1. gr. Markmið. Markmið þessarar reglugerðar er að tryggja öryggi umferðar með því að setja nánari ákvæði um girðingar meðfram vegum, viðhald þeirra og greiðslu stofn- og viðhaldskostnaðar af þeim. 2. gr. Uppsetning girðinga. Veghaldari skal girða báðum megin vegar sem lagður er gegnum tún, ræktarland, engjar eða girt beitiland eða leggja til ristarhlið ásamt grindarhliði telji hann það hentugra. Veghaldara er heimilt að girða meðfram vegum sínum, meðal annars til að tryggja öryggi umferðar, og er þá skylt að setja hlið að minnsta kosti á einum stað á slíka girðingu ef þörf er á til að tryggja aðgengi að landareign. 3. gr. Stofnkostnaður girðinga. Vegagerðin greiðir stofnkostnað girðinga meðfram þjóðvegi sem lagður er um tún, ræktarland, engjar eða girt beitiland. Vegagerðinni er heimilt að ákveða, að fengnu samþykki landeiganda, að hann sjái sjálfur um uppsetningu girðingar meðfram slíkum vegi um land sitt. Stofnkostnaður girðinga samkvæmt reglugerð þessari skal miðast við áætlaðan stofnkostnað girðinga eins og hann er reiknaður samkvæmt viðauka við reglugerð þessa. Skulu upphæðir viðaukans endurskoðaðar árlega. Til stofnkostnaðar girðinga skal teljast kostnaður vegna efnis og vinnu og skal meðal annars gera greinarmun á því hvort um sé að ræða netgirðingu eða rafgirðingu. Vegagerðinni er heimilt að taka þátt í stofnkostnaði girðinga sem reistar eru fjarri þjóðvegum og koma í stað girðinga meðfram þeim. Þessar girðingar skulu reistar í þeim tilgangi að friða fyrir búfé svæði sem þjóðvegur liggur um. Skilyrði fyrir slíkri þátttöku er að viðkomandi sveitarfélag banni lausagöngu búfjár á svæðinu. Kostnaður Vegagerðarinnar skal að jafnaði takmarkaður við lengd þeirra girðinga með þjóðvegum sem friðun nær til og komist verður af með að girða með þessum hætti. 4. gr. Viðhald girðinga. Viðhaldi girðinga skal þannig háttað að þær hafi fullt vörslugildi og séu ekki hættulegar eða til óprýði. Landeigandi skal árlega kanna hvort þörf sé á viðhaldi girðingar og skal þá viðhald að jafnaði fara fram að vori ef kostur er. Vegagerðin getur að höfðu samráði við viðkomandi sveitarfélag ákveðið að annast og kosta viðhald girðinga með einstökum vegarköflum á þjóðvegum þar sem umferð er 300 bílar á dag eða meira að meðaltali yfir sumarmánuði (SDU), enda sé lausaganga búfjár á viðkomandi vegarkafla bönnuð. Áður en Vegagerðin ákveður að taka við viðhaldi girðinga samkvæmt þessari grein skal hún tilkynna það viðkomandi sveitarfélagi og hlutaðeigandi landeigendum. Vegagerðinni er heimilt að flytja girðingar ef nauðsyn ber til af öryggisástæðum eða til framkvæmdar viðhaldi, svo sem snjómokstri. 5. gr. Viðhaldskostnaður girðinga. Viðhaldskostnaður girðinga með stofn- og tengivegum greiðist að jöfnu af Vegagerðinni og landeiganda. Þegar landeigandi hefur lokið árlegu viðhaldi girðinga með stofn- og tengivegum skal hann tilkynna það til sveitarstjórnar og viðkomandi þjónustustöðvar Vegagerðarinnar og óska eftir greiðslu á kostnaðarhlutdeild veghaldara. Vegagerðin skal greiða landeiganda sem svarar helmingi af áætluðum viðhaldskostnaði girðinga eins og hann er skilgreindur í 3. mgr. Vegagerðinni er heimilt að synja um greiðslu komi í ljós að viðhaldi hefur ekki verið sinnt með fullnægjandi hætti að mati Vegagerðarinnar. Við uppgjör vegna kostnaðarþátttöku Vegagerðarinnar í viðhaldskostnaði girðinga meðfram stofn- og tengivegum skal við það miðað að árlegur viðhaldskostnaður nemi 4% af stofnkostnaði girðinga, sbr. 3. gr. Þó skal miða við að viðhaldskostnaður geti numið allt að 7% af stofnkostnaði í erfiðu girðingalandi eða vegna snjóþyngsla, sbr. nánari ákvæði í viðauka reglugerðarinnar. 6. gr. Hlið yfir vegi. Óheimilt er að gera girðingu yfir veg með hliði án þess að leyfi veghaldara liggi fyrir. Sama bann gildir þar sem mælt og markað hefur verið fyrir vegi enda hafi veghaldari tilkynnt eiganda eða viðeigandi rétthöfum hvar mælt hefur verið. Frágangur girðingar og hliðs yfir veg skal vera í samræmi við fyrirmæli veghaldara. Skylt er vegfarendum sem um hlið fara að loka hliðinu á eftir sér. Vegagerðinni er heimilt að fella niður leyfi til þess að gera girðingu yfir veg með hliði á veginum með eins árs fyrirvara. 7. gr. Gildistaka. Reglugerð þessi er sett samkvæmt 8. mgr. 52. gr., sbr. 58. gr. vegalaga nr. 80/2007, með síðari breytingum og öðlast þegar gildi. Með reglugerð þessari fellur úr gildi reglugerð nr. 325/1995 um girðingar með vegum. Innanríkisráðuneytinu, 19. október 2012. Ögmundur Jónasson. Ragnhildur Hjaltadóttir. VIÐAUKI (sjá PDF-skjal) |