Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 417/2013

Nr. 417/2013 15. apríl 2013
AUGLÝSING
um friðlýsingu geislasteina í landi Teigarhorns, Djúpavogshreppi.

1. gr.

Um friðlýsinguna.

Umhverfisráðherra hefur ákveðið að tillögu Djúpavogshrepps og að fengnu áliti Umhverfis­stofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands að endurnýja friðlýsingu náttúru­vættisins í landi Teigarhorns, skv. 2. tölul. 1. mgr. 53. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999.

Teigarhorn er einn þekktasti fundarstaður geislasteina (zeólíta) í heiminum og hefur svæðið mikið vísinda- og fræðslugildi. Það er sérstaklega auðugt af geislasteinum og fjölbreytni er jafnframt mikil. Svæðið dregur að sér mikinn fjölda ferðamanna.

2. gr.

Markmið friðlýsingarinnar.

Markmið friðlýsingarinnar er að varðveita og viðhalda náttúrlegu ástandi svæðisins einkum m.t.t. þeirra jarðlaga sem eru rík af geislasteinum.

Enn fremur er það markmið friðlýsingarinnar að tryggja möguleika á rannsóknum á jarðmyndunum svæðisins, sérstaklega rannsóknum á geislasteinum. Svæðið er afar mikilvægt fyrir fræðslu og útivist, bæði vegna aðsóknar ferðamanna og vegna nálægðar við þéttbýlið á Djúpavogi.

3. gr.

Mörk verndarsvæðisins.

Mörk verndarsvæðisins ná frá stórstraumsfjöruborði að þjóðvegi við Prófastsgötu í Eyfreyjunesvík að Búlandsá auk gljúfurs Búlandsár, upp fyrir Selfoss ásamt 100 m breiðu belti meðfram gljúfrinu sitt hvoru megin. Mörk þess eru sýnd á meðfylgjandi hnitsettum uppdrætti í fylgiskjali I. Heildarflatarmál svæðisins er 200 ha.

4. gr.

Umsjón með hinu friðlýsta svæði.

Umhverfisstofnun hefur umsjón með náttúruvættinu samkvæmt 28. gr. laga um náttúru­vernd, nr. 44/1999. Umhverfisstofnun skal gera samning um daglegan rekstur og umsjón náttúruvættisins við Djúpavogshrepp sem umhverfisráðherra skal staðfesta. Í samn­ingnum skal m.a. kveðið á um réttindi og skyldur samningsaðila, mannvirkjagerð og aðrar framkvæmdir, landvörslu og fræðslu.

Umhverfisstofnun skal í samvinnu við Djúpavogshrepp sjá um gerð verndar- og stjórn­unar­áætlunar fyrir hið friðlýsta svæði í samræmi við d-lið 6. gr. laga um náttúru­vernd, nr. 44/1999.

5. gr.

Fræðsla um verndarsvæðið og verndun geislasteina.

Til að tryggja verndun geislasteina í landi Teigarhorns skal Umhverfisstofnun í samvinnu við Náttúrufræðistofnun Íslands og umsjónaraðila vinna að því að efla skilning almenn­ings á sérstöðu þeirra, t.d. með miðlun og útgáfu fræðsluefnis um gerð og eigin­leika geislasteina og verndun þeirra í náttúru landsins.

Öll nánari útfærsla á verndun og fræðslu fyrir náttúruvættið í landi Teigarhorns skal koma fram í verndar- og stjórnunaráætlun svæðisins. Þar skal einnig fjallað um rann­sóknir og vöktun þess.

6. gr.

Bann við röskun jarðmyndana.

Óheimilt er að raska jarðmyndunum, þ.m.t. með hvers konar áletrunum og óheimilt er að hrófla við geislasteinum þar sem þeir koma fram í jarðlögum. Einnig er óheimilt að flytja geislasteina út af svæðinu nema að fengnu leyfi Umhverfisstofnunar. Geislasteinar sem veðrast úr brimklifi við ströndina eða gljúfri Búlandsár eyðileggjast fljótt, en í þeim tilfellum skal umsjónaraðili hirða upp slíka steina til varðveislu á staðnum. Allir steinar sem finnast á verndarsvæðinu tilheyra landeiganda. Gera skal Náttúrufræðistofnun Íslands viðvart um mikilvæg eintök.

Framkvæmdir sem haft geta í för með sér röskun og/eða eyðileggingu á geislasteinum eða jarðlögum sem eru rík af geislasteinum eru óheimilar. Jafnframt er mannvirkjagerð óheimil á verndarsvæðinu nema að fengnu leyfi Umhverfisstofnunar. Við mat á því hvort leyfi skuli veitt skal Umhverfisstofnun meta hvort hætta sé á að spillt verði friðlýstum náttúruminjum, sbr. 38. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999, sbr. einnig markmið friðlýsingarinnar og efni verndar- og stjórnunaráætlunar fyrir hið friðlýsta svæði. Leita skal álits Náttúrufræðistofnunar Íslands og eftir atvikum annarra aðila við veitingu slíks leyfis. Framkvæmdir eru einnig háðar framkvæmda- eða byggingarleyfi Djúpavogs­hrepps eins og nánar greinir í skipulagslögum nr. 123/2010 og lögum um mannvirki nr. 160/2010.

7. gr.

Verndun gróðurs og dýralífs.

Vernda skal vistkerfi og líffræðilega fjölbreytni svæðisins þannig að það geti þróast eftir náttúrlegum lögmálum og á eigin forsendum.

Óheimilt er að sleppa eða dreifa framandi lífverum á verndarsvæðinu, þ.m.t. að rækta framandi plöntutegundir innan marka náttúruvættisins, sbr. reglugerð um innflutning, ræktun og dreifingu útlendra plöntutegunda nr. 583/2000.

8. gr.

Umferð í náttúruvættinu.

Umferð vélknúinna ökutækja í náttúruvættinu er óheimil. Almenningi er heimil för um verndarsvæðið og er öllum skylt að ganga vel og snyrtilega um svæðið.

Óheimilt er að hafa næturstað innan hins friðlýsta svæðis. Einnig er óheimilt að urða eða henda rusli á víðavangi innan náttúruvættisins.

9. gr.

Refsiákvæði.

Brot gegn auglýsingu þessari varðar sektum eða fangelsi allt að tveimur árum, sbr. 75. og 76. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999.

10. gr.

Gildistaka.

Friðlýsingin öðlast þegar gildi. Eldri auglýsing um friðlýsingu Teigarhorns við Berufjörð nr. 518/1975 fellur úr gildi við gildistöku þessarar auglýsingar.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, 15. apríl 2013.

Svandís Svavarsdóttir.

Guðríður Þorvarðardóttir.

Fylgiskjal.
(sjá PDF-skjal)

B deild - Útgáfud.: 2. maí 2013