Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 725/2010

Nr. 725/2010 6. september 2010
SAMÞYKKT
um breytingu á samþykkt um stjórn Fjarðabyggðar og fundarsköp bæjarstjórnar nr. 250/2010.

1. gr.

48. gr. samþykktarinnar sem ber fyrirsögnina „Hlutverk bæjarráðs“ verður svohljóðandi:

Bæjarráð fer ásamt bæjarstjóra með framkvæmdastjórn bæjarins, fjármálastjórn og starfsmannastjórn, að því leyti sem slík stjórn er ekki öðrum falin. Bæjarráð hefur umsjón með stjórnsýslu, framkvæmdum og fjármálum bæjarins. Bæjarráð hefur umsjón með undirbúningi árlegrar fjárhagsáætlunar, undirbýr frumvarp að fjárhagsáætlun bæjarsjóðs og bæjarfyrirtækja að fengnum tillögum hlutaðeiganda nefnda og stjórna og ákveður skiptingu rekstrarfjármuna til einstakra málaflokka samkvæmt frumvarpi að fjárhagsáætlun. Þá sér bæjarráð um, að ársreikningar bæjarsjóðs séu samdir og þeir séu ásamt ársreikningum bæjarfyrirtækja lagðir fyrir bæjarstjórn til afgreiðslu, eins og sveitarstjórnarlög mæla fyrir um. Undir bæjarráð heyra brunamál sem og önnur mál A-hluta stofnana og B-hluta fyrirtækja sem ekki eru falin öðrum í samþykkt þessari eða öðrum samþykktum bæjarstjórnar. Bæjarráð ber ábyrgð á forgangsröðun framkvæmda, gjaldskrám veitustofnana og vinabæjarsamskiptum.

Bæjarráð gerir tillögur til bæjarstjórnar um afgreiðslu einstakra mála, sem það fær til meðferðar. Bæjarráði er heimil fullnaðarafgreiðsla mála, sem ekki varða verulega fjárhag bæjarsjóðs eða stofnana hans, enda sé ekki ágreiningur milli bæjarráðsmanna eða við bæjarstjóra um slíka afgreiðslu. Bæjarráð skal hafa til viðmiðunar að stefnu­markandi og fordæmisgefandi málefni séu afgreidd með fullnaðarákvörðun bæjarstjórnar ef ekki liggja fyrir reglur, samþykktir, stefnumörkun eða áætlanir staðfestar af bæjar­stjórn.

Bæjarstjórn getur falið bæjarráði fullnaðarafgreiðslu mála nema lög mæli fyrir á annan veg.

Heimilt er að bóka einstök mál sem tekin eru fyrir í bæjarráði í sérstaka trúnaðarbók, svo sem ef um er að ræða viðkvæm einkamál manna eða viðskiptamál. Til viðmiðunar um hvenær það getur átt við skal litið til upplýsingalaga nr. 50/1996.

2. gr.

55. gr. samþykktarinnar sem ber fyrirsögnina „Fullnaðarafgreiðsla“ verður svohljóðandi:

Í því skyni að stuðla að hagræðingu, skilvirkni og hraðri málsmeðferð getur bæjarstjórn ákveðið með viðauka við samþykkt þessa að fela nefnd, ráði eða stjórn fullnaðarafgreiðslu mála sem ekki varða verulega fjárhag bæjarsjóðs ef lög eða eðli máls mæla ekki sérstaklega gegn því sbr. viðauka nr. 1.0 – 5.0, sem birtir eru með samþykkt þessari

Á sama hátt og með sömu skilyrðum er bæjarstjórn heimilt að fela embættismönnum innan stjórnsýslu Fjarðabyggðar fullnaðarafgreiðslu mála, sbr. viðauka nr. 6.0 sem birtur er með samþykkt þessari.

Bæjarstjórn, bæjarráð eða hlutaðeigandi nefnd skal hafa eftirlit með afgreiðslu mála samkvæmt 1. og 2. mgr. og kalla eftir reglulegum skýrslum um ákvarðanir sem teknar eru á grundvelli hennar.

Sá aðili sem fengið hefur framselt vald til fullnaðarafgreiðslu samkvæmt 2. mgr., eða þriðjungur fulltrúa ef um nefnd, ráð eða stjórn er að ræða, samanber 1. mgr., getur ávallt óskað eftir því að bæjarstjórn, bæjarráð eða viðkomandi nefnd samkvæmt samþykktum um stjórn Fjarðabyggðar og fundarsköp bæjarstjórnar taki ákvörðun í máli.

Þegar bæjarstjórn neytir heimildar samkvæmt 1. eða 2. mgr. skal jafnframt kveðið á um það hvernig fara skuli með endurupptöku mála sem hljóta afgreiðslu samkvæmt þessum ákvæðum.

Heimildir nefnda, ráða og stjórna til fullnaðarafgreiðslu mála eru háðar því að samþykktir þeirra sem hafa í för með sér útgjöld séu innan heimilda í fjárhagsáætlun fyrir viðkomandi málaflokk.

3. gr.

58. gr. samþykktarinnar sem ber fyrirsögnina „Nefndir, ráð, stjórnir, embættismenn: Tilnefningar, skipanir og kosningar“ verður svohljóðandi:

A. Nefndir og stjórnir. Hér er um að ræða fagnefndir og stjórnir, sem sinna faglegu starfi á grundvelli sérstakra samþykkta sem staðfestar eru í bæjarstjórn. Kjörtímabil nefndanna er almennt hið sama og bæjarstjórnar. Bæjarstjórn kýs formann og varaformann við kosningu nefndar. Bæjarstjórn ákveður verkefni þeirra með nánari samþykkt, í samræmi við lög og reglur sem um störf þeirra gilda.

Fagnefndir undirbúa stefnumörkun í málefnum sem þeim eru falin. Nefndirnar hafa umsjón með verkefnum sem falla undir verksvið þeirra og að framkvæmd þeirra samræmist stefnumörkun bæjarstjórnar í viðkomandi málaflokki og sé innan heimilda í fjárhagsáætlun. Við undirbúning ákvarðana og önnur störf nefnda skulu þær njóta faglegs stuðnings frá starfsmönnum þannig að ákvarðanir stjórnkerfis Fjarðabyggðar uppfylli kröfur laga og séu í samræmi við góða stjórnsýsluhætti.

Bæjarstjórn kýs í eftirtaldar nefndir, ráð og stjórnir:

a-hluti - skipan til eins árs.

  1. Bæjarráð. Kjósa skal þrjá fulltrúa í bæjarráð til eins árs í senn í samræmi við 43. gr. samþykktar þessarar.

b-hluti - skipan til fjögurra ára á fyrsta eða öðrum fundi nýkjörinnar bæjarstjórnar.

  1. Atvinnu- og menningarnefnd. Bæjarstjórn kýs fimm fulltrúa og jafnmarga til vara í atvinnu- og menningarnefnd. Hlutverk hennar er m.a. mörkun stefnu í atvinnuþróunarmálum, þ.m.t. menningar- og ferðamálum og í kynningar- og markaðsmálum, ábyrgð á samskiptum við hagsmunaaðila í atvinnuþróunarmálum, þ.m.t. við fyrirtæki í Fjarðabyggð og þá sem ábyrgð bera á atvinnuþróunarmálum af hálfu ríkis og landshlutasamtaka. Þá ber nefndin ábyrgð á safnastarfi bæjarfélagsins og samskiptum við þá aðila sem vinna að menningarmálum. Nefndinni ber að styrkja stöðu Fjarða­byggðar sem áfangastaðar ferðalanga og vinna að undirbúningi viðburða og hátíða í samvinnu við hagsmunaaðila. Jafnframt hefur nefndin eftirlit með að samþykktum og stefnumörkun á verksviði nefndarinnar sé fylgt og fer með önnur þau verkefni sem bæjarráð ákveður.
  2. Barnaverndarnefnd. Bæjarstjórn kýs fimm fulltrúa og jafnmarga til vara í barnaverndarnefnd. Um verkefni barnaverndarnefndar fer samkvæmt barnaverndarlögum nr. 80/2002 og barnalögum nr. 76/2003. Nefndin skal móta stefnu bæjarins í barnaverndarmálum og taka ákvarðanir á verksviði sínu. Jafnframt hefur nefndin eftirlit með að samþykktum og stefnumörkun á verksviði hennar sé fylgt.
  3. Félagsmálanefnd. Bæjarstjórn kýs fimm fulltrúa og jafnmarga til vara í félagsmálanefnd. Nefndin mótar stefnu bæjarins í velferðarþjónustu s.s. félags- og öldrunarmálum og í jafnréttismálum. Nefndin skal taka ákvarð­anir og gera tillögur til bæjarráðs um málefni á verksviði sínu. Jafnframt hefur nefndin eftirlit með að samþykktum og stefnumörkun á verksviði hennar sé fylgt. Þá fer nefndin með önnur þau verkefni sem bæjar­ráð ákveður.
  4. Fræðslu- og frístundanefnd. Bæjarstjórn kýs fimm fulltrúa og jafnmarga til vara í fræðslu- og frístundanefnd. Nefndin annast stefnumótun í fræðslu- og menntamálum og íþrótta- og æskulýðsmálum. Nefndin skal vinna að samhæfingu skólastarfs í Fjarðabyggð, stuðla að virku íþrótta- og æskulýðsstarfi og virkja félagsauðinn í sveitarfélaginu. Nefndin skal taka ákvarðanir og gera tillögur til bæjarráðs um málefni á verksviði sínu. Jafnframt hefur nefndin eftirlit með að samþykktum og stefnumörkun á verksviði nefndarinnar sé fylgt. Þá fer nefndin með önnur þau verkefni sem bæjarráð ákveður.
  5. Hafnarstjórn. Bæjarstjórn kýs fimm fulltrúa og jafnmarga til vara í hafnar­stjórn samkvæmt lögum um hafnamál. Hlutverk og verkefni hafnar­stjórnar eru lögbundin en jafnframt ákveðin í sérstakri samþykkt sem bæjarstjórn setur um störf hennar.
  6. Eigna-, skipulags- og umhverfisnefnd. Bæjarstjórn kýs fimm fulltrúa og jafnmarga til vara í eigna-, skipulags- og umhverfisnefnd. Nefndin skal móta stefnu bæjarins varðandi mannvirki og umsjón þeirra, náttúruvernd og umhverfismál, þ.m.t. meðferð úrgangs, skipulags- og byggingarmál og samgöngu- og umferðaröryggismál. Nefndin skal taka ákvarðanir og gera tillögur til bæjarráðs um málefni á verksviði sínu. Jafnframt hefur nefndin eftirlit með að samþykktum og stefnumörkun á verksviði hennar sé fylgt. Þá fer nefndin með önnur þau verkefni sem bæjarráð ákveður.
  7. Landbúnaðarnefnd. Landbúnaðarnefnd skal fjalla um fjallskilamál, búfjár­eftirlit og girðingamál í umboði umhverfis- og skipulagsnefndar. Í landbún­aðarnefnd sitja fimm fulltrúar kosnir af umhverfis- og skipulags­nefnd. Umhverfis- og skipulagsnefnd gerir tillögu til bæjarstjórnar að samþykkt um hlutverk og verkefni landbúnaðarnefndar.
  8. Ungmennaráð. Ungmennaráð skal starfa í samræmi við ákvæði 11. gr. æskulýðslaga nr. 70/2007. Hlutverk þess er m.a. að vera bæjarstjórninni til ráðgjafar um málefni ungs fólks í sveitarfélaginu. Fræðslu- og frístunda­nefnd gerir tillögu til bæjarstjórnar um verklagsreglur varðandi val í ungmenna­ráðið og verkefni þess.
  9. Kjörstjórnir. Bæjarstjórn kýs þrjá fulltrúa og jafnmarga til vara í yfirkjörstjórn, samkvæmt lögum um kosningar til sveitarstjórna og lögum um kosningar til Alþingis. Kjörstjórn kýs sér oddvita og ritara úr sínum hópi. Ennfremur kýs bæjarstjórn undirkjörstjórnir jafnmargar og kjördeildir eru sem skipaðar eru þremur aðalmönnum og þremur varamönnum. Kjör­stjórnir fara með þau verkefni sem þeim eru falin samkvæmt ákvæðum laga um kosningar til sveitarstjórna og lögum um kosningar til Alþingis.

B. Stjórnir og samstarfsnefndir. Hér er um að ræða stjórnir stofnana með sjálf­stæðan fjárhag og tilnefningar í samstarfsnefndir, sem hafa endanlegt ákvörðunarvald í málefnum sínum, þ.e. þurfa ekki staðfestingu bæjarstjórnar til að koma málum í framkvæmd. Kjörtímabil þeirra er hið sama og bæjarstjórnar nema kveðið sé á um annað í lögum.

  1. Almannavarnanefnd. Bæjarstjórn skipar fulltrúa í almannavarnanefnd á fyrsta eða öðrum fundi nýkjörinnar bæjarstjórnar og er kjörtímabil hennar hið sama og bæjarstjórnar. Samkvæmt lögum um almannavarnir nr. 82/2008 felst hlutverk nefndarinnar í stefnumótun og skipulagningu starfs að almannavörnum í héraði. Nefndin vinnur að gerð hættumats og viðbragðsáætlana í samvinnu við ríkislögreglustjóra. Sýslumaður á sæti í almannavarnanefnd ásamt fulltrúum úr sveitarstjórn og þeim fulltrúum sem sinna verkefnum í þágu hins almenna borgara. Almannavarnanefnd kýs sér sjálf formann og varaformann.
  2. Stjórn Náttúrustofu Austurlands. Bæjarráð skipar einn aðalfulltrúa og annan til vara í þriggja manna stjórn Náttúrustofu Austurlands. Þá velur bæjarráð stjórninni formann í samráði við bæjarráð Fljótsdalshéraðs. Náttúrustofan starfar samkvæmt ákvæðum laga og reglugerða um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur.
  3. Stjórn Kirkju- og menningarmiðstöðvarinnar. Bæjarstjórn skipar einn fulltrúa, og annan til vara, í stjórn Kirkju- og menningarmiðstöðvarinnar að fenginni tilnefn­ingu atvinnu- og menningarnefndar.
  4. Starfskjaranefndir. Bæjarstjórn skipar fulltrúa í starfskjaranefndir eftir ákvæðum kjarasamninga og samþykkta frá launanefnd sveitarfélaga.
  5. Stjórn Lífeyrissjóðs Neskaupstaðar. Samkvæmt ákvæðum reglugerðar um Lífeyrissjóð Neskaupstaðar er bæjarstjóri formaður stjórnar. Jafnframt skipar bæjarstjórn einn aðalfulltrúa og annan til vara í stjórn sjóðsins.

C. Tilnefningar og kosningar.

Kosnir fulltrúar á ársþing og ársfundi stofnana, sem bærinn á aðild að. Kjörtímabil þeirra er hið sama og bæjarstjórnar nema kveðið sé á um annað og skal kosning fara fram á fyrsta eða öðrum fundi nýkjörinnar bæjarstjórnar eða í júní ár hvert vegna þeirra tilnefninga sem gilda skemur.

a. kosnir af bæjarstjórn.

  1. Landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga. Samkvæmt lögum um Samband íslenskra sveitarfélaga kýs bæjarstjórn aðal- og varafulltrúa á landsþing sambandsins.
  2. Fulltrúaráð Eignarhaldsfélags Brunabótafélags Íslands. Bæjarstjórn kýs aðal- og varafulltrúa í fulltrúaráð Eignarhaldsfélags Brunabótafélags Íslands.
  3. Samband sveitarfélaga á Austurlandi. Bæjarstjórn kýs aðal- og varafulltrúa á aðalfund Sambands sveitarfélaga á Austurlandi, samkvæmt lögum sambandsins. Fulltrúar bæjarfélagsins eru kosnir á fyrsta eða öðrum fundi nýkjörinnar bæjarstjórnar og síðan í júní ár hvert vegna næstkomandi aðalfundar.

b. tilnefningar staðfestar af bæjarstjórn.

  1. Fulltrúaráð Skólaskrifstofu Austurlands. Samkvæmt stofnsamningi Skóla­skrifstofu Austurlands og eftir tilnefningu fræðslu- og frístundanefndar skipar bæjarstjórn aðal- og varafulltrúa í fulltrúaráð og er kjörtímabil þeirra hið sama og bæjarstjórnar.
  2. Fulltrúaráð Héraðsskjalasafns Austfirðinga. Samkvæmt stofnsamningi Héraðsskjalasafns Austfirðinga og eftir tilnefningu atvinnu- og menn­ingar­nefndar skipar bæjarstjórn aðal- og varafulltrúa í fulltrúaráð safns­ins og er kjörtímabil þeirra hið sama og bæjarstjórnar.
  3. Menningarráð Austurlands. Bæjarstjórn kýs fulltrúa á aðalfund og jafn­marga til vara, samkvæmt samþykktum ráðsins, að fenginni tillögu atvinnu- og menningarnefndar.
  4. Stjórn Sjóminjasafns Austurlands. Bæjarstjórn skipar fulltrúa í stjórn Sjóminjasafns Austurlands samkvæmt stofnsamningi þess og eftir tilnefningu atvinnu- og menningarnefndar.
  5. Stjórn Smiðju- og sjóminjasafns Jósafats Hinrikssonar. Bæjarstjórn skipar fulltrúa í stjórn safnsins samkvæmt stofnsamningi þess og eftir tilnefningu atvinnu- og menningarnefndar.

D. Samkvæmt lögum skal bæjarstjórn kjósa í eftirtalin verkefni:

  1. Skoðunarmenn bæjarsjóðsreikninga. Bæjarstjórn kýs tvo skoðunarmenn og jafnmarga til vara, samkvæmt 69. gr. sveitarstjórnarlaga. Skoðunarmenn bæjarsjóðsreikninga eru kosnir á fyrsta fundi nýkjörinnar bæjarstjórnar til loka kjörtímabils bæjarstjórnar.
  2. Fjallskilastjórar. Bæjarstjórn kýs fjallskilastjóra eftir tilnefningu landbúnaðar­nefndar, samanber ákvæði fjallskilasamþykktar fyrir Múlasýslur.

E. Verkefnabundnar nefndir. Bæjarstjórn getur skipað nefndir til að vinna að afmörkuðum verkefnum. Umboð slíkra nefnda fellur sjálfkrafa niður við lok kjörtímabils bæjarstjórnar eða fyrr ef verki nefndar er lokið. Bæjarstjórn getur afturkallað umboð slíkra nefnda hvenær sem er.

Samþykkt þessi, sem bæjarstjórn Fjarðabyggðar hefur sett samkvæmt ákvæðum 10. gr. og 25. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998, staðfestist hér með til að öðlast þegar gildi.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, 6. september 2010.

F. h. r.

Hermann Sæmundsson.

Stefanía Traustadóttir.

VIÐAUKAR
(sjá PDF-skjal)

B deild - Útgáfud.: 23. september 2010