Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 215/2011

Nr. 215/2011 15. febrúar 2011
REGLUR
um breytingu á reglum nr. 319/2009 um inntökuskilyrði í grunnnám við Háskóla Íslands.

1. gr.

Við 10. gr. bætist nýr málsliður svohljóðandi:

Lokapróf frá frumgreinadeild Keilis (háskólabrú) nægir til inngöngu í lyfjafræðideild, enda hafi viðkomandi stundað nám við verk- og raunvísindadeild háskólabrúar.

2. gr.

1. mgr. 11. gr. orðast svo:

Til að hefja nám við læknadeild skal stúdent hafa lokið stúdentsprófi eða sambærilegu prófi frá erlendum skóla. Nemendur sem lokið hafa prófi af frumgreinasviði Háskólans í Reykjavík (áður Tækniháskóla Íslands og Tækniskóla Íslands) eða frumgreinadeild Keilis (háskólabrú) teljast uppfylla inntökuskilyrði deildarinnar vegna náms í geislafræði og lífeindafræði, enda hafi viðkomandi stundað nám við verk- og raunvísindadeild háskóla­brúar.

3. gr.

12. gr. „Matvæla- og næringarfræðideild“ orðast svo:

Til að hefja nám í matvælafræði og næringarfræði við matvæla- og næringarfræðideild skal stúdent hafa lokið stúdentsprófi eða öðru sambærilegu prófi. Æskilegur undir­búningur er stúdentspróf af náttúrufræðibraut. Nemendur sem lokið hafa prófi af frumgreina­sviði Háskólans í Reykjavík (áður Tækniháskóla Íslands og Tækniskóla Íslands) teljast uppfylla inntökuskilyrði deildarinnar. Lokapróf frá frumgreinadeild Keilis (háskóla­brú) telst sambærilegt stúdentsprófi, enda hafi viðkomandi stundað nám við verk- og raunvísindadeild háskólabrúar.

Stúdentar eru teknir inn á 2. misseri náms í næringarfræði á grundvelli samkeppnisprófs sem haldið er í lok 1. misseris í samræmi við reglur háskólans um samkeppnispróf.

4. gr.

Við 13. gr. bætist nýr málsliður svohljóðandi:

Lokapróf frá frumgreinadeild Keilis (háskólabrú) telst sambærilegt stúdentsprófi.

5. gr.

Við 21. gr. bætast tveir nýir málsliðir svohljóðandi:

Lokapróf frá frumgreinadeild Keilis (háskólabrú) telst sambærilegt stúdentsprófi. Ef um er að ræða próf frá erlendum skóla er gerð krafa um grundvallarfærni í íslensku þar sem kennslan fer fram á því máli.

6. gr.

22. gr. ásamt fyrirsögn orðast svo:

Almenn ákvæði.

Allir, sem lokið hafa þriggja ára háskólanámi til fyrstu háskólagráðu í hvaða grein sem er, uppfylla skilyrði til að innritast í deildir verkfræði- og náttúruvísindasviðs. Ef um er að ræða próf frá erlendum skóla er gerð krafa um að umsækjandi skilji ritaða og talaða íslensku.

7. gr.

23. gr. ásamt fyrirsögn orðast svo:

Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild.

Til að hefja nám við deildina skal umsækjandi hafa lokið stúdentsprófi eða sambærilegu prófi. Fjórða stigs próf frá vélstjórnarbraut Tækniskólans (áður Vélskóla Íslands), próf frá frumgreinasviði Háskólans í Reykjavík (áður Tækniháskóla Íslands og Tækniskóla Íslands) og lokapróf frá verk- og raunvísindadeild frumgreinadeildar Keilis (háskólabrú) teljast sambærileg stúdentsprófi. Ef um er að ræða próf frá erlendum skóla er gerð krafa um að umsækjandi skilji ritaða og talaða íslensku.

Æskilegur undirbúningur fyrir nám í verkfræði: Sterklega er mælt með að minnsta kosti 24 einingum (40 fein) í stærðfræði og 30 einingum (50 fein) í náttúrufræðigreinum (þar af minnst 6 einingum (10 fein) í eðlisfræði).

Æskilegur undirbúningur fyrir nám í tölvunarfræði: Sterklega er mælt með að minnsta kosti 21 einingu (35 fein) í stærðfræði.

8. gr.

Á eftir 23. gr. reglnanna koma fimm nýjar greinar, ásamt fyrirsögn, og breytist töluröð annarra greina samkvæmt því. Hinar nýju greinar orðast svo, ásamt fyrirsögn:

a. (24. gr.)

Jarðvísindadeild.

Til að hefja nám við deildina skal umsækjandi hafa lokið stúdentsprófi eða sambærilegu prófi. Próf frá frumgreinasviði Háskólans í Reykjavík (áður Tækniháskóla Íslands og Tækniskóla Íslands) og lokapróf frá verk- og raunvísindadeild frumgreinadeildar Keilis (háskólabrú) teljast sambærileg stúdentsprófi. Ef um er að ræða próf frá erlendum skóla er gerð krafa um að umsækjandi skilji ritaða og talaða íslensku.

Æskilegur undirbúningur fyrir nám í jarðfræði: 21 eining (35 fein) í stærðfræði og 30 einingar (50 fein) í náttúrufræðigreinum, þar af minnst 6 einingar (10 fein) í eðlisfræði, 6 einingar (10 fein) í efnafræði og 6 einingar (10 fein) í jarðfræði.

Æskilegur undirbúningur fyrir nám í jarðeðlisfræði: Sterklega er mælt með að minnsta kosti 24 einingum (40 fein) í stærðfræði og 30 einingum (50 fein) í náttúrufræðigreinum, þar af minnst 6 einingum (10 fein) í eðlisfræði, 6 einingum (10 fein) í efnafræði og 6 einingum (10 fein) í jarðfræði.

b. (25. gr.)

Líf- og umhverfisvísindadeild.

Til að hefja nám við deildina skal umsækjandi hafa lokið stúdentsprófi eða sambærilegu prófi. Próf frá frumgreinasviði Háskólans í Reykjavík (áður Tækniháskóla Íslands og Tækniskóla Íslands) og lokapróf frá frumgreinadeild Keilis (háskólabrú) teljast sambærileg stúdentsprófi. Ef um er að ræða próf frá erlendum skóla er gerð krafa um að umsækjandi skilji ritaða og talaða íslensku.

Æskilegur undirbúningur fyrir nám í líffræði: 21 eining (35 fein) í stærðfræði og 30 einingar (50 fein) í náttúrufræðigreinum, þar af a.m.k. 6 einingar (10 fein) í eðlisfræði, 6 einingar (10 fein) í efnafræði og 6 einingar (10 fein) í líffræði. Sé lokapróf umsækjanda frá frumgreinadeild Keilis (háskólabrú) skal það vera frá verk- og raunvísindadeild frumgreinadeildar Keilis.

c. (26. gr.)

Rafmagns- og tölvuverkfræðideild.

Til að hefja nám við deildina skal umsækjandi hafa lokið stúdentsprófi eða sambærilegu prófi. Fjórða stigs próf frá vélstjórnarbraut Tækniskólans (áður Vélskóla Íslands), próf frá frumgreinasviði Háskólans í Reykjavík (áður Tækniháskóla Íslands og Tækniskóla Íslands) og lokapróf frá verk- og raunvísindadeild frumgreinadeildar Keilis (háskólabrú) teljast sambærileg stúdentsprófi. Ef um er að ræða próf frá erlendum skóla er gerð krafa um að umsækjandi skilji ritaða og talaða íslensku.

Æskilegur undirbúningur fyrir nám í verkfræði: Sterklega er mælt með að minnsta kosti 24 einingum (40 fein) í stærðfræði og 30 einingum (50 fein) í náttúrufræðigreinum (þar af minnst 6 einingum (10 fein) í eðlisfræði).

d. (27. gr.)

Raunvísindadeild.

Til að hefja nám við deildina skal umsækjandi hafa lokið stúdentsprófi eða sambærilegu prófi sem inniheldur a.m.k. 21 einingu (35 fein) í stærðfræði og 30 einingar (50 fein) í náttúrufræðigreinum, þar af minnst 6 einingar (10 fein) í eðlisfræði, 6 einingar (10 fein) í efnafræði og 6 einingar (10 fein) í líffræði. Próf frá frumgreinasviði Háskólans í Reykjavík (áður Tækniháskóla Íslands og Tækniskóla Íslands) og lokapróf frá verk- og raunvís­inda­deild frumgreinadeildar Keilis (háskólabrú) teljast sambærileg stúdentsprófi. Ef um er að ræða próf frá erlendum skóla er gerð krafa um að umsækjandi skilji ritaða og talaða íslensku.

Fyrir nám í eðlisfræði, efnafræði (kjörsvið EG) og stærðfræði er sterklega mælt með að minnsta kosti 24 einingum (40 fein) í stærðfræði.

e. (28. gr.)

Umhverfis- og byggingarverkfræðideild.

Til að hefja nám við deildina skal umsækjandi hafa lokið stúdentsprófi eða sambærilegu prófi. Fjórða stigs próf frá vélstjórnarbraut Tækniskólans (áður Vélskóla Íslands), próf frá frumgreinasviði Háskólans í Reykjavík (áður Tækniháskóla Íslands og Tækniskóla Íslands) og lokapróf frá verk- og raunvísindadeild frumgreinadeildar Keilis (háskólabrú) teljast sambærileg stúdentsprófi. Ef um er að ræða próf frá erlendum skóla er gerð krafa um að umsækjandi skilji ritaða og talaða íslensku.

Æskilegur undirbúningur fyrir nám í verkfræði: Sterklega er mælt með að minnsta kosti 24 einingum (40 fein) í stærðfræði og 30 einingum (50 fein) í náttúrufræðigreinum (þar af minnst 6 einingum (10 fein) í eðlisfræði).

9. gr.

Reglur þessar, sem háskólaráð Háskóla Íslands hefur samþykkt, að fengnum tillögum fræðasviða og deilda háskólans, eru settar samkvæmt heimild í 18. gr. laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla. Reglurnar taka þegar gildi og verður þeim beitt við inntöku stúdenta frá og með háskólaárinu 2011-2012.

Háskóla Íslands, 15. febrúar 2011.

Kristín Ingólfsdóttir.

Þórður Kristinsson.

B deild - Útgáfud.: 7. mars 2011