1. gr. Markmið. Markmið með fyrirmælum þessum er að bæta öryggi við köfun og yfirborðsköfun í þjóðgarðinum á Þingvöllum. Til að ná því markmiði eru settar tilteknar reglur um starfsemi þeirra sem bjóða upp á ferðaþjónustu í köfun og yfirborðsköfun í þjóðgarðinum sem og þeirra sem kafa þar á eigin vegum. Þingvallanefnd ákveður á hverjum tíma hvar köfun og yfirborðsköfun er heimil í þjóðgarðinum. 2. gr. Almenn ákvæði. Köfun og yfirborðsköfun er ætíð á eigin ábyrgð. Óheimilt er að kafa einn síns liðs í Silfru og skulu kafarar kynna sér vel aðstæður og þær reglur sem gilda um köfun í Silfru og almennar umgengnisreglur í þjóðgarðinum. 3. gr. Skilgreiningar. Með hugtakinu yfirborðsköfun er átt við allar aðrar athafnir manns sem fara fram á yfirborði og/eða undir yfirborði vatns óháð búnaði sem fellur ekki undir 2. gr. laga um köfun nr. 31/1996. 4. gr. Almenn fyrirmæli. Ferðaþjónustufyrirtæki sem selja ferðir í köfun í þjóðgarðinum á Þingvöllum skulu uppfylla öll opinber skilyrði fyrir rekstri ferðaþjónustu og hafa nauðsynleg leyfi og tryggingar í gildi fyrir slíkri ferðaþjónustu. Ferðaþjónustufyrirtæki skulu hafa öryggis- og viðbragðsáætlun, sem samþykkt er af Siglingastofnun Íslands. Kafarar í Silfru skulu á hverjum tíma ekki vera fleiri en 8 að grynningum skilgreindum á korti í fylgiskjali. Gestir með hverjum leiðsögumanni skulu ekki vera fleiri en 4 hverju sinni við köfun í Silfru. Gestir með hverjum leiðsögumanni skulu ekki vera fleiri en 8 hverju sinni við yfirborðsköfun í Silfru. Ekki er heimilt að kafa dýpra en 18 metra í Silfru. Köfun í hella, ranghala og göng er bönnuð. Þeir sem kafa á eigin vegum þurfa að vera með alþjóðlega viðurkennd réttindi sem áhugakafarar og framvísa skírteini þar um, sbr. staðal EN 14153-2/ISO 24801-2 (Autonomous Diver - Áhugakafari). 5. gr. Öryggiskröfur og búnaður. Leiðsögumaður ferðaþjónustufyrirtækis skal hafa þjálfun sem uppfyllir staðalinn EN 14153-3/ISO 24801-3 (Dive Leader – Fararstjóri í áhugaköfun/köfun). - Hæfniskröfur fyrir áhugakafara á 3. stigi með sjálfbyrgan köfunarbúnað (Scuba) eða hærri gráðu til að mega leiðsegja í köfunarferðum (köfun og yfirborðsköfun) í þjóðgarðinum á Þingvöllum og vera a.m.k. handhafi F-köfunarskírteins skv. reglugerð um köfun nr. 535/2001, með síðari breytingu nr. 762/2012. Leiðsögumenn hópa í köfun og yfirborðsköfun á vegum ferðaþjónustufyrirtækis í þjóðgarðinum á Þingvöllum verða að hafa náð 20 ára aldri. Leiðsögumenn skulu vera auðkenndir. Ef ferðaþjónustufyrirtæki fer á sama tíma með hóp í köfun og yfirborðsköfun skal a.m.k. einn leiðsögumaður fylgja hvorum hópi í vatninu enda þótt hámarksfjölda gesta með hverjum leiðsögumanni, sbr. hér að framan, sé ekki náð. Ekki má synda fyrir ofan kafara við köfun. Gestir í yfirborðsköfun og köfun skulu vera í heilgalla, þurrdragt, blautdragt, með hettu, hanska, fit og með annan viðeigandi búnað. Tryggja skal sýnileika gesta í yfirborðsköfun. Leiðsögumenn í yfirborðsköfun og köfun skulu vera í þurrdragt eða blautdragt með fit og annan viðeigandi búnað. Köfunarbúnaður skal uppfylla kröfur íslenskra laga og reglugerða þar að lútandi. Köfunarbúnaður skal vera viðurkenndur til notkunar í köldu vatni. Ferðaþjónustufyrirtæki skulu meta reynslu og þekkingu kafara til köfunar í þurrbúningi. Ferðaþjónustutæki skal ganga úr skugga um að þeir sem kafa séu með alþjóðlega viðurkennd réttindi sem áhugakafarar og framvísi skírteini þar um, sbr. staðal EN 14153-2/ISO 24801-2 (Autonomous Diver – Áhugakafari). Leiðsögumenn ferðaþjónustufyrirtækja skulu hafa lokið viðurkenndu námskeiði í vettvangshjálp. Öll ferðaþjónustufyrirtæki skulu hafa súrefnisgjafabúnað og almennan skyndihjálparútbúnað sem hluta af búnaði sínum á staðnum bæði í köfun og yfirborðsköfun. 6. gr. Öryggisbúnaður. Þeir sem bjóða upp á ferðaþjónustu í köfun í þjóðgarðinum skulu hafa eftirfarandi öryggisbúnað tiltækan: Súrefnisgjafartæki. Tækið skal uppfylla þau skilyrði að hægt sé að gefa tveim sjúklingum súrefni í 60 mínútur, miðað við 100% súrefnisgjöf á 15 l/min flæði, (15 l/min x 60 mínútur x 2 kafarar) samtals 1800 lítrar eða 1800/200 bar = 9 lítra hylki. Rýmd súrefnisloftlindarinnar miðast við viðbragðstíma almennrar neyðarþjónustu til að komast til Þingavalla, 50 mínútur. Öryggisskæri. Hver leiðsögumaður skal hafa á sér öryggisskæri (EMT EMS Style All-Purpose Scissors / EMS Safety shears). Leitarbúnað. Á hverjum tími skal skipuleggjandi köfunarferðar hafa til reiðu búnað til að geta hafið tafarlausa leit neðan yfirborðs. Búnaðurinn er að lágmarki: Auka loftlind til köfunar. Rýmd loftlindarinnar skal tryggja nægt loftmagn til 20 mínútna köfunar á hámarksdýpi köfunarsvæðisins og skal miða við 45 lítra loftnotkun á mínútu á yfirborði. Kefli með línu (Dive reel) með 50 metra línu. Neðansjávarljós. 7. gr. Eftirlit. Um eftirlit með fyrirmælum þessum fer eftir 6. gr. laga um köfun nr. 31/1996. 8. gr. Gildistaka. Fyrirmæli þessi eru sett samkvæmt 4. gr. reglugerðar um köfun nr. 535/2001 og taka gildi 1. mars 2013. Siglingastofnun Íslands, 12. febrúar 2013. Hermann Guðjónsson siglingamálastjóri. Helgi Jóhannesson. Fylgiskjal. (sjá PDF-skjal) |