Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1267/2007

Nr. 1267/2007 21. desember 2007
STARFSREGLUR
samráðsnefnda heilbrigðisumdæma.

1. gr.

Gildissvið.

Starfsreglur þessar gilda fyrir samráðsnefndir heilbrigðisumdæma, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 785/2007, um heilbrigðisumdæmi.

2. gr.

Hlutverk.

Hlutverk samráðsnefnda heilbrigðisumdæma er að vera samráðsvettvangur heilbrigðis­stofnana í hverju heilbrigðisumdæmi um skipulag almennrar heilbrigðisþjónustu í um­dæminu innan ramma laga um heilbrigðisþjónustu og reglugerða sem settar eru á grund­velli þeirra laga. Innan samráðsnefnda heilbrigðisumdæma skal m.a. hafa samráð um:

  1. skipulag heilsugæslu í umdæminu með það að markmiði að tryggja öllum íbúum aðgengi að heilsugæslu í heimabyggð og að heilsugæslan sé að jafnaði fyrsti viðkomustaður sjúklinga;
  2. skipulag hjúkrunarþjónustu í heimahúsum, hjúkrunarrýmum stofnana og á hjúkr­unar­heimilum með það að markmiði að allir íbúar í umdæminu eigi kost á full­nægjandi hjúkrunarþjónustu í samræmi við þarfir sínar;
  3. skipulag almennrar sjúkrahúsþjónustu í umdæminu.

3. gr.

Skipun samráðsnefnda.

Forstjórar eða forsvarsmenn heilbrigðisstofnana sem veita almenna heilbrigðisþjónustu í umdæmi og reknar eru af ríkinu, sveitarfélagi eða samkvæmt samningi við ríkið eru sjálfskipaðir í samráðsnefnd viðkomandi umdæmis.

4. gr.

Boðun fyrsta fundar og kosning formanns.

Forstjóri stærstu heilbrigðisstofnunar umdæmis boðar til fyrsta fundar samráðsnefndar í hverju umdæmi. Á fundinum skal nefndin kjósa sér formann og varaformann. Vara­formaður sinnir skyldum formanns í forföllum hans. Kjörtímabil formanns og vara­formanns er fjögur ár.

5. gr.

Fundir og fundarboðun.

Fundir skulu haldnir eftir þörfum en þó eigi sjaldnar en tvisvar á ári. Formaður boðar til fundar. Skylt er að boða til fundar ef þriðjungur nefndarmanna fer fram á það.

Sé nefndarmaður forfallaður skal hann senda varamann í sinn stað.

Formaður ákveður dagskrá funda í samráði við aðra nefndarmenn eftir atvikum. Skylt er að taka málefni á dagskrá hafi nefndarmaður óskað eftir því sérstaklega.

Samráðsnefnd getur kallað faglega yfirstjórnendur heilbrigðisstofnana á sinn fund þegar þörf er á.

Samráðsnefnd skal kalla til fulltrúa hjúkrunarheimila þegar fjallað er um málefni þeirra.

Samráðsnefnd skal, eftir því sem tilefni gefst til og ástæða þykir, leitast við að hafa sam­ráð við sveitarfélög í heilbrigðisumdæmi við skipulagningu heilbrigðisþjónustu í umdæminu.

6. gr.

Samskipti við ráðuneytið, ákvarðanataka og úrlausn ágreiningsmála.

Samráðsnefndir skulu eftir atvikum og í samræmi við lög um heilbrigðisþjónustu bera mál undir ráðuneytið áður en ákvarðanir eru teknar sem varða skipulag almennrar heilbrigðisþjónustu í umdæmi. Samráðsnefndir geta óskað eftir því að einstök mál séu rædd á fundi með ráðuneytinu. Óski ráðuneytið eftir fundi með samráðsnefnd heilbrigðis­umdæmis skal formaður nefndarinnar leitast við að verða við því eins fljótt og unnt er.

Ákvarðanir sem varða skipulag almennrar heilbrigðisþjónustu í heilbrigðisumdæmi eru einungis bindandi gagnvart heilbrigðisstofnunum í umdæmi ef allir nefndarmenn, eða varamenn í umboði þeirra, standa að henni enda rúmast ákvörðunin innan þeirra valdheimilda sem stofnanirnar hafa samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu og öðrum lögum eftir atvikum. Ráðherra hefur að öðru leyti úrskurðarvald um skipulag almennrar heilbrigðisþjónustu í heilbrigðisumdæmum innan ramma laga um heilbrigðisþjónustu.

Komi upp ágreiningur milli heilbrigðisstofnana um skipulag almennrar heilbrigðisþjónustu í heilbrigðisumdæmi skal leitast við að leysa hann á vettvangi samráðsnefndar ef við á. Samráðsnefnd eða einstakir nefndarmenn eftir atvikum geta ákveðið að bera ágreinings­efni undir ráðherra til úrlausnar.

7. gr.

Skýrslugjöf til ráðherra.

Fyrir lok mars ár hvert skal samráðsnefnd heilbrigðisumdæmis gefa ráðherra skriflega skýrslu um meginatriði í skipulagi almennrar heilbrigðisþjónustu í umdæminu og störf nefndarinnar á liðnu ári.

8. gr.

Gildistaka.

Starfsreglur þessar eru settar með stoð í 6. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 785/2007, um heilbrigðisumdæmi, og taka gildi 1. janúar 2008. Ákvæði 7. gr. um skýrslugjöf til ráðherra kemur til framkvæmda á árinu 2009.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, 21. desember 2007.

Guðlaugur Þór Þórðarson.

Berglind Ásgeirsdóttir.

B deild - Útgáfud.: 28. desember 2007