Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 390/2006

Nr. 390/2006 12. maí 2006
REGLUR
um veitingu leyfa til fornleifarannsókna.

1. gr.

Fornleifavernd ríkisins fjallar um og veitir leyfi til allra staðbundinna og tímabundinna fornleifarannsókna.

2. gr.

Þeir, sem hug hafa á að stunda fornleifarannsóknir, skulu sækja um leyfi til Fornleifaverndar ríkisins. Stofnunin fjallar um leyfisumsóknir, veitir leyfi eða hafnar umsókn. Fornleifavernd ríkisins áskilur sér rétt til að fallast á umsókn að öllu leyti eða að hluta. Eftir atvikum getur Fornleifavernd ríkisins fallist á umsókn með skilyrðum.

3. gr.

Umsókn skal skila inn á þar til gerðum eyðublöðum sem fást hjá Fornleifavernd ríkisins, minnst 14 dögum áður en ætlað er að rannsókn hefjist á vettvangi, en óheimilt er að hefja framkvæmdir áður en leyfi er fengið. Í umsóknunum skal eftirfarandi koma fram:

  1. Nafn umsækjanda (forstöðumanns rannsókna).
  2. Heimilisfang.
  3. Staða og menntun (æviatriði, menntun, prófgráður og ritaskrá, ljósrit prófskírteina skulu fylgja).
  4. Stofnun.
  5. Aðrir fornleifafræðingar, sem starfa munu við rannsóknina á vettvangi (æviatriði og menntun), aðrir sérfræðingar, sem vinna að rannsókninni (nöfn og núverandi vinnustaður) og fyrirhugaður fjöldi annarra starfsmanna.
  6. Rannsóknarstaður (bæjarland, sveitarfélag, landshluti). Lýsa skal rannsóknarstað sem nákvæmast, legu hans og stærð. Tilgreina skal landeiganda og ábúanda (leigutaka) sé því að skipta. Sé land í einkaeign skal skriflegt leyfi eiganda og umráðamanns, ef við á, vera fengið nema ákvæði 2. mgr. 10. gr. þjóðminjalaga nr. 107/2001 eigi við.
  7. Tilgangur rannsókna.
  8. Rannsóknaráætlun. Lýsa skal aðgerðum og skráningu. Gerð skal grein fyrir tímaáætlun vettvangsrannsókna, áætluðum upphafs- og lokadegi og tímaáætlun annarra úrvinnslurannsókna.
  9. Forvarsla forngripa. Tilgreina skal forverði, sem taka munu að sér forvörslu forngripa sem kunna að finnast, nöfn þeirra, heimilisföng og símanúmer.
  10. Fjármögnun rannsókna. Tilgreina skal þá, sem leggja fram fé til rannsóknanna: vettvangsrannsókna, forvörslu og annarra úrvinnslurannsókna. Auk nafna þeirra, sem fjármagna, skulu fylgja heimilisföng þeirra og símanúmer. Fylgja skal ítarleg kostnaðaráætlun rannsóknanna.
  11. Sé sótt um leyfi til framhalds fyrri rannsókna, skal fylgja umsókninni ítarleg skýrsla um stöðu rannsókna og jafnframt breytt rannsóknar- og kostnaðaráætlun, ef nauðsyn krefur vegna niðurstöðu þeirra rannsókna sem þegar hafa farið fram. Þá skal fylgja áætlun um útgáfu.

4. gr.

Skilmálar leyfis til fornleifarannsókna eru eftirfarandi:

Leyfi til fornleifarannsókna er veitt af Fornleifavernd ríkisins í samræmi við ákvæði þjóðminjalaga nr. 107/2001. Fornleifaverndin getur sett skilyrði um forkönnun með tilraunagreftri.

Leyfi til fornleifarannsókna er ekki framseljanlegt og skulu rannsóknirnar fara fram undir beinni stjórn og eftirliti fornleifafræðings þess sem það er veitt, á vettvangi, enda er hann persónulega ábyrgur fyrir þeim.

Fornleifavernd ríkisins áskilur sér rétt til að líta til þekkingar og reynslu við veitingu leyfa.

Leyfi til fornleifarannsókna gildir í eitt ár frá útgáfudegi.

Vettvangsrannsóknir utanhúss skulu fara fram við bestu mögulegar aðstæður, svo að menningarverðmæti liggi ekki að þarflausu undir skemmdum vegna veðurs. Æskilegur tími utanhússrannsókna er frá júníbyrjun til septemberloka.

Sýna skal starfsmönnum Fornleifaverndar ríkisins öll gögn og gripi rannsóknar æski þeir þess við eftirlit.

Við vettvangsrannsóknir skal fara fram ítarleg skráning og ljósmyndun á jarðlögum, mannvistarlögum og forngripum, sem í ljós koma. Hvert atriði skal hljóta auðkenni eða númer við skráningu. Gera skal forngripaskrá yfir alla fundna forngripi á vettvangi, geta fundartíma, nákvæms fundarstaðar og lýsa helstu einkennum hvers forngrips.

Öll frumgögn vettvangsrannsókna, svo sem dagbækur, skrár, ljósmyndir og teikningar í geymsluhæfu formi, skal afhenda Fornleifavernd ríkisins til varðveislu, með skrá yfir fjölda þeirra. Leyfishafi heldur afritum hjá sér. Alla fundna forngripi skal afhenda forvarða og skráða ásamt forngripaskrá. Gögn og gripi ásamt stuttri yfirlitsskýrslu um gang rannsóknanna á leyfistímanum skal afhenda innan árs. Ef forvarsla gripa tekur lengri tíma skal gerð grein fyrir því við afhendingu annars efnis og afhenda gripina þegar forvörslu þeirra lýkur.

Gripir og sýni skulu afhent Fornleifavernd ríkisins sem felur þjóðminjaverði varðveislu þeirra, sbr. 18. gr. laga nr. 107/2001.

Að lokinni vettvangsrannsókn hvers árs skal skila inn til Fornleifaverndar eyðublaði þar sem fram koma grunnupplýsingar um gang rannsóknarinnar það árið. Fornleifavernd ríkisins mun gefa út yfirlit yfir fornleifarannsóknir hvers árs sem byggir á þessum upplýsingum.

Endurnýjun rannsóknarleyfis er háð afhendingu gagna og gripa frá fyrra leyfistímabili og því að skilyrði þau sem fjallað er um í reglum þessum séu uppfyllt. Þó skal tekið tillit til þarfa rannsakenda á gögnum og gripum vegna samhengis og endanlegrar úrvinnslu rannsóknar.

Leyfishafi skal birta niðurstöður rannsóknar innan fimm ára frá afhendingu gagna og gripa. Þó er heimilt að framlengja ofangreindan frest ef fullnægjandi ástæður eru fyrir hendi að mati Fornleifaverndar ríkisins. Senda skal Fornleifavernd ríkisins endurgjaldslaust tvö eintök af öllu efni, svo sem bókum og greinum í blöðum og tímaritum, sem leyfishafi birtir um rannsóknina.

Leyfishafi skal eiga fyrsta útgáfurétt um gögn og gripi í fimm ár frá lokum vettvangsrannsóknar. Sýningar um rannsóknina skulu ekki settar upp innan þess tíma án samþykkis leyfishafa rannsóknarleyfis. Eftir þann tíma skal efnið vera aðgengilegt öðrum vísinda- og fræðimönnum til rannsókna og útgáfu.

Leyfishafi skuldbindur sig til að ganga vel frá rannsóknarstað milli ára og að rannsókn lokinni. Skal frágangur miða að því að varðveita sem best það, sem eftir er af minjum og að minjastaðurinn sé snyrtilegur í hvívetna. Rannsóknarstaður er í umsjón Fornleifaverndar ríkisins sbr. lög nr. 107/2001 og skulu allar ráðstafanir varðandi rannsóknarstaðinn að lokinni rannsókn gerðar í samráði við Fornleifavernd ríkisins.

Vakin er athygli á 18. gr. þjóðminjalaga nr. 107/2001 um að allir forngripir (þ.e. lausar fornminjar, einstakir hlutir, 100 ára og eldri) eru eign íslenska ríkisins. Ennfremur á 2. gr. og 4. gr. laga um flutning menningarverðmæta úr landi og um skil menningarverðmæta til annarra landa nr. 105/2001 um að eigi megi flyta úr landi muni og gripi, sem eru eldri en 100 ára, nema með leyfi safnaráðs.

Fari leyfishafi ekki að greindum skilmálum eða ákvæðum þjóðminjalaga að mati Fornleifaverndar ríkisins áskilur stofnunin sér rétt til að afturkalla leyfið þegar í stað og krefjast afhendingar gagna og gripa til Fornleifaverndar ríkisins. Það sama gildir ef í ljós kemur að ekki er faglega staðið að rannsóknunum að mati eftirlitsmanna Fornleifaverndar ríkisins og vinnubrögð eru slík að hætta er á að heimildagildi fornleifanna glatist.

5. gr.

Reglur þessar eru settar af Fornleifavernd ríkisins með vísan til 15. gr. þjóðminjalaga nr. 107/2001 og öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi reglur nr. 292/2002.

Fornleifavernd ríkisins, 12. maí 2006.

Kristín Huld Sigurðardóttir

forstöðumaður.

B deild - Útgáfud.: 15. maí 2006