1. gr. Um friðlýsinguna. Umhverfisráðherra hefur í samræmi við Náttúruverndaráætlun 2004-2008 og að tillögu Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands með samþykki sveitarfélagsins Bólstaðarhlíðarhrepps ákveðið að friðlýsa Guðlaugstungur, Svörtutungur og Álfgeirstungur (Ásgeirstungur) sem friðland í samræmi við 1. tölulið 1. mgr. 53. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999. Við ákvörðun um friðlýsingu þessa var höfð hliðsjón af samningnum um verndun villtra plantna og dýra og lífsvæða í Evrópu (Bern 1979) sbr. Stjórnartíðindi C 17/1993, samningnum um líffræðilega fjölbreytni (Ríó de Janeiró 1992) sbr. Stjórnartíðindi C 3/1995 og samþykkt um votlendi sem hafa alþjóðlegt gildi, einkum fyrir fuglalíf (Ramsar 1971) sbr. Stjórnartíðindi C 1/1978. 2. gr. Markmið friðlýsingarinnar. Markmiðið með friðlýsingu Guðlaugstungna, Svörtutungna og Álfgeirstungna sem friðlands er að vernda víðfeðmt og gróskumikið votlendi og eitt stærsta og fjölbreyttasta rústasvæði landsins. Svæðið er mikilvægt varp- og beitiland heiðagæsar og hefur alþjóðlegt náttúruverndargildi vegna fjölda gæsa sem það nýtir. 3. gr. Mörk friðlandsins. Mörk friðlandsins eru eftirfarandi: Frá ármótum Haugakvíslar og Blöndu (punktur 1), suður með bökkum Blöndu í Skiptahól (punktur 2), þaðan að Blöndujökli (punktar 3 og 4), þaðan með jökuljaðrinum um Kvíslajökul að sveitarfélagsmörkum Bólstaðarhlíðarhrepps og Sveitarfélagsins Skagafjarðar (punktur 5), síðan með sveitarfélagsmörkum norður að Sátu (punktur 6), frá Sátu sjónhending í Hraungarðshaus (punktur 7), þaðan að Lambamannalæk (punktur 8) og með honum og síðan Haugakvísl í Blöndu. Hnit eru gefin upp bæði í ISN93 kerfi og WGS84. Mörk svæðisins eru sýnd á meðfylgjandi korti. | ISN93 | WGS84 | Punktur: | x-hnit | y-hnit | x-hnit | y-hnit | 1 | 474403,918 | 515828,748 | -19,545500 | 65,140991 | 2 | 483054,798 | 483295,779 | -19,357221 | 64,849733 | 3 | 493642,990 | 473847,218 | -19,133592 | 64,765347 | 4 | 493749,017 | 473914,935 | -19,131367 | 64,765956 | 5 | 498849,188 | 488489,887 | -19,024303 | 64,896752 | 6 | 497183,180 | 492543,883 | -19,059566 | 64,933107 | 7 | 487987,306 | 501009,165 | -19,254745 | 65,008835 | 8 | 486668,496 | 501902,132 | -19,282796 | 65,016795 |
4. gr. Verndun gróðurs, dýralífs, o.fl. Óheimilt er að spilla gróðri, trufla dýralíf og hrófla við jarðmyndunum og öðrum náttúruminjum í friðlandinu. 5. gr. Landnotkun og mannvirkjagerð. Mannvirkjagerð, jarðrask og aðrar breytingar á landi, svo og breytingar á rennsli vatna og vatnsborðshæð, eru óheimilar nema til komi leyfi Umhverfisstofnunar og sveitarstjórnar Bólstaðarhlíðarhrepps. Heimilt er að halda við mannvirkjum, svo sem skálum og vegum (sbr. kort á fylgiskjali), eins og verið hefur og lýst er í verndaráætlun. Óheimilt er að urða sorp í friðlandinu. 6. gr. Uppgræðsla. Uppgræðsla lands til að hindra uppblástur og græða örfoka land, samkvæmt samningi Bólstaðarhlíðarhrepps og Sveitarfélagsins Skagafjarðar við Landsvirkjun, helst svo sem verið hefur. Þó skal tryggt að uppgræðslan raski ekki líffræðilegum fjölbreytileika á svæðinu. 7. gr. Umferð í friðlandinu. Umferð vélknúinna ökutækja í friðlandinu er aðeins leyfð á vegum. Þó er heimilt að aka vélknúnum ökutækjum á snævi þakinni og frosinni jörðu svo fremi að ekki skapist hætta á náttúruspjöllum, sbr. 17. gr. laga, um náttúruvernd, nr. 44/1999. Almenningi er heimil för um friðlandið og dvöl þar í lögmætum tilgangi og er öllum skylt að ganga vel og snyrtilega um svæðið. Þó er umferð um varplönd heiðagæsar bönnuð á tímabilinu 1. maí til 20. júní, á svæði norðan línu sem dregin er frá Blöndu við Skiptahól (punktur 2) og sjónhendingu í Hraungarðshaus (punktur 7), sjá kort. Ríðandi mönnum er heimil för um svæðið á hefðbundnum leiðum og afmörkuðum áningarstöðum. Hrossabeit er bönnuð nema í viðurkenndum áningarhólfum. Heimilt er að fara á reiðhjólum um friðlandið en fylgja skal vegum svo ekki hljótist af náttúruspjöll. Reglur þessar hagga ekki hefðbundnum rétti bænda til umferðar vegna nytja og leita á svæðinu. Um upprekstur á svæðið fer eftir reglum, sem stjórn afréttarmála og umhverfisnefnd setja og lýst er í verndaráætlun. Óheimilt er að vera með lausa hunda í friðlandinu þar sem lausir hundar geta truflað dýralíf þ.m.t. sauðfé. 8. gr. Veiði og notkun skotvopna. Veiði í ám og vötnum er óheimil án sérstaks leyfis í samræmi við lög og reglur heiðadeildar Veiðifélags Blöndu og Svartár. Notkun skotvopna er bönnuð á svæðinu nema til refa- og minkaveiða og eyðingar á dýrum sem valda tjóni í samræmi við verndaráætlun og lög um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, nr. 64/1994. 9. gr. Umsjón friðlandsins o.fl. Umsjón friðlandsins skal vera í höndum þriggja manna umsjónarnefndar. Sveitarfélagið tilnefnir tvo og Umhverfisstofnun einn og er sá formaður nefndarinnar. Skipunartími fulltrúa Umhverfisstofnunar er sá sami og kjörtímabil fulltrúa sveitarfélagsins. Umhverfisstofnun er heimilt að setja sérstakar reglur um umgengni svo sem er varða almenna útivist, tjöldun, förgun sorps og gæludýr í friðlandinu í samræmi við tillögu umsjónarnefndar. Kostnaður vegna yfirstjórnar og umsjónar með friðlandinu greiðist af Umhverfisstofnun. Umhverfisráðherra getur veitt heimild til þess að vikið verði frá reglum þessum í einstökum tilfellum að fenginni umsögn Umhverfisstofnunar. 10. gr. Refsiákvæði. Brot gegn friðlýsingu þessari varðar sektum eða fangelsi allt að tveimur árum. 11. gr. Gildistaka. Friðlýsingin öðlast þegar gildi. Umhverfisráðuneytinu, 22. desember 2005. Sigríður A. Þórðardóttir. Magnús Jóhannesson. Fylgiskjal. (sjá PDF-skjal) |