1. gr. Gildissvið. Telji Fjármálaeftirlitið aðila hafa gerst brotlegan við ákvæði laga og reglna þar sem stofnuninni er falið vald til ákvörðunar stjórnvaldssekta, er heimilt, með samþykki málsaðila, að ljúka máli með sátt, enda hafi aðilinn eftir atvikum látið af háttsemi eða gert viðeigandi úrbætur. Sama gildir um brot á ákvörðunum stofnunarinnar á grundvelli framangreindra laga og reglna. Heimild til sáttar nær ekki til meiri háttar brota sem refsiviðurlög liggja við. Brot telst meiri háttar ef það lýtur að verulegum fjárhæðum, ef verknaður er framinn með sérstaklega vítaverðum hætti eða við aðstæður sem auka mjög á saknæmi brotsins. 2. gr. Inntak sáttar. Í sátt felst að málsaðili gengst við að hafa brotið gegn ákvæðum laga eða ákvörðunum Fjármálaeftirlitsins, upplýsir að fullu um brotið og gerir samkomulag við stofnunina um tiltekna sektargreiðslu. Sátt er bindandi fyrir málsaðila og Fjármálaeftirlitið þegar báðir aðilar hafa samþykkt og staðfest efni hennar með undirskrift sinni innan frests skv. 6. mgr. 4. gr. reglnanna. 3. gr. Ákvörðun sektarfjárhæðar. Sé máli lokið með sátt er miðað við að sektarfjárhæð sé hlutfallslega lægri en sem ætla má að fjárhæð stjórnvaldssektar gæti numið að teknu tilliti til mögulegra þyngingar- og mildunarsjónarmiða. Við mat á sektarfjárhæð skal litið til þess á hvaða stigi meðferð máls er þegar aðili fellst á að ljúka máli með sátt. Sé máli lokið með sátt við upphaf athugunar málsins getur sektarfjárhæð numið allt að 50% af þeirri fjárhæð sem ætla má að stjórnvaldssekt gæti numið. Sé máli lokið með sátt á síðari stigum getur sektarfjárhæð numið allt að 70% af þeirri fjárhæð sem ætla má að stjórnvaldssekt gæti numið. Fjármálaeftirlitið metur á hvaða stigi mál er við gerð sáttar. 4. gr. Málsmeðferð. Fjármálaeftirlitið skal vekja athygli málsaðila á að heimilt sé að ljúka máli með sátt, enda telji stofnunin að málsatvik séu með þeim hætti að sátt komi til álita. Í máli sem beinist að einstaklingi og lokið getur með sátt, skal Fjármálaeftirlitið upplýsa aðila um rétt hans til að neita að svara spurningum eða afhenda gögn. Óski málsaðili eftir að ljúka máli með sátt, og Fjármálaeftirlitið fellst á beiðnina, skal stofnunin senda málsaðila sátt til samþykktar. Vegna minni háttar brota þar sem málsatvik liggja ljós fyrir getur Fjármálaeftirlitið boðið málsaðila sátt við upphaf máls. Í sátt skal m.a. koma fram dagsetning, nafn málsaðila, kennitala, heimilisfang, númer máls hjá Fjármálaeftirlitinu, lýsing á broti, tilvísun til laga og reglna, sektarfjárhæð og viðurlög við broti á sátt. Málsaðili skal undirrita sáttina í tvíriti og senda bæði eintökin til Fjármálaeftirlitsins innan 15 daga frá dagsetningu sáttar. Fjármálaeftirlitið undirritar því næst sáttina og sendir málsaðila undirritað eintak af sáttinni ásamt greiðsluseðli þar sem veittur er 30 daga greiðslufrestur. Verði ekki af sátt, eða ef sátt er felld úr gildi sbr. 5. gr. reglnanna, mun Fjármálaeftirlitið, við síðari málsmeðferð vegna brots, ekki byggja á því að málsaðili hafi áður gengist við brotinu í þeim tilgangi að ljúka máli með sátt. 5. gr. Brot gegn sátt. Málsaðili brýtur gegn sátt ef hann t.d. greiðir ekki umsamda sektarfjárhæð, gefur rangar upplýsingar um málsatvik eða leynir upplýsingum sem máli skipta. Verði málsaðili uppvís að því að brjóta gegn sátt getur Fjármálaeftirlitið fellt sáttina úr gildi, tekið málið til meðferðar á ný og eftir atvikum ákvarðað aðila stjórnvaldssekt fyrir brot á sáttinni eftir því sem heimilt er í lögum. 6. gr. Birting sáttar. Um birtingu sáttar fer eftir gagnsæisstefnu Fjármálaeftirlitsins, sbr. 9. gr. a laga nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Miðað er við að birting eigi sér stað þegar sektarfjárhæð hefur verið innt af hendi. 7. gr. Gildistaka. Reglur þessar, sem settar eru með heimild í 34. gr. a laga nr. 131/1997 um rafræna eignarskráningu verðbréfa, 111. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, 62. gr. a laga nr. 32/2005 um miðlun vátrygginga, 142. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti, 34. gr. laga nr. 110/2007 um kauphallir, 32. gr. laga nr. 11/2008 um sértryggð skuldabréf, 19. gr. innheimtulaga nr. 95/2008, 98. gr. laga nr. 56/2010 um vátryggingastarfsemi, 3. mgr. 77. gr. laga nr. 120/2011 um greiðsluþjónustu, 66. gr. laga nr. 128/2011 um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði, 3. mgr. 43. gr. laga nr. 17/2013 um útgáfu og meðferð rafeyris og 3. mgr. 4. gr. laga nr. 78/2014 um greiðslur yfir landamæri í evrum, öðlast gildi við birtingu. Jafnframt falla úr gildi reglur nr. 1245/2007 um heimild Fjármálaeftirlitsins til að ljúka máli með sátt. Fjármálaeftirlitinu, 9. júlí 2014. Jón Þór Sturluson. Rúnar Guðmundsson. |