I. KAFLI Fulltrúar háskólasamfélagsins. 1. gr. Tveir fulltrúar háskólasamfélagsins í háskólaráði, tilnefndir af háskólaþingi til tveggja ára, sbr. 1. tölul. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/2008, um opinbera háskóla, skulu valdir skv. ákvæðum 2.-5. gr. þessara reglna. 2. gr. Tilnefning fulltrúa skal tekin á dagskrá háskólaþings skv. útsendu fundarboði. Samtímis því sem fundarboð er sent út þremur vikum fyrir fund skal auglýst eftir ábendingum/framboðum á vef Háskólans. Í fundarboði háskólaþings skal jafnframt lýst eftir ábendingum/framboðum. Þeir einir geta verið í kjöri sem uppfylla ákvæði 3. gr. Enn fremur skal liggja fyrir að þeir sem bent er á séu reiðubúnir að taka tilnefningu. Skulu ábendingar/framboð berast skrifstofu rektors eigi síðar en átta dögum fyrir háskólaþing. Með ábendingar/framboð skal farið sem tillögur til ályktana háskólaþings og skulu þær sendar út með fundarboði, minnst viku fyrir háskólaþing. 3. gr. Sá sem valinn er sem fulltrúi háskólasamfélagsins í háskólaráð skal þegar tilnefning á sér stað, vera akademískur starfsmaður Háskóla Íslands í fullu starfi (a.m.k. 75% starfshlutfalli), en þó hvorki forseti fræðasviðs, deildarforseti, né varadeildarforseti. Skulu upplýsingar um starfsvettvang og stutt lýsing starfsferils (hámark A4 síða) liggja fyrir háskólaþingi, þannig að ljóst sé á hvaða fræðasviði innan skólans þeir starfa, sem valið stendur á milli. 4. gr. Háskólaþing kýs í milli þeirra sem eru í kjöri, sbr. 2. gr., þannig að hver atkvæðisbær fulltrúi á háskólaþingi greiðir skriflega atkvæði sitt með tveimur þeirra. Fulltrúar nemenda á háskólaþingi hafa þó ekki atkvæðisrétt. 5. gr. Sá sem flest atkvæði hlýtur í kjöri á háskólaþingi skal tilnefndur sem fulltrúi í háskólaráð. Jafnframt skal sá tilnefndur sem hlýtur næstflest atkvæði og er áskilið að hann sé starfandi á öðru fræðasviði en sá sem flest atkvæði hlýtur. Varamenn fulltrúanna tveggja eru þeir tveir sem hlotið hafa flest atkvæði að tilnefndum fulltrúum frátöldum. Sá varamaður sem fleiri atkvæði hlýtur er varamaður þess tilnefnds fulltrúa sem flest atkvæði fékk. Ef atkvæði eru jöfn í vali á milli manna skal hlutkesti ráða. Tilnefning er bindandi og er viðkomandi skylt að taka tilnefningu til setu í háskólaráði til tveggja ára. II. KAFLI Fulltrúar nemenda. 6. gr. Fulltrúar tilnefndir í háskólaráð af heildarsamtökum nemenda við Háskóla Íslands, sbr. 2. tölul. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/2008, um opinbera háskóla, skulu valdir skv. ákvæðum 7. og 8. gr. þessara reglna. 7. gr. Tilnefning fulltrúa skal vera í samræmi við niðurstöðu sérstakrar hlutfallskosningar sem fram fer í febrúar annað hvert ár. Kosnir skulu tveir aðalmenn og tveir varamenn til setu í háskólaráði til tveggja ára. 8. gr. Kosningarétt hafa allir skrásettir nemendur Háskóla Íslands. Stúdentaráð Háskóla Íslands annast framkvæmd kosningarinnar. III. KAFLI Gildistaka. 9. gr. Reglur þessar eru settar af háskólaráði skv. heimild í 6. mgr. 6. gr. laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla og taka þegar gildi. Við gildistöku reglna þessara fellur úr gildi 3. gr. reglna nr. 458/2000 fyrir Háskóla Íslands. Ákvæði til bráðabirgða. Kjör fulltrúa nemenda í háskólaráð sem taka á til starfa 1. október 2008 fór fram í febrúar 2008. Háskóla Íslands, 6. október 2008. Kristín Ingólfsdóttir. Þórður Kristinsson. |