Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 460/2015

Nr. 460/2015 28. apríl 2015

REGLUGERÐ
um baðstaði í náttúrunni.

I. KAFLI

Almenn ákvæði.

1. gr.

Markmið.

Markmið þessarar reglugerðar er að stuðla að öryggi notenda og bættum hollustuháttum á baðstöðum í náttúrunni.

2. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um baðstaði í náttúrunni.

3. gr.

Skilgreiningar.

Í reglugerð þessari er merking orða og orðasambanda sem hér greinir:

Ábyrgðaraðili: Landeigandi eða ábúandi eða sá sem fer með umsjón svæðis samkvæmt samningi telst ábyrgðaraðili baðstaðar í náttúrunni sem fellur í 3. flokk. Umhverfisstofnun telst ábyrgðaraðili slíkra baðstaða á friðlýstum svæðum.

Baðstaður í náttúrunni: Náttúrulaug eða baðströnd sem eru notuð til baða af almenningi og vatn er ómeðhöndlað af sótthreinsiefnum, geislun eða á annan hátt. Til baðstaðar telst einnig búnings- og salernisaðstaða og önnur aðstaða fyrir baðgesti sem getur verið til staðar, eftir því sem við á.

Baðströnd: Vatns- eða sjávarströnd þar sem böð, þar með talin sjóböð, eru stunduð og flokkuð sem slík í skipulagi hlutaðeigandi sveitarfélags. Afmarkað umhverfi næst sjó eða vatni telst til baðstrandar svo og hugsanleg mannvirki og aðstaða þeim tengd.

Baðvatn: Sjór eða ferskvatn, þar með talið jarðhitavatn, sem ekki er meðhöndlað með sótthreinsiefnum, geislun eða á annan hátt og er talið hæft til baða samkvæmt reglugerð þessari.

Háannatímabil: Skilgreint tímabil yfir árið þegar notkun á baðstað í náttúrunni er hvað mest, skilgreint af rekstraraðila í samráði við heilbrigðisnefnd.

Innra eftirlit: Eigið eftirlit rekstraraðila baðstaðar í náttúrunni, framkvæmt af honum sjálfum, starfsmönnum hans eða þjónustuaðila í þeim tilgangi að tryggja að kröfur í starfs­leyfi eða reglugerðum séu uppfylltar.

Laug: Samheiti yfir hvers konar laugar stórar sem smáar, svo sem setlaug og sundlaug. Ker eða þró með allt að 45°C heitu vatni.

Náttúrulaug: Laug ásamt bakka hennar, mynduð af náttúrunnar hendi þar sem böð eru stunduð og vatn er ekki meðhöndlað með sótthreinsiefnum, geislun eða á annan hátt. Þó framkvæmdir á náttúrulaug hafi verið gerðar til þess að styrkja stoðir hennar, til dæmis með lítils háttar hleðslu, steypuverki, eða laugin lagfærð með hleðslu á steinum til að stífla eða stýra rennsli á baðvatni og steyptir botnar og hliðar, telst laugin vera náttúrulaug.

Neyðaráætlun: Verklagsreglur starfsfólks baðstaðar í náttúrunni um viðbrögð við slysum.

Reglubundinn rekstur: Rekstur þar sem dagleg umsjón er með baðstað í náttúrunni. Afgreiðsla, öryggisgæsla og þjónusta við baðgesti, svo sem þrif og sala veitinga er til staðar, eftir því sem við á.

Rekstraraðili: Einstaklingur eða lögaðili sem ber ábyrgð á rekstri baðstaða í náttúrunni í 1. eða 2. flokki, sbr. 4. gr.

Starfsleyfi: Ákvörðun heilbrigðisnefndar í formi skriflegs leyfis þar sem tilteknum rekstrar­aðila er heimilað að starfrækja baðstað í náttúrunni í 1. og 2. flokki að því tilskildu að hann uppfylli viðeigandi ákvæði laga, reglugerða og starfsleyfis.

Tilfallandi rekstur: Rekstur þar sem ekki er dagleg umsjón með baðstað í náttúrunni. Afgreiðsla, öryggisgæsla og þjónusta við baðgesti, svo sem þrif og sala veitinga, er til staðar eftir því sem við á.

Viðbragðsáætlun: Verklagsreglur starfsfólks baðstaðar í náttúrunni um viðbrögð og aðgerðir ef eldsvoða, náttúruvá, alvarleg slys eða aðra almannahættu ber að.

Öryggisreglur: Reglur sem rekstraraðili setur til að stuðla að öryggi gesta.

4. gr.

Flokkun baðstaða í náttúrunni.

Baðstaðir í náttúrunni flokkast í þrjá meginflokka:

1. flokkur: Baðstaðir þar sem reglubundinn rekstur fer fram. Aðsókn baðgesta reglubundin yfir allt árið. Baðstaðir í 1. flokki eru starfsleyfisskyldir.
2. flokkur: Baðstaðir þar sem er tilfallandi rekstur fer fram. Aðsókn baðgesta getur verið reglubundin eða mismunandi eftir árstíðum. Baðstaðir í 2. flokki eru starfs­leyfis­skyldir.
3. flokkur: Baðstaðir þar sem ekki er um rekstur að ræða. Aðsókn baðgesta getur verið reglubundin eða mismunandi eftir árstíðum.

Heilbrigðisnefnd flokkar baðstaði á sínu starfssvæði og sendir Umhverfisstofnun fyrir 1. mars ár hvert lista yfir baðstaði í 1. og 2. flokki sem hafa starfsleyfi. Umhverfisstofnun birtir listann á vef stofnunarinnar þar sem heilbrigðisnefndir og rekstraraðilar geta komið á fram­færi upplýsingum um lokanir og hættur í umhverfi baðstaðanna.

II. KAFLI

Starfsleyfi.

5. gr.

Umsókn um starfsleyfi.

Þeir sem hyggjast starfrækja baðstað í náttúrunni skv. 1. og 2. flokki skulu sækja um starfsleyfi til viðkomandi heilbrigðisnefndar. Heilbrigðisnefnd gefur út starfsleyfi að upp­fylltum skilyrðum reglugerðar þessarar, reglugerðar nr. 814/2010 um hollustuhætti á sund- og baðstöðum og reglugerðar nr. 941/2002 um hollustuhætti eftir því sem við á, enda sam­ræmist starfsemin skipulagsáætlunum.

Með umsókn um starfsleyfi fyrir baðstað í 1. og 2. flokki skulu fylgja upplýsingar um:

  1. Niðurstöður örverufræðilegra rannsókna, sbr. viðauka I,
  2. rekstraraðila baðstaðar,
  3. innra eftirlit og öryggisþætti,
  4. áætlaðan fjölda gesta og starfsmanna,
  5. stærð laugar, rúmtak og áætlaða vatnsendurnýjun, sé mæling á þessum þáttum gerleg og
  6. önnur gögn sem heilbrigðisnefnd metur nauðsynleg.

Laug sem rekstraraðili óskar eftir að verði flokkuð sem baðstaður í náttúrunni en ekki sem C laug samkvæmt reglugerð nr. 814/2010, um hollustuhætti á sund- og baðstöðum, getur sótt um starfsleyfi til heilbrigðisnefndar fyrir baðstað í náttúrunni í 2. flokki, svo framarlega sem hann tilheyrir ekki 1. flokki eða heilbrigðisnefnd meti sem svo að um C laug samkvæmt reglugerð um hollustuhætti á sund- og baðstöðum sé að ræða.

6. gr.

Útgáfa starfsleyfis.

Rekstraraðili baðstaðar í 1. og 2. flokki skal tilgreindur í starfsleyfi.

Tiltaka skal í starfsleyfi baðstaðar í 1. og 2. flokki árlega tíðni sýnatöku og fjölda sýna sem taka skal af baðvatni vegna innra eftirlits með rekstri baðstaðarins til greiningar á saurkólí­gerlum (E. coli) og i. Enterococci, sbr. viðauka I. Fjöldi sýna skal taka mið af umfangi starfseminnar og aðstæðum, svo sem fjölda notenda og gegnumstreymi vatns á bað­staðnum.

Í starfsleyfi skulu eftir því sem þörf er á vera reglur um takmörkun á aðgengi dýra að um­hverfi baðstaðarins.

Útgefið starfsleyfi skal vera sýnilegt gestum.

Um útgáfu starfsleyfis fer að öðru leyti samkvæmt ákvæðum reglugerðar nr. 941/2002 um hollustuhætti, eftir því sem við á.

7. gr.

Öryggi á baðstöðum í 1. og 2. flokki.

Rekstraraðili baðstaðar í náttúrunni í 1. og 2. flokki skal gera neyðaráætlun og viðbragðs­áætlun og setja öryggisreglur fyrir baðstaðinn og skulu allir starfsmenn upplýstir um þær.

Á baðstöðum í 1. og 2. flokki skulu öryggisreglur vera sýnilegar gestum. Þær skulu taka mið af ákvæðum um öryggisreglur í reglugerð nr. 814/2010 um hollustuhætti á sund- og baðstöðum eins og við á hverju sinni. Í þeim skal koma skýrt fram hvernig öryggisgæslu og ábyrgð er háttað og hvað ber að varast við böð og aðra notkun baðstaðarins.

Yfirlitsmynd skal vera til staðar á baðstöðum í 1. og 2. flokki er sýni laug og laugar­svæði/strönd og strandsvæði þar sem meðal annars kemur fram dýpi og hitastig vatns­ins, sbr. 9. gr.

Skyndihjálparbúnaður skal vera til staðar á baðstöðum í 1. og 2. flokki. Gerð hans og sam­setning skal taka mið af skyndihjálparbúnaði fyrir almenna sund- og baðstaði og umfangi og gestafjölda baðstaðarins. Skal sá búnaður yfirfarinn reglulega og starfsmenn reglu­lega þjálfaðir í notkun hans og viðbrögðum við neyðartilvikum.

8. gr.

Innra eftirlit á baðstöðum í 1. og 2. flokki.

Rekstraraðili baðstaðar í náttúrunni í 1. og 2. flokki skal koma á innra eftirliti vegna starf­seminnar. Innra eftirlit skal taka mið af umfangi starfseminnar, svo sem stærð laugar, endur­nýjunar­hraða baðvatns og fjölda gesta og starfsmanna. Þegar umfang er mikið skal rekstrar­aðili tilgreina í innra eftirliti áhættuþætti, fyrirbyggjandi aðgerðir svo sem varðandi hita­stig vatns, og viðeigandi þjálfun starfsfólks. Þá skal skrá óhöpp og slys ásamt úrbótum sem gerðar eru.

Varðandi kröfur um öryggi, hreinlæti og aðbúnað sem þurfa að koma fram í innra eftirliti baðstaðar í 1. flokki skal hafa hliðsjón af ákvæðum reglugerðar nr. 814/2010 um holl­ustuhætti á sund- og baðstöðum eftir því sem umfang og eðli starfseminnar gefur tilefni til. Að lágmarki skal þó vera búningsaðstaða, sturtur og salerni. Skriflegar hreinlætis­áætl­anir skulu gerðar eftir því sem við á.

Um tíðni og framkvæmd sýnatöku af baðvatninu og fjölda baðvatnssýna sem tekin eru til rannsóknar fer samkvæmt viðauka I og ákvæðum starfsleyfis.

Gögn um innra eftirlit skulu vera til reiðu þegar heilbrigðiseftirlit fer fram á vegum heil­brigðis­nefndar.

9. gr.

Upplýsingar um baðstaði.

Rekstraraðili baðstaðar í náttúrunni í 1. og 2. flokki skulu taka saman upplýsingar um baðstaði samkvæmt viðauka II. Heilbrigðisnefnd getur mælst til við ábyrgðaraðila baðstaðar í náttúrunni í 3. flokki að þeir taki saman upplýsingar um baðstaði samkvæmt viðauka II.

Rekstraraðili baðstaðar í náttúrunni í 1. og 2. flokki skal sjá til þess að upplýsingar um baðstaðinn séu aðgengilegar baðgestum í samræmi við viðauka II. Heilbrigðisnefnd metur hvort upplýsingar um baðstað samkvæmt viðauka II skuli vera aðgengilegar baðgestum á baðstöðum í 3. flokki og kemur þá þeim tilmælum til ábyrgðaraðila. Endurskoðun á upplýsingum um baðstað skal fara fram skv. 4. tölul. viðauka II.

Upplýsingar um baðstaði í öllum flokkum skulu vera aðgengilegar almenningi á vef Umhverfis­stofnunar.

III. KAFLI

Eftirlit.

10. gr.

Eftirlit heilbrigðisnefnda.

Heilbrigðisnefnd á hverjum stað hefur eftirlit með því að farið sé að ákvæðum reglugerðar þessarar.

Heilbrigðisnefnd getur með merkingum varað almenning við notkun baðstaðar, sbr. 4. gr. Þetta getur átt við ef niðurstöður örverurannsókna á baðvatninu eru ítrekað yfir við­mið­unar­gildum samkvæmt viðauka I, sýrustig er óeðlilega hátt eða lágt, þar sem hætta er á bruna af heitu vatni, hætta á grjóthruni og þar sem aðrar hættur eru í nánasta umhverfi baðstaðar. Rekstraraðili 1. og 2. flokks baðstaða skal sjá um uppsetningu slíkra merk­inga á baðstað að kröfu heilbrigðisnefndar, að minnsta kosti þar til viðunandi heilnæmi og gæði bað­vatns er náð að nýju eða bætt hefur verið úr öryggismálum samkvæmt mati nefndar­innar. Heilbrigðisnefnd getur mælst til við ábyrgðaraðila baðstaða í 3. flokki að þeir komi upp slíkum merkingum á baðstað. Slíkar merkingar, svo sem skilti, skulu vera samkvæmt stöðlum um öryggismerkingar og handbók um merkingar á ferðamannastöðum og friðlöndum eins og við á. Þær geta verið til viðbótar eða hluti af upplýsingum um baðstað skv. 9. gr.

11. gr.

Heilnæmi og gæði baðvatns.

Um örverufræðilegar kröfur baðvatns á baðstað í náttúrunni, tíðni sýnatöku og aðferðir vegna örverugreininga fer samkvæmt viðauka I.

Heilbrigðisnefnd metur heilnæmi og gæði baðvatns á baðstað í náttúrunni með tilliti til niður­staðna sýnatöku og mats á eðlis- og efnamælingum. Heilbrigðisnefnd skal upplýsa rekstrar- eða ábyrgðaraðila ef heilnæmi og gæði baðvatns er ófullnægjandi samkvæmt ákvæðum viðauka I eða öryggi gesta ógnað. Heilbrigðisnefnd skal senda Umhverfisstofnun niður­stöður mælinga og mat á heilnæmi og gæði baðvatns á baðstöðum í 1. og 2. flokki, sem birtir upplýsingarnar á heimasíðu sinni.

Þrátt fyrir að óheimilt sé að nota sótthreinsiefni getur heilbrigðisnefnd heimilað eða fyrir­skipað notkun á klór í baðvatn á baðstöðum í 1. og 2. flokki til að draga úr góður­myndun í keri og/eða til að sótthreinsa vatnið/kerið hafi gerlafjöldi í baðvatninu mælst endur­tekið yfir hámarksgildum.

12. gr.

Sýnataka.

Heilbrigðisnefnd skal heimill aðgangur til skoðunar og eftirlits á baðstöðum í náttúrunni, þar á meðal töku sýna, sbr. 28. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir. Heil­brigðisnefnd ákveður sýnatökustaði baðvatns á sínu starfssvæði miðað við aðstæður á hverjum baðstað í náttúrunni, svo sem vegna álags eða mengunarvalda sem kunna að berast í það, sem og í samræmi við innra eftirlit baðstaða í 1. og 2. flokki samkvæmt reglu­gerð þessari.

Sýnataka af baðvatni baðstaða í 1. og 2. flokki fer samkvæmt starfsleyfi og viðauka I. Heilbrigðisnefnd er heimilt að setja kröfu um ítarlegri og meiri sýnatöku en samkvæmt við­auka I. Sýnataka á baðstað í 1. og 2. flokki skal framkvæmd af aðila sem heil­brigðis­nefnd samþykkir og skal vera á kostnað rekstraraðila. Rekstraraðili skal senda heil­brigðis­nefnd niðurstöður mælinga.

Á baðstöðum í 2. flokki skal taka sýni að lágmarki tvisvar sinnum á ári til að fylgjast með heil­næmi og gæði baðvatnsins. Sýnataka skal að lágmarki fara fram við upphaf háanna­tímabils og um miðbik þess og um niðurstöðu hennar fer samkvæmt viðmið­unar­gildum í töflu í viðauka I.

Ekki er gert ráð fyrir sérstökum sýnatökum á baðstöðum í 3. flokki nema heilbrigðisnefnd telji sérstaka ástæðu til, til dæmis ef grunur er um mengun eða hættu á útbreiðslu sjúk­dóma. Sýnataka á baðstað í 3. flokki er hluti tilfallandi eftirlits, sbr. 64. gr. reglugerðar nr. 941/2002 um hollustuhætti.

Rannsóknastofur sem annast örverurannsóknir á vatni í samræmi við reglugerð þessa skulu standast almennar kröfur um starfsemi rannsóknastofa, sbr. ákvæði reglugerðar nr. 346/1993 um starfsemi faggiltra óháðra skoðunarstofa.

IV. KAFLI

Viðurlög, málsmeðferð og gildistaka.

13. gr.

Rekstraraðili baðstaðar í náttúrunni í 1. og 2. flokki ber ábyrgð á því að farið sé að ákvæð­um reglugerðar þessarar.

14. gr.

Um ágreining um framkvæmd reglugerðarinnar fer skv. 31. gr. laga nr. 7/1998, um holl­ustu­hætti og mengunarvarnir.

15. gr.

Um gjaldtöku vegna eftirlits og útgáfu stafsleyfis, sýnatöku, valdsvið, undanþágur, þving­unar­úrræði og úrskurði, fer samkvæmt lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og meng­unar­varnir.

Um viðurlög fer samkvæmt VIII. kafla laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunar­varnir.

16. gr.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 15. tölul. 4. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, og að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga hvað varðar skyldur sveitarfélaga, sbr. 3. mgr. 9. gr. sömu laga.

Reglugerðin öðlast gildi við birtingu.

Ákvæði til bráðabirgða.

Upplýsingum um baðstaði í náttúrunni í 1. og 2. flokki, sbr. 9. gr., skal skilað inn til heil­brigðis­nefnda eigi síðar en 15. júlí 2017.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, 28. apríl 2015.

Sigrún Magnúsdóttir.

Sigríður Auður Arnardóttir.

VIÐAUKAR
(sjá PDF-skjal)


B deild - Útgáfud.: 19. maí 2015