Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 190/2013

Nr. 190/2013 13. febrúar 2013
REGLUR
um breytingu á reglum nr. 1042/2003 um inntöku nýnema í læknisfræðiskor og sjúkraþjálfunarskor í læknadeild Háskóla Íslands.

1. gr.

Heiti reglnanna, sem settar voru 19. desember 2003, breytist og verður: Reglur um inntöku nýnema í læknisfræði og sjúkraþjálfun í læknadeild Háskóla Íslands.

2. gr.

1. gr. breytist og orðast svo:

Heilbrigðisvísindasvið, fyrir hönd læknadeildar, leggur árlega fyrir háskólaráð rökstuddar tillögur um fjölda stúdenta sem unnt er að taka til náms í læknisfræði og sjúkraþjálfun. Skal beiðni frá heilbrigðisvísindasviði, þar að lútandi, send háskólaráði fyrir lok nóv­ember. Háskólaráð afgreiðir tillögur heilbrigðisvísindasviðs eigi síðar en í janúar.

Ákvörðun um fjölda nýnema, sem teknir eru inn ár hvert, gildir í eitt ár.

3. gr.

Í stað orðanna „framkvæmdastjóra kennslusviðs“ í 1. mgr. 2. gr. kemur: sviðsstjóra kennslu­sviðs.

4. gr.

1. málsl. 2. mgr. 3. gr. orðast svo:

Heimilt er, á grundvelli 2. mgr. 24. gr. laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla, að inn­heimta próftökugjald til að kosta gerð, fyrirlögn og yfirferð inntökuprófa.

5. gr.

5. gr. ásamt fyrirsögn orðast svo:

Framkvæmd og inntak inntökuprófs.

Undirbúningur prófsins fer fram af hálfu læknadeildar með sérstakri ráðgjöf, t.d. frá kennurum framhaldsskóla og Námsmatsstofnun. Prófið tekur tvo daga, með þremur tveggja tíma próflotum hvorn daginn, eða 12 klst. alls.

Í stað hefðbundinna viðtala, sem víða tíðkast við inntöku nýnema í læknadeildir, verður prófið að hluta til mat á almennri þekkingu, yrtri rökfærslu og lesskilningi, nálgun og úrlausn vandamála sem og spurningum um siðfræðileg álitaefni. Allt að tvær tveggja tíma próflotur verða nýttar fyrir þennan hluta er gildir 30% af heild og er um krossapróf og stuttar ritgerðir að ræða. Þessi prófþáttur byggir ekki á ákveðnu námsefni.

Í hinum próflotunum, sem gilda 70% af heildinni, verða lagðar fyrir krossaspurningar og er miðað við u.þ.b. tvær mínútur fyrir hverja spurningu. Þessi hluti miðast við fram­halds­skólanám, svo sem lýst er hér á eftir.

Við gerð inntökuprófsins verður, frá og með 2013, til viðbótar við fyrri viðmið við eldri aðalnámskrá framhaldsskóla (sjá að neðan), höfð til hliðsjónar ný aðalnámskrá fram­halds­skóla frá 2011, sem gilda mun í öllum framhaldsskólum frá og með 2015.

Læknadeild mælir með að nemendur búi yfir þekkingu, leikni og hæfni sem einkennir hæfni­þrep 2-3 fyrir eftirfarandi námsgreinar:

íslensku
ensku
stærðfræði
líffræði
efnafræði

auk þekkingar, leikni og hæfni sem einkennir hæfniþrep 1-2 í eftirfarandi námsgreinum:

eðlisfræði
náttúruvísindi
félagsfræði
saga
sálfræði

Þar til hin nýja aðalnámskrá hefur að fullu tekið gildi verður áfram mælt með ákveðnum áföngum eldri aðalnámskrár framhaldsskóla til undirbúnings fyrir prófið. Einkum er þar miðað við þá áfanga sem eru í kjörnum mála-, náttúrufræði- og félagsfræðibrauta. Áherslur einstakra greina úr ráðlögðum áföngum geta síðar orðið mismunandi frá einu ári til annars.

Þeir áfangar sem lagðir eru til grundvallar fyrir prófið eru eftirfarandi:

  1. Eðlisfræði, EÐL 103, 203
  2. Efnafræði, EFN 103, 203, 303, 313
  3. Enska, ENS 103, 203, 303, 403
  4. Félagsfræði, FÉL 103
  5. Íslenska, ÍSL 102, 202, 212, 303, 403, 503
  6. Náttúruvísindi, NÁT 103, 113, 123
  7. Líffræði, LÍF 103, 203
  8. Saga, SAG 103, 203
  9. Stærðfræði, STÆ 103, 203, 303, 403, 503
  10. Tölfræði, STÆ 313
  11. Sálarfræði, SÁL 103

Þá er læknadeild heimilt að nýta sér spurningar úr „Aðgangsprófi fyrir háskólastig“ (APH) við gerð inntökuprófsins, með aðstoð Námsmatsstofnunar (www.namsmat.is). APH-spurn­ingar miða að því að meta með beinum hætti áunna hæfni nemandans til að hag­nýta þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér, í samræmi við mark­mið aðalnámskrár framhaldsskólanna (aðalnámskrá framhaldsskóla 2011, viðauki 3).

Læknadeild tilnefnir umsjónarmenn með samningu prófsins og til að fara yfir próf­úrlausnir. Forseti heilbrigðisvísindasviðs skipar, að fengnum tillögum læknadeildar, próf­dómara, einn eða fleiri eftir atvikum.

Í þeim hluta þar sem ekki er um að ræða krossapróf (30% hluti) dæma umsjónarmenn annars vegar og prófdómari hins vegar úrlausnir og gefa sjálfstætt einkunn fyrir úrlausnir. Endanleg niðurstaða er meðaltal þeirra einkunna.

Einkunnir verða reiknaðar með tveimur aukastöfum.

Á heimasíðu læknadeildar skal birta sýnishorn af prófspurningum úr hverjum prófhluta fyrir sig til glöggvunar fyrir þá sem hyggjast þreyta prófið.

6. gr.

6. gr. ásamt fyrirsögn orðast svo:

Námsleiðir í læknisfræði og sjúkraþjálfun.

Inntökupróf er sameiginlegt fyrir námsleiðir læknadeildar í læknisfræði og sjúkraþjálfun, en heimilt er að hafa mismunandi vægi, í einstökum prófgreinum, fyrir hvora námsleið enda verði það auglýst sérstaklega. Við innritun í prófið ákveða nemendur fyrir hvora námsleiðina (læknisfræði eða sjúkraþjálfun) prófúrlausn þeirra skuli metin, með því að merkja við þá námsleið sem við á.

Aðrar deildir geta gerst aðilar að prófinu samkvæmt sérstökum samningi milli deildanna.

7. gr.

7. gr. orðast svo:

Reglur þessar um inntöku nýnema í læknadeild, hefur háskólaráð sett með stoð í 3. mgr. 18. gr. laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla, sbr. 9. mgr. 102. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009.

Auk birtingar í B-deild Stjórnartíðinda, sbr. 1. mgr. 28. gr. laga nr. 85/2008, skal birta reglur þessar í kafla læknadeildar í kennsluskrá og á heimasíðu deildarinnar.

Reglur þessar öðlast þegar gildi.

8. gr.

1. málsl. ákvæða til skýringar orðast svo:

Um er að ræða próf til inntöku nýnema í nám í læknisfræði og sjúkraþjálfun í læknadeild.

9. gr.

Reglur þessar, sem háskólaráð Háskóla Íslands hefur samþykkt, að fengnum tillögum heilbrigðisvísindasviðs, eru settar samkvæmt heimild í 3. mgr. 18. gr. laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla, sbr. 9. mgr. 102. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009. Reglurnar öðlast þegar gildi og verður þeim beitt við inntöku nýnema í læknisfræði og sjúkraþjálfun frá og með háskólaárinu 2013-2014.

 

Háskóla Íslands, 13. febrúar 2013.

Kristín Ingólfsdóttir.

Þórður Kristinsson.

B deild - Útgáfud.: 28. febrúar 2013