I. KAFLI Almenn ákvæði. 1. gr. Gildissvið og skilgreining á hugtakinu fjármálasamsteypa. Reglur þessar taka til viðbótareftirlits með eftirlitsskyldum aðilum á fjármálamarkaði, sem falla undir lög nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og lög nr. 56/2010 um vátryggingastarfsemi, og eru hluti af fjármálasamsteypu, auk móðurfélaga fjármálasamsteypa eftir því sem nánar er mælt fyrir um í reglum þessum. Fjármálasamsteypa er samstæða sem uppfyllir eftirfarandi skilyrði að teknu tilliti til ákvæða 3.-9. gr. um tilgreiningu á fjármálasamsteypu: Eftirlitsskyldur aðili fer fyrir samstæðunni, eða a.m.k. eitt af dótturfélögum í samstæðunni er eftirlitsskyldur aðili. Í þeim tilvikum þegar eftirlitsskyldur aðili fer fyrir samstæðunni er hann annaðhvort móðurfélag aðila á fjármálamarkaði, aðili sem á hlutdeild í aðila á fjármálamarkaði eða aðili sem tengist aðila á fjármálamarkaði með tengslum sem fela í sér eftirfarandi: fyrirtæki og önnur fyrirtæki sem það tengist ekki, er stjórnað í sameiningu samkvæmt samningi við fyrirtækið eða samkvæmt ákvæðum í samþykktum fyrirtækjanna, eða meirihluti stjórnar eða stjórnenda fyrirtækisins og annarra fyrirtækja sem það tengist ekki, samanstendur af sömu einstaklingum á reikningsárinu.
Þegar enginn eftirlitsskyldur aðili fer fyrir samstæðunni og starfsemi samstæðunnar fer aðallega fram á fjármálamarkaði í skilningi 3. gr. A.m.k. einn aðili í samstæðunni starfar á vátryggingasviði og a.m.k. einn aðili starfar á fjármálasviði. Samanlögð umsvif aðila á vátryggingasviði annars vegar og fjármálasviði hins vegar teljast mikilvæg í skilningi 4. og 5. gr.
Sérhverja undirsamstæðu sem uppfyllir skilyrði 1.-4. tölul. 2. mgr. 1. gr. skal líta á sem fjármálasamsteypu. Við tilgreiningu fjármálasamsteypu skv. II. kafla í reglum þessum er með samstæðu einnig átt við félög sem munu fyrirsjáanlega við næsta ársuppgjör teljast samstæða í skilningi 9. tölul. 2. gr. 2. gr. Orðskýringar. Í reglum þessum er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir: Fjármálafyrirtæki: Fjármálafyrirtæki skv. 4. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, auk fyrirtækja með starfsleyfi í aðildarríki eða ríkjum utan EES sem uppfylla skilgreiningu áðurnefndrar lagagreinar. Vátryggingafélag: Vátryggingafélag skv. 2. gr. laga nr. 56/2010 um vátryggingastarfsemi auk vátryggingafélaga með starfsleyfi í aðildarríki eða ríkjum utan EES sem uppfylla skilgreiningu áðurnefndrar lagagreinar. Eftirlitsskyldur aðili: Aðili á fjármálamarkaði sem fellur undir lög nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og/eða lög nr. 56/2010 um vátryggingastarfsemi. Lagaákvæði fjármálamarkaðar: Annars vegar lög nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og reglugerðir og reglur settar með stoð í þeim lögum og hins vegar lög nr. 56/2010 um vátryggingastarfsemi og reglugerðir og reglur settar með stoð í þeim lögum. Fjármálamarkaður: Markaður sem samanstendur af einu eða fleiri af eftirfarandi fyrirtækjum: Fjármálafyrirtæki, fyrirtæki tengt fjármálasviði eða önnur þjónustu- og hliðarstarfsemi, sbr. lög nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki (saman nefnt fjármálasvið). Vátryggingafélagi og eignarhaldsfélagi á vátryggingasviði, sbr. lög nr. 56/2010 um vátryggingastarfsemi (saman nefnt vátryggingasvið). Blandað eignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi, sbr. 97. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, og 9. gr. laga nr. 56/2010 um vátryggingastarfsemi.
Móðurfélag: Félag sem uppfyllir eitt eða fleiri neðangreindra skilyrða: á meirihluta atkvæða í öðru félagi, er félagsaðili að öðru félagi og hefur rétt til að tilnefna eða víkja frá meirihluta stjórnar og framkvæmdastjórn þess, er félagsaðili að öðru félagi og hefur rétt til ákvörðunarvalds um rekstur og fjárhagslega stjórn þess á grundvelli samþykkta félagsins eða samninga við það, er félagsaðili að öðru félagi og ræður yfir meirihluta atkvæða í því á grundvelli samnings við aðra hluthafa, á eignarhlut í öðru félagi og hefur ákvörðunarvald um rekstur og fjárhagslega stjórn þess. Auk þess sem segir hér að ofan getur móðurfélag verið hvert það fyrirtæki sem að mati lögbærra yfirvalda, hefur í raun yfirráð í öðru fyrirtæki.Dótturfélag: Félag sem er í raun undir yfirráðum annars félags á þann hátt sem lýst er í 6. tölul. 2. gr. Öll dótturfélög dótturfélaga skulu talin sem dótturfélög móðurfélagsins. Hlutdeild (hlutdeildarfélag): Eign í félagi, þó ekki dótturfélagi, sem annað félag og dótturfélög þess eiga verulegan eignarhlut í eða hafa myndað varanleg tengsl við í þeim tilgangi að hafa áhrif á rekstur þess. Slíkt félag telst hlutdeildarfélag. Félag er ávallt talið eiga verulegan eignarhlut ef það og dótturfélög þess eiga a.m.k. 20% eignarhlut beint eða óbeint (í hlutafé, stofnfé eða atkvæðisrétti) í öðru félagi. Samstæða: Hópur fyrirtækja sem samanstendur af móðurfélagi, dótturfélagi þess og þeim fyrirtækjum sem móðurfélagið eða dótturfélög þess eiga hlutdeild í auk fyrirtækja sem tengjast hvert öðru með tengslum sem um getur í a- og b-lið 1. tölul. 2. mgr. 1. gr. Náin tengsl: Náin tengsl skv. 1. tölul. 1. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Blandað eignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi: Blandað eignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi, sbr. 6. mgr. 97. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Lögbær yfirvöld: Eftirlitsaðilar í aðildarríkjum EES sem falið er eftirlit með lagaákvæðum fjármálamarkaðar, hvort heldur sem er með einstökum fyrirtækjum eða á samstæðugrunni, á Íslandi Fjármálaeftirlitið. Samræmingaraðili: Fjármálaeftirlitið eða annað lögbært yfirvald aðildarríkis EES þar sem fjármálasamsteypa starfar, sem útnefnt hefur verið samræmingaraðili í samræmi við 26. gr. reglna þessara. Viðeigandi lögbær yfirvöld: yfirvöld í aðildarríkjum EES sem bera ábyrgð á eftirliti á samstæðugrundvelli með eftirlitsskyldum aðilum innan hvers sérsviðs í fjármálasamsteypu, á Íslandi Fjármálaeftirlitið, samræmingaraðili, sem er tilnefndur skv. 26. gr. reglna þessara ef hann er annar en yfirvöldin sem um getur í a-lið, og önnur yfirvöld, eftir því sem við á, samkvæmt mati yfirvaldanna sem um getur í a- og b-lið. Við slíkt mat skal sérstaklega taka tillit til markaðshlutdeildar eftirlitsskyldra aðila í samsteypu í öðrum aðildarríkjum, einkum ef hún fer yfir 5%, og mikilvægi eftirlitsskylda aðilans, sem stofnsettur er í öðru aðildarríki, innan samstæðunnar.
Aðildarríki EES: Þau ríki sem eru aðilar að samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði. Jafnframt falla undir hugtakið í reglum þessum þau ríki sem njóta sambærilegra réttinda samkvæmt alþjóðasamningum og mælt er fyrir um slíkt í lagaákvæðum fjármálamarkaðar. Viðskipti innan samsteypu: Hvers konar millifærslur þar sem eftirlitsskyldir aðilar innan fjármálasamsteypu eru um efndir beint eða óbeint háðir öðrum fyrirtækjum innan samstæðunnar eða einstaklingum eða lögaðilum sem mynda náin tengsl við fyrirtæki innan samstæðunnar, hvort sem þær eru samkvæmt samningi eða ekki og hvort sem þær eru gegn greiðslu eða ekki. Samþjöppun áhættu: Möguleg tapsáhætta sem hvílir á fyrirtækjum innan fjármálasamsteypu sem er nægjanlega mikil til að ógna gjaldþoli eða almennri fjárhagsstöðu eftirlitsskyldra aðila innan samsteypunnar. Slík áhætta getur m.a. myndast vegna mótaðilaáhættu/lánsáhættu, fjárfestingaráhættu, vátryggingaáhættu, markaðsáhættu, annarrar áhættu eða samtvinnunar eða víxlverkunar þessara tegunda áhættu. Eiginfjárgrunnur: Í reglum þessum er með eiginfjárgrunni átt við eiginfjárgrunn fjármálafyrirtækja, sbr. X. kafla laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, gjaldþol vátryggingafélaga, sbr. III. kafla laga nr. 56/2010 um vátryggingastarfsemi eða þegar það á við framangreint reiknað samkvæmt reglum annarra aðildarríkja eða ríkja utan EES. Lágmarksgjaldþol: Í reglum þessum er með lágmarksgjaldþoli átt við eiginfjárkröfu fjármálafyrirtækja, sbr. X. kafla laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, lágmarksgjaldþol vátryggingafélaga, sbr. III. kafla laga nr. 56/2010 um vátryggingastarfsemi eða þegar það á við framangreint reiknað samkvæmt reglum annarra aðildarríkja eða ríkja utan EES. Ígildi lágmarksgjaldþols: Í reglum þessum er með ígildi lágmarksgjaldþols átt við eiginfjárkröfu sem aðili sem ekki er eftirlitsskyldur þyrfti að uppfylla samkvæmt reglum fjármálamarkaðar, ef hann væri eftirlitsskyldur aðili á þeim markaði. Rekstrarfélög verðbréfasjóða sem sinna sjóða- og eignastýringu þurfa að uppfylla eiginfjárkröfuna sem er sett fram í 7. mgr. 14. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002. Ígildi lágmarksgjaldþols fyrir blandað eignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi skal reiknað samkvæmt reglum þess fjármálamarkaðar sem fjármálasamsteypan starfar aðallega á.
II. KAFLI Tilgreining fjármálasamsteypu. 3. gr. Ákvörðun á því hvort starfsemi samstæðu fari aðallega fram á fjármálamarkaði. Við ákvörðun á því hvort starfsemi samstæðu fari aðallega fram á fjármálamarkaði þegar félag sem er ekki eftirlitsskylt fer fyrir samstæðu skal hlutfall samanlagðrar stærðar efnahagsreiknings fyrirtækja á fjármálamarkaði vera meira en 40% af heildarefnahagsreikningi samstæðunnar. 4. gr. Grundvallarviðmið við ákvörðun um það hvort starfsemi á fjármálasviði og vátryggingasviði teljist mikilvæg. Við ákvörðun á því hvort starfsemi á fjármálasviði annars vegar og vátryggingasviði hins vegar eru hvor um sig talin mikilvæg, skulu samanlögð umsvif á hvoru sviði um sig vera umfram 10% af meðaltali hlutfalla reiknuðum samkvæmt neðangreindu: hlutfall stærðar efnahagsreiknings félaga sem tilheyra viðkomandi sviði, í samanlagðri stærð efnahagsreiknings félaga sem tilheyra fjármálamarkaði, og hlutfall lágmarksgjaldþols félaga sem tilheyra viðkomandi sviði í samanlögðu lágmarksgjaldþoli félaga sem tilheyra fjármálamarkaði.
Sé meðaltal hlutfalla reiknað hærra varðandi fjármálasvið telst meginstarfsemi fjármálasamsteypunnar vera á fjármálasviði og umfangsminni starfsemi á vátryggingasviði. Að öðrum kosti telst meginstarfsemi fjármálasamsteypunnar vera á vátryggingasviði og umfangsminni starfsemi á fjármálasviði. Rekstrarfélögum verðbréfasjóða skal bætt við það svið sem þau tilheyra innan samstæðunnar. Sé það ekki ljóst skal þeim bætt við umfangsminni starfsemina. 5. gr. Önnur viðmið við ákvörðun um það hvort starfsemi á fjármálasviði og vátryggingasviði teljist mikilvæg. Jafnvel þótt skilyrði 4. gr. séu ekki uppfyllt eru fjármálasvið annars vegar og vátryggingasvið hins vegar hvort um sig talin mikilvæg, sé samanlögð stærð efnahagsreiknings félaga á umfangsminna sviði samstæðunnar meira en 6 milljarðar evra. Ef samstæða nær ekki hlutfallslegu viðmiði skv. 4. gr. en uppfyllir skilyrði þessarar greinar um umfangsminna svið samstæðunnar geta viðeigandi lögbær yfirvöld með samkomulagi sín á milli, ákveðið að slík samstæða teljist ekki fjármálasamsteypa eða falli ekki undir beitingu 23.-25. gr. ef þau telja slíkt ekki nauðsynlegt eða slíkt myndi vera óviðeigandi eða villandi m.t.t. markmiða viðbótareftirlits. Við slíkt mat má t.d. líta til eftirfarandi þátta: hlutfall umfangsminna sviðs fjármálamarkaðar er ekki umfram 5% sé það hlutfall mælt samkvæmt meðaltali a- og b-liðar 1. mgr. 4. gr. eða mælt samkvæmt annaðhvort a- eða b-lið 1. mgr. 4. gr., eða markaðshlutdeild félaga á fjármálamarkaði er ekki umfram 5% í þeim aðildarríkjum sem félögin starfa, mælt samkvæmt stærð efnahagsreiknings á fjármálasviði eða samkvæmt brúttó bókfærðum iðgjöldum á vátryggingasviði.
Ákvarðanir samkvæmt þessari grein skulu tilkynntar öðrum lögbærum yfirvöldum eftir því sem við á og tilkynntar opinberlega nema sérstakar aðstæður séu fyrir hendi. Uppfylli samstæða skilyrðin í 4. gr. en samanlögð stærð umfangsminna sviðs samstæðunnar er minna en 6 milljarðar evra, getur Fjármálaeftirlitið ákveðið að tilgreina ekki samstæðuna sem fjármálasamsteypu. Í því tilviki getur Fjármálaeftirlitið einnig ákveðið að beita ekki 24. og 25. gr. ef það telur að beiting þeirra ákvæða sé ekki nauðsynleg eða væri óviðeigandi eða villandi með hliðsjón af markmiðum viðbótareftirlits. 6. gr. Undantekningartilvik við ákvörðun um það hvort samstæða teljist fjármálasamsteypa. Við beitingu 3.-5. gr. geta viðeigandi lögbær yfirvöld í undantekningartilvikum og með samkomulagi, ákveðið að: Undanskilja fyrirtæki frá útreikningi hlutfalla þegar þau falla undir þau tilvik sem mælt er fyrir um í 22. gr. Slík undanþága er ekki heimil, hafi fyrirtæki verið flutt frá aðildarríki til ríkis utan EES og ljóst þykir að fyrirtækið hafi verið flutt til að komast hjá eftirliti. Taka tillit til þess hvort þau mörk sem mælt er fyrir um í 3. og 4. gr. hafi verið uppfyllt í þrjú ár samfellt. Jafnframt má líta framhjá slíku ef umtalsverðar breytingar verða á uppbyggingu samstæðunnar. Undanskilja eitt eða fleiri hlutdeildarfélög sem tilheyrir umfangsminna sviði samstæðunnar ef þau geta ráðið úrslitum um hvort samstæða verði tilgreind fjármálasamsteypa en hagsmunir varðandi viðbótareftirlit teljast smávægilegir.
Þegar fjármálasamsteypa hefur verið tilgreind samkvæmt 3. til 5. gr. skulu ákvarðanir samkvæmt þessari grein teknar á grundvelli tillögu frá samræmingaraðila fjármálasamsteypunnar. 7. gr. Aðrar aðferðir við tilgreiningu á fjármálasamsteypu. Við beitingu 3. og 4. gr. geta viðeigandi lögbær yfirvöld, í undantekningartilvikum og með sameiginlegri ákvörðun, notað eftirtalin viðmið: tekjusamsetningu, starfsemi utan efnahags og eignir í stýringu, sem mælikvarða í stað eða til viðbótar við stærð efnahagsreiknings. Umrædd viðmið er hægt að nota ein og sér eða samanlagt. Þetta á við þegar ofangreind yfirvöld meta að þessir mælikvarðar hafi sérstaka þýðingu fyrir markmið viðbótareftirlits. 8. gr. Samstæða sem uppfyllir ekki lengur skilyrði til að teljast fjármálasamsteypa. Fari hlutfall fjármálastarfsemi skv. 3. gr. undir 40%, skal í næstu 3 ár þar á eftir miðað við 35%. Fari hlutfall mikilvægis fjármálasviðs eða vátryggingasviðs skv. 4. gr. undir 10% skal í næstu 3 ár á eftir miðað við 8%. Fari samanlögð stærð efnahagsreiknings félaga sem falla undir 5. gr. undir 6 milljarða evra skal í næstu 3 ár á eftir miðað við 5 milljarða evra. Á ofangreindu tímabili getur samræmingaraðili í samráði við önnur viðeigandi lögbær yfirvöld ákveðið að fella ofangreind viðmiðunarmörk úr gildi. 9. gr. Skilgreining á stærð efnahagsreiknings. Með stærð efnahagsreiknings í 3.-8. gr. er átt við samanlagða stærð efnahagsreiknings allra félaga í samstæðunni, samkvæmt nýjasta ársreikningi. Taka skal stærðir í hlutdeildarfélögum með í útreikningi í hlutfalli við eignarhald samstæðunnar í félögunum. Nota skal stærðir í efnahagsreikningi samstæðuuppgjörs þar sem það liggur fyrir hjá viðkomandi félögum. 10. gr. Tilgreining lögbærra yfirvalda á fjármálasamsteypu. Lögbær yfirvöld sem veitt hafa eftirlitsskyldum aðilum starfsleyfi skulu tilgreina allar samstæður sem falla undir gildissvið þessara reglna. Í þessu sambandi skulu lögbær yfirvöld sem veitt hafa eftirlitsskyldum aðilum í samstæðunni starfsleyfi hafa með sér samstarf eftir því sem nauðsyn krefur. Ef lögbært yfirvald telur að eftirlitsskyldur aðili sem það hefur veitt starfsleyfi tilheyri fjármálasamsteypu sem ekki hefur verið tilgreind skal það koma því á framfæri við viðeigandi lögbær yfirvöld. 11. gr. Tilkynningar um tilgreiningu fjármálasamsteypu. Samræmingaraðili gerir móðurfélagi samstæðunnar viðvart um að samstæðan hafi verið tilgreind sem fjármálasamsteypa og um tilnefningu samræmingaraðila. Þar sem móðurfélag fer ekki fyrir samstæðunni tilkynnir samræmingaraðilinn þeim eftirlitsskylda aðila sem hefur stærstan efnahagsreikning og starfar á umfangsmeira sviði fjármálamarkaðar samstæðunnar um tilgreiningu í samræmi við 1. mgr. Samræmingaraðili tilkynnir lögbærum yfirvöldum sem hafa veitt eftirlitsskyldum aðilum í samstæðunni starfsleyfi og lögbærum yfirvöldum í því aðildarríki EES þar sem blandað eignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi hefur höfuðstöðvar, auk annarra viðeigandi aðila, um tilgreiningu fjármálasamsteypu. III. KAFLI Umfang viðbótareftirlits með fjármálasamsteypum. 12. gr. Umfang viðbótareftirlits með eftirlitsskyldum aðilum. Til viðbótar við lögbundið eftirlit samkvæmt lagaákvæðum fjármálamarkaðar, mæla reglur þessar fyrir um viðbótareftirlit með eftirlitsskyldum aðilum skv. 1. gr. Auk lögbundins eftirlits samkvæmt viðeigandi lagaákvæðum fjármálamarkaðar skulu eftirtaldir eftirlitsskyldir aðilar sæta viðbótareftirliti á vettvangi fjármálasamsteypu: Allir eftirlitsskyldir aðilar sem fara fyrir fjármálasamsteypu. Allir eftirlitsskyldir aðilar, hvers móðurfélag er blandað eignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi með höfuðstöðvar á EES. Allir eftirlitsskyldir aðilar sem tengjast öðrum aðilum á fjármálamarkaði, í samræmi við 1. tölul. 2. mgr. 1. gr.
Sé fjármálasamsteypa hluti af annarri samstæðu sem telst fjármálasamsteypa í skilningi þessara reglna er Fjármálaeftirlitinu heimilt að ákveða að viðbótareftirlit taki eingöngu til síðarnefndu samstæðunnar. 13. gr. Viðbótareftirlit með samstæðum þar sem móðurfélag er utan EES. Allir eftirlitsskyldir aðilar, sem ekki sæta viðbótareftirliti í samræmi við 12. gr., en móðurfélag þeirra er eftirlitsskyldur aðili eða blandað eignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi með aðalskrifstofu utan EES, skulu sæta viðbótareftirliti á vettvangi fjármálasamsteypu að því marki og á þann hátt sem talið er nauðsynlegt að teknu tilliti til 29. gr. reglna þessara. 14. gr. Viðbótareftirlit með aðilum sem tengjast einstaklingum. Í öðrum tilvikum en þeim sem mælt er fyrir um í 12. og 13. gr., þegar einstaklingar eiga hlutdeild í eða eru í eignatengslum við einn eða fleiri eftirlitsskylda aðila eða hafa umtalsverð áhrif á slíka aðila, án þess að eiga þar hlutdeild eða vera í eignatengslum við slíka aðila, geta viðeigandi lögbær yfirvöld ákveðið með samkomulagi sín á milli og með hliðsjón af gildandi lögum, hvort og að hvaða marki viðbótareftirliti með eftirlitsskyldum aðilum sé beitt á sama hátt og ef þessir aðilar mynduðu saman fjármálasamsteypu. Til að beita slíku viðbótareftirliti verður a.m.k. einn af ofangreindum aðilum að vera eftirlitsskyldur skv. 1. mgr. 1. gr. og skilyrði 3. og 4. tölul. 2. mgr. 1. gr. að vera uppfyllt. Við beitingu 1. mgr. gagnvart samvinnufélögum meta lögbær yfirvöld fjárhagslegar skuldbindingar þessara félaga gagnvart öðrum aðilum á fjármálamarkaði. 15. gr. Eftirlit með starfsemi sem ekki tengist starfsemi fjármálasamsteypu. Að undanskilinni 27. gr. reglna þessara eða annarra ákvæða í lögum, felur viðbótareftirlit með fjármálasamsteypu ekki í sér að lögbærum yfirvöldum beri skylda til þess að hafa eftirlit með starfsemi þeirri sem blönduð eignarhaldsfélög í fjármálastarfsemi, eftirlitsskyldir aðilar utan EES eða fyrirtæki innan fjármálasamsteypu, sem ekki eru eftirlitsskyld, hafa með höndum og tengjast ekki starfsemi fjármálasamsteypu. IV. KAFLI Eftirlit með fjárhagsstöðu fjármálasamsteypa. 16. gr. Gildissvið eftirlits með fjárhagsstöðu. Til viðbótar við lagaákvæði fjármálamarkaðar fer viðbótareftirlit með fjárhagsstöðu eftirlitsskyldra aðila í fjármálasamsteypu eftir ákvæðum 17.-22. gr., 25. gr., 28. gr. og viðauka I við þessar reglur. 17. gr. Eftirlit með fjárhagsstöðu fjármálasamsteypa. Eftirlitsskyldum aðilum sem eru hluti af fjármálasamsteypu ber að tryggja að eiginfjárgrunnur samsteypunnar sé á hverjum tíma eigi lægri en lágmarksgjaldþol samsteypunnar. Eftirlitsskyldir aðilar sem eru hluti af fjármálasamsteypu skulu sjá til þess að fyrir liggi stefna sem kveður á um hvernig kröfur um lágmarksgjaldþol fjármálasamsteypunnar skuli uppfylltar. Samræmingaraðili fylgist með því að skilyrðum 1. og 2. mgr. sé fylgt og að eftirlitsskyldir aðilar eða blandað eignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi framkvæmi a.m.k. árlega athugun á fjárhagsstöðu samkvæmt 1. mgr. Eftirlitsskyldur aðili sem fer fyrir fjármálasamsteypunni, blandað eignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi eða annar aðili sem samræmingaraðili tilnefnir, að höfðu samráði við önnur viðeigandi lögbær yfirvöld, skal senda niðurstöður athugunar samkvæmt þessari grein ásamt viðeigandi gögnum til samræmingaraðila. 18. gr. Aðilar sem teljast með í útreikningi á eiginfjárgrunni og lágmarksgjaldþoli. Aðilar sem teljast til fjármálamarkaðar skv. 5. tölul. 2. gr. skulu teknir með í útreikningi á eiginfjárgrunni og lágmarksgjaldþoli, samkvæmt þessum kafla. 19. gr. Útreikningur á eiginfjárgrunni fjármálasamsteypu. Eiginfjárgrunnur fjármálasamsteypu skal miðast við samstæðuuppgjör. Við mat á hvaða liðir teljast með í útreikningi á eiginfjárgrunni skal miða við 84. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og 31. gr. laga nr. 56/2010 um vátryggingastarfsemi. Takmarkanir í áðurnefndum lagaákvæðum á að telja tiltekna liði með í eiginfjárgrunni miðast við hlutfallslegt vægi hvors þáttar fjármálamarkaðar í heildareiginfjárgrunni samsteypunnar. Við ákvörðun á því hvort eiginfjárgrunnur fjármálasamsteypu nægir ekki til að mæta lágmarksgjaldþoli á samstæðugrundvelli, sbr. 20. gr. þessara reglna, skal eingöngu tekið mið af eiginfjárliðum sem bæði teljast með eiginfjárgrunni skv. 84. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og 31. gr. laga nr. 56/2010 um vátryggingastarfsemi (e. cross-sector capital). Draga skal frá eiginfjárliði sem rekja má til dótturfélaga sem ekki teljast með í samstæðuuppgjöri. Eiginfjárliði sem notaðir eru í fleiri en einu félagi innan samstæðu er eingöngu heimilt að telja einu sinni til eiginfjárgrunns. Eiginfjárliðir sem myndast innan samstæðu á óviðeigandi hátt skulu dragast frá eiginfjárgrunni. Við mat á því hvað telst óviðeigandi skal nota viðmið viðeigandi lagaákvæða fjármálamarkaðar. Við mat á eiginfjárgrunni fjármálasamsteypu skal Fjármálaeftirlitið jafnframt taka tillit til hvort flytja megi eiginfjárliði á milli sviða fjármálamarkaðar. Aðferð sú sem lýst er í þessari grein er í samræmi við aðferð 1 í II. kafla viðauka I við þessar reglur. 20. gr. Útreikningur á lágmarksgjaldþoli fjármálasamsteypu. Lágmarksgjaldþol fjármálasamsteypu fæst með því að leggja saman lágmarks eiginfjárkröfu fjármálafyrirtækja í samsteypunni, skv. 84. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, og lágmarksgjaldþol allra vátryggingafélaga í samsteypunni, skv. 32.-34. gr. laga nr. 56/2010 um vátryggingastarfsemi. Reikna skal ígildi lágmarksgjaldþols fyrir aðila sem ekki eru eftirlitsskyldir. Lágmarksgjaldþol einstakra félaga skal koma inn í útreikning lágmarksgjaldþols samsteypunnar að sama marki og samstæðureikningur nær til viðkomandi félags. Uppfylli eitt eða fleiri dótturfélög innan samstæðunnar ekki kröfur um lágmarksgjaldþol á viðkomandi sviði fjármálamarkaðar, eða ígildi lágmarksgjaldþols, skal draga samtölu þess sem upp á vantar frá lágmarksgjaldþoli fjármálasamsteypu. Samræmingaraðili getur veitt undanþágu frá ákvæði 1. mgr. telji hann að ábyrgð móðurfélags sé skýr og ótvírætt takmörkuð við hlutafjáreignina. Samræmingaraðili í samráði við önnur viðeigandi lögbær yfirvöld tekur ákvörðun um hlutdeild einstakra aðila í lágmarksgjaldþoli samstæðunnar með hliðsjón af skuldbindingum sem tengsl fela í sér í þeim tilvikum þegar ekki er um eignatengsl að ræða milli aðila innan samstæðu. Eiginfjárgrunnur og lágmarksgjaldþol blandaðs eignarhaldsfélags í fjármálastarfsemi skulu reiknuð á samstæðugrundvelli í samræmi við lagaákvæði umfangsmeira sviðs fjármálasamsteypunnar. Sá hluti samstæðunnar sem telst ekki til fjármálamarkaðar er undanskilinn. Aðferð sú sem lýst er í þessari grein er í samræmi við aðferð 1 í II. kafla viðauka I við þessar reglur. 21. gr. Heimild til að nota aðrar aðferðir við útreikning á eiginfjárgrunni og lágmarksgjaldþoli. Starfi fjármálasamsteypa í öðrum ríkjum EES getur Fjármálaeftirlitið í samráði við önnur viðeigandi lögbær yfirvöld heimilað að 19. og 20. gr. um útreikning eiginfjárgrunns og lágmarksgjaldþols eigi ekki við. Samhliða skal ákvarðað að við útreikning eiginfjárgrunns og lágmarksgjaldþols séu notaðar aðferðir 2 eða 3 í II. kafla viðauka I við þessar reglur. 22. gr. Heimild til að undanskilja aðila frá útreikningi eiginfjárgrunns og lágmarksgjaldþols. Samræmingaraðili getur ákveðið að undanskilja aðila frá útreikningi eiginfjárgrunns og lágmarksgjaldþols skv. 19. og 20. gr., ef: aðilinn er staðsettur í ríki utan EES þar sem ætla má að löggjöf hindri aðgang að nauðsynlegum upplýsingum, ef aðilinn hefur óverulega þýðingu fyrir það markmið sem að er stefnt með reglum þessum, eða ef talning aðilans í útreikningi eiginfjárgrunns og lágmarksgjaldþols gefur villandi eða óviðeigandi mynd miðað við markmið reglna þessara.
Ef fleiri en einn aðili eru undanþegnir á grundvelli b-liðar 1. mgr. skal engu að síður telja þá með ef þeir samanlagt teljast ekki hafa óverulega þýðingu. Áður en samræmingaraðili tekur ákvörðun sem byggir á c-lið 1. mgr. skal hann hafa samráð við önnur viðeigandi lögbær yfirvöld, nema brýn nauðsyn standi til annars. Þegar eftirlitsskyldur aðili fellur undir b- eða c-lið 1. mgr. samkvæmt ákvörðun samræmingaraðila skal móðurfélag fjármálasamsteypu, sem hefur höfuðstöðvar á Íslandi, veita lögbærum yfirvöldum annarra ríkja EES sem eftirlit hafa með áðurnefndum eftirlitsskyldum aðila umbeðnar upplýsingar vegna eftirlits með þeim aðilum. 23. gr. Eftirlit með samþjöppun áhættu. Um samþjöppun áhættu eftirlitsskyldra aðila innan fjármálasamsteypu gilda lagaákvæði fjármálamarkaðar auk reglna þessara. Ef blandað eignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi er móðurfélag samsteypunnar, skulu lagaákvæði þess sviðs fjármálamarkaðar sem telst vera umfangsmeira gilda fyrir samsteypuna í heild sinni og fyrir móðurfélagið. Samræmingaraðili skal sérstaklega fylgjast með áhættu vegna smitáhrifa (e. contagion) innan samsteypunnar, hættu á hagsmunaárekstrum, hættu á sniðgöngu á lagaákvæðum fjármálamarkaðar, auk tegundar og umfangs áhættu. Eftirlitsskyldir aðilar eða blandað eignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi innan fjármálasamsteypu skulu reglulega, og minnst árlega, veita samræmingaraðila, á þann hátt og á því formi sem hann ákvarðar, upplýsingar um alla verulega samþjöppun áhættu fjármálasamsteypunnar. Samræmingaraðilinn skal, í samráði við önnur viðeigandi lögbær stjórnvöld, tilgreina þær tegundir áhættu sem einkum skal veita upplýsingar um að teknu tilliti til uppbyggingar og áhættustýringar samstæðunnar. 24. gr. Viðskipti innan samsteypu. Um viðskipti innan samsteypu gilda lagaákvæði fjármálamarkaðar auk reglna þessara. Ef blandað eignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi er móðurfélag samsteypunnar, skulu lagaákvæði þess sviðs fjármálamarkaðar sem telst vera meginstarfsemi fjármálasamsteypunnar gilda fyrir sviðið í heild sinni og fyrir móðurfélagið. Samræmingaraðili skal sérstaklega fylgjast með áhættu vegna smitáhrifa innan samsteypunnar, hættu á hagsmunaárekstrum, hættu á sniðgöngu á lagaákvæðum fjármálamarkaðar, auk tegundar og umfangs áhættu. Eftirlitsskyldir aðilar eða blandað eignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi innan fjármálasamsteypu skulu reglulega, og minnst árlega, veita samræmingaraðila, á þann hátt og á því formi sem hann ákvarðar, upplýsingar um öll umtalsverð viðskipti innan fjármálasamsteypunnar. Samræmingaraðilinn skal, í samráði við önnur viðeigandi lögbær stjórnvöld, tilgreina þær tegundir viðskipta sem einkum skal veita upplýsingar um að teknu tilliti til uppbyggingar og áhættustýringar samstæðunnar. Með umtalsverðum viðskiptum í 3. mgr. er a.m.k. átt við öll viðskipti þar sem fjárhæð fer yfir 5% af lágmarksgjaldþoli fjármálasamsteypunnar. 25. gr. Áhættustýring og innra eftirlit. Eftirlitsskyldir aðilar innan fjármálasamsteypu skulu sjá til þess að innra eftirlit og áhættustýring sé fyrir hendi á samsteypugrundvelli. Áhættustýring fjármálasamsteypu skal vera í samræmi við viðurkenndar aðferðir á viðeigandi sviðum fjármálamarkaðar, m.a. með því að starfsemin samræmist leiðbeinandi tilmælum Fjármálaeftirlitsins eða, eftir atvikum, tilmælum annarra lögbærra yfirvalda. Áhættustýring skal a.m.k. fela í sér eftirfarandi: trausta stjórnun sem felur í sér samþykki og reglulega endurskoðun viðeigandi stjórneininga á áhættustefnu innan fjármálasamsteypunnar, fullnægjandi gjaldþolsstefnu sem tekur tillit til áhrifa viðskiptastefnu á áhættusamsetningu og fjárhagsstöðu, sbr. 16.-22. gr., og fullnægjandi ferla sem tryggja að eftirlit með áhættu sé hluti af skipulagi aðila og að gripið sé til ráðstafana til að tryggja samræmi þeirra kerfa sem notuð eru hjá öllum aðilum innan samsteypu sem falla undir viðbótareftirlit svo unnt sé að mæla, fylgjast með og stýra áhættu fjármálasamsteypunnar.
Innra eftirlit skal a.m.k. fela í sér eftirfarandi: að fullnægjandi aðferðir séu notaðar til þess að afmarka og mæla alla verulega áhættu tengda fjárhagsstöðu og sjá til þess að eiginfjárgrunnur sé í samræmi við áhættu, og að fullnægjandi skýrslugjöf og bókhaldsaðferðir séu fyrir hendi til þess að afmarka, mæla, stýra og hafa eftirlit með viðskiptum innan samstæðu og samþjöppun áhættu á samsteypugrundvelli.
Samræmingaraðili skal fylgjast með að allir aðilar sem falla undir viðbótareftirlit hafi fullnægjandi innra eftirlit sem veitt geti hvers kyns upplýsingar sem nauðsynlegar eru við eftirlit með fjármálasamsteypum. V. KAFLI Sérstök ákvæði um viðbótareftirlit. 26. gr. Samstarf milli lögbærra yfirvalda á EES. Fjármálaeftirlitið og önnur viðeigandi lögbær yfirvöld hafa samstarf um eftirlit með félögum innan fjármálasamsteypu. Í þeim tilvikum sem fjármálasamsteypa starfar í fleiri en einu ríki á EES, tilnefnir Fjármálaeftirlitið ásamt viðeigandi lögbærum yfirvöldum einn samræmingaraðila, sem ber ábyrgð á samræmingu og framkvæmd viðbótareftirlits. Tilnefning samræmingaraðila er ákveðin í samræmi við þau viðmið sem sett eru fram í 10. gr. tilskipunar 2002/87/EB. Um verkefni samræmingaraðilans sem og samvinnu og upplýsingaskipti á milli lögbærra yfirvalda fer eftir þeim viðmiðum sem fram koma í 11. og 12. gr. ofangreindrar tilskipunar. Sé móðurfélag samsteypunnar utan Íslands skal Fjármálaeftirlitið veita þeim lögbæru yfirvöldum sem eftirlit hafa með móðurfélaginu allar upplýsingar, þ.m.t. um aðila sem ekki eru eftirlitsskyldir, sbr. ákvæði 107. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og 3. mgr. 63. gr. laga nr. 56/2010 um vátryggingastarfsemi. Sé móðurfélag samsteypunnar undir eftirliti Fjármálaeftirlitsins skal eftirlitið afla sömu upplýsinga frá viðeigandi lögbærum yfirvöldum annarra félaga í samsteypunni, þ.m.t. um aðila sem ekki eru eftirlitsskyldir. 27. gr. Hæfi stjórnenda. Stjórnarmenn og framkvæmdastjóri blandaðs eignarhaldsfélags í fjármálastarfsemi skulu uppfylla hæfisskilyrði 52. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og 54. gr. laga nr. 56/2010 um vátryggingastarfsemi. 28. gr. Endurskipulagning fjárhags fjármálasamsteypu. Fari eftirlitsskyldir aðilar innan fjármálasamsteypu ekki eftir ákvæðum 16.-25. gr. reglna þessara eða, í þeim tilvikum, þrátt fyrir að uppfylla áðurnefnd ákvæði, kröfu til lágmarksgjaldþols er stefnt í hættu eða gjaldþoli samsteypunnar er ógnað vegna viðskipta innan samsteypu eða samþjöppun áhættu, geta viðeigandi lögbær yfirvöld farið fram á að gripið verði til úrbóta. Viðeigandi lögbær yfirvöld geta, eftir því sem við á, krafið móðurfélag fjármálasamsteypu um áætlun varðandi úrbætur á fjárhag samsteypunnar. Áætlunin skal innihalda m.a.: tillögur að nauðsynlegum aðgerðum, hvernig fyrirhugaðar aðgerðir verndi fjárhagslega hagsmuni innláns- og kröfuhafa og fjárfesta sem og vátryggingavernd vátryggingataka, og tímamörk áætlunarinnar.
Sé endurskipulagning fjárhags ekki möguleg innan tímamarka áætlunarinnar eða fyrirhugaðar aðgerðir eru ekki líklegar til að vernda fjárhagslega hagsmuni innláns- og kröfuhafa og fjárfesta sem og vátryggingavernd vátryggingataka, skulu viðeigandi lögbær yfirvöld, eftir því sem við á, ákveða til hvaða úrræða verði gripið. Með viðeigandi lögbærum yfirvöldum samkvæmt þessari grein er átt við eftirfarandi: samræmingaraðila í tilviki blandaðs eignarhaldsfélags í fjármálastarfsemi, eða viðeigandi lögbært yfirvald sem veitir starfsleyfi í tilviki eftirlitsskylds aðila.
Viðeigandi lögbær yfirvöld, þ.m.t. samræmingaraðili, skulu samræma eftirlitsaðgerðir samkvæmt þessari grein, eftir því sem við á. VI. KAFLI Samskipti við lögbær yfirvöld utan EES. 29. gr. Fjármálasamsteypur þar sem móðurfélagið er utan EES. Fjármálaeftirlitið og önnur lögbær yfirvöld skulu, eftir því sem við á, skera úr um hvort móðurfélag samsteypu með höfuðstöðvar utan EES lúti eftirliti sem er sambærilegt ákvæðum EES. Athugunin skal framkvæmd af því lögbæra yfirvaldi sem telst samræmingaraðili skv. 26. gr. reglna þessara og taka mið af 18. gr. tilskipunar 2002/87/EB. Teljist eftirlit með móðurfélaginu ekki uppfylla kröfur samkvæmt reglum EES skal eftirlit með öðrum félögum vera í samræmi við 13. gr. reglna þessara. Lögbær yfirvöld geta krafist þess að stofnað verði blandað eignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi með höfuðstöðvar á EES og beitt ákvæðum reglna þessara um dótturfélög þess. Um samstarf við lögbær yfirvöld utan EES fer eftir ákvæðum 18. gr. tilskipunar 2002/87/EB og samskiptareglum milli eftirlita innan EES. VII. KAFLI Gildistaka. 30. gr. Reglur þessar eru settar með heimild í 3. mgr. 84. gr. og 3. mgr. 109. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, með áorðnum breytingum, og 7. mgr. 31. gr. og 64. gr. laga nr. 56/2010 um vátryggingastarfsemi, með áorðnum breytingum. Reglurnar innleiða í íslenskan rétt ákvæði tilskipunar 2002/87/EB um viðbótareftirlit með fjármálafyrirtækjum og vátryggingafélögum í fjármálasamsteypu, með áorðnum breytingum samkvæmt tilskipun 2011/89/ESB. Reglur þessar öðlast þegar gildi. Jafnframt falla þá úr gildi reglur nr. 920/2008 um viðbótareftirlit með fjármálasamsteypum. Fjármálaeftirlitinu, 22. janúar 2014. Unnur Gunnarsdóttir. Halldóra E. Ólafsdóttir. VIÐAUKI (sjá PDF-skjal) |