Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 670/2012

Nr. 670/2012 12. júlí 2012
REGLUGERÐ
um slysatryggingar við heimilisstörf.

1. gr.

Reglugerð þessi gildir um slysatryggingu við heimilisstörf samkvæmt 30. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007.

Sá sem fyllir út viðeigandi reit á skattframtali í byrjun árs telst slysatryggður við heimilisstörf frá 1. ágúst það ár til 31. júlí árið eftir, enda hafi skattframtalinu verið skilað til skattyfirvalda innan lögbundins frests.

Ekki er unnt að óska eftir slysatryggingu við heimilisstörf eftir að skattyfirvöld hafa móttekið skattskýrslu.

2. gr.

Með slysi er átt við skyndilegan utanaðkomandi atburð sem veldur meiðslum á líkama þess sem tryggður er og gerist án vilja hans.

3. gr.

Slysatryggingin nær til heimilisstarfa, sbr. 4. gr., sem innt eru af hendi hér á landi á heimili hins tryggða og í sumarbústað þar sem hinn tryggði dvelur. Sama á við um heimilisstörf sem stunduð eru í bílskúr og geymslum, afmörkuðum garði og í innkeyrslu umhverfis heimili eða sumarbústað hins tryggða.

4. gr.

Til heimilisstarfa í reglugerð þessari teljast m.a. eftirtalin störf, séu þau ekki liður í atvinnustarfsemi hins tryggða.

1.Hefðbundin heimilisstörf, svo sem matseld og þrif.
2.Umönnun sjúkra, aldraðra og barna.
3.Viðhaldsverkefni og viðgerðir.
4.Hefðbundin garðyrkjustörf.

5. gr.

Undanskilin slysatryggingu við heimilisstörf eru m.a.:

1.Slys sem hinn tryggði verður fyrir við ýmsar persónulegar daglegar athafnir sem ekki teljast til hefðbundinna heimilisstarfa, svo sem að klæða sig, baða og borða.
2.Slys sem hinn tryggði verður fyrir á ferðalögum, svo sem í tjaldi, hjólhýsi og á hóteli.

6. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 70. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, öðlast gildi 1. ágúst 2012. Jafnframt fellur úr gildi frá sama tíma reglugerð nr. 280/2005 um slysatryggingar við heimilisstörf.

Velferðarráðuneytinu, 12. júlí 2012.

Guðbjartur Hannesson.

Ágúst Þór Sigurðsson.

B deild - Útgáfud.: 30. júlí 2012