Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 105/2006

Nr. 105/2006 14. júní 2006
LÖG
um umhverfismat áætlana.
FORSETI ÍSLANDS
gjörir kunnugt: Alþingi hefur fallist á lög þessi og ég staðfest þau með samþykki mínu:
 
1. gr.
Markmið.
    Markmið laga þessara er að stuðla að sjálfbærri þróun og draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum og jafnframt að stuðla að því að við áætlanagerð sé tekið tillit til umhverfissjónarmiða. Það skal gert með umhverfismati tiltekinna skipulags- og framkvæmdaáætlana stjórnvalda sem líklegt er að hafi í för með sér veruleg áhrif á umhverfið.

2. gr.
Skilgreiningar.
    Í lögum þessum er merking eftirtalinna orða og orðasambanda sem hér segir:
    1.    Almenningur: Einn eða fleiri einstaklingar eða lögaðilar, samtök þeirra, félög eða hópar.
    2.    Framkvæmdaáætlun: Áætlun stjórnvalds sem markar stefnu um tilteknar framkvæmdir á ákveðnu svæði.
    3.    Skipulagsáætlun: Áætlun sem gerir grein fyrir markmiðum viðkomandi stjórnvalda og ákvörðunum um framtíðarnotkun lands, hvers konar framkvæmdum er stefnt að og hvernig þær falla að landnotkun á tilteknu svæði og lýsir forsendum þeirra ákvarðana.
    4.    Umhverfi: Samheiti fyrir samfélag, heilbrigði manna, dýr, plöntur, líffræðilega fjölbreytni, jarðveg, jarðmyndanir, vatn, loft, veðurfar, eignir, menningararfleifð, þ.m.t. byggingarsögulegar og fornleifafræðilegar minjar, og landslag og samspil þessara þátta.
    5.    Umhverfisáhrif áætlana: Áhrif af framkvæmd skipulags- og framkvæmdaáætlana á umhverfið.
    6.    Umhverfismat áætlana: Mat á áhrifum áætlana á umhverfið, gerð umhverfisskýrslu, samráð og kynning fyrir almenningi á tillögu að áætlun og umhverfisskýrslu og því hvernig höfð var hliðsjón af framkomnum sjónarmiðum við afgreiðslu áætlunar.
    7.    Umhverfisskýrsla: Sá hluti gagna viðkomandi áætlunar þar sem fram kemur mat á umhverfisáhrifum áætlunarinnar eins og mælt er fyrir um í 6. gr.

3. gr.
Gildissvið.
    Ákvæði laga þessara gilda um umhverfismat þeirra skipulags- og framkvæmdaáætlana og breytinga á þeim sem marka stefnu er varðar leyfisveitingar til framkvæmda sem tilgreindar eru í lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000. Skipulags- og framkvæmdaáætlanir skulu vera undirbúnar og/eða samþykktar af stjórnvöldum og unnar samkvæmt lögum eða ákvörðun ráðherra.
    Lög þessi gilda ekki um skipulags- og framkvæmdaáætlanir sem gerðar eru í þeim eina tilgangi að þjóna öryggi eða vörnum ríkisins eða almannavörnum. Þá gilda lög þessi ekki um fjárhags- og fjárlagaáætlanir.
    Ef vafi leikur á hvort skipulags- eða framkvæmdaáætlun sé háð ákvæðum laganna getur almenningur eða sá sem ber ábyrgð á áætlanagerð óskað eftir að Skipulagsstofnun taki ákvörðun um hvort áætlunin falli undir lög þessi. Skipulagsstofnun skal auglýsa í dagblaði sem gefið er út á landsvísu að ákvörðun liggi fyrir. Heimilt er að kæra slíkar ákvarðanir til umhverfisráðherra. Kærufrestur er einn mánuður frá birtingu tilkynningar um ákvörðun stofnunarinnar.

4. gr.
Yfirstjórn.
    Umhverfisráðherra fer með yfirstjórn mála samkvæmt lögum þessum. Á varnarsvæðum fer utanríkisráðherra með lögsögu samkvæmt lögum um yfirstjórn mála á varnarsvæðum.
    Hlutverk Skipulagsstofnunar samkvæmt lögum þessum er:
    a.    að veita og gefa út leiðbeiningar um umhverfismat áætlana, umfang og nákvæmni upplýsinga í umhverfisskýrslu og taka ákvörðun um hvort áætlun skuli háð ákvæðum laga þessara um umhverfismat áætlana þegar vafi leikur á því,
    b.    að fylgjast með framkvæmd umhverfismats áætlana og taka saman skýrslu um framkvæmdina til umhverfisráðherra á fimm ára fresti með það að markmiði að tryggja gæði umhverfismats.

5. gr.
Ábyrgð og tímasetning.
    Sá sem ábyrgð ber á áætlanagerð er fellur undir lög þessi ber ábyrgð á umhverfismati áætlunarinnar og kostnaði af gerð þess. Hann skal vinna umhverfisskýrslu þar sem gerð er grein fyrir mati á áhrifum áætlunar á umhverfið og annast kynningu og samráð í því skyni.
    Mat á áhrifum áætlunarinnar á umhverfið skal vinna samhliða áætlanagerðinni og liggja fyrir áður en áætlunin er samþykkt af viðkomandi stjórnvaldi eða lögð fyrir Alþingi.

6. gr.
Umhverfisskýrsla.
    Umhverfisskýrsla skal hafa að geyma þær upplýsingar sem sanngjarnt er að krefjast að teknu tilliti til þeirrar þekkingar sem er til staðar, þekktra matsaðferða, efnis og nákvæmni áætlunarinnar og stöðu áætlunarinnar í stigskiptri áætlanagerð. Þá skal í umhverfisskýrslu koma fram að hve miklu leyti betur á við að fjalla um tiltekin umhverfisáhrif á síðari stigum áætlanagerðar til að forðast endurtekningar sama mats.
    Umhverfismat áætlunar skal sett fram í umhverfisskýrslu sem verið getur hluti af greinargerð með áætluninni. Í umhverfisskýrslu skal gera grein fyrir niðurstöðu matsins og forsendum þess. Samráð skal haft við Skipulagsstofnun þegar tekin er ákvörðun um umfang og nákvæmni upplýsinga í umhverfisskýrslunni. Í umhverfisskýrslu skal koma fram:
    a.    yfirlit yfir efni og helstu stefnumið viðkomandi áætlunar og tengsl hennar við aðra áætlanagerð,
    b.    lýsing á þeim þáttum í umhverfinu sem skipta máli varðandi efni og landfræðilegt umfang áætlunarinnar og umfjöllun um líklega þróun þess án framfylgdar viðkomandi áætlunar,
    c.    lýsing á þeim umhverfisþáttum sem líklegt er að verði fyrir verulegum áhrifum af framkvæmd áætlunarinnar,
    d.    lýsing á umhverfisvandamálum sem varða áætlunina, sérstaklega sem varða svæði sem hafa sérstakt náttúruverndargildi,
    e.    upplýsingar um umhverfisverndarmarkmið sem stjórnvöld hafa samþykkt og varða áætlunina og umfjöllun um hvernig tekið hefur verið tillit til þeirra og annarra umhverfissjónarmiða við gerð áætlunarinnar,
    f.     skilgreining, lýsing og mat á líklegum verulegum umhverfisáhrifum af framkvæmd áætlunarinnar og raunhæfra valkosta við áætlunina, að teknu tilliti til markmiða með gerð áætlunarinnar og landfræðilegs umfangs hennar,
    g.    upplýsingar um aðgerðir sem eru fyrirhugaðar til að koma í veg fyrir, draga úr eða vega upp á móti verulegum neikvæðum umhverfisáhrifum af framkvæmd áætlunarinnar,
    h.    yfirlit yfir ástæður þess að kostirnir, sem um er að ræða, voru valdir og lýsing á því hvernig matið fór fram, þ.m.t. um erfiðleika, svo sem tæknilega erfiðleika og skort á upplýsingum eða þekkingu við að taka saman þær upplýsingar sem krafist var,
    i.     hvernig hagað skuli vöktun vegna líklegra verulegra umhverfisáhrifa af framkvæmd áætlunar komi hún eða einstakir þættir hennar til framkvæmda,
    j.     samantekt stafliða a–i.

7. gr.
Kynning áætlunar og umhverfisskýrslu.
    Sá sem ber ábyrgð á umhverfismati áætlunar skal kynna almenningi tillögu að áætluninni ásamt umhverfisskýrslu. Almenningi skal gefinn sex vikna frestur til að kynna sér tillöguna og umhverfisskýrsluna og koma á framfæri athugasemdum sínum varðandi umhverfisáhrif áætlunarinnar, áður en áætlunin er afgreidd af viðkomandi stjórnvaldi eða lögð fyrir Alþingi.
    Heimilt er að víkja frá kynningartíma skv. 1. mgr. ef kveðið er á um annan kynningartíma lögum samkvæmt.
    Sá sem ber ábyrgð á umhverfismati áætlunarinnar skal senda Skipulagsstofnun, Umhverfisstofnun og hlutaðeigandi sveitarfélögum og öðrum aðilum, eftir því sem við á, tillögu að áætluninni og umhverfisskýrslu og gefa þeim kost á að koma á framfæri athugasemdum sínum varðandi umhverfisáhrif áætlunarinnar, áður en áætlunin er afgreidd eða lögð fyrir Alþingi.
    Að lágmarki skal kynning skv. 1. mgr. felast í auglýsingu í Lögbirtingablaði og einu dagblaði sem gefið er út á landsvísu ásamt kynningu á netinu. Tillaga að áætlun og umhverfisskýrsla skulu jafnframt liggja frammi og vera aðgengilegar, auk þess sem gögn sem áætlunin byggist á séu aðgengileg á heimasíðu Skipulagsstofnunar eða framkvæmdaaðila.

8. gr.
Umhverfisáhrif áætlana á önnur ríki.
    Sé talið líklegt að áætlun hafi veruleg umhverfisáhrif á önnur ríki, eða ef annað ríki telur líklegt að það verði fyrir verulegum áhrifum af áætlun sem unnið er að og fer fram á það, skal umhverfisráðherra sjá til þess að kynna viðkomandi ríki tillögu að áætlun og umhverfisskýrslu hennar og leita eftir áliti þess innan hæfilegs frests.

9. gr.
Afgreiðsla áætlunar.
    Sá sem ber ábyrgð á umhverfismati áætlunar skal við afgreiðslu áætlunar hafa hliðsjón af umhverfisskýrslu og þeim athugasemdum sem borist hafa við tillögu að áætlun og umhverfisskýrslu, sem og ef borist hafa athugasemdir frá öðrum ríkjum vegna áhrifa þar.
    Eftir afgreiðslu áætlunar skulu eftirtalin gögn kynnt þeim sem hafa fengið tillögu að áætlun og umhverfisskýrslu til sérstakrar kynningar og skulu þau varðveitt á aðgengilegan hátt:
    a.    Endanleg áætlun.
    b.    Greinargerð um hvernig umhverfissjónarmið hafa verið felld inn í áætlunina og hvernig höfð hefur verið hliðsjón af umhverfisskýrslu og athugasemdum sem bárust á kynningartíma við tillögu og umhverfisskýrslu og rökstuðningur fyrir endanlegri áætlun, í ljósi þeirra valkosta sem skoðaðir voru.
    c.    Hvernig hagað skuli vöktun vegna líklegra verulegra umhverfisáhrifa af framkvæmd áætlunar komi hún eða einstakir þættir hennar til framkvæmda.

10. gr.
Mat á vægi umhverfisáhrifa.
    Þegar metið er hvort líklegt er að umhverfisáhrif skipulags- og framkvæmdaáætlana verði veruleg skal taka mið af eftirfarandi viðmiðum:
    a.    Eiginleikum áætlunar, sérstaklega: 
           1.    hversu nákvæm skilyrði áætlunin setur fyrir tilteknum framkvæmdum, svo sem með stefnumiðum eða skilmálum um staðsetningu framkvæmda, eðli framkvæmda, stærð þeirra eða starfsemi eða um nýtingu tiltekinna auðlinda, 
           2.    hversu nákvæm skilyrði áætlunin setur annarri áætlanagerð sem fylgir í kjölfar hennar, 
           3.    mikilvægi áætlunarinnar við að samþætta umhverfissjónarmið, sérstaklega með tilliti til sjálfbærrar þróunar, 
           4.    umhverfisvandamálum sem varða áætlunina, 
           5.    mikilvægi áætlunarinnar við að framfylgja stefnumörkun um umhverfismál.
    b.    Eiginleikum áhrifa og þeirra svæða sem verða fyrir áhrifum, sérstaklega varðandi: 
           1.    líkur, tíðni og varanleika áhrifa, 
           2.    samlegð og sammögnun áhrifa, 
           3.    hvort áhrifa gætir yfir landamæri, 
           4.    hættur fyrir heilbrigði manna eða umhverfi, svo sem vegna slysa, 
           5.    stærð og landfræðilegt umfang áhrifa, svo sem stærð landsvæðis og fjölda fólks sem líklegt er að verði fyrir áhrifum, 
            6.   gildi og eiginleika þess svæðis sem verður fyrir áhrifum vegna sérstaks náttúrufars eða menningarminja, vegna umhverfis- eða viðmiðunarmarka eða vegna umfangs landnýtingar, 
            7.   áhrif á svæði eða landslag sem viðurkennt er að hafi verndargildi á landsvísu eða alþjóðavettvangi.

11. gr.
Reglugerð og leiðbeiningar.
    Umhverfisráðherra er heimilt að setja í reglugerð, að fenginni umsögn Skipulagsstofnunar, nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara, þar með talið um:
    a.    umfang, efni og framsetningu umhverfisskýrslu,
    b.    kynningu og afgreiðslu umhverfisskýrslu.
    Skipulagsstofnun gefur út leiðbeiningar um umhverfismat áætlana, m.a. um:
    a.    umfang og áherslur umhverfismats áætlana,
    b.    efni og framsetningu umhverfisskýrslu,
    c.    kynningu og samráð við umhverfismat áætlana,
    d.    viðmið við umhverfismat áætlana,
    e.    framsetningu vöktunaráætlunar.

12. gr.
Innleiðing.
    Lög þessi eru sett til innleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/42/EB frá 27. júní 2001, um mat á áhrifum tiltekinna skipulags- og framkvæmdaáætlana á umhverfið, sem vísað er til í lið 2i í XX. viðauka við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 90/2002.

13. gr.
Gildistaka og lagaskil.
    Lög þessi öðlast þegar gildi.
    Ákvæði laga þessara taka einnig til þeirra skipulags- og framkvæmdaáætlana sem hafin er vinna við fyrir gildistöku laga þessara hljóti þær endanlega afgreiðslu eftir 21. júlí 2006.
    Þegar sérstaklega stendur á er umhverfisráðherra heimilt að veita undanþágu frá ákvæði 2. mgr. og skal sú ákvörðun þá kynnt almenningi.

Gjört á Bessastöðum, 14. júní 2006.

Ólafur Ragnar Grímsson.
(L. S.)

Sigríður A. Þórðardóttir.

A deild - Útgáfud.: 29. júní 2006