Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1185/2012

Nr. 1185/2012 21. desember 2012
REGLUGERÐ
um starfrækslu og lofthæfi loftfars í opinberum rekstri.

1. gr.

Markmið.

Markmið þessarar reglugerðar er að tryggja örugga starfrækslu og áframhaldandi lofthæfi loftfara sem skráð eru hér á landi en falla ekki undir reglur Flugöryggisstofnunar Evrópu (EASA) með því að kveða á um sambærilegar kröfur og gerðar eru til annarra loftfara hér landi.

2. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi tekur til starfrækslu loftfars sem skráð er hér á landi, en fellur ekki undir reglur Flugöryggisstofnunar Evrópu (EASA), á meðan það sinnir lög- og tollgæslu, leit og björgun, slökkvistarfi, landhelgisgæslu eða sambærilegu verkefni.

Reglugerð þessi tekur ekki til annarra loftfara sem falla undir II. viðauka fylgiskjals I við reglugerð um gildistöku reglugerða Evrópusambandsins um sameiginlegar reglur um almenningsflug og stofnun Flugöryggisstofnunar Evrópu (EASA).

3. gr.

Lofthæfi og starfræksla.

Flugmálastjórn Íslands gefur út sérstakt lofthæfiskírteini fyrir loftfar sem fellur undir reglu­gerðina og sem uppfyllir að öðru leyti kröfur laga um loftferðir.

Rekstraraðili loftfars sem fellur undir reglugerðina skal hafa útgefið sérstakt flugrekenda­skírteini frá Flugmálastjórn að uppfylltum skilyrðum þar um.

Rekstraraðili loftfars skal hafa viðhaldsstjórn sem samþykkt er af Flugmálastjórn.

Um eftirlit með loftfari og starfsemi sem fellur undir reglugerðina fer skv. ákvæðum laga um loftferðir og laga um Flugmálastjórn Íslands.

4. gr.

Kröfur.

Um lofthæfi og starfrækslu loftfars skv. reglugerð þessari skulu gilda sömu kröfur og gerðar eru til reksturs annarra loftfara skv. lögum um loftferðir og reglugerðum settum skv. þeim að því marki sem slíkt er heimilt sbr. þó frávik eða kröfur sem leiða af viðaukum við reglugerð þessa.

Um flugrekstur og útgáfu flugrekandaskírteinis skv. reglugerð þessari skulu gilda sömu kröfur og gerðar eru til flugrekstrar og skírteinis skv. ákvæðum laga um loftferðir og reglugerða settra samkvæmt þeim að því marki sem heimilt er sbr. þó frávik eða kröfur sem leiða af við­aukum við reglugerð þessa.

Um skírteini einstaklinga, flugliða og flugvéltækna skv. reglugerð þessari skulu gilda sömu kröfur og gerðar eru skv. lögum um loftferðir og reglugerðum settum skv. þeim að því marki sem slíkt er heimilt sbr. þó frávik eða kröfur sem leiða af viðauka við reglu­gerð þessa.

Þar sem í texta reglugerða skv. 1.-3. mgr. er í innleiddum reglum tilvísun í „flutningaflug“ skal lesa hana sem tilvísun í „loftfar í opinberum rekstri“. Ef tilvísun er til „aðildarríkis“ getur verið að hún eigi ekki við eða eigi við um Flugmálastjórn Íslands. Ef vafi leikur á skal ráðfæra sig við Flugmálastjórn Íslands. Ef tilvísun er til „lögbærs yfirvalds“ er átt við Flugmálastjórn Íslands.

Almennt skal styðjast við skýringarefni (AMC/GM) ákvarðana Flugöryggisstofnunar Evrópu (EASA) við skýringu og túlkun ákvæða innleiddra gerða sem leiða af 1.-3. mgr. eins og við á. Þar sem í texta skýringarefnis er vísað til ,,Agency“ eða „Competent Authority“ skal það lesast sem Flugmálastjórn Íslands.

5. gr.

Viðauki.

Viðaukar við reglugerð þessa eru hluti hennar. Í viðaukunum er kveðið á um þau ákvæði sem ekki taka til starfsemi skv. reglugerðinni og tilgreint hvað koma skuli í stað þeirra ákvæða.

6. gr.

Viðurlög.

Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða viðurlögum í samræmi við 141. gr. laga nr. 60/1998 um loftferðir.

7. gr.

Gildistaka o.fl.

Reglugerð þessi er sett með heimild í 4. mgr. 6. gr., 7. mgr. 28. gr., 73. gr., 85. gr. a, og 145. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998 með síðari breytingum og öðlast þegar gildi.

Innanríkisráðuneytinu, 21. desember 2012.

Ögmundur Jónasson.

Ragnhildur Hjaltadóttir.

VIÐAUKAR
(sjá PDF-skjal)

B deild - Útgáfud.: 27. desember 2012