Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1263/2008

Nr. 1263/2008 19. desember 2008
REGLUGERÐ
um flutningaflug flugvéla.

1. gr.

Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er að kveða á um til aukins flugöryggis samræmdar kröfur til starfrækslu flugvéla í flutningaflugi.

2. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi tekur til flutningaflugs í almenningsflugi með íslenskum og erlendum flugvélum sem íslenskur flugrekandi notar eða ræður yfir í samræmi við ákvæði OPS 1.1001 í viðauka I við reglugerð þessa. Afmörkuð ákvæði viðauka I taka gildi samkvæmt ákvæðum viðaukans og leysa þá af hólmi þau ákvæði í viðauka II.

Um skilyrði til útgáfu flugrekstrarleyfis vísast til reglugerðar um veitingu flugrekstrar­leyfa, markaðsaðgang flugrekenda, fargjöld og farmgjöld í flugþjónustu innan Evrópska efnahagssvæðisins.

Sérstök reglugerð hefur verið sett um ákvæði Q-kafla í viðauka I við reglugerð þessa. Sjá reglugerð um flug- og vinnutímamörk og hvíldartíma flugverja.

3. gr.

Lögbært yfirvald.

Flugmálastjórn Íslands fer með eftirlit á grundvelli reglugerðar þessarar.

4. gr.

Leiðbeiningarefni o.fl.

Flugmálastjórn Íslands skal taka saman og viðhalda með samræmdum hætti þeim leiðbeiningum, skýringum og heimildum, þ.m.t. veittum frávikum og undanþágum frá ákvæðum reglugerðarinnar sem veittar eru af hálfu stofnunarinnar vegna reglugerðar þessarar og Eftirlitsstofnunar EFTA. Upplýsingarnar skulu settar fram í aðgengilegu formi á heimasíðu Flugmálastjórnar Íslands.

5. gr.

Trúnaðarmenn Flugmálastjórnar.

Eftirfarandi kröfur eru gerðar til trúnaðarmanna Flugmálastjórnar Íslands í starfi hjá flugrekanda:

  1. Flugrekstrarstjóri skal vera flugmaður að mennt eða hafa sambærilega menntun á flugsviði. Flugrekstrarstjóri skal hafa hlotið viðurkenningu Flugmálastjórnar til starfsins og hafa gengist undir sérstakt próf hjá Flugmálastjórn til þess að sanna hæfni sína.
    Flugrekstrarstjóri skal bera ábyrgð á flugrekstrarstjórn í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar.
  2. Tæknistjóri skal hafa flugvéltæknimenntun eða aðra sambærilega menntun. Tæknistjóri skal hafa hlotið viðurkenningu Flugmálastjórnar til starfsins og hafa gengist undir sérstakt próf hjá Flugmálastjórn til þess að sanna hæfni sína. Tæknistjóri ber ábyrgð á viðhaldi í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar.
  3. Gæðastjóri skal hafa aflað sér þekkingar á gæðastjórnun og gæðamálum sem Flugmálastjórn metur nægilega. Gæðastjóri ber ábyrgð á gæðakerfi flugrekanda og virkni þess í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar.

Flugrekstrarstjóri og tæknistjóri bera sameiginlega ábyrgð á skipulagningu þeirrar starfsemi sem tengir flugrekstur og viðhald og á því að koma á fót eftirliti og hafa stöðugt eftirlit með endingu og bilunum einstakra hluta.

Ef flugrekstrarstjóri, tæknistjóri eða gæðastjóri láta af störfum hjá flugrekanda eða hyggjast gera það, ber ábyrgðarmanni flugrekanda að tilkynna það tafarlaust til Flug­mála­stjórnar og sækja jafnframt um viðurkenningu á eftirmanni. Starfsemi flugrekanda má ekki halda áfram án leyfis Flugmálastjórnar fyrr en nýr flugrekstrarstjóri, tæknistjóri og gæðastjóri hefur hafið störf hjá flugrekanda. Flugrekstrarstjóri, tæknistjóri eða gæðastjóri mega tilnefna staðgengil í fjarveru sinni. Leita ber viðurkenningar Flugmálastjórnar fyrirfram á hlutaðeigandi staðgengli.

Flugmálastjórn er heimilt að áskilja að fyrirsvarsmenn flugrekanda þ.e. ábyrgðarmaður, flugrekstrarstjóri, tæknistjóri og gæðastjóri sanni kunnáttu sína og hæfni með sérstakri próftöku. Að fenginni viður­kenningu Flugmálastjórnar Íslands ber þeim að starfa sem sérstakir trúnaðarmenn stofnunarinnar og skal mat Flugmálastjórnar varðandi viður­kenningu þeirra meðal annars grundvallast á þeim forsendum. Komi í ljós að kunnátta eða hæfni fyrirsvarsmanns sem hlotið hefur viðurkenningu sé ábótavant eða fyrirsvarsmaður brýtur trúnað við Flugmálastjórn getur hún fellt viðurkenningu sína niður til bráðabirgða eða að fullu. Flugmálastjórn skal eiga endanlegt mat um viðurkenningu á trúnaðarmönnum.

6. gr.

Geðvirk efni.

Hver sá sem hefur á hendi störf sem varða sjálft öryggi flugsins (starfsmenn í öryggis­tengdum störfum), skal ekki gegna starfa sínum ef hann hefur neytt einhverra geðvirkra efna fyrir eða eftir flug, sem rýra starfshæfni hans. Slíkum starfsmönnum skal óheimil hvers konar misnotkun geðvirkra efna. Sjá einnig 1. lið d-liðar og e-lið OPS 1.085 í viðauka I við reglugerð þessa.

7. gr.

Varaflugvellir ákvörðunarstaðar á Íslandi og Grænlandi.

Þrátt fyrir ákvæði c-liðar OPS 1.295 í I. viðauka reglugerðar þessarar, þegar fljúga á í samræmi við blindflugsreglur innanlands eða til Íslands, skal í leiðarflugáætlun og í flugáætlun fyrir flugumferðarþjónustu (ATS) tilgreina að minnsta kosti einn varaflugvöll. Sama gildir um flug innan eða til Grænlands.

8. gr.

Undanþágur.

Um meðferð undanþágubeiðna vegna ákvæða í viðauka I og II er nánar kveðið á um í 8. gr. fylgiskjals við reglugerð um samræmingu á tæknikröfum og stjórnsýslumeðferð á sviði flugmála, sbr. 5. tl. OPS 1.1090 í viðauka I við reglugerð þessa.

9. gr.

Viðurlög.

Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða refsingu samkvæmt 141. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998 með síðari breytingum.

10. gr.

Innleiðing.

Með reglugerð þessari öðlast gildi hér á landi eftirtaldar reglugerðir Evrópuþingsins og ráðsins og framkvæmdastjórnarinnar með þeim breytingum og viðbótum sem leiðir af XIII. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, bókun 1 um altæka aðlögun og öðrum ákvæðum hans:

  1. Reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1899/2006 frá 12. desember 2006 um breytingu á reglugerð ráðsins nr. 3922/91 um samræmingu á tæknikröfum og stjórnsýslumeðferð á sviði flugmála, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndar­innar nr. 120/2007, birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi EB nr. 9, bls. 36;
  2. Reglugerð ráðsins (EB) nr. 8/2008 frá 11. desember 2007 um breytingu á reglu­gerð ráðsins nr. 3922/91 um samræmingu á tæknikröfum og stjórnsýslu­meðferð á sviði flugmála, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 70/2008, birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi EB nr. 58, bls. 15 og
  3. Reglugerð ráðsins (EB) nr. 859/2008 frá 20. ágúst 2008 um breytingu á reglugerð ráðsins nr. 3922/91 um samræmingu á tæknikröfum og stjórnsýslumeðferð á sviði flugmála.

11. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt 7. mgr. 28. gr., 31. gr., 4. mgr. 37. gr., 80. gr., 85. gr. a, sbr. 145. gr. laga nr. 60/1998 um loftferðir og tekur gildi 1. febrúar 2009. Samhliða fellur úr gildi reglugerð nr. 193/2006 um flutningaflug með síðari breytingum.

Samgönguráðuneytinu, 19. desember 2008.

Kristján L. Möller.

Ragnhildur Hjaltadóttir.

VIÐAUKAR
(sjá PDF-skjal)

B deild - Útgáfud.: 22. janúar 2009