Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 641/2010

Nr. 641/2010 19. júlí 2010
ÚTHLUTUNARREGLUR
safnasjóðs.

1. gr.

Hlutverk safnasjóðs.

Hlutverk safnasjóðs er að styrkja starfsemi safna skv. safnalögum nr. 106/2001.

2. gr.

Úthlutanir úr safnasjóði.

Safnaráð úthlutar úr sjóðnum rekstrarstyrkjum og verkefnastyrkjum til safna. Höfuðsöfn og önnur söfn, sem rekin eru af ríkinu, geta ekki notið styrkja úr safnasjóði.

Söfn sem hljóta rekstrarstyrk á fjárlögum skulu ekki hljóta rekstrarstyrk úr safnasjóði sama ár. Skal þessi regla tilkynnt þegar auglýst er eftir umsóknum.

1. Rekstrarstyrkir:

Til þess að geta sótt um rekstrarstyrki þarf safn að uppfylla þessi skilyrði:

  1. Safnið skal hafa sjálfstæðan fjárhag og vera stjórnað af forstöðumanni í a.m.k. hálfu starfi.
  2. Safnið skal starfa eftir stofnskrá sem hlotið hefur staðfestingu safnaráðs og skal starfa eftir stefnu sem endurskoðuð er á fjögurra ára fresti.
  3. Safnið skal rekið óaðfinnanlega að mati safnaráðs og fjárhagsgrundvöllur þess skal vera tryggður.
  4. Safnið skal vera opið almenningi daglega á auglýstum tíma a.m.k. þrjá mánuði á ári.
  5. Safnið skal bjóða upp á safnfræðslu eftir því sem við verður komið.
  6. Safnið skal skrá safngripi eftir viðurkenndu skráningarkerfi.
  7. Safnið skal fylgja viðurkenndum alþjóðlegum siðareglum safna.

2. Verkefnastyrkir:

Söfn sem safnalög ná til geta sótt um verkefnastyrki til safnasjóðs. Söfn geta sótt sameiginlega um styrk til samstarfsverkefna, sem eitt þeirra ber ábyrgð á. Safnaráð úthlutar styrkjum til eftirtalinna verkefna:

  1. Stefnumótunar á sviði safnastarfs.
  2. Skráningarverkefna.
  3. Rannsókna á vegum safna.
  4. Öryggismála safna.
  5. Varðveislumála.
  6. Fræðsluverkefna.
  7. Sýninga.
  8. Markaðssetningar.
  9. Forvörslu.
  10. Merkingu safna.
  11. Endurmenntunar og menntunar safnamanna.
  12. Annarra verkefna en þegar hafa verið talin og safnaráð metur styrkhæf hverju sinni.

Safnaráð metur styrkhæfi umsókna með tilliti til verkefna og gildi þeirra fyrir safnastarf almennt og ákveður upphæð styrkja.

Styrkjum er úthlutað til eins árs í senn. Nýti styrkþegi ekki styrk sama ár og honum er úthlutað, fellur styrkurinn niður, nema sérstaklega sé sótt um frestun hans. Umsókn um frest skal vera skrifleg og rökstudd.

3. gr.

Auglýsing um styrki úr safnasjóði.

Safnaráð auglýsir ár hvert eftir umsóknum um styrki úr safnasjóði í dagblöðum eða með öðrum sannanlegum hætti.

4. gr.

Almennt um umsóknir.

Umsóknum um rekstrar- og verkefnastyrki skal skilað á þar til gerðu umsóknareyðublaði safnaráðs.

Umsóknir um verkefnastyrk skulu bera greinilega með sér til hvers og hvernig umsækjandi hyggst verja styrknum. Þeim skulu fylgja eftirtalin gögn og upplýsingar eftir því sem við á:

  1. Upplýsingar um umsækjanda/umsækjendur.
  2. Nafn þess, er annast samskipti við stjórn sjóðsins.
  3. Nákvæm lýsing verkefnisins.
  4. Tíma- og kostnaðaráætlun.

5. gr.

Eftirlit safnaráðs.

Safnaráð hefur eftirlit með því, að styrkir séu notaðir til þess, sem getið var í umsóknum. Styrkþegum er skylt að kynna fulltrúa safnaráðs stöðu verksins, sé þess óskað. Safnaráð getur óskað eftir áfangaskýrslum, ef þurfa þykir, safnaráði að kostnaðarlausu.

Hægt er að svipta safn styrk, telji safnaráð að verkið sé ekki unnið í samræmi við umsókn og innsend gögn og hafna umsóknum viðkomandi safns um nýja styrki þar til úrbætur hafa verið gerðar að mati safnaráðs.

Að verkefni loknu kynnir styrkþegi árangur og niðurstöður fyrir safnaráði með skriflegri skýrslu og í síðasta lagi fyrir lok þess árs sem styrkurinn var veittur á.

Í slíkri skýrslu óskar safnaráð eftirfarandi upplýsinga frá styrkþegum:

  1. Hvort safnið hafi móttekið styrkinn/styrkina.
  2. Um nýtingu rekstrarstyrkja: Hvernig framlagi úr safnasjóði var varið, þ.e. sundurliðun kostnaðar í laun, efni, launakostnað safns og launakostnað annarra (s.s. verktaka/aðkeypta þjónustu) o.fl.
  3. Um nýtingu verkefnastyrkja: Hvernig framlagi úr safnasjóði var varið, þ.e. sundurliðun kostnaðar í laun, efni, launakostnað safns og launakostnað annarra (s.s. verktaka/aðkeypta þjónustu) o.fl.
  4. Um framvindu þeirra verkefna sem hlutu verkefnastyrk úr safnasjóði og árangur þeirra eða afrakstur.
  5. Um hvort forsendur verkefna, markmið, verkáætlun, skipulag og kostnaður verkefna sem styrkt voru úr safnasjóði hafi breyst og að hvaða leyti.
  6. Um aðra styrki sem safnið naut á árinu til rekstrar eða til þess verkefnis sem veittur styrkur var ætlaður til.

6. gr.

Gildistaka.

Úthlutunarreglur þessar eru settar skv. heimild í 10. gr. safnalaga nr. 106/2001 og öðlast þegar gildi.

Reykjavík, 24. júní 2010.

Safnaráð:

Margrét Hallgrímsdóttir formaður.

Halldór Björn Runólfsson. Helgi Torfason. Jenný Lind Egilsdóttir. Guðný Dóra Gestsdóttir.

Með vísan til 1. mgr. 10. gr. safnalaga nr. 106/2001 eru úthlutunarreglur þessar hér með staðfestar.

Frá sama tíma falla úr gildi úthlutunarreglur safnasjóðs nr. 537 6. maí 2003.

Mennta- og menningarmálaráðuneytinu, 19. júlí 2010.

Katrín Jakobsdóttir.

Ásta Magnúsdóttir.

B deild - Útgáfud.: 6. ágúst 2010