Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 104/2009

Nr. 104/2009 30. janúar 2009
REGLUR
um eftirlaunasjóð maka flutningsskyldra starfsmanna utanríkisþjónustu Íslands.

1. gr.

Fyrirkomulag eftirlaunasjóðsins.

Mökum flutningsskyldra starfsmanna utanríkisþjónustu Íslands skal greitt framlag í eftirlaunasjóð á sérstakan fjárvörslureikning hjá banka á meðan starfsmaður er við störf á vegum utanríkisþjónustunnar erlendis, þó ekki lengur en til 70 ára aldurs maka. Greiðslurnar skulu greiddar til þess banka sem ráðuneytið hefur samning við á hverjum tíma.

Rök fyrir greiðslum samkvæmt 1. mgr. eru að vegna tíðra breytinga á búsetu er almennt ekki um það að ræða að makar geti stundað atvinnu eða komið sér upp lífeyrisréttindum þegar þeir fylgja mökum sínum, flutningsskyldum starfsmönnum utanríkisþjónustunnar, til starfa erlendis fyrir íslenska ríkið. Þá hafa einnig verið gerðar breytingar á Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, LSR, sem skerða rétt eftirlifandi maka til lífeyrisréttinda umtalsvert.

2. gr.

Aðild.

Allir makar flutningsskyldra starfsmanna utanríkisþjónustunnar sem eru við störf hjá íslenskum sendiskrifstofum erlendis eiga rétt á greiðslum í eftirlaunasjóð. Aðeins er þó greitt í sjóðinn fyrir þann tíma er maki sjóðfélaga er við störf erlendis og fær greiddar makabætur samkvæmt ákvæðum fyrirmæla- og leiðbeiningabókar utan­ríkis­þjónustunnar.

Makar teljast allir þeir sem eru í hjónabandi með flutningsskyldum starfsmönnum, í staðfestri samvist eða hafa verið skráðir í sambúð samfleytt í a.m.k. eitt ár hjá Þjóðskrá samkvæmt nánari reglum í fyrirmæla- og leiðbeiningabók utanríkisþjónustunnar á hverjum tíma.

Komi til þess að makabætur starfsmanns séu skertar eða felldar niður vegna launaðra starfa maka eða af öðrum ástæðum, skerðast greiðslur í sjóðinn í samræmi við það.

Áður en greiðslur hefjast til maka starfsmanns skv. 1. gr. er gerður samningur um aðild að sjóðnum.

3. gr.

Inngreiðslur, ávöxtun.

Utanríkisráðuneytið skal í desember ár hvert greiða framlag á innlánsreikning á nafni maka hjá banka vegna liðins árs. Fjárhæðin skal vera 11,5% af meðalgrunnlaunum félagsmanna í Félagi starfsmanna stjórnarráðsins og Félagi háskólamenntaðra starfsmanna stjórnarráðsins fyrir hvern mánuð sem maki á rétt á framlaginu skv. ákvæðum 1. mgr. 2. gr.

Meðaltal launa samkvæmt 1. mgr. skal byggt á launum fyrstu sex mánaða þess árs sem greitt er fyrir. Maki sem nýtur greiðslna skv. þessum reglum greiðir ekki mótframlag í sjóðinn. Hafi starfsmaður fengið makabætur hluta úr ári skal greiðslan vera hlutfallsleg miðað við mánuði sem starfsmaður fékk greiddar makabætur.

Eftirlaunasjóðinn skal ávaxta af banka með hæstu fáanlegu vöxtum miðað við lágmarks­áhættu. Sjóðurinn er eign sjóðfélagans, maka starfsmanns í utan­ríkis­þjónustunni, og skal skráður á hans nafn.

4. gr.

Greiðslur úr eftirlaunasjóði.

Greiðslur úr sjóðnum skulu hefjast þegar maki sjóðfélaga lætur af störfum, andast, við skilnað eða við 70 ára aldur sjóðfélaga. Greiðslur skulu þó aldrei hefjast fyrr en við 60 ára aldur sjóðfélagans og eigi síðar en við 70 ára aldur hans. Að uppfylltum framan­greindum skilyrðum er heimilt að greiða út höfuðstól ásamt áföllnum vöxtum. Sjóðfélaga er þó heimilt að dreifa greiðslunum á lengra tímabil.

Ef sjóðfélagi sem á inneign í sjóðnum andast, erfist inneignin samkvæmt erfðalögum án sérstakra kvaða. Má þá greiða út höfuðstólinn ásamt áföllnum vöxtum.

Sjóðfélaga er óheimilt að flytja féð til annarrar bankastofnunar að eigin frumkvæði.

5. gr.

Skattaleg meðferð.

Greiðslur í eftirlaunasjóðinn eru staðgreiðsluskyldar við innborgun, sbr. 1. tölul. 5. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda. Utanríkisráðuneytið sér um inn­heimtu þeirra gjalda.

6. gr.

Almenn ákvæði.

Banki sem annast vörslu innlánsreikninganna á hverjum tíma samkvæmt samningi við utanríkisráðuneytið hefur umsjón með greiðslum úr honum samkvæmt þessum reglum.

Utanríkisráðuneytið sker úr um vafaatriði og ágreiningsmál sem upp kunna að koma við framkvæmd reglna þessara.

7. gr.

Gildistökuákvæði.

Reglur þessar öðlast þegar gildi. Um leið falla úr gildi reglur nr. 321/2004 um eftir­launa­sjóð maka flutningsskyldra starfsmanna utanríkisþjónustu Íslands.

Utanríkisráðuneytinu, 30. janúar 2009.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.

Benedikt Jónsson.

B deild - Útgáfud.: 2. febrúar 2009