkvæmd fjárlaga, áætl­ana­gerð vegna rekstrar, stofnkostnaðar og tilfærslna sem tengjast aðalskrifstofu ráðu­neytisins og undirstofnunum og fjárlagaliðum sem ráðuneytinu tilheyra. Fjármálasvið hefur umsjón með samningagerð um fjárhagsmálefni og framkvæmdir á vegum ráðu­neytisins. Jafnframt hefur fjármálasvið umsjón með fjárreiðum og rekstri ráðu­neytisins og annast framkvæmd kjarasamninga fyrir þess hönd.

Lögfræðisvið undirbýr ákvarðanir um lögfræðileg málefni og veitir lögfræðilega ráðgjöf innan ráðuneytisins. Lögfræðisvið hefur yfirumsjón með samningu lagafrumvarpa og reglugerða og undirbúningi stjórnsýsluúrskurða, auk þess sem það fer með samskipti við skrifstofu Alþingis. Lögfræðisvið hefur af hálfu ráðuneytisins umsjón með lögformlegri framkvæmd EES-samningsins og alþjóðlegra samninga sem heyra undir ráðuneytið og Ísland er aðili að. Sviðið fer með starfsmannamál stofnana sem heyra undir ráðuneytið eftir því sem við á.

Mats- og greiningarsvið hefur umsjón með framkvæmd gæðamats og eftirliti með gæðastarfi í menntastofnunum á öllum skólastigum eins og mælt er fyrir um í lögum og reglugerðum, þar með talið mati á rannsóknum í háskóla- og rannsóknastofnunum. Mats- og greiningarsvið vinnur jafnframt að þróun aðferða við gæða- og árangursmat vegna starfsemi menningar-, mennta- og vísindamála. Mats- og greiningarsvið, í samstarfi við aðrar skrifstofur og svið, annast öflun og úrvinnslu þeirra gagna og upplýsinga sem við á hverju sinni til að tryggja yfirsýn og undirbyggja almenna stefnumótun í málaflokkum sem ráðuneytið fer með.

Upplýsinga- og þjónustusvið hefur umsjón með upplýsingamiðlun, þar með talið innri og ytri vef, útgáfumálum á vegum ráðuneytisins og skjala- og gagnastjórn. Einnig hefur það umsjón með gæðastjórnun innan ráðuneytisins og þróun upplýsingatæknimála. Undir starfsemi upplýsinga- og þjónustusviðs fellur jafnframt móttaka ráðuneytisins, innkaup og sameiginleg þjónusta. Sviðið fer með starfsmannamál, þ.m.t. endurmenntun og starfsþróun. Það sinnir almennum verkefnum sem miða að því að móta og bæta starfs­umhverfi og starfshætti innan ráðuneytisins.

Skrifstofa menningarmála undirbýr mótun menningarstefnu, hefur umsjón með framkvæmd hennar og annast almenna stjórnsýslu á sviði menningarmála. Þar er m.a. fjallað um málefni lista og menningararfs, íslenska tungu, fjölmiðlamál og mál er varða íþrótta- og æskulýðsstarfsemi. Á verksviði skrifstofunnar eru m.a. samskipti við opin­berar menningarstofnanir og söfn, sveitarfélög, íþróttahreyfingar og önnur félaga­samtök, fyrirtæki og einstaklinga. Skrifstofan hefur umsjón með opinberum stuðningi við listir og menningarlíf.

Skrifstofa menntamála fjallar um málefni leik-, grunn- og framhaldsskólastigs, annast námskrárgerð fyrir þessi skólastig, og sinnir málefnum sem varða símenntun. Skrifstofan stýrir og tekur þátt í að móta almenna stefnu í þessum málaflokkum, hefur umsjón með framkvæmd hennar og annast almenna stjórnsýslu. Skrifstofa menntamála hefur jafn­framt frumkvæði í þróun nýjunga í skólastarfi, þar með talið vegna fjarkennslu og útgáfu námsgagna.

Skrifstofa vísinda og háskóla fjallar um málefni háskólastigsins og annast almenna stjórnsýslu á sviði vísinda, rannsókna- og nýsköpunar. Hún undirbýr mótun stefnu í málefnum háskóla og hefur umsjón með framkvæmd hennar. Á skrifstofunni fer fram undirbúningur og ráðgjöf vegna stefnumótunar á vegum Vísinda- og tækniráðs. Skrifstofa vísinda og háskóla hefur umsjón með starfi Vísinda- og tækniráðs og vísindanefndar og annast samþættingu vísinda, rannsókna og nýsköpunar við mótun og framkvæmd menntastefnu.

Með auglýsingu þessari fellur úr gildi auglýsing nr. 251/2006 um skipulag menntamála­ráðuneytis.

Menntamálaráðuneytinu, 19. febrúar 2007.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.

Guðmundur Árnason.

B deild - Útgáfud.: 7. mars 2007