FORSETI ÍSLANDS gjörir kunnugt: Alþingi hefur fallist á lög þessi og ég staðfest þau með samþykki mínu: I. KAFLI
Breyting á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, með síðari breytingum.
1. gr.
Við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða, er orðast svo: Þrátt fyrir ákvæði 7. gr. fylgir fasteignaskatti vegna áranna 2008–2010 lögveð í fasteign þeirri sem hann er lagður á og skal hann, ásamt dráttarvöxtum í fjögur ár frá gjalddaga, ganga fyrir öllum öðrum veðkröfum er á eigninni hvíla.
II. KAFLI
Breytingar á lögum um gatnagerðargjald,
nr. 153/2006, með síðari breytingum.
2. gr.
Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna: a. Í stað orðanna „30 daga“ í 1. og 2. málsl. kemur: 90 daga. b. 3. málsl. fellur brott.
3. gr.
Í stað dagsetningarinnar „31. desember 2009“ í 1. tölul. ákvæðis til bráðabirgða í lögunum kemur: 31. desember 2012.
4. gr.
Við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða, er orðast svo: Endurgreiðsla gatnagerðargjalda vegna lóða sem úthlutað var eða byggingarleyfi var veitt á fyrir gildistöku laga þessara skal verðbætt miðað við vísitölu neysluverðs frá greiðsludegi til endurgreiðsludags.
III. KAFLI
Gildistaka.
5. gr.
Lög þessi öðlast þegar gildi. Gjört í Reykjavík, 4. mars 2009. Ólafur Ragnar Grímsson. (L. S.) Kristján L. Möller. |