Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 569/2009

Nr. 569/2009 16. júní 2009
REGLUR
fyrir Háskóla Íslands.

I. HLUTI
SAMEIGINLEGAR REGLUR HÁSKÓLANS.

I. KAFLI

Megin skipulagseiningar og æðsta stjórn Háskóla Íslands.

1. gr.

Skipulagseiningar Háskóla Íslands.

Háskóla Íslands er skipað í fræðasvið og deildir og stofnanir sem heyra undir háskólaráð, fræðasvið eða deildir, sbr. II. kafla reglna þessara. Heimilt er að skipa námsbrautir í deildum. Um heiti skipulagseininga Háskóla Íslands fer eftir 2. mgr. 136. gr. þessara reglna.

2. gr.

Háskólaráð og stjórn Háskóla Íslands.

Stjórn Háskóla Íslands er falin háskólaráði og rektor. Háskólaráð markar heildarstefnu í kennslu og rannsóknum og mótar skipulag háskólans. Háskólaráð fer með almennt eftirlit með starfsemi háskólans í heild, einstakra fræðasviða og háskólastofnana og ber ábyrgð á því að háskólinn starfi í samræmi við lög og stjórnvaldsfyrirmæli. Stjórnsýsla háskólans starfar í umboði rektors og háskólaráðs. Á vegum háskólaráðs starfar innri endurskoðandi skv. erindisbréfi sem háskólaráð ákveður.

Háskólaráð skiptir fé milli rekstrareininga í starfi háskólans innan þess ramma sem fjárveitingar og reglur um ráðstöfun sértekna heimila og hefur eftirlit með rekstri háskólans, þar með töldu reikningshaldi, meðferð fjármuna og samstarfssamningum og hefur yfirumsjón með einstökum háskólastofnunum, félögum, fyrirtækjum, sjóðum og öðrum eignum háskólans, sbr. 5. og 26. gr. laga um opinbera háskóla.

Háskólaráð setur reglur fyrir háskólann eftir því sem nánar er mælt fyrir um í lögum nr. 85/2008 um opinbera háskóla, þar með taldar reglur um gjaldtöku og ráðstöfun gjalda skv. 24. gr. laga um opinbera háskóla, sbr. einnig 21. og 22. gr. laga nr. 63/2006 um háskóla.

Háskólaráð fer með úrskurðarvald í málefnum háskólans, einstakra fræðasviða og stofnana sem honum tengjast og heyra undir háskólaráð, fræðasvið eða deildir.

Ákvarðanir háskólaráðs samkvæmt lögum um opinbera háskóla og reglum settum með stoð í þeim eru endanlegar og verður ekki skotið til háskólaþings eða annarra stofnana háskólans til endurskoðunar.

Háskólaráð getur leitað umsagnar háskólaþings um hvaðeina sem varðar starfsemi háskólans, fræðasviða hans, deilda og stofnana, sbr. 9. gr. þessara reglna.

Fái háskólaráð til meðferðar málefni er varðar sérstaklega eitt fræðasvið skal ráðið leita álits forseta fræðasviðins áður en málefnið er leitt til lykta. Með sama hætti skal háskólaráð leita álits forstöðumanns háskólastofnunar sem ekki heyrir undir fræðasvið.

3. gr.

Fulltrúar í háskólaráði.

Rektor á sæti í háskólaráði og er hann jafnframt forseti ráðsins.

Í háskólaráði eiga auk rektors sæti eftirtaldir tíu fulltrúar, tilnefndir til tveggja ára í senn:

1. Tveir fulltrúar háskólasamfélagsins tilnefndir af háskólaþingi.

2. Tveir fulltrúar tilnefndir af heildarsamtökum nemenda við háskólann.

3. Fjórir fulltrúar tilnefndir af menntamálaráðherra.

4. Tveir fulltrúar tilnefndir af þeim fulltrúum sem fyrir eru í háskólaráði.

Hverjum fulltrúa skv. 1., 2. og 3. tölul. 2. mgr. skal tilnefndur varamaður.

Tveir fulltrúar skv. 4. tölul. 2. mgr. og einn sameiginlegur varamaður fyrir þá skulu tilnefndir sameiginlega af rektor og öðrum fulltrúum skv. 1., 2. og 3. tölul. þegar þeir hafa verið tilnefndir í ráðið til næstu tveggja ára. Við tilnefningu fulltrúa skv. 3. og 4. tölul. skal leitast við að tryggja sem víðtækasta þekkingu og reynslu háskólanum til stuðnings og mega fulltrúarnir ekki vera starfsmenn eða nemendur háskólans. Þegar þeir fulltrúar sem taldir eru í þessari málsgrein hafa verið tilnefndir telst háskólaráð fullskipað.

Um tilnefningu fulltrúa háskólasamfélagsins skv. 1. tölul. 2. mgr. gilda eftirfarandi reglur (bókstafsliðir a-d):

a) tilnefning fulltrúa háskólasamfélagsins skal tekin á dagskrá háskólaþings samkvæmt útsendu fundarboði. Samtímis því sem fundarboð er sent út þremur vikum fyrir fund skal auglýst eftir ábendingum/framboðum á vef háskólans. Í fundarboði háskólaþings skal jafnframt lýst eftir ábendingum/framboðum. Þeir einir geta verið í kjöri sem uppfylla ákvæði bókstafsliðar b. Enn fremur skal liggja fyrir að þeir sem bent er á séu reiðubúnir að taka tilnefningu. Skulu ábendingar/framboð berast skrifstofu rektors eigi síðar en átta dögum fyrir háskólaþing. Með ábendingar/framboð skal farið sem tillögur til ályktana háskólaþings og skulu þær sendar út með fundarboði, minnst viku fyrir háskólaþing.

b) sá sem valinn er sem fulltrúi háskólasamfélagsins í háskólaráð skal, þegar tilnefning á sér stað, vera akademískur starfsmaður Háskóla Íslands í fullu starfi (a.m.k. 75% starfshlutfalli), en þó hvorki forseti fræðasviðs, deildarforseti, né varadeildarforseti. Skulu upplýsingar um starfsvettvang og stutt lýsing starfsferils (hámark A4 síða) liggja fyrir háskólaþingi.

c) háskólaþing kýs í milli þeirra sem eru í kjöri, sbr. bókstafslið a, þannig að hver atkvæðisbær fulltrúi á háskólaþingi greiðir skriflega atkvæði sitt með tveimur þeirra. Fulltrúar nemenda á háskólaþingi hafa þó ekki atkvæðisrétt.

d) sá sem flest atkvæði hlýtur í kjöri á háskólaþingi skal tilnefndur sem fulltrúi í háskólaráð. Jafnframt skal sá tilnefndur sem hlýtur næstflest atkvæði og er áskilið að hann sé starfandi á öðru fræðasviði en sá sem flest atkvæði hlýtur. Varamenn fulltrúanna tveggja eru þeir tveir sem hlotið hafa flest atkvæði að tilnefndum fulltrúum frátöldum. Sá varamaður sem fleiri atkvæði hlýtur er varamaður þess tilnefnds fulltrúa sem flest atkvæði fékk. Ef atkvæði eru jöfn í vali á milli manna skal hlutkesti ráða. Tilnefning er bindandi og er viðkomandi skylt að taka tilnefningu til setu í háskólaráði til tveggja ára.

Um tilnefningu fulltrúa nemenda í háskólaráð skv. 2. tölul. 2. mgr. gilda eftirfarandi reglur (bókstafsliðir e-f):

e) tilnefning fulltrúa nemenda skal vera í samræmi við niðurstöðu sérstakrar hlutfallskosningar sem fram fer í febrúar annað hvert ár. Kosnir skulu tveir aðalmenn og tveir varamenn til setu í háskólaráði til tveggja ára.

f) kosningarétt hafa allir skrásettir nemendur Háskóla Íslands. Stúdentaráð Háskóla Íslands annast framkvæmd kosningarinnar.

4. gr.

Fundir háskólaráðs.

Háskólaráð heldur fundi eftir þörfum. Rektor boðar fundi. Æski þrír fulltrúar í háskólaráði fundar er rektor skylt að boða til hans. Boða skal til háskólaráðsfundar bréflega eða í tölvupósti með minnst þriggja daga fyrirvara ef við verður komið. Dagskrá fundar skal fylgja fundarboði.

Rektor stjórnar fundum háskólaráðs.

Háskólaráð er ekki ályktunarbært nema fimm atkvæðisbærir háskólaráðsmenn hið fæsta sæki fund. Ef tilnefndur eða kjörinn fulltrúi getur ekki sótt fund skal boða varamann hans til setu á fundinum. Afl atkvæða ræður úrslitum mála. Ef atkvæði eru jöfn sker atkvæði rektors úr eða þess er gegnir fundarstjórn.

Rita skal fundargerð þar sem ákvarðanir ráðsins eru skráðar. Rektor skipar ritara háskólaráðs og lætur birta fundargerðir ráðsins og tilkynningar um ákvarðanir þess.

Háskólaráð kýs úr sínum hópi varaforseta ráðsins sem stýrir fundi í forföllum rektors.

5. gr.

Hlutverk rektors.

Rektor er forseti háskólaráðs. Hann er yfirmaður stjórnsýslu háskólans og æðsti fulltrúi hans og talsmaður gagnvart mönnum og stofnunum innan háskólans og utan hans. Hann stýrir starfsemi háskólans og hefur frumkvæði að því að háskólaráð marki sér heildarstefnu í málefnum háskólans. Hann ber ábyrgð á framkvæmd stefnu háskólans og tengslum háskólans við innlenda og erlenda samstarfsaðila. Rektor ber ábyrgð á og hefur eftirlit með allri starfsemi háskólans, þ.m.t. ráðningar- og fjármálum einstakra fræðasviða og stofnana. Hann ber ábyrgð á gerð starfs- og rekstraráætlana og að þær séu samþykktar af háskólaráði. Á milli funda háskólaráðs fer rektor með ákvörðunarvald í öllum málum háskólans.

Rektor ræður forseta fyrir hvert fræðasvið samkvæmt verklagsreglum háskólaráðs og setur honum erindisbréf.

Háskólaráð getur heimilað að rektor ráði aðstoðarrektor, einn eða fleiri og skal rektor þá setja honum erindisbréf þar sem umboð hans er afmarkað.

Rektor er heimilt að skipa starfsnefndir sem eru honum til ráðgjafar og aðstoða við stefnumótun og sinna tilteknum verkefnum samkvæmt erindisbréfi.

Rektor veitir ótímabundin akademísk störf við Háskóla Íslands og framgang akademískra starfsmanna.

Rektor ræður starfsfólk sameiginlegrar stjórnsýslu háskóla og setur því erindisbréf eða starfslýsingar.

Rektor tekur ákvörðun í málum sem varða sérstakt hæfi einstakra starfsmanna háskólans til þess að fara með tiltekið mál í sameiginlegri stjórnsýslu háskólans, sbr. II. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þegar um er að ræða að fundur í fræðasviði, í deild, námsbraut eða stjórn háskólastofnunar undirbúi mál, sem rektor á endanlegt ákvörðunarvald um, skal viðkomandi fundur taka afstöðu til þess hvort fundarmaður víkur sæti. Komi upp ágreiningur skal málinu skotið til rektors og efnislegri meðferð málsins frestað þar til úrskurður hans liggur fyrir.

Í umboði rektors hafa aðstoðarrektor, framkvæmdastjóri og sviðsstjórar stjórnsýslu yfirumsjón og eftirlit með sameiginlegri stjórnsýslu háskólans. Forsetar fræðasviða hafa eftirlit og yfirumsjón með starfi og stjórnsýslu fræðasviða. Rektor heldur reglulega samráðsfundi með forsetum fræðasviða, forsetafundi.

Rektor skipuleggur útgáfu árbókar í samráði við starfslið stjórnsýslu, forseta fræðasviða, deildarforseta og forstöðumenn stofnana, eftir því sem henta þykir. Í árbók háskólans skal vera skýrsla um starfsemi háskólans, stofnanir hans og sjóði og ráðstöfun á fé því sem háskólinn hefur haft til umráða, svo og um málefni stúdenta.

6. gr.

Kosning, tilnefning og embættisgengi rektors.

Menntamálaráðherra skipar rektor til fimm ára samkvæmt tilnefningu háskólaráðs.

Tilnefning háskólaráðs fer fram að undangengnum kosningum.

Um auglýsingu, kosningu, tilnefningu og embættisgengi rektors gildir eftirfarandi:

1. Auglýsing.

Háskólaráð auglýsir embætti rektors laust til umsóknar.

2. Skilyrði um embættisgengi.

Embættisgengir eru þeir einir sem hafa prófessorshæfi, leiðtogahæfileika og skýra og metnaðarfulla framtíðarsýn fyrir háskólann, ríka samskiptahæfni og víðtæka reynslu af stjórnun og stefnumótun. Háskólaráð ákvarðar hvaða umsækjendur uppfylla skilyrði um embættisgengi.

3. Skipunartímabil.

Skipunartímabil rektors er fimm ár, frá 1. júlí að telja til 30. júní að fimm árum liðnum, sbr. þó 11. tölulið þessarar greinar.

4. Kjörstjórn.

Þegar umsóknarfrestur um embætti rektors er liðinn skipar háskólaráð kjörstjórn. Kjörstjórn skal skipuð sex mönnum, tveimur úr hópi stúdenta og fjórum úr hópi starfsmanna háskólans, og skal einn þeirra síðartöldu skipaður formaður kjörstjórnar. Falli atkvæði jöfn í kjörstjórn sker atkvæði formanns úr.

Verkefni kjörstjórnar er að hafa fyrir hönd háskólaráðs umsjón með gerð kjörskrár, ákveða kjördag, annast framkvæmd kosninga, úrskurða í kærumálum vegna kosninga, sjá um utankjörfundaratkvæðagreiðslu og annað er að kosningunni lýtur, svo sem nánar er kveðið á um í reglum þessum.

5. Kjörskrá.

Kjörstjórn gerir kjörseðil og gengur frá kjörskrá. Skal kjörskrá lögð fram fjórum vikum fyrir kjördag og liggja frammi í tíu daga. Kærur skulu hafa borist kjörstjórn í síðasta lagi tveimur vikum fyrir kjördag og skal úrskurður kjörstjórnar liggja fyrir eigi síðar en tíu dögum fyrir kjördag og hefst þá kosning utan kjörfundar.

Kjörseðlar skulu gerðir í fimm litum. Skal einn liturinn vera fyrir starfsfólk háskólans með háskólapróf sem er í fullu starfi, annar liturinn fyrir starfsfólk háskólans með háskólapróf sem er í hlutastarfi, þriðji liturinn fyrir stúdenta, fjórði liturinn fyrir aðra atkvæðisbæra aðila sem eru í fullu starfi og fimmti liturinn fyrir aðra atkvæðisbæra aðila sem eru í hlutastarfi, sbr. 6. tölulið þessarar greinar.

Nú uppfyllir maður skilyrði til að vera á fleiri en einni kjörskrá og ákveður kjörstjórn þá á hvaða kjörskrá hann skuli vera. Uni hann því ekki skal hann þá, eigi síðar en fyrir lok kærufrests, tveimur vikum fyrir kjördag, tilkynna kjörstjórn á hvaða kjörskrá hann hyggst vera.

Starfsmannasvið háskólans sér um að útbúa kjörskrá starfsmanna háskólans og stofnana hans. Til stofnana háskólans í grein þessari teljast þær stofnanir sem heyra undir háskólaráð, fræðasvið eða deildir háskólans samkvæmt reglum settum af háskólaráði. Enn fremur háskólastofnanir sem starfa á grundvelli sérlaga og sérstaklega er kveðið á um í samstarfssamningi að starfsmenn eigi aðild að kosningu rektors.

Kennslusvið háskólans sér um að útbúa kjörskrá stúdenta háskólans.

6. Atkvæðisréttur og vægi atkvæða.

Við rektorskjör eiga atkvæðisrétt prófessorar, dósentar, lektorar, vísindamenn, fræðimenn og sérfræðingar, skipaðir eða ráðnir í fullt starf, og aðrir þeir sem skipaðir eru eða ráðnir í fullt starf við háskólann og stofnanir hans. Starfshlutfallið 75% og hærra telst fullt starf í reglum þessum. Nú gegnir maður starfi í hlutfallinu 37 - 74% og fer hann þá með hálft atkvæði. Starfshlutfall sem er lægra en 37% veitir ekki atkvæðisrétt. Nú gegnir starfsmaður starfshlutfallinu 50% og hærra samhliða starfi á stofnun sem háskólinn hefur gert samning við um samstarf á fræðasviði og telst hann þá gegna fullu starfi.

Nú er starfsmaður, sem að framan greinir, í orlofi og annar ráðinn tímabundið í hans stað og fer hann þá með atkvæðisrétt þess sem er í orlofi. Starfsmaður sem er í fæðingarorlofi á með sama hætti atkvæðisrétt ef annar er ekki ráðinn tímabundið í hans stað. Þá eiga atkvæðisrétt allir stúdentar, sem skrásettir eru í Háskóla Íslands við upphaf kjörfundar. Atkvæði háskólakennara og sérfræðinga og annarra þeirra starfsmanna sem hafa háskólapróf, skulu gilda sem 60% greiddra atkvæða. Atkvæði stúdenta skulu gilda sem 30% greiddra atkvæða og atkvæði annarra atkvæðisbærra aðila skulu gilda sem 10% greiddra atkvæða alls. Starfsmenn háskólastofnana, sem starfa á grundvelli sérlaga og sérstaklega er kveðið á um í samstarfssamningi að eigi aðild að kosningu rektors, teljast til annarra atkvæðisbærra aðila án tillits til þess hvort þeir hafa háskólapróf.

Nú hefur einhver þeirra sem kosningarétt eiga lögmæt forföll og er honum þá heimilt að kjósa utan kjörfundar.

7. Kosning.

Rektorskjör skal fara fram eigi síðar en sex vikum eftir að umsóknarfrestur rennur út. Miða skal við að kjördagur sé sem næst 20. apríl og skal hann auglýstur tryggilega innan háskólans. Kjörfundur skal standa frá kl. 9 árdegis til kl. 18 síðdegis. Kjörstjórn ákveður nánar fyrirkomulag kjörfundar, hvort hann er í einni kjördeild eða fleirum og hvort kosning er hefðbundin eða rafræn. Um rafræna kosningu fer þá eftir verklagsreglum sem háskólaráð staðfestir. Talning atkvæða hefst þegar að kjörfundi loknum.

Sá umsækjandi telst hafa hlotið tilnefningu í embætti rektors sem hlýtur meirihluta greiddra atkvæða í almennri kosningu samkvæmt ákvæðum þessarar greinar. Ef enginn fær svo mörg atkvæði skal kjósa að nýju eftir viku um þá tvo sem flest atkvæði fengu. Séu tveir eða fleiri jafnir í öðru sæti ræður hlutkesti. Þegar kosið er um þá tvo sem flest atkvæði fengu ræður afl atkvæða. Séu atkvæði jöfn ræður hlutkesti.

Berist einungis umsókn frá einum umsækjanda sem uppfyllir skilyrði um embættisgengi telst hann sjálfkjörinn og telst hafa hlotið tilnefningu til embættis rektors.

Rektor má endurkjósa.

8. Tilnefning.

Á fyrsta fundi háskólaráðs að loknum kosningum tilnefnir ráðið til menntamálaráðherra þann umsækjanda sem fengið hefur meirihluta greiddra atkvæða.

9. Skipun.

Menntamálaráðherra skipar háskólarektor samkvæmt tilnefningu háskólaráðs.

10. Embættistaka.

Rektor tekur við embætti 1. júlí, sbr. þó 11. tölulið þessarar greinar.

11. Frávik.

Nú fellur rektor frá eða lætur af embætti, áður en skipunartími hans er liðinn, og skal þá kjósa nýjan rektor svo fljótt sem því verður við komið. Við þær aðstæður ákveður háskólaráð hvaða prófessor háskólans skuli tilnefndur til að vera settur til að gegna rektorsstörfum tímabundið. Hið sama á við ef rektor forfallast vegna veikinda eða fær leyfi frá störfum. Fari rektorskjör fram áður en skipunartími sitjandi rektors er liðinn, er hinn nýkjörni rektor kosinn til fimm ára. Það sem eftir er tímabils frá 1. júlí til 30. júní þegar hann tekur við embætti skal teljast eitt ár.

7. gr.

Starfsnefndir háskólaráðs.

Á vegum háskólaráðs og rektors starfa eftirtaldar nefndir: fjármálanefnd, gæðanefnd, jafnréttisnefnd, kennslumálanefnd, samráðsnefnd háskólaráðs um kjaramál og vísindanefnd. Um fjölda fulltrúa í nefndunum og um skipan þeirra fer eftir erindisbréfum sem háskólaráð setur. Í gæðanefnd, jafnréttisnefnd, kennslumálanefnd og vísindanefnd skal vera að minnsta kosti einn stúdent. Nefndirnar eru ráðgefandi hver á sínu sviði, en fara hvorki með framkvæmda- né ákvörðunarvald, nema sérstaklega sé kveðið á um það í erindisbréfi.

8. gr.

Sameiginleg stjórnsýsla háskólans.

Hlutverk sameiginlegrar stjórnsýslu er að skapa fræðasviðum, deildum, stofnunum og starfsfólki háskólans skilyrði til að vinna störf sín í samræmi við lög og reglur háskólans. Rektor ræður stjórnendur og aðra starfsmenn sameiginlegrar stjórnsýslu. Svið hinnar sameiginlegu stjórnsýslu eru: framkvæmda- og tæknisvið, fjármálasvið, kennslusvið, markaðs- og samskiptasvið, starfsmannasvið og vísindasvið. Kennslusvið og vísindasvið heyra undir aðstoðarrektor vísinda og kennslu og hin sviðin undir framkvæmdastjóra fjármála og reksturs. Sviðsstjórar eru fyrir hverju sviði. Rektor setur stjórnendum erindisbréf eða starfslýsingu. Þá er rektor heimilt, með samþykki háskólaráðs, að fela forsetum fræðasviða, deildarforsetum, forstöðumönnum stofnana og formönnum starfsnefnda háskólaráðs ábyrgð á verkefnum sem falla undir hina sameiginlegu stjórnsýslu. Með reglulegu millibili skal háskólaráð láta fara fram úttekt á starfsemi stjórnsýslu háskólans.

9. gr.

Hlutverk háskólaþings.

Háskólaþing er samráðsvettvangur háskólasamfélagsins þar sem fram fer umræða um þróun og eflingu Háskóla Íslands. Háskólaþing fjallar um og tekur þátt í að móta og setja fram sameiginlega vísinda- og menntastefnu háskólans að frumkvæði rektors, auk þess að veita umsögn skv. 6. mgr. 6. gr., 1. mgr. 9. gr., 1. mgr. 11. gr. og 3. mgr. 16. gr. laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla. Háskólaráð felur háskólaþingi jafnframt að fjalla um sameiginleg akademísk málefni og getur leitað umsagnar þingsins um hvaðeina sem varðar starfsemi háskólans, einstakra fræðasviða og stofnana. Háskólaráð getur einnig falið háskólaþingi umfjöllun um fagleg málefni og akademíska stefnumörkun.

Háskólaþing er ályktunarbært um þau málefni sem þingið telur að varði hag háskólasamfélagsins.

Heimilt er að skipa nefndir og starfshópa til að vinna að málum á fundum og á milli funda.

Háskólaþing tilnefnir tvo fulltrúa háskólasamfélagsins í háskólaráð, sbr. 6. gr. laga nr. 85/2008 og 3. gr. þessara reglna.

Á háskólaþingi skal taka eftirtalin mál til meðferðar og afgreiðslu eftir því sem við á hverju sinni:

1. Rektor ræðir stefnu háskólans og árangur í starfi hans.

2. Tillögur að ályktunum háskólaþings um einstök málefni sem fyrir liggja.

3. Umsagnir um reglur sem háskólaráð setur og skylt er að bera undir háskólaþing, samkvæmt ákvæðum laga um opinbera háskóla.

4. Önnur mál sem löglega eru upp borin, samkvæmt reglum um skipan og fundarsköp háskólaþings.

Rektor boðar háskólaþing og stýrir fundi eða felur öðrum stjórn hans. Háskólaþing skal halda að minnsta kosti einu sinni á hverju misseri. Æski tveir þriðju hlutar fulltrúa á háskólaþingi fundar er rektor skylt að boða til hans.

Sérstakar nánari reglur, sem háskólaráð setur, gilda um skipan og fundarsköp háskólaþings.

10. gr.

Fulltrúar á háskólaþingi.

Á háskólaþingi eiga sæti rektor, forsetar fræðasviða og deildarforsetar. Í forföllum forseta fræðasviðs tilnefnir stjórn fræðasviðs fulltrúa úr sínum röðum til þess að taka sæti á þinginu. Varadeildarforseti situr háskólaþing í forföllum deildarforseta. Þar sitja jafnframt kennarar og sérfræðingar frá fræðasviðum og stofnunum háskólans, ásamt fulltrúum stofnana sem starfa samkvæmt sérlögum eða tengjast háskólanum sérstaklega. Fulltrúar fræðasviða skulu kjörnir á þingi fræðasviðs, sbr. 22. gr. þessara reglna. Um fjölda þeirra fer eftir sérstökum reglum sem háskólaráð setur, sbr. 9. gr. og 5. mgr. þessarar greinar.

Á háskólaþingi eiga einnig sæti til tveggja ára í senn tveir fulltrúar samtaka háskólakennara kjörnir í skriflegri kosningu úr hópi félagsmanna sem ekki gegna störfum forseta og tveir fulltrúar starfsmanna við stjórnsýslu háskólans kjörnir í skriflegri atkvæðagreiðslu. Auk þess á sæti á háskólaþingi einn fulltrúi nemenda á móti hverjum fimm fulltrúum annarra aðila innan háskólans, og skulu þeir kjörnir í sérstökum kosningum til eins árs í senn.

Fulltrúar í háskólaráði, sem ekki eiga fast sæti á háskólaþingi eða eru kjörnir fulltrúar þar, eiga sæti á háskólaþingi með tillögurétt, en án atkvæðisréttar. Rektor er heimilt að kveðja til setu á háskólaþingi starfsmenn úr stjórnsýslu háskólans, formenn starfsnefnda og aðra eftir því sem þurfa þykir. Þeir hafa tillögurétt en atkvæðisrétt hafa þeir ekki.

Háskólaráð setur nánari reglur um fjölda fulltrúa sem sæti eiga á háskólaþingi og um val þeirra, sbr. 9. gr. Í reglum er jafnframt kveðið á um kosningu og setu fulltrúa annarra stofnana og samtaka á háskólaþingi en þeirra sem taldir eru í 1.- 4. mgr. svo og um atkvæðisrétt þeirra.

II. KAFLI

Fræðasvið, háskóladeildir og stofnanir.

11. gr.

Fræðasvið háskólans og deildir.

Fræðasvið eru meginskipulagseiningar Háskóla Íslands. Hvert fræðasvið um sig skiptist í deildir sem eru grunneiningar háskólans. Fræðasvið og deildir háskólans eru eftirfarandi:

Félagsvísindasvið: félags- og mannvísindadeild, félagsráðgjafardeild, hagfræðideild, lagadeild, stjórnmálafræðideild og viðskiptafræðideild.

Heilbrigðisvísindasvið: hjúkrunarfræðideild, lyfjafræðideild, læknadeild, matvæla- og næringarfræðideild, sálfræðideild og tannlæknadeild.

Hugvísindasvið: deild erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda, guðfræði- og trúarbragðafræðideild, íslensku- og menningardeild og sagnfræði- og heimspekideild.

Menntavísindasvið: íþrótta-, tómstunda- og þroskaþjálfadeild, kennaradeild og uppeldis- og menntunarfræðideild.

Verkfræði- og náttúruvísindasvið: iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild, jarðvísindadeild, líf- og umhverfisvísindadeild, rafmagns- og tölvuverkfræðideild, raunvísindadeild og umhverfis- og byggingarverkfræðideild.

Háskólaráð ákveður hlutverk, mörk og verkaskiptingu milli fræðasviða. Ennfremur skiptingu fræðasviða í deildir að fenginni tillögu fræðasviðsins.

Leita skal umsagnar háskólaþings áður en gerðar eru grundvallarbreytingar á fræðasviðaskipaninni.

12. gr.

Hlutverk, starfsemi og stjórn fræðasviða.

Innan fræðasviða fer fram kennsla, rannsóknir, stjórnun og stoðþjónusta. Fræðasvið eru sjálfstæð um fagleg og rekstrarleg málefni innan þeirra marka er sameiginlegar reglur háskólans setja. Fræðasviðum er skipað í deildir, sbr. 11. gr., sem bera faglega ábyrgð á kennslu og rannsóknum og veita kennslu í einstökum greinum í þágu annarra fræðasviða og deilda eftir því sem við verður komið.

Skipulag náms og rannsókna tekur auk þess mið af þörfum viðkomandi greinar eða námsleiðar. Til þess að mæta þeim þörfum er fræðasviði heimilt að skipta hlutum námsins á milli deilda og skipa sérstakar námsstjórnir sem fari með málefni námsins í umboði þeirra deilda sem aðild eiga að því, með sambærilegum hætti og gildir um þverfræðilegt nám, sbr. 53. og 62. gr. Nánar er fjallað um sérstaka námsskipan af þessu tagi í köflum fræðasviða eða sérreglum um þverfræðilegt nám. Fræðasvið háskólans og deildir hafa náið samstarf við sameiginlega stjórnsýslu háskólans og skulu stuðla að nánu samstarfi sín á milli til að nýta sem best mannafla, fjármuni, aðstöðu, tæki og búnað í þágu fjölbreyttrar menntunar og rannsókna.

Heimilt er með samþykki stjórnar fræðasviðs að skipa námsbrautir innan deilda og skulu þær taldar upp í viðeigandi greinum deilda í þessum reglum. Á fræðasviðum er starfrækt stjórnsýsla og stoðþjónusta samkvæmt nánari ákvörðun forseta fræðasviðs.

Forseti fræðasviðs og deildarforsetar mynda stjórn fræðasviðs. Í stjórn fræðasviðs á einnig sæti einn fulltrúi nemenda tilnefndur af samtökum nemenda á fræðasviðinu til eins árs í senn.

Stjórn fræðasviðs fjallar um sameiginleg málefni fræðasviðsins, þ.m.t. ákvarðanir deilda um námsframboð, um tillögur deilda um nýjar námsleiðir og fjöldatakmörkun fyrir hvert háskólaár ef við á. Stjórn fræðasviðs gerir tillögur til háskólaráðs um breytingar á reglum eða að nýjum reglum er varða skipulag og starfsemi sviðsins, deilda þess og stofnana, veitingu heiðursdoktorsnafnbóta og um að bjóða vísindamanni akademískt starf án auglýsingar. Stjórn fræðasviðs tekur ákvarðanir um háskólastofnanir og rannsóknastofur sem settar eru á stofn, sbr. 5. mgr. þessarar greinar og samþykktir um þjónusturannsóknir og kennslu skv. 6. mgr. þessarar greinar.

Við fræðasvið og deildir er heimilt að starfrækja sérstakar háskólastofnanir og rannsóknastofur, sem settar eru á stofn samkvæmt ákvörðun stjórnar fræðasviðs, samkvæmt nánari ákvæðum 27. gr. þessara reglna.

Deildum og stofnunum fræðasviða og deilda er heimilt, með samþykki forseta fræðasviðsins, að stunda þjónusturannsóknir og standa fyrir endurmenntun og fræðslu fyrir almenning. Stjórn hvers fræðasviðs skal gera sérstakar samþykktir um slíkar þjónusturannsóknir og endurmenntun sem háskólaráð staðfestir, sbr. 64. gr. þessara reglna.

Háskólaráð getur ákveðið að láta fara fram sérstakt mat á starfsemi fræðasviða, deilda, stofnana eða annarra skipulagseininga innan háskólans, sbr. meðal annars ákvæði 24. gr. reglna þessara.

13. gr.

Hlutverk forseta fræðasviðs.

Forseti fræðasviðs er ráðinn af rektor til fimm ára í senn samkvæmt verklagsreglum háskólaráðs og starfar í umboði hans. Hann ber ábyrgð gagnvart rektor og háskólaráði og er rektor yfirmaður hans. Forseti fræðasviðs er yfirmaður sviðsins, stýrir daglegri starfsemi og er akademískur leiðtogi þess og talsmaður innan háskólans og utan. Hann ber ábyrgð á útfærslu stefnu Háskóla Íslands á vettvangi fræðasviðs, öflugri liðsheild og faglegu samstarfi, tengslum við innlenda og erlenda samstarfsaðila, gæðum kennslu, rannsókna og þjónustu, stjórnsýslu og stoðþjónustu fræðasviðsins, fjármálum og rekstri fræðasviðs og stofnana sem undir það heyra og starfsmannamálum sviðsins.

Forseti fræðasviðs sker úr um ágreiningsmál sem upp kunna að koma innan fræðasviðsins og stofnana þess og fjallar um agamál nemenda á fræðasviðinu og önnur mál er varða brot nemenda á reglum háskólans og ákveður viðurlög, sbr. 51. gr. þessara reglna.

Forseti gerir rektor reglulega grein fyrir árangri fræðasviðsins í kennslu, rannsóknum, stjórnun, alþjóðlegu og innlendu samstarfi ásamt framlagi þess til íslensks samfélags.

Forseti fræðasviðs situr forsetafundi ásamt rektor og forsetum annarra fræðasviða. Hann ber ábyrgð á skýrslu fræðasviðsins í árbók háskólans í samráði við rektor. Forseta fræðasviðs er heimilt að skipa starfsnefndir sem eru honum til ráðgjafar, aðstoða við stefnumótun og sinna tilteknum verkefnum samkvæmt erindisbréfi.

Forseta fræðasviðs er enn fremur heimilt, í umboði rektors, að bjóða sérfróðum einstaklingi að gegna akademísku gestastarfi við deild. Um fyrirkomulag slíkra akademískra gestastarfa gilda verklagsreglur sem útfærðar eru af gæðanefnd háskólaráðs og staðfestar af háskólaráði.

Nánar er kveðið á um hæfniskröfur, ábyrgð og verkefni forseta fræðasviðs í erindisbréfi sem rektor setur.

14. gr.

Fundir stjórnar fræðasviðs.

Stjórn fræðasviðs heldur fundi eftir þörfum. Forseti fræðasviðs boðar fundi. Æski þriðjungur fulltrúa í stjórn fundar er forseta fræðasviðs skylt að boða til hans. Boða skal til stjórnarfundar bréflega eða í tölvupósti með minnst þriggja daga fyrirvara ef við verður komið. Dagskrá fundar skal fylgja fundarboði.

Forseti fræðasviðs stýrir fundum stjórnar. Hann lætur birta fundargerðir stjórnarinnar og tilkynningar um ákvarðanir hennar eftir því sem tilefni er til. Forseta fræðasviðs er heimilt að tilnefna einn deildarforseta til að stýra fundi stjórnar fræðasviðs í fjarveru forseta. Í fjarveru deildarforseta skal varadeildarforseti sitja fundi stjórnar.

Stjórn fræðasviðs er ekki ályktunarbær nema meirihluti atkvæðisbærra fulltrúa sæki fund. Ef fastur fulltrúi getur ekki sótt fund skal boða varamann hans til setu á fundinum. Afl atkvæða ræður úrslitum mála. Ef atkvæði eru jöfn sker atkvæði forseta fræðasviðs úr eða þess er gegnir fundarstjórn í fjarveru forseta.

Rita skal fundargerð þar sem ákvarðanir stjórnar fræðasviðs eru skráðar. Rekstrarstjóri fræðasviðs situr fundi stjórnar án atkvæðisréttar og ritar fundargerð. Forseti fræðasviðs skipar ritara í forföllum hans.

15. gr.

Hlutverk, starfsemi og stjórn deilda.

Háskóladeildir eru faglegar grunneiningar háskólans og starfa á vettvangi fræðasviða. Innan þeirra fer fram kennsla, rannsóknir og stjórnun. Deildir eru sjálfstæðar um eigin málefni innan þeirra marka er sameiginlegar reglur háskólans setja og bera faglega ábyrgð á háskólakennslu og námi og veitingu prófgráðu við námslok.

Hver deild fer með málefni kennslugreina sinna, ákveður námsefni og tilhögun kennslu og prófa, ákveður skiptingu kennslu milli einstakra kennara í deild og gerir tillögur til forseta fræðasviðs um ráðningu stundakennara, svo og um nauðsynlegar fjárveitingar og ný störf. Stjórn deildar er í höndum deildarfunda, deildarráðs, ef við á, og deildarforseta. Deildarfundur fer með ákvörðunarvald í öllum málefnum deildar. Í tilteknum málum eða málaflokkum er háskóladeild heimilt á fundi að framselja ákvörðunarvald til deildarráðs eða deildarforseta.

Heimilt er með samþykki stjórnar fræðasviðs að skipa deild í námsbrautir. Innan námsbrauta skulu að jafnaði vera nokkrar námsleiðir sem mynda faglega heild, sbr. 21. gr. þessara reglna.

16. gr.

Hlutverk deildarforseta.

Forseti fræðasviðs velur deildarforseta til tveggja ára í senn samkvæmt tilnefningu deildarfundar, sbr. 19. gr.

Deildarforseti ber ábyrgð gagnvart forseta fræðasviðs sem er yfirmaður hans. Forseti deildar er faglegur forystumaður deildar og ber í samráði við forseta fræðasviðs ábyrgð á mótun stefnu fyrir deild, skipulagi náms og gæðum kennslu og rannsókna, tengslum við samstarfsaðila og á því að starfsemi deildar og starfseininga hennar sé í samræmi við fjárhagsáætlun fræðasviðsins.

Deildarforseti gerir forseta fræðasviðs reglulega grein fyrir árangri deildar í kennslu, rannsóknum, stjórnun, alþjóðlegu og innlendu samstarfi ásamt framlagi deildar til íslensks samfélags.

Deildarforseti situr í stjórn fræðasviðsins ásamt öðrum deildarforsetum, fulltrúa nemenda og forseta fræðasviðsins. Hann er æðsti fulltrúi deildar gagnvart mönnum og stofnunum innan háskólans og utan. Á milli deildarfunda eða deildarráðsfunda fer deildarforseti í umboði þeirra með ákvörðunarvald í öllum málum deildarinnar. Deildarforseta er heimilt að skipa starfsnefndir sem eru honum til ráðgjafar og aðstoða við stefnumótun og sinna tilteknum verkefnum samkvæmt erindisbréfi. Hann hefur umsjón með efni deildar í skýrslu fræðasviðs í árbók háskólans í samráði við forseta fræðasviðs.

Nánar er kveðið á um ábyrgð, hlutverk og verkefni deildarforseta í erindisbréfi sem forseti fræðasviðs setur þeim í samráði við rektor.

17. gr.

Skipan deildarfundar.

Á deildarfundum eiga sæti prófessorar, dósentar, lektorar og aðjúnktar, svo og forstöðumenn rannsóknastofnana er tilheyra deildinni. Enn fremur eiga þar sæti þrír fulltrúar stúdenta í deildum, þar sem fjöldi annarra, sem rétt hafa til fundarsetu með atkvæðisrétti, er tólf eða færri, og síðan einn fulltrúi stúdenta fyrir hverja sex til viðbótar. Um val á fulltrúum stúdenta fer eftir reglum sem deildarfundur setur. Í þeim reglum skal tryggt, eftir því sem kostur er, að stúdentar í grunnnámi og í framhaldsnámi eigi aðild að deildarfundum. Deild er heimilt að fela samtökum stúdenta í deildinni ákvörðunarvald um hvernig þeir standa að vali á sínum fulltrúum.

Öllum sem sæti eiga á deildarfundi er skylt að sækja fundi.

Deildarfundi er heimilt að ákveða að sérfræðingar, fræði- og vísindamenn, sem ráðnir eru til deildar eða stofnana sem heyra undir deild, sitji deildarfundi og er deild heimilt að kveða á um hvort þeir hafi atkvæðisrétt. Deild er einnig heimilt að ákveða að gestakennarar og akademískir nafnbótarþegar svo og fulltrúar fræðasetra háskólans sem tengjast deildinni og stundakennarar sem gegna viðamikilli kennslu eigi sæti á deildarfundi, og er deild heimilt að kveða á um hvort þeir hafi atkvæðisrétt.

Forseti fræðasviðs ákveður til hvaða starfa við kennslu og stjórnun kennara er vísað, sbr. 32. gr., og í hvaða deild og námsbraut hann skuli eiga sæti. Slík ákvörðun skal tekin til að minnsta kosti eins háskólaárs í senn.

Atkvæðisrétt á deildarfundi eiga prófessorar, dósentar, lektorar og aðjúnktar sem skipaðir eru eða ráðnir í fullt starf við deildina, akademískir forstöðumenn rannsóknastofnana er tilheyra deildinni og aðrir þeir sem deild ákveður samkvæmt heimildarákvæði 3. mgr., og enn fremur fulltrúar stúdenta á deildarfundi, nema kveðið sé á um annað í reglum þessum eða öðrum reglum háskólans. Starfshlutfallið 75% og hærra telst fullt starf. Nú gegnir maður starfi í hlutfallinu 37 - 74% og fer hann þá með hálft atkvæði. Starfshlutfall sem er lægra en 37% veitir ekki atkvæðisrétt. Deild er heimilt að víkja frá þessu og ákveða að starfsmenn sem rétt eiga til setu á deildarfundi fari með fullt atkvæði án tillits til starfshlutfalls. Atkvæðisrétt eiga þeir einir sem mæta á deildarfund.

Nú er starfsmaður, sem skipaður er eða ráðinn í fullt starf, í orlofi og annar ráðinn tímabundið í hans stað og fer hann þá með atkvæðisrétt þess sem er í orlofi. Hið sama á við ef starfsmaður er í fæðingarorlofi.

Forseta fræðasviðs er heimilt að taka þátt í meðferð mála í öllum deildum hlutaðeigandi fræðasviðs, en atkvæðisrétt á hann ekki. Sömuleiðis er rektor heimilt að taka þátt í meðferð mála í öllum deildum háskólans, en atkvæðisrétt á hann ekki.

Kennari, sem rektor veitir lausn undan kennslu- og stjórnunarskyldu, sbr. ákvæði 33. gr. reglna þessara, er undan þeirri skyldu þeginn að sækja deildarfundi, enda á hann ekki atkvæðisrétt á þeim fundum meðan lausnin stendur. Kennari getur óskað eftir því að verða ekki undanþeginn þeirri skyldu að sækja deildarfundi og heldur hann þá atkvæðisrétti.

18. gr.

Deildarfundir.

Hver háskóladeild heldur fundi eftir þörfum en skylt er að boða til fundar ef rektor, forseti fræðasviðs eða þriðjungur deildarmanna, sem rétt eiga til fundarsetu, æskja þess.

Deildarforseti boðar fundi bréflega eða í tölvupósti með þriggja daga fyrirvara, ef unnt er, en einstakar háskóladeildir geta þó ákveðið annan hátt á fundarboðun. Dagskrá skal tilgreina í fundarboði. Deildarmaður skal án tafar tilkynna deildarforseta um forföll.

Deildarfundur er ályktunarbær ef meirihluti atkvæðisbærra manna sækir fund. Afl atkvæða ræður úrslitum mála. Ef atkvæði eru jöfn sker atkvæði deildarforseta úr eða þess er gegnir forsetastörfum.

Gerðir deildarfunda skulu bókfærðar og skal staðfesta þær, ef unnt er, áður en fundi er slitið, þó eigi síðar en á næsta fundi. Fundargerðir skal senda öllum sem sæti eiga á deildarfundi.

19. gr.

Kjör deildarforseta.

Hver háskóladeild tilnefnir deildarforseta og annan til vara úr hópi prófessora og dósenta deildarinnar sem gegna fullu starfi. Í deild sem skipað er í námsbrautir skulu forseti og varaforseti deildarinnar ekki vera úr sömu námsbraut. Í deild þar sem fjórir fimmtu hlutar prófessora, dósenta og lektora deildarinnar koma úr einni námsbraut er heimilt að víkja frá þessu. Deildarforseta og varaforseta skal kjósa til tveggja ára í senn. Kosning er skrifleg og skal lokið fyrir 1. febrúar á því ári sem kjörtímabil sitjandi deildarforseta rennur út og miðast upphaf kjörtímabils við 1. júlí og lok við 30. júní að tveimur árum liðnum.

Kjörgengum kennurum er skylt að taka við kosningu til deildarforsetastarfs og til starfs varadeildarforseta. Endurkjósa má deildarforseta, en rétt hefur hann til að skorast undan endurkjöri. Sá sem gegnt hefur embætti rektors, getur og skorast undan kjöri til deildarforsetastarfa næsta kjörtímabil eftir að hann lét af rektorsstörfum. Nú fellur deildarforseti frá eða lætur af störfum og skal þá kjósa deildarforseta og varaforseta fyrir þann hluta kjörtímabils, sem eftir er. Ef deildarforseti og varadeildarforseti eru báðir forfallaðir ákveður forseti fræðasviðs hvaða prófessorar eða dósentar deildarinnar eru kallaðir til að gegna störfum þeirra tímabundið.

20. gr.

Deildarráð.

Heimilt er deild að mynda stjórnarnefnd, deildarráð. Í deildarráði skulu eiga sæti auk deildarforseta varadeildarforseti, formenn námsbrauta, ef því er að skipta, og tveir fulltrúar stúdenta, kjörnir af félagssamtökum þeirra til eins árs í senn úr hópi fulltrúa stúdenta á deildarfundum. Deildir setja sér nánari reglur um fjölda fulltrúa á deildarráðsfundum. Fari fjöldi annarra fulltrúa í deildarráði yfir tólf gilda sömu reglur um fjölda fulltrúa stúdenta og á deildarfundi. Um atkvæðisrétt og vægi atkvæða í deildarráði fer eftir sömu reglum og gilda á deildarfundi.

Nýkjörið deildarráð tekur til starfa 1. júlí ár hvert.

Deildarráð heldur fundi eigi sjaldnar en einu sinni í mánuði á kennsluárinu, en ella þegar þörf krefur. Skylt er að boða deildarráðsfund ef þriðjungur atkvæðisbærra deildarmanna krefst þess. Fundi skal boða bréflega eða í tölvupósti með þriggja daga fyrirvara, ef unnt er. Dagskrá skal tilgreina í fundarboði. Deildarforseti boðar fundi og stýrir þeim, en varaforseti í forföllum hans. Fundur er ályktunarbær, ef hann sækir meirihluti atkvæðisbærra deildarráðsmanna. Afl atkvæða ræður úrslitum mála. Ef atkvæði eru jöfn sker atkvæði deildarforseta úr eða þess er gegnir forsetastörfum. Gerðir deildarráðsfunda skulu bókfærðar og skal staðfesta þær, ef unnt er, áður en fundi er slitið, þó eigi síðar en á næsta fundi. Fundargerðir skal senda öllum sem sæti eiga á deildarfundi.

Deildarráði er heimilt að fjalla um öll mál, er deildina varða, en úrslitavald hefur það aðeins í þeim málaflokkum, sem deildarfundur hefur framselt ákvörðunarvald í. Slíkt framsal skal bókað í fundargerð deildarfundar. Ætíð má þó skjóta máli til deildarfundar, ef deildarforseti eða þriðjungur atkvæðisbærra deildarráðsmanna æskir þess, og hefur þá deildarfundur úrslitavald í því máli.

Deildarforseti annast framkvæmd ákvarðana deildarráðs og deildarfundar.

21. gr.

Námsbrautir.

Heimilt er með samþykki stjórnar fræðasviðs að skipa námsbrautir innan deilda. Innan námsbrauta skulu að jafnaði vera nokkrar námsleiðir, sbr. 53. gr., sem mynda faglega heild og lýkur með prófgráðu. Formaður námsbrautar stýrir námsbraut. Kveðið er nánar á um hlutverk, ábyrgð og skyldur formanns námsbrautar í erindisbréfi sem forseti fræðasviðs setur. Rísi ágreiningur um mörk námsbrauta sker forseti fræðasviðs úr um skiptinguna. Nánar er kveðið á um skipan námsbrauta í deildum í viðeigandi köflum fræðasviða í reglum þessum.

Hver námsbraut fer í umboði deildarfundar með málefni kennslugreina sinna, ákveður námsefni og tilhögun kennslu og prófa, ákveður skiptingu kennslu milli einstakra kennara í námsbraut og gerir tillögur til deildarforseta um ráðningu stundakennara, svo og um nauðsynlegar fjárveitingar og ný störf.

Formaður námsbrautar hefur eftirlit með starfsemi námsbrautar, fylgist með starfi námsnefnda, kennsluháttum og öðru sem varðar kennslu.

Á fundum námsbrautar eiga sæti þeir starfsmenn í kennslugreinum hennar sem seturétt eiga á deildarfundi og enn fremur fulltrúar stúdenta. Um val á fulltrúum stúdenta fer eftir sömu reglum og gilda um val á fulltrúum stúdenta á deildarfundi, sbr. 17. gr. Um atkvæðisrétt og vægi atkvæða í námsbraut fer eftir sömu reglum og gilda á deildarfundi. Enginn getur átt sæti með atkvæðisrétt í tveimur námsbrautum. Forseti fræðasviðs ákveður í hvaða námsbraut kennari á sæti. Deildarforseta er heimil þátttaka í meðferð mála í hverri námsbraut, en atkvæðisrétt á hann þó aðeins í sinni námsbraut.

Hver námsbraut kýs formann og varamann hans úr hópi fastráðinna kennara við námsbrautina sem gegna fullu starfi. Kjörtímabil þeirra skal vera tvö ár. Kosning er skrifleg og skal lokið fyrir 1. febrúar á því ári sem kjörtímabil sitjandi formanns rennur út og miðast upphaf kjörtímabils við 1. júlí og lok við 30. júní. Varamaður er kjörinn á sama hátt og formaður. Sé þörf annars varamanns, skal kveðja til kjörgenga námsbrautarmenn eftir starfsaldri.

Í námsbraut eru haldnir fundir eftir þörfum. Skylt er að boða til fundar, ef deildarforseti eða þriðjungur atkvæðisbærra manna æskir þess. Formaður námsbrautar boðar fundi bréflega eða í tölvupósti með þriggja daga fyrirvara, ef unnt er, en einstakar námsbrautir geta þó haft annan hátt á fundarboðun. Fundarefni skal greina í fundarboði. Fundur er ályktunarbær, ef meirihluti atkvæðisbærra námsbrautarmanna sækir hann. Afl atkvæða ræður úrslitum mála. Ef atkvæði eru jöfn sker atkvæði formanns úr eða þess er gegnir varaformannsstörfum. Gerðir námsbrautarfunda skulu bókfærðar og skal staðfesta þær áður en fundi er slitið, ef unnt er, þó eigi síðar en á næsta fundi. Verði ágreiningur á fundi námsbrautar getur formaður námsbrautar eða formaður greinar skotið ágreiningsmálinu til úrskurðar deildar. Fundargerðir skal senda öllum sem sæti eiga á námsbrautarfundi og deildarráðsfundi.

22. gr.

Þing fræðasviðs.

Þing fræðasviðs er samráðsvettvangur þar sem fram fer umræða um innri málefni fræðasviðsins. Forseti fræðasviðs stýrir fræðasviðsþingi í umboði rektors. Háskólaráð getur leitað umsagnar þings fræðasviðs um hvaðeina sem varðar starfsemi fræðasviðsins og deilda þess og stofnana.

Þing fræðasviðs kýs fulltrúa fræðasviðsins á háskólaþing, sbr. 10. gr. þessara reglna.

Þing fræðasviðs er ályktunarbært um þau málefni sem þingfundur telur að varði hag fræðasviðsins. Ályktanir fræðasviðsþings skulu kynntar háskólaráði, rektor, forstöðumönnum háskólastofnana og öðrum er þær kunna að varða.

Ákvörðunum forseta fræðasviðs, stjórnar fræðasviðs, deildarforseta eða forstöðumanns háskólastofnunar verður ekki skotið til þings fræðasviðs.

Heimilt er að skipa nefndir og starfshópa til að vinna að málum á þingfundum og á milli funda. Þing fræðasviðs setur sér sínar eigin reglur um fundarsköp.

Á fræðasviðsþingi eiga sæti forseti fræðasviðs, deildarforsetar, varadeildarforsetar, formenn námsbrauta og forstöðumenn stofnana sem heyra til fræðasviðsins eða deilda þess og rekstrarstjóri fræðasviðsins. Þar sitja jafnframt akademískir starfsmenn deilda og stofnana fræðasviðsins sem kjörnir eru til tveggja ára í senn af viðkomandi deildum og stofnunum samkvæmt nánari reglum sem stjórn fræðasviðs ákveður. Á fræðasviðsþingi eiga einnig sæti tveir fulltrúar starfsmanna við stjórnsýslu og stoðþjónustu fræðasviðs, kjörnir til tveggja ára í senn í skriflegri atkvæðagreiðslu úr hópi þeirra. Auk þess á sæti á fræðasviðsþingi einn fulltrúi nemenda á móti hverjum fimm fulltrúum annarra aðila innan fræðasviðsins, og skulu þeir kjörnir í sérstökum kosningum til eins árs í senn.

Stjórn fræðasviðs setur nánari reglur um fjölda fulltrúa sem sæti eiga á fræðasviðsþingi og um val þeirra. Í reglum er jafnframt kveðið á um kosningu og setu fulltrúa annarra stofnana og samtaka á fræðasviðsþingi en þeirra sem taldir eru í 7. mgr. og um atkvæðisrétt þeirra. Heimilt er í þeim reglum að kveða á um að allir fastir starfsmenn fræðasviðsins hafi rétt til að sitja fræðasviðsþing og taka þátt í störfum þess. Um fjölda fulltrúa nemenda og val þeirra fer þá eftir sömu reglu og gildir um aðild nemenda að deildarfundum, sbr. 17. gr.

Kosningu eða tilnefningu fulltrúa á fræðasviðsþing skal lokið fyrir 1. mars á því ári sem skipunartími sitjandi fræðasviðsþings rennur út og miðast upphaf skipunartímabils við 1. júlí og lok við 30. júní að tveimur árum liðnum.

Forseti fræðasviðs boðar þing fræðasviðs og stýrir fundi eða felur öðrum stjórn hans. Fræðasviðsþing skal halda að minnsta kosti einu sinni á hverju ári. Æski tveir þriðju hlutar fulltrúa á fræðasviðsþingi fundar er forseta skylt að boða til hans.

23. gr.

Kennsluskrá og kennslunefndir.

Árlega skal birta kennsluskrá fyrir háskólann í heild. Kennslusvið háskólans hefur umsjón með útgáfunni en starfsmenn fræðasviða og deilda annast skráningu efnis og uppfærslu á tilheyrandi hlutum kennsluskrár. Kennslusvið skipar ritstjóra en hvert fræðasvið skipar sinn fulltrúa í ritnefnd kennsluskrár. Kennsluskráin skal unnin í sameiningu af ritstjóra, ritnefnd og tengiliðum deilda.

Í kennsluskrá skal m.a. gerð grein fyrir skipan náms á hverju fræðasviði og í hverri deild, stjórn fræðasviðs og deildar, námsleiðum, inntökuskilyrðum, námskröfum og hæfniviðmiðum, námsframvindu, hámarksnámstíma og prófgráðum, námskeiðum sem í boði eru og vægi þeirra, kennslumisserum, kennslufyrirkomulagi og kennsluaðferðum, námsefni, námsmati og prófkröfum, starfsþjálfun, æfingum og öðru því sem viðkemur náminu, eftir því sem við á.

Í kennsluskrá skal einnig birta almennar upplýsingar um inntökuskilyrði, fjöldatakmarkanir, umsóknarferli, skráningu, greiðslu gjalda, próf, einingar og einkunnir, þjónustu við stúdenta, réttindi þeirra og skyldur. Nánar skal kveðið á um efni kennsluskrár og verklag við gerð hennar í sérstökum reglum sem hákólaráð setur. Við það skal miðað að kennsluskráin sé birt á vef háskólans í mars ár hvert fyrir komandi háskólaár. Allar breytingar á kennsluskrá skal tilkynna skriflega eigi síðar en við upphaf kennslumisseris.

Við hvert fræðasvið skal starfrækja eina ráðgefandi kennslunefnd sem skipuð er formönnum kennslunefnda einstakra deilda fræðasviðsins, einum frá hverri deild, ásamt einum fulltrúa stúdenta. Forseti fræðasviðs skipar formann nefndarinnar og er hann jafnframt fulltrúi fræðasviðsins í kennslumálanefnd háskólaráðs. Kennslunefnd fræðasviðs hefur umsjón með gerð kennslustefnu fræðasviðs og fylgir henni eftir í umboði forseta sviðsins. Hún skipuleggur samráðsvettvang um kennslumál í deild, meðal kennara og stúdenta og sinnir öðrum verkefnum sem hún telur horfa til framfara í málefnum kennslu og náms. Hún skipuleggur í samráði við Kennslumiðstöð á kennslusviði háskólans, ráðgjöf og námskeið um kennslu og námsmat fyrir nýja kennara, aðstoðarkennara, stundakennara, og fasta kennara, ráðgjöf fyrir stúdenta í samvinnu við Náms- og starfsráðgjöf á kennslusviði, fylgist með kennslukönnun og hefur í samráði við stjórn fræðasviðs og forseta fræðasviðs umsjón með eftirfylgni.

Kennslunefnd fræðasviðs ber ábyrgð á því, í samstarfi við stjórnsýslu sviðsins og háskólans, að fyrir liggi upplýsingar um nám, kennslu og aðstæður í deild í samræmi við gæðaviðmið og stefnu háskólans. Hún stendur, ásamt stjórnsýslu fræðasviðs, fyrir öflun og eðlilegri miðlun upplýsinga um kennslu og nám í deildunum og fyrir uppfærslu og varðveislu kennsluferilsskráa kennara. Hún hefur umsjón með verkefnum sem tengjast reglulegu innra og ytra eftirliti með gæðum kennslu í deildum fræðasviðsins samkvæmt þeim reglum sem um það gilda á hverjum tíma.

Við hverja deild er heimilt að starfrækja ráðgefandi námsnefnd, sem jafnmargir kennarar og stúdentar eiga sæti í. Kennarar, þar með taldir stundakennarar, og stúdentar kjósa fulltrúa hvorir í sínu lagi í upphafi hvers kennsluárs. Formaður námsnefndar skal koma úr röðum fastra kennara. Hlutverk námsnefnda er að fjalla um tillögur um námsefni í hverri kennslugrein og semja umsagnir og tillögur um námsskipan og kennslufyrirkomulag greinarinnar. Deildir ákvarða nánar fjölda námsnefnda og hlutverk þeirra.

24. gr.

Mat á gæðum kennslu og rannsókna og eftirlit með því.

Innra mat á gæðum kennslu og rannsókna fer fram innan háskólans, en ytra mat er á vegum menntamálaráðuneytis skv. lögum og reglum sem um það gilda. Háskólaráð eða rektor getur þó látið fara fram ytra mat á starfsemi einstakra fræðasviða, deilda eða annarra skipulagseininga telji ráðið tilefni til þess.

Háskólaráð setur að fenginni tillögu gæðanefndar háskólaráðs formlegt gæðakerfi háskólans þar sem kveðið er á um stefnu, framkvæmd, ábyrgð, eftirlit og eftirfylgni með innra matinu.

Háskólinn birtir opinberlega og með reglubundnum hætti upplýsingar um innra matið og niðurstöður þess.

25. gr.

Háskólastofnanir.

Stofnanir háskólans heyra ýmist undir háskólaráð, fræðasvið eða háskóladeild eða lúta sérstökum lögum. Stofnun getur heyrt undir fleiri en eitt fræðasvið og fleiri en eina deild. Háskólaráð tekur ákvörðun um nýjar stofnanir og niðurlagningu starfandi stofnana og aðrar breytingar á þeim. Stjórn fræðasviðs ákveður hvort stofnun heyrir undir fræðasvið eða deild.

26. gr.

Stofnanir sem heyra undir háskólaráð.

Háskólanum er heimilt að starfrækja stofnanir á verksviði sínu sem heyra undir háskólaráð. Að öðru jöfnu skulu stofnanir sem heyra undir háskólaráð vera þjónustustofnanir. Háskólaráð setur þeim sérstakar reglur um hlutverk, aðstöðu, skipulag, stjórn, starfsfólk, fjármál og annað sem nauðsynlegt kann að reynast. Formlegt mat á rekstri og starfsemi þeirra skal fara fram með reglulegu millibili, samkvæmt nánari ákvörðun háskólaráðs.

27. gr.

Stofnanir sem heyra undir fræðasvið eða deildir.

Við fræðasvið háskólans og deildir er heimilt að starfrækja rannsóknastofnanir og rannsóknastofur sem heyra undir fræðasvið eða deild. Heimilt er að starfrækja stofnanir sem heyra undir fleiri en eitt fræðasvið eða fleiri en eina deild. Skal þá í reglum kveðið á um á hvaða fræðasviði eða í hvaða deild stofnunin er vistuð og gerður sérstakur samningur um fjárhagsábyrgð.

Hver stofnun skal lúta sérstökum reglum sem háskólaráð samþykkir. Í reglunum skal starfsemi og skipulag stofnana skilgreint nánar í samræmi við aðstæður á hverju fræðasviði og mismunandi þarfir fræðasviðanna.

Formlegt mat á rekstri og starfsemi þeirra skal fara fram með reglulegu millibili, samkvæmt nánari ákvörðun háskólaráðs.

Stofnun skal, ef við á, gera tillögu að samþykktum um þjónusturannsóknir sem háskólaráð staðfestir.

Hlutverk og skipulag rannsóknastofnana sem heyra undir fræðasvið eða deild skal vera eftirfarandi:

1. Hlutverk.

Að vera vettvangur rannsókna- og þróunarstarfs á viðkomandi fræðasviði og efla tengsl rannsókna og kennslu og sinna þjónustu við rannsóknir. Að veita nemendum í framhaldsnámi aðstöðu og búnað til rannsóknastarfa eftir því sem kostur er og veita þeim þjálfun og reynslu í vísindalegum vinnubrögðum. Að sinna þjónustuverkefnum og ráðgjöf á fagsviðinu og stuðla að sterkum tengslum háskólans við atvinnu- og þjóðlíf. Að annast útgáfustarfsemi. Kveða skal nánar á um hlutverk hverrar stofnunar í reglum hennar.

2. Aðstaða.

Háskóli Íslands veitir stofnunum fræðasviða og deilda starfsaðstöðu, svo sem húsnæði og búnað eftir því sem kostur er.

3. Stofuskipulag.

Fræðasviði er heimilt að ákveða að skipta rannsóknastofnun í faglega sjálfstæðar rannsóknastofur og getur framselt það vald til stjórnar stofnunar. Stjórn rannsóknastofnunar setur stofum starfsreglur og er heimilt að skipta þeim í einingar. Stjórn og/eða forstöðumaður stofu skal kjörinn af starfsmönnum hennar í samræmi við reglur hverrar stofnunar. Heimilt er að stofnanir sem verða að rannsóknastofum með breyttu skipulagi haldi fyrra heiti sínu.

4 Starfsmenn.

Prófessorar, dósentar og lektorar viðkomandi deildar geta haft starfsaðstöðu við stofnanir deilda ef þeir æskja þess og aðstæður leyfa. Aðrir starfsmenn eru sérfræðingar, fræðimenn og vísindamenn; stúdentar og aðstoðarmenn og annað starfsfólk sem ráðið er að stofnuninni.

5. Stjórn.

Um skipan og kjör stjórnar fer eftir reglum hverrar stofnunar. Sé ekki ráðinn forstöðumaður kemur formaður stjórnar fram fyrir hönd stofnunarinnar.

Stjórn fjallar um öll sameiginleg málefni stofnunar, ber ábyrgð á fjármálum hennar gagnvart forseta fræðasviðs, semur fjárhagsáætlun og gerir tillögu til forseta fræðasviðs um fjárveitingar og skiptingu þeirra ásamt skiptingu annarra tekna. Stjórn sker úr vafaatriðum er upp kunna að koma og varða innri starfsemi stofnunar.

Formaður stjórnar boðar stjórnarfundi bréflega eða í tölvupósti með þriggja daga fyrirvara, ef unnt er, en einstakar stofnanir geta ákveðið annan hátt á fundarboðun. Dagskrá skal tilgreina í fundarboði. Skylt er að boða stjórnarfund óski tveir eða fleiri stjórnarmenn þess, jafnframt ef rektor eða forseti fræðasviðs eða eftir atvikum deildarforseti óska þess og hafa þeir þá málfrelsi og tillögurétt á fundinum. Nú verða atkvæði jöfn á stjórnarfundi og ræður þá atkvæði formanns eða þess er gegnir formannsstörfum.

Rita skal fundargerð stjórnarfundar og skal staðfesta hana, ef unnt er, áður en fundi er slitið, þó eigi síðar en á næsta fundi. Fundargerð skal send forseta fræðasviðs og deildarforseta þar sem við á.

6. Ráðning starfsfólks.

Um ráðningu í störf fer eftir ákvæðum 8. og 17. gr. laga um opinbera háskóla og III. kafla reglna þessara.

Í reglum stofnunar skulu vera ákvæði um daglega stjórnun hennar. Í þeim tilvikum að ráðinn er forstöðumaður annast hann daglegan rekstur stofnunar. Hann sér um framkvæmd þeirra mála sem stjórn felur honum. Forseti fræðasviðs, að höfðu samráði við rektor, setur forstöðumanni erindisbréf þar sem nánar er kveðið á um verksvið hans. Forstöðumaður skal að jafnaði hafa meistaragráðu eða annað sambærilegt háskólapróf. Forstöðumaður á sæti á stjórnarfundum og hefur þar málfrelsi og tillögurétt.

7. Tekjur, reikningshald og þjónusta.

Tekjur stofnana sem heyra undir fræðasvið eða deildir geta verið eftirfarandi:

7.1 Framlag úr ríkissjóði.

7.2 Framlag frá háskólaráði, viðkomandi fræðasviði eða deild.

7.3 Styrkir til einstakra verkefna.

7.4 Tekjur af þjónustustarfsemi.

7.5 Tekjur af útgáfustarfsemi.

7.6 Aðrar tekjur sem stofnun kann að hafa áskotnast.

Reikningshald stofnana skal vera hluti af reikningshaldi Háskóla Íslands. Fjárhagsáætlun og uppgjör skulu borin undir forseta fræðasviðs og ber að leggja fram og kynna í stjórn fræðasviðs og á deildarfundi ef við á. Um stjórnunar- og aðstöðugjald af sértekjum fer eftir ákvæðum 73. gr. þessara reglna.

Veiti stofnun þjónustu í samkeppni við aðra aðila skal sú starfsemi stofnunarinnar afmörkuð frá öðrum rekstri og falla undir sérstakt þjónustusvið innan stofnunarinnar. Skal það vera fjárhagslega aðskilið frá öðrum rekstri stofnunarinnar og þess gætt að rekstur þess sé ekki niðurgreiddur með öðrum tekjum, í samræmi við ákvæði samkeppnislaga.

8. Ársfundur.

Stjórn efnir til ársfundar með starfsmönnum stofnunar þar sem ársskýrsla er lögð fram. Ársfundur er jafnframt vettvangur umræðu um rekstur og starfsemi stofnunar, nýjungar í vísindum og tækni ásamt umræðu um rannsóknastefnu. Á ársfundi, sem að jafnaði skal haldinn á haustmánuðum, skal kynna fjárhagsáætlun næsta árs.

III. KAFLI

Háskólakennarar og sérfræðingar.

28. gr.

Akademískir starfsmenn.

Akademískir starfsmenn háskólans eru prófessorar, dósentar og lektorar. Heimilt er að ráða til háskólans eða stofnana hans fólk til vísinda- eða fræðistarfa án kennsluskyldu. Skulu starfsheiti þeirra vera vísindamaður, fræðimaður og sérfræðingur.

Þar sem rætt er um akademíska starfsmenn í þessum kafla án nánari tilgreiningar er jafnframt átt við sérfræðinga, fræðimenn og vísindamenn, nema sérstaklega sé kveðið á um annað.

29. gr.

Ákvörðun um ráðningu.

Rektor staðfestir ráðningu prófessora, dósenta, lektora, vísindamanna, fræðimanna og sérfræðinga sem ráðnir eru ótímabundið. Forseti fræðasviðs, í umboði rektors, ræður þá akademísku starfsmenn sem ráðnir eru tímabundið við fræðasvið og stofnanir sem heyra undir fræðasvið, auk aðjúnkta og stundakennara. Forseta fræðasviðs er ekki heimilt að framselja þetta ákvörðunarvald. Forseti fræðasviðs setur verklagsreglur um undirbúning ráðningar stundakennara.

Engan má ráða í starf prófessors, dósents, lektors, vísindamanns, fræðimanns eða sérfræðings án þess að meirihluti dómnefndar hafi talið hann uppfylla lágmarksskilyrði til að gegna viðkomandi starfi. Lágmarksskilyrðin eru skilgreind í þessum reglum á grundvelli matsreglna Háskóla Íslands í reglum um framgang kennara og sérfræðinga við Háskóla Íslands sem háskólaráð setur.

Áður en tekin er ákvörðun um ráðningu skulu umsóknir teknar til umfjöllunar í valnefnd í samræmi við ákvæði 44.-46. gr. reglna þessara. Ekki er skylt að leita umsagnar valnefndar áður en ráðið er í starf sem undanþegið er auglýsingaskyldu skv. 36. gr. Rektor og forseta fræðasviðs er ávallt heimilt að leita slíkrar umsagnar.

30. gr.

Hlutastörf.

Heimilt er að ráða prófessora, dósenta, lektora, vísindamenn, fræðimenn og sérfræðinga í hlutastarf (þ.e. með starfshlutfall á bilinu 20-74%) að fræðasviðum, deildum og stofnunum háskólans.

Rektor er heimilt með samningi að tengja starf kennara tilteknu starfi utan háskólans eða starfi við stofnanir hans. Heimild þessi gildir án tillits til þess hvert starfsheiti kennara er.

Um auglýsingu hlutastarfa fer skv. 35. og 36. gr. reglna þessara.

Laun starfsmanna í hlutastarfi fara eftir kjarasamningum viðkomandi stéttarfélags og fjármálaráðherra. Fyrirkomulag launagreiðslna vegna kennarastarfa sem tengd eru ákveðnum fyrirtækjum eða stofnunum er samkomulagsatriði milli viðkomandi fyrirtækis eða stofnunar og rektors eða forseta fræðasviðs.

Í samningi skv. 2. mgr. skal kveðið á um starfsskyldur og réttindi starfsmannsins við háskólann, hvar hann nýtur starfsaðstöðu og um starfslok hans, þ. á m. hvernig fari með starf hans hjá háskólanum hætti hann störfum hjá fyrirtæki eða stofnun áður en samningstímabilið er á enda.

Um ráðningar í hlutastörf gilda sömu reglur og ráðningar í fullt starf nema annað leiði af lögum eða reglum þessum.

31. gr.

Ráðning.

Upphafleg ráðning í starf prófessors, dósents, lektors, vísindamanns, fræðimanns eða sérfræðings við Háskóla Íslands skal að öllu jöfnu vera tímabundin og til fimm ára, hvort sem um er að ræða fullt starf eða hlutastarf. Þegar sérstaklega stendur á er heimilt að framlengja tímabundna ráðningu um allt að tvö ár fram yfir fimm ára markið.

Rektor getur þó ákveðið að upphafleg ráðning í starf kennara eða sérfræðings sé tímabundin til skemmri tíma en fimm ára eða ótímabundin, enda hafi fræðasvið eða deild rökstudda ástæðu til þess að víkja frá meginreglu 1. mgr.

Starfsmaður öðlast ekki sjálfkrafa rétt til ótímabundinnar ráðningar að lokinni tímabundinni ráðningu. Forseti fræðasviðs, að fengnu áliti valnefndar deildar, veitir rektor umsögn um hvort árangur í rannsóknum, kennslu og öðrum störfum sé í samræmi við þær kröfur sem gerðar voru við ráðningu. Veita skal starfsmanni 14 daga frest til þess að tjá sig um umsögn forseta. Rektor tekur ákvörðun um það að fenginni tillögu forseta fræðasviðs hvort ráðning verður ótímabundin. Stjórnir stofnana sem heyra undir háskólaráð og námstjórnir fara með hlutverk valnefndar deildar þegar um er að ræða störf við stofnanir eða þverfræðilegar námsleiðir.

Háskólaráð setur verklagsreglur um hvernig standa skuli að mati á störfum starfsmanna með tímabundna ráðningu.

32. gr.

Starfsskyldur.

Starfsskylda kennara við háskólann skiptist í þrjá meginþætti: rannsóknir, kennslu og stjórnun. Starfsskylda starfsmanns sem eingöngu er ráðinn til vísinda- og fræðistarfa skiptist í rannsóknir og stjórnun. Háskólaráð setur nánari reglur um starfsskyldur akademískra starfsmanna við Háskóla Íslands. Heimilt er í þeim reglum að kveða á um að starfsmaður sem er ráðinn til vísinda- og fræðistarfa skuli sinna ákveðinni kennslu. Forseti fræðasviðs, í samráði við deildarforseta, ákveður hvernig starfsskyldur einstakra kennara eða þeirra sem eru ráðnir til vísinda- og fræðistarfa skiptast innan marka almennra reglna. Hann ákveður enn fremur til hvaða starfa við kennslu og stjórnun kennara er vísað.

33. gr.

Rannsóknamisseri.

Rektor er heimilt, að fenginni umsögn forseta fræðasviðs, að veita kennara undanþágu frá kennslu- og stjórnunarskyldu í eitt til tvö misseri í senn, til þess að gera honum kleift að verja þeim hluta vinnutíma síns til rannsóknastarfa í samræmi við reglur sem háskólaráð setur um starfsskyldur kennara og sérfræðinga við Háskóla Íslands. Kennslu- og stjórnunarskylda á starfstíma kennarans, að meðtöldum þeim tíma sem hann nýtur undanþágu frá kennslu- og stjórnunarskyldu, skal þó eigi vera lægri en 50% af heildarvinnutíma hans. Framangreind undanþága er einungis veitt hafi kennari staðið fullnægjandi skil á kennslu- og rannsóknaskýrslu og náð tilteknu lágmarki stiga í samræmi við ákvæði reglna sem háskólaráð setur, sbr. 1. málsl.

Í umboði rektors er forseta fræðasviðs heimilt að veita kennara leyfi frá störfum á kennslutíma í allt að þrjár vikur, svo kennari geti farið utan til að taka þátt í ráðstefnu eða sinna öðrum störfum, enda sé sýnt að leyfisveitingin bitni ekki á kennslu hans. Sé óskað lengra leyfis tekur forseti ákvörðun um það og sendir rektor erindið ásamt umsögn sinni um það af hverju leyfið er veitt.

34. gr.

Skilgreining starfs.

Deild eða stofnun gerir tillögu til forseta fræðasviðs um skilgreiningu starfs í samræmi við stefnu deildar, fræðasviðs og háskólans. Þetta verkefni er falið deildarráði eða valnefnd deildar í umboði þess, stjórn stofnunar eða námsstjórn þverfræðilegrar námsleiðar. Skilgreining starfs skal ganga út frá einu tilteknu starfsheiti skv. 28. gr. og skal liggja fyrir áður en starf er auglýst. Skýrt þarf að koma fram í auglýsingu hvaða hæfniskröfur farið er fram á að umsækjendur um starfið uppfylli, m.a. með tilliti til fræðasviðs og prófgráða. Í auglýsingu skal koma fram á hvaða sviði starfið á að vera. Gera skal kröfu um að umsækjendur hafi doktorspróf á viðkomandi fræðasviði, nema að deild eða stofnun telji að því verði ekki við komið.

Starfsmaður er ráðinn til tiltekins fræðasviðs, tiltekinnar deildar við fræðasvið eða stofnunar. Rektor og forseta fræðasviðs er heimilt að breyta skilgreiningu starfsins í krafti stjórnunarheimilda.

35. gr.

Auglýsing.

Laus störf háskólakennara og þeirra sem eru ráðnir til vísinda- og fræðistarfa eru auglýst á starfatorgi fjármálaráðuneytis.

Að jafnaði skal starf auglýst þannig að umsóknarfrestur sé fjórar vikur frá birtingu auglýsingar.

Til þess að tryggja að háskólinn eigi völ á sem hæfustum starfskröftum skal auglýsa laus störf á alþjóðlegum vettvangi og í innlendum dagblöðum eftir því sem ástæða er til. Starfsmannasvið skal annast allar auglýsingar bæði á innlendum og erlendum vettvangi.

Allar upplýsingar um laus störf hjá háskólanum skulu vera aðgengilegar á háskólavefnum.

36. gr.

Undantekningar frá auglýsingaskyldu.

Ekki er skylt að auglýsa starf, ef um er að ræða tímabundna ráðningu til afleysinga til tólf mánaða eða skemur, eða ef um er að ræða hlutastarf, þannig að starfið telst ekki vera aðalstarf í skilningi laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Ef ráðið er til afleysinga til tólf mánaða eða skemur er ekki heimilt að framlengja ráðninguna án auglýsingar í samræmi við reglur þessar.

Starf er ekki auglýst þegar um er að ræða framgang eða tilflutning á milli starfsheita samkvæmt ákvæðum laga um opinbera háskóla eða reglna þessara, sbr. 38.- 39. gr.

Starf er ekki auglýst þegar rektor býður akademískum starfsmanni, samkvæmt tillögu fræðasviðs og með samþykki háskólaráðs í samræmi við 2. mgr. 17. gr. laga nr. 85/2008, um opinbera háskóla, að taka við akademísku starfi við skólann.

Þá er heimilt að undanþiggja auglýsingu störf sem byggja á sérstökum tímabundnum styrkjum, störf sem tengjast sérstökum tímabundnum verkefnum, störf sem nemendur gegna við háskólann samhliða rannsóknatengdu framhaldsnámi og störf við háskólann sem tengjast tilteknu starfi utan hans á grundvelli samstarfssamnings, sbr. 2. mgr. 30. gr. reglna þessara.

Óheimilt er að taka ákvörðun um ráðningu í starf við Háskóla Íslands á grundvelli undanþágu frá auglýsingaskyldu skv. 4. mgr. nema öll eftirfarandi atriði eigi við:

a) Starfið er á vettvangi háskóladeildar eða stofnunar, sem skilgreint hafi það með tilliti til meginreglna um hæfniskröfur og starfsskyldur.

b) Starfið er tímabundið og lengst til fimm ára eða til tveggja ára ef um framlengingu á tímabundinni ráðningu er að ræða, sbr. 31. gr.

c) Að fjárhagslegur grundvöllur starfsins sé tryggður og starfsaðstaða sem það krefst.

d) Fyrir liggi að fræðasvið, deild eða stofnun hafi rökstudda ástæðu fyrir því að undanþiggja starfið auglýsingu, sbr. 4. mgr.

e) Fyrir liggi hæfnisdómur dómnefndar þegar í hlut á starf prófessors, dósents, lektors, sérfræðings, fræðimanns eða vísindamanns.

37. gr.

Umsóknir og meðferð þeirra.

Umsóknir um starf eiga að berast vísindasviði Háskóla Íslands. Æskilegt er að umsókn og umsóknargögn séu á rafrænu formi. Umsókn og umsóknargögnum sem ekki er skilað rafrænt skal skila í tvíriti. Að umsóknarfresti liðnum staðfestir vísindasvið móttöku umsóknar.

Umsækjendur skulu láta fylgja umsókn sinni vottorð um námsferil sinn og störf, ritaskrá, skýrslu um vísindastörf og önnur störf sem þeir hafa unnið og greinargerð um áform ef til ráðningar kemur.

Í umsókn skal koma fram hver ritverka sinna, allt að átta talsins, umsækjandi telur veigamest með tilliti til þess starfs sem um ræðir. Umsækjandi sendir eingöngu þessi ritverk sín með umsókn. Þegar fleiri en einn höfundur stendur að innsendu ritverki skulu umsækjendur gera grein fyrir framlagi sínu til verksins. Enn fremur er ætlast til þess að umsækjendur láti fylgja með umsagnir um kennslu- og stjórnunarstörf sín, eftir því sem við á.

38. gr.

Framgangur kennara og sérfræðinga á milli starfsheita.

Rektor er heimilt, án auglýsingar, að flytja lektor í dósentsstarf, dósent í prófessorsstarf, sérfræðing í starf fræðimanns og fræðimann í starf vísindamanns, enda liggi fyrir álit dómnefndar um að viðkomandi uppfylli lágmarksskilyrði til að gegna starfinu.

Umsókn skal lögð fram hjá forseta viðkomandi fræðasviðs, sem sendir rektor hana ásamt greinargerð deildar um hvort skipa skuli dómnefnd um hæfi umsækjanda. Við mat deildar skal líta til rannsóknavirkni, kennslustarfa, stjórnunar og annarrar starfsreynslu.

Umsókn um framgang skal uppfylla sömu kröfur og gerðar eru til umsókna um laus störf samkvæmt reglum þessum, sbr. 37. gr. Dómnefnd er þó heimilt að takmarka umfjöllun sína við þau umsóknargögn sem lúta að störfum umsækjanda frá því hann var síðast metinn af dómnefnd. Dómnefnd gefur út rökstutt álit um það hvort umsækjandi uppfylli skilyrði til að fá umbeðinn framgang eða ekki. Dómnefnd getur leitað umsagnar sérfræðinga á hlutaðeigandi fræðasviði.

Álíti rektor að umsækjandi hafi ekki sinnt starfsskyldum sínum með þeim hætti að til greina komi að veita honum umbeðinn framgang er honum heimilt að hafna umsókninni án þess að skipa dómnefnd til að meta hæfi umsækjanda. Að öðrum kosti gengur mál til dómnefndar, sbr. 40. gr.

Hafi umsækjandi á síðustu fimm árum verið talinn uppfylla lágmarksskilyrði til að gegna sambærilegu starfi og því sem hann óskar eftir að flytjast í er rektor heimilt að veita framganginn. Þessi heimild gildir einnig um ráðningar samkvæmt 1. mgr. 29. gr. reglna þessara ef umsækjandi er einn.

Háskólaráð setur reglur um framgang og skal þar m.a. kveðið á um lágmarksrannsóknavirkni og árangur í starfi fyrir hvert starfsheiti og hvern starfsþátt.

39. gr.

Flutningur sérfræðinga, fræðimanna og vísindamanna í kennarastörf.

Rektor er heimilt, að undangengnu samkomulagi viðkomandi deildar og stofnunar og í samráði við forseta fræðasviðs, að flytja sérfræðinga, fræðimenn og vísindamenn í starf lektors, dósents og prófessors, enda hafi þeir þá kennslu- og stjórnunarskyldu í deild.

Ef sérfræðingur er fluttur í starf lektors, fræðimaður í starf dósents eða vísindamaður í starf prófessors og ekki liggur fyrir dómnefndarálit, þar sem fjallað er um kennslu viðkomandi starfsmanns, ber kennslumálanefnd að gefa rektor umsögn um færni viðkomandi til kennslustarfa.

40. gr.

Skipan og málsmeðferð dómnefnda.

Rektor skipar fimm fastar dómnefndir til þess að meta hvort umsækjendur um laus störf og framgang uppfylla lágmarksskilyrði fyrir því starfsheiti sem í hlut á. Skal ein dómnefnd skipuð fyrir hvert af fræðasviðum háskólans til þess að fjalla um öll ráðningar- og framgangsmál á viðkomandi sviði þar sem hæfnisdóms er krafist. Fastar dómnefndir eru skipaðar til þriggja ára í senn.

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er rektor heimilt að fallast á beiðni um skipun sérstakrar dómnefndar við mat á umsækjendum um einstakt kennara- eða sérfræðingsstarf, mæli sérstök rök með því.

Dómnefndir skulu skipaðar þremur mönnum á grundvelli tilnefninga og skal þess gætt að í þeim sitji bæði karlar og konur. Í því skyni skal þess farið á leit við tilnefningaraðila að þeir tilnefni hverju sinni bæði karl og konu til dómnefndarstarfa.

Um fastar dómnefndir gildir að háskólaráð tilnefnir tvo fulltrúa í hverja fasta dómnefnd, karl og konu, formann og varaformann. Varamenn þeirra skulu skipaðir með sama hætti. Þriðji nefndarmaðurinn er sérfræðingur á viðkomandi sviði, tilnefndur af viðkomandi deild eða stofnun, sem skipaður er sérstaklega til þess að fara með hvert ráðningarmál.

Um sérstakar dómnefndir gildir að háskólaráð tilnefnir tvo nefndarmenn og deild sú eða stofnun sem starfið er við hinn þriðja og skal hann jafnframt vera formaður nefndarinnar.

Að minnsta kosti einn af þeim sem skipaður er í dómnefnd skal vera starfandi utan Háskóla Íslands.

Rektor sendir umsækjendum tilkynningu um það hverjir skipaðir hafa verið í dómnefnd.

Í dómnefnd má skipa þá eina sem lokið hafa doktorsprófi eða hliðstæðu prófi úr háskóla, nema því verði ekki við komið. Formaður fastrar dómnefndar skal hafa verið metinn hæfur til að gegna starfi prófessors. Formaður dómnefndar sem skipuð er sérstaklega skal hafa verið metinn hæfur til að gegna sambærilegu starfi og dómnefnd fjallar um. Rektor er þó heimilt að víkja frá þessu hæfisskilyrði fyrir formann dómnefndar sem skipuð er sérstaklega, ef sá sem skipaður er telst viðurkenndur sérfræðingur á sínu sviði, hefur lokið doktorsprófi og augljóst má telja að hann uppfylli að öðru leyti þær lágmarkskröfur sem gerðar eru til háskólakennara. Ekki er heimilt að skipa mann í dómnefnd sem á sama tíma hefur sótt um framgang og niðurstaða framgangsmálsins liggur ekki fyrir.

Um sérstakt hæfi dómnefndarmanna fer eftir ákvæðum II. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Nánari ákvæði um störf dómnefnda skulu tekin upp í verklagsreglur sem háskólaráð staðfestir, m.a. varðandi fresti við meðferð ráðningarmála.

Rektor ræður ritara dómnefnda. Hlutverk hans er að aðstoða dómnefndir og gæta þess að störf þeirra séu í samræmi við stjórnsýslulög, lög um opinbera háskóla, reglur þessar sem og önnur lög og reglur er við eiga. Honum ber sérstaklega að gæta þess að dómnefndir starfi í samræmi við þau tímamörk sem kveðið er á um í reglum þessum og verklagsreglum staðfestum af háskólaráði.

Ritari dómnefndar undirbýr umfjöllun um umsóknir og tryggir að öll viðhlítandi umsóknargögn og eftir atvikum staðfestingar og vottorð liggi fyrir þegar dómnefnd fjallar um mál fyrsta sinni. Formaður dómnefndar stýrir starfi hennar og skiptir verkum með dómnefndarmönnum.

Dómnefnd er heimilt að afla frekari gagna um umsækjendur telji hún þau nauðsynleg til að leggja mat á hæfi þeirra. Gæta ber jafnræðis milli umsækjenda. Dómnefnd er heimilt að leita eftir skriflegum umsögnum frá sérfræðingum um tiltekin verk eða störf umsækjenda almennt. Komi fram í gögnum, sem dómnefnd aflar, upplýsingar sem hún telur vera umsækjanda í óhag skal kynna honum efni þeirra, frá hverjum þær koma og veita honum tækifæri til þess að tjá sig um þær.

Eftir að dómnefnd hefur vinnu við mat á umsóknum er nefndinni ekki skylt að taka við frekari umsóknargögnum, nema þau séu til að votta gögn sem fylgdu umsókn. Dómnefnd skal hraða meðferð hvers máls eftir föngum og ber nefndinni að skila rektor eða forseta fræðasviðs, ef hann veitir starfið, drögum að áliti sínu innan 30 daga frá því að öll gögn lágu fyrir. Ef fyrirsjáanlegt er að störf dómnefndar muni dragast fram yfir framangreindan frest ber henni að senda umsækjendum tilkynningu um það, þar sem greint er frá því hverjar eru ástæður tafanna og hvenær vænta megi þess að dómnefnd ljúki störfum. Gangi sú áætlun ekki eftir ber að senda tilkynningu á nýjan leik. Dómnefnd skal senda rektor eða eftir atvikum forseta fræðasviðs afrit af framangreindum bréfum. Ritari dómnefndar hefur eftirlit með því að dómnefndir sendi framangreindar tilkynningar.

41. gr.

Mat dómnefndar á umsækjendum.

Þeir sem hljóta akademískt starf við háskólann eða stofnun hans skulu hafa lokið meistaraprófi hið minnsta eða hafa jafngilda þekkingu og reynslu að mati dómnefndar. Þeir skulu jafnframt hafa sýnt þann árangur í starfi að þeir njóti viðurkenningar á viðkomandi sérsviði. Gera skal kröfu um að umsækjendur hafi doktorspróf á viðkomandi fræðasviði, nema að deild eða stofnun telji að því verði ekki við komið, sbr. 1. mgr. 34. gr. reglna þessara.

Í dómnefndaráliti skal rökstutt hvort ráða megi af ritum og rannsóknum umsækjanda svo og af námsferli hans og störfum, að hann uppfylli lágmarksskilyrði til þess að gegna hinu auglýsta starfi á hlutaðeigandi fræðasviði, sbr. 1. mgr. og skilyrði sem tilgreind eru í auglýsingu. Sá sem uppfyllir fyrrnefnd lágmarksskilyrði telst hæfur til þess að gegna starfinu.

Dómnefnd er heimilt að styðjast við eldri dómnefndarálit um umsækjanda að því tilskildu að þau séu ekki eldri en fimm ára gömul. Ef vitnað er til eldra dómnefndarálits ber að birta þá tilvitnun í dómnefndarálitinu og skal dómnefnd taka rökstudda afstöðu til þess sem þar greinir.

Að teknu tilliti til menntunar skal mat byggjast á eftirfarandi starfsþáttum: rannsóknum, kennslu og stjórnun.

Dómnefnd skal m.a. byggja mat sitt á umsækjanda á matsreglum Háskóla Íslands. Þá ber dómnefndinni að taka mið af skilgreiningu á því starfi sem auglýst hefur verið, sbr. 34. gr. reglna þessara, eða umsækjandi óskar eftir að flytjast í.

Ef umsækjandi uppfyllir augljóslega lágmarksskilyrði til þess að gegna hinu auglýsta starfi, t.d. ef fyrir liggur eldra dómnefndarálit eða annað mat sem dómnefnd telur fullnægjandi þarf dómnefnd ekki að framkvæma nánara mat hvað hann varðar. Að öðru leyti skulu eftirfarandi sjónarmið lögð til grundvallar við matið:

1. Við mat á rannsóknum skal leggja megináherslu á vísindagildi þeirra. Við það mat ber að athuga frumleika rannsóknarverkefnis og sjálfstæði gagnvart öðrum rannsóknum og ritverkum, þekkingu á stöðu rannsókna á viðkomandi fræðasviði, meðferð heimilda og vísindaleg vinnubrögð, fræðilegar nýjungar og eftir atvikum notagildi rannsókna. Kennslurit og önnur hugverk geta haft vísindagildi að því marki sem þau uppfylla þessar kröfur. Í fyrsta lagi skulu metin rit, bækur og ritgerðir, sem hafa verið gefin út eða samþykkt til birtingar í viðurkenndum tímaritum, innlendum eða erlendum, og hlotið hafa faglegt mat. Í öðru lagi er höfð hliðsjón af álitsgerðum og áfangaskýrslum sem umsækjandi hefur sent frá sér í frágenginni mynd. Í þriðja lagi er heimilt að taka tillit til verka í vinnslu.

2. Við mat á kennsluframlagi ber öðru fremur að athuga hversu mikla alúð umsækjandi hefur lagt við kennslustörf sín, svo sem við samningu kennsluefnis og leiðbeininga, fjölbreytni og nýjungar í kennsluaðferðum. Eins skal líta til frumkvæðis í uppbyggingu og endurbótum á tilhögun kennslu viðleitni til að hvetja nemendur til sjálfstæðra og fræðilegra vinnubragða.

3. Við framgang skal fara eftir reglum nr. 863/2001, um framgang kennara, sérfræðinga og fræðimanna við Háskóla Íslands. Framgangsreglurnar ber einnig að hafa til hliðsjónar þegar umsækjendur um auglýst störf eru metnir, en við nýráðningu skal þó ekki gera kröfu um lágmarksstig fyrir kennslu, sbr. 4. gr. áðurnefndra framgangsreglna. Þá er dómnefnd heimilt að hafa til hliðsjónar þau gögn sem kunna að vera til um umsækjendur í vörslu háskólans og snerta starfshæfni og vinnuframlag.

4. Meta skal stjórnunarreynslu jafnt innan háskóla sem utan.

5. Dómnefnd er auk þess heimilt að líta til annarrar starfsreynslu umsækjenda sem telja má að nýst geti við það starf sem sótt er um.

42. gr.

Dómnefndarálit.

Í upphafi dómnefndarálits skal dómnefnd gera grein fyrir þeim forsendum og gögnum sem hún byggir á í mati sínu á umsækjendum og vinnubrögðum sínum við mat á þeim. Í álitinu skal koma fram hvaða gagna dómnefnd hefur aflað um umsækjendur.

Dómnefnd skal eingöngu láta uppi rökstutt álit um hvort umsækjandi telst á grundvelli sjónarmiða sem fram koma í 41. gr. uppfylla lágmarksskilyrði á hlutaðeigandi fræðasviði til að gegna hinu auglýsta starfi eða því starfi sem hann óskar eftir að flytjast í. Dómnefnd er óheimilt að forgangsraða umsækjendum um auglýst störf. Álit dómnefndar eða meirihluta hennar skal vera afdráttarlaust hvort hún telji umsækjanda uppfylla lágmarksskilyrðin eða ekki. Sé ágreiningur innan dómnefndar skulu atkvæði greidd sérstaklega fyrir hvern umsækjanda og ber hverjum dómnefndarmanni að taka afstöðu. Minnihluta er heimilt að gera grein fyrir afstöðu sinni með rökstuddu séráliti. Sé dómnefnd á einu máli skal hún skila einu áliti.

Í áliti dómnefndar um að umsækjandi uppfylli lágmarksskilyrðin felst það eitt að hann komi til álita við val í starfið.

43. gr.

Meðferð dómnefndarálits og afgreiðsla máls.

Dómnefnd ber að senda rektor, eða eftir atvikum forseta fræðasviðs ef hann veitir starfið, álit sitt dagsett og undirritað af öllum dómnefndarmönnum, ásamt ferils- og ritaskrá. Um leið og dómnefnd sendir drög að dómnefndaráliti skulu öll umsóknargögn ganga til valnefndar.

Telji rektor eða forseti fræðasviðs að drög dómnefndarálits séu ekki í samræmi við lög, eða að málsmeðferð dómnefndar samrýmist ekki lögum ber honum að senda álitið aftur til dómnefndar og skal hún þá bæta úr þeim ágöllum. Í bréfi til dómnefndar skal greina frá því að hvaða leyti störfum nefndarinnar er ábótavant. Sendi rektor eða forseti fræðasviðs dómnefndarálit aftur til nefndar ber að tilkynna það umsækjendum.

Senda skal hverjum umsækjanda dómnefndarálitið í heild. Gefa skal umsækjendum kost á að gera skriflegar athugasemdir við álitið áður en það er sent valnefnd deildar til meðferðar. Umsækjendur hafa 7 daga frest til að gera athugasemdir. Telji rektor eða forseti fræðasviðs athugasemdirnar gefa tilefni til er heimilt að bera þær eða hluta þeirra undir dómnefnd og einnig að óska eftir nánari skýringum á ákveðnum atriðum. Athugasemdir umsækjenda og eftir atvikum fyrirspurn rektors eða forseta fræðasviðs og svar dómnefndar skulu fylgja áliti nefndarinnar þegar það er sent til valnefndar deildar.

Dragi umsækjandi umsókn sína til baka, áður en dómnefndarálitið er sent til valnefndar, á hann rétt á að ekki verði fjallað um hann í áliti dómnefndar, enda fari hann fram á það með skriflegum hætti. Eftir framangreint tímamark verður dómnefndaráliti ekki breytt af þessu tilefni. Þegar dómnefndarálit hefur verið sent til valnefndar telst það endanlegt og fullfrágengið.

44. gr.

Skipan valnefnda.

Í hverri deild skal starfa valnefnd, skipuð af forseta viðkomandi fræðasviðs. Hlutverk hennar er að fara yfir umsóknir um akademísk störf við fræðasvið eða deildina og stofnanir sem undir deildina eða viðkomandi fræðasvið heyra og veita forseta fræðasviðs eða eftir atvikum rektor umsögn um umsækjendur áður en tekin er ákvörðun um ráðningu. Þegar um er að ræða störf við stofnanir sem heyra undir háskólaráð fer stjórn viðkomandi stofnunar með hlutverk valnefndar. Námsstjórnir fara með hlutverk valnefndar þegar í hlut eiga störf við þverfræðilegar námsleiðir. Sé starf við fræðasvið ekki tengt einni ákveðinni deild ákveður forseti fræðasviðs hvaða valnefnd fær ráðningarmálið til meðferðar.

Í valnefnd deildar skulu sitja fimm menn. Í valnefnd má skipa þá eina sem lokið hafa doktorsprófi eða hliðstæðu prófi úr háskóla, nema því verði ekki við komið. Æskilegt er að meirihluti valnefndar hafi hæfi prófessors. Í valnefndum skulu sitja bæði karlar og konur og skal þess gætt að hlutfall kynjanna sé ekki minna en 40%, sbr. 15. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Í þessu skyni skulu tilnefningaraðilar tilnefna tvo fulltrúa, karl og konu. Varadeildarforseti er varamaður deildarforseta í valnefnd. Deild, námsbraut, stofnun og rektor velja varamenn fulltrúa sinna.

Í deildum er skipan valnefndar eftirfarandi:

a) Deildarforseti, sem jafnframt er formaður valnefndar.

b) Einn fulltrúi tilnefndur af deild, skipaður til þriggja ára.

c) Tveir fulltrúar, sem deildarráð eða deildarforseti tilnefna hverju sinni og skulu þeir vera sérfræðingar á sviði starfsins. Ef deild er skipt í námsbrautir skal annar fulltrúinn skv. þessum lið vera tilnefndur af námsbrautarstjóra.

d) Einn fulltrúi tilnefndur af rektor, skipaður til þriggja ára.

Þegar um er að ræða störf við stofnun sem heyrir undir deild eða fræðasvið er skipan valnefndar eftirfarandi:

a) Deildarforseti valinn af forseta fræðasviðs, sem jafnframt er formaður valnefndar.

b) Tveir fulltrúar sem forstöðumaður stofnunar tilnefnir hverju sinni og skulu þeir vera sérfræðingar á sviði starfsins.

c) Einn fulltrúi viðkomandi deildar, sem deildarráð eða deildarforseti tilnefnir hverju sinni og skal hann vera sérfræðingur á sviði starfsins.

d) Einn fulltrúi tilnefndur af rektor, skipaður til þriggja ára.

Þegar um er að ræða störf samkvæmt samstarfssamningi við stofnun utan háskólans er skipan valnefndar eftirfarandi:

a) Deildarforseti valinn af forseta fræðasviðs, sem jafnframt er formaður valnefndar.

b) Tveir fulltrúar tilnefndir af forstöðumanni stofnunar hverju sinni og skulu þeir vera sérfræðingar á sviði starfsins. Ef um er að ræða starf á grundvelli samnings við Landspítala skal annar fulltrúinn skv. þessum lið vera sviðsstjóri á spítalanum.

c) Einn fulltrúi deildar, sem deildarráð eða deildarforseti tilnefnir hverju sinni og skal hann vera sérfræðingur á sviði starfsins.

d) Einn fulltrúi tilnefndur af rektor, skipaður til þriggja ára.

45. gr.

Málsmeðferð valnefnda.

Valnefnd getur leitað umsagnar sérfræðinga á hlutaðeigandi fræðasviði. Valnefnd er heimilt að boða viðkomandi námsbraut, eða eftir atvikum grein eða stofu, á sinn fund.

Valnefnd og stjórn stofnunar geta ákveðið að umfjöllun takmarkist við þá umsækjendur sem best eru taldir uppfylla þau sjónarmið sem leggja ber til grundvallar við veitingu starfsins. Tilkynna skal umsækjendum um þessa ákvörðun og veita rökstuðning fyrir henni sé eftir því leitað.

Valnefnd skal að jafnaði boða þá umsækjendur til viðtals sem valið stendur á milli. Að öllu jöfnu skal valnefnd bjóða umsækjendum sem til greina koma að halda fyrirlestur.

Í umsögn valnefndar skal felast niðurstaða hennar um það hver úr þeim hópi sem dómnefnd telur að uppfylli lágmarksskilyrði teljist best til þess fallinn að gegna starfinu á grundvelli heildarmats á þeim þáttum sem liggja til grundvallar ráðningu í starfið.

Formaður valnefndar sendir forseta fræðasviðs eða eftir atvikum rektor rökstudda umsögn valnefndar. Umsögnin skal send innan 30 daga frá því að gögn bárust valnefnd frá dómnefnd. Valnefnd er einungis skylt að rökstyðja val sitt á hæfasta umsækjandanum. Valnefnd getur lagt til að ekki skuli ráðið í starfið.

Rektor leggur valnefndum til ritara. Valnefnd er heimilt að afla frekari gagna um umsækjendur.

Háskólaráð getur sett valnefndum nánari verklagsreglur.

46. gr.

Sjónarmið um val á hæfasta umsækjandanum.

Við val á hæfasta umsækjandanum skal höfð hliðsjón af stefnu deildar og uppbyggingu sem tengist umræddu starfi. Auk þess skal byggt á sjónarmiðum sem fram koma í 34. og 41. gr.

Valnefnd er heimilt í mati sínu að taka tillit til þess hversu líklegur umsækjandi er, út frá ferli hans, til að stuðla að þeim markmiðum sem deild og fræðasvið hefur sett sér.

Þá skal valið byggjast á frammistöðu í viðtali og fyrirlestri, ef ákveðið hefur verið að nýta það fyrirkomulag við gagnaöflun.

IV. KAFLI

Stúdentar háskólans.

47. gr.

Inntaka stúdenta.

Rektor og forsetar fræðasviða í umboði hans, bera ábyrgð á innritun stúdenta í háskólann. Um framkvæmdina gilda þær reglur sem fram koma í þessum kafla.

Stúdentar sem hefja grunnnám í Háskóla Íslands skulu hafa lokið stúdentsprófi, eða öðru sambærilegu prófi frá erlendum skóla.

Háskólaráð setur, að fenginni tillögu viðkomandi fræðasviðs, nánari reglur um inntöku stúdenta í einstakar námsleiðir í grunn- og framhaldsnámi. Í reglum þessum skal meðal annars heimilt að binda aðgang að námsleiðum frekari skilyrðum um undirbúning en fram koma í 1. mgr. þessarar greinar og takmarka fjölda stúdenta í grunn- og framhaldsnám þar sem ekki eru fyrir hendi aðstæður til að veita nema takmörkuðum fjölda fullnægjandi kennslu og þjálfun. Í reglunum komi fram hvaða stúdentspróf, af einni eða fleiri námsbraut framhalds- eða menntaskóla, sé fullnægjandi sem undirbúningur undir viðkomandi grunnnám. Ef almennt stúdentspróf af tiltekinni námsbraut framhalds- eða menntaskóla dugar ekki sem undirbúningur undir nám á tiltekinni námsleið í grunnnámi skal tilgreina nákvæmlega hver viðbótarskilyrðin eru og um inntöku- eða stöðupróf sem viðhöfð eru, ef því er að skipta, eða aðrar aðferðir við að velja úr umsækjendum. Gerð skal grein fyrir inntökuskilyrðum í meistaranám og doktorsnám í sérreglum um það.

Þeir sem lokið hafa eins árs námi (60 einingum) frá viðurkenndum háskóla eða skóla á háskólastigi geta talist uppfylla almenn inntökuskilyrði í grunnnám skv. 1. mgr., enda þótt þeir hafi ekki lokið stúdentsprófi eða sambærilegu prófi frá erlendum skóla. Um inntöku þeirra fer nánar eftir 3. mgr.

Heimilt er að veita öðrum en þeim, sem uppfylla framangreind skilyrði 2. og 3. mgr. rétt til þess að hefja grunnnám við háskólann, ef þeir að mati viðkomandi deildar búa yfir hliðstæðri þekkingu, færni og reynslu og stúdentspróf veitir. Skal við það miðað að umsækjandi hafi með námi og starfi aflað undirbúnings sem telst sambærilegur við þann sem felst í stúdentsprófi, að viðbættum frekari skilyrðum um undirbúning, skv. reglum deildar ef því er að skipta. Heimilt er að meta starfsreynslu til allt að eins árs náms í framhaldsskóla.

Sviðsstjóri kennslusviðs tekur ákvörðun um það hvort innritun skuli heimiluð, að fenginni umsögn hlutaðeigandi deildar.

Undanþága frá inntökuskilyrðum 2. og 3. mgr., sem veitt er á grundvelli 4. mgr., veitir einungis leyfi til nýskrásetningar í það nám sem umsækjandi sótti um og á því háskólaári. Veitt undanþága gildir þó áfram þegar stúdent sem stundar námið í samræmi við reglur háskólans, skráir sig í námskeið við árlega skráningu. Óski stúdent, sem fengið hefur leyfi til að stunda nám á einni námsleið á grundvelli undanþágu, eftir því að stunda nám á annarri námsleið, verður hann að sækja um sérstaka undanþágu til þess, og gildir það jafnt þótt námið sé innan sama fræðasviðs eða sömu deildar. Sama gildir ef stúdent gerir hlé á námi sínu um eins árs skeið eða lengur án leyfis viðkomandi deildar.

Umsóknum um undanþágu frá inntökuskilyrðum skulu fylgja staðfest vottorð um nám og störf að loknu skyldunámi og önnur þau gögn sem umsækjandi telur að stutt geti umsóknina. Umsóknir um undanþágu skulu hafa borist skrifstofu kennslusviðs Háskóla Íslands fyrir 5. júní vegna komandi háskólaárs. Fjallað er um umsóknir svo fljótt sem auðið er og þær afgreiddar að jafnaði eigi síðar en innan tveggja mánaða frá lokum umsóknarfrests.

Upplýsingum um inntökuskilyrði í einstakar deildir og námsleiðir í grunn- og framhaldsnámi svo og um takmörkun á fjölda og hvernig staðið skal að inntöku stúdenta, ef við á, skal komið á framfæri í kennsluskrá, á vefsetri háskólans og í kynningarefni til nýrra stúdenta. Skal skýrt tekið fram að inntökuskilyrði geti verið mismunandi milli deilda og námsleiða, þannig að heimild til skráningar á eina námsleið veiti ekki sjálfkrafa rétt til skráningar á aðra.

48. gr.

Skrásetning nýrra stúdenta og árleg skráning.

Þeir einir teljast stúdentar við Háskóla Íslands sem skrásettir hafa verið til náms og hafa greitt skrásetningargjald. Öllum stúdentum er skylt að skrá sig í námskeið fyrir hvert kennslumisseri sbr. 1. mgr. 53. gr., að hámarki þó í 40 einingar. Skráning í námskeið er jafnframt skráning í próf að námskeiði loknu. Sama gildir hvort námsmat fer fram með skriflegu eða munnlegu prófi, æfingavinnu, verkefni eða ritgerð. Þó skal stúdent heimilt að segja sig úr prófi, sbr. 57. gr.

Móttaka umsókna og skrásetning nýrra stúdenta til grunnnáms og í námskeið fer fram á vegum nemendaskrár háskólans ár hvert og er umsóknarfrestur til 5. júní fyrir komandi háskólaár. Umsóknarfrestur um framhaldsnám er til 15. apríl. Umsóknarfrestur erlendra umsækjenda í grunn- og framhaldsnám er til 1. febrúar fyrir komandi háskólaár. Sviðsstjóra kennslusviðs er heimilt að leyfa einstökum stúdentum skrásetningu á öðrum tímum en að framan greinir, eða skráningu í fleiri einingar á misseri en að framan greinir, ef sérstaklega stendur á. Beiðni um nýskrásetningu í grunnnám skal fylgja ljósrit eða staðfest afrit af stúdentsprófsskírteini eða sambærilegu prófskírteini frá erlendum skóla.

Ár hvert skulu aðrir en þeir sem nýskrásettir eru til náms skrá sig í námskeið og greiða þá skrásetningargjald, ella falla þeir út af nemendaskrá og teljast ekki lengur stúdentar við Háskóla Íslands. Stúdentar hafa ekki rétt til þess að sækja fyrirlestra og æfingar eða þreyta próf, nema þeir séu skráðir í hinni árlegu skráningu. Árleg skráning stúdenta fer fram í mars/apríl ár hvert, eftir nánari ákvörðun sviðsstjóra kennslusviðs.

Stúdentum er heimilt að endurskoða námskeiðaskráningu sína á haustmisseri og komandi vormisseri eftir nánari ákvörðun sviðsstjóra kennslusviðs.

Nú óskar stúdent eftir að gera hlé á námi sínu heilt kennslumisseri eða lengur og skal hann þá leita heimildar viðkomandi háskóladeildar og skrá sig árlegri skráningu, meðan á leyfistíma stendur, enda sé gætt ákvæða um tímamörk náms. Leyfistími getur að hámarki verið eitt ár í senn og lengir ekki hámarksnámstíma samkvæmt reglum viðkomandi deildar. Stúdent greiðir hluta skrásetningargjalds á meðan á leyfistíma stendur.

Háskólaráð setur sérstaka gjaldskrá vegna útgáfu staðfestra vottorða, gerðar, fyrirlagnar og yfirferðar stöðu-, inntöku-, upptöku- og fjarprófa.

49. gr.

Skrásetningargjald.

Við skrásetningu til náms greiðir stúdent skrásetningargjald fyrir hvert háskólaár eins og kveðið er á um í fjárlögum hverju sinni. Heimilt er að taka 15% hærra gjald af þeim sem fá leyfi til skrásetningar utan auglýstra skrásetningartímabila. Háskólaráði er heimilt að verja hluta skrásetningargjaldsins til Félagsstofnunar stúdenta og til félagssamtaka stúdenta skv. sérstökum samningum.

Háskólaráð staðfestir nánari reglur um innheimtu og ráðstöfun skrásetningargjaldsins og annarra gjalda af stúdentum sem birtar skulu í kennsluskrá og á háskólavefnum. Í reglunum skal kveðið á um gjalddaga og eindaga skrásetningargjaldsins og meðferð heimilda til lækkunar þess, þ.m.t. til tekjulítilla stúdenta sem búa við örorku eða fötlun, og um endurgreiðslu þess. Við lækkun og endurgreiðslu skal tekið mið af kostnaðarliðum gjaldsins eins og þeir eru skilgreindir á grundvelli laga.

50. gr.

Ferli kvartana og kærumála nemenda.

Telji stúdent brotið á rétti sínum varðandi kennslu, próf, námsmat, einkunnagjöf eða annað er lýtur að kennslu og prófum skal hann senda skriflegt erindi til skrifstofu deildar. Þar skal skilmerkilega greint frá því hvert álitaefnið er, hver sé krafa stúdents og rökstuðningur fyrir henni. Deild skal fjalla um álitaefnið svo fljótt sem unnt er og afgreiða það, að jafnaði eigi síðar en innan tveggja mánaða frá því að erindið barst. Sé mál viðamikið og fyrirsjáanlegt að afgreiðsla taki lengri tíma, skal tilkynna hlutaðeigandi það og tilgreina hvenær afgreiðslu sé að vænta. Uni stúdent ekki niðurstöðu deildar getur hann skotið máli sínu til úrskurðar stjórnar fræðasviðs. Slík erindi skulu send skrifstofu fræðasviðsins. Deildir og stjórn fræðasviðs endurmeta ekki prófúrlausnir eða faglega niðurstöðu kennara eða prófdómara. Málum verður ekki skotið til stjórnar fræðasviðs fyrr en ákvörðun deildar liggur fyrir eða þrír mánuðir eru liðnir frá því að kæra var fyrst skriflega lögð fyrir deild. Forseti þeirrar deildar er í hlut á víkur sæti við umfjöllun og afgreiðslu erinda af þessu tagi í stjórn fræðasviðs.

Samkvæmt 20. gr. laga um háskóla nr. 63/2006 úrskurðar áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólanema í málum þar sem námsmenn í háskólum, sem hlotið hafa viðurkenningu menntamálaráðuneytis, telja brotið á rétti sínum varðandi:

a) framkvæmd prófa og námsmat, þ.m.t. fyrirlögn prófa, tilhögun einkunnagjafar, skipun prófdómara og birtingu einkunna,

b) mat á námsframvindu, þ.m.t. rétt til endurtökuprófs,

c) afgreiðslu umsókna um skólavist, þ.m.t. tilhögun mats á námi á milli skóla.

Nefndin endurmetur ekki prófúrlausnir eða faglega niðurstöðu kennara, dómnefnda eða prófdómara. Málum verður ekki skotið til áfrýjunarnefndarinnar fyrr en stjórn fræðasviðs hefur úrskurðað í málinu eða þrír mánuðir eru liðnir frá því að kæra var fyrst skriflega lögð fyrir stjórn fræðasviðs.

51. gr.

Réttindi og skyldur nemenda og agaviðurlög.

Stúdent við Háskóla Íslands skal forðast að hafast nokkuð það að í námi sínu eða framkomu innan og utan háskólans sem er honum til vanvirðu eða álitshnekkis eða varpað getur rýrð á nám hans eða háskólann.

Telji kennari eða annar starfsmaður deildar að stúdent hafi gerst sekur um hegðun sem lýst er í 1. mgr. eða ef stúdent hefur gerst sekur um brot á lögum eða öðrum reglum háskólans ber að vekja athygli deildarforseta á því. Deildarforseti kannar málið og sendir það forseta fræðasviðs til meðferðar telji hann að málið sé þannig vaxið að til greina geti komið að beita stúdent agaviðurlögum, sbr. 3. mgr. 19. gr. laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla.

Gerist nemandi sekur um háttsemi skv. 1. mgr. eða sem er andstæð lögum um opinbera háskóla nr. 85/2008 eða reglum settum samkvæmt þeim skal forseti þess fræðasviðs þar sem hann er skráður til náms taka mál hans til meðferðar. Að teknu tilliti til alvarleika brots getur forseti veitt nemanda áminningu eða vikið honum úr skóla um tiltekinn tíma eða að fullu. Áður en ákvörðun um brottrekstur er tekin skal gefa nemanda kost á að tjá sig um málið. Nemanda er heimilt að skjóta ákvörðun forseta fræðasviðs til áfrýjunarnefndar samkvæmt lögum nr. 63/2006 um háskóla. Málskot frestar framkvæmd ákvörðunar forseta.

Rektor getur að hæfilegum tíma liðnum heimilað nemanda, sem vikið hefur verið að fullu úr skóla, að skrá sig aftur til náms í háskólanum ef aðstæður hafa breyst. Nemanda er heimilt að skjóta synjun rektors um skráningu til áfrýjunarnefndar.

V. KAFLI

Námsskipan, kennsla, kennsluhættir, námsmat, próf o.fl.

52. gr.

Háskólaár, kennslumisseri og brautskráning.

Háskólaárið telst frá 1. júlí til jafnlengdar næsta ár. Kennsluár háskólans skiptist í tvö kennslumisseri, haustmisseri frá 20. ágúst til 18. desember og vormisseri frá 4. janúar til 10. maí.

Á kennsluárinu eru þessi leyfi: Jólaleyfi frá 19. desember til 4. janúar og páskaleyfi frá miðvikudegi fyrir skírdag til þriðja í páskum. Upphafs- og lokadagur hvors leyfis telst með. Auk þessara leyfa er kennsluhlé á sumardaginn fyrsta, l. maí og l. desember. Rektor eða forsetar fræðasviða geta gefið leyfi einstaka daga af sérstöku tilefni.

Brautskráning kandídata er síðasta laugardag í febrúar og á laugardegi sem næst miðjum júní ár hvert. Rektor getur ákveðið frávik frá þessum dagsetningum og hvort brautskráning fari fram einu sinni eða tvisvar á ári. Slík frávik og breytingar skulu auglýst með minnst tveggja mánaða fyrirvara.

53. gr.

Námsskipan, námsleiðir og mat náms til eininga.

Námi er skipað í námsleiðir og styttra diplómanám í samræmi við Viðmið um æðri menntun og prófgráður á Íslandi sem menntamálaráðuneytið gefur út. Hverri námsleið lýkur með prófgráðu sem upp er talin í 55. gr. og veitt er í kennslugrein deildar eða þverfræðilegri kennslugrein. Háskóladeild getur skilgreint mismunandi áherslusvið innan námsleiðar, m.a. þannig að í grunnnámi sé ákveðið að námsleið feli í sér aðalgrein og aukagrein. Er prófgráða þá veitt í aðalgrein nema um sé að ræða tvær aðalgreinar, en prófgráða er við þær aðstæður veitt í báðum aðalgreinum. Áherslusvið (þar á meðal aðalgrein og aukagrein) skal koma fram á prófskírteini með nánari lýsingu í skírteinisviðauka.

Undirbúningur og skipulagning nýrrar námsleiðar eða nýs diplómanáms skal fara fram skv. verklagsreglum sem háskólaráð setur.

Kennsla í Háskóla Íslands skal fara fram í námskeiðum, sem metin eru í einingum. Fullt nám telst 60 einingar á námsári að jafnaði og endurspeglar alla námsvinnu nemenda og viðveru í kennslustundum og prófum. Við það skal miðað að námskeið séu að lágmarki 5 einingar.

Háskóladeild er heimilt að meta nám sem stúdent hefur stundað utan deildarinnar, þ.m.t. við aðra háskóla, sem hluta af námi við deildina, enda uppfylli námið sambærilegar gæða- og námskröfur og gerðar eru á grundvelli laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla og laga nr. 63/2006 um háskóla.

Sæki deild kennslu til annarrar deildar skal einingamat síðari deildarinnar gilda fyrir hina fyrri. Sæki einstakir stúdentar námskeið í annarri deild en sinni eigin, skal heimadeild hans, þar sem hann stundar nám til prófgráðu, meta námskeiðin til eininga.

Ákvörðun um það hvort metið er nám sem áður hefur verið látið gilda til prófgráðu í sömu deild eða í annarri deild er á valdi þeirrar deildar sem í hlut á. Hver deild skal setja sér sérstakar reglur um samnýtingu eininga til fleiri en einnar prófgráðu.

54. gr.

Kennsla og kennsluhættir og meðferð heimilda.

Fyrirlestrar, æfingar og námskeið í háskóladeildum eru fyrir skrásetta stúdenta en kennara er heimilt að veita öðrum kost á að sækja slíka kennslu, nema deild mæli öðruvísi fyrir.

Fræðasvið skulu setja sér almennar reglur um kennslu, kennsluhætti og námsmat þar sem fram koma skýr markmið um gæði kennslu og náms og hvaða mælikvarða er miðað við. Fylgja skal samþykktum háskólaráðs um viðmið og kröfur um gæði kennslu og náms. Deildir geta með samþykki forseta fræðasviðs heimilað nám með hægari námsframvindu en áskilið er í köflum viðkomandi deilda í reglum þessum.

Deildum er heimilt að setja reglur um skyldu stúdenta til þátttöku í einstökum námskeiðum, æfingum, verklegu námi og vettvangsþjálfun, svo og reglur um leiðbeiningar og umsjón með námi stúdenta að öðru leyti. Í slíkum reglum er enn fremur heimilt að kveða á um að viðvera og þátttaka í kennslustundum hafi vægi í námsmati. Reglur deilda skulu birtar í kennsluskrá.

Stúdentum er algerlega óheimilt að nýta sér hugverk annarra í ritgerðum og verkefnum, nema heimilda sé getið í samræmi við viðurkennd fræðileg vinnubrögð.

55. gr.

Lærdómstitlar og prófskírteini.

Lærdómstitlar sem Háskóli Íslands veitir eru sem hér segir:

1.0 Baccalaureus artium og Baccalaureus scientiarum, Bachelor of Education, BA/BS/BEd., 3-4 ár eftir greinum.

2.1 Meistarapróf, Magister artium, Magister scientiarum, Magister paedagogiae, Master of Public Administration, Master of Laws, Master of Social Work, Master of Library and Information Science, Master of Health Informatics, Magister juris, Magister theologiae, Master of Accounting, Master of Pharmaceutical Sciences, Master of Science in Pharmacy, Master of Public Health, Master of Education, MA / MS / MPaed. / MPA / LLM / MSW / MLIS / MHI / Mag.jur. / Mag.theol. / MAcc. / MS Pharm Sci/ MS Pharm / MPH / MEd., 2 ár að jafnaði að loknu BA/BS eða sambærilegu námi, eða samkvæmt því sem nánar er tilgreint í sérreglum deildar um námið, eða reglum settum af háskólaráði um þverfaglegt nám á meistarastigi.

2.2 Kandídatspróf, candidatus theologiae (cand theol), candidatus medicinae (cand med), candidatus pharmaciae (cand pharm), candidatus oeconomiae (cand oecon), candidatus obstetriciorum (cand obst), candidatus odontologiae (cand odont), candidatus psychologiae (cand psych), 4-6 ár eftir greinum.

3.1 Doktorspróf, Philosophiae Doctor, (Ph.D.), Doctor of Education (Ed.D.) að loknu MA/MS, kandídatsnámi (ef við á) eða sambærilegu námi.

3.2 Doktorspróf, doctor theologiae (dr. theol.), doctor philosophiae (dr. phil.), doctor medicinae (dr. med.) doctor pharmaciae (dr. pharm.), doctor juris (dr. jur.), doctor oeconomiae (dr. oecon.), doctor odontologiae (dr. odont.), doctor scientiarum ingeniarium, (dr. scient. ing.), doctor scientiarum (dr. scient.), er að jafnaði veitt þegar lögð hefur verið fram ritgerð til varnar, án undangengis skipulagðs náms, sbr. 70. gr. þessara reglna.

3.3 Doktorsnafnbót veitt í heiðursskyni, doctor philosophiae honoris causa, doctor medicinae honoris causa, o.s.frv., sbr. 67. gr. þessara reglna.

Deildir skulu ákveða hvorn lærdómstitilinn þær veita, dr. phil., dr. jur., eða lærdómstitilinn Ph.D., sbr. töluliði 3.1 og 3.2, hvort sem um er að ræða skipulagt doktorsnám eða doktorspróf, án undangengins skipulagðs náms. Deildir skulu velja annan hvorn titilinn. Háskólaráði er heimilt að leyfa deild að víkja frá þessu þegar sérstaklega stendur á.

Viðskiptafræðideild er heimilt að veita háskólagráðuna Master of Business Administration, MBA, að loknu 90 eininga endurmenntunarnámi, enda sé farið eftir ákvæðum 64. gr. um endurmenntun á vegum deilda í þessum reglum. Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild er með sama hætti heimilt að veita háskólagráðuna Master of Project Management, MPM, að loknu 90 eininga endurmenntunarnámi.

Deildum er heimilt að veita sérstakt prófskírteini, diploma, fyrir sjálfstætt fullnaðarpróf að loknu styttra grunnnámi, þó eigi að loknu skemmra námi en sem nemur 90 einingum.

Að loknu fullnaðarprófi skal kandídat fá prófskírteini, sem deildarforseti undirritar. Doktorsskjal undirritar forseti fræðasviðs einnig, sbr. 67. gr. þessara reglna.

Sérstakar reglur gilda um útgáfu prófskírteina, þegar sameiginlegar prófgráður eiga í hlut, sbr. 62. gr. þessara reglna.

56. gr.

Próf og próftímabil.

Próf geta verið munnleg, skrifleg eða verkleg.

Háskólakennarar standa fyrir námsmati og prófum en hver deild ræður tilhögun prófa hjá sér í samræmi við lög og reglur háskólans. Próftími í skriflegum prófum skal að jafnaði ekki vera lengri en þrjár klukkustundir.

Almenn próf eru haldin 2. til 18. desember og á tímabilinu 25. apríl til 10. maí eftir nánari ákvörðunum deilda í samráði við prófstjóra. Sjúkra- og upptökupróf eru haldin í kjölfar almennra próftímabila í desember og maí, í þrjá daga á tímabilinu 10. til 20. janúar og í fimm daga á tímabilinu 5. til 15. júní, skv. nánari ákvörðun prófstjóra. Deildum er heimilt að höfðu samráði við prófstjóra að nýta tímabilið í júní fyrir upptöku- og sjúkrapróf beggja kennslumissera. Ákvörðun um það liggi fyrir við upphaf kennslu á haustmisseri. Deildum er enn fremur heimilt að höfðu samráði við prófstjóra að halda sjúkrapróf haustmisseris í desember eða byrjun janúar, en upptökupróf haustmisseris í júní. Ákvörðun um það liggi fyrir við upphaf kennslu á haustmisseri.

Heimilt er að halda sjúkrapróf í samkeppnisprófum, þar sem fjöldi stúdenta sem fær rétt til áframhaldandi náms er fyrirfram ákveðinn með ákvörðun háskólaráðs og einnig ef þannig stendur á að stúdent á kost á að brautskrást við næstu brautskráningu að próftímabili loknu. Próf eða prófhlutar í einstökum greinum geta þó farið fram á öðrum tímum en segir í 3. mgr., samkvæmt ákvörðun prófstjóra. Auglýsa skal próftöflu almennra prófa í kennsluskrá ef unnt er, en annars með tveggja mánaða fyrirvara. Próftöflu fyrir sjúkra- og upptökupróf í kjölfar almennra próftímabila í desember og maí skal birta eins fljótt og kostur er og eigi síðar en tveimur dögum fyrir fyrsta prófdag. Auglýstum prófdegi verður einungis breytt með ákvörðun deildarforseta að höfðu samráði við prófstjóra og að fengnu skriflegu samþykki allra þeirra sem skráðir eru til viðkomandi prófs.

57. gr.

Endurtaka prófs og úrsögn úr prófi.

Nú stenst stúdent ekki próf, gengur frá því eftir að hann hefur byrjað próf eða kemur ekki til prófs og hefur ekki boðað forföll, og er honum þá heimilt að þreyta prófið næst þegar almennt próf er haldið í námskeiðinu og eigi síðar en innan árs. Standist hann þá ekki prófið, gangi frá því eða komi ekki til prófs án þess að boða forföll, hefur hann fyrirgert rétti sínum til þess að ganga oftar undir það. Úrsögn úr prófi skal vera rafræn eða skrifleg og hafa borist nemendaskrá háskólans eigi síðar en 1. nóvember vegna prófa á haustmisseri, 1. apríl vegna prófa á vormisseri og eigi síðar en sólarhring eftir birtingu próftöflu sjúkra- og upptökuprófa í kjölfar almennra próftímabila í desember og maí. Háskóladeild getur þó veitt undanþágu frá ákvæðum þessarar greinar, ef sérstaklega stendur á.

Stúdent er heimilt að endurtaka próf, sem hann hefur staðist, innan árs frá því hann stóðst það, enda sé á því tímabili haldið próf í sama námskeiði. Nú byrjar stúdent prófið, og fellur þá fyrra próf í grein eða prófhluta úr gildi. Þar sem flokki greina er skipað saman í prófhluta verður stúdent að taka upp próf í öllum greinum prófhlutans ef hann vill ekki una fyrra prófi.

58. gr.

Framkvæmd prófa og prófreglur.

Prófstjóri Háskólans annast undirbúning og stjórn prófa í samráði við stjórnsýslu fræðasviða og deildir.

Stúdentum, sem í prófi eru, er óheimilt að aðstoða aðra prófmenn við prófúrlausn eða leita aðstoðar annarra. Skrásettum stúdent, sem ekki er í prófi, er einnig óheimilt að veita slíka aðstoð. Prófmönnum er óheimilt að tala saman og þeir mega ekki hafa aðrar bækur, gögn eða tæki með sér en þau, sem kennari heimilar nema sérstaklega sé kveðið á um annað í reglum deilda. Sama gildir um aðra verkefnavinnu stúdenta nema kennari ákveði annað. Brot gegn ákvæðum þessum og öðrum prófreglum, sem háskólaráð setur, varða vísun úr prófi og eftir atvikum viðurlögum, samkvæmt 19. gr. laga um opinbera háskóla.

Skriflegar prófúrlausnir skulu merktar prófnúmerum og einkunnir birtar undir sömu auðkennum, en deild getur sett reglur um undanþágu frá þessu meginákvæði. Heimilt er einnig að birta einkunnir undir sérstökum nemendanúmerum sem nemendaskrá úthlutar hverjum stúdent.

Háskólaráð setur nánari reglur um prófvörslu og framkvæmd prófa.

59. gr.

Prófdómarar og réttur stúdenta til að fá útskýringar.

Við munnleg próf skal vera einn prófdómari utan háskólans. Skrifleg og verkleg próf, þar með talin framsaga og kynning á verkefnum, dæma hlutaðeigandi kennarar einir nema deild ákveði annað. Í samkeppnisprófum, þar sem fjöldi stúdenta sem fær rétt til áframhaldandi náms er fyrirfram ákveðinn með ákvörðun háskólaráðs, skal vera prófdómari í hverri prófgrein.

Stúdent á rétt til að fá útskýringar kennara á mati skriflegrar úrlausnar sinnar ef hann æskir þess innan 15 daga frá birtingu einkunnar. Kennurum er heimilt að halda prófsýningu fyrir alla nemendur námskeiðs þar sem skýrt er út mat skriflegra úrlausna. Vilji stúdent, sem ekki hefur staðist próf, þá eigi una mati kennarans getur hann snúið sér til viðkomandi deildarforseta. Skal þá prófdómari skipaður í hverju tilviki. Meirihluti nemenda í námskeiði getur með rökstuddu erindi óskað eftir því að skipaður verði prófdómari til þess að fara yfir skriflegar úrlausnir á lokaprófi í námskeiðinu. Þegar prófdómari er skipaður eftir að einkunn kennara hefur verið birt fer hann einungis yfir prófúrlausnir þeirra nemenda sem óskað hafa eftir endurmati. Einnig getur kennari, telji hann til þess sérstaka ástæðu, óskað skipunar prófdómara í einstöku prófi og fer hann þá yfir prófúrlausnir allra nemenda í námskeiðinu. Prófdómari verður þó ekki skipaður, ef meira en sex vikur hafa liðið frá birtingu einkunnar og þar til beiðni um skipunina berst.

Forseti fræðasviðs skipar prófdómara að fengnum tillögum háskóladeildar. Þá eina má skipa prófdómara sem lokið hafa viðurkenndu háskólaprófi í þeirri grein sem dæma skal og njóta viðurkenningar á starfssviði sínu. Prófdómarar skulu skipaðir til þriggja ára í senn nema skipun sé samkvæmt 2. mgr. hér að framan.

Sé ekki völ á prófdómara hérlendis utan háskólans, er fullnægi skilyrðum 3. mgr. hér á undan, er forseta fræðasviðs rétt að skipa háskólakennara til starfans að fenginni tillögu háskóladeildar.

60. gr.

Prófverkefni og mat úrlausna.

Kennari og prófdómari, ef tilkallaður er, ráða í sameiningu úrlausnarefni í hverri prófgrein og dæma úrlausnir. Ber að prófa sem víðast úr því efni sem til prófs er. Kennari og prófdómari, ef tilkallaður er, dæma hvor um sig úrlausn í prófgrein hverri. Hvor um sig gefur sjálfstætt einkunn fyrir úrlausnina og gilda þær jafnt í einkunnagjöf. Einkunnir skulu birtar í síðasta lagi tveimur vikum eftir hvert próf, en þremur vikum eftir hvert próf á próftímabili í desember. Sami skilafrestur gildir fyrir námskeið sem lýkur án skriflegs prófs og fyrir próf og verkefnaskil sem fram fara utan reglulegra próftímabila. Háskólaráð setur sérstakar verklagsreglur um einkunnaskil.

Niðurstaða prófdómara sem skipaður er eftir að einkunn kennara hefur verið birt getur leitt til lækkunar eða hækkunar á birtri einkunn þegar hún er vegin saman við mat kennara sbr. 1. mgr. Þetta gildir þó ekki þegar prófdómari er skipaður eftir á að beiðni kennara. Við þær aðstæður getur niðurstaða prófdómara einungis leitt til hækkunar á þegar birtri einkunn, sé um það að ræða.

Hlutverk prófdómara sem er kallaður til eftir að mat kennara liggur fyrir, er bundið við að fara yfir úrlausnir og fer hann ekki yfir uppbyggingu prófs með tilliti til námsefnis.

61. gr.

Einkunnir, varðveisla þeirra og lágmarkseinkunnir.

Einkunnir skulu gefnar í heilum, eða heilum og hálfum tölum frá 0 til 10. Aðaleinkunn er vegið meðaltal allra einkunna til lokaprófs. Aðaleinkunn reiknast með tveimur aukastöfum og er 9,0 - 10 ágætiseinkunn, 7,25 - 8,99 er fyrsta einkunn, 6,0 - 7,24 er önnur einkunn og 5,0 - 5,99 er þriðja einkunn.

Stúdent telst ekki hafa staðist próf nema hann hljóti einkunnina 5,0 eða ígildi hennar í bókstaf. Heimilt er að víkja frá þessu í einstökum prófum, prófhlutum og prófflokkum og krefjast hærri eða lægri lágmarkseinkunnar. Um slík frávik skal kveðið á í köflum um deildir í reglum þessum.

Sérákvæði deildar um hærri lágmarkseinkunn en 5,0 í einstökum prófgreinum, prófhlutum eða prófflokkum skulu aðeins gilda fyrir nemendur hlutaðeigandi deildar.

Í samkeppnisprófum, þar sem fjöldi stúdenta sem fær rétt til áframhaldandi náms er fyrirfram ákveðinn með ákvörðun háskólaráðs, er heimilt, samkvæmt ákvörðun deildar, að reikna einkunnir með meiri nákvæmni en fram kemur í 1. mgr. til að ákveða niðurstöðu samkeppnisprófsins. Ákvörðun deildar um útreikning einkunna í samkeppnisprófum skal tilkynna að minnsta kosti 4 vikum fyrir próf. Einkunnir í samkeppnisprófum skulu jafnframt gefnar í heilum og hálfum tölum, sbr. 1. mgr. og færast þannig í nemendaskrá háskólans.

Í framhaldsnámi er heimilt að gefa einkunnir í bókstöfum á eftirfarandi hátt: 9 - 10 er A; 7,25 - 8,99 er B; 6,0 - 7,24 er C og 5,0 - 5,99 er D. Lægri einkunn en 5,0 er E. Aðaleinkunn sem gefin er í bókstaf er fundin samkvæmt 1. mgr.

Jafnframt er heimilt að gefa annað hvort staðið eða fallið fyrir lokaverkefni (ritgerðir) í framhaldsnámi enda komi efnisleg niðurstaða námsmats fram í umsögn um verkefnið. Ákvörðun deildar, eða námsbrautar í umboði deildar, um að beita þessari heimild gildir um öll lokaverkefni innan hlutaðeigandi námsleiðar. Breyta má þeirri ákvörðun hvenær sem er, og gildir breytt ákvörðun þá um lokaverkefni sem nemendur hefja vinnu við eftir það tímamark. Ekki eru gefnar einkunnir fyrir doktorspróf.

Árangur stúdents í verklegu námi er metinn af þeim kennara sem kennsluna annast. Kennari skilar skriflegum vitnisburði til nemendaskrár háskólans. Gefnar eru fjórar einkunnir: ágætt, gott, viðunandi eða óviðunandi. Sá, sem fær einkunnina óviðunandi telst ekki hafa lokið verklega náminu og hefur ekki próftökurétt í greininni. Heimilt er einnig í verklegu námi, eða í öðru námi með samþykki kennslunefndar fræðasviðs, að gefa annað hvort staðið eða fallið, eða lokið eða ólokið. Jafnframt er heimilt í þessum tilvikum að gefa einkunnir í tölum samkvæmt 1. mgr. eða bókstöfum samkvæmt 3. mgr.

Einkunnir skulu ekki birtar opinberlega undir nafni eða kennitölu.

Nemendaskrá háskólans sér um færslu einkunna og varðveislu þeirra með tryggilegum hætti.

62. gr.

Viðurkenning prófa frá öðrum háskólum.

Háskóladeild metur hvort og að hverju leyti viðurkenna skuli háskólapróf sem stúdent hefur tekið við aðra háskóla. Hún skal afla umsagnar kennara í viðkomandi grein áður en ákvörðun er tekin. Gætt skal að því að farið sé að alþjóðlegum samningum um viðurkenningu á háskólamenntun og hæfi sem íslenska ríkið er aðili að.

Sé um próf að ræða sem tekið hefur verið við háskóla eða hliðstæða menntastofnun annars staðar á Norðurlöndum fer um mat þess, svo sem við getur átt, eftir samnorrænum reglum um viðurkenningu hlutaprófa.

Að loknu námi sem skipulagt er sameiginlega af deild Háskóla Íslands og öðrum háskóla eða háskólum samkvæmt samningi þar um, fá nemendur tvö sambærileg prófskírteini, eitt frá hvorum háskóla. Sama gildir ef fleiri háskólar en tveir eru aðilar að slíkum samningi. Á prófskírteini hvers háskóla um sig kemur fram að um sé að ræða prófgráðu sem háskólarnir veita sameiginlega á grundvelli samnings. Í viðauka með prófskírteini skal gera skýra grein fyrir námsleiðinni, þátttöku hvers háskóla fyrir sig og eðli samstarfsins. Brautskráning fyrir þessa nemendur er samkvæmt nánara samkomulagi háskólanna hverju sinni.

Deildum Háskóla Íslands er einnig heimilt að gefa út eitt sameiginlegt prófskírteini með auðkenni beggja (eða allra) háskólanna sem í hlut eiga. Einn háskólinn annast þá brautskráninguna. Á prófskírteini kemur fram að um sé að ræða prófgráðu sem háskólarnir veita sameiginlega á grundvelli samnings og að gefið sé út eitt sameiginlegt prófskírteini.

Deildum Háskóla Íslands er með sama hætti heimilt að bjóða upp á sameiginlegt nám til prófgráðu og gefa út eitt sameiginlegt prófskírteini með auðkenni beggja (eða allra) deildanna sem í hlut eiga. Sérstök námsstjórn skal skipuð um slíkt þverfræðilegt samstarf með aðild þeirra deilda sem að því koma. Heimilt er að skipuleggja sérstakar námsleiðir með þessum hætti, sbr. 53. gr.

63. gr.

Nánari reglur.

Nánari reglur um námsmat, prófgreinar, endurtekningu prófa, skiptingu fullnaðarprófs í fleiri en einn hluta, undirbúningspróf, einkunnir, hámarkstímalengd í námi eða einstökum hlutum þess og um afleiðingar, ef þeim ákvæðum er ekki fullnægt, er að finna í köflum um hverja deild í reglum þessum.

64. gr.

Endurmenntun á vegum háskóladeilda.

Endurmenntunarnám á vegum háskóladeilda lýtur eftirfarandi skilyrðum:

1. Við inntöku í námið skal nemandi uppfylla inntökuskilyrði samkvæmt 47. gr. þessara reglna. Deild kveður nánar á um inntökuskilyrði í námið og er í samþykktum deildar heimilt að setja strangari inntökuskilyrði.

2. Námið skal í hverju tilviki vera á faglega ábyrgð háskóladeildar og er henni heimilt að meta það til eininga.

3. Deild er heimilt að semja við þriðja aðila um ákveðin framkvæmdaratriði, s.s. skráningu nemenda, fjárreiður, reikningshald, húsnæði, kynningu o.fl., en fagleg ábyrgð skal ávallt vera hjá deildinni.

4. Deild er heimilt að ákveða að endurmenntunarnámi á vegum hennar ljúki með sérstakri prófgráðu. Skal það koma fram í kafla deildar í reglum þessum.

5. Um gjaldtöku vegna endurmenntunar á vegum háskóladeilda fer eftir lögum um opinbera háskóla og nánari ákvæðum í reglum þessum.

6. Háskólaráð skal staðfesta samþykktir deilda um endurmenntun á þeirra vegum og gjaldtöku vegna hennar, sbr. e-lið 2. mgr. 24. gr. laga um opinbera háskóla.

7. Endurmenntunarnám samkvæmt þessari grein er utan við hefðbundið námsframboð deildar. Fyrir hefðbundið nám er óheimilt að innheimta annað gjald en skrásetningargjald, sbr. a-lið 24. gr. laga um opinbera háskóla. Óheimilt er að fella skipulagt framhaldsnám samkvæmt ákvæðum 69. gr. þessara reglna undir ákvæði þessarar greinar.

8. Kennsla í endurmenntun á vegum deilda samkvæmt þessari grein er ekki hluti af starfsskyldum fastra kennara við kennslu, rannsóknir og stjórnun. Tilskilið er að rektor eða forseti fræðasviðs í umboði hans heimili þeim að sinna þessum verkefnum.

65. gr.

Fræðsla fyrir almenning.

Fræðsla fyrir almenning á vegum deilda og stofnana sem undir fræðasvið eða deildir heyra felur í sér, eftir atvikum, námskeið fyrir almenning, fyrirlestra, málstofur, almenna kynningu á starfsemi fræðasviða, deilda og stofnana og annað sem ekki telst til reglulegrar kennslu, náms og endurmenntunar á vegum deildar eða stofnunar.

VI. KAFLI

Meistarar og doktorar.

66. gr.

Miðstöð framhaldsnáms við Háskóla Íslands.

Miðstöð framhaldsnáms við Háskóla Íslands hefur umsjón með og fylgir eftir settum viðmiðum og kröfum um gæði framhaldsnáms við Háskóla Íslands með það að markmiði að stuðla að kröftugu vísindastarfi sem stenst alþjóðlegan samanburð og samkeppni.

Deildir háskólans bera faglega ábyrgð á framhaldsnámi við skólann. Miðstöð framhaldsnáms hefur heildaryfirsýn yfir framhaldsnámið og starfar náið með háskóladeildum, gæðanefnd háskólaráðs og sameiginlegri stjórnsýslu. Miðstöðin er þannig vettvangur samráðs og samvinnu um námið innan háskólans og tengiliður við samstarfsaðila innan lands og utan. Þverfræðilegar námsleiðir geta átt formlegt aðsetur í miðstöðinni og eru skilgreindar í samstarfi við hlutaðeigandi deildir. Heimilt er að veita öðrum háskólum aðild að miðstöðinni enda uppfylli þeir fagleg skilyrði til þess að standa fyrir doktorsnámi í viðkomandi fræðigrein að hluta eða öllu leyti samkvæmt mati stjórnar miðstöðvarinnar. Um slíka aðild skal gerður sérstakur samningur.

Hlutverk Miðstöðvar framhaldsnáms er að tryggja og efla gæði meistara- og doktorsnáms við Háskóla Íslands og stuðla að viðgangi þess í samræmi við ákvarðanir háskólaráðs. Hlutverk sitt rækir hún m.a. með því að:

a) hvetja til aukinna gæða og þjóna vexti og viðgangi framhaldsnámsins í hvívetna, einkum doktorsnáms,

b) skilgreina og fylgja eftir sameiginlegum viðmiðum og kröfum um gæði framhaldsnáms, fylgjast með því að starfandi námsleiðir í rannsóknatengdu framhaldsnámi séu í samræmi við gildandi viðmið og kröfur, að framboð námskeiða sé fullnægjandi og staðfesta lýsingar deilda á nýjum námsleiðum í framhaldsnámi,

c) hafa eftirlit með því að deildir fylgi almennum reglum um inntökukröfur, inntökuferli, inntökupróf fyrir doktorsnema ef því er að skipta, námsframvindu og dagsetningar sem standast verður til að nemendur geti lokið framhaldsnámi,

d) fylgjast með því að nemendur í framhaldsnámi séu ávallt skráðir við háskólann á meðan á námi stendur, annast skráningu niðurstaðna deilda vegna umsókna um framhaldsnám, námsáætlana fyrir rannsóknatengt meistaranám og breytinga á þeim og skrá og staðfesta námsáætlanir fyrir doktorsnám og breytingar á þeim,

e) sannreyna hvort leiðbeinendur í framhaldsnámi uppfylli sett viðmið og kröfur og viðurkenna þá sem aðila að miðstöðinni,

f) vera vettvangur samráðs og samvinnu um framhaldsnám innan skólans og um kröfur til framhaldsnema og leiðbeinenda,

g) stuðla í senn að samhæfingu og fjölbreytni framhaldsnámsins við háskólann og fylgjast náið með þróun framhaldsnáms á alþjóðlegum vettvangi og beita sér fyrir því að framhaldsnám við háskólann sé ávallt í samræmi við alþjóðlega viðurkenndar gæðakröfur,

h) hvetja til alþjóðlegs samstarfs og samvinnu við erlenda háskóla, m.a. varðandi sameiginleg rannsóknaverkefni og sameiginlegar prófgráður (joint degrees) og halda utan um sértæka samstarfssamninga um framhaldsnám og sameiginlegar prófgráður,

i) efla skilning á hagsmunum framhaldsnáms og framhaldsnema,

j) stuðla að bættri aðstöðu og aðbúnaði til rannsókna við háskólann,

k) halda saman, greina og miðla gögnum og upplýsingum um alla helstu þætti framhaldsnáms við háskólann, þ.m.t. styrki og staðtölur um námið á íslensku og ensku, og gera eftir atvikum tillögur til háskólaráðs um reglur og/eða viðmið sem stuðla að gæðum þess,

l) annast í samráði við deildir og kennslusvið umsýslu við kennsluskrá framhaldsnáms við háskólann og

m) gangast fyrir fræðslu, ráðstefnum, umræðufundum og fyrirlestrum um efni sem varða hlutverk og markmið miðstöðvarinnar, framhaldsnám almennt og vísindastörf við háskólann.

Rektor ræður forstöðumann Miðstöðvar framhaldsnáms við Háskóla Íslands til fimm ára í senn og setur honum erindisbréf þar sem nánar er kveðið á um verksvið hans.

Starf forstöðumanns skal auglýst laust til umsóknar og skal hann hafa hæfi sem prófessor og hafa reynslu af stjórnun innan háskóla, leiðbeiningu doktorsnema og umsýslu viðamikilla rannsókna.

Forstöðumanni til ráðuneytis skipar háskólaráð fimm menn í stjórn sem skipuð skal fulltrúum fræðasviða háskólans. Forstöðumaður miðstöðvarinnar er formaður stjórnar.

Stjórnarfundir skulu haldnir a.m.k. einu sinni á misseri og boðar forstöðumaður miðstöðvarinnar þá bréflega, eða í tölvupósti, með þriggja daga fyrirvara. Fundarboð skal greina dagskrá fundar. Skylt er að boða stjórnarfund óski tveir eða fleiri stjórnarmenn þess. Sama gildir ef rektor ber fram slíka ósk og hefur rektor þá málfrelsi og tillögurétt á fundinum, en ekki atkvæðisrétt. Falli atkvæði jöfn á stjórnarfundi ræður atkvæði forstöðumanns. Halda skal gerðabók stjórnar og skulu staðfestar fundargerðir færðar í hana. Afrit fundargerða skulu send rektor.

Verkefni stjórnar er að vera forstöðumanni til ráðgjafar um allar stefnumarkandi ákvarðanir fyrir miðstöðina, framkvæmd hlutverks hennar skv. 3. mgr. og veita honum umsagnir um starfsáætlanir og annað er lýtur að starfsemi hennar.

Forstöðumaður ber ábyrgð á fjármálum miðstöðvarinnar gagnvart rektor og háskólaráði, undirbýr rekstrar- og fjárhagsáætlun í samráði við stjórn og gerir tillögu til háskólaráðs um fjárveitingar og ráðstöfun þeirra ásamt skiptingu annarra tekna ef við á.

Forstöðumaður annast daglegan rekstur miðstöðvarinnar, þar á meðal starfsmannastjórnun ef við á, fjármál og verkefni.

Um ráðningu annars starfsfólks fer eftir ákvæðum reglna fyrir Háskóla Íslands.

Formlegt mat á rekstri og starfsemi miðstöðvarinnar skal fara fram með reglulegu millibili, samkvæmt nánari ákvörðun háskólaráðs.

67. gr.

Doktorsnafnbót og doktorsskjal.

Háskóladeildir hafa rétt til þess að veita doktorsnafnbót. Slíka nafnbót má veita annað hvort í heiðursskyni eða að undangengnu sérstöku prófi. Háskóladeildir standa fyrir doktorsprófi. Doktorsnafnbót í heiðursskyni verður ekki veitt nema samkvæmt tillögu deildar og stjórnar fræðasviðs, með samþykki þriggja fjórðu hluta allra atkvæðisbærra deildarmanna og með samþykki háskólaráðs. Heimilt er deild að greiða atkvæði um veitingu doktorsnafnbótar í heiðursskyni með rafrænni atkvæðagreiðslu. Fulltrúar stúdenta á deildarfundum eiga atkvæðisrétt um veitingu doktorsnafnbóta í heiðursskyni.

Að loknu doktorsprófi eða við veitingu doktorsnafnbótar í heiðursskyni fær deildarforseti doktor í hendur doktorsskjal, sem forseti fræðasviðs og deildarforseti undirrita.

Háskólaráð setur sérstök viðmið um veitingu heiðursdoktorsnafnbóta.

68. gr.

Aðgangur að doktorsnámi.

Sá er æskir þess að verja ritgerð til doktorsnafnbótar skal að jafnaði hafa lokið kandídatsprófi eða meistaraprófi. Háskóladeild er heimilt að skipuleggja doktorsnám í einstökum kennslugreinum, samkvæmt nánari ákvæðum í 69. gr. þessara reglna og ákvæðum um nám í köflum viðkomandi deilda. Doktorsnámi lýkur með doktorsprófi. Frekari reglur sem deildir kunna að setja um slíkt nám skulu samþykktar af stjórn fræðasviðs og staðfestar af háskólaráði, að fenginni umsögn Miðstöðvar framhaldsnáms.

Þeir stúdentar sem uppfylla kröfur viðkomandi deildar um aðfararnám geta sótt um aðgang að doktorsnámi. Deild er heimilt að skipuleggja hæfnispróf fyrir umsækjendur.

69. gr.

Skipulagt framhaldsnám til meistara- og doktorsgráðu.

1. Fastanefndir.

Í hverri deild, sem hefur heimild háskólaráðs til að brautskrá meistara- eða doktorsnema, skal starfa sérstök fastanefnd, sem fer með málefni námsins. Hlutverk fastanefndar er m.a. að fjalla um umsóknir og samþykkja breytingar á námsáætlun, sbr. 3. tölulið þessarar greinar, tilnefna prófdómara, sbr. 11. tölulið, og sinna öðrum málum sem deild kann að fela henni. Fastanefndir deilda skulu hafa samráð sín á milli um framboð námskeiða á meistara- og doktorsstigi, sbr. 8. tölulið og vera tengiliðir við Miðstöð framhaldsnáms við Háskóla Íslands, sbr. 18. tölulið. Deild getur falið námsbrautum að sjá um einstök verkefni fastanefndar.

Heimilt er að hafa eina sameiginlega fastanefnd fyrir fræðasvið í heild sem skipuð er einum fulltrúa hverrar deildar. Fastanefnd fræðasviðs getur gegnt hlutverki fastanefnda deilda fræðasviðsins og komið í þeirra stað eða verið samráðsnefnd fastanefnda deildanna og þá skipuð formönnum þeirra. Fastanefnd fræðasviðs eða samráðsnefnd fastanefnda deilda annast þá tengsl við Miðstöð framhaldsnáms.

2. Umsóknarfrestur.

Umsóknarfrestur um meistara- og doktorsnám við háskólann er að jafnaði til 15. apríl, en erlendra umsækjenda til 1. febrúar. Leyfi deildir innritun framhaldsnema á vormisseri skal sá umsóknarfrestur vera til 15. október. Heimilt er að taka við umsóknum um doktorsnám á öðrum tímum ef sérstaklega stendur á.

3. Meðferð umsókna.

Umsóknum um meistara- og doktorsnám skal skilað til nemendaskrár. Eftir skráningu gagna þar er fjallað um umsóknir í fastanefnd deildar eða í fastanefnd fræðasviðs, sbr. 1. tölulið, og þær síðan afgreiddar í deild. Afgreiðslu erlendra umsókna sem berast fyrir 1. febrúar, sbr. 2. tölulið, skal vera lokið fyrir 30. apríl. Afgreiðslu umsókna sem berast fyrir 15. apríl vegna innritunar á haustmisseri skal vera lokið og þeim svarað fyrir 25. maí. Afgreiðslu umsókna sem berast fyrir 15. október vegna innritunar á vormisseri skal vera lokið og þeim svarað fyrir 15. nóvember.

Deildir ákveða hvaða gögn skulu fylgja umsókn um meistaranám. Með umsókn um doktorsnám skulu að jafnaði fylgja drög að námsáætlun, lýsing rannsóknarverkefnis og rannsóknaráætlun. Deild getur krafist þess að umsókn fylgi ítarleg greinargerð um námsáætlun og rannsóknarverkefnið. Breytingar á námsáætlun í doktorsnámi eru háðar samþykki doktorsnefndar og staðfestingu Miðstöðvar framhaldsnáms. Synji deild stúdent inngöngu skal hún rökstyðja niðurstöðu sína. Afgreiðslu umsóknar skal í öllum tilvikum tilkynna til nemendaskrár.

Nánari upplýsingar um ferli umsókna um meistara- og doktorsnám skulu birtar í kennsluskrá háskólans.

4. Inntökuskilyrði.

Reglur deilda skulu kveða á um nauðsynlegar prófgráður sem krafist er sem undanfara náms í hverju tilviki. Jafnframt sé kveðið á um lágmarkseinkunn í undanfaranáminu ef það á við. Nauðsynlegt er að gera grein fyrir forkröfum veitist nemendum undanþága frá tilgreindum prófgráðum. Séu sett frekari skilyrði um inntöku, s.s. inntökupróf í doktorsnám, skulu þau tilgreind. Ekki er heimilt að taka akademískan starfsmann í deild í doktorsnám við viðkomandi deild.

5. Einingafjöldi og tímalengd náms.

Reglur deilda tilgreini þann námstíma sem miðað er við í eðlilegri námsframvindu og hámarksnámstíma. Deild er heimilt að tiltaka í reglum sínum að stúdent geti frá upphafi verið skráður í meistaranám til fjögurra ára og er þá miðað við 30 einingar á hverju ári. Við brautskráningu skal sýnt að stúdent hafi verið skráður og greitt skráningargjald allan námstímann.

Meistarapróf byggist að jafnaði á 120 námseiningum og doktorspróf að lágmarki á 180 einingum að loknu meistaraprófi. Fylgja skal samþykktum háskólaráðs um viðmið og kröfur um gæði meistaranáms og doktorsnáms.

Heimili deild stúdent að skrá sig beint í doktorsnám án meistaragráðu skal doktorsnám vera 240 einingar hið minnsta og námstími ekki styttri en 4 ár. Ákvæði skulu vera um þetta atriði í reglum deilda.

6. Samsetning náms.

Tilgreina skal í reglum deilda lágmark eininga í námskeiðum og lokaverkefni/ritgerð. Meistarapróf skal að jafnaði vera 60 einingar í námskeiðum, málstofum og lesnámskeiðum. Þótt þessi námsþáttur geti verið minni skal hann þó aldrei nema færri en 30 einingum. Reglur deilda kveði á um þær kröfur sem gerðar eru til lesnámskeiða.

Í sérstökum tilvikum er deild þó heimilt með samþykki stjórnar fræðasviðs og staðfestingu háskólaráðs, að skipuleggja nám til meistaraprófs, án rannsóknatengds lokaverkefnis eða meistaraprófsritgerðar, enda séu gæði námsins tryggð með öðrum hætti þannig að þau séu sambærileg við annað meistaranám í skólanum. Frekari reglur sem deildir kunna að setja um meistaranám með samþykki stjórnar fræðasviðs skulu staðfestar af háskólaráði, að fenginni umsögn Miðstöðvar framhaldsnáms, sbr. 66. gr.

7. Tengsl meistara- og doktorsnáms.

Í reglum deilda skal gerð grein fyrir hugsanlegri samþættingu og tengslum meistara- og doktorsnáms hvað varðar námskeið, framhaldsnámsmálstofur, sem og lokaritgerðir. Ekki er heimilt að nota meistaraprófsritgerð aftur sem uppistöðu í doktorsritgerð.

8. Námskeið í grunnnámi sem hluti af framhaldsnámi.

Nauðsynlegt er að tilgreina í reglum deilda þann hámarksfjölda eininga úr námskeiðum í grunnnámi sem leyfður er sem hluti af framhaldsnámi. Koma skal fram hvort slík námskeið eru metin til færri eininga á meistarastigi en í grunnnámi eða hvort gerðar eru meiri kröfur, t.d. um hærri lágmarkseinkunnir, til meistaranema í námskeiðum grunnnáms, fái þeir jafnmargar einingar fyrir þau og stúdentar í grunnnámi.

9. Umsjónarkennari og leiðbeinandi.

Sérhver framhaldsnemi skal frá upphafi náms hafa umsjónarkennara, sem hann ráðfærir sig við um skipulag námsins, val námskeiða og annað sem náminu tengist. Umsjónarkennari, ásamt stúdent, leggur fram námsáætlun sem deild samþykkir.

Leiðbeinandi leiðbeinir stúdent í lokaverkefni. Deild getur þó heimilað stúdent að hafa utanaðkomandi leiðbeinanda sem uppfyllir þær kröfur sem gerðar eru í þessum reglum og reglum viðkomandi deildar.

10. Kröfur til þeirra sem leggja mat á námið og lokaverkefnið.

Umsjónarkennari skal ávallt vera akademískur starfsmaður við Háskóla Íslands í viðkomandi grein. Ef leiðbeinandi kemur ekki úr framangreindum hópi þarf hann að hafa lokið a. m. k. meistaraprófi á fræðasviðinu til að leiðbeina meistaranema, að öðrum kosti doktorsprófi eða jafngildi þess. Gæta þarf þess að verkefni nemandans sé á sérsviði leiðbeinandans. Leiðbeinendur meistaranema og doktorsnema skulu uppfylla skilyrði sem sett eru í viðmiðum og kröfum um gæði námsins, skulu vera viðurkenndir sérfræðingar á viðkomandi sviði og hafa birt ritsmíðar er tengjast verkefni stúdents á vettvangi sem gerir strangar fræðilegar kröfur.

11. Meistaraprófs- og doktorsnefndir.

Reglur deilda skulu kveða á um skipan meistaraprófsnefnda og kröfur sem gerðar eru til þeirra sem í þeim sitja. Í þeim tilvikum þar sem umsjónarkennari er ekki leiðbeinandi skal hann einnig sitja í meistaraprófsnefnd eða í doktorsnefnd eftir atvikum.

Meistaraprófsnefnd skal skipuð minnst tveimur sérfróðum mönnum og er annar þeirra umsjónarkennarinn. Heimilt er að skipa þriðja manninn í nefndina, t.d. ef verkefnið snertir fleiri en eina deild. Deild skipar meistaraprófsnefndina. Reglur deilda skulu kveða nánar á um skipan meistaraprófsnefnda og verksvið. Hlutverk meistaraprófsnefndar er að fylgjast með að framgangur námsins sé í samræmi við námsáætlun, tryggja fagleg gæði rannsóknavinnunnar í samræmi við reglur deildar og sjá um próf sem nemandinn gengst undir ef við á. Fastanefnd, sbr. 1. tölulið, tilnefnir prófdómara, sem ásamt meistaraprófsnefnd metur lokaverkefni. Sé megináherslan í meistaranámi á námskeið með litlu rannsóknaverkefni, 30-40 einingar, er ekki nauðsynlegt að skipa nefnd um hvern nemanda. Umsjónarkennari tryggir þá að námsframvinda sé í samræmi við námsáætlun og er hann jafnframt ábyrgur fyrir faglegum gæðum námsins.

Doktorsnefnd skal skipuð þremur til fimm sérfróðum mönnum sem deild skipar og skal a.m.k. einn þeirra ekki vera starfsmaður viðkomandi deildar í fullu starfi. Hlutverk doktorsnefndar er hliðstætt hlutverki meistaraprófsnefndar. Hún kveður doktorsefni á sinn fund eftir því sem þurfa þykir meðan á náminu stendur og prófar doktorsnemann í almennri fræðilegri þekkingu og rannsóknaraðferðum á viðkomandi sviði. Slíkt próf skal fara fram um miðbik námsins. Áður en til doktorsvarnar getur komið skilar doktorsnefndin rökstuddu áliti til deildar um það hvort veita skuli doktorsnema kost á að leggja ritgerð fram til doktorsvarnar.

12. Prófdómarar og andmælendur.

Prófdómari skal ávallt leggja mat á lokaverkefni meistaranema ásamt meistaraprófsnefnd.

Um andmælendur við doktorsvörn og framkvæmd doktorsvarnar gilda ákvæði 2. töluliðar 70. gr. reglna þessara.

13. Námsmat.

Um leið og ritgerð er lögð fram skal jafnframt leggja fram til mats meistaraprófsnefndar eða doktorsnefndar staðfest námsferilsyfirlit stúdents. Reglur skulu kveða á um námsmat og skipulag prófa. Um einkunnir í meistaraprófi gilda ákvæði 61. gr. þessara reglna.

14. Skil og frágangur lokaverkefna.

Reglur deilda skulu kveða á um skilafrest lokaverkefnis. Jafnframt skal kveðið á um fjölda eintaka lokaverkefnis, kostnað vegna þeirra og skil til Landsbókasafns Íslands-Háskólabókasafns. Koma skal skýrt fram, að verkefnið sé unnið við Háskóla Íslands, leiðbeinendur, fræðasvið, deild og rannsóknastofnun, ef við á, tilgreind og geta skal þeirra sjóða háskólans sem styrkt hafa verkefnið. Ritgerð má vera á erlendu máli og háskóladeild getur veitt manni leyfi til að tala erlent mál við doktorspróf. Hverri doktorsritgerð skal fylgja útdráttur á íslensku og ensku.

15. Tengsl við aðra háskóla.

Heimilt er deild að ákveða að taka skuli hluta meistara- eða doktorsnáms við aðra háskóla. Jafnframt er heimilt að veita meistaragráðu og doktorsgráðu sameiginlega með öðrum háskóla, sbr. 62. gr.

16. Lærdómstitlar.

Um lærdómstitla fer eftir 55. gr. þessara reglna.

17. Staðfesting á reglum deilda.

Reglur deilda um meistara- eða doktorsnám öðlast gildi þegar háskólaráð hefur samþykkt þær, að fenginni umsögn Miðstöðvar framhaldsnáms, sbr. 66. og 68. gr. þessara reglna. Með samþykkt sinni staðfestir háskólaráð að reglur séu í samræmi við ákvæði reglna þessara og að faglegar forsendur námsins sem um ræðir séu fyrir hendi.

18. Eftirlit með reglum og viðmiðum.

Miðstöð framhaldsnáms við Háskóla Íslands, sem starfar náið með deildum, gæðanefnd háskólaráðs og sameiginlegri stjórnsýslu, hefur eftirlit með því að deildir fylgi almennum reglum um meistara- og doktorsnám og sameiginlegum viðmiðum og kröfum um gæði námsins, sbr. nánar 66. gr. þessara reglna.

70. gr.

Doktorspróf án undangengins skipulagðs náms.

1. Doktorspróf án undangengins skipulagðs náms er fólgið í samningu ritgerðar eða ritgerða og munnlegri vörn. Enn fremur geta einstakar deildir með samþykki háskólaráðs áskilið að doktorsefni flytji fyrirlestur um fræðileg efni, einn eða fleiri. Til doktorsritgerðar eru gerðar kröfur um vísindaleg vinnubrögð og frumlegt framlag doktorsefnisins til viðkomandi vísindagreinar. Ritgerðin skal dæmd og varin samkvæmt reglum háskólans um doktorsritgerðir og doktorsvörn.

Umsókn um að þreyta doktorspróf skal stíluð til viðkomandi deildar. Með umsókninni skulu fylgja þrjú eintök af framlagðri ritgerð.

Nú leggur sá, er æskir að taka doktorspróf fram fleiri ritgerðir en eina, og verða ritgerðir þá að varða sama meginrannsóknarsvið og mynda nokkra heild. Þegar svo stendur á, skal semja sérstaka yfirlitsritgerð, þar sem dregið er saman efni hinna einstöku ritgerða og settar fram heildarályktanir.

Einnig skulu fylgja með umsókninni umsagnir þriggja aðila um það hvaða þýðingu telja megi að ritgerðin hafi fyrir rannsóknir á viðkomandi sviði og íslenskt fræðasamfélag. Umsagnaraðilar skulu allir þrír vera viðurkenndir sérfræðingar á fræðasviðinu.

Varði ritgerð fræði sem ekki er lögð stund á við Háskóla Íslands er deild heimilt að synja umsækjanda um mat á ritgerð á þeim grundvelli.

Áskilið er að ritgerð hafi að geyma rækilegan útdrátt á íslensku og ensku. Háskóladeild getur veitt manni leyfi til að tala erlent mál við doktorspróf.

Reynist ekki unnt að fá hæfa dómnefndarmenn til að meta ritgerð er deild heimilt að fara fram á að verkið verði lagt fram í íslenskri þýðingu eða á öðru tungumáli sem deild samþykkir.

2. Rannsóknanámsnefnd deildar (fastanefnd, sbr. 1. mgr. 69. gr.) fjallar um umsókn doktorsefnis og umsagnir sem henni fylgja. Nefndin tekur afstöðu til þess hvort umsóknin uppfyllir gæðakröfur m.a. með hliðsjón af viðmiðum sem gilda um doktorsnám. Þess skal sérstaklega gætt að doktorsritgerð hafi að geyma ítarlega umfjöllun um stöðu þekkingar á fræðasviðinu. Nefndin getur aflað viðbótarumsagna ef þess er þörf til þess að meta megi umsóknina út frá þeim atriðum sem að ofan greinir. Ef úrbóta er þörf að mati nefndarinnar upplýsir hún umsækjanda um það, en leggur ella til við deildarforseta að deildin skipi þriggja manna dómnefnd til að meta vísindagildi ritsmíða þeirra, er fylgja umsókninni. Dómnefndarmenn skulu uppfylla þau skilyrði sem gerð eru til þeirra sem sitja í dómnefndum samkvæmt III. kafla þessara reglna. Um sérstakt hæfi þeirra gildir II. kafli stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í dómnefnd er heimilt að skipa menn utan háskólans. Dómnefnd skilar skriflegu og rökstuddu áliti til deildar. Álit dómnefndar eða meirihluta hennar skal vera afdráttarlaust um hvort hún telji að ritgerðin uppfylli þær kröfur sem gera verður til doktorsritgerða. Sé ágreiningur innan dómnefndar er minnihluta heimilt að gera grein fyrir afstöðu sinni með séráliti. Sé dómnefnd sammála skal hún skila einu áliti.

Ef meirihluti dómnefndar telur að rit, sem umsækjandi hefur lagt fram fullnægi ekki kröfum þeim sem gera verður til doktorsritgerða skal deildin synja umsækjanda um að ganga undir doktorspróf. Sama gildir ef meirihluti dómnefndar stendur að slíku áliti. Telji meirihluti dómnefndar hins vegar ritið vera fullnægjandi ákveður deild hvort veita skuli umsækjanda kost á að þreyta prófið.

Telji deildin ritgerðina tæka til doktorsvarnar tilnefnir hún, að fenginni umsögn Miðstöðvar framhaldsnáms, tvo andmælendur við munnlega vörn ritgerðarinnar. Andmælendur mega hafa setið í dómnefnd.

Umsækjandi skal þá láta prenta ritgerðina, hafi það ekki verið gert áður og afhenda Háskóla Íslands fjögur eintök.

Doktorsefni skal síðan verja ritgerðina í háskólanum í heyranda hljóði á þeim degi sem deildin ákveður. Ritgerð skal liggja frammi á skrifstofu deildar og á Landsbókasafni Íslands-Háskólabókasafni í fjórar vikur áður en vörn fer fram.

Deildarforseti stýrir doktorsvörn. Nú vill maður sem ekki er tilnefndur andmælandi taka til máls um verk doktorsefnis, og skal hann þá skýra deildarforseta frá því einum sólarhring áður en doktorsvörn fer fram. Þó getur deildarforseti leyft manni úr áheyrendahópi stutta athugasemd án slíks fyrirvara. Að lokinni munnlegri vörn og fyrirlestrahaldi, ef því er að skipta, ákveður deildarforseti ásamt andmælendum hvort veita skuli doktorsnafnbót. Verði ágreiningur skal skjóta málinu til deildarfundar.

Fulltrúar stúdenta á deildarfundum eiga ekki atkvæðisrétt um mál er varða veitingu doktorsnafnbóta, sbr. ákvæði þessarar greinar og 69. gr. reglna þessara.

Háskólaráð setur sérstakar verklagsreglur um framkvæmd doktorsvarna.

VII. KAFLI

Gjöld fyrir þjónustu, ráðstöfun þeirra, samningar o.fl.

71. gr.

Gjöld fyrir þjónustu.

Háskólanum er heimilt að taka skrásetningargjöld sem nemendur greiða við skrásetningu. Skrásetningargjaldið nemur samanlögðum útgjöldum háskólans vegna nemendaskráningar og þjónustu við nemendur sem ekki telst til kostnaðar við kennslu og rannsóknastarfsemi, sbr. nánar 24. gr. laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla. Heimilt er að taka gjald til að standa undir kostnaði við útgáfu staðfestra vottorða, gerð, fyrirlögn og yfirferð stöðu-, inntöku-, upptöku- og fjarprófa. Jafnframt er heimilt að taka gjald fyrir þá þjónustu sem telst utan þeirrar þjónustu sem háskólanum er skylt að veita. Enn fremur er heimilt að taka gjöld fyrir endurmenntun og fræðslu fyrir almenning. Að öðru leyti er óheimilt að innheimta gjöld fyrir þá kennslu, sem fram fer í Háskóla Íslands.

Gjöld samkvæmt 1. mgr. skulu ekki vera hærri en sá kostnaður sem til verður við að veita þjónustuna og skal þeim eingöngu varið til að standa straum af henni. Þó er heimilt að taka 15% hærra skrásetningargjald af þeim sem fá leyfi til skrásetningar utan auglýstra skráningartímabila.

Háskólaráð setur nánari reglur um fyrir hvaða þjónustu má innheimta gjöld og setur gjaldskrá, sem endurskoða skal árlega.

72. gr.

Sértekjur og samningar.

Afli fræðasvið, deild eða stofnun háskólans sértekna er skylt að gera skriflegan samning um það. Um stjórnunar- og aðstöðugjald af sértekjum fer eftir ákvæðum 73. gr. í reglum þessum. Í samningi skal kveðið á um:

1. Hvaða þjónustu viðkomandi fræðasvið, deild eða stofnun tekur að sér að veita og hvaða kröfur eru gerðar í því sambandi.

2. Greiðslur fyrir þjónustuna/verkefnið og hvenær inna beri þær af hendi.

3. Gildistíma og uppsagnarfrest samnings.

Veiti fræðasvið, deild eða stofnun þjónustu sem er í samkeppni við aðra aðila er óheimilt að niðurgreiða þann rekstur með fjárframlagi sem Háskóli Íslands fær á fjárlögum eða á grundvelli þjónustusamninga við menntamála- og fjármálaráðherra.

Hafi samningur í för með sér veruleg fjárútlát eða skuldbindingu til langs tíma skal rektor staðfesta hann.

73. gr.

Stjórnunar- og aðstöðugjald.

Háskólaráði er heimilt að ákveða að fræðasvið og deildir háskólans innheimti stjórnunar- og aðstöðugjald af öllum sértekjum, þar með töldum tekjum stofnana er undir þær heyra. Enn fremur er heimilt að ákveða að þær innheimti stjórnunar- og aðstöðugjald af styrkjum úr rannsóknasjóðum, framlögum eða styrkjum frá einstaklingum, fyrirtækjum eða stofnunum. Við gerð fjárhagsáætlunar fræðasviðs skal gera ráð fyrir tekjum af stjórnunar- og aðstöðugjaldi eftir því sem við á. Háskólaráð getur jafnframt ákveðið að hluti tekna af stjórnunar- og aðstöðugjaldi renni í Rannsóknasjóð Háskóla Íslands.

74. gr.

Aðild að fyrirtækjum.

Háskóla Íslands er heimilt með samþykki menntamálaráðherra að eiga aðild að rannsóknar- og þróunarfyrirtækjum er séu hlutafélög, einkahlutafélög, sjálfseignarstofnanir eða félög með takmarkaðri ábyrgð og stunda framleiðslu og sölu í því skyni að miðla, hagnýta og þróa niðurstöður rannsóknar- og þróunarverkefna sem háskólinn vinnur að hverju sinni.

Háskóla Íslands er heimilt að eiga aðild að hlutafélögum, einkahlutfélögum, sjálfseignarstofnunum og félögum með takmarkaðri ábyrgð að því marki sem það samrýmist því hlutverki sem háskólanum er ætlað samkvæmt lögum.

Háskólaráð fer með eignarhlut háskólans í þeim fyrirtækjum sem að framan greinir, en getur veitt fræðasviði eða öðrum aðilum innan háskólans umboð til að fara með hlutinn.

VIII. KAFLI

Sjóðir til styrktar rannsóknum, kennslu og stjórnun í Háskóla Íslands

og félags- og menningarstarfsemi stúdenta.

75. gr.

Rannsóknasjóður Háskóla Íslands.

Tilgangur Rannsóknasjóðs Háskóla Íslands er að efla rannsóknir í háskólanum.

Háskólaráð ákveður árlega fjárveitingu til sjóðsins og hvernig staðið skuli að úthlutun.

Kennarar og sérfræðingar við Háskóla Íslands og stofnanir hans, sem hafa rannsóknir að aðalstarfi og hafa verið ráðnir á grundvelli hæfnisdóms, geta sótt um stuðning sjóðsins. Að auki geta nýdoktorar, er uppfylla skilyrði sjóðsins, sótt um sérstaka nýdoktorastyrki sem stjórn sjóðsins er heimilt að auglýsa.

Við mat á verkefnum skal fyrst og fremst fara eftir vísindagildi þeirra, enn fremur skal höfð hliðsjón af rannsóknavirkni umsækjenda. Við úthlutun skal séð til þess að sérfræðingar á viðkomandi sviði gefi faglega umsögn um allar umsóknir styrkhæfra umsækjenda.

Að loknu hverju almanaksári skal háskólaráði gefin skýrsla um úthlutun úr sjóðnum.

76. gr.

Kennslumálasjóður Háskóla Íslands.

Tilgangur Kennslumálasjóðs Háskóla Íslands er að stuðla að nýmælum í kennsluháttum og endurbótum á kennslu við háskólann.

Háskólaráð ákveður árlega fjárveitingu til sjóðsins.

Stjórn sjóðsins er í höndum kennslumálanefndar háskólaráðs og er formaður nefndarinnar jafnframt formaður stjórnar sjóðsins.

Stjórn sjóðsins úthlutar úr sjóðnum. Stjórninni er heimilt að setja sér vinnureglur um úthlutun og skulu þær staðfestar af háskólaráði. Í þeim er heimilt að kveða á um að stjórn efni sjálf til verkefna sem styrkt eru af sjóðnum.

Prófessorar, dósentar, lektorar og aðjúnktar geta sótt um fé úr sjóðnum.

Við mat á verkefnum skal fyrst og fremst fara eftir því hvort þau feli í sér veruleg og áhugaverð nýmæli í kennsluháttum eða viðhorfum til námsefnis eða um sé að ræða meiri háttar námsgagnagerð, hvort sem er í rituðu máli eða annarri mynd. Styrkjum er m.a. ætlað að mæta útgjöldum vegna vinnu aðstoðarmanna og vegna útlagðs kostnaðar. Stjórn sjóðsins skal sjá til þess að sérfræðingar á viðkomandi sviði gefi faglega umsögn um allar umsóknir styrkhæfra umsækjenda. Stjórninni er heimilt að efna sjálf til verkefna sem veittur er styrkur til.

Stjórn sjóðsins skal gefa háskólaráði skýrslu um úthlutun úr sjóðnum að loknu hverju almanaksári.

77. gr.

Tækjakaupasjóður Háskóla Íslands.

Tilgangur Tækjakaupasjóðs Háskóla Íslands er að efla rannsóknir og kennslu við háskólann. Rektor skipar þriggja manna stjórn Tækjakaupasjóðs samkvæmt tilnefningu vísindanefndar, kennslumálanefndar og fjármálanefndar.

Sjóðurinn skiptist í tvo hluta: Sérhæfðan tækjakaupasjóð og verkefnabundinn tækjakaupasjóð. Fjárveiting til sjóðsins er ákveðin árlega af háskólaráði. Skipting fjárveitingar sjóðsins milli einstakra hluta hans skal ákveðin í lok hvers almanaksárs. Stjórn sjóðsins tekur þá ákvörðun í samráði við rektor.

Stjórn sjóðsins úthlutar sérhæfðu tækjakaupafé á grundvelli umsókna og forgangsröðunar fræðasviða. Vísindanefnd úthlutar verkefnabundnu tækjakaupafé í tengslum við úthlutun úr Rannsóknasjóði Háskóla Íslands.

Tæki sem keypt eru fyrir styrk úr Tækjakaupasjóði eru eign Háskóla Íslands.

Sviðsstjóri vísindasviðs skal gefa háskólaráði skýrslu um úthlutun tækjakaupafjár einu sinni á ári.

78. gr.

Vinnumatssjóður Háskóla Íslands.

Tilgangur Vinnumatssjóðs Háskóla Íslands er að efla rannsóknir og stjórnun við háskólann.

Háskólaráð ákveður árlega fjárveitingu til sjóðsins.

Stjórn sjóðsins er í höndum vinnumatsnefndar og skal hún setja sér vinnureglur sem staðfestar eru af háskólaráði. Rektor skipar í vinnumatsnefnd samkvæmt sameiginlegri tilnefningu frá Félagi háskólakennara og vísindasviði háskólans.

Félagsmenn í Félagi háskólakennara sem gegna a.m.k. hálfu starfi geta sótt um að fá greiðslur úr sjóðnum fyrir rannsóknir samkvæmt vinnumati.

Vinnumat rannsókna skal byggja á rannsóknamatskerfi, sem er hluti af formlegu gæðakerfi Háskóla Íslands og háskólaráð setur reglur um. Vinnumatsnefnd skal eftir atvikum hafa samráð við Félag prófessora um matið til að tryggja samræmi í mati á störfum háskólamanna.

Rektor úthlutar greiðslum úr sjóðnum vegna stjórnunarstarfa. Honum er heimilt að fela sviðsstjóra starfsmannasviðs að annast úthlutunina.

Vinnumatsnefnd skal einu sinni á ári gefa háskólaráði skýrslu um úthlutun úr sjóðnum.

79. gr.

Sáttmálasjóður Háskóla Íslands.

Sáttmálasjóður Háskóla Íslands starfar á grundvelli auglýsingar nr. 11/1919.

Tilgangur sjóðsins er að styrkja íslenska vísindastarfsemi, tengsl Íslands og Danmerkur, sbr. nánar 2. gr. framangreindrar auglýsingar.

Háskólaráð hefur yfirumsjón með sjóðnum. Rektor annast úthlutun úr honum.

Háskólaráð setur reglur um úthlutun í samræmi við tilgang sjóðsins.

Til viðbótar við sértekjur ákveður háskólaráð árlega fjárveitingu til sjóðsins.

80. gr.

Aðstoðarmannasjóður Háskóla Íslands.

Tilgangur Aðstoðarmannasjóðs Háskóla Íslands er að styrkja fræðasvið Háskóla Íslands til að ráða doktorsnema sem aðstoðarkennara og að gera kennurum kleift að ráða sér aðstoðarmann við rannsóknir og/eða kennslu. Markmiðið er að efla doktorsnám við háskólann og að stúdentar öðlist þjálfun og færni í faglegum vinnubrögðum.

Tekjur Aðstoðarmannasjóðs eru árlegt framlag, sem háskólaráð ákveður.

Miðstöð framhaldsnáms annast úthlutun.

Prófessorar, dósentar, lektorar, aðjúnktar, vísindamenn, fræðimenn og sérfræðingar við Háskóla Íslands geta sótt um styrki til sjóðsins. Styrkur er veittur til launa aðstoðarmanns. Aðstoðarmaður skal að jafnaði vera stúdent við Háskóla Íslands, en þó er heimilt að ráða kandídat sem aðstoðarmann, innan eins árs frá brautskráningu.

Við úthlutun skal meta þörfina fyrir vinnuframlag aðstoðarmanns, fræðslu- og menntagildi verkefna fyrir aðstoðarmanninn, sem skal vera ótvírætt, hvort aðstaða er fyrir hendi og hvort verkefnið er líklegt til að efla vísinda- og fræðastarf innan háskólans.

Miðstöð framhaldsnáms skal árlega gera háskólaráði grein fyrir úthlutun.

81. gr.

Stúdentasjóður Háskóla Íslands.

Hlutverk Stúdentasjóðs Háskóla Íslands er að efla félags-, fræðslu- og menningarstarfsemi stúdenta við Háskóla Íslands og að efla erlend samskipti þeirra.

Í stjórn sjóðsins skulu sitja fimm fulltrúar skipaðir til eins árs í senn, og skal skipun þeirra fara fram fyrir 15. september ár hvert. Tveir eru skipaðir af Stúdentaráði og þrír eru skipaðir eftir kosningu á almennum formannafundi nemendafélaga. Rektor skipar áheyrnarfulltrúa í stjórn sjóðsins.

Á fyrsta fundi sjóðstjórnar, sem haldinn skal fyrir 1. október, kýs stjórnin formann og skiptir með sér verkum að öðru leyti. Hlutverk formanns sjóðstjórnar er að halda utan um starfsemi sjóðsins.

Sjóðstjórn skal halda fundargerðir. Formanni Stúdentaráðs er heimilt að sitja fundi stjórnar sem áheyrnarfulltrúi en hann hefur ekki atkvæðisrétt. Stjórnarfundur er löglegur ef a.m.k. fjórir stjórnarmenn eru viðstaddir.

Sjóðstjórn skal úthluta styrkjum a.m.k. tvisvar á hvoru kennslumisseri. Fyrsta úthlutun skal fara fram fyrir 1. nóvember. Stúdentaráð annast greiðslur úr sjóðnum í samræmi við ákvarðanir stjórnar.

Háskólaráð ákveður hve mikið fé sjóðurinn skal hafa til ráðstöfunar. Einnig má afla fjár í sjóðinn með gjöfum og framlögum sem honum kunna að berast.

Ákvæðum reglna þessara um Stúdentasjóð Háskóla Íslands verður ekki breytt nema leitað hafi verið umsagnar Stúdentaráðs um fyrirhugaðar breytingar. Stúdentaráði er heimilt að setja reglur um umsóknir um styrki, úthlutun og skyldur styrkþega. Í þeim er heimilt að fela stjórn sjóðsins að setja sér vinnureglur um úthlutun.

Stjórn sjóðsins ber að senda rektor ársreikninga sjóðsins ásamt skýrslu um hvernig fé hans hefur verið varið.

82. gr.

Styrktarsjóðir Háskóla Íslands.

Í vörslu Háskóla Íslands eru styrktarsjóðir sem að öllu jöfnu lúta sérstökum skipulagsskrám. Háskólaráð hefur umsjón með sjóðunum og skipar sérstaka stjórn til þess að hafa yfirsýn yfir fjárvörslu þeirra samkvæmt sérstökum verklagsreglum. Styrktarsjóðirnir skulu kynntir á vefsetri háskólans.

IX. KAFLI

Ársfundur.

83. gr.

Ársfundur háskólans.

Háskóli Íslands skal árlega halda opinn ársfund, þar sem fjárhagur háskólans og meginatriði starfsáætlunar hans eru kynnt.

II. HLUTI
FRÆÐASVIÐ HÁSKÓLANS OG SÉRREGLUR FYRIR HVERJA HÁSKÓLADEILD.

X. KAFLI

Félagsvísindasvið.

Deildir félagsvísindasviðs eru félags- og mannvísindadeild, félagsráðgjafardeild, hagfræðideild, lagadeild, stjórnmálafræðideild og viðskiptafræðideild.

Deildirnar skulu hafa með sér náið samstarf til að nýta sem best mannafla, fjármuni, aðstöðu, tæki og búnað í þágu fjölbreyttrar menntunar og rannsókna.

Félagsvísindasvið og deildir þess skulu enn fremur stuðla að nánu samstarfi við sameiginlega stjórnsýslu háskólans, önnur fræðasvið háskólans og deildir.

Um stjórn fræðasviða og deilda og önnur atriði sem lúta sömu reglum fer eftir ákvæðum II. kafla þessara reglna. Um inntökuskilyrði í einstakar deildir og námsleiðir fer eftir reglum sem háskólaráð setur, sbr. 47. gr. þessara reglna. Háskólaráð setur jafnframt sérstakar reglur um háskólastofnanir og um meistara- og doktorsnám í hverri deild.

FÉLAGS- OG MANNVÍSINDADEILD.

84. gr.

Kennslugreinar, prófgráður og námseiningar.

Félags- og mannvísindadeild veitir kennslu sem hér segir:

Aðalgreinar til BA-prófs: Bókasafns- og upplýsingafræði, félagsfræði, mannfræði og þjóðfræði. Til meistara- og doktorsprófa í fræðigreinum deildarinnar. Enn fremur til meistara- og doktorsprófs í lýðheilsuvísindum og meistaraprófs í umhverfis- og auðlindafræðum og öðrum þverfræðilegum greinum í samvinnu við aðrar háskóladeildir, þar sem nauðsynleg aðstaða er fyrir hendi.

Félags- og mannvísindadeild setur nánari reglur um námið og skulu þær koma fram í kennsluskrá.

Félags- og mannvísindadeild er skipað í eftirtaldar námsbrautir, sbr. ákvæði 21. gr. þessara reglna: Bókasafns- og upplýsingafræði, félagsfræði, fötlunarfræði, mannfræði, þjóðfræði, og náms- og starfsráðgjöf.

Auk kennslu stendur deildin fyrir rannsóknum á fræðasviðum deildarinnar.

Heimilt er að skipuleggja þær greinar sem tilgreindar eru sem aðalgreinar, auk annarra greina félagsvísinda, sem aukagreinar, samkvæmt nánari ákvörðun deildarinnar.

Félags- og mannvísindadeild er heimilt að skipuleggja grunnnám til 60-90 eininga og lýkur 90 eininga náminu með diplómaprófi.

Til BA-prófs er krafist minnst 180 eininga og skal stúdent ljúka 120 einingum í aðalgrein og 60 í aukagrein eða viðbótarnámskeiðum aðalgreinar.

Deildinni er heimilt að gefa kost á allt að 90 eininga viðbótarnámi að loknu fullgildu háskólaprófi. Nám fyrir skólasafnverði er skipulagt sem eins árs viðbótarnám.

Framhaldsnám er skipulagt samkvæmt þessum reglum og nánari reglum sem Félags- og mannvísindadeild setur og háskólaráð staðfestir, sbr. 66. - 69. gr. þessara reglna. Lýsing á náminu skal koma fram í kennsluskrá.

Til MA-prófs er að jafnaði krafist 120 eininga náms að loknu BA-prófi. Heimilt er að bjóða upp á MA-nám í öllum aðalgreinum Félags- og mannvísindadeildar sem hægt er að taka til BA-prófs. Slíkt nám má skipuleggja sem rannsóknarnám þar sem lokaverkefni er minnst 30 einingar.

Deildinni er einnig heimilt að skipuleggja doktorsnám til minnst 180 eininga í samræmi við ákvæði þessara reglna.

MLIS (Master of Library and Information Science) er 120 eininga meistaranám í bókasafns- og upplýsingafræði að loknu BA-námi eða sambærilegu námi í annarri grein en bókasafns- og upplýsingafræði. Nemendur ljúka 60 einingum í námskeiðum, 30 einingum í hagnýtu námi og 30 eininga meistaraprófsritgerð eða lokaverkefni er tengist einhverju sviði bókasafns- og upplýsingafræða.

MA-nám í náms- og starfsráðgjöf er sérstaklega skipulagt 120 eininga meistaranám að loknu BA-prófi eða sambærilegu háskólaprófi.

MA-nám í blaða- og fréttamennsku er sérstaklega skipulagt 120 eininga meistaranám að loknu BA-prófi eða sambærilegu háskólaprófi.

MA-nám í fötlunarfræði er 120 eininga rannsóknarnám eða 90 eininga starfstengt rannsóknarnám að loknu BA-prófi eða sambærilegu háskólaprófi.

MA-nám í safnafræði er sjálfstætt 120 eininga nám að loknu BA-prófi eða sambærilegu háskólaprófi.

MA-nám í þróunarfræðum er 120 eininga nám.

MA-nám í norrænni trú er sérstaklega skipulagt 120 eininga nám á ensku að loknu BA-prófi eða sambærilegu háskólaprófi.

Diplómanám í félagsfræði er sjálfstætt 30 eininga nám að loknu BA-prófi eða sambærilegu háskólaprófi. Nám þetta er hægt að fá metið inn í meistaranám í félagsfræði.

Diplómanám í náms- og starfsráðgjöf er 60 eininga sjálfstætt nám að loknu BA-prófi eða sambærilegu háskólaprófi. Nám þetta er hægt að fá metið inn í MA-nám í náms- og starfsráðgjöf.

Diplómanám í safnafræði er sjálfstætt 30 eininga nám að loknu BA-prófi eða sambærilegu háskólaprófi. Nám þetta er hægt að fá metið inn í MA-nám að uppfylltum inntökuskilyrðum.

Diplómanám í fötlunarfræði er sjálfstætt 30 eininga nám að loknu BA-prófi eða sambærilegu háskólaprófi. Nám þetta er hægt að fá metið inn í meistaranám í fötlunarfræði.

Diplómanám í þróunarfræðum er sjálfstætt 30 eininga nám að loknu BA-prófi eða sambærilegu háskólaprófi. Nám þetta er hægt að fá metið inn í meistaranám í þróunarfræðum.

Diplómanám í bókasafns- og upplýsingafræði er sjálfstætt 30 eininga nám að loknu BA-prófi eða sambærilegu háskólaprófi. Nám þetta er hægt að fá metið inn í meistaranám í bókasafns- og upplýsingafræði (MA-nám eða MLIS-nám).

Diplómanám í mannfræði er sjálfstætt 30 eininga nám að loknu BA-prófi í mannfræði eða sambærilegu háskólaprófi. Nám þetta er hægt að fá metið inn í meistaranám í mannfræði.

Meistaranám í hagnýtri þjóðfræði er 90 eininga nám að loknu BA-prófi eða sambærilegu háskólaprófi.

Nám í bókasafns- og upplýsingafræði og nám í náms- og starfsráðgjöf er skipulagt með hliðsjón af lögum og reglum um starfsréttindi.

Heimilt er að taka nemendur inn í sérstaklega skipulagt framhalds- og viðbótarnám annað hvert ár.

85. gr.

Námsframvinda, námsmat og hámarksnámstími.

Kennslu til BA-prófs skal haga þannig að stúdent geti lokið 180 eininga námi á þremur árum. Hámarksnámstími til þess að ljúka BA-prófi er níu kennslumisseri frá því er stúdent var skrásettur í viðkomandi aðalgrein. Deildinni er heimilt að veita undanþágu frá þessum tímamörkum, þegar sérstaklega stendur á. Kennslu til meistaraprófs til 120 eininga skal haga þannig að stúdent geti lokið náminu á tveimur árum. Hámarksnámstími til meistaraprófs er sex misseri frá því stúdent var skrásettur í viðkomandi nám. Deildinni er heimilt að veita undanþágu frá þessum tímamörkum, þegar sérstaklega stendur á.

Heimilt er að sama námskeið sé hluti af fleiri en einni aðalgrein eða aukagrein, en eigi má reikna það nema einu sinni í samanlögðum einingafjölda stúdents.

Heimilt er stúdent að sækja nám í aukagrein til annarra deilda, að fengnu samþykki félags- og mannvísindadeildar og þeirrar deildar sem námið er sótt til.

Deildinni er heimilt að ákveða að stúdent megi ekki skrá sig í námskeið, nema hann hafi áður öðlast rétt til próftöku eða staðist próf í tilteknum námskeiðum. Einnig er heimilt að gera kröfur um námsárangur milli námsára.

Hver námsbraut setur reglur um æfingaskyldu í námskeiðum og lágmarksframmistöðu stúdents í æfingum til þess að hann öðlist rétt til próftöku.

Próf geta verið munnleg og/eða skrifleg. Heimilt er kennara, með samþykki námsbrautar, að meta ritgerðir, vinnuverkefni og æfingar sem hluta af prófi. Ef prófþættir í námskeiði eru tveir eða fleiri er deildinni heimilt, að tillögu kennara, að krefjast þess að tilskilinni lágmarkseinkunn verði náð í hvorum eða hverjum prófþætti. Slík ákvörðun skal tilgreind í kennsluskrá.

Fræðasvið félagsvísinda gerir árlega að tillögu félags- og mannvísindadeildar, ef þörf krefur, rökstuddar tillögur til háskólaráðs um takmörkun á fjölda stúdenta í ákveðnum námskeiðum og kennslugreinum. Reglur sem fylgt er við val stúdenta í þeim tilvikum skulu birtar í kennsluskrá.

Deildin setur reglur um viðurkenningu fyrra náms við endurskráningu stúdenta og umskráningu úr öðrum deildum eða milli aðalgreina í félags- og mannvísindadeild.

FÉLAGSRÁÐGJAFARDEILD.

86. gr.

Kennslugreinar, prófgráður og námseiningar.

Félagsráðgjafardeild veitir kennslu sem hér segir:

Til BA-prófs í félagsráðgjöf.

Til MA-prófs til starfsréttinda í félagsráðgjöf.

Til MA-prófs í félagsráðgjöf.

Til MSW-prófs í félagsráðgjöf.

Til MA-prófs í fjölskyldumeðferð.

Til MA-prófs í öldrunarfræðum.

Til norræns MA-prófs í öldrunarfræðum.

Til doktorsprófs í félagsráðgjöf.

Félagsráðgjafardeild setur nánari reglur um námið og inntökuskilyrði og skulu þær koma fram í kennsluskrá.

Auk kennslu stendur deildin fyrir rannsóknum á fræðasviðum greinarinnar.

Framhaldsnám til meistara- og doktorsprófs er skipulagt samkvæmt þessum reglum og nánari reglum sem félagsráðgjafardeild setur og háskólaráð staðfestir, sbr. 66.-69. gr. þessara reglna. Lýsing á náminu skal koma fram í kennsluskrá.

Til BA-prófs er krafist 180 eininga í aðalgrein.

Til MA-prófs er að jafnaði krafist 120 eininga náms, að loknu BA -prófi.

Til doktorsprófs er að jafnaði krafist 180 eininga að loknu MA námi.

MA-próf til starfsréttinda (Master of Social Work with Professional Recognition) er 120 eininga nám til starfsréttinda í félagsráðgjöf, að loknu BA námi í félagsráðgjöf. Námið samanstendur af námskeiðum, starfsþjálfun og 30 eininga lokaritgerð. Sá sem hefur lokið MA námi til starfsréttinda getur sótt um starfsleyfi sem félagsráðgjafi sbr. lög um félagsráðgjöf nr. 95/1990.

MA-próf (Master of Social Work) er 120 eininga rannsóknatengt meistaranám að loknu BA prófi í félagsráðgjöf. Námið samanstendur af námskeiðum, aðferðafræðinámskeiðum og 40-60 eininga lokaritgerð.

MSW-próf (Master of Social Work) er 90 eininga meistaranám í félagsráðgjöf á sviði fjölskyldufélagsráðgjafar að loknu starfsréttindanámi í félagsráðgjöf. Miðað er við að námið samanstandi af 60 einingum í námskeiðum og 30 eininga lokaritgerð.

MA-próf í fjölskyldumeðferð (MA in Family Therapy) er 120 eininga meistaranám að loknu BA, BS, BEd eða sambærilegu prófi í heilbrigðis- og/eða félagsvísindum. Námið samanstendur af námskeiðum og 30 eininga lokaritgerð.

MA-próf í öldrunarfræðum (MA in Gerontology) er 120 eininga meistaranám að loknu BA, BS, BEd eða sambærilegu prófi í heilbrigðis- og/eða félagsvísindum. Námið samanstendur af námskeiðum, aðferðafræðinámskeiðum og 40-60 eininga lokaritgerð.

Norrænt MA nám í öldrunarfræðum (NordMaG - Nordic Master's Programme in Gerontology) í samstarfi við Univeristy of Jyväskylä og Lund University er 120 eininga meistaranám að loknu BA, BS, BEd eða sambærilegu prófi í heilbrigðis- og/eða félagsvísindum. Námið samanstendur af námskeiðum, aðferðafræðinámskeiðum og 40-60 eininga lokaritgerð.

Diplómanám í félagsráðgjöf er sjálfstætt 30 eininga nám að loknu BA-prófi eða sambærilegu háskólaprófi. Nám þetta er hægt að fá metið inn í MA-nám í félagsráðgjöf, að uppfylltum inntökuskilyrðum.

Diplómanám í barnavernd er sjálfstætt 30 eininga nám að loknu BA-prófi eða sambærilegu háskólaprófi. Nám þetta er hægt að fá metið inn í MA-nám í félagsráðgjöf, að uppfylltum inntökuskilyrðum.

Diplómanám í öldrunarþjónustu er sjálfstætt 30 eininga nám að loknu BA-prófi eða sambærilegu háskólaprófi. Nám þetta er hægt að fá metið inn í MA-nám í öldrunarfræðum, að uppfylltum inntökuskilyrðum.

Heimilt er að taka nemendur inn í sérstaklega skipulagt framhalds- og viðbótarnám annað hvert ár.

87 gr.

Námsframvinda, námsmat og hámarksnámstími.

Kennslu til BA-prófs skal haga þannig að stúdent geti lokið 180 eininga námi á þremur árum. Hámarksnámstími til þess að ljúka BA-prófi er níu kennslumisseri frá því er stúdent var skrásettur í viðkomandi aðalgrein. Deildinni er heimilt að veita undanþágu frá þessum tímamörkum, þegar sérstaklega stendur á. Kennslu til meistaraprófs til 120 eininga skal haga þannig að stúdent geti lokið náminu á tveimur árum. Hámarksnámstími til meistaraprófs er sex misseri frá því stúdent var skrásettur í viðkomandi nám. Deildinni er heimilt að veita undanþágu frá þessum tímamörkum, þegar sérstaklega stendur á.

Deildinni er heimilt að ákveða að stúdent megi ekki skrá sig í námskeið, nema hann hafi áður öðlast rétt til próftöku eða staðist próf í tilteknum námskeiðum. Einnig er heimilt að gera kröfur um námsárangur milli námsára.

Deildin setur reglur um æfingaskyldu í námskeiðum og lágmarksframmistöðu stúdents í æfingum til þess að hann öðlist rétt til próftöku.

Próf geta verið munnleg og/eða skrifleg. Heimilt er kennara, með samþykki deildar, að meta ritgerðir, vinnuverkefni og æfingar sem hluta af prófi. Ef prófþættir í námskeiði eru tveir eða fleiri er deildinni heimilt, að tillögu kennara, að krefjast þess að tilskilinni lágmarkseinkunn verði náð í hvorum eða hverjum prófþætti. Slík ákvörðun skal tilgreind í kennsluskrá.

Fræðasvið félagsvísinda gerir árlega að tillögu deildar, ef þörf krefur, rökstuddar tillögur til háskólaráðs um takmörkun á fjölda stúdenta í ákveðnum námskeiðum og kennslugreinum. Reglur sem fylgt er við val stúdenta í þeim tilvikum skulu birtar í kennsluskrá.

Deildin setur reglur um viðurkenningu fyrra náms við endurskráningu stúdenta og umskráningu úr öðrum deildum eða milli aðalgreina í félagsráðgjafardeild.

Deildin stendur fyrir framhaldsmenntun félagsráðgjafa eftir því sem fjárveitingar og aðstæður leyfa.

HAGFRÆÐIDEILD.

88. gr.

Kennslugreinar, prófgráður og námseiningar.

Hagfræðideild veitir kennslu sem hér segir:

Til BS-prófs í hagfræði.

Til BA-prófs í hagfræði.

Til MS-prófs í hagfræði.

Til MS-prófs í heilsuhagfræði.

Til MS-prófs í fjármálahagfræði.

Til MA-prófs í hagfræði og MS/MA-prófs í skyldum greinum.

Til Ph.D.-prófs í hagfræði.

Enn fremur til meistaraprófs í umhverfis- og auðlindafræði og öðrum þverfræðilegum greinum í samvinnu við aðrar háskóladeildir, þar sem nauðsynleg aðstaða er fyrir hendi.

Auk kennslu stendur deildin fyrir rannsóknum á fræðasviðum deildarinnar.

Námið er vegið í einingum og skal árs nám talið 60 einingar. Til BS-prófs og BA-prófs er krafist 180 eininga. Til MS/MA-prófs er krafist 90 eininga hið minnsta. Nánari reglur um MS/MA-nám, en fram koma í þessum kafla skulu staðfestar af háskólaráði sbr. ákvæði 66. og 69. gr. þessara reglna.

Deildin getur skipulagt framhaldsnám til doktorsprófs í hagfræði, samkvæmt reglum þessum og nánari reglum sem hún setur og háskólaráð staðfestir, sbr. ákvæði 67. - 69. gr. þessara reglna.

Skipan BS- og BA-námsins miðast við þrjú ár eða sex misseri. Í BS- og BA-námi er boðið upp á námsleiðir sem deildin setur nánari reglur um.

Prófgreinar til BS-prófs og BA-prófs í hagfræði eru rekstrarhagfræði, þjóðhagfræði, stærðfræði, tölfræði og aðrar greinar samkvæmt ákvörðun deildar, alls 180 einingar.

Skipan MS-námsins miðast við þrjú misseri. Nám til MS-prófs er 90 einingar hið minnsta, þar af eru 60 einingar í námskeiðum og 30 eininga ritgerð. Nemendur sem vilja ljúka 120 eininga MS-prófi eiga kost á 60 eininga ritgerð eða geta óskað eftir heimild til að ljúka 90 einingum í námskeiðum. Deildin setur nánari reglur um inntökuskilyrði, námsleiðir og námskröfur.

Skipan MA-námsins miðast við þrjú misseri. Nám til MA-prófs er 90 einingar hið minnsta, þar af eru 60 einingar í námskeiðum og 30 eininga ritgerð. Nemendur sem vilja ljúka 120 eininga MA-prófi eiga kost á 60 eininga ritgerð eða geta óskað eftir heimild til að ljúka 90 einingum í námskeiðum. Deildin setur nánari reglur um inntökuskilyrði, námsleiðir og námskröfur.

Stúdent velur námsleiðir og frjálsar kjörgreinar og er honum heimilt, að áskildu samþykki deildar, að velja frjálsar kjörgreinar í öðrum deildum.

Efni ritgerðar skal valið í samráði við að minnsta kosti einn lektor, dósent eða prófessor deildarinnar. Ritgerð í BS-námi vegur 6-12 einingar. Ritgerð í MS/MA-námi vegur 30 eða 60 einingar. Deildin setur nánari reglur um vægi ritgerða, samningu þeirra og skil. Heimilt er að prófa stúdent munnlega um efni ritgerðar og meta frammistöðu hans sem hluta af einkunn fyrir ritgerðina. Umsjónarkennari og prófdómari gefa einkunn fyrir MS/MA-ritgerðir.

Deildinni er heimilt að skipuleggja nám fyrir nemendur sem eru skráðir í aðrar deildir Háskóla Íslands.

89. gr.

Námsframvinda, próf, lágmarkseinkunnir og hámarksnámstími.

Hagfræðideild ákveður hvaða forkröfur skuli gilda um aðgang stúdenta að einstökum námskeiðum. Heimilt er kennara með samþykki deildar, að meta ritgerðir og æfingar sem hluta af prófi og áskilja lágmarkseinkunn í hverjum prófhluta greinar. Slík ákvörðun skal tilgreind í kennsluskrá. Deildin getur haldið æfinganámskeið utan reglulegs kennslutíma.

Próf skulu vera skrifleg nema deild ákveði annað. Próf eru haldin að loknu námskeiði. Endurtekningarpróf eru haldin í kjölfar almennra próftímabila í desember og maí, sbr. 56. og 57. gr. þessara reglna.

Lágmarkseinkunn í kennslugreinum í hagfræðideild er 5,0 nema annað sé tekið fram. Deildin hefur heimild til þess að ákveða hærri lágmarkseinkunn í einstökum greinum.

Til þess að útskrifast frá hagfræðideild þarf stúdent að ná meðaleinkunninni 6,0.

Stúdent í námi til MS/MA-prófs skal hafa lokið prófi eigi síðar en þremur árum eftir skráningu í námið. Stúdent í námi til BS-prófs eða BA-prófs skal hafa lokið prófi eigi síðar en fimm árum eftir skráningu. Deildin getur veitt undanþágu frá þessum tímamörkum ef veikindum eða öðrum gildum ástæðum er til að dreifa.

Deildin setur reglur um viðurkenningu fyrra náms við endurskráningu stúdenta og umskráningu úr öðrum deildum eða háskólum eða milli aðalgreina í hagfræðideild. Ekki er hægt að brautskrást með prófgráðu frá deildinni nema viðkomandi hafi lokið minnst 60 einingum innan deildarinnar.

LAGADEILD.

90. gr.

Kennslugreinar, prófgráður og námseiningar.

Lagadeild veitir kennslu til BA-prófs og meistaraprófs í lögfræði. Meistarapróf í lögfræði er jafngildi kandídatsprófs. Sá sem hefur lokið meistaraprófi við lagadeild ber próftitilinn magister juris (mag. jur.). Enn fremur veitir deildin kennslu til meistaraprófs í umhverfis- og auðlindafræði og öðrum þverfræðilegum greinum í samvinnu við aðrar háskóladeildir, þar sem nauðsynleg aðstaða er fyrir hendi.

Auk kennslu stendur deildin fyrir rannsóknum á fræðasviðum deildarinnar.

Kennsla fer fram í námsgreinum sem metnar eru til námseininga. Nám í lögfræði til BA-prófs jafngildir 180 einingum. Nám í lögfræði til meistaraprófs jafngildir 300 einingum, þ.e. 120 einingum í framhaldsnámi að loknu BA-prófi.

Námsgreinar til BA-prófs í lögfræði eru: Almenn lögfræði ásamt ágripi af réttarsögu, inngangur að lögfræði, Evrópuréttur, heimspekileg forspjallsvísindi, stjórnskipunarréttur ásamt ágripi af þjóðarétti, sifja- og erfðaréttur, skaðabótaréttur, samningaréttur, eignaréttur, stjórnsýsluréttur I, stjórnsýsluréttur II, refsiréttur I, refsiréttur II, réttarfar I, réttarfar II, kröfuréttur I og kröfuréttur II. Stúdent skal þar að auki standa skil á ritgerð eða ljúka öðru sambærilegu verkefni. Lagadeild tekur ákvarðanir um vægi námsgreina þessara og ritgerðar (eða annars verkefnis) til BA-prófs og niðurröðun þeirra á misseri, sbr. þó 91. gr.

Framhaldsnám í lögfræði til meistaraprófs er 120 einingar. Það er fólgið í námsgreinum sem vega samtals 90 einingar og ritgerð sem vegur 30 einingar. Stúdent útskrifast með meistarapróf í lögfræði, magister juris (mag. jur.). Heimilt er að velja áherslusvið í meistaranámi í samræmi við reglur lagadeildar.

Í lagadeild er heimilt að bjóða upp á sérstakt nám til meistaraprófs og doktorsprófs í lögfræði, á íslensku eða á ensku, samkvæmt nánari reglum sem lagadeild setur og háskólaráð staðfestir, sbr. 66. – 69. gr. reglna þessara. Sá sem hefur lokið meistaranámi í auðlindarétti og alþjóðlegum umhverfisrétti við lagadeild, eftir BA-próf í lögfræði eða sambærilegt nám, ber próftitilinn LL.M. (Master of Laws) in Natural Resources Law and International Environmental Law.

Lagadeild setur nánari reglur um nám við lagadeild, þ. á m. um BA-nám og framhaldsnám í lögfræði.

Lagadeild setur reglur um viðurkenningu fyrra náms við endurskráningu stúdenta og umskráningu úr öðrum deildum.

91. gr.

Námsframvinda, próf, lágmarkseinkunnir og hámarksnámstími.

Á fyrsta misseri BA-náms í lögfræði, haustmisseri, getur stúdent eingöngu skráð sig til náms í þremur námsgreinum, þ.e. almennri lögfræði ásamt ágripi af réttarsögu, inngangi að lögfræði og Evrópurétti. Á vormisseri fyrsta námsárs getur stúdent eingöngu skráð sig til náms í stjórnskipunarrétti ásamt ágripi af þjóðarétti, sifja- og erfðarétti og heimspekilegum forspjallsvísindum. Skilyrði þess að stúdent geti skráð sig í aðrar námsgreinar í BA-námi er að hann hafi staðist próf í almennri lögfræði ásamt ágripi af réttarsögu og inngangi að lögfræði.

Heimilt er umsjónarkennara í hverri námsgrein til BA-prófs að leggja þá skyldu á stúdenta að leysa af hendi allt að tveimur verkefnum meðan þeir stunda nám í greininni. Slík skylduverkefni gilda ekki sem hluti af námsmati nema svo sé sérstaklega kveðið á um.

Próf í námsgreinum til BA-prófs skulu vera skrifleg.

Próf í inngangi að lögfræði skal haldið á miðju kennslutímabili á haustmisseri, en próf í öllum öðrum námsgreinum til BA-prófs skulu haldin í lok kennslutímabils. Sjúkra- og upptökupróf í inngangi að lögfræði og almennri lögfræði skulu eingöngu haldin á vorpróftímabili. Um önnur sjúkra- og upptökupróf fer eftir ákvæðum 56. gr. þessara reglna.

Til að standast próf í BA-námi í lögfræði verður stúdent að hljóta minnst einkunnina 6,0 í öllum námsgreinum hverri um sig. Lokaeinkunn til BA-prófs í lögfræði skal reiknuð sem vegið meðaltal einkunna úr einstökum námsgreinum.

Stúdent er ekki heimilt að gangast oftar en fjórum sinnum undir sama próf í námsgreinum í BA-námi. Falli stúdent fjórum sinnum á prófi í sömu námsgrein í BA-námi, er hann fallinn úr lagadeild.

Lagadeild getur heimilað að laganám sem stundað hefur verið við aðra háskóla verði metið sem hluti af BA-námi.

Stúdent skal hafa lokið BA-prófi í lögfræði eigi síðar en á því almanaksári þegar fimm ár eru liðin frá innritun hans í BA-nám við lagadeild. Lagadeild getur veitt undanþágu frá þessum ákvæðum um tímamörk ef veikindi eða aðrar vítaleysisástæður koma til.

Stúdent skal hafa lokið BA-prófi í lögfræði frá lagadeild Háskóla Íslands áður en hann hefur framhaldsnám í lögfræði til meistaraprófs. Lagadeild getur heimilað að stúdent, sem lokið hefur sambærilegu prófi frá öðrum háskóla, hefji framhaldsnám við deildina til meistaraprófs.

Fyrir hver áramót ákveður lagadeild þær námsgreinar í framhaldsnámi sem boðnar verða til kennslu á næsta háskólaári, að minnsta kosti 10 námsgreinar á hvoru misseri.

Í framhaldsnámi skal stúdent velja sér efnissvið til ritgerðar eða annars lokaverkefnis. Stúdent er heimilt að velja áherslusvið í lögfræði til meistaraprófs (mag. jur.) og skal þá ritgerðarefni eða annað lokaverkefni vera á því sviði. Hvert áherslusvið hefur að geyma ákveðnar kjarnagreinar í samræmi við reglur lagadeildar. Stúdent skal velja einn af kennurum deildarinnar sem umsjónarkennara í lokaverkefni og skal valið háð samþykki kennarans og lagadeildar. Stúdent skal þreyta próf úr efni ritgerðar eða lokaverkefnis og skal tekið tillit til frammistöðu hans þegar gefin er einkunn fyrir ritgerðina eða verkefnið. Í stað prófs má gefa stúdent kost á að gera grein fyrir efni ritgerðar eða verkefnis opinberlega. Stúdent getur ekki lokið ritgerð eða lokaverkefni nema hann hafi áður staðist próf í námsgreinum sem vega að minnsta kosti 70 einingar alls. Lagadeild setur reglur um kröfur sem gerðar skulu til ritgerðar og lokaverkefnis, einingafjölda þeirra og hlutverk umsjónarkennara.

Lagadeild ákveður fyrirkomulag prófa í framhaldsnámi, þ. á m. getur deildin ákveðið að próf í einstökum námsgreinum verði haldin á miðju kennslutímabili. Heimilt er að ákveða að ritgerðir eða önnur námsvinna komi í stað prófs í námsgrein, að hluta eða öllu leyti. Stúdent má ekki gangast oftar en tvisvar sinnum undir sama próf í námsgreinum í framhaldsnámi. Um sjúkra- og upptökupróf fer að öðru leyti eftir ákvæðum 56. gr. þessara reglna.

Til að standast próf í framhaldsnámi í lögfræði verður stúdent að hljóta minnst einkunnina 6,0 í öllum námsgreinum, hverri um sig, og einnig fyrir meistararitgerð (eða annað lokaverkefni). Lokaeinkunn til meistaraprófs í lögfræði skal reiknuð sem vegið meðaltal einkunna úr einstökum námsgreinum í framhaldsnámi.

Lagadeild getur heimilað að nám við aðrar háskóladeildir eða aðra háskóla verði metið sem hluti af framhaldsnámi, þó að hámarki 60 einingar alls. Áskilið er, að nám við aðrar háskóladeildir eða háskóla hafi, að mati lagadeildar, slík tengsl við lögfræði, að eðlilegt þyki að meta það sem hluta af laganámi. Lagadeild getur enn fremur heimilað að námsvist hjá fyrirtæki eða stofnun, sem hlotið hefur viðurkenningu lagadeildar samkvæmt reglum sem deildin setur, verði metin sem hluti af framhaldsnámi, þó að hámarki 6 einingar alls. Þátttaka í alþjóðlegri eða norrænni málflutningskeppni getur komið að hluta eða í heild í stað námsvistar.

Stúdent skal hafa lokið meistaraprófi í lögfræði eigi síðar en á því almanaksári þegar fjögur ár eru liðin frá innritun hans í framhaldsnám við lagadeild. Lagadeild getur veitt undanþágu frá þessu ákvæði um tímamörk ef veikindi eða aðrar vítaleysisástæður koma til.

Fræðasvið félagsvísinda gerir árlega, að tillögu lagadeildar, ef þörf krefur, rökstuddar tillögur til háskólaráðs um takmörkun á fjölda stúdenta í meistara- og doktorsnámi við deildina. Ákvörðun háskólaráðs skal tilkynna fyrir upphaf þess háskólaárs, sem hún tekur til. Háskólaráð setur, að fengnum tillögum deildar, reglur um hvernig staðið skuli að inntöku stúdenta og skulu þær birtar í kennsluskrá ár hvert.

STJÓRNMÁLAFRÆÐIDEILD.

92. gr.

Kennslugreinar, prófgráður og námseiningar.

Stjórnmálafræðideild veitir kennslu sem hér segir:

Til BA-prófs í stjórnmálafræði.

Til MA-prófs í stjórnmálafræði.

Til MA-prófs í alþjóðasamskiptum.

Til MA-prófs í kynjafræði.

Til MPA–prófs í opinberri stjórnsýslu.

Til doktorsprófs í stjórnmálafræði og kynjafræði.

Enn fremur veitir deildin kennslu til meistaraprófs í umhverfis- og auðlindafræði og öðrum þverfræðilegum greinum í samvinnu við aðrar háskóladeildir, þar sem nauðsynleg aðstaða er fyrir hendi.

Stjórnmálafræðideild setur nánari reglur um námið og skulu þær koma fram í kennsluskrá.

Auk kennslu stendur deildin fyrir rannsóknum á fræðasviðum deildarinnar.

Heimilt er að skipuleggja þær greinar sem tilgreindar eru sem aðalgreinar, auk annarra greina stjórnmálafræða, sem aukagreinar samkvæmt nánari ákvörðun deildarinnar.

Framhaldsnám til meistara- og doktorsprófs er skipulagt samkvæmt þessum reglum og nánari reglum sem stjórnmálafræðideild setur og háskólaráð staðfestir, sbr. 66.-69. gr. þessara reglna. Lýsing á náminu skal koma fram í kennsluskrá.

Til BA-prófs er krafist minnst 180 eininga og skal stúdent ljúka 120 einingum í aðalgrein og 60 í aukagrein eða viðbótarnámskeiðum aðalgreinar.

Til MA-prófs er að jafnaði krafist 120 eininga náms að loknu BA-prófi. Slíkt nám má skipuleggja sem rannsóknarnám þar sem lokaverkefni er minnst 30 einingar.

Deildinni er einnig heimilt að skipuleggja doktorsnám til minnst 180 eininga í samræmi við ákvæði þessara reglna.

Próftitilinn MPA (Master of Public Administration) ber sá sem lokið hefur 120 eininga meistaranámi í stjórnsýslufræðum eftir BA-próf. MPA-nám felst í fræðilegu námi sem miðar að því að búa stjórnsýslufræðinga undir störf við opinbera stjórnsýslu jafnt sem frekara nám og rannsóknir á því sviði. Auk fræðilegs hluta er gerð krafa um starfsþjálfun nemenda eftir nánari reglum sem deildin setur.

MA-nám í alþjóðasamskiptum er 120 eininga hagnýtt og fræðilegt nám sem hefur að markmiði að þjálfa nemendur fyrir vinnumarkaðinn og vinnu að rannsóknum á hinum ýmsu sviðum alþjóðasamskipta.

MA-nám í kynjafræði er 120 eininga nám. Markmið námsins er að veita nemendum fræðilega, hagnýta og aðferðafræðilega þekkingu til að takast á við kynjafræðileg viðfangsefni, jafnframt því að undirbúa þá undir rannsóknir í greininni.

Diplómanám í opinberri stjórnsýslu er 30 eininga sjálfstætt nám að loknu BA-prófi eða sambærilegu háskólaprófi. Nám þetta er hægt að fá metið inn í MPA-nám í opinberri stjórnsýslu.

Diplómanám í alþjóðasamskiptum er sjálfstætt 30 eininga nám að loknu BA-prófi eða sambærilegu háskólaprófi. Nám þetta er hægt að fá metið inn í meistaranám í alþjóðasamskiptum.

Diplómanám í hagnýtri jafnréttisfræði er sjálfstætt 30 eininga nám að loknu BA-prófi eða sambærilegu háskólaprófi. Nám þetta er hægt að fá metið inn í meistaranám í kynjafræði.

Heimilt er að taka nemendur inn í sérstaklega skipulagt framhalds- og viðbótarnám annað hvert ár.

93. gr.

Námsframvinda, námsmat og hámarksnámstími.

Kennslu til BA-prófs skal haga þannig að stúdent geti lokið 180 eininga námi á þremur árum. Hámarksnámstími til þess að ljúka BA-prófi er níu kennslumisseri frá því er stúdent var skrásettur í viðkomandi aðalgrein. Deildinni er heimilt að veita undanþágu frá þessum tímamörkum, þegar sérstaklega stendur á. Kennslu til meistaraprófs til 120 eininga skal haga þannig að stúdent geti lokið náminu á tveimur árum. Hámarksnámstími til meistaraprófs er sex misseri frá því stúdent var skrásettur í viðkomandi nám. Deildinni er heimilt að veita undanþágu frá þessum tímamörkum, þegar sérstaklega stendur á.

Heimilt er að sama námskeið sé hluti af fleiri en einni aðalgrein eða aukagrein, en eigi má reikna það nema einu sinni í samanlögðum einingafjölda stúdents.

Heimilt er stúdent að sækja nám í aukagrein til annarra deilda, að fengnu samþykki stjórnmálafræðideildar og þeirrar deildar sem námið er sótt til.

Deildinni er heimilt að ákveða að stúdent megi ekki skrá sig í námskeið, nema hann hafi áður öðlast rétt til próftöku eða staðist próf í tilteknum námskeiðum. Einnig er heimilt að gera kröfur um námsárangur milli námsára.

Deildin setur reglur um æfingaskyldu í námskeiðum og lágmarksframmistöðu stúdents í æfingum til þess að hann öðlist rétt til próftöku.

Próf geta verið munnleg og/eða skrifleg. Heimilt er kennara, með samþykki deildar, að meta ritgerðir, vinnuverkefni og æfingar sem hluta af prófi. Ef prófþættir í námskeiði eru tveir eða fleiri er deildinni heimilt, að tillögu kennara, að krefjast þess að tilskilinni lágmarkseinkunn verði náð í hvorum eða hverjum prófþætti. Slík ákvörðun skal tilgreind í kennsluskrá.

Fræðasvið félagsvísinda gerir árlega, að tillögu stjórnmálafræðideildar, ef þörf krefur, rökstuddar tillögur til háskólaráðs um takmörkun á fjölda stúdenta í ákveðnum námskeiðum og kennslugreinum. Reglur sem fylgt er við val stúdenta í þeim tilvikum skulu birtar í kennsluskrá.

Deildin setur reglur um viðurkenningu fyrra náms við endurskráningu stúdenta og umskráningu úr öðrum deildum eða milli aðalgreina í stjórnmálafræðideild.

VIÐSKIPTAFRÆÐIDEILD.

94. gr.

Kennslugreinar, prófgráður og námseiningar.

Viðskiptafræðideild veitir kennslu sem hér segir:

Til BS-prófs í viðskiptafræði.

Til MS-prófs í viðskiptafræði.

Til MS-prófs í fjármálum fyrirtækja.

Til MS-prófs í mannauðsstjórnun.

Til MS-prófs í markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum.

Til MS-prófs í stjórnun og stefnumótun.

Til MA-prófs í skattarétti og reikningsskilum.

Til M.Acc.-náms í reikningsskilum og endurskoðun.

Til Ph.D.-prófs í viðskiptafræði.

Ennfremur veitir deildin kennslu til meistaraprófs í umhverfis- og auðlindafræði og öðrum þverfræðilegum greinum í samvinnu við aðrar háskóladeildir, þar sem nauðsynleg aðstaða er fyrir hendi.

Auk kennslu stendur deildin fyrir rannsóknum á fræðasviðum deildarinnar.

Námið er vegið í einingum og skal árs nám talið 60 einingar. Til BS-prófs er krafist 180 eininga. Til MS/MA-prófs er krafist 90 eininga hið minnsta. Nánari reglur um MS/MA-nám og um M.Acc.-nám, en fram koma í þessum kafla skulu staðfestar af háskólaráði sbr. ákvæði 66. og 69. gr. þessara reglna.

Deildinni er heimilt að skipuleggja grunnnám til 60 og 120 eininga sem lýkur með diplómaprófi.

Skipan BS- og BA-námsins miðast við þrjú ár eða sex misseri. Í BS- og BA-námi er boðið upp á námsleiðir sem deildin setur nánari reglur um.

Skipan MS-námsins miðast við þrjú misseri. Nám til MS-prófs er 90 einingar hið minnsta, þar af eru 60 einingar í námskeiðum og 30 eininga ritgerð. Nemendur sem vilja ljúka 120 eininga MS-prófi eiga kost á 60 eininga ritgerð eða geta óskað eftir heimild til að ljúka 90 einingum í námskeiðum. Deildin setur nánari reglur um inntökuskilyrði, námsleiðir og námskröfur.

Skipan MA-náms í skattarétti og reikningsskilum miðast við fjögur misseri. Námið er 90 einingar hið minnsta, þar af eru 72 einingar í námskeiðum og 18 eininga ritgerð. Námið er í samvinnu við lagadeild.

Skipan M.Acc.-námsins miðast við fjögur misseri. Námið er 90 einingar hið minnsta. Deildin setur nánari reglur um inntökuskilyrði og námskröfur.

Stúdent velur námsleiðir og frjálsar kjörgreinar og er honum heimilt, að áskildu samþykki deildar, að velja frjálsar kjörgreinar í öðrum deildum.

Efni ritgerðar skal valið í samráði við að minnsta kosti einn lektor, dósent eða prófessor deildarinnar. Ritgerð í BS-námi vegur 6-12 einingar. Ritgerð í MS/MA-námi vegur 30 eða 60 einingar. Deildin setur nánari reglur um vægi ritgerða, samningu þeirra og skil. Heimilt er að prófa stúdent munnlega um efni ritgerðar og meta frammistöðu hans sem hluta af einkunn fyrir ritgerðina. Umsjónarkennari og prófdómari gefa einkunn fyrir MS/MA-ritgerðir.

Deildinni er heimilt að skipuleggja nám fyrir nemendur sem eru skráðir í aðrar deildir Háskóla Íslands.

95. gr.

Námsframvinda, próf, lágmarkseinkunnir og hámarksnámstími.

Viðskiptafræðideild ákveður hvaða forkröfur skuli gilda um aðgang stúdenta að einstökum námskeiðum. Heimilt er kennara með samþykki deildar að meta ritgerðir og æfingar sem hluta af prófi og áskilja lágmarkseinkunn í hverjum prófhluta greinar. Slík ákvörðun skal tilgreind í kennsluskrá. Heimilt er einnig að meta vinnu stúdenta í fyrirtækjum og stofnunum og vinnu við ákveðin verkefni utan deildar til jafns við ritgerðir og æfingar í einstökum greinum. Deildin getur haldið æfinganámskeið utan reglulegs kennslutíma.

Próf skulu vera skrifleg nema deild ákveði annað. Próf eru haldin að loknu námskeiði. Endurtekningarpróf eru haldin í kjölfar almennra próftímabila í desember og maí.

Lágmarkseinkunn í kennslugreinum í viðskiptafræðideild er 5,0 nema annað sé tekið fram. Deildin hefur heimild til þess að ákveða hærri lágmarkseinkunn í einstökum greinum.

Til þess að útskrifast frá viðskiptafræðideild þarf stúdent að ná meðaleinkunninni 6,0.

Stúdent í námi til MS/MA-prófs skal hafa lokið prófi eigi síðar en þremur árum eftir skráningu í námið. Stúdent í námi til BS-prófs skal hafa lokið prófi eigi síðar en fimm árum eftir skráningu. Deildin getur veitt undanþágu frá þessum tímamörkum ef veikindum eða öðrum gildum ástæðum er til að dreifa.

Deildin setur reglur um viðurkenningu fyrra náms við endurskráningu stúdenta og umskráningu úr öðrum deildum eða skólum eða milli aðalgreina í viðskiptafræðideild. Ekki er hægt að brautskrást með prófgráðu frá deildinni nema viðkomandi hafi lokið minnst 60 einingum innan deildarinnar.

96. gr.

MBA-nám og BS-nám með starfi.

Viðskiptafræðideild er heimilt með samþykki háskólaráðs að veita prófgráðuna MBA að loknu 90 eininga endurmenntunarnámi á vegum deildarinnar, enda sé farið eftir ákvæðum 64. gr. um endurmenntun á vegum deilda í þessum reglum.

Við inntöku í MBA-nám skal nemandi hafa lokið háskólagráðu, BA- eða BS-prófi eða samsvarandi og að jafnaði hafa þriggja ára starfsreynslu.

Deildin setur nánari reglur um inntökuskilyrði, námsleiðir og námskröfur í samþykktum um námið, sem háskólaráð staðfestir.

Deildinni er heimilt með samþykki háskólaráðs að bjóða nám til BS-prófs í viðskiptafræði samhliða starfi, enda sé farið eftir ákvæðum 64. gr. um endurmenntun á vegum deilda í þessum reglum.

Deildin setur nánari reglur um inntökuskilyrði, námsleiðir og námskröfur í samþykktum um námið, sem háskólaráð staðfestir.

XI. KAFLI

Heilbrigðisvísindasvið.

Deildir heilbrigðisvísindasviðs eru hjúkrunarfræðideild, lyfjafræðideild, læknadeild, matvæla- og næringarfræðideild, sálfræðideild og tannlæknadeild.

Deildirnar skulu hafa með sér náið samstarf til að nýta sem best mannafla, fjármuni, aðstöðu, tæki og búnað í þágu fjölbreyttrar menntunar og rannsókna.

Heilbrigðisvísindasvið og deildir þess skulu enn fremur stuðla að nánu samstarfi við sameiginlega stjórnsýslu háskólans, önnur fræðasvið háskólans og deildir.

Um stjórn fræðasviða og deilda og önnur atriði sem lúta sömu reglum fer eftir ákvæðum II. kafla þessara reglna. Um inntökuskilyrði í einstakar deildir og námsleiðir fer eftir reglum sem háskólaráð setur, sbr. 47. gr. þessara reglna. Háskólaráð setur jafnframt sérstakar reglur um háskólastofnanir og um meistara- og doktorsnám í hverri deild.

HJÚKRUNARFRÆÐIDEILD.

97. gr.

Kennslugreinar, prófgráður og námseiningar.

Hjúkrunarfræðideild veitir kennslu sem hér segir:

Til BS-prófs í hjúkrunarfræði.

Til kandídatsprófs í ljósmóðurfræði (cand.obst.).

Til diplómaprófs á meistarastigi í hjúkrunarfræði.

Til meistaraprófs í hjúkrunarfræði.

Til meistaraprófs í ljósmóðurfræði.

Til doktorsprófs í hjúkrunar- og ljósmóðurfræði á fræðasviðum þar sem nauðsynleg aðstaða er fyrir hendi.

Enn fremur til meistara- og doktorsprófs í lýðheilsuvísindum og öðrum þverfræðilegum greinum í samvinnu við aðrar háskóladeildir, þar sem nauðsynleg aðstaða er fyrir hendi.

Hjúkrunarfræðideild veitir kennslu í hjúkrunarfræði og ljósmóðurfræði. Ljósmóðurfræði er skipað í námsbraut, sbr. ákvæði 21. gr. þessara reglna.

Auk kennslu stendur deildin fyrir rannsóknum á fræðasviðum deildarinnar.

Almennt grunnnám í hjúkrunarfræði er fjögur námsár, samtals 240 einingar, og lýkur með BS-prófi. Deildinni er heimilt að bjóða hjúkrunarfræðingum sérskipulagt grunnnám til BS-prófs.

Ljósmóðurfræði er tveggja ára bóklegt nám og starfsþjálfun, 120 einingar, að loknu BS-prófi í hjúkrunarfræði. Próftitilinn candidatus obstetriciorum (cand.obst.) ber sá er lokið hefur kandídatsprófi í ljósmóðurfræði frá hjúkrunarfræðideild.

Meistaranám í ljósmóðurfræði er 55 eininga nám að loknu kandídatsprófi í ljósmóðurfræði frá hjúkrunarfræðideild.

Diplómanám á meistarastigi í hjúkrunarfræði er 40 til 60 eininga nám að loknu BS-prófi í hjúkrunarfræði eða öðru sambærilegu háskólaprófi. Deildin setur nánari reglur um diplómanám á meistarastigi sem háskólaráð staðfestir.

Meistaranám í hjúkrunarfræði er 120 eininga nám og telst ársnám 60 einingar. Deildin setur nánari reglur um nám til meistaraprófs sem háskólaráð staðfestir, sbr. ákvæði 66. og 69. gr. þessara reglna.

Doktorsnám í hjúkrunarfræðideild er 180 eininga rannsóknatengt nám að loknu meistaraprófi og þar skulu námskeið vera a.m.k. 60 einingar. Deildin setur nánari reglur um nám til doktorsprófs sem háskólaráð staðfestir, sbr. ákvæði 67.-69. gr. þessara reglna.

Deildin stendur fyrir viðbótarnámi og endurmenntun fyrir hjúkrunarfræðinga eftir því sem fjárveitingar og aðrar aðstæður leyfa.

98. gr.

Námsframvinda, námsmat, einkunnir og hámarksnámstími.

Til þess að flytjast milli námsára í almennu grunnnámi í hjúkrunarfræði má stúdent eiga eftir eitt próf hið mesta úr námsefni næsta námsárs á undan og ekki próf frá fyrri námsárum. Deildin getur veitt undanþágu frá þessum reglum, ef sérstaklega stendur á.

Deildin ákvarðar námsleiðir og kennslugreinar, skiptingu þeirra í námskeið og vægi þeirra, að fengnum tillögum námsnefnda í hjúkrunarfræði og ljósmóðurfræði, og skal það tilgreint í kennsluskrá. Allar breytingar á kennsluskrá skal tilkynna eigi síðar en við upphaf kennsluárs.

Réttur stúdenta í grunnnámi til áframhaldandi náms er miðaður við árangur prófa í lok fyrsta misseris fyrsta námsárs, samkvæmt nánari reglum sem deildin setur og birtar skulu í kennsluskrá.

Próf skulu að jafnaði vera skrifleg, en geta verið munnleg eða verkleg eftir ákvörðun deildar.

Ef prófþættir í námskeiði eru tveir eða fleiri, er deildarfundi heimilt, að tillögu kennara, að ákveða, að stúdent teljist ekki hafa staðist próf nema hann hafi í tilteknum prófþáttum náð lágmarkseinkunn námskeiðsins. Slík ákvörðun skal tilgreind í kennsluskrá.

Árangur stúdents í verklegu námi skal metinn af þeim kennara sem kennsluna veitir. Einkunn í verklegu námi reiknast ekki til lokaeinkunnar í námskeiði. Þó er kennara það heimilt með samþykki deildar og skal slík ákvörðun þá tilgreind í kennsluskrá.

Til þess að öðlast B.S-gráðu í hjúkrunarfræði verður stúdent að hafa hlotið eigi lægri einkunn en:

6,0 í hjúkrunarnámskeiðum samkvæmt nánari ákvörðun deildar.

5,0 í öðrum námskeiðum.

Stúdent í námi til BS-prófs í hjúkrunarfræði skal hafa lokið prófi eigi síðar en sex árum eftir skráningu. Stúdent í meistaranámi í deildinni eða kandídatsnámi í ljósmóðurfræði skal hafa lokið prófi eigi síðar en þremur árum eftir skráningu í námið. Deildin getur veitt undanþágu frá þessum tímamörkum ef veikindum eða öðrum gildum ástæðum er til að dreifa.

Ekki er hægt að stunda nám í ljósmóðurfræði sem hlutanám. Lágmarkseinkunn er 6,0 í öllum þáttum námsmats í hverju námskeiði. Hvert námskeið er nauðsynleg undirstaða þess næsta. Deildin setur nánari reglur um námið. Inntökuskilyrði í nám í ljósmóðurfræði er próf í hjúkrunarfræði og íslenskt hjúkrunarleyfi. Hjúkrunarfræðingar sem ekki hafa lokið BS-prófi í hjúkrunarfræði þurfa að ljúka fornámi samkvæmt ákvörðun deildar áður en nám í ljósmóðurfræði getur hafist.

Innritun í ljósmóðurfræði er miðuð við tiltekinn stúdentafjölda á hverju ári, samkvæmt ákvörðun háskólaráðs, að fengnum rökstuddum tillögum fræðasviðs heilbrigðisvísinda fyrir hönd deildar. Verði umsækjendur fleiri en nemur þeim fjölda sem háskólaráð ákvarðar fjallar námsnefnd í ljósmóðurfræði um umsóknirnar og tekur ákvörðun um val stúdenta, samkvæmt nánari reglum sem háskólaráð setur, að fengnum tillögum deildar, og birtar skulu í kennsluskrá.

Fræðasvið heilbrigðisvísinda gerir árlega að tillögu deildarinnar, ef þörf krefur, rökstuddar tillögur til háskólaráðs um takmörkun á fjölda stúdenta í hjúkrunarfræði í samræmi við fjölda klínískra námsplássa á heilbrigðisstofnunum. Ákvörðun háskólaráðs skal tilkynna fyrir upphaf þess háskólaárs sem hún tekur til.

Deildin setur reglur um viðurkenningu fyrra náms við endurskráningu stúdenta og umskráningu úr öðrum deildum eða milli aðalgreina í hjúkrunarfræðideild.

LYFJAFRÆÐIDEILD.

99. gr.

Kennslugreinar, prófgráður og námseiningar.

Lyfjafræðideild veitir kennslu sem hér segir:

Til BS-prófs í lyfjafræði.

Til MS-prófs í lyfjafræði (jafngilt cand.pharm.-prófi, embættisprófi í lyfjafræði).

Til MS-prófs í lyfjavísindum.

Til doktorsprófs í lyfjafræði og lyfjavísindum. Enn fremur til meistara- og doktorsprófs í lýðheilsuvísindum og öðrum þverfræðilegum greinum í samvinnu við aðrar háskóladeildir, þar sem nauðsynleg aðstaða er fyrir hendi.

Auk kennslu stendur deildin fyrir rannsóknum á fræðasviðum deildarinnar.

Deildin setur nánari reglur um nám til BS-prófs í lyfjafræði.

Stúdent skal hafa lokið BS-prófi í lyfjafræði frá lyfjafræðideild Háskóla Íslands áður en hann hefur framhaldsnám til meistaraprófs í lyfjafræði. Lyfjafræðideild getur heimilað að stúdent, sem lokið hefur sambærilegu prófi, hefji framhaldsnám við deildina til meistaraprófs í lyfjafræði.

Um starfsþjálfun stúdenta í meistaranámi í lyfjafræði fer eftir reglum sem deildin setur.

Sá sem lokið hefur meistaraprófi í lyfjafræði (jafngildi cand.pharm.-prófs) og starfsþjálfun getur sótt um starfsleyfi lyfjafræðings, enda fullnægi hann kröfum 3. gr. laga um lyfjafræðinga nr. 35/1978, með áorðnum breytingum.

Deildin veitir kennslu og þjálfun til meistaraprófs í lyfjavísindum að afloknu BS-prófi eða öðru háskólaprófi sem deildin telur að feli í sér viðeigandi undirbúning til námsins.

Lyfjafræðideild setur nánari reglur um nám til meistaraprófs í lyfjafræði, meistaraprófs í lyfjavísindum og nám til doktorsprófs sem háskólaráð staðfestir, sbr. 66.-69. gr. þessara reglna.

Deildin ákvarðar kennslugreinar og skiptingu þeirra í námskeið og um vægi þeirra.

Allar breytingar á vægi námskeiða skal tilgreina í kennsluskrá eða tilkynna á annan hátt eigi síðar en við upphaf kennsluárs.

Námskeið skal meta til eininga og telst fullt nám að jafnaði vera 60 einingar á námsári. Nám til BS-prófs er 180 einingar og framhaldsnám til meistaraprófs í lyfjafræði og lyfjavísindum 120 einingar. Skal miðað við að vægi námskeiðs í heildareinkunn samsvari einingafjölda þess. Nám til doktorsprófs er 180 einingar að loknu meistaraprófi, sbr. sérstakar reglur þar um.

Kennsla í hverju námskeiði skal miðuð við að hún spanni öll aðalatriði námsgreinarinnar áður en stúdent gengst undir próf.

Deildin stendur fyrir endurmenntun lyfjafræðinga, eftir því sem fjárveitingar og aðrar aðstæður leyfa.

100. gr.

Námsframvinda, námsmat og hámarksnámstími.

Nemandi skal ljúka a.m.k. 52 einingum af 1. námsári áður en hann hefur nám á 2. námsári eða einstökum þáttum þess. Eftir 2. námsár þarf nemandi að hafa lokið prófi í a.m.k. 30 einingum á 2. námsári, áður en hann hefur nám á 3. námsári eða einstökum þáttum þess, og öllum prófum á 1. námsári.

Sjúkrapróf í samkeppnisprófgrein, sbr. 8. mgr., skal halda, ef þörf krefur, eigi síðar en að fjórum vikum liðnum frá samkeppnisprófi en fyrr ef kostur er.

Próf skulu að jafnaði vera skrifleg en geta einnig verið munnleg eða verkleg eftir ákvörðun deildarinnar.

Til að standast BS-próf eða MS-próf í lyfjafræði verður nemandi að hljóta minnst einkunnina 5,0 í öllum námskeiðum hverju fyrir sig auk allra námskeiðshluta í einstökum námskeiðum. Deildin ákvarðar vægi hvers námskeiðshluta í samráði við kennara og birtir tilkynningu um það efni í upphafi kennslumisseris.

Kennara er heimilt að meta ritgerðir, frammistöðu í verklegum æfingum og aðra námsvinnu sem hluta af prófi og áskilja lágmarkseinkunn í hverjum hluta.

Stúdent skal hafa lokið BS-prófi í lyfjafræði eigi síðar en fimm árum eftir innritun hans í BS-nám við lyfjafræðideild. Til meistaraprófs í lyfjafræði og lyfjavísindum skal kennslu hagað þannig, að ljúka megi því á tveimur árum eftir BS-próf. Meistaraprófi skal ljúka eigi síðar en þremur árum eftir að stúdent innritaðist í meistaranámið. Undanþágu má veita frá þessum tímamörkum vegna veikinda eða annarra svipaðra vítaleysisástæðna.

Deildin setur reglur um viðurkenningu fyrra náms við endurskráningu stúdenta og umskráningu úr öðrum deildum eða milli aðalgreina í lyfjafræðideild.

Fræðasvið heilbrigðisvísinda gerir árlega, að tillögu deildar, ef þörf krefur, rökstuddar tillögur til háskólaráðs um takmörkun á fjölda stúdenta í lyfjafræðideild. Ákvörðun háskólaráðs skal tilkynna fyrir upphaf þess háskólaárs sem hún tekur til. Réttur stúdenta til áframhaldandi náms er miðaður við árangur samkeppnisprófa í lok fyrsta misseris fyrsta námsárs, samkvæmt nánari reglum sem deildin setur og birtar skulu í kennsluskrá.

LÆKNADEILD.

101. gr.

Kennslugreinar, prófgráður og námseiningar.

Læknadeild veitir kennslu sem hér segir:

Til kandídatsprófs í læknisfræði.

Til BS-prófs á fræðasviðum læknisfræðinnar.

Til BS-prófs í sjúkraþjálfun.

Til BS-prófs í geislafræði.

Til BS-prófs í lífeindafræði.

Til meistara- og doktorsprófs í heilbrigðisvísindum og líf- og læknavísindum. Enn fremur til meistara- og doktorsprófs í lýðheilsuvísindum og öðrum þverfræðilegum greinum í samvinnu við aðrar háskóladeildir, þar sem nauðsynleg aðstaða er fyrir hendi. Deildin setur nánari reglur um nám til meistara- og doktorsprófs, samkvæmt reglum þessum, sem háskólaráð staðfestir, sbr. 66.-69. gr. þessara reglna.

Læknadeild veitir kennslu í læknisfræði, sjúkraþjálfun, geislafræði og lífeindafræði. Sjúkraþjálfun, geislafræði og lífeindafræði er skipað í námsbrautir, sbr. ákvæði 21. gr. þessara reglna.

Auk kennslu stendur deildin fyrir rannsóknum á fræðasviðum deildarinnar.

Deildin ákvarðar kennslugreinar og skiptingu þeirra í námskeið og um vægi þeirra.

Allar breytingar á vægi námskeiða skal tilgreina í kennsluskrá eða tilkynna á annan hátt eigi síðar en við upphaf kennsluárs.

Kennsla í hverri grein skal við það miðuð að stúdent fái yfirferð yfir öll aðalatriði hennar áður en hann gengur undir próf.

Nám í læknisfræði til kandídatsprófs jafngildir 360 námseiningum, nám til BS-prófs í sjúkraþjálfun jafngildir 240 einingum, nám til BS-prófs í geislafræði jafngildir 180 einingum og nám til BS-prófs í lífeindafræði jafngildir 180 einingum. Sá sem lokið hefur kandídatsprófi í læknisfræði ber próftitilinn candidatus medicinae (cand. med.). Sá sem hefur lokið fullnaðarprófi í sjúkraþjálfun ber titilinn baccalaureus scientiarum (BS) í sjúkraþjálfun og sá sem lokið hefur 180 eininga námi í geislafræði eða lífeindafræði ber titilinn baccalaureus scientiarum (BS) í geislafræði/lífeindafræði, eftir því sem við á. Að loknu BS-prófi í geislafræði og í lífeindafræði tekur við 60 eininga nám á meistarastigi sem leiðir til starfsréttinda, skv. nánari reglum þar að lútandi.

Stúdentar í læknisfræði, sem lokið hafa eins árs fræðilegu námi eða rannsóknarverkefni á námsferli sínum, geta auk þess fengið BS-gráðu ef kunnátta þeirra á viðkomandi fræðasviði eða rannsóknarvinna er talin fullnægjandi að dómi umsjónarkennara og tilgreinds prófdómara.

Læknadeild veitir kennslu og þjálfun til meistaraprófs, magister scientiarum, (MS-prófs) í heilbrigðisvísindum, líf- og læknavísindum. Lærdómstitillinn MS er veittur fyrir 120 eininga framhaldsnám að afloknu viðeigandi háskólaprófi. Til að innritast í meistaranám við læknadeild þarf stúdent að hafa lokið BS-prófi frá Háskóla Íslands, 4. ári við læknadeild Háskóla Íslands eða öðru samsvarandi prófi.

Nefnd skipuð af læknadeild er deildarforseta til aðstoðar við að meta umsóknir um MS-nám, fylgjast með náminu í heild og samræma það. Sérstök umsjónarnefnd, skipuð af deild, hefur umsjón með námi hvers stúdents í MS-námi. Námið felur í sér þjálfun í vísindalegum vinnubrögðum og er ritgerð byggð á sjálfstæðri rannsókn hluti námsins. Stærð rannsóknarverkefnis er ákveðin í námsáætlun og skal vera minnst 60 námseiningar en mest 90. MS-rannsóknarverkefni lýkur með því að stúdent leggur fram ritgerð og heldur um hana fyrirlestur. Ritgerð og fyrirlestur eru dæmd af tveimur sérfræðingum sem umsjónarnefnd tilnefnir til starfans. Aðrar námseiningar til MS-prófs öðlast stúdent með þátttöku í námskeiðum. Lágmarkseinkunn fyrir námskeið sem tekin eru sem hluti af námi til MS-prófs er 6,0.

Nám til doktorsprófs í heilbrigðisvísindum og læknavísindum lýtur sérstökum reglum, sbr. 2. mgr. þessarar greinar.

102. gr.

Námsframvinda, námsmat, einkunnir og hámarksnámstími.

Stúdent skal hafa lokið öllum prófum hvers árs, áður en hann hefur nám á næsta námsári.

Próf skulu að jafnaði vera skrifleg en geta einnig verið munnleg eða verkleg eftir ákvörðun deildarinnar.

Séu prófþættir fleiri en einn í einhverri kennslugrein eða próf haldið í sömu kennslugrein á fleiri en einu ári, þarf stúdent að fá tilskilda lágmarkseinkunn í hverjum prófþætti. Deildin ákvarðar vægi hvers prófþáttar í samráði við kennara.

Árangur stúdents í verklegu námi er metinn af þeim kennara sem kennsluna annast. Kennari skilar skriflegum vitnisburði til nemendaskrár háskólans. Gefnar eru fjórar einkunnir: ágætt, gott, viðunandi og óviðunandi. Sá sem fær einkunnina óviðunandi telst ekki hafa lokið verklega náminu og getur ekki sagt sig til prófs. Einkunnir fyrir verklegt nám reiknast ekki með til lokaeinkunnar. Heimilt er þó með samþykki deildar að gefa verklega einkunn í tölum og reikna hana sem ákveðinn hluta af lokaeinkunn í hlutaðeigandi grein.

Lágmarkseinkunn fyrir námskeið sem tekin eru sem hluti af námi til MS-prófs, er 6,0, sbr. 101. gr.

Kennslu í læknisfræði skal haga þannig að unnt sé að ljúka námi á sex árum en heildarnámstími má ekki vera lengri en átta ár. Kennslu í sjúkraþjálfun skal haga þannig að unnt sé að ljúka námi til BS-prófs á fjórum árum en heildarnámstími má ekki vera lengri en fimm ár. Kennsla í geislafræði og í lífeindafræði miðast við að á þremur árum megi ljúka námi til BS-prófs, en að því loknu tekur við nám á meistarastigi sem leiðir til starfsréttinda, skv. nánari reglum þar að lútandi. Deildinni er heimilt að veita undanþágu frá þessum skilyrðum, þegar sérstaklega stendur á.

Stúdentar sem eru í verklegu námi á sjúkradeildum eða rannsóknarstofum skulu sitja fræðslufundi þeirra.

Læknadeild stendur fyrir framhaldsmenntun læknakandídata og sjúkraþjálfara, eftir því sem fjárveitingar og aðrar aðstæður leyfa. Deildin ákveður nánar hvernig kennslu og prófum skuli háttað.

Eftir þriggja ára nám eða síðar á námsferlinum geta stúdentar í læknisfræði sótt um að verja einu ári til fræðilegs náms á tilgreindu sviði eða til að vinna að rannsóknarverkefni undir eftirliti tilgreinds háskólakennara. Slíku námi skal ljúka með samningu ritgerðar eða prófi og ritgerð, sem metin er til einkunnar samkvæmt reglum sem deildin setur. Hámarksnámstími stúdenta í læknisfræði, sem verja heilu ári til fræðilegs náms eða rannsóknarstarfa, lengist upp í níu ár.

Fræðasvið heilbrigðisvísinda gerir árlega, að tillögu læknadeildar, ef þörf krefur, rökstuddar tillögur til háskólaráðs um takmörkun á fjölda stúdenta í læknisfræði, sjúkraþjálfun, geislafræði og lífeindafræði. Ákvörðun háskólaráðs skal tilkynna fyrir upphaf þess háskólaárs, sem hún tekur til. Háskólaráð setur, að fengnum tillögum fræðasviðs og deildar, reglur um hvernig staðið skuli að inntöku stúdenta og skulu þær birtar í kennsluskrá ár hvert.

Deildin setur reglur um viðurkenningu fyrra náms við endurskráningu stúdenta og umskráningu úr öðrum deildum eða milli aðalgreina í læknadeild.

MATVÆLA- OG NÆRINGARFRÆÐIDEILD.

103. gr.

Kennslugreinar, prófgráður og námseiningar.

Matvæla- og næringarfræðideild veitir kennslu og þjálfun sem hér segir:

Til BS-prófs í matvælafræði.

Til BS-prófs í matvælatæknifræði.

Til BS-prófs í næringarfræði.

Til MS-prófs í matvælafræði.

Til MS-prófs í næringarfræði.

Til doktorsprófs í matvælafræði og næringarfræði þar sem nauðsynleg aðstaða er fyrir hendi. Enn fremur til meistara- og doktorsprófs í lýðheilsuvísindum og öðrum þverfræðilegum greinum í samvinnu við aðrar háskóladeildir, þar sem nauðsynleg aðstaða er fyrir hendi. Deildin setur nánari reglur um nám til meistara- og doktorsprófs, samkvæmt reglum þessum, sem háskólaráð staðfestir, sbr. 66.-69. gr. þessara reglna.

Deildinni er skipað í tvær námsbrautir, sbr. ákvæði 21. gr. þessara reglna, námsbraut í matvælafræði og námsbraut í næringarfræði.

Auk kennslu stendur deildin fyrir rannsóknum á fræðasviðum deildarinnar.

Deildin ákvarðar kennslugreinar og skiptingu þeirra í námskeið og um vægi þeirra.

Allar breytingar á vægi námskeiða skal tilgreina í kennsluskrá eða tilkynna á annan hátt eigi síðar en við upphaf kennsluárs.

Námskeið skal meta til eininga og telst fullt nám að jafnaði vera 60 einingar á námsári. Skipan BS-námsins miðast við að það taki þrjú ár, og er heildarnámið minnst 180 námseiningar.

Prófgráðan MS er veitt fyrir 120 eininga meistaranám að loknu BS-prófi í matvælafræði eða næringarfræði eða að loknu sambærilegu prófi og nauðsynlegum undirbúningi að mati deildar. MS- próf í næringarfræði er grundvöllur löggilts starfsheitis næringarfræðings.

Nám til doktorsprófs í matvælafræði og næringarfræði er 180 eininga nám að loknu meistaraprófi sem lýtur sérstökum reglum, sbr. 2. mgr. þessarar greinar.

104. gr.

Námsframvinda, námsmat, einkunnir og hámarksnámstími.

Stúdent skráir sig í aðalgrein við upphaf náms. Óski stúdent frávika frá námsskipan þeirri sem gert er ráð fyrir í kennsluskrá skal hann leggja námsáætlun sína fyrir deildina til samþykktar. Sama gildir ef hann óskar breytinga á upphaflegri námsáætlun eða lengingar námstíma vegna sérstakra ástæðna. Um slík erindi skal fjallað fyrir upphaf kennslu á haustmisseri.

Deildinni er heimilt að ákveða að stúdent megi ekki skrá sig í námskeið nema hann hafi áður öðlast rétt til próftöku eða staðist próf í tilteknum námskeiðum.

Deildin setur reglur um æfingaskyldu í námskeiðum og lágmarksframmistöðu stúdents í æfingum til þess að hann öðlist rétt til próftöku.

Halda má æfinganámskeið utan reglulegs kennslutíma.

Stúdent skal ljúka prófi í öllum námskeiðum fyrsta kennsluárs fyrir lok annars námsárs síns og í öllum námskeiðum annars kennsluárs fyrir lok þriðja námsárs, ella glatar hann rétti til þess að halda náminu áfram. Til þess að standast BS-próf verður stúdent að hafa hlotið eigi lægri einkunn en 5,0 í hverri prófgrein. Til þess að standast MS-próf verður stúdent að hafa hlotið eigi lægri einkunn en 6,0 í hverri prófgrein.

Stúdent í BS-námi skal enn fremur ljúka prófi með tilskildum árangri og ávinna sér svo margar námseiningar er hér segir: Eftir fyrsta ár 40 einingar; eftir annað ár 90 einingar; eftir þriðja ár 140 einingar; eftir fjórða ár 180 einingar. Til meistaraprófs skal kennslu hagað þannig, að ljúka megi því á tveimur árum eftir BS-próf. Meistaraprófi skal ljúka eigi síðar en þremur árum eftir að stúdent innritaðist í meistaranámið.

Heimilt er deildinni að víkja frá ákvæðum 5. og 6. mgr. um tímamörk og námshraða, ef stúdent hefur ekki vanrækt námið og horfur eru á að hann geti lokið því.

Endurtekningarpróf eru haldin í kjölfar almennra próftímabila í desember og maí, sbr. 56. og 57. gr. þessara reglna.

Við einkunnagjöf má taka tillit til frammistöðu stúdents í prófum og æfingum utan reglulegs próftíma og veita fyrir hana sérstaka einkunn, hlutaeinkunn. Deildin ákveður að tillögu kennara vægi hlutaeinkunnar og skal það tilgreint í kennsluskrá. Við birtingu einkunna skulu prófseinkunn og hlutaeinkunn einnig sýndar hvor um sig. Í prófgrein, þar sem hlutaeinkunn er gefin, er deild heimilt að tillögu kennara, að áskilja fyrir hvora einkunnina sem er, að stúdent teljist ekki hafa staðist próf ef hún er lægri en lágmarkseinkunn prófgreinarinnar í heild. Slík ákvörðun skal tilgreind í kennsluskrá.

Deildin setur reglur um viðurkenningu fyrra náms við endurskráningu stúdenta og umskráningu úr öðrum deildum eða milli aðalgreina í matvæla- og næringarfræðideild.

Fræðasvið heilbrigðisvísinda gerir árlega, að tillögu matvæla- og næringarfræðideildar, ef þörf krefur, rökstuddar tillögur til háskólaráðs um takmörkun á fjölda stúdenta í næringarfræði. Ákvörðun háskólaráðs skal tilkynna fyrir upphaf þess háskólaárs, sem hún tekur til. Háskólaráð setur, að fengnum tillögum fræðasviðs og deildar, reglur um hvernig staðið skuli að inntöku stúdenta og skulu þær birtar í kennsluskrá ár hvert.

SÁLFRÆÐIDEILD.

105. gr.

Kennslugreinar, prófgráður og námseiningar.

Sálfræðideild veitir kennslu sem hér segir:

Til BS-prófs í sálfræði.

Til kandídatsprófs í sálfræði (cand.psych.).

Til MS-prófs í sálfræði.

Til MS-prófs í félags- og vinnusálfræði.

Til doktorsprófs í sálfræði þar sem nauðsynleg aðstaða er fyrir hendi. Enn fremur til meistara- og doktorsprófs í lýðheilsuvísindum og öðrum þverfræðilegum greinum í samvinnu við aðrar háskóladeildir, þar sem nauðsynleg aðstaða er fyrir hendi. Deildin setur nánari reglur um nám til meistara- og doktorsprófs, samkvæmt reglum þessum, sem háskólaráð staðfestir, sbr. 66.-69. gr. þessara reglna.

Auk kennslu stendur deildin fyrir rannsóknum á fræðasviðum deildarinnar.

Deildin ákvarðar kennslugreinar og skiptingu þeirra í námskeið og um vægi þeirra.

Allar breytingar á vægi námskeiða skal tilgreina í kennsluskrá eða tilkynna á annan hátt eigi síðar en við upphaf kennsluárs.

Námskeið skal meta til eininga og telst fullt nám að jafnaði vera 60 einingar á námsári. Skipan BS-námsins miðast við að það taki þrjú ár, og er heildarnámið minnst 180 námseiningar. Einnig er unnt að ljúka BS-prófi í sálfræði með 120 eininga aðalgrein í sálfræði og 60 einingar í aukagrein úr annarri deild, enda samþykki sálfræðideild og viðkomandi deild aukagreinina.

Prófgráðan MS er veitt fyrir 120 eininga meistaranám að loknu BS-prófi í sálfræði.

Kandídatspróf í sálfræði (cand.psych.) er 120 eininga nám í sálfræði að loknu BS-prófi í sálfræði. Námið er fræðilegt nám og starfsþjálfun og tekur til klínískrar sálfræði fullorðinna og klínískrar sálfræði barna og skólasálfræði. Námið miðast við að sá sem hefur lokið því uppfylli skilyrði laga til að kalla sig sálfræðing. Starfsþjálfun stúdenta í kandídatsnámi fer eftir reglum sem deildin setur. Til að standast próf í námskeiðum á námsleið til kandídatsprófs í sálfræði (cand.psych.) verður stúdent að hljóta minnst einkunnina 7,0. Sama gildir um námsmat á lokaverkefnum í cand.psych. námi. Þegar um er að ræða starfsþjálfun eða lokaverkefni þar sem gefið er staðið/fallið, verður nemandi að standast kröfur sem eru a.m.k. 70% af námsmati.

Nám til doktorsprófs í sálfræði er 180 eininga nám að loknu meistaraprófi sem lýtur sérstökum reglum, sbr. 2. mgr. þessarar greinar.

106. gr.

Námsframvinda, námsmat og hámarksnámstími.

Kennslu til BS-prófs skal haga þannig að stúdent geti lokið 180 eininga námi á þremur árum. Hámarksnámstími til þess að ljúka BS-prófi er níu kennslumisseri frá því er stúdent var skrásettur í viðkomandi aðalgrein. Deildinni er heimilt að veita undanþágu frá þessum tímamörkum, þegar sérstaklega stendur á. Kennslu til kandídats- eða meistaraprófs til 120 eininga skal haga þannig að stúdent geti lokið náminu á tveimur árum.

Heimilt er að sama námskeið sé hluti af fleiri en einni aðalgrein eða aukagrein, en eigi má reikna það nema einu sinni í samanlögðum einingafjölda stúdents.

Heimilt er stúdent í BS-námi að sækja nám í aukagrein til annarra deilda, að fengnu samþykki sálfræðideildar og þeirrar deildar sem námið er sótt til.

Deildinni er heimilt að ákveða að stúdent megi ekki skrá sig í námskeið, nema hann hafi áður öðlast rétt til próftöku eða staðist próf í tilteknum námskeiðum. Einnig er heimilt að gera kröfur um námsárangur milli námsára. Slíkt skal tekið fram í kennsluskrá.

Deildin setur reglur um æfingaskyldu í námskeiðum og lágmarksframmistöðu stúdents í æfingum til þess að hann öðlist rétt til próftöku.

Próf geta verið munnleg og/eða skrifleg. Heimilt er kennara, með samþykki deildar, að meta ritgerðir, vinnuverkefni og æfingar sem hluta af prófi. Ef prófþættir í námskeiði eru tveir eða fleiri er deildinni heimilt, að tillögu kennara, að krefjast þess að tilskilinni lágmarkseinkunn verði náð í hvorum eða hverjum prófþætti. Slík ákvörðun skal tilgreind í kennsluskrá eða í námsáætlun sem lögð er fram í upphafi námskeiðs.

Deildin setur reglur um viðurkenningu fyrra náms við endurskráningu stúdenta og umskráningu úr öðrum deildum eða milli aðalgreina í sálfræðideild.

Fræðasvið heilbrigðisvísinda gerir árlega, að tillögu sálfræðideildar, ef þörf krefur, rökstuddar tillögur til háskólaráðs um takmörkun á fjölda stúdenta í kandídatsnám í sálfræði. Ákvörðun háskólaráðs skal tilkynna fyrir upphaf þess háskólaárs, sem hún tekur til. Háskólaráð setur, að fengnum tillögum fræðasviðs og deildar, reglur um hvernig staðið skuli að inntöku stúdenta og skulu þær birtar í kennsluskrá ár hvert.

TANNLÆKNADEILD.

107. gr.

Kennslugreinar, prófgráður og námseiningar.

Tannlæknadeild veitir kennslu í tann- og munnvísindum sem hér segir:

Til kandídatsprófs í tannlæknisfræði.

Til BS-prófs í tannsmíði.

Til meistara- og doktorsprófs í tann- og munnvísindum á fræðasviðum þar sem nauðsynleg aðstaða er fyrir hendi. Enn fremur til meistara- og doktorsprófs í lýðheilsuvísindum og öðrum þverfræðilegum greinum í samvinnu við aðrar háskóladeildir, þar sem nauðsynleg aðstaða er fyrir hendi. Deildin setur nánari reglur um nám til meistara- og doktorsprófs, samkvæmt reglum þessum, sem háskólaráð staðfestir, sbr. 66.- 69. gr. þessara reglna.

Til kennslu í tannlæknisfræði og tannsmíði heyra þær greinar er varða fræðasvið tann- og munnvísinda á hverjum tíma. Til fræðasviðs tannlæknisfræðinnar telst allt sem tengist gerð og starfsemi tyggingarfæra mannslíkamans.

Tannsmiðanámi er skipað í sérstaka námsbraut, sbr. ákvæði 21. gr. þessara reglna.

Auk kennslu stendur deildin fyrir rannsóknum á fræðasviðum deildarinnar.

Deildin veitir heilbrigðisyfirvöldum upplýsingar og er leiðandi í ráðgjöf um tannheilsu og í fræðslu fyrir almenning. Enn fremur veitir deildin almenningi tannlæknaþjónustu í tengslum við kennslu á vegum deildarinnar og sérfræðiþjónustu samkvæmt samningi milli Háskóla Íslands og heilbrigðisyfirvalda á hverjum tíma.

Deildin ákvarðar kennslugreinar og skiptingu þeirra í námskeið og vægi þeirra.

Allar breytingar á vægi námskeiða skal tilgreina í kennsluskrá eða tilkynna á annan hátt eigi síðar en við upphaf kennsluárs.

Kennsla í hverri grein skal við það miðuð, að stúdent fái yfirferð yfir öll aðalatriði hennar áður en hann gengur undir próf.

Nám í tannlæknisfræði til kandídatsprófs jafngildir 360 námseiningum og nám til BS-prófs í tannsmíði jafngildir 180 einingum. Tannsmíði er einungis unnt að stunda sem aðalgrein. Kandídatsprófi skal stúdent ljúka eigi síðar en sex árum eftir að hann hefur nám á öðru námsári. Þó getur deildin veitt undanþágu frá þessum tímamörkum ef veikindi eða aðrar gildar ástæður koma til.

Próftitilinn candidatus odontologiae (cand.odont.) ber sá, er lokið hefur kandídatsprófi frá tannlæknadeild og sá sem lokið hefur námi í tannsmíði ber titilinn baccalaureus scientiarum (BS) í tannsmíði.

Tannlæknadeild getur veitt kennslu og þjálfun til meistaraprófs, MS-prófs, á fræðasviðum deildarinnar. Lærdómstitillinn MS er veittur fyrir 120 eininga framhaldsnám að afloknu viðeigandi háskólaprófi. Inngöngu í þetta nám geta þeir fengið sem lokið hafa kandídatsprófi í tannlækningum eða öðru háskólaprófi sem deildin telur að feli í sér viðeigandi undirbúning til námsins. Rannsóknanámsnefnd heilbrigðisvísindadeilda ásamt fulltrúa tilnefndum af tannlæknadeild hefur umsjón með meistaranáminu til að tryggja samræmingu og gæði námsins.

Meistaranámið felur í sér þjálfun í vísindalegum vinnubrögðum og er ritgerð byggð á sjálfstæðri rannsókn hluti námsins. Stærð rannsóknarverkefnis er ákveðin í námsáætlun og skal vera minnst 60 námseiningar en mest 90. MS-rannsóknarverkefni lýkur með því að stúdent leggur fram ritgerð og heldur um hana fyrirlestur. Ritgerð og fyrirlestur eru dæmd af tveimur sérfræðingum sem umsjónarnefnd tilnefnir til starfans. Aðrar námseiningar til MS-prófs öðlast stúdent með þátttöku í námskeiðum. Lágmarkseinkunn fyrir námskeið sem tekin eru sem hluti af námi til MS-prófs, er 6,0.

Um doktorspróf gilda sérstakar reglur sem deildin setur og háskólaráð staðfestir. Rannsóknanámsnefnd heilbrigðisvísindadeilda ásamt fulltrúa tilnefndum af tannlæknadeild hefur umsjón með doktorsnámi til að tryggja samræmingu og gæði námsins.

Tannlæknadeild stendur fyrir framhaldsmenntun tannlækna, eftir því sem fjárveitingar og aðrar aðstæður leyfa. Deildin ákveður nánar hvernig kennslu og prófum skuli háttað.

108. gr.

Námsframvinda, námsmat, einkunnir og hámarksnámstími.

Stúdent skal hafa lokið öllum prófum hvers árs áður en hann hefur nám á næsta námsári.

Próf skulu vera skrifleg, munnleg og verkleg eftir ákvörðun deildarinnar.

Séu prófþættir fleiri en einn í einhverri kennslugrein eða próf haldið í sömu kennslugrein á fleiri en einu ári þarf stúdent að fá tilskilda lágmarkseinkunn í hverjum prófþætti. Deildin ákvarðar vægi hvers prófþáttar í samráði við kennara. Fyrir upphaf kennsluárs skal tilkynna vægi hvers prófþáttar í heildareinkunn námsgreinar.

Árangur stúdents í verklegu námi er metinn af þeim kennara sem kennsluna annast. Kennari skilar skriflegum vitnisburði til nemendaskrár háskólans. Gefnar eru fjórar einkunnir: ágætt, gott, viðunandi, óviðunandi. Sá sem fær einkunnina óviðunandi telst ekki hafa lokið verklega náminu og getur ekki sagt sig til prófs. Einkunnir fyrir preklínískt og klínískt nám eru gefnar í tölum og reiknast sem ákveðinn hluti af lokaeinkunn í hlutaðeigandi grein.

Kennslu tannlæknanema skal haga þannig að unnt sé að ljúka námi á sex árum og kennslu tannsmiðanema þannig að unnt sé að ljúka námi á þremur árum. Heildarnámstími tannlæknanema má ekki vera lengri en átta ár og tannsmiðanema ekki lengri en fjögur ár. Deildinni er heimilt að veita undanþágu frá þessum skilyrðum, þegar sérstaklega stendur á.

Fræðasvið heilbrigðisvísinda gerir árlega, að tillögu tannlæknadeildar, ef þörf krefur, rökstuddar tillögur til háskólaráðs um takmörkun á fjölda stúdenta. Ákvörðun háskólaráðs skal tilkynna fyrir upphaf þess háskólaárs, sem hún tekur til. Háskólaráð setur, að fengnum tillögum fræðasviðs og deildar, reglur um hvernig staðið skuli að inntöku stúdenta og skulu þær birtar í kennsluskrá ár hvert.

Deildin setur reglur um viðurkenningu fyrra náms við endurskráningu stúdenta og umskráningu úr öðrum deildum eða milli aðalgreina í tannlæknadeild.

XII. KAFLI

Hugvísindasvið.

Deildir hugvísindasviðs eru deild erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda, guðfræði- og trúarbragðafræðideild, íslensku- og menningardeild og sagnfræði- og heimspekideild.

Deildirnar skulu hafa með sér náið samstarf til að nýta sem best mannafla, fjármuni, aðstöðu, tæki og búnað í þágu fjölbreyttrar menntunar og rannsókna.

Hugvísindasvið og deildir þess skulu enn fremur stuðla að nánu samstarfi við sameiginlega stjórnsýslu háskólans, önnur fræðasvið háskólans og deildir.

Um stjórn fræðasviða og deilda og önnur atriði sem lúta sömu reglum fer eftir ákvæðum II. kafla þessara reglna. Um inntökuskilyrði í einstakar deildir og námsleiðir fer eftir reglum sem háskólaráð setur, sbr. 47. gr. þessara reglna. Háskólaráð setur jafnframt sérstakar reglur um háskólastofnanir og um meistara- og doktorsnám í hverri deild.

DEILD ERLENDRA TUNGUMÁLA, BÓKMENNTA OG MÁLVÍSINDA.

109. gr.

Kennslugreinar, prófgráður og námseiningar.

Deild erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda veitir kennslu sem hér segir:

Til BA-prófs: Austur-Asíufræði, danska, enska, finnska, franska, gríska, ítalska, japanska, kínverska, latína, norska, rússneska, spænska, sænska og þýska. Auk þess er heimilt að taka upp kennslu í aukagreinum eftir nánari ákvörðun deildar.

Til M.Paed.-prófs: Danska, enska, franska, spænska og þýska. Heimilt er með samþykki deildar að taka þetta nám upp í öðrum greinum deildarinnar ef nauðsynleg aðstaða og sérþekking er fyrir hendi.

Til MA-prófs: Danska, enska, franska, hagnýt þýska í ferðaþjónustu og miðlun, Norðurlandafræði, spænska og þýska.

Til doktorsprófs: Á fagsviðum þar sem deild metur að nauðsynleg aðstaða og sérþekking sé fyrir hendi.

Deildin setur nánari reglur um nám til meistara- og doktorsprófs, samkvæmt reglum þessum, sem háskólaráð staðfestir, sbr. 66.-69. gr. þessara reglna.

Auk kennslu stendur deildin fyrir rannsóknum á fræðasviðum deildarinnar.

Deildin tekur nánari ákvarðanir um skiptingu kennslugreina í námskeið og um vægi þeirra í námseiningum, í hvaða röð námskeið skulu tekin og hver þeirra séu skyldunámskeið. Ef sérstakir erfiðleikar eru á kennslu í einhverri kennslugrein getur deildin ákveðið að hún skuli ekki kennd.

Deildinni er heimilt að skipuleggja stuttar hagnýtar námsleiðir í grunnnámi, sbr. ákvæði 55. gr. reglna þessara. Deildinni er enn fremur heimilt að gefa kost á viðbótarnámi að loknu fullgildu háskólanámi. Auk kennslu til þeirra prófa sem að framan eru talin er deildinni heimilt að skipuleggja ýmsar námsleiðir innan deildarinnar eða í samvinnu við aðrar deildir.

Til BA-prófs er krafist minnst 180 eininga. Stúdent velur sér aðalgrein úr kennslugreinum þeim sem upp eru taldar í 2. mgr. og tekur í henni minnst 120 einingar. Til viðbótar tekur hann annaðhvort 60 einingar í aðalgrein sinni eða 60 einingar í aukagrein sem valin er úr kennslugreinum á hugvísindasviði. Minnst 10 einingar skulu felast í samningu lokaverkefnis. Stúdent er einnig heimilt að ljúka BA-prófi í tveimur aðalgreinum með því að taka a.m.k. 120 einingar, þ.m.t. lokaverkefni, í hvorri grein. Stúdent er heimilt með samþykki deildar að sækja aukagrein eða einstök námskeið til annarra deilda.

Að loknu BA-prófi getur stúdent sótt um að hefja nám til meistaraprófs, MA eða M.Paed., í þeirri grein sem var aðalgrein hans til BA-prófs. Áskilið er að hann hafi lokið BA-prófi með fyrstu einkunn. Heimilt er að veita undanþágu frá kröfum um lágmarkseinkunn ef sérstök rök mæla með því. Uppfylli stúdent ekki ofangreind skilyrði getur hann þó sótt um að hefja nám til meistaraprófs við deildina, hafi hann áður lokið hliðstæðu háskólaprófi og uppfyllt þær kröfur sem deildin setur. Nánar er kveðið á um þetta í námsskipunarreglum einstakra námsleiða deildarinnar.

Til meistaraprófs er að jafnaði krafist minnst 120 eininga. MA-verkefni skal vega minnst 30 einingar en mest 60 einingar. MA-verkefni velur stúdent í samræmi við reglur deildar. Nánari leiðbeiningar um hlutfall námskeiða í greininni af heildarnámi, sem og um vægi ritgerða og einstakra námskeiða skal setja í námsskipunarreglum sem deildin samþykkir fyrir hverja námsleið.

Deildin setur að öðru leyti nánari reglur um meistaranám sem háskólaráð staðfestir, sbr. 5. mgr. Heimilt er í þeim reglum að kveða á um námsleiðir sem deildin stendur sameiginlega að með öðrum deildum eða háskólum, og námsleiðir þar sem krafist er minnst 90 eininga til meistaraprófs. Standi deildin sameiginlega að slíkum námsleiðum með öðrum deildum eða háskólum er jafnframt heimilt að fela fagráði eða námsstjórn að fara sameiginlega með það hlutverk sem deildin annars hefur með höndum. Heimilt er að taka upp diplómanám á meistarastigi (til 30 eða 60 eininga). Slíkt nám má meta inn í meistaranám skv. nánari ákvæðum í námsskipunarreglum.

Stúdent sem hefur lokið MA-prófi frá deild erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda með fyrstu einkunn getur sótt um aðgang að doktorsnámi í deildinni. Stúdent sem hefur lokið meistaraprófi eða öðru samsvarandi prófi frá annarri deild Háskóla Íslands eða öðrum háskóla sem deildin viðurkennir, með jafngildi fyrstu einkunnar, getur sótt um aðgang að doktorsnámi við deild erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda. Þá skal menntun hans metin með tilliti til aðalgreinar í doktorsnámi og honum gerðar námskröfur sem tryggi að undirbúningur hans sé nægjanlegur til að stunda doktorsnám á því sviði sem hann sækir um.

Til doktorsprófs er krafist minnst 180 eininga að loknu meistaraprófi. Heimilt er að skipuleggja doktorsnám til allt að 240 eininga að loknu meistaraprófi séu til þess faglegar forsendur. Í upphafi doktorsnáms skal framhaldsnámsnefnd deildarinnar tilnefna stúdentinum leiðbeinanda á sérsviði stúdents og í samráði við hann. Stúdentinn gerir áætlun um almennan hluta doktorsnáms í samráði við leiðbeinanda, samkvæmt nánari námsskipunarreglum sem deildin setur fyrir hverja grein. Námsáætlun skal staðfest af framhaldsnámsnefnd og námsframvinda staðfest með mati sem nefndin viðurkennir og með árangri sem hún metur fullnægjandi.

Stúdent í doktorsnámi velur sér rannsóknarverkefni í samráði við leiðbeinanda sinn og gerir áætlun um hvernig að verkinu skuli staðið. Áætlunin skal lögð fyrir framhaldsnámsnefnd deildarinnar til samþykktar. Staðfesti nefndin áætlunina hefst rannsóknarvinna undir leiðsögn leiðbeinanda. Doktorsefnið lýkur rannsóknum sínum með því að semja eina heildstæða doktorsritgerð undir leiðsögn leiðbeinanda. Ritgerðin skal dæmd og varin samkvæmt reglum háskólans um doktorsritgerðir og doktorsvarnir.

Deildin setur að öðru leyti nánari reglur um doktorsnám sem háskólaráð staðfestir, sbr. 5. mgr.

110. gr.

Námsframvinda, námsmat og hámarksnámstími.

Kennslu til BA-prófs við deild erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda skal haga þannig, að stúdent sé unnt að ljúka námi á þremur árum. Hámarksnámstími til þess að ljúka BA-prófi er átta kennslumisseri (fjögur ár) frá því er stúdent var skrásettur í deildina. Eðlileg námsframvinda miðast þó við að stúdent ljúki á hverju háskólaári að lágmarki ¾ af skilgreindum einingafjölda í fullu námi skv. 53. gr. Deildinni er heimilt að setja frekari skilyrði um námsframvindu í einstökum greinum.

Kennslu til M.Paed.-prófs og MA-prófs skal haga þannig að stúdent í fullu námi geti lokið námi á tveimur árum að loknu BA-prófi. Stúdent í fullu námi til meistaraprófs skal hafa lokið prófi eigi síðar en þremur árum eftir skráningu í námið. Stúdent í hlutanámi skal á hverju háskólaári ljúka a.m.k. helmingi af skilgreindum einingafjölda í fullu námi skv. 53. gr. og skal hafa lokið prófi eigi síðar en fjórum árum eftir skráningu í námið.

Deildinni er heimilt að veita stúdent allt að eins árs viðbótarfrest frá ofangreindum tímamörkum 1. og 2. mgr., eða heimila hlé frá námi, ef gildum ástæðum er til að dreifa. Að öðrum kosti fellur niður réttur stúdents til þess að halda áfram námi við deildina ljúki hann ekki námi sínu innan tilgreindra marka. Stúdent getur sótt um endurinnritun og að fá metin þau námskeið sem hann hefur lokið.

Deildin setur reglur um viðurkenningu fyrra náms við endurskráningu stúdenta og umskráningu úr öðrum deildum eða skólum eða milli aðalgreina í deild erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda.

Námsmat felst í skriflegum og/eða munnlegum prófum, æfingavinnu, verkefnum eða ritgerðum. Ef prófþættir í námskeiði eru tveir eða fleiri er námsbraut heimilt, að tillögu kennara, að ákveða að stúdent teljist ekki hafa staðist próf nema hann hafi í tilteknum prófþáttum náð lágmarkseinkunn námskeiðsins í heild. Slík ákvörðun skal tilkynnt eigi síðar en í upphafi námskeiðs.

Lágmarkseinkunn í kennslugreinum deildar erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda er 5,0. Deildinni er heimilt að ákveða hærri lágmarkseinkunn í einstökum greinum. Til þess að brautskrást frá deild erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda þarf stúdent að ná meðaleinkunninni 6,0.

Til að brautskrást með prófgráðu frá deild erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda þarf að ljúka a.m.k. helmingi námseininga á vegum deildarinnar.

GUÐFRÆÐI- OG TRÚARBRAGÐAFRÆÐIDEILD.

111. gr.

Kennslugreinar, prófgráður og námseiningar.

Guðfræði- og trúarbragðafræðideild veitir kennslu sem hér segir:

Til BA-prófs í guðfræði.

Til BA-prófs í almennum trúarbragðafræðum.

Til BA-prófs í guðfræði djákna.

Til meistaraprófs sem er annað hvort embættispróf í guðfræði, Mag.theol., óstarfstengt rannsóknarnám í guðfræði og almennum trúarbragðafræðum, MA, eða nám til kennsluréttinda, M.Paed.

Til doktorsprófs í guðfræði á fræðasviðum þar sem deildin metur að nauðsynleg aðstaða og sérþekking sé fyrir hendi.

Deildin setur sér nánari reglur um nám til meistara- og doktorsprófs sem háskólaráð staðfestir, sbr. 66.-69. gr. þessara reglna.

Auk þess er deildinni heimilt að bjóða upp á djáknanám sem viðbótarnám að loknu grunnnámi, BA eða BS.

Auk kennslu stendur deildin fyrir rannsóknum á fræðasviðum deildarinnar.

Fræðasvið í guðfræði- og trúarbragðafræðideild eru þessi: Gamlatestamentisfræði, nýjatestamentisfræði, trúfræði, guðfræðileg siðfræði, kirkjusaga, almenn trúarbragðafræði og kennimannleg guðfræði.

Deildin ákvarðar kennslugreinar og skiptingu þeirra í námskeið og um vægi þeirra.

Deildinni er heimilt að kveða á um lágmarksundirbúning til þátttöku í tilteknum námskeiðum. Deildin setur sér reglur um samstarfshópa kennara til þess að velja viðfangsefni og skipuleggja námsvinnu í hinum ýmsu greinum.

Guðfræði- og trúarbragðafræðideild er heimilt að áskilja að stúdentar á námsleiðum til embættisprófs og djáknaprófs stundi verklegt nám við stofnanir þjóðkirkjunnar eða annarra trúfélaga eftir því sem við á, sem og við heilbrigðisstofnanir. Um verklegt nám í guðfræði- og trúarbragðafræðideild gilda nánari reglur sem deildin setur.

Til BA-prófs er krafist minnst 180 eininga. Á fyrsta námsári skulu allir stúdentar ljúka sameiginlegum kjarna sem er inngangur að öllum fræðasviðum guðfræðinnar. Að loknu námi í kjarna geta stúdentar valið á milli náms til BA-prófs í guðfræði, náms til BA-prófs í almennum trúarbragðafræðum og til BA-prófs djákna.

Nám til BA-prófs í guðfræði fer eftir námskrá sem deildin setur.

Nám til BA-prófs í almennum trúarbragðafræðum fer fram í samvinnu við aðrar deildir í Háskóla Íslands og lýtur stjórn sérstakrar námsstjórnar.

Nám til BA-prófs djákna fer eftir námskrá sem deildin setur.

Hafi stúdent lokið minnst 120 einingum í guðfræði af þeim 180 einingum, sem krafist er til BA-prófs og jafnframt 60 einingum til viðbótar í annarri grein með samþykki deildarinnar, má brautskrá hann með BA-próf úr guðfræði- og trúarbragðafræðideild.

Sá sem lokið hefur háskólaprófi á sviðum uppeldis- og kennslufræða, hjúkrunarfræði, sálarfræði eða félagsráðgjafar getur innritast í djáknanám til 60 eininga. Um fyrirkomulag þess fer eftir námskrá sem deildin setur. Guðfræði- og trúarbragðafræðideild veitir sérstakt prófskírteini að þessu námi loknu. Heimilt er að hafa samvinnu við aðrar deildir Háskóla Íslands, aðra háskóla og íslensku þjóðkirkjuna um einstaka þætti djáknanáms, hvort sem er til 60 eininga viðbótarnáms á framhaldsstigi eða 180 eininga BA–prófs djákna.

Til meistaraprófs í guðfræði- og trúarbragðafræðideild er krafist minnst 120 eininga að loknu BA prófi.

Að loknu BA-prófi í guðfræði getur stúdent valið nám til embættisprófs í guðfræði, Mag. theol., ef samsetning námsins er samkvæmt námskrá deildarinnar þar um, til MA-prófs í guðfræði og almennum trúarbragðafræðum eða nám til kennsluréttinda, M.Paed.

Uppfylli stúdent ekki ofangreind skilyrði getur hann þó sótt um að hefja nám til meistaraprófs við deildina, hafi hann áður lokið hliðstæðu háskólaprófi og uppfyllt þær kröfur sem deildin setur.

Stúdent sem hefur lokið meistaraprófi frá guðfræði- og trúarbragðafræðideild með fyrstu einkunn getur sótt um aðgang að doktorsnámi í deildinni. Stúdent sem hefur lokið meistaraprófi eða öðru samsvarandi prófi frá annarri deild Háskóla Íslands eða öðrum háskóla, sem deildin viðurkennir, með jafngildi fyrstu einkunnar, getur sótt um aðgang að doktorsnámi við guðfræði- og trúarbragðafræðideild. Þá skal menntun hans metin með tilliti til aðalgreinar við doktorsnám og honum gerðar frekari námskröfur en þeim stúdentum sem hafa lokið meistaraprófi frá deildinni.

Til doktorsprófs er að jafnaði krafist minnst 240 eininga að loknu meistaraprófi. Doktorsnámið er skipulagt sem fjögurra ára nám, en unnt er að ljúka því á skemmri tíma sé það stundað sem full vinna allt árið. Stúdent í doktorsnámi skal velja sér leiðbeinanda á sérsviði sínu og sækja sérhæfð námskeið samkvæmt nánari námsskipunarreglum sem deildin setur fyrir hverja grein. Námsáætlun skal samin í samráði við leiðbeinanda og staðfest af deildinni. Námsárangur skal staðfestur með mati sem deildin viðurkennir og með árangri sem hún metur fullnægjandi.

Stúdent í doktorsnámi velur sér rannsóknarverkefni í samráði við leiðbeinanda sinn og gerir áætlun um hvernig að verkinu skuli staðið. Áætlunin skal lögð fyrir deildina til samþykktar. Staðfesti deildin áætlunina hefst rannsóknarvinna undir leiðsögn leiðbeinanda. Doktorsefnið lýkur rannsóknum sínum með því að semja eina heildstæða doktorsritgerð undir leiðsögn leiðbeinanda. Aðalleiðbeinanda er ekki heimilt að sitja í dómnefnd um ritgerðina. Ritgerðin skal dæmd og varin samkvæmt reglum háskólans um doktorsritgerðir og doktorsvarnir.

Deildin setur að öðru leyti nánari reglur um doktorsnám sem háskólaráð staðfestir, sbr. 5. mgr.

112. gr.

Námsframvinda, námsmat og hámarksnámstími.

Kennslu til BA-prófs við guðfræði- og trúarbragðafræðideild skal haga þannig, að stúdent sé unnt að ljúka námi á þremur árum. Hámarksnámstími til þess að ljúka BA-prófi er átta kennslumisseri (fjögur ár) frá því er stúdent var skrásettur í deildina. Eðlileg námsframvinda miðast þó við að stúdent ljúki á hverju háskólaári að lágmarki ¾ af skilgreindum einingafjölda í fullu námi skv. 53. gr. Deildinni er heimilt að setja frekari skilyrði um námsframvindu í einstökum greinum.

Kennslu til meistaraprófs skal haga þannig að stúdent í fullu námi geti lokið námi á tveimur árum að loknu BA-prófi. Stúdent í fullu námi til meistaraprófs skal hafa lokið prófi eigi síðar en þremur árum eftir skráningu í námið. Stúdent í hlutanámi skal á hverju háskólaári ljúka a.m.k. helmingi af skilgreindum einingafjölda í fullu námi skv. 55. gr. og skal hafa lokið prófi eigi síðar en fjórum árum eftir skráningu í námið.

Deildinni er heimilt að veita nemendum allt að eins árs viðbótarfrest frá ofangreindum tímamörkum 1. og 2. mgr., eða heimila hlé frá námi, ef gildum ástæðum er til að dreifa. Að öðrum kosti fellur niður réttur nemandans til þess að halda áfram námi við deildina ljúki hann ekki námi sínu innan tilgreindra marka. Nemandinn getur sótt um endurinnritun og að fá metin þau námskeið sem hann hefur lokið.

Námsmat felst í skriflegum og/eða munnlegum prófum, æfingavinnu, verkefnum eða ritgerðum. Ef prófþættir í námskeiði eru tveir eða fleiri er kennara heimilt, að fengnu samþykki deildarinnar, að ákveða að stúdent teljist ekki hafa staðist próf nema hann hafi í tilteknum prófþáttum náð lágmarkseinkunn námskeiðsins í heild. Slík ákvörðun skal tilkynnt í upphafi námskeiðs. Lokafrestur til að skila ritgerðum og verkefnum er síðasta kennsluvika misseris nema annað sé tekið fram í námsáætlun.

Árangur stúdents í verklegu námi er metinn af þeim kennara, sem kennsluna annast. Kennari skilar skriflegum vitnisburði til nemendaskrár háskólans og fylgir hann útskriftarskírteini. Gefnar eru fjórar einkunnir: ágætt, gott, viðunandi og óviðunandi. Sá sem fær einkunnina óviðunandi telst ekki hafa lokið verklega náminu. Einkunnir fyrir verklegt nám reiknast ekki með til lokaeinkunnar.

Um lokaritgerð/verkefni fer eftir reglum sem guðfræðideild setur.

Deildin setur reglur um viðurkenningu fyrra náms við endurskráningu stúdenta og umskráningu úr öðrum deildum.

Ekki er hægt að brautskrást með prófgráðu frá deildinni nema viðkomandi hafi lokið a.m.k. helmingi námseininga á vegum deildarinnar.

ÍSLENSKU- OG MENNINGARDEILD.

113. gr.

Kennslugreinar, prófgráður og námseiningar.

Íslensku- og menningardeild veitir kennslu sem hér segir:

Til BA-prófs: Almenn bókmenntafræði, almenn málvísindi, íslenska, íslenska fyrir erlenda stúdenta, kvikmyndafræði, listfræði, ritlist og táknmálsfræði. Auk þess er heimilt að taka upp kennslu í aukagreinum eftir nánari ákvörðun deildar.

Til M.Paed.-prófs: Íslenska.

Til MA-prófs: Almenn bókmenntafræði, almenn málvísindi, hagnýt ritstjórn og útgáfa, íslenskar bókmenntir, íslensk málfræði, íslensk fræði, íslensk miðaldafræði (Medieval Icelandic Studies), máltækni og þýðingafræði.

Til doktorsprófs: Á fagsviðum þar sem deild metur að nauðsynleg aðstaða og sérþekking sé fyrir hendi.

Deildin setur nánari reglur um nám til meistara- og doktorsprófs, samkvæmt reglum þessum, sem háskólaráð staðfestir, sbr. 66.-69. gr. þessara reglna.

Íslensku- og menningardeild er skipað í eftirtaldar námsbrautir, sbr. ákvæði 21. gr. þessara reglna: íslenska, íslenska fyrir erlenda stúdenta, menningargreinar.

Auk kennslu stendur deildin fyrir rannsóknum á fræðasviðum deildarinnar.

Deildin tekur nánari ákvarðanir um skiptingu kennslugreina í námskeið og um vægi þeirra í námseiningum, í hvaða röð námskeið skulu tekin og hver þeirra séu skyldunámskeið. Ef sérstakir erfiðleikar eru á kennslu í einhverri kennslugrein getur deildin ákveðið að hún skuli ekki kennd.

Deildinni er heimilt að skipuleggja stuttar hagnýtar námsleiðir í grunnnámi, sbr. ákvæði 55. gr. reglna þessara. Deildinni er enn fremur heimilt að gefa kost á viðbótarnámi að loknu fullgildu háskólanámi. Auk kennslu til þeirra prófa sem að framan eru talin er deildinni heimilt að skipuleggja ýmsar námsleiðir innan deildar eða í samvinnu við aðrar deildir.

Til BA-prófs er krafist minnst 180 eininga. Stúdent velur sér aðalgrein úr kennslugreinum þeim sem upp eru taldar í 2. mgr. og tekur í henni minnst 120 einingar. Til viðbótar tekur hann annaðhvort 60 einingar í aðalgrein sinni eða 60 einingar í aukagrein sem valin er úr kennslugreinum á hugvísindasviði. Minnst 10 einingar skulu felast í samningu lokaverkefnis. Stúdent er einnig heimilt að ljúka BA-prófi í tveimur aðalgreinum með því að taka a.m.k. 120 einingar, þ.m.t. lokaverkefni, í hvorri grein. Stúdent er heimilt með samþykki deildar að sækja aukagrein eða einstök námskeið til annarra deilda.

Að loknu BA-prófi getur stúdent sótt um að hefja nám til meistaraprófs, MA eða M.Paed., í þeirri grein sem var aðalgrein hans til BA-prófs. Áskilið er að hann hafi lokið BA-prófi með fyrstu einkunn. Heimilt er að veita undanþágu frá kröfum um lágmarkseinkunn ef sérstök rök mæla með því. Uppfylli stúdent ekki ofangreind skilyrði getur hann þó sótt um að hefja nám til meistaraprófs við deildina, hafi hann áður lokið hliðstæðu háskólaprófi og uppfyllt þær kröfur sem deildin setur. Nánar er kveðið á um þetta í námsskipunarreglum einstakra námsleiða deildarinnar.

Til meistaraprófs er að jafnaði krafist minnst 120 eininga. Lokaverkefni skal vega minnst 30 einingar en mest 60. Viðfangsefni þess velur stúdent í samræmi við reglur deildar. Nánari leiðbeiningar um hlutfall námskeiða í greininni af heildarnámi, sem og um vægi ritgerða og einstakra námskeiða skal setja í námsskipunarreglum sem deildin samþykkir fyrir hverja námsleið.

Deildin setur að öðru leyti nánari reglur um meistaranám sem háskólaráð staðfestir, sbr. 6. mgr. Heimilt er í þeim reglum að kveða á um námsleiðir sem deildin stendur sameiginlega að með öðrum deildum eða háskólum, og námsleiðir þar sem krafist er minnst 90 eininga til meistaraprófs. Standi deildin sameiginlega að slíkum námsleiðum með öðrum deildum eða háskólum er jafnframt heimilt að fela fagráði eða námsstjórn að fara sameiginlega með það hlutverk sem deildin annars hefur með höndum. Heimilt er að taka upp diplómanám á meistarastigi (til 30 eða 60 eininga). Slíkt nám má meta inn í meistaranám skv. nánari ákvæðum í námsskipunarreglum.

Stúdent sem hefur lokið MA-prófi frá íslensku- og menningardeild með fyrstu einkunn getur sótt um aðgang að doktorsnámi í deildinni. Stúdent sem hefur lokið meistaraprófi eða öðru samsvarandi prófi frá annarri deild Háskóla Íslands eða öðrum háskóla sem deildin viðurkennir, með jafngildi fyrstu einkunnar, getur sótt um aðgang að doktorsnámi við íslensku- og menningardeild. Þá skal menntun hans metin með tilliti til aðalgreinar í doktorsnámi og honum gerðar námskröfur sem tryggi að undirbúningur hans sé nægjanlegur til að stunda doktorsnám á því sviði sem hann sækir um.

Til doktorsprófs er að jafnaði krafist minnst 240 eininga að loknu meistaraprófi. Doktorsnámið er skipulagt sem fjögurra ára nám, en unnt er að ljúka því á skemmri tíma sé það stundað sem full vinna allt árið. Í upphafi doktorsnáms skal rannsóknarnámsnefnd deildarinnar tilnefna stúdentinum leiðbeinanda á sérsviði stúdents og í samráði við hann. Stúdentinn gerir áætlun um almennan hluta doktorsnáms í samráði við leiðbeinanda, samkvæmt nánari námsskipunarreglum sem deildin setur fyrir hverja grein. Námsáætlun skal staðfest af rannsóknarnámsnefnd og námsframvinda staðfest með mati sem nefndin viðurkennir og með árangri sem hún metur fullnægjandi.

Stúdent í doktorsnámi velur sér rannsóknarverkefni í samráði við leiðbeinanda sinn og gerir áætlun um hvernig að verkinu skuli staðið. Áætlunin skal lögð fyrir rannsóknarnámsnefnd deildarinnar til samþykktar. Staðfesti nefndin áætlunina hefst rannsóknarvinna undir leiðsögn leiðbeinanda. Doktorsefnið lýkur rannsóknum sínum með því að semja eina heildstæða doktorsritgerð undir leiðsögn leiðbeinanda. Ritgerðin skal dæmd og varin samkvæmt reglum háskólans um doktorsritgerðir og doktorsvarnir.

Deildin setur að öðru leyti nánari reglur um doktorsnám sem háskólaráð staðfestir, sbr. 6. mgr.

114. gr.

Námsframvinda, námsmat og hámarksnámstími.

Kennslu til BA-prófs við íslensku- og menningardeild skal haga þannig, að stúdent sé unnt að ljúka námi á þremur árum. Hámarksnámstími til þess að ljúka BA-prófi er átta kennslumisseri (fjögur ár) frá því er stúdent var skrásettur í deildina. Eðlileg námsframvinda miðast þó við að stúdent ljúki á hverju háskólaári að lágmarki ¾ af skilgreindum einingafjölda í fullu námi skv. 55. gr. Deildinni er heimilt að setja frekari skilyrði um námsframvindu í einstökum greinum.

Kennslu til M.Paed.-prófs og MA-prófs skal haga þannig að stúdent í fullu námi geti lokið námi á tveimur árum að loknu BA-prófi. Stúdent í fullu námi til meistaraprófs skal hafa lokið prófi eigi síðar en þremur árum eftir skráningu í námið. Stúdent í hlutanámi skal á hverju háskólaári ljúka a.m.k. helmingi af skilgreindum einingafjölda í fullu námi skv. 53. gr. og skal hafa lokið prófi eigi síðar en fjórum árum eftir skráningu í námið.

Deildinni er heimilt að veita stúdent allt að eins árs viðbótarfrest frá ofangreindum tímamörkum 1. og 2. mgr., eða heimila hlé frá námi, ef gildum ástæðum er til að dreifa. Að öðrum kosti fellur niður réttur stúdents til þess að halda áfram námi við deildina ljúki hann ekki námi sínu innan tilgreindra marka. Stúdent getur sótt um endurinnritun og að fá metin þau námskeið sem hann hefur lokið.

Deildin setur reglur um viðurkenningu fyrra náms við endurskráningu stúdenta og umskráningu úr öðrum deildum eða skólum eða milli aðalgreina í íslensku- og menningardeild.

Námsmat felst í skriflegum og/eða munnlegum prófum, æfingavinnu, verkefnum eða ritgerðum. Ef prófþættir í námskeiði eru tveir eða fleiri er kennara heimilt, að fengnu samþykki deildarinnar, að ákveða að stúdent teljist ekki hafa staðist próf nema hann hafi í tilteknum prófþáttum náð lágmarkseinkunn námskeiðsins í heild. Slík ákvörðun skal tilkynnt í upphafi námskeiðs.

Lágmarkseinkunn í kennslugreinum íslensku- og menningardeildar er 5,0. Deildinni er heimilt að ákveða hærri lágmarkseinkunn í einstökum greinum. Til þess að brautskrást frá íslensku- og menningardeild þarf stúdent að ná meðaleinkunninni 6,0.

Til að brautskrást með prófgráðu frá íslensku- og menningardeild þarf að ljúka a.m.k. helmingi námseininga á vegum deildarinnar.

SAGNFRÆÐI- OG HEIMSPEKIDEILD.

115. gr.

Kennslugreinar, prófgráður og námseiningar.

Sagnfræði- og heimspekideild veitir kennslu sem hér segir:

Til BA-prófs: Fornleifafræði, heimspeki og sagnfræði. Auk þess er heimilt að taka upp kennslu í aukagreinum eftir nánari ákvörðun deildar.

Til M.Paed.-prófs: Heimspeki og sagnfræði.

Til MA-prófs: Fornleifafræði, heimspeki, sagnfræði, hagnýt menningarmiðlun og hagnýt siðfræði (heilbrigðis- og lífsiðfræði, starfstengd siðfræði, umhverfis- og náttúrusiðfræði og viðskiptasiðfræði).

Til doktorsprófs: Á fagsviðum þar sem deild metur að nauðsynleg aðstaða og sérþekking sé fyrir hendi.

Deildin setur nánari reglur um nám til meistara- og doktorsprófs, samkvæmt reglum þessum, sem háskólaráð staðfestir, sbr. 66.-69. gr. þessara reglna.

Sagnfræði- og heimspekideild er skipað í þrjár námsbrautir, sbr. ákvæði 21. gr. þessara reglna, námsbraut í fornleifafræði, námsbraut í heimspeki og námsbraut í sagnfræði.

Auk kennslu stendur deildin fyrir rannsóknum á fræðasviðum deildarinnar.

Deildin tekur nánari ákvarðanir um skiptingu kennslugreina í námskeið og um vægi þeirra í námseiningum, í hvaða röð námskeið skulu tekin og hver þeirra séu skyldunámskeið. Ef sérstakir erfiðleikar eru á kennslu í einhverri kennslugrein getur deildin ákveðið að hún skuli ekki kennd.

Deildinni er heimilt að skipuleggja stuttar hagnýtar námsleiðir í grunnnámi, sbr. ákvæði 55. gr. reglna þessara. Deildinni er enn fremur heimilt að gefa kost á viðbótarnámi að loknu fullgildu háskólanámi. Auk kennslu til þeirra prófa sem að framan eru talin er deildinni heimilt að skipuleggja ýmsar námsleiðir innan deildarinnar eða í samvinnu við aðrar deildir.

Til BA-prófs er krafist minnst 180 eininga. Stúdent velur sér aðalgrein úr kennslugreinum þeim sem upp eru taldar í 2. mgr. og tekur í henni minnst 120 einingar. Til viðbótar tekur hann annaðhvort 60 einingar í aðalgrein sinni eða 60 einingar í aukagrein sem valin er úr kennslugreinum á hugvísindasviði. Minnst 10 einingar skulu felast í samningu lokaverkefnis. Stúdent er einnig heimilt að ljúka BA-prófi í tveimur aðalgreinum með því að taka a.m.k. 120 einingar, þ.m.t. lokaverkefni, í hvorri grein. Stúdent er heimilt með samþykki deildar að sækja aukagrein eða einstök námskeið til annarra deilda.

Að loknu BA-prófi getur stúdent sótt um að hefja nám til meistaraprófs, MA eða M.Paed., í þeirri grein sem var aðalgrein hans til BA-prófs. Áskilið er að hann hafi lokið BA-prófi með fyrstu einkunn. Heimilt er að veita undanþágu frá kröfum um lágmarkseinkunn ef sérstök rök mæla með því. Uppfylli stúdent ekki ofangreind skilyrði getur hann þó sótt um að hefja nám til meistaraprófs við deildina, hafi hann áður lokið hliðstæðu háskólaprófi og uppfyllt þær kröfur sem deildin setur. Nánar er kveðið á um þetta í námsskipunarreglum einstakra námsleiða deildarinnar.

Til meistaraprófs er að jafnaði krafist minnst 120 eininga. MA-verkefni skal vega minnst 30 einingar en mest 60. MA-verkefni velur stúdent í samræmi við reglur deildar. Nánari leiðbeiningar um hlutfall námskeiða í greininni af heildarnámi, sem og um vægi ritgerða og einstakra námskeiða skal setja í námsskipunarreglum sem deildin samþykkir fyrir hverja námsleið.

Deildin setur að öðru leyti nánari reglur um meistaranám sem háskólaráð staðfestir, sbr. 5. mgr. Heimilt er í þeim reglum að kveða á um námsleiðir sem deildin stendur sameiginlega að með öðrum deildum eða háskólum, og námsleiðir þar sem krafist er minnst 90 eininga til meistaraprófs. Standi deildin sameiginlega að slíkum námsleiðum með öðrum deildum eða háskólum er jafnframt heimilt að fela fagráði eða námsstjórn að fara sameiginlega með það hlutverk sem deildin annars hefur með höndum. Heimilt er að taka upp diplómanám á meistarastigi (til 30 eða 60 eininga). Slíkt nám má meta inn í meistaranám skv. nánari ákvæðum í námsskipunarreglum.

Stúdent sem hefur lokið MA-prófi frá sagnfræði- og heimspekideild með fyrstu einkunn getur sótt um aðgang að doktorsnámi í deildinni. Stúdent sem hefur lokið meistaraprófi eða öðru samsvarandi prófi frá annarri deild Háskóla Íslands eða öðrum háskóla sem deildin viðurkennir, með jafngildi fyrstu einkunnar, getur sótt um aðgang að doktorsnámi við sagnfræði- og heimspekideild. Þá skal menntun hans metin með tilliti til aðalgreinar í doktorsnámi og honum gerðar námskröfur sem tryggi að undirbúningur hans sé nægjanlegur til að stunda doktorsnám á því sviði sem hann sækir um.

Til doktorsprófs er krafist minnst 180 eininga að loknu meistaraprófi. Heimilt er að skipuleggja doktorsnám til allt að 240 eininga að loknu meistaraprófi séu til þess faglegar forsendur. Í upphafi doktorsnáms skal framhaldsnámsnefnd deildarinnar tilnefna stúdentinum leiðbeinanda á sérsviði stúdents og í samráði við hann. Stúdentinn gerir áætlun um almennan hluta doktorsnáms í samráði við leiðbeinanda, samkvæmt nánari námsskipunarreglum sem deildin setur fyrir hverja grein. Námsáætlun skal staðfest af framhaldsnámsnefnd og námsframvinda staðfest með mati sem nefndin viðurkennir og með árangri sem hún metur fullnægjandi.

Stúdent í doktorsnámi velur sér rannsóknarverkefni í samráði við leiðbeinanda sinn og gerir áætlun um hvernig að verkinu skuli staðið. Áætlunin skal lögð fyrir framhaldsnámsnefnd deildarinnar til samþykktar. Staðfesti nefndin áætlunina hefst rannsóknarvinna undir leiðsögn leiðbeinanda. Doktorsefnið lýkur rannsóknum sínum með því að semja eina heildstæða doktorsritgerð undir leiðsögn leiðbeinanda. Ritgerðin skal dæmd og varin samkvæmt reglum háskólans um doktorsritgerðir og doktorsvarnir.

Deildin setur að öðru leyti nánari reglur um doktorsnám sem háskólaráð staðfestir, sbr. 5. mgr.

116. gr.

Námsframvinda, námsmat og hámarksnámstími.

Kennslu til BA-prófs við sagnfræði- og heimspekideild skal haga þannig, að stúdent sé unnt að ljúka námi á þremur árum. Hámarksnámstími til þess að ljúka BA-prófi er átta kennslumisseri (fjögur ár) frá því er stúdent var skrásettur í deildina. Eðlileg námsframvinda miðast þó við að stúdent ljúki á hverju háskólaári að lágmarki ¾ af skilgreindum einingafjölda í fullu námi skv. 53. gr. Deildinni er heimilt að setja frekari skilyrði um námsframvindu í einstökum greinum.

Kennslu til M.Paed.-prófs og MA-prófs skal haga þannig að stúdent í fullu námi geti lokið námi á tveimur árum að loknu BA-prófi. Stúdent í fullu námi til meistaraprófs skal hafa lokið prófi eigi síðar en þremur árum eftir skráningu í námið. Stúdent í hlutanámi skal á hverju háskólaári ljúka a.m.k. helmingi af skilgreindum einingafjölda í fullu námi skv. 53. gr. og skal hafa lokið prófi eigi síðar en fjórum árum eftir skráningu í námið.

Deildinni er heimilt að veita stúdent allt að eins árs viðbótarfrest frá ofangreindum tímamörkum 1. og 2. mgr., eða heimila hlé frá námi, ef gildum ástæðum er til að dreifa. Að öðrum kosti fellur niður réttur stúdents til þess að halda áfram námi við deildina ljúki hann ekki námi sínu innan tilgreindra marka. Stúdent getur sótt um endurinnritun og að fá metin þau námskeið sem hann hefur lokið.

Deildin setur reglur um viðurkenningu fyrra náms við endurskráningu stúdenta og umskráningu úr öðrum deildum eða skólum eða milli aðalgreina í sagnfræði- og heimspekideild.

Námsmat felst í skriflegum og/eða munnlegum prófum, æfingavinnu, verkefnum eða ritgerðum. Ef prófþættir í námskeiði eru tveir eða fleiri er námsbraut heimilt, að tillögu kennara, að ákveða að stúdent teljist ekki hafa staðist próf nema hann hafi í tilteknum prófþáttum náð lágmarkseinkunn námskeiðsins í heild. Slík ákvörðun skal tilkynnt eigi síðar en í upphafi námskeiðs.

Lágmarkseinkunn í kennslugreinum sagnfræði- og heimspekideildar er 5,0. Deildinni er heimilt að ákveða hærri lágmarkseinkunn í einstökum greinum. Til þess að brautskrást frá sagnfræði- og heimspekideild þarf stúdent að ná meðaleinkunninni 6,0.

Til að brautskrást með prófgráðu frá sagnfræði- og heimspekideild þarf að ljúka a.m.k. helmingi námseininga á vegum deildarinnar.

XIII. KAFLI

Menntavísindasvið.

Deildir menntavísindasviðs eru íþrótta-, tómstunda- og þroskaþjálfadeild, kennaradeild og uppeldis- og menntunarfræðideild.

Deildirnar skulu hafa með sér náið samstarf til að nýta sem best mannafla, fjármuni, aðstöðu, tæki og búnað í þágu fjölbreyttrar menntunar og rannsókna.

Menntavísindasvið og deildir þess skulu enn fremur stuðla að nánu samstarfi við sameiginlega stjórnsýslu háskólans, önnur fræðasvið háskólans og deildir.

Um stjórn fræðasviða og deilda og önnur atriði sem lúta sömu reglum fer eftir ákvæðum II. kafla þessara reglna. Um inntökuskilyrði í einstakar deildir og námsleiðir fer eftir reglum sem háskólaráð setur, sbr. 47. gr. þessara reglna. Háskólaráð setur jafnframt sérstakar reglur um háskólastofnanir og um meistara- og doktorsnám í hverri deild.

Skipulag náms og rannsókna á menntavísindasviði tekur auk þess mið af þörfum viðkomandi greinar eða námsleiðar. Til þess að mæta þeim er hlutum námsins skipað á milli deilda fræðasviðsins og kennurum vísað til starfa sbr. 17. og 32. gr. Forseti fræðasviðs skipar sérstakar námsstjórnir sem fara með málefni námsins, MA doktorsnámsins, í umboði þeirra deilda sem aðild eiga að því, með sambærilegum hætti og gildir um þverfræðilegt nám, sbr. 53. og 62. gr. Þverfræðilegt nám á sviðinu heyrir undir stjórn fræðasviðsins í samráði við deildir.

Menntavísindasvið skipar doktorsráð til þess að hafa umsjón með doktorsnámi á sviðinu, í samræmi við nánari reglur sem stjórn sviðsins setur.

ÍÞRÓTTA-, TÓMSTUNDA- OG ÞROSKAÞJÁLFADEILD.

117. gr.

Kennslugreinar, prófgráður og námseiningar.

Íþrótta-, tómstunda- og þroskaþjálfadeild veitir kennslu sem hér segir:

Til BA-prófs: Tómstunda- og félagsmálafræði og þroskaþjálfafræði.

Til BS-prófs: Íþrótta- og heilsufræði.

MEd–prófs: Íþrótta- og heilsufræði.

MEd-prófs: Tómstunda- og félagsmálafræði.

MEd-prófs: Þroskaþjálfafræði.

Til MA-prófs: Þroskaþjálfafræði.

Til MS-prófs: Íþrótta- og heilsufræði.

Til doktorsprófs: Á fagsviðum þar sem deild metur að nauðsynleg aðstaða og sérþekking sé fyrir hendi.

Auk kennslu stendur deildin fyrir rannsóknum á fræðasviðum deildarinnar.

Deildin ákvarðar kennslugreinar og skiptingu þeirra í námskeið og um vægi þeirra.

Deildinni er heimilt að skipuleggja stuttar hagnýtar námsleiðir í grunnnámi, sbr. ákvæði 55. gr. reglna þessara. Deildinni er enn fremur heimilt að gefa kost á viðbótarnámi að loknu fullgildu háskólanámi.

Námið við íþrótta-, tómstunda- og þroskaþjálfadeild er ýmist skipulagt sem staðnám, fjarnám eða sveigjanlegt nám sem er samofið staðnámi og fjarnámi og setur deildin nánari reglur um námið og skulu þær koma fram í kennsluskrá. Þar skal kveðið á um markmið, inntak og meginviðfangsefni námsins, að meðtalinni starfsþjálfun á vettvangi þar sem það á við. Einnig skal þar gerð grein fyrir tilhögun náms, kennsluháttum og námsmati.

Heimilt er að skipuleggja þær greinar sem tilgreindar eru sem aðalgreinar, auk annarra greina íþrótta-, tómstunda- og þroskaþjálfafræða, sem aukagreinar samkvæmt nánari ákvörðun deildarinnar.

Framhaldsnám til meistara- og doktorsprófs er skipulagt samkvæmt þessum reglum og nánari reglum sem íþrótta-, tómstunda- og þroskaþjálfadeild setur og háskólaráð staðfestir, sbr. 66. - 69. gr. þessara reglna. Lýsing á náminu skal koma fram í kennsluskrá.

Til BA- og BS-prófs er krafist minnst 180 eininga og er stúdent heimilt að ljúka 120 einingum í aðalgrein og 60 í aukagrein.

Til MEd-prófs er krafist 120 eininga náms að loknu BA- eða BS-prófi í námsleiðum deildarinnar eða skyldum greinum. Slíkt nám má skipuleggja sem rannsóknarnám þar sem lokaverkefni er minnst 30 einingar.

Til MA- og MS-prófs er krafist 120 eininga náms að loknu BA-prófi. Slíkt nám er skipulagt sem rannsóknarnám þar sem lokaverkefni er minnst 30 einingar.

Til doktorsprófs er krafist minnst 180 eininga í samræmi við ákvæði þessara reglna.

Nám í þroskaþjálfafræði er skipulagt með hliðsjón af lögum og reglum um starfsréttindi.

Heimilt er að taka nemendur inn í sérstaklega skipulagt framhalds- og viðbótarnám annað hvert ár.

118. gr.

Námsframvinda, námsmat og hámarksnámstími.

Kennslu til BA- og B.S-prófs skal haga þannig að stúdent geti lokið 180 eininga námi á þremur árum. Hámarksnámstími til þess að ljúka BA- og BS-prófi er átta kennslumisseri frá því er stúdent var skrásettur í viðkomandi aðalgrein. Deildinni er heimilt að veita undanþágu frá þessum tímamörkum, þegar sérstaklega stendur á. Kennslu til meistaraprófs til 120 eininga skal haga þannig að stúdent geti lokið náminu á tveimur árum. Hámarksnámstími til meistaraprófs er sex misseri frá því stúdent var skrásettur í viðkomandi nám. Deildinni er heimilt að veita undanþágu frá þessum tímamörkum, þegar sérstaklega stendur á.

Heimilt er stúdent að sækja nám í aukagrein til annarra deilda, að fengnu samþykki íþrótta-, tómstunda- og þroskaþjálfadeildar og þeirrar deildar sem námið er sótt til.

Námsmat getur byggst á skriflegum, munnlegum eða verklegum prófum, ritgerðum og verkefnum. Heimilt er kennara, með samþykki deildar, að meta starf í kennslustundum sem hluta af námsmati í einstökum námskeiðum. Ef mat á framlagi nemenda í kennslustundum er hluti af námsmati á móti prófi má gera kröfu um 80% mætingarskyldu í þeim tímum sem slíkt mat nær til. Ekki er heimilt að krefjast mætingarskyldu nema framlag í kennslustund sé metið sem hluti af lokaeinkunn og þarf það að koma skýrt fram í kennsluáætlun. Til að standast hvert einstakt námskeið þarf lágmarkseinkunn 5,0. Í námskeiðum þar sem námsmat er bæði byggt á prófum og verkefnum þarf lágmarkseinkunn 5,0 í hvoru tveggja. Ef prófþættir í námskeiði eru tveir eða fleiri er deildinni heimilt, að tillögu kennara, að krefjast þess að tilskilinni lágmarkseinkunn verði náð í hvorum eða hverjum prófþætti. Slík ákvörðun skal tilgreind í kennsluskrá.

Deildin setur reglur um æfingaskyldu í námskeiðum og lágmarksframmistöðu stúdents í æfingum til þess að hann öðlist rétt til próftöku.

Þegar um er að ræða einstaklingsleiðsögn, metur leiðsögukennari lokaverkefni og gefur umsögn. Þegar um hópa er að ræða skipta leiðsögukennarar hvers hóps með sér verkum eða meta lokaverkefni í sameiningu og gefa umsögn um verkefnin. Um mat á lokaverkefnum í meistara- og doktorsnámi gilda sérstakar reglur sem deildin setur og háskólaráð staðfestir, sbr. 66.- 69. gr. þessara reglna.

Fræðasvið menntasvísinda gerir árlega að tillögu íþrótta-, tómstunda- og þroskaþjálfadeildar, ef þörf krefur, rökstuddar tillögur til háskólaráðs um takmörkun á fjölda stúdenta í ákveðnum námskeiðum og kennslugreinum. Reglur sem fylgt er við val stúdenta í þeim tilvikum skulu birtar í kennsluskrá.

Deildin setur reglur um viðurkenningu fyrra náms við endurskráningu stúdenta og umskráningu úr öðrum deildum eða milli aðalgreina í íþrótta-, tómstunda- og þroskaþjálfadeild.

KENNARADEILD.

119. gr.

Kennslugreinar, prófgráður og námseiningar.

Kennaradeild veitir kennslu sem hér segir:

Til BEd-prófs: Grunnskólakennarafræði og leikskólakennarafræði.

Med-prófs: Náms- og kennslufræði.

Til MA-prófs: Náms- og kennslufræði.

Til doktorsprófs: Menntavísindi, Ph.D. og menntavísindi, Ed.D. og á fagsviðum þar sem deild metur að nauðsynleg aðstaða og sérþekking sé fyrir hendi.

Auk kennslu stendur deildin fyrir rannsóknum á fræðasviðum deildarinnar.

Deildin ákvarðar kennslugreinar og skiptingu þeirra í námskeið og um vægi þeirra.

Deildinni er heimilt að skipuleggja stuttar námsleiðir í grunnnámi, sbr. ákvæði 55. gr. reglna þessara. Deildinni er enn fremur heimilt að gefa kost á viðbótarnámi að loknu fullgildu háskólanámi.

Námið við kennaradeild er ýmist skipulagt sem staðnám, fjarnám eða sveigjanlegt nám sem er samofið staðnámi og fjarnámi og setur deildin nánari reglur um námið og skulu þær koma fram í kennsluskrá. Þar skal kveðið á um um markmið, inntak og meginviðfangsefni námsins, þar er með talin starfsþjálfun á vettvangi þar sem það á við. Þar skal og gerð grein fyrir tilhögun náms, kennsluháttum og námsmati.

Heimilt er að skipuleggja þær greinar sem tilgreindar eru sem aðalgreinar, auk annarra greina kennaradeildar, sem aukagreinar samkvæmt nánari ákvörðun deildarinnar.

Til BEd-prófs er krafist minnst 180 eininga.

Til MEd-prófs er krafist 120 eininga náms að loknu BEd-prófi frá deildinni, eða BA- eða BS-prófi í skyldum greinum. Slíkt nám má skipuleggja sem rannsóknarnám þar sem lokaverkefni er minnst 20 einingar.

Til MA-prófs er krafist 120 eininga náms að loknu BEd-prófi frá deildinni, eða BA- eða BS-prófi í skyldum greinum. Slíkt nám er skipulagt sem rannsóknarnám þar sem lokaverkefni er minnst 40 einingar.

Heimilt er að skilgreina áherslusvið í meistaranámi í náms- og kennslufræði til MA- og MEd-prófa.

Til doktorsprófs í menntavísindum, Ed.D. er krafist minnst 180 eininga og til doktorsprófs í menntavísindum, Ph.D. er krafist 180-240 eininga.

Framhaldsnám til meistaraprófs og doktorsprófs er skipulagt samkvæmt þessum reglum og nánari reglum sem kennaradeild setur og háskólaráð staðfestir, sbr. 66.-69. gr. þessara reglna. Lýsing á náminu skal koma fram í kennsluskrá.

Diplómanám í kennslufræði er sjálfstætt 60 eininga grunnnám.

Diplómanám í kennslufræði á meistarastigi er sjálfstætt 60 eininga nám að loknu BA- eða BS-prófi eða sambærilegu háskólaprófi. Nám þetta er hægt að fá metið inn í meistaranám að uppfylltum inntökuskilyrðum.

Nám í kennaradeild er skipulagt með hliðsjón af lögum og reglum um starfsréttindi.

Heimilt er að taka nemendur inn í sérstaklega skipulagt framhalds- og viðbótarnám annað hvert ár.

120. gr.

Námsframvinda, námsmat og hámarksnámstími.

Kennslu til BA- og BEd-prófs skal haga þannig að stúdent geti lokið 180 eininga námi á þremur árum. Hámarksnámstími til þess að ljúka BA- og BEd-prófi er átta kennslumisseri frá því er stúdent var skrásettur í viðkomandi aðalgrein. Deildinni er heimilt að veita undanþágu frá þessum tímamörkum, þegar sérstaklega stendur á. Kennslu til meistaraprófs til 120 eininga skal haga þannig að stúdent geti lokið náminu á tveimur árum. Hámarksnámstími til meistaraprófs eru sex misseri frá því stúdent var skrásettur í viðkomandi nám. Deildinni er heimilt að veita undanþágu frá þessum tímamörkum, þegar sérstaklega stendur á.

Heimilt er stúdent að sækja nám í aukagrein til annarra deilda, að fengnu samþykki kennaradeildar og þeirrar deildar sem námið er sótt til.

Námsmat getur byggst á skriflegum, munnlegum eða verklegum prófum, ritgerðum og verkefnum. Heimilt er kennara, með samþykki deildar, að meta starf í kennslustundum sem hluta af námsmati í einstökum námskeiðum. Ef mat á framlagi nemenda í kennslustundum er hluti af námsmati á móti prófi má gera kröfu um 80% mætingarskyldu í þeim tímum sem slíkt mat nær til. Ekki er heimilt að krefjast mætingarskyldu nema framlag í kennslustund sé metið sem hluti af lokaeinkunn og þarf það að koma skýrt fram í kennsluáætlun. Til að standast hvert einstakt námskeið þarf lágmarkseinkunn 5,0. Í námskeiðum þar sem námsmat er bæði byggt á prófum og verkefnum þarf lágmarkseinkunn 5,0 í hvoru tveggja. Ef prófþættir í námskeiði eru tveir eða fleiri er deildinni heimilt, að tillögu kennara, að krefjast þess að tilskilinni lágmarkseinkunn verði náð í hvorum eða hverjum prófþætti. Slík ákvörðun skal tilgreind í kennsluskrá.

Deildin setur reglur um æfingaskyldu í námskeiðum og lágmarksframmistöðu stúdents í æfingum til þess að hann öðlist rétt til próftöku.

Þegar um er að ræða einstaklingsleiðsögn, metur leiðsögukennari lokaverkefni og gefur umsögn. Þegar um hópa er að ræða skipta leiðsögukennarar hvers hóps með sér verkum eða meta lokaverkefni í sameiningu og gefa umsögn um verkefnin. Um mat á lokaverkefnum í meistara- og doktorsnámi gilda sérstakar reglur sem deildin setur og háskólaráð staðfestir, sbr. 66.- 69. gr. þessara reglna.

Fræðasvið menntavísinda gerir árlega að tillögu kennaradeildar, ef þörf krefur, rökstuddar tillögur til háskólaráðs um takmörkun á fjölda stúdenta í ákveðnum námskeiðum og kennslugreinum. Reglur sem fylgt er við val stúdenta í þeim tilvikum skulu birtar í kennsluskrá.

Deildin setur reglur um viðurkenningu fyrra náms við endurskráningu stúdenta og umskráningu úr öðrum deildum eða milli aðalgreina í kennaradeild.

UPPELDIS- OG MENNTUNARFRÆÐIDEILD.

121. gr.

Kennslugreinar, prófgráður og námseiningar.

Uppeldis- og menntunarfræðideild veitir kennslu sem hér segir:

Til BA-prófs í uppeldis- og menntunarfræði.

Til BA-prófs í alþjóðlegu námi í menntunarfræði/International Studies in Education.

MEd -prófs í uppeldis- og menntunarfræðum.

Til MA-prófs í uppeldis- og menntunarfræðum.

Til MA-prófs í alþjóðlegu námi í menntunarfræði/International Studies in Education.

Til doktorsprófs: Menntavísindi, Ph.D. og menntavísindi Ed.D. og á fagsviðum þar sem deild metur að nauðsynleg aðstaða og sérþekking sé fyrir hendi.

Lýsing á náminu í deildinni skal koma fram í kennsluskrá háskólans.

Auk kennslu stendur deildin fyrir rannsóknum á fræðasviðum deildarinnar.

Deildin ákvarðar kennslugreinar og skiptingu þeirra í námskeið og um vægi þeirra.

Námið við uppeldis- og menntunarfræðideild er ýmist skipulagt sem staðnám, fjarnám eða sveigjanlegt nám sem er samofið staðnámi og fjarnámi og setur deildin nánari reglur um námið og skulu þær koma fram í kennsluskrá. Þar skal kveðið á um markmið, inntak og meginviðfangsefni námsins, að meðtalinni starfsþjálfun á vettvangi þar sem það á við. Einnig skal þar gerð grein fyrir tilhögun náms, kennsluháttum og námsmati.

Heimilt er að skipuleggja þær greinar sem tilgreindar eru sem aðalgreinar, auk annarra greina uppeldis- og menntunarfræðideildar, sem aukagreinar samkvæmt nánari ákvörðun deildarinnar.

Til BA-prófs er krafist minnst 180 eininga og er stúdent heimilt að ljúka 120 einingum í aðalgrein og 60 í aukagrein.

Til MEd-prófs er krafist 120 eininga náms að loknu BA-prófi frá deildinni eða BA- eða BS-prófi í skyldum greinum. Slíkt nám má skipuleggja sem rannsóknarnám þar sem lokaverkefni er minnst 20 einingar.

Til MA-prófs er krafist 120 eininga náms að loknu BA-prófi frá deildinni eða BA- eða BS-prófi í skyldum greinum. Slíkt nám er skipulagt sem rannsóknarnám þar sem lokaverkefni er minnst 40 einingar.

Heimilt er að skilgreina áherslusvið í meistaranámi í uppeldis- og menntunarfræði til MA- og Med-prófa.

Til doktorsprófs í menntavísindum, Ed.D. er krafist minnst 180 eininga og til doktorsprófs í menntavísindum, Ph.D. er krafist minnst 180-240 eininga.

Framhaldsnám til meistara- og doktorsprófs er skipulagt samkvæmt þessum reglum og nánari reglum sem uppeldis- og menntunarfræðideild setur og háskólaráð staðfestir, sbr. 66.-69. gr. þessara reglna. Lýsing á náminu skal koma fram í kennsluskrá.

Nám í uppeldis- og menntunarfræðideild er skipulagt með hliðsjón af lögum og reglum um starfsréttindi.

Heimilt er að taka nemendur inn í sérskipulagt framhaldsnám annað hvert ár.

122. gr.

Námsframvinda, námsmat og hámarksnámstími.

Kennslu til BA-prófs skal haga þannig að stúdent geti lokið 180 eininga námi á þremur árum. Hámarksnámstími til þess að ljúka BA-prófi er átta kennslumisseri frá því er stúdent var skrásettur í viðkomandi aðalgrein. Deildinni er heimilt að veita undanþágu frá þessum tímamörkum, þegar sérstaklega stendur á. Kennslu til meistaraprófs til 120 eininga skal haga þannig að stúdent geti lokið náminu á tveimur árum. Hámarksnámstími til meistaraprófs eru sex misseri frá því stúdent var skrásettur í viðkomandi nám. Deildinni er heimilt að veita undanþágu frá þessum tímamörkum, þegar sérstaklega stendur á.

Heimilt er stúdent að sækja nám í aukagrein til annarra deilda, að fengnu samþykki uppeldis- og menntunarfræðideildar og þeirrar deildar sem námið er sótt til.

Námsmat getur byggst á skriflegum, munnlegum eða verklegum prófum, ritgerðum og verkefnum. Heimilt er kennara, með samþykki deildar, að meta starf í kennslustundum sem hluta af námsmati í einstökum námskeiðum. Ef mat á framlagi nemenda í kennslustundum er hluti af námsmati á móti prófi má gera kröfu um 80% mætingarskyldu í þeim tímum sem slíkt mat nær til. Ekki er heimilt að krefjast mætingarskyldu nema framlag í kennslustund sé metið sem hluti af lokaeinkunn og þarf það að koma skýrt fram í kennsluáætlun. Til að standast hvert einstakt námskeið þarf lágmarkseinkunn 5,0. Í námskeiðum þar sem námsmat er bæði byggt á prófum og verkefnum þarf lágmarkseinkunn 5,0 í hvoru tveggja. Ef prófþættir í námskeiði eru tveir eða fleiri er deildinni heimilt, að tillögu kennara, að krefjast þess að tilskilinni lágmarkseinkunn verði náð í hvorum eða hverjum prófþætti. Slík ákvörðun skal tilgreind í kennsluskrá.

Deildin setur reglur um æfingaskyldu í námskeiðum og lágmarksframmistöðu stúdents í æfingum til þess að hann öðlist rétt til próftöku.

Þegar um er að ræða einstaklingsleiðsögn, metur leiðsögukennari lokaverkefni og gefur umsögn. Þegar um hópa er að ræða skipta leiðsögukennarar hvers hóps með sér verkum eða meta lokaverkefni í sameiningu og gefa umsögn um verkefnin. Um mat á lokaverkefnum í meistara- og doktorsnámi gilda sérstakar reglur sem deildin setur og háskólaráð staðfestir, sbr. 66.- 69. gr. þessara reglna.

Fræðasvið menntasvísinda gerir árlega að tillögu uppeldis- og menntunarfræðideildar, ef þörf krefur, rökstuddar tillögur til háskólaráðs um takmörkun á fjölda stúdenta í ákveðnum námskeiðum og kennslugreinum. Reglur sem fylgt er við val stúdenta í þeim tilvikum skulu birtar í kennsluskrá.

Deildin setur reglur um viðurkenningu fyrra náms við endurskráningu stúdenta og umskráningu úr öðrum deildum eða milli aðalgreina í uppeldis- og menntunarfræðideild.

XIV. KAFLI

Verkfræði- og náttúruvísindasvið.

Deildir verkfræði- og náttúruvísindasviðs eru iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild, jarðvísindadeild, líf- og umhverfisvísindadeild, rafmagns- og tölvuverkfræðideild, raunvísindadeild og umhverfis- og byggingaverkfræðideild.

Deildirnar skulu hafa með sér náið samstarf til að nýta sem best mannafla, fjármuni, aðstöðu, tæki og búnað í þágu fjölbreyttrar menntunar og rannsókna.

Verkfræði- og náttúruvísindasvið og deildir þess skulu enn fremur stuðla að nánu samstarfi við sameiginlega stjórnsýslu háskólans, önnur fræðasvið háskólans og deildir.

Um stjórn fræðasviða og deilda og önnur atriði sem lúta sömu reglum fer eftir ákvæðum II. kafla þessara reglna. Um inntökuskilyrði í einstakar deildir og námsleiðir fer eftir reglum sem háskólaráð setur, sbr. 47. gr. þessara reglna. Háskólaráð setur jafnframt sérstakar reglur um háskólastofnanir og um meistara- og doktorsnám í hverri deild.

IÐNAÐARVERKFRÆÐI-, VÉLAVERKFRÆÐI- OG TÖLVUNARFRÆÐIDEILD.

123. gr.

Kennslugreinar, prófgráður og námseiningar.

Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild veitir kennslu sem hér segir:

Til BS-prófs í efnaverkfræði, hugbúnaðarverkfræði, iðnaðarverkfræði, tölvunarfræði, vélaverkfræði og véla- og iðnaðarverkfræði.

Til meistaraprófs, MS-prófs, í eftirtöldum greinum verkfræði: Fjármálaverkfræði, hugbúnaðarverkfræði, iðnaðarverkfræði, reikniverkfræði, tölvunarfræði og vélaverkfræði.

Til doktorsprófs, Ph.D.-prófs, í hugbúnaðarverkfræði, iðnaðarverkfræði, tölvunarfræði og vélaverkfræði.

Enn fremur veitir deildin kennslu til meistaraprófs í umhverfis- og auðlindafræði og öðrum þverfræðilegum greinum í samvinnu við aðrar háskóladeildir, þar sem nauðsynleg aðstaða er fyrir hendi.

Lýsing á náminu í deildinni skal koma fram í kennsluskrá háskólans.

Auk kennslu stendur deildin fyrir rannsóknum á fræðasviðum deildarinnar.

Deildin ákvarðar kennslugreinar og skiptingu þeirra í námskeið og um vægi þeirra.

Til BS-prófs er krafist minnst 180 eininga.

Til MS-prófs er krafist 120 eininga náms að loknu BS-prófi frá deildinni. Deildinni er þó heimilt að ákveða að MS-próf í tölvunarfræði sé veitt að loknu 90 eininga námi.

Til doktorsprófs er krafist minnst 180 eininga.

Framhaldsnám til meistara- og doktorsprófs er skipulagt samkvæmt þessum reglum og nánari reglum sem iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild setur og háskólaráð staðfestir, sbr. 66.-69. gr. þessara reglna.

124. gr.

Námsframvinda, námsmat og hámarksnámstími.

Kennslu til BS-prófs skal haga þannig að stúdent geti lokið 180 eininga námi á þremur árum. Hámarksnámstími til þess að ljúka BS-prófi er níu kennslumisseri frá því er stúdent var skrásettur í viðkomandi nám. Deildinni er heimilt að veita undanþágu frá þessum tímamörkum, þegar sérstaklega stendur á. Kennslu til meistaraprófs til 120 eininga skal haga þannig að stúdent geti lokið náminu á tveimur árum. Hámarksnámstími til meistaraprófs er sex misseri frá því stúdent var skrásettur í viðkomandi aðalgrein. Deildinni er heimilt að veita undanþágu frá þessum tímamörkum, þegar sérstaklega stendur á.

Nemandi skráir sig í aðalgrein við upphaf náms. Óski nemandi frávika frá námsskipan þeirri sem gert er ráð fyrir í kennsluskrá skal hann leggja námsáætlun sína fyrir deild til samþykktar. Sama gildir ef hann óskar breytinga á upphaflegri námsáætlun.

Nemanda er ekki heimilt að hefja nám í tilteknu námskeiði iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideildar án þess að hafa lokið prófi í þeim námskeiðum, sem eru tilgreind í kennsluskrá sem nauðsynlegir undanfarar þess. Þó er deildinni heimilt að víkja frá þessari reglu í sérstökum tilvikum.

Deildin getur sett nánari reglur um tímasókn og æfingaskyldu í námskeiðum og lágmarksframmistöðu stúdents í æfingum, til þess að hann öðlist rétt til próftöku.

Nemendur við nám í verkfræði skulu hafa lokið ákveðinni verklegri þjálfun fyrir BS-próf. Verkþjálfunin skal í aðalatriðum vera fólgin í störfum á sviði þeirrar greinar, sem stúdent hyggst leggja stund á, samkvæmt leiðbeiningum í kennsluskrá.

Að jafnaði skal verkþjálfun fara fram á fyrsta til þriðja námsári. Heimilt er þó að viðurkenna störf sem unnin hafa verið eftir að 18 ára aldri er náð, en minnst helmingur verkþjálfunar skal unninn eftir að háskólanámið er hafið. Tímalengd verkþjálfunar skal vera að minnsta kosti 16 vikur.

Deildinni er heimilt að viðurkenna þátttöku í verklegum námskeiðum í stað hluta verkþjálfunar.

Við einkunnagjöf má taka tillit til frammistöðu í prófum og æfingum utan reglulegs próftíma og veita fyrir hana sérstaka einkunn, hlutaeinkunn.

Til að standast próf í námskeiði þarf nemandi í grunnnámi að hljóta eigi lægri próf- og heildareinkunn en 5,0.

Til að standast próf í námskeiði þarf nemandi í í framhaldsnámi að hljóta eigi lægri próf- og heildareinkunn en 6,0.

Hver kennari ákveður vægi hlutaeinkunnar í námskeiði sínu, að teknu tilliti til reglna deildar þar um, og tilkynnir stúdentum í upphafi kennslumisseris.

Nemandi sem ekki hlýtur tilskilda prófeinkunn í námskeiði má endurtaka prófið einu sinni. Aðeins með sérstöku leyfi deildar er þriðja próftaka heimil. Við endurtekningu skal þreyta próf eins og það er haldið fyrir aðra stúdenta hverju sinni nema deildin ákveði annað.

Deildin setur reglur um viðurkenningu fyrra náms við endurskráningu nemenda og umskráningu úr öðrum deildum eða milli aðalgreina í iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild.

125. gr.

MPM-nám.

Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild er heimilt með samþykki háskólaráðs að veita prófgráðuna MPM að loknu 90 eininga endurmenntunarnámi á vegum deildarinnar, enda sé farið eftir ákvæðum 64. gr. um endurmenntun á vegum deilda í þessum reglum.

Við inntöku í MPM-nám skal nemandi hafa lokið háskólagráðu, BA-, BS- eða BEd-prófi eða samsvarandi, og að jafnaði hafa þriggja ára reynslu úr atvinnulífinu.

Deildin setur nánari reglur um inntökuskilyrði, námsleiðir og námskröfur í samþykktum um námið, sem háskólaráð staðfestir.

JARÐVÍSINDADEILD.

126. gr.

Kennslugreinar, prófgráður og námseiningar.

Jarðvísindadeild veitir kennslu og þjálfun sem hér segir:

Til BS-prófs í jarðeðlisfræði og jarðfræði.

Til meistaraprófs, MS-prófs, í jarðeðlisfræði og jarðfræði.

Til doktorsprófs, Ph.D.-prófs, í jarðeðlisfræði og jarðfræði.

Enn fremur veitir deildin kennslu til meistaraprófs í umhverfis- og auðlindafræði og öðrum þverfræðilegum greinum í samvinnu við aðrar háskóladeildir, þar sem nauðsynleg aðstaða er fyrir hendi.

Lýsing á náminu í deildinni skal koma fram í kennsluskrá háskólans.

Auk kennslu stendur deildin fyrir rannsóknum á fræðasviðum deildarinnar.

Deildin tekur ákvarðanir um skiptingu kennslugreina í námskeið, um vægi þeirra og skiptingu þeirra í námsáfanga.

Heimilt er að skipuleggja þær greinar, sem tilgreindar eru sem aðalgreinar, sem aukagreinar samkvæmt nánari ákvörðun deildarinnar. Enn fremur er deildinni heimilt að gefa kost á viðbótarnámi til 60 eininga að loknu BS-prófi, sem viðurkennt er með sérstöku prófskírteini.

Til BS-prófs er krafist minnst 180 eininga.

Til MS-prófs er krafist 120 eininga náms að loknu BS-prófi frá deildinni.

Til doktorsprófs er krafist minnst 180 eininga.

Framhaldsnám til meistara- og doktorsprófs er skipulagt samkvæmt þessum reglum og nánari reglum sem jarðvísindadeild setur og háskólaráð staðfestir, sbr. 66.-69. gr. þessara reglna.

127. gr.

Námsframvinda, námsmat og hámarksnámstími.

Kennslu til BS-prófs skal haga þannig að stúdent geti lokið 180 eininga námi á þremur árum. Hámarksnámstími til þess að ljúka BS-prófi er níu kennslumisseri frá því er stúdent var skrásettur í viðkomandi nám. Deildinni er heimilt að veita undanþágu frá þessum tímamörkum, þegar sérstaklega stendur á. Kennslu til meistaraprófs til 120 eininga skal haga þannig að stúdent geti lokið náminu á tveimur árum. Hámarksnámstími til meistaraprófs er sex misseri frá því stúdent var skrásettur í viðkomandi aðalgrein. Deildinni er heimilt að veita undanþágu frá þessum tímamörkum, þegar sérstaklega stendur á.

Nemandi skráir sig í aðalgrein við upphaf náms. Óski nemandi frávika frá námsskipan þeirri sem gert er ráð fyrir í kennsluskrá skal hann leggja námsáætlun sína fyrir deild til samþykktar. Sama gildir ef hann óskar breytinga á upphaflegri námsáætlun.

Deildinni er heimilt að ákveða að stúdent megi ekki skrá sig í námskeið nema hann hafi áður öðlast rétt til próftöku eða staðist próf í tilteknum námskeiðum.

Deildin setur reglur um æfingaskyldu í námskeiðum og lágmarksframmistöðu stúdents í æfingum til þess að hann öðlist rétt til próftöku.

Halda má æfinganámskeið utan reglulegs kennslutíma.

Til að standast próf í námskeiði þarf nemandi í grunnnámi að hljóta eigi lægri einkunn en 5,0.

Til að standast próf í námskeiði þarf nemandi í framhaldsnámi að hljóta eigi lægri einkunn en 6,0.

Nemandi, sem ekki hlýtur tilskilda lágmarkseinkunn fyrir próf í lok námskeiðs, má endurtaka prófið samkvæmt almennum reglum háskólans. Við endurtekningu skal þreyta próf eins og það er haldið fyrir aðra stúdenta hverju sinni, nema deildin ákveði annað.

Við einkunnagjöf má taka tillit til frammistöðu stúdents í prófum og æfingum utan reglulegs próftíma og veita fyrir hana sérstaka einkunn, hlutaeinkunn. Deildin ákveður að tillögu kennara vægi hlutaeinkunnar og skal það tilgreint í kennsluskrá. Við birtingu einkunna skulu prófseinkunn og hlutaeinkunn einnig sýndar hvor um sig. Í prófgrein, þar sem hlutaeinkunn er gefin, er deild heimilt að tillögu kennara, að áskilja fyrir hvora einkunnina sem er, að stúdent teljist ekki hafa staðist próf ef hún er lægri en lágmarkseinkunn prófgreinarinnar í heild. Slík ákvörðun skal tilgreind í kennsluskrá.

Deildin setur reglur um viðurkenningu fyrra náms við endurskráningu stúdenta og umskráningu úr öðrum deildum eða milli aðalgreina í jarðvísindadeild.

LÍF- OG UMHVERFISVÍSINDADEILD.

128. gr.

Kennslugreinar, prófgráður og námseiningar.

Líf- og umhverfisvísindadeild veitir kennslu og þjálfun sem hér segir:

Til BS-prófs í ferðamálafræði, landfræði, líffræði og sjávar- og vatnalíffræði.

Til meistaraprófs, MS-prófs, í ferðamálafræði, landfræði og líffræði.

Til doktorsprófs, Ph.D.-prófs, í ferðamálafræði, landfræði og líffræði.

Enn fremur veitir deildin kennslu til meistaraprófs í umhverfis- og auðlindafræði og öðrum þverfræðilegum greinum í samvinnu við aðrar háskóladeildir, þar sem nauðsynleg aðstaða er fyrir hendi. Lýsing á náminu í deildinni skal koma fram í kennsluskrá háskólans.

Auk kennslu stendur deildin fyrir rannsóknum á fræðasviðum deildarinnar.

Deildin tekur ákvarðanir um skiptingu kennslugreina í námskeið, um vægi þeirra og skiptingu þeirra í námsáfanga.

Heimilt er að skipuleggja þær greinar, sem tilgreindar eru aðalgreinar til BS-prófs, sem aukagreinar samkvæmt nánari ákvörðun deildarinnar. Enn fremur er deildinni heimilt að gefa kost á viðbótarnámi til 60 eininga að loknu BS-prófi, sem viðurkennt er með sérstöku prófskírteini.

Til BS-prófs er krafist minnst 180 eininga.

Til MS-prófs er krafist 120 eininga náms að loknu BS-prófi frá deildinni.

Til doktorsprófs er krafist minnst 180 eininga.

Framhaldsnám til meistara- og doktorsprófs er skipulagt samkvæmt þessum reglum og nánari reglum sem líf- og umhverfisvísindadeild setur og háskólaráð staðfestir, sbr. 66.-69. gr. þessara reglna.

129. gr.

Námsframvinda, námsmat og hámarksnámstími.

Kennslu til BS-prófs skal haga þannig að stúdent geti lokið 180 eininga námi á þremur árum. Hámarksnámstími til þess að ljúka BS-prófi er níu kennslumisseri frá því er stúdent var skrásettur í viðkomandi nám. Deildinni er heimilt að veita undanþágu frá þessum tímamörkum, þegar sérstaklega stendur á. Kennslu til meistaraprófs til 120 eininga skal haga þannig að stúdent geti lokið náminu á tveimur árum. Hámarksnámstími til meistaraprófs er sex misseri frá því stúdent var skrásettur í viðkomandi aðalgrein. Deildinni er heimilt að veita undanþágu frá þessum tímamörkum, þegar sérstaklega stendur á.

Nemandi skráir sig í aðalgrein við upphaf náms. Óski nemandi frávika frá námsskipan þeirri sem gert er ráð fyrir í kennsluskrá skal hann leggja námsáætlun sína fyrir deild til samþykktar. Sama gildir ef hann óskar breytinga á upphaflegri námsáætlun.

Deildinni er heimilt að ákveða að stúdent megi ekki skrá sig í námskeið nema hann hafi áður öðlast rétt til próftöku eða staðist próf í tilteknum námskeiðum.

Deildin setur reglur um æfingaskyldu í námskeiðum og lágmarksframmistöðu stúdents í æfingum til þess að hann öðlist rétt til próftöku.

Halda má æfinganámskeið utan reglulegs kennslutíma.

Til að standast próf í námskeiði þarf nemandi í grunnnámi að hljóta eigi lægri einkunn en 5,0.

Til að standast próf í námskeiði þarf nemandi í framhaldsnámi að hljóta eigi lægri einkunn en 6,0.

Nemandi, sem ekki hlýtur tilskilda lágmarkseinkunn fyrir próf í lok námskeiðs, má endurtaka prófið samkvæmt almennum reglum háskólans. Við endurtekningu skal þreyta próf eins og það er haldið fyrir aðra stúdenta hverju sinni, nema deildin ákveði annað.

Við einkunnagjöf má taka tillit til frammistöðu stúdents í prófum og æfingum utan reglulegs próftíma og veita fyrir hana sérstaka einkunn, hlutaeinkunn. Deildin ákveður að tillögu kennara vægi hlutaeinkunnar og skal það tilgreint í kennsluskrá. Við birtingu einkunna skulu prófseinkunn og hlutaeinkunn einnig sýndar hvor um sig. Í prófgrein, þar sem hlutaeinkunn er gefin, er deild heimilt að tillögu kennara, að áskilja fyrir hvora einkunnina sem er, að stúdent teljist ekki hafa staðist próf ef hún er lægri en lágmarkseinkunn prófgreinarinnar í heild. Slík ákvörðun skal tilgreind í kennsluskrá.

Deildin setur reglur um viðurkenningu fyrra náms við endurskráningu stúdenta og umskráningu úr öðrum deildum eða milli aðalgreina í líf- og umhverfisvísindadeild.

RAFMAGNS- OG TÖLVUVERKFRÆÐIDEILD.

130. gr.

Kennslugreinar, prófgráður og námseiningar.

Rafmagns- og tölvuverkfræðideild veitir kennslu sem hér segir:

Til BS-prófs í rafmagns- og tölvuverkfræði.

Til meistaraprófs, MS-prófs, í rafmagns- og tölvuverkfræði, rafmagnsverkfræði og tölvuverkfræði.

Til doktorsprófs, Ph.D.-prófs, í rafmagns- og tölvuverkfræði, rafmagnsverkfræði og tölvuverkfræði.

Lýsing á náminu í deildinni skal koma fram í kennsluskrá háskólans.

Auk kennslu stendur deildin fyrir rannsóknum á fræðasviðum deildarinnar.

Deildin ákvarðar kennslugreinar og skiptingu þeirra í námskeið og um vægi þeirra.

Til BS -prófs er krafist minnst 180 eininga.

Til MS-prófs er krafist 120 eininga náms að loknu BS-prófi frá deildinni.

Til doktorsprófs er krafist minnst 180 eininga.

Framhaldsnám til meistara- og doktorsprófs er skipulagt samkvæmt þessum reglum og nánari reglum sem rafmagns- og tölvuverkfræðideild setur og háskólaráð staðfestir, sbr. 66.-69. gr. þessara reglna.

131. gr.

Námsframvinda, námsmat og hámarksnámstími.

Kennslu til BS-prófs skal haga þannig að stúdent geti lokið 180 eininga námi á þremur árum. Hámarksnámstími til þess að ljúka BS-prófi er níu kennslumisseri frá því er stúdent var skrásettur í viðkomandi nám. Deildinni er heimilt að veita undanþágu frá þessum tímamörkum, þegar sérstaklega stendur á. Kennslu til meistaraprófs til 120 eininga skal haga þannig að stúdent geti lokið náminu á tveimur árum. Hámarksnámstími til meistaraprófs er sex misseri frá því stúdent var skrásettur í viðkomandi aðalgrein. Deildinni er heimilt að veita undanþágu frá þessum tímamörkum, þegar sérstaklega stendur á.

Nemandi skráir sig í aðalgrein við upphaf náms. Óski nemandi frávika frá námsskipan þeirri sem gert er ráð fyrir í kennsluskrá skal hann leggja námsáætlun sína fyrir deild til samþykktar. Sama gildir ef hann óskar breytinga á upphaflegri námsáætlun.

Nemanda er ekki heimilt að hefja nám í tilteknu námskeiði rafmagns- og tölvuverkfræðideildar án þess að hafa lokið prófi í þeim námskeiðum, sem eru tilgreind í kennsluskrá sem nauðsynlegir undanfarar þess. Þó er deildinni heimilt að víkja frá þessari reglu í sérstökum tilvikum.

Deildin getur sett nánari reglur um tímasókn og æfingaskyldu í námskeiðum og lágmarksframmistöðu stúdents í æfingum, til þess að hann öðlist rétt til próftöku.

Við einkunnagjöf má taka tillit til frammistöðu í prófum og æfingum utan reglulegs próftíma og veita fyrir hana sérstaka einkunn, hlutaeinkunn.

Til að standast próf í námskeiði þarf nemandi í grunnnámi að hljóta eigi lægri próf- og heildareinkunn en 5,0.

Til að standast próf í námskeiði þarf nemandi í framhaldsnámi að hljóta eigi lægri próf- og heildareinkunn en 6,0.

Hver kennari ákveður vægi hlutaeinkunnar í námskeiði sínu, að teknu tilliti til reglna deildar þar um, og tilkynnir stúdentum í upphafi kennslumisseris.

Nemandi sem ekki hlýtur tilskilda prófeinkunn í námskeiði má endurtaka prófið einu sinni. Aðeins með sérstöku leyfi deildar er þriðja próftaka heimil. Við endurtekningu skal þreyta próf eins og það er haldið fyrir aðra stúdenta hverju sinni nema deildin ákveði annað.

Deildin setur reglur um viðurkenningu fyrra náms við endurskráningu nemenda og umskráningu úr öðrum deildum eða milli aðalgreina í rafmagns- og tölvuverkfræðideild.

RAUNVÍSINDADEILD.

132. gr.

Kennslugreinar, prófgráður og námseiningar.

Raunvísindadeild veitir kennslu og þjálfun sem hér segir:

Til BS-prófs í eðlisfræði, efnafræði, lífefnafræði og stærðfræði.

Til meistaraprófs, MS-prófs, í eðlisfræði, efnafræði, lífefnafræði og stærðfræði.

Til meistaraprófs, M.Paed.-prófs, í eðlisfræði, efnafræði, lífefnafræði, stjarneðlisfræði, stærðfræði og vísindasögu.

Til doktorsprófs, Ph.D.-prófs, í eðlisfræði, efnafræði, lífefnafræði og stærðfræði.

Enn fremur veitir deildin kennslu til meistaraprófs í umhverfis- og auðlindafræði og öðrum þverfræðilegum greinum í samvinnu við aðrar háskóladeildir, þar sem nauðsynleg aðstaða er fyrir hendi.

Lýsing á náminu í deildinni skal koma fram í kennsluskrá háskólans.

Auk kennslu stendur deildin fyrir rannsóknum á fræðasviðum deildarinnar.

Raunvísindadeild er skipað í þrjár námsbrautir, sbr. ákvæði 21. gr. þessara reglna; námsbraut í eðlisfræði, námsbraut í efnafræði og námsbraut í stærðfræði.

Deildin tekur ákvarðanir um skiptingu kennslugreina í námskeið, um vægi þeirra og skiptingu þeirra í námsáfanga.

Námsbrautir gera í kennsluskrá grein fyrir námsskipan og skyldunámskeiðum innan aðalgreinar. Samval námskeiða er háð samþykki námsbrautar.

Heimilt er að skipuleggja þær greinar, sem tilgreindar eru aðalgreinar til BS-prófs, sem aukagreinar samkvæmt nánari ákvörðun deildarinnar. Ennfremur er deildinni heimilt að gefa kost á viðbótarnámi til 60 eininga að loknu BS-prófi, sem viðurkennt er með sérstöku prófskírteini.

Til BS-prófs er krafist minnst 180 eininga.

Til MS-prófs er krafist 120 eininga náms að loknu BS-prófi frá deildinni.

Til M.Paed.-prófs er krafist 90 eininga að loknu BS-prófi og skulu 60 einingar teknar í raunvísindadeild og 30 einingar í uppeldis- og menntunarfræðideild menntavísindasviðs, samkvæmt nánari reglum sem raunvísindadeild setur og háskólaráð staðfestir. Í uppeldis- og menntunarfræðideild tekur nemandi námskeið samkvæmt ákvörðun uppeldis- og menntunarfræðideildar sem birt er í kennsluskrá. Nemandi lýkur lokaverkefni í raunvísindadeild og nemur það 10-60 einingum samkvæmt nánari ákvörðun hlutaðeigandi námsbrautar. Að öðru leyti tekur nemandinn námskeið í raunvísindum til 60 eininga.

Til doktorsprófs er krafist minnst 180 eininga.

Framhaldsnám til meistara- og doktorsprófs í kennslugreinum deildarinnar er skipulagt samkvæmt þessum reglum og nánari reglum sem raunvísindadeild setur og háskólaráð staðfestir, sbr. 66.-69. gr. þessara reglna.

133. gr.

Námsframvinda, námsmat og hámarksnámstími.

Kennslu til BS-prófs skal haga þannig að stúdent geti lokið 180 eininga námi á þremur árum. Hámarksnámstími til þess að ljúka BS-prófi er níu kennslumisseri frá því er stúdent var skrásettur í viðkomandi nám. Deildinni er heimilt að veita undanþágu frá þessum tímamörkum, þegar sérstaklega stendur á. Kennslu til meistaraprófs til 120 eininga skal haga þannig að stúdent geti lokið náminu á tveimur árum. Hámarksnámstími til meistaraprófs er sex misseri frá því stúdent var skrásettur í viðkomandi aðalgrein. Deildinni er heimilt að veita undanþágu frá þessum tímamörkum, þegar sérstaklega stendur á.

Nemandi skráir sig í aðalgrein við upphaf náms. Óski nemandi frávika frá námsskipan þeirri sem gert er ráð fyrir í kennsluskrá skal hann leggja námsáætlun sína fyrir hlutaðeigandi námsbraut til samþykktar. Sama gildir ef hann óskar breytinga á upphaflegri námsáætlun.

Deildinni er heimilt að ákveða að stúdent megi ekki skrá sig í námskeið nema hann hafi áður öðlast rétt til próftöku eða staðist próf í tilteknum námskeiðum.

Deildin setur reglur um æfingaskyldu í námskeiðum og lágmarksframmistöðu stúdents í æfingum til þess að hann öðlist rétt til próftöku.

Halda má æfinganámskeið utan reglulegs kennslutíma.

Til að standast próf í námskeiði þarf nemandi í grunnnámi að hljóta eigi lægri einkunn en 5,0.

Til að standast próf í námskeiði þarf nemandi í framhaldsnámi að hljóta eigi lægri einkunn en 6,0.

Nemandi, sem ekki hlýtur tilskilda lágmarkseinkunn fyrir próf í lok námskeiðs, má endurtaka prófið samkvæmt almennum reglum háskólans. Við endurtekningu skal þreyta próf eins og það er haldið fyrir aðra stúdenta hverju sinni, nema deildin ákveði annað.

Við einkunnagjöf má taka tillit til frammistöðu stúdents í prófum og æfingum utan reglulegs próftíma og veita fyrir hana sérstaka einkunn, hlutaeinkunn. Hver námsbraut ákveður að tillögu kennara vægi hlutaeinkunnar og skal það tilgreint í kennsluskrá. Við birtingu einkunna skulu prófseinkunn og hlutaeinkunn einnig sýndar hvor um sig. Í prófgrein, þar sem hlutaeinkunn er gefin, er námsbraut heimilt að tillögu kennara, að áskilja fyrir hvora einkunnina sem er, að stúdent teljist ekki hafa staðist próf ef hún er lægri en lágmarkseinkunn prófgreinarinnar í heild. Slík ákvörðun skal tilgreind í kennsluskrá.

Deildin setur reglur um viðurkenningu fyrra náms við endurskráningu stúdenta og umskráningu úr öðrum deildum eða milli aðalgreina í raunvísindadeild.

UMHVERFIS- OG BYGGINGARVERKFRÆÐIDEILD.

134. gr.

Kennslugreinar, prófgráður og námseiningar.

Umhverfis- og byggingarverkfræðideild veitir kennslu sem hér segir:

Til BS-prófs í umhverfis- og byggingarverkfræði.

Til meistaraprófs, MS-prófs, í byggingarverkfræði, umhverfisverkfræði og umhverfis- og byggingarverkfræði.

Til doktorsprófs, Ph.D.-prófs, í byggingarverkfræði og umhverfisverkfræði.

Enn fremur veitir deildin kennslu til meistara- og doktorsprófs í umhverfis- og auðlindafræði og öðrum þverfræðilegum greinum í samvinnu við aðrar háskóladeildir, þar sem nauðsynleg aðstaða er fyrir hendi.

Lýsing á náminu í deildinni skal koma fram í kennsluskrá háskólans.

Auk kennslu stendur deildin fyrir rannsóknum á fræðasviðum deildarinnar.

Deildin ákvarðar kennslugreinar og skiptingu þeirra í námskeið og um vægi þeirra.

Til BS-prófs er krafist minnst 180 eininga.

Til MS-prófs er krafist 120 eininga náms að loknu BS-prófi frá deildinni.

Til doktorsprófs er krafist minnst 180 eininga.

Framhaldsnám til meistara- og doktorsprófs er skipulagt samkvæmt þessum reglum og nánari reglum sem umhverfis- og byggingarverkfræðideild setur og háskólaráð staðfestir, sbr. 66.-69. gr. þessara reglna.

135. gr.

Námsframvinda, námsmat og hámarksnámstími.

Kennslu til BS-prófs skal haga þannig að stúdent geti lokið 180 eininga námi á þremur árum. Hámarksnámstími til þess að ljúka BS-prófi er níu kennslumisseri frá því er stúdent var skrásettur í viðkomandi nám. Deildinni er heimilt að veita undanþágu frá þessum tímamörkum, þegar sérstaklega stendur á. Kennslu til meistaraprófs til 120 eininga skal haga þannig að stúdent geti lokið náminu á tveimur árum. Hámarksnámstími til meistaraprófs er sex misseri frá því stúdent var skrásettur í viðkomandi aðalgrein. Deildinni er heimilt að veita undanþágu frá þessum tímamörkum, þegar sérstaklega stendur á.

Nemandi skráir sig í aðalgrein við upphaf náms. Óski nemandi frávika frá námsskipan þeirri sem gert er ráð fyrir í kennsluskrá skal hann leggja námsáætlun sína fyrir deild til samþykktar. Sama gildir ef hann óskar breytinga á upphaflegri námsáætlun.

Nemanda er ekki heimilt að hefja nám í tilteknu námskeiði umhverfis- og byggingarverkfræðideildar án þess að hafa lokið prófi í þeim námskeiðum, sem eru tilgreind í kennsluskrá sem nauðsynlegir undanfarar þess. Þó er deildinni heimilt að víkja frá þessari reglu í sérstökum tilvikum.

Deildin getur sett nánari reglur um tímasókn og æfingaskyldu í námskeiðum og lágmarksframmistöðu stúdents í æfingum, til þess að hann öðlist rétt til próftöku.

Við einkunnagjöf má taka tillit til frammistöðu í prófum og æfingum utan reglulegs próftíma og veita fyrir hana sérstaka einkunn, hlutaeinkunn.

Til að standast próf í námskeiði þarf nemandi að hljóta eigi lægri próf- og heildareinkunn en 5,0.

Til að ljúka MS-prófi þarf nemandi að hljóta eigi lægri meðaleinkunn en 6,0.

Hver kennari ákveður vægi hlutaeinkunnar í námskeiði sínu, að teknu tilliti til reglna deildar þar um, og tilkynnir stúdentum í upphafi kennslumisseris.

Nemandi sem ekki hlýtur tilskilda prófeinkunn í námskeiði má endurtaka prófið einu sinni. Aðeins með sérstöku leyfi deildar er þriðja próftaka heimil. Við endurtekningu skal þreyta próf eins og það er haldið fyrir aðra stúdenta hverju sinni nema deildin ákveði annað.

Deildin setur reglur um viðurkenningu fyrra náms við endurskráningu nemenda og umskráningu úr öðrum deildum eða milli aðalgreina í umhverfis- og byggingarverkfræðideild.

XV. KAFLI

Birting reglna, ákvæði um breytingar og gildistaka.

136. gr.

Setning reglna og breytingar á þeim.

Reglur þessar eru settar á grundvelli laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla. Þær og aðrar reglur, sem háskólaráð setur á grundvelli laga um opinbera háskóla, skulu birtar í B-deild Stjórnartíðinda.

Í reglum þessum er nýtt heimild í lögum nr. 85/2008 um heiti skipulagseininga háskóla. Þannig er heitið fræðasvið notað í stað heitisins skóli, forseti fræðasviðs í stað forseti skóla, deildarforseti í stað deildarformaður, stjórn fræðasviðs í stað skólaráð, þing fræðasviðs í stað skólafundur og háskólaþing í stað háskólafundur.

Reglum þessum verður ekki breytt nema með samþykki háskólaráðs og eftir atvikum, að undangenginni umsögn einstakra skipulagseininga háskólans eða samtaka stúdenta og starfsmanna, þar sem við á, sbr. ákvæði laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla.

Ákvæði laga og reglna sem á hverjum tíma eru í gildi fyrir Háskóla Íslands skulu vera aðgengileg á vefsetri háskólans.

137. gr.

Gildistaka.

Reglur þessar öðlast gildi 1. júlí 2009 og falla þá jafnframt úr gildi reglur nr. 458/2000, fyrir Háskóla Íslands, með síðari breytingum.

Enn fremur fellur úr gildi auglýsing nr. 633/2008, varðandi nýtt skipulag Háskóla Íslands, en ákvæði þeirrar auglýsingar hafa verið tekin upp í reglur þessar. Í samræmi við niðurlagsákvæði auglýsingarinnar falla úr gildi með gildistöku þessara reglna, öll ákvæði reglna, sem samþykktar voru í háskólaráði Kennaraháskóla Íslands þann 27. mars 2007. Þá falla og úr gildi reglur nr. 985/2008, um tilnefningu fulltrúa háskólasamfélagsins og nemenda í háskólaráð Háskóla Íslands, en ákvæði þeirra hafa verið tekin upp í 3. gr. þessara reglna. Sömuleiðis falla úr gildi reglur nr. 490/2007, fyrir Miðstöð framhaldsnáms við Háskóla Íslands.

Ákvæði til bráðabirgða.

Eftirtaldar reglur sem háskólaráð hefur sett og varða stofnanir Háskóla Íslands, halda gildi sínu að svo miklu leyti sem þær eru samrýmanlegar ákvæðum laga nr. 85/2008 og þar til háskólaráð hefur sett nýjar reglur um starfsemi þeirra í samræmi við ákvæði 25.-27. gr. reglna þessara:

Þjónustustofnanir sem heyra undir háskólaráð.

Reglur nr. 296/2001, um Háskólaútgáfuna.

Reglur nr. 735/2001, um Reiknistofnun Háskóla Íslands, sbr. nr. 906/2004.

Reglur nr. 844/2001, um Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands, sbr. nr. 315/2009 og nr. 895/2005.

Reglur nr. 832/2001, um Rannsóknaþjónustu Háskóla Íslands.

Reglur nr. 176/2003, um Stofnun fræðasetra Háskóla Íslands, sbr. nr. 488/2007.

Rannsókna- og þjónustustofnanir sem heyra undir háskólaráð.

Reglur nr. 737/2001, um Siðfræðistofnun Háskóla Íslands, sbr. nr. 889/2007.

Reglur nr. 826/2001, um Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum við Háskóla Íslands, sbr. nr. 516/2003.

Reglur nr. 501/2002, um Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands.

Reglur nr. 500/2002, um erfðafræðinefnd Háskóla Íslands.

Reglur nr. 526/2005, fyrir Stofnun Sæmundar fróða um sjálfbæra þróun og þverfræðilegar rannsóknir við Háskóla Íslands.

Rannsóknastofnanir á félagsvísindasviði.

Reglur nr. 738/2001, um Hagfræðistofnun Háskóla Íslands.

Reglur nr. 824/2001, um Viðskiptafræðistofnun Háskóla Íslands, sbr. nr. 806/2008 og nr. 489/2007.

Reglur nr. 979/2001, um Lagastofnun Háskólans, sbr. nr. 515/2003.

Reglur nr. 495/2002, um Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála í Háskóla Íslands.

Reglur nr. 370/2009, um Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands.

Rannsóknastofnanir á heilbrigðisvísindasviði.

Reglur nr. 720/2001, um Rannsóknastofnun í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands.

Reglur nr. 734/2001, um Tannlækningastofnun Háskóla Íslands.

Reglur nr. 750/2002, um Lyfjafræðistofnun Íslands.

Reglur nr. 1047/2003, um Lífeðlisfræðistofnun Háskóla Íslands.

Reglur nr. 825/2004, um Rannsóknastofnun í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands og Landspítala – háskólasjúkrahús.

Reglur nr. 345/2007, um Rannsóknastofnun um lyfjamál við Háskóla Íslands, sbr. nr. 739/2007.

Rannsóknastofnanir á hugvísindasviði.

Reglur nr. 731/2001, um Guðfræðistofnun Háskóla Íslands, sbr. nr. 344/2008.

Reglur nr. 281/2006, um Hugvísindastofnun Háskóla Íslands.

Rannsóknastofnanir á verkfræði- og náttúruvísindasviði.

Reglur nr. 828/2001, um Verkfræðistofnun Háskóla Íslands.

Reglur nr. 978/2001, um Líffræðistofnun Háskólans.

Reglur nr. 398/2004, um Raunvísindastofnun Háskólans, sbr. nr. 909/2004.

Ákvæði til skýringar.

Reglur sem háskólaráð hefur sett um inntökuskilyrði, inntöku nemenda og námsskipan í einstökum greinum, þar með talið í framhaldsnámi, halda gildi sínu þar til háskólaráð hefur sett nýjar reglur. Sama gildir um reglur sem háskólaráð hefur sett og varða starfsmenn Háskóla Íslands. Ennfremur gilda áfram reglur um skipan og fundarsköp háskólaþings.

Eftirtaldar stofnskrár og skipulagsskrár halda gildi sínu:

Auglýsing nr. 11/1919, um stofnskrá fyrir Sáttmálasjóð Háskóla Íslands.

Stofnskrá Listasafns Háskóla Íslands, nr. 276/1980.

Skipulagsskrá nr. 780/1999, fyrir Styrktarsjóð Listasafns Háskóla Íslands.

Háskóla Íslands, 16. júní 2009.

Kristín Ingólfsdóttir.

Þórður Kristinsson.

B deild - Útgáfud.: 29. júní 2009