Ákvörðun iðnaðar- og viðskiptaráðherra samkvæmt auglýsingu þessari er einkum ætlað að vera til hagræðis ríkisborgurum og lögaðilum frá öðrum OECD-ríkjum en þeim sem eru aðilar að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið en getur einnig komið að notum þeim ríkisborgurum og lögaðilum EES-ríkja, aðildarríkja stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyingum og færeyskum lögaðilum sem heimilisfastir eru utan Evrópska efnahagssvæðisins, landsvæðis stofnsamningsins og Færeyja. Þeir ríkisborgarar og lögaðilar EES-ríkja, aðildarríkja stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyingar og færeyskir lögaðilar, sem heimilisfastir eru á Evrópska efnahagssvæðinu, landsvæði stofnsamningsins eða í Færeyjum, njóta þegar undanþágu á grundvelli laga. Í ákvörðuninni, sem geymir undanþágu frá 3., 66., 137. og 140. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög og 3., 42., 111. og 114. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög, felst nánar tiltekið að ríkisborgarar OECD-ríkja, EES-ríkja, aðildarríkja stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyingar þurfa ekki að vera heimilisfastir hér á landi til að geta verið stofnendur, stjórnarmenn og framkvæmdastjórar íslenskra hluta- eða einkahlutafélaga eða útibússtjórar erlendra hluta- eða einkahlutafélaga á Íslandi heldur nægir að ríkisborgararnir séu heimilisfastir í einhverju OECD-ríkja, EES-ríkja, aðildarríkja stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyjum. Þá þurfa hlutafélög og önnur félög og stofnanir, sem standa að stofnun hluta- eða einkahlutafélaga hér á landi og vísað er til í 3. gr. hluta- og einkahlutafélagalaga, ekki að vera heimilisföst hér á landi heldur nægir að þau séu heimilisföst í OECD-ríki, EES-ríki, aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyjum. Loks geta erlend hluta- og einkahlutafélög og félög í samsvarandi lagalegu formi, sem eiga lögheimili og varnarþing í einhverju OECD-ríkja, EES-ríkja, aðildarríkja stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyjum, stundað starfsemi með rekstri útibús hér á landi. Í vafatilvikum getur hlutafélagaskrá, sem umsóknir um skráningu hluta- eða einkahlutafélaga eru sendar til, þó borið einstök mál undir iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Eftirtalin OECD-ríki, EES-ríki, aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu og Færeyja falla undir undanþágureglu laga og auglýsingarinnar samkvæmt framansögðu miðað við 1. september 2013: Austurríki | Ísrael | Portúgal | Ástralía | Ítalía | Pólland | Bandaríkin | Japan | Rúmenía | Belgía | Kanada | Síle | Bretland | Kórea (Suður-Kórea) | Slóvakía | Búlgaría | Króatía | Slóvenía | Danmörk | Kýpur | Spánn | Eistland | Lettland | Sviss | Finnland | Liechtenstein | Svíþjóð | Frakkland | Litháen | Tékkland | Færeyjar | Lúxemborg | Tyrkland | Grikkland | Malta | Ungverjaland | Holland | Mexíkó | Þýskaland | Írland | Noregur | | Ísland | Nýja Sjáland | |
Auglýsing þessi, sem gefin er út skv. 158. gr., sbr. 3., 66., 137. og 140. gr., laga nr. 2/1995 um hlutafélög og 135. gr., sbr. 3., 42., 111. og 114. gr., laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög, öðlast þegar gildi. Um leið fellur úr gildi auglýsing nr. 364/2009 um almenna undanþágu frá búsetuskilyrðum hlutafélagalöggjafarinnar. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 6. september 2013. | F. h. iðnaðar- og viðskiptaráðherra, | Valgerður Rún Benediktsdóttir. |
Sigurbjörg S. Guðmundsdóttir. |