Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 33/2013

Nr. 33/2013 27. mars 2013
LÖG
um neytendalán.

FORSETI ÍSLANDS
gjörir kunnugt: Alþingi hefur fallist á lög þessi og ég staðfest þau með samþykki mínu:

I. KAFLI
Almenn ákvæði.
1. gr.
Gildissvið.
    Lög þessi taka til lánssamninga sem lánveitandi gerir í atvinnuskyni við neytendur.

2. gr.
Takmarkanir á gildissviði.
    Um yfirdráttarheimild, sbr. t-lið 5. gr., sem greiða þarf innan þriggja mánaða eða þegar lánveitandi krefst þess, gilda aðeins 1.–5. gr., 1. mgr. 6. gr., a–c-liður 2. mgr. 6. gr., 1.–3. mgr. 8. gr., 9.–11. gr., 1., 4. og 5. mgr. 12. gr., 14. gr., 17. gr., 19. gr., 21.–22. gr. og 26.–36. gr.
    Um ósamþykktan yfirdrátt, sbr. n-lið 5. gr., gilda aðeins 1.–5. gr., 20. gr. og 27.–36. gr.
     Um skilmálabreytingu láns, þ.e. frestun greiðslna eða breyttar greiðsluaðferðir, sökum þess að neytandi á í greiðsluerfiðleikum gilda aðeins 1.–6., 8., 9. og 11. gr., 1. mgr. 12. gr., a–i-liður 2. mgr. 12. gr., l-liður 2. mgr. 12. gr., r-liður 2. mgr. 12. gr., 4. mgr. 12. gr., 13. gr., 15. gr., 18. gr., 20.–22. gr. og 26.–36. gr., en ekki önnur ákvæði laga þessara, að eftirfarandi skilyrðum uppfylltum:
    a.    slíkt fyrirkomulag er líklegt til að koma í veg fyrir mögulegan málarekstur vegna vanskila og
    b.    neytandi þarf ekki að hlíta óhagstæðari skilmálum en þeim sem er mælt fyrir um í upphaflegum lánssamningi.
    Ef samkomulag skv. 3. mgr. felur í sér lánssamning í skilningi 1. mgr. gilda einungis þau ákvæði sem talin eru upp í 1. mgr. um lánssamninginn.

3. gr.
Undanþágur.
    Undanþegnir lögum þessum eru:
    a.    Lánssamningar sem kveða á um endurgreiðslu innan þriggja mánaða og bera lægri árlega hlutfallstölu kostnaðar en meðaltal innlánsvaxta almennra sparisjóðsbóka samkvæmt vaxtatöflu Seðlabankans.
    b.    Lánssamningar sem fela í sér endurgreiðslu án vaxta og kostnaðar.
    c.    Lánssamningar sem vinnuveitandi veitir starfsmönnum sínum í aukastarfsemi, vaxtalaust eða með árlegri hlutfallstölu kostnaðar sem er lægri en markaðsvextir og að jafnaði ekki í boði fyrir almenning.
    d.    Leigusamningar. Lög þessi gilda þó um eignaleigusamninga um lausafé og fasteignir.
    e.    Yfirdráttarheimildir sem endurgreiða þarf innan eins mánaðar, sbr. þó 6. mgr. 8. gr.
    f.    Samningar við lánastofnanir, í skilningi laga um fjármálafyrirtæki, sem eru gerðir í þeim tilgangi að neytandi eigi möguleika á því að eiga viðskipti með fjármálagerninga, í skilningi laga um verðbréfaviðskipti, þegar lánastofnunin sem veitir lánið á hlut að þeim viðskiptum.
    g.    Samningar sem eru gerðir vegna dómsáttar skv. XV. kafla laga um meðferð einkamála eða sáttar fyrir yfirvöldum.
    h.    Samningar um frestun greiðslu afborgunar skuldar án þess að til komi viðbótarkostnaður.
    i.     Samningar þar sem ábyrgð neytanda takmarkast eingöngu við veðsetningu handveðs, í skilningi laga um samningsveð, sem hann hefur lagt fram.
    j.     Samningar sem eru veittir takmörkuðum fjölda aðila samkvæmt lögum með almannahagsmuni í huga og með lægri vöxtum en markaðsvöxtum eða með öðrum hagstæðari skilmálum en almennt gilda á markaði.
    Ákvæði 1. mgr. gilda þó ekki um samninga sem eru gerðir í því skyni að halda þeim utan gildissviðs laga þessara, svo sem ef form samnings er valið eingöngu í þeim tilgangi að hann falli utan gildissviðs laganna.

4. gr.
Frávik.
    Heimilt er að víkja frá ákvæðum laga þessara til hagsbóta fyrir neytanda.

5. gr.
Skilgreiningar.
    Í lögum þessum og reglugerðum settum á grundvelli þeirra er merking hugtaka sem hér greinir:
    a.    Árleg hlutfallstala kostnaðar: Heildarlántökukostnaður, lýst sem árlegum hundraðshluta af heildarfjárhæð láns þess sem veitt er og reiknað út í samræmi við ákvæði 21. gr.
    b.    Eignarréttarfyrirvari: Þegar við kaup á hlut er samið um að lánveitandi sé eigandi hlutar þar til andvirði hans er að fullu greitt samkvæmt lánssamningi og að lánveitandi geti endurheimt hlutinn ef kaupandi uppfyllir ekki skyldur sínar samkvæmt samningi.
    c.    Fastir útlánsvextir: Þegar lánveitandi og neytandi samþykkja í lánssamningi sömu útlánsvexti á öllu lánstímabilinu eða mismunandi útlánsvexti á mismunandi tímabilum samnings þar sem eingöngu er notað fast, tiltekið hlutfall. Ef ekki eru allir útlánsvextir ákvarðaðir í lánssamningi skulu þeir aðeins teljast fastir útlánsvextir á þeim tímabilum þegar útlánsvextir eru eingöngu ákvarðaðir með föstum tilteknum hundraðshluta sem er samþykktur við gerð lánssamnings.
    d.    Greiðslumat: Útreikningur á greiðslugetu lántaka miðað við eignir, skuldir, gjöld og tekjur, sem m.a. byggjast á opinberum neysluviðmiðum.
    e.    Heildarfjárhæð láns: Hámarksfjárhæð sem er heimilt að nýta samkvæmt lánssamningi.
    f.    Heildarfjárhæð sem neytandi greiðir: Samanlögð heildarfjárhæð lánsins og heildarlántökukostnaður neytanda.
    g.    Heildarlántökukostnaður: Allur kostnaður, þ.m.t. vextir, verðbætur , þóknun, skattar og önnur gjöld sem neytandi þarf að greiða í tengslum við lánssamning og lánveitanda er kunnugt um við samningsgerð, að frátöldum þinglýsingarkostnaði. Kostnaður vegna viðbótarþjónustu í tengslum við lánssamning, einkum vátryggingariðgjöld, er einnig tekinn með í útreikninginn ef skylda er að gera viðbótarþjónustusamning til að lánið fáist eða til að fá það með auglýstum skilmálum og kjörum.
    h.    Lánamiðlari: Einstaklingur eða lögaðili sem starfar ekki sem lánveitandi og í atvinnuskyni gegn fjárhagslegum ávinningi kynnir eða býður neytendum lánssamninga, aðstoðar neytendur með því að taka að sér undirbúningsvinnu fyrir lánssamninga eða gerir lánssamninga við neytendur fyrir hönd lánveitanda.
    i.    Lánshæfismat: Mat lánveitanda á lánshæfi lántaka byggt á upplýsingum sem eru til þess fallnar að veita áreiðanlegar vísbendingar um líkindi þess hvort lántaki geti efnt lánssamning. Lánshæfismat skal byggt á viðskiptasögu aðila á milli og/eða upplýsingum úr gagnagrunnum um fjárhagsmálefni og lánstraust. Lánshæfismat felur ekki í sér greiðslumat nema slíkt sé áskilið sérstaklega.
    j.    Lánssamningur: Samningur þar sem lánveitandi veitir eða lofar að veita neytanda lán, greiðslufrest eða sambærilega fjárhagslega fyrirgreiðslu og neytandi lofar að greiða samkvæmt ákvæðum samnings. Undanskildir eru þó samningar um veitingu endurtekinnar þjónustu eða afhendingu sams konar vöru þar sem neytandi greiðir afborganir af slíkri þjónustu eða vöru svo lengi sem hún er látin í té.
    k.    Lánveitandi: Einstaklingur, lögaðili eða hópur sem veitir eða lofar að veita lán í atvinnuskyni.
    l.     Neytandi: Einstaklingur sem á lánaviðskipti sem lög þessi ná til, enda séu þau ekki gerð í atvinnuskyni af hans hálfu.
    m.   Opinn lánssamningur: Lánssamningur þar sem neytanda er gert kleift að fá endurtekna fyrirgreiðslu innan umsaminnar úttektarheimildar.
    n.    Ósamþykktur yfirdráttur: Yfirdráttur þar sem lánveitandi veitir neytanda án sérstaks samþykkis möguleika á aðgangi að fjárhæð umfram inneign á veltureikningi neytandans eða samþykkta yfirdráttarheimild.
    o.    Stýrivextir: Vextir af lánum sem Seðlabanki Íslands veitir, sbr. 10. gr. laga nr. 36/2001, um Seðlabanka Íslands.
    p.    Tengdur lánssamningur: Lánssamningur þar sem viðkomandi lán þjónar eingöngu þeim tilgangi að fjármagna samning um veitingu sérstakrar vöru eða sérstakrar þjónustu og birgir eða þjónustuveitandi fjármagnar sjálfur lánið eða, þar sem þriðji aðili fjármagnar lánið, ef lánveitandi notar þjónustu birgis eða þjónustuveitanda í tengslum við gerð eða undirbúning lánssamnings eða þegar sérstök vara eða veiting sérstakrar þjónustu er sérstaklega tilgreind í lánssamningi.
    q.    Útlánsvextir: Vextir, tilgreindir sem fast eða breytilegt hlutfall, sem á ársgrundvelli eru lagðir á lánsfjárhæð.
    r.    Varanlegur miðill: Tæki sem gerir neytanda kleift að geyma upplýsingar, sem beint er til hans persónulega, óbreyttar þannig að hann geti afritað þær og flett upp í þeim í hæfilegan tíma.
    s.    Veltureikningur: Óbundinn innlánsreikningur með eða án úttektarheimildar umfram inneign sem neytandi notar sem næst daglega, svo sem til viðtöku launa, annarra tekna og lánsfjár og til greiðslu neysluvöru, þjónustu, reglulegra útgjalda og hvers konar fjárfestinga. Reikningur sem stofnaður er gagngert og einvörðungu til að veita lán í formi úttektar umfram inneign, eftir atvikum til sérgreindrar fjárfestingar eða afmarkaðra viðskipta, telst ekki veltureikningur.
    t.     Yfirdráttarheimild: Lánssamningur þar sem lánveitandi veitir neytanda aðgang að fjárhæð umfram inneign á veltureikningi neytandans.

II. KAFLI
Upplýsingar og starfsvenjur áður en lánssamningur er gerður.
6. gr.
Upplýsingar sem eiga að koma fram í auglýsingum og öðru kynningarefni.
    Í öllum auglýsingum og kynningarefni um lánssamninga þar sem neytandi er upplýstur um vexti eða kostnað hans af láninu skulu koma fram staðlaðar upplýsingar í samræmi við þessa grein.
    Veita skal upplýsingar á skýran, hnitmiðaðan og áberandi hátt með lýsandi dæmi um:
    a.    útlánsvexti, fasta eða breytilega eða hvort tveggja, ásamt nákvæmri lýsingu á öllum kostnaði sem er innifalinn í heildarlántökukostnaði neytanda,
    b.    heildarfjárhæð láns sem unnt er að veita miðað við gefnar forsendur og, ef við á, lánshlutfall,
    c.    árlega hlutfallstölu kostnaðar,
    d.    ef við á, gildistíma lánssamningsins,
    e.    staðgreiðsluverð vöru eða þjónustu og fjárhæð útborgunar, þegar umrædd vara eða þjónusta er ekki greidd að fullu við afhendingu, og
    f.     ef við á, heildarfjárhæð sem neytandi þarf að greiða og fjárhæð afborgana.
    Ef skylt er að gera samning um viðbótarþjónustu í tengslum við lánssamning, einkum vátryggingar, til að fá lánið eða fá það með auglýstum skilmálum og skilyrðum, og ekki er unnt að ákvarða kostnað við þá þjónustu fyrir fram, skal ásamt árlegri hlutfallstölu kostnaðar einnig tilgreina, á skýran og áberandi hátt, þá skyldu að gera samning um viðbótarþjónustu.
    Um upplýsingaskyldu lánamiðlara gilda einnig ákvæði VI. kafla.

7. gr.
Upplýsingar áður en samningur er gerður.
    Lánveitandi skal með eðlilegum fyrirvara veita neytanda nauðsynlegar upplýsingar til þess að hann geti borið saman ólík tilboð og tekið upplýsta ákvörðun um það hvort gera skuli lánssamning áður en neytandi er bundinn af lánssamningi eða tilboði. Þessar upplýsingar skulu veittar á grundvelli lánsskilmála, skilyrða lánveitanda og, ef við á, fram kominna óska og upplýsinga frá neytanda.
    Slíkar upplýsingar skal veita á pappír eða öðrum varanlegum miðli, á stöðluðu eyðublaði sem birt er í reglugerð sem ráðherra setur.
    Lánveitandi telst hafa uppfyllt kröfur um upplýsingar skv. 5.–6. gr. laga nr. 33/2005, um fjarsölu á fjármálaþjónustu, ef hann hefur veitt upplýsingar á stöðluðu eyðublaði skv. 2. mgr.
    Í upplýsingum skal eftirfarandi koma fram:
    a.    tegund láns,
    b.    nafn, kennitala og heimilisfang lánveitanda og lánamiðlara, ef við á,
    c.    heildarfjárhæð láns og skilyrði fyrir nýtingu þess,
    d.    gildistími lánssamnings,
    e.    um hvaða vöru eða þjónustu er að ræða og staðgreiðsluverð hennar, þegar um er að ræða lán í því formi að greiðslu sérstakrar vöru eða þjónustu er frestað og tengda lánssamninga,
    f.     útlánsvextir, skilyrði um beitingu þeirra og, ef við á, vísitala eða viðmiðunarvextir sem geta haft áhrif á upphaflega útlánsvexti, svo og tímabil, skilyrði og málsmeðferð við breytingu á útlánsvöxtunum; gildi mismunandi útlánsvextir við mismunandi aðstæður skal veita áðurnefndar upplýsingar um þá alla,
    g.    árleg hlutfallstala kostnaðar og heildarfjárhæð sem neytandi greiðir, útskýrt með lýsandi dæmi þar sem fram koma allar forsendur sem eru notaðar við útreikning á hlutfallstölunni; ef neytandi hefur upplýst lánveitanda um einn eða fleiri þætti þess láns sem hann helst kýs, svo sem gildistíma lánssamnings og heildarfjárhæð láns, skal lánveitandi taka tillit til þeirra þátta; ef lánssamningur býður upp á mismunandi leiðir með mismunandi kostnaði eða útlánsvöxtum skal lánveitandi miða við hæsta kostnað og vexti vegna algengustu lánssamninga og greina frá því að aðrar forsendur geti leitt til hærri árlegrar hlutfallstölu kostnaðar,
    h.    fjárhæð, fjöldi og tíðni greiðslna sem neytandi þarf að standa skil á og, ef við á, með hvaða hætti greiðslum verður skipt á hinar ýmsu útistandandi skuldir með mismunandi útlánsvöxtum þegar um endurgreiðslu er að ræða,
    i.     ef við á, kostnaður við að hafa eina eða fleiri lánalínur þar sem bæði greiðslufærslur og nýting lána eru skráð, nema valfrjálst sé að opna lánalínu, ásamt kostnaði við notkun greiðsluleiða, bæði fyrir greiðslufærslur og nýtingu lána, annar kostnaður vegna lánssamnings og forsendur fyrir því að unnt sé að breyta þessum kostnaði,
    j.    ef við á, kostnaður sem neytandi kann að þurfa að greiða vegna þinglýsingar eða skráningar lánssamnings,
    k.    skuldbinding, ef einhver er, um að gera samning um viðbótarþjónustu í tengslum við lánssamning, einkum vátryggingar, ef gert er að skyldu að gera slíkan samning til að geta fengið lán eða fá það með auglýstum skilmálum og skilyrðum,
    l.     gildandi vextir þegar um er að ræða greiðslu eftir gjalddaga og fyrirkomulag á breytingu á þeim og, ef við á, kostnaður sem greiða þarf vegna vanskila,
    m.   afleiðingar vangoldinna greiðslna,
    n.    ef við á, tilskildar tryggingar,
    o.    hvort réttur til að falla frá samningi er fyrir hendi eða ekki,
    p.    réttur til greiðslu fyrir gjalddaga og, ef við á, upplýsingar varðandi rétt lánveitanda til bóta og á hvaða hátt þær bætur verða ákvarðaðar í samræmi við 18. gr.,
    q.    réttur neytanda til að fá þegar í stað upplýsingar, honum að kostnaðarlausu, um niðurstöður leitar í gagnagrunni sem er gerð í þeim tilgangi að meta greiðslu- og lánshæfi hans skv. 2. mgr. 11. gr.,
    r.    réttur neytanda til að fá, samkvæmt beiðni og honum að kostnaðarlausu, afrit af drögum að lánssamningi; þetta ákvæði gildir ekki ef lánveitandi er, þegar beiðnin er lögð fram, ófús að gera lánssamning við neytanda, og
    s.    ef við á, tímabilið sem lánveitandi er bundinn af upplýsingum sem veittar eru áður en samningur er gerður.
    Allar viðbótarupplýsingar sem lánveitandi veitir neytanda skulu veittar í sérstöku skjali sem má vera viðauki við staðlað eyðublað sem ráðherra birtir í reglugerð, sbr. 2. mgr.
    Þegar um er að ræða sölu eða markaðssetningu í síma í skilningi 9. gr. laga nr. 33/2005, um fjarsölu á fjármálaþjónustu, skal í lýsingu á helstu einkennum fjármálaþjónustu sem skal veita skv. 2. tölul. 2. mgr. 9. gr. sömu laga tiltaka að lágmarki þau atriði sem eru tilgreind í c–f- og h-lið 4. mgr., ásamt árlegri hlutfallstölu kostnaðar, útskýrt með viðeigandi dæmi og heildarfjárhæð sem neytanda ber að greiða.
    Ef samningurinn hefur verið gerður að beiðni neytanda með fjarskiptaaðferð í skilningi 3. tölul. 4. gr. laga nr. 33/2005, um fjarsölu á fjármálaþjónustu, sem gerir það ókleift að veita upplýsingarnar í samræmi við 1.–4. mgr., einkum í tilvikum skv. 6. mgr., skal lánveitandi, þegar í stað eftir gerð samnings, veita neytanda allar upplýsingar sem veita skal áður en samningur er gerður, á stöðluðu eyðublaði sem ráðherra birtir í reglugerð, sbr. 2. mgr.
    Auk staðlaðs eyðublaðs skv. 2. mgr. skal neytandi fá, samkvæmt beiðni og honum að kostnaðarlausu, afrit af drögum að lánssamningi. Þetta ákvæði gildir ekki ef lánveitandi er, þegar beiðnin er lögð fram, ófús að gera lánssamning við neytanda.
    Ef um er að ræða lánssamning þar sem greiðslur neytanda leiða ekki þegar í stað til samsvarandi lækkunar á heildarfjárhæð láns, en eru í stað þess notaðar til að hækka eða viðhalda höfuðstól á tímabilum og við aðstæður sem mælt er fyrir um í lánssamningi eða í viðbótarsamningi, skulu upplýsingar, sem veita skal áður en samningur er gerður og gerð er krafa um í 1.–4. mgr., fela í sér skýra og hnitmiðaða yfirlýsingu um að slíkir lánssamningar tryggi ekki endurgreiðslu á heildarfjárhæð láns, sem greitt er út samkvæmt lánssamningi, nema slík ábyrgð sé sérstaklega veitt.
    Lánveitandi, og eftir atvikum lánamiðlari, skal veita neytanda skýringar svo að hann geti tekið afstöðu til þess hvort lánssamningur, sem í boði er, sé lagaður að þörfum og fjárhagsstöðu hans. Þessi skylda lánveitanda felur í sér að útskýra upplýsingar sem veita skal áður en samningur er gerður í samræmi við 1.–4. mgr. og 1. mgr. 25. gr., helstu einkenni þeirra lánssamninga sem í boði eru og þær sérstöku afleiðingar sem slíkir samningar geta haft fyrir neytanda, þ.m.t. afleiðingarnar af vanskilum hans á afborgunum.

8. gr.
Kröfur um upplýsingar fyrir og við gerð tiltekinna lánssamninga í formi yfirdráttarheimildar og tiltekinna sérstakra lánssamninga.
    Lánveitandi og, ef við á, lánamiðlari skal, nægilega löngu áður en neytandi verður bundinn af lánssamningi eða tilboði varðandi lánssamning, sbr. 1. eða 3. mgr. 2. gr., á grundvelli lánsskilmála og skilyrða lánveitanda og, ef við á, sérstakra óska og upplýsinga frá neytanda, veita neytanda nauðsynlegar upplýsingar til að geta borið saman ólík tilboð og tekið upplýsta ákvörðun um það hvort gera skuli lánssamning.
    Í viðkomandi upplýsingum skal eftirfarandi koma fram:
    a.    tegund láns,
    b.    auðkenni og heimilisfang lánveitanda, svo og auðkenni og heimilisfang lánamiðlara sem í hlut á, ef við á,
    c.    heildarfjárhæð láns og skilyrði fyrir nýtingu þess,
    d.    gildistími lánssamnings,
    e.    útlánsvextir, skilyrðin sem gilda um beitingu þeirra vaxta, vísitölu eða viðmiðunarvaxta sem gilda um upphaflega útlánsvexti, kostnaður frá þeim tíma þegar lánssamningur er gerður og, ef við á, skilyrði fyrir því að unnt sé að breyta kostnaði,
    f.    árleg hlutfallstala kostnaðar, skýrt með lýsandi dæmum þar sem fram koma allar forsendur sem eru notaðar við útreikning á hlutfallstölu,
    g.    skilyrði og málsmeðferð ef lánssamningi er sagt upp,
    h.    þegar um er að ræða lánssamninga skv. 1. mgr. 2. gr., ef við á, upplýsingar um að hvenær sem er megi krefja neytanda um endurgreiðslu allrar lánsfjárhæðar,
    i.     gildandi vextir þegar um er að ræða greiðslu eftir gjalddaga og fyrirkomulag við breytingu á þeim og, ef við á, annar kostnaður sem greiða þarf vegna vanskila,
    j.     réttur neytanda til að fá þegar í stað upplýsingar, honum að kostnaðarlausu, um niðurstöður leitar í gagnagrunni sem er gerð í þeim tilgangi að meta greiðslugetu og lánshæfi hans skv. 2. mgr. 11. gr.,
    k.    þegar um er að ræða lánssamninga skv. 1. mgr. 2. gr., upplýsingar um þann kostnað sem hefur orðið frá þeim tíma þegar slíkir samningar eru gerðir og, ef við á, forsendur fyrir því að unnt sé að breyta þeim kostnaði,
    l.     ef við á, tímabilið sem lánveitandi er bundinn af því að veita upplýsingar áður en samningur er gerður.
    Veita skal upplýsingar skv. 1. mgr. á pappír eða með öðrum varanlegum miðli og allar upplýsingar skulu vera jafnáberandi. Veita má þær með því að nota staðlað eyðublað sem ráðherra birtir í reglugerð, sbr. 2. mgr. 7. gr. Lánveitandi telst hafa uppfyllt kröfur um upplýsingar samkvæmt þessari málsgrein og skv. 5.–6. gr. laga nr. 33/2005, um fjarsölu á fjármálaþjónustu, ef hann hefur veitt lánsupplýsingar á stöðluðu eyðublaði, sbr. 2. mgr. 7. gr.
    Þegar um er að ræða lánssamninga skv. 3. mgr. 2. gr. skulu upplýsingarnar, sem eru veittar neytanda í samræmi við 1. mgr. þessarar greinar, einnig fela í sér:
    a.    fjárhæð, fjölda og tíðni greiðslna sem neytandi þarf að standa skil á og, ef við á, með hvaða hætti greiðslum verður skipt á hinar ýmsu útistandandi skuldir með mismunandi útlánsvöxtum þegar um endurgreiðslu er að ræða, og
    b.    réttinn til greiðslu fyrir gjalddaga og, ef við á, upplýsingar um rétt lánveitanda til bóta og á hvaða hátt þær bætur verða ákvarðaðar.
    Þegar um er að ræða samskipti í síma og þegar neytandi óskar eftir því að fá yfirdráttarheimild þegar í stað skal lýsing á helstu einkennum fjármálaþjónustu a.m.k. fela í sér þau atriði sem um getur í c-lið, e–f-lið og h-lið 2. mgr. Auk þess skal lýsingin á helstu einkennum í lánssamningum skv. 4. mgr. fela í sér upplýsingar um gildistíma lánssamnings.
    Þrátt fyrir undanþáguna sem kveðið er á um í e-lið 1. mgr. 3. gr. skulu kröfur 1. málsl. 5. mgr. gilda um lánssamninga í formi yfirdráttarheimildar og þegar greiða þarf lánið innan eins mánaðar.
    Auk upplýsinga skv. 1.–5. mgr. skal neytandi fá, samkvæmt beiðni og honum að kostnaðarlausu, afrit af drögum að lánssamningi sem hafa að geyma þær upplýsingar um samning sem kveðið er á um í 12. gr., að svo miklu leyti sem hún á við. Þetta ákvæði gildir ekki ef lánveitandi er, þegar beiðnin er lögð fram, ófús að gera lánssamning við neytanda.
    Ef samningur hefur verið gerður að beiðni neytanda með fjarskiptaaðferð í skilningi 3. tölul. 4. gr. laga nr. 33/2005, um fjarsölu á fjármálaþjónustu, sem gerir ókleift að veita upplýsingar í samræmi við 1.–4. mgr., einkum í tilvikum skv. 5. mgr., skal lánveitandi þegar í stað eftir gerð samnings uppfylla skyldur sínar skv. 1.–4. mgr. með því að veita upplýsingar um samning skv. 12. gr., að svo miklu leyti sem hún á við.

9. gr.
Undantekningar frá kröfum um upplýsingagjöf áður en samningur er gerður.
    Vöru- eða þjónustuveitendur sem hafa lánamiðlun sem aukastarf eru ekki bundnir af ákvæðum 7.–8. gr. Þessi undanþága hefur ekki áhrif á skyldu lánveitanda til að tryggja að neytandi fái þær upplýsingar sem veita skal áður en samningur er gerður og um getur í þessum greinum.

10. gr.
Lánshæfis- og greiðslumat.
    Áður en samningur um neytendalán er gerður skal lánveitandi meta lánshæfi neytanda.
    Lánveitandi skal, auk lánshæfismats skv. 1. mgr., framkvæma greiðslumat við lánveitingu ef fjárhæð lánssamnings er 2.000.000 kr. eða meira. Þegar um hjón eða sambúðarfólk er að ræða skal framkvæma greiðslumat áður en lánssamningur að fjárhæð 4.000.000 kr. eða meira er gerður.
    Óheimilt er að veita lántaka lán ef mat á lánshæfi eða greiðslumat leiðir í ljós að hann hafi augljóslega ekki fjárhagslega burði til þess að standa í skilum með lánið. Víkja má frá ákvæði þessu ef virði veða eða annarra trygginga sem lántaki leggur fram er meira á þeim tíma þegar lánið er veitt en heildarfjárhæð láns enda sé lántaki upplýstur um mat lánveitanda. Lánveitandi ber ekki ábyrgð á því ef lántaki framvísar röngum upplýsingum vegna framkvæmdar lánshæfis- eða greiðslumats, nema hann viti, eða eðlilegt þyki með tilliti til aðstæðna að hann hafi mátt vita, að upplýsingarnar séu rangar.
    Ef óskað er eftir hærri lánsheimild en áður hefur verið veitt eða framlengingu lánstíma skal endurnýja lánshæfis- og, ef við á, greiðslumat. Ekki þarf þó að endurnýja mat ef hækkun lánssamnings nemur 500.000 kr. eða lægri fjárhæð eða framlenging varir lengst til þriggja mánaða.
    Ráðherra setur reglugerð um nánari framkvæmd lánshæfis- og greiðslumats, þ.m.t. um hvaða gagna skal líta til, skráningu og uppfærslu gagna, endurgreiðslutímabil, neysluviðmið og undanþágur.

III. KAFLI
Aðgangur að gagnagrunni.
11. gr.
Aðgangur að gagnagrunni.
    Við lánveitingu yfir landamæri skulu lánveitendur frá öðrum aðildarríkjum hafa aðgang að þeim gagnagrunnum sem eru notaðir til að meta lánshæfi neytenda. Skilyrðin fyrir aðgangi skulu vera án mismununar.
    Ef lánsumsókn er hafnað á grundvelli leitar í gagnagrunni skal lánveitandi upplýsa neytanda, þegar í stað og honum að kostnaðarlausu, um niðurstöður slíkrar leitar og veita nánari upplýsingar um gagnagrunninn sem leitað var í.

IV. KAFLI
Upplýsingar og réttindi varðandi lánssamninga.
12. gr.
Upplýsingar sem skulu koma fram í lánssamningum.
    Lánssamningar skulu skráðir á pappír eða vera á öðrum varanlegum miðli. Allir samningsaðilar skulu fá afrit af lánssamningi.
    Í lánssamningi skal koma fram á skýran og hnitmiðaðan hátt:
    a.    tegund láns,
    b.    nafn, kennitala og heimilisfang samningsaðila; einnig, ef við á, nafn, kennitala og heimilisfang lánamiðlara sem í hlut á,
    c.    gildistími lánssamnings,
    d.    heildarfjárhæð láns og skilyrði fyrir nýtingu,
    e.    um hvaða vöru eða þjónustu er að ræða og staðgreiðsluverð hennar, þegar um er að ræða lán í því formi að greiðslu sérstakrar vöru eða þjónustu er frestað og tengda lánssamninga,
    f.    útlánsvextir, skilyrði um beitingu þeirra og, ef við á, vísitala eða viðmiðunarvextir sem geta haft áhrif á upphaflega útlánsvexti, svo og tímabil, skilyrði og málsmeðferð við breytingu á útlánsvöxtum; gildi mismunandi útlánsvextir við mismunandi aðstæður skal veita áðurnefndar upplýsingar um þá alla,
    g.    árleg hlutfallstala kostnaðar og heildarfjárhæð sem neytandi greiðir, reiknað um leið og lánssamningur er gerður; tilgreina skal allar forsendur sem eru notaðar við útreikning á hlutfallstölu,
    h.    fjárhæð, fjöldi og tíðni greiðslna sem neytandi þarf að standa skil á og, ef við á, með hvaða hætti greiðslum verður skipt á hinar ýmsu útistandandi skuldir með mismunandi útlánsvöxtum þegar um endurgreiðslu er að ræða,
    i.     sé um að ræða lánssamning með föstum endurgreiðslutíma þar sem höfuðstóll lánsins er greiddur niður, réttur neytanda til að fá afhent, samkvæmt beiðni og honum að kostnaðarlausu, hvenær sem er á gildistíma lánssamnings, reikningsyfirlit í formi niðurgreiðslutöflu; taflan skal sýna greiðslur sem þarf að inna af hendi og tímabil og skilyrði varðandi greiðslur slíkra fjárhæða; í töflunni skal koma fram sundurliðun allra greiðslna sem sýnir niðurgreiðslu höfuðstóls, vexti sem eru reiknaðir á grundvelli útlánsvaxta og, ef við á, allan viðbótarkostnað; sé ekki um fasta vexti að ræða eða viðbótarkostnað sem kann að verða breytt samkvæmt lánssamningi skal koma fram í niðurgreiðslutöflu, á skýran og hnitmiðaðan hátt, að gögnin í töflunni haldist aðeins í gildi þar til útlánsvöxtum eða viðbótarkostnaði er breytt í samræmi við lánssamning,
    j.    yfirlit sem sýnir tímabil og skilyrði fyrir greiðslu á vöxtum og tengdum kostnaði, föstum eða tilfallandi, ef greiða skal kostnað og vexti án þess að höfuðstóll sé niðurgreiddur,
    k.    ef við á, kostnaður við að hafa eina eða fleiri lánalínur þar sem bæði greiðslufærslur og nýting lána eru skráð, nema valfrjálst sé að opna lánalínu, ásamt kostnaði við notkun greiðsluleiða bæði fyrir greiðslufærslur og nýtingu lána, og annar kostnaður vegna lánssamnings og forsendur fyrir því að unnt sé að breyta þessum kostnaði,
    l.     gildandi vextir þegar um er að ræða greiðslu eftir gjalddaga sem gilda á þeim tíma þegar lánssamningur er gerður og fyrirkomulag við breytingu á þeim og, ef við á, kostnaður sem greiða þarf vegna vanskila,
    m.   afleiðingar vegna vangoldinna greiðslna,
    n.    ef við á, kostnaður sem neytandi kann að þurfa að greiða vegna þinglýsingar eða skráningar lánssamnings,
    o.    ef við á, tilskildar vátryggingar og tryggingar,
    p.    réttur til að falla frá samningi, tímabilið þegar nýta má þann rétt og önnur skilyrði um nýtinguna, þ.m.t. upplýsingar varðandi þá skyldu neytanda að greiða það fjármagn sem hefur verið greitt út ásamt vöxtum í samræmi við b-lið 3. mgr. 16. gr. og vaxtafjárhæðina sem fellur til greiðslu hvern dag,
    q.    upplýsingar varðandi rétt sem leiðir af 17. gr., svo og skilyrðin fyrir nýtingu þess réttar,
    r.     réttur til greiðslu fyrir gjalddaga skv. 18. gr., málsmeðferð við greiðslu fyrir gjalddaga og, ef við á, upplýsingar um rétt lánveitanda til bóta og á hvaða hátt þær bætur verða ákvarðaðar,
    s.    málsmeðferð sem fylgja skal við uppsögn lánssamnings,
    t.     hvort fyrir hendi séu kæruleiðir utan dómstóla fyrir neytendur og, ef svo er, hverjar þær séu,
    u.    ef við á, aðrir samningsskilmálar og -skilyrði,
    v.    ef við á, nafn og heimilisfang þar til bærra eftirlitsyfirvalda.
    Þegar i-liður 2. mgr. á við skal lánveitandi láta neytanda hafa niðurgreiðslutöflu, honum að kostnaðarlausu, hvenær sem er á gildistíma lánssamnings.
    Þegar um er að ræða lánssamning þar sem greiðslur neytanda leiða ekki þegar í stað til samsvarandi lækkunar á heildarfjárhæð lánsins heldur eru notaðar til að hækka eða viðhalda höfuðstól á tímabilum og við aðstæður sem mælt er fyrir um í lánssamningi eða í viðbótarsamningi skulu upplýsingarnar, sem gerð er krafa um í 2. mgr., fela í sér skýrar og hnitmiðaðar yfirlýsingar um að slíkir lánssamningar tryggi ekki endurgreiðslu á heildarfjárhæð láns sem er greidd út samkvæmt lánssamningi, nema slík ábyrgð sé sérstaklega veitt.
    Þegar um er að ræða lánssamning í formi yfirdráttarheimildar skv. 1. mgr. 2. gr. skal tilgreina eftirfarandi á skýran og hnitmiðaðan hátt:
    a.    tegund láns,
    b.    nafn, kennitölu og heimilisfang samningsaðila og, ef við á, nafn, kennitölu og heimilisfang lánamiðlara,
    c.    gildistíma lánssamnings,
    d.    heildarfjárhæð láns og skilyrði fyrir nýtingu,
    e.    útlánsvexti, skilyrði sem gilda um ákvörðun útlánsvaxta og, ef við á, vísitölu eða viðmiðunarvexti sem gilda um upphaflega útlánsvexti, svo og tímabil, skilyrði og málsmeðferð við ákvörðun á útlánsvöxtum; ef mismunandi útlánsvextir gilda við mismunandi aðstæður skulu áðurnefndar upplýsingar veittar um alla gildandi vexti,
    f.     árlega hlutfallstölu kostnaðar og heildarlántökukostnað neytanda, reiknað á þeim tíma þegar lánssamningur er gerður; allar forsendur sem eru notaðar til að reikna þá vexti sem um er getið í 4.–5. mgr. 21. gr. í tengslum við a- og g-lið 5. gr. skulu nefndar,
    g.    upplýsingar um að hvenær sem er megi krefja neytanda um endurgreiðslu allrar lánsfjárhæðar,
    h.    skilyrði fyrir því að nýta rétt skv. 16. gr. til að falla frá lánssamningi, og
    i.     upplýsingar um þann kostnað sem verður frá þeim tíma er slíkir samningar eru gerðir og, ef við á, skilyrði fyrir breytingu á þeim kostnaði.

13. gr.
Upplýsingar um útlánsvexti.
    Upplýsa skal neytanda um allar breytingar á útlánsvöxtum, á pappír eða öðrum varanlegum miðli, áður en breyting tekur gildi. Í upplýsingum skulu koma fram þær fjárhæðir sem greiða skal eftir gildistöku nýrra útlánsvaxta og, ef fjöldi eða tíðni greiðslna breytist, upplýsingar um það. Neytandi skal að jafnaði upplýstur um breytingar með 30 daga fyrirvara.
    Samningsaðilar geta þó komið sér saman um það, í lánssamningi, að veita skuli neytanda upplýsingar skv. 1. mgr., með ákveðnu millibili þegar breytingar á útlánsvöxtum eru af völdum breytinga á viðmiðunargengi, viðmiðunarvöxtum eða vísitölum og upplýst er um hið nýja viðmið opinberlega á viðeigandi hátt og það gert lántaka aðgengilegt hjá lánveitanda.

14. gr.
Skuldbindingar í tengslum við yfirdráttarheimild.
    Ef lánssamningur felur í sér lán í formi yfirdráttarheimildar skal upplýsa neytanda reglulega um það með reikningsyfirliti, á pappír eða öðrum varanlegum miðli, sem hefur að geyma upplýsingar um eftirfarandi:
    a.    nákvæmlega tilgreint tímabil sem reikningsyfirlitið tekur til,
    b.    fjárhæðir og dagsetningar nýtingar,
    c.    stöðu á fyrra reikningsyfirliti ásamt dagsetningu,
    d.    nýja stöðu,
    e.    dagsetningar og fjárhæðir greiðslna neytanda,
    f.     gildandi útlánsvexti,
    g.    kostnað sem fallið hefur til, og
    h.    ef við á, lágmarksfjárhæð greiðslu.
    Auk þess skal veita neytanda upplýsingar, á pappír eða öðrum varanlegum miðli, um hækkun útlánsvaxta eða annars kostnaðar áður en breytingin tekur gildi. Samningsaðilar geta þó komið sér saman um það í lánssamningi að upplýsingarnar varðandi breytingar á útlánsvöxtum séu veittar á þann hátt sem kveðið er á um í 1. mgr. þegar breytingar á útlánsvöxtum eru af völdum breytinga á viðmiðunargengi, viðmiðunarvöxtum eða vísitölum og upplýst er um hið nýja viðmið opinberlega á viðeigandi hátt og það gert lántaka aðgengilegt hjá lánveitanda.

15. gr.
Opnir lánssamningar.
    Neytandi getur hvenær sem er sagt upp opnum lánssamningi sér að kostnaðarlausu nema samningsaðilar hafi komið sér saman um uppsagnartímabil. Slíkt tímabil skal ekki vera lengra en einn mánuður. Lánveitandi getur, ef kveðið er á um slíkt í lánssamningi, sagt upp opnum lánssamningi með því að veita neytanda a.m.k. tveggja mánaða uppsagnarfrest á pappír eða öðrum varanlegum miðli.
    Lánveitandi getur, ef kveðið er á um slíkt í lánssamningi, af ástæðum sem eru rökstuddar á hlutlægan hátt, svipt neytanda rétti til nýtingar á opnum lánssamningi. Lánveitandi skal upplýsa neytanda fyrir fram um fyrirhugaða sviptingu og ástæður hennar á pappír eða öðrum varanlegum miðli. Ef ómögulegt er að upplýsa neytanda áður en svipting á sér stað skal það gert strax eftir að hún hefur átt sér stað.

16. gr.
Réttur til að falla frá samningi.
    Neytandi hefur 14 almanaksdaga frest til að falla frá lánssamningi án þess að tilgreina ástæðu.
    Frestur til að falla frá samningi hefst:
    a.    þann dag sem lánssamningurinn er gerður, eða
    b.    þann dag er neytanda berast samningsskilmálar og -skilyrði og upplýsingar í samræmi við 12. gr. ef sá dagur er síðar en dagurinn sem um getur í a-lið.
    Ef neytandi nýtir rétt sinn til að falla frá samningi skal hann:
    a.    tilkynna lánveitanda það fyrir þau tímamörk sem um getur í 1. mgr., í samræmi við það sem kveðið er á um í samningi, sbr. p-lið 2. mgr. 12. gr., með sannanlegum hætti; frestur telst hafa verið virtur ef tilkynning er send áður en fresturinn rennur út, á pappír eða öðrum varanlegum miðli sem lánveitandi hefur aðgang að,
    b.    greiða lánveitanda höfuðstól, áfallna vexti og verðbætur frá því að lánið var greitt út og til þess dags þegar höfuðstóll er endurgreiddur, án óþarfa tafa og eigi síðar en 30 almanaksdögum eftir að hann sendir lánveitanda tilkynningu um að hann hyggist falla frá samningi; reikna skal vexti á grundvelli útlánsvaxta sem samningur kveður á um.
    Lánveitandi á ekki rétt á öðrum bótum frá neytanda sem fellur frá samningi en nemur óafturkræfum lögboðnum gjöldum sem lánveitandi hefur greitt til hins opinbera. Sé um veðlán að ræða á lánveitandi þó rétt á kostnaði við skjalagerð, sem farið hefur fram, eins og verðskrá lánveitanda gerir ráð fyrir hverju sinni.
    Ef viðbótarþjónusta er veitt í tengslum við lánssamning, annaðhvort af lánveitanda sjálfum eða þriðja aðila á grundvelli samnings við lánveitanda, er neytandi ekki lengur bundinn af samningi um slíka viðbótarþjónustu nýti hann rétt sinn til að falla frá samningi samkvæmt þessari grein.
    Ef neytandi á rétt á því að falla frá samningi skv. 1., 3. og 4. mgr. skal III. kafli laga nr. 33/2005, um fjarsölu á fjármálaþjónustu, og 8. gr. laga nr. 46/2000, um húsgöngu- og fjarsölusamninga, ekki gilda.

17. gr.
Tengdir lánssamningar.
    Þegar neytandi hefur nýtt rétt sinn til að falla frá samningi um afhendingu vöru eða þjónustu er hann ekki lengur bundinn tengdum lánssamningi.
    Ef vara eða þjónusta sem fellur undir tengdan lánssamning er ekki afhent, eða aðeins afhent að hluta til, eða er ekki í samræmi við samning um slíka afhendingu, á neytandi rétt á því að beita úrræðum gegn lánveitanda, ef hann hefur beitt úrræðum gegn þeim sem afhendir vöru eða þjónustu, en ekki fengið þá úrlausn sem hann á rétt á samkvæmt dómi um afhendingu vöru eða þjónustu.
    Til þess að neytandi geti leitað úrræða gagnvart lánveitanda, sbr. 2. mgr., þarf eitt af eftirtöldum skilyrðum að vera uppfyllt:
    a.    bú seljanda hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta,
    b.    seljanda hefur verið veitt heimild til að leita nauðasamnings, eða
    c.    í ljós hefur komið við aðfarargerð að seljandi geti eigi greitt skuldir sínar.
    Möguleikar neytanda til fullnustu gagnvart kröfuhafa skv. 2. mgr. takmarkast við fjárhæð lána á þeim tíma sem krafa um úrbætur er gerð. Neytandi þarf að hafa lýst kröfu í þeim tilfellum sem a- eða b-liður 3. mgr. á við.
    Réttur neytanda til að beita úrræðum gegn lánveitanda, sbr. 2. mgr., nær ekki til fasteignalána.

18. gr.
Endurgreiðsla fyrir gjalddaga.
    Neytanda er heimilt að standa skil á skuldbindingum sínum samkvæmt lánssamningi, að öllu leyti eða að hluta, fyrir þann tíma sem umsaminn er. Notfæri neytandi sér heimild þessa á hann rétt á lækkun á heildarlántökukostnaði sem nemur vöxtum og öðrum gjöldum sem greiða átti eftir greiðsludag.
    Þegar um er að ræða greiðslu fyrir gjalddaga á lánveitandi rétt á því að fá sanngjarnar bætur, uppgreiðslugjald, sem byggist á hlutlægum grunni vegna kostnaðar sem hann hefur orðið fyrir og tengist beint greiðslu fyrir gjalddaga, að því tilskildu að greiðslan fyrir gjalddaga sé gerð á tímabili þar sem útlánsvextir eru fastir.
    Uppgreiðslugjald má ekki fara yfir 1% af fjárhæð endurgreiðslu ef lengri tími en eitt ár er á milli greiðslunnar og loka lánstíma samkvæmt samningi aðila. Ef eitt ár eða minna er eftir af samningstíma má uppgreiðslugjaldið ekki fara yfir 0,5% af fjárhæð endurgreiðslunnar.
    Uppgreiðslugjald má að hámarki vera sú vaxtafjárhæð sem neytandi mundi hafa greitt lánveitanda á tímabilinu frá greiðslu fyrir gjalddaga og til loka lánstíma samkvæmt samningi aðila.
    Ekki er heimilt að krefjast uppgreiðslugjalds:
    a.    ef greiðsla hefur átt sér stað samkvæmt vátryggingarsamningi sem er ætlað að tryggja greiðslu lánsins,
    b.    þegar um er að ræða yfirdráttarheimild, sbr. t-lið 5. gr.,
    c.    ef lán ber breytilega vexti,
    d.    ef ástæða uppgreiðslu er gjaldfelling láns af hálfu lánveitanda, eða
    e.    ef uppgreiðsla nemur lægri fjárhæð en 1.000.000 kr. á ársgrundvelli.
    Í þeim tilvikum sem heimilt er að krefjast uppgreiðslugjalds skal kveðið á um slíkt í lánssamningi, sbr. r-lið 2. mgr. 12. gr. Tilgreina skal upplýsingar um hvernig uppgreiðslugjald er reiknað út og hvenær það fellur á.

19. gr.
Framsal réttar.
    Ef lánveitandi framselur kröfurétt sinn til þriðja aðila samkvæmt lánssamningi, eða samninginn sjálfan, á neytandi rétt á því að halda uppi sömu mótbárum gegn framsalshafa sem hann gat nýtt sér gagnvart upphaflegum lánveitanda, þ.m.t. rétt til skuldajafnaðar.
    Upphaflegur lánveitandi skal upplýsa neytanda um framsal sem um getur í 1. mgr. nema þegar upphaflegur lánveitandi heldur áfram lánsþjónustu sinni við neytanda með samkomulagi við framsalshafa.

20. gr.
Ósamþykktur yfirdráttur.
    Þegar um er að ræða samning um veltureikning þar sem möguleiki er á því að neytandi geti stofnað til ósamþykkts yfirdráttar skulu auk þess vera í samningnum upplýsingar skv. e-lið 2. mgr. 8. gr. Lánveitandi skal í öllum tilvikum veita þær upplýsingar reglulega á pappír eða með öðrum varanlegum miðli.
    Lánastofnunum er óheimilt að innheimta kostnað vegna ósamþykkts yfirdráttar af veltureikningi ef slík gjaldtaka á sér ekki stoð í samningi. Kostnaður vegna ósamþykkts yfirdráttar skal vera hóflegur og endurspegla kostnað vegna ósamþykkta yfirdráttarins.
    Sé um að ræða ósamþykktan yfirdrátt að fjárhæð 30.000 kr. í lengri tíma en einn mánuð skal lánveitandi þegar í stað veita neytanda upplýsingar, á pappír eða með öðrum varanlegum miðli, um:
    a.    yfirdráttinn,
    b.    fjárhæðina sem um er að ræða,
    c.    útlánsvexti,
    d.    hvers kyns viðurlög, dráttarvexti eða önnur gjöld vegna skuldarinnar.

V. KAFLI
Árleg hlutfallstala kostnaðar.
21. gr.
Útreikningur á árlegri hlutfallstölu kostnaðar.
    Árleg hlutfallstala kostnaðar er það vaxtaígildi sem jafnar núvirðið af greiðsluskuldbindingum lánveitanda annars vegar og neytanda hins vegar samkvæmt lánssamningi þeirra. Árlegri hlutfallstölu kostnaðar skal lýst sem árlegu hlutfalli af heildarfjárhæð sem neytandi greiðir. Skal hún reiknuð út í samræmi við stærðfræðilíkan sem nánar er mælt fyrir um í reglugerð er ráðherra setur.
    Árleg hlutfallstala kostnaðar skal reiknuð út á þeim tíma sem lánssamningur er gerður. Við útreikning hennar skal gengið út frá því að lánssamningur gildi umsaminn tíma og lánveitandi og neytandi standi við skuldbindingar sínar samkvæmt skilmálum samningsins.
    Ef lánssamningur heimilar breytingu á vöxtum eða öðrum gjöldum sem teljast hluti árlegrar hlutfallstölu kostnaðar, en ekki er unnt að meta hverju nemi á þeim tíma sem útreikningur er gerður, skal reikna út árlega hlutfallstölu kostnaðar miðað við þá forsendu að verðlag, vextir og önnur gjöld verði óbreytt til loka lánstímans. Ef lánssamningur heimilar verðtryggingu skal útreikningur árlegrar hlutfallstölu kostnaðar miðast við ársverðbólgu samkvæmt tólf mánaða breytingu vísitölu neysluverðs og þá forsendu að ársverðbólga verði óbreytt til loka lánstímans .
    Við útreikning á árlegri hlutfallstölu kostnaðar skal ákvarða heildarlántökukostnað neytanda. Ekki skulu meðtalin í útreikningi möguleg viðurlög eða sektargreiðslur vegna vanefnda. Slíkt hið sama á við um kostnað sem fylgir kaupum á vöru eða þjónustu, hvort sem kaupin fara fram gegn staðgreiðslu eða láni.
    Kostnaður við að viðhalda reikningi þar sem bæði greiðslufærslur og nýting lána eru skráð, kostnaður við notkun greiðsluleiða fyrir bæði greiðslufærslur og nýtingu lána og annar kostnaður í tengslum við greiðslufærslur skal vera innifalinn í heildarkostnaði af láni til neytanda nema valfrjálst sé að opna reikning og kostnaður við reikninginn sé sérstaklega og greinilega tekinn fram í lánssamningi eða öðrum samningi sem er gerður við neytanda.

VI. KAFLI
Lánamiðlarar.
22. gr.
Sérstakar skuldbindingar lánamiðlara gagnvart neytendum.
    Lánamiðlari skal:
    a.    taka fram í auglýsingum og skjölum, sem eru ætluð neytendum, hvert umboð hans sé, einkum hvort hann starfar eingöngu fyrir einn eða fleiri lánveitendur eða sem óháður miðlari,
    b.    láta neytanda vita af þóknun, ef einhver er, sem hann þarf að greiða lánamiðlara fyrir þjónustu hans og sjá til þess að fyrir liggi samkomulag um hana milli neytanda og lánamiðlara á pappír eða öðrum varanlegum miðli áður en lánssamningur er gerður,
    c.    tilkynna lánveitanda, vegna útreiknings á árlegri hlutfallstölu kostnaðar, um þóknun, ef einhver er, sem neytandi þarf að greiða lánamiðlara fyrir þjónustu hans.

VII. KAFLI
Kaup með eignarréttarfyrirvara og endurheimt eignarréttar.
23. gr.
Kaup með eignarréttarfyrirvara.
    Ef söluhlutur er seldur með eignarréttarfyrirvara getur lánveitandi endurheimt hlutinn með aðfarargerð ef ekki næst samkomulag um afhendingu á grundvelli skriflegs kaupsamnings þar sem skýrt er kveðið á um eignarréttarfyrirvarann. Skilyrði endurheimtar er að neytandi sé í vanskilum með afborganir eða lánskostnað.
    Þegar söluhlutur er endurheimtur skal við uppgjör á milli aðila lánssamnings reyna að komast sem næst því að þeir verði jafnsettir og ef viðskiptin hefðu ekki átt sér stað.
    Ef andvirði söluhlutar er meira en nemur eftirstöðvum lánssamnings skal lánveitandi endurgreiða neytanda mismuninn. Ef andvirði söluhlutar er minna skal neytandi endurgreiða lánveitanda mismuninn.
    Við mat á andvirði söluhlutar skal litið til þess hvort rýrnun og slit söluhlutar sé eðlilegt og til frádráttar vaxta frá endurheimtudegi til loka lánssamnings.
    Komi upp ágreiningur um hvert sé verð söluhlutar á almennum markaði skal hann útkljáður með matsgerð sérfróðs og óhlutdrægs manns. Matsmaður skal ákveða hvernig háttað skuli greiðslu vegna kostnaðar við matið. Nú er ágreiningur um matsgerð og er þá unnt að óska eftir nýrri matsgerð með dómkvaðningu matsmanns.

24. gr.
Fleiri en einn hlutur keyptir samkvæmt sama samningi.
    Nú hafa fleiri en einn hlutur verið keyptir samkvæmt einum samningi og lánveitandi leggur fram kröfu um endurheimt þeirra og getur neytandi þá valið einn eða fleiri hlutanna til afhendingar gegn því að greiða um leið mismun andvirðis þeirra hluta sem hann heldur eftir. Ef inneign lánveitanda er minni en andvirðið á neytandi rétt á að fá mismuninn greiddan um leið og hlutirnir eru afhentir.
    Neytandi getur ekki leyst til sín hlut ef hann er úr safni eða samstæðu sem lánveitandi hefur einnig endurheimt frá neytanda og aðskilnaðurinn hefur í för með sér verulega rýrnun á verðmæti hlutanna.

VIII. KAFLI
Ýmis ákvæði.
25. gr.
Sérstök upplýsingaskylda lánveitanda.
    Til þess að tryggja að neytandi sé upplýstur um hvernig þróun höfuðstóls og greiðslubyrði hefur verið skal lánveitandi áður en samningur sem kveður á um verðtryggingu eða breytilega vexti er gerður veita upplýsingar, á pappír eða öðrum varanlegum miðli, um sögulega þróun verðlags og vaxta og áhrif þeirra þátta á breytingar á höfuðstól og greiðslubyrði sé um verðtryggt lán að ræða og um breytingar á greiðslubyrði sé um óverðtryggt lán að ræða. Lánveitandi skal einnig veita upplýsingar um þróun verðlags og ráðstöfunartekna síðustu 10 ár fyrir gerð samnings. Sé um verðtryggðan lánssamning að ræða skal lánveitandi, til viðbótar við reikningsyfirlit í formi niðurgreiðslutöflu, sbr. i-lið 2. mgr. 12. gr., láta neytanda í té niðurgreiðslutöflu þar sem miðað er við meðaltal ársverðbólgu síðustu 10 ár fyrir gerð samnings.
    Neytendastofa skal birta opinberlega á heimasíðu sinni almennar upplýsingar og dæmi um breytingar á höfuðstól og greiðslubyrði verðtryggðra lána og dæmi um breytingar á greiðslubyrði óverðtryggðra lána sem lánveitendur skulu byggja upplýsingagjöf skv. 1. mgr. á. Neytendastofa skal einnig birta almennar upplýsingar um þróun verðlags og ráðstöfunartekna síðustu 10 ár. Staðfesting neytanda á að honum hafi verið kynntar þessar upplýsingar, sbr. 10. mgr. 7. gr., telst fullnægjandi upplýsingagjöf skv. 1. mgr.
     Ákvæði 1. og 2. mgr. eiga ekki við um endurnýjun og/eða hækkun yfirdráttarheimilda, sbr. t-lið 5. gr., ef heildarlánsfjárhæð er lægri en viðmiðunarfjárhæð vegna framkvæmdar greiðslumats skv. 2. mgr. 10. gr.

26. gr.
Hámark árlegrar hlutfallstölu kostnaðar.
    Árleg hlutfallstala kostnaðar á neytendalánum má ekki nema meira en 50 hundraðshlutum að viðbættum stýrivöxtum.

27. gr.
Reglugerðarheimild.
    Ráðherra setur reglugerðir um:
    a.    staðlað eyðublað sem lánveitandi skal nota til að veita neytanda upplýsingar áður en lánssamningur er gerður, sbr. 2. mgr. 7. gr.,
    b.    framkvæmd lánshæfis- og greiðslumats, sbr. 5. mgr. 10. gr.,
    c.    útreikning á árlegri hlutfallstölu kostnaðar, sbr. 1. mgr. 21. gr.
    Ráðherra er heimilt að kveða nánar á um framkvæmd laga þessara í reglugerð.

28. gr.
Breytingar á fjárhæðum.
    Fjárhæðir samkvæmt lögum þessum breytast 1. janúar ár hvert í samræmi við vísitölu neysluverðs.

IX. KAFLI
Eftirlit, viðurlög, réttarúrræði og bótaskylda.
29. gr.
Eftirlits- og ákvarðanavald Neytendastofu.
    Neytendastofa annast eftirlit með ákvæðum laga þessara. Ákvæði laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu gilda um málsmeðferð Neytendastofu.
    Ákvæði VIII. kafla laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu gilda um heimildir Neytendastofu til upplýsingaöflunar, haldlagningar gagna, þagnarskyldu og afhendingar upplýsinga til stjórnvalda annarra ríkja.
    Neytendastofa getur gripið til aðgerða gegn aðilum sem brjóta í bága við ákvæði II.–VIII. kafla, eftir því sem við getur átt. Aðgerðir Neytendastofu geta falið í sér bann, fyrirmæli eða heimild með ákveðnu skilyrði. Ákvörðunum sem Neytendastofa tekur á grundvelli laga þessara verður skotið til áfrýjunarnefndar neytendamála sem starfar á grundvelli 4. gr. laga nr. 62/2005, um Neytendastofu og talsmann neytenda.
    Ákvörðun Neytendastofu verður ekki borin undir dómstóla fyrr en úrskurður áfrýjunarnefndar neytendamála liggur fyrir.
    Nú vill aðili ekki una úrskurði áfrýjunarnefndar neytendamála og getur hann þá höfðað mál til ógildingar fyrir dómstólum.
    Mál skal höfðað innan sex mánaða frá því að aðili fékk vitneskju um úrskurð áfrýjunarnefndar.
    Málshöfðun frestar ekki gildistöku úrskurðar nefndarinnar né heimild til aðfarar.

30. gr.
Stjórnvaldssektir.
    Neytendastofa getur lagt stjórnvaldssektir á lánveitanda sem brýtur gegn eftirtöldum ákvæðum laga þessara og, eftir atvikum, reglum settum á grundvelli þeirra:
    a.    6. gr. um upplýsingar sem eiga að koma fram í auglýsingum og öðru kynningarefni,
    b.    7. gr. um upplýsingar sem veita skal áður en lánssamningur er gerður,
    c.    8. gr. um upplýsingar sem veita skal áður og við gerð lánssamnings í formi yfirdráttarheimildar og tiltekinna sérstakra lánssamninga,
    d.    1.–2. mgr. 10. gr. um gerð lánshæfismats, og þegar við á greiðslumats, áður en lánssamningur er gerður,
    e.    3. mgr. 10. gr. um bann við veitingu láns komi í ljós að neytandi hafi augljóslega ekki fjárhagslega burði til þess að standa í skilum með lánið,
    f.     4. mgr. 10. gr. um endurnýjun mats,
    g.    12. gr. um upplýsingar sem skulu koma fram í lánssamningum og upplýsingar sem veita skal að beiðni neytanda,
    h.    13. gr. um upplýsingar sem veita skal um breytingar á útlánsvöxtum áður en breyting tekur gildi,
    i.     14. gr. um upplýsingar sem veita skal reglulega vegna yfirdráttarheimilda,
    j.     1. mgr. 15. gr. um heimildir til að segja upp opnum lánssamningi,
    k.    2. mgr. 15. gr. um að upplýsa neytanda fyrir fram um fyrirhugaða sviptingu á rétti til nýtingar á opnum lánssamningi,
    l.     1. mgr. 16. gr. um rétt til að falla frá lánssamningi,
    m.   4. mgr. 16. gr. um þær bætur sem lánveitanda er heimilt að krefja neytanda um nýti neytandi rétt sinn til að falla frá samningi,
    n.    1. mgr. 18. gr. um heimild neytanda til að standa skil á skuldbindingum sínum fyrir þann tíma sem umsaminn er og um lækkun á heildarlántökukostnaði notfæri neytandi sér þá heimild,
    o.    2.–4. mgr. 18. gr. um hámarksfjárhæð uppgreiðslugjalds,
    p.    5. mgr. 18. gr. um tilvik þegar ekki er heimilt að krefjast uppgreiðslugjalds,
    q.    2. mgr. 19. gr. um skyldu lánveitanda til að upplýsa neytanda um framsal réttar,
    r.    1. mgr. 20. gr. um upplýsingar í lánssamningi sé um að ræða veltureikning þar sem neytandi getur stofnað til ósamþykkts yfirdráttar og um reglulega upplýsingagjöf, sbr. e-lið 2. mgr. 8. gr.,
    s.    2. mgr. 20. gr. um álagningu og innheimtu kostnaðar vegna ósamþykkts yfirdráttar,
    t.     3. mgr. 20. gr. um upplýsingagjöf fari ósamþykktur yfirdráttur yfir fjárhæðar- og tímamörk,
    u.    21. gr. um útreikning á árlegri hlutfallstölu kostnaðar,
    v.    22. gr. um skyldur lánamiðlara gagnvart neytanda og lánveitanda til upplýsingagjafar,
    w.   25. gr. um sérstaka upplýsingaskyldu lánveitanda,
    x.    26. gr. um hámark árlegrar hlutfallstölu kostnaðar.
    Neytendastofa getur lagt stjórnvaldssektir á hvern þann sem brýtur gegn ákvörðun Neytendastofu sem tekin er á grundvelli laga þessara eða sátt milli Neytendastofu og aðila, sbr. 32. gr.
    Sektir sem lagðar eru á aðila geta numið frá 100 þús. kr. til 20 millj. kr. Við ákvörðun sekta skal m.a. tekið tillit til alvarleika brots, hvað það hefur staðið lengi, samstarfsvilja hins brotlega aðila og hvort um ítrekað brot er að ræða. Ákvarðanir um stjórnvaldssektir teknar af Neytendastofu eru aðfararhæfar. Sektir renna í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við innheimtuna. Séu stjórnvaldssektir ekki greiddar innan mánaðar frá ákvörðun Neytendastofu skal greiða dráttarvexti af fjárhæð sektarinnar. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta fer eftir lögum um vexti og verðtryggingu. Stjórnvaldssektum verður beitt óháð því hvort lögbrot eru framin af ásetningi eða gáleysi.

31. gr.
Dagsektir.
    Ef ekki er farið að ákvörðun sem tekin hefur verið samkvæmt þessum lögum getur Neytendastofa ákveðið að sá eða þeir sem ákvörðunin beinist gegn greiði dagsektir þar til farið verður að henni.
    Ákvörðun um dagsektir skal tilkynnt bréflega á sannanlegan hátt þeim sem hún beinist að. Dagsektir geta numið frá 50 þús. kr. til 500 þús. kr. á dag.
    Ákvörðun um dagsektir má skjóta til áfrýjunarnefndar neytendamála innan fjórtán daga frá því að hún er kynnt þeim er hún beinist að. Dagsektir reiknast ekki fyrr en frestur er liðinn. Ef ákvörðun er skotið til áfrýjunarnefndar neytendamála falla dagsektir ekki á fyrr en niðurstaða hennar liggur fyrir.

32. gr.
Sátt.
    Hafi aðili gerst brotlegur við ákvæði laga þessara eða reglna settra á grundvelli þeirra er Neytendastofu heimilt að ljúka málinu með sátt með samþykki málsaðila. Sátt er bindandi fyrir málsaðila þegar hann hefur samþykkt og staðfest efni hennar með undirskrift sinni. Neytendastofu er heimilt að setja nánari reglur um framkvæmd ákvæðisins.

33. gr.
Úrskurðar- og réttarúrræði.
    Lánveitendur skulu hafa aðgengilegar upplýsingar um úrskurðar- og réttarúrræði ef ágreiningur rís milli lánveitanda og neytanda um neytendalán, m.a. um málskot til úrskurðarnefndar skv. 2. mgr.
    Neytendur geta skotið ágreiningi er varðar fjárhagslegar kröfur og einkaréttarlega hagsmuni tengda neytendalánum til úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki. Lánveitendum er skylt að eiga aðild að úrskurðarnefndinni og skulu þeir lánveitendur sem eiga aðild að málum standa undir kostnaði nefndarinnar vegna þeirra.
    Nefndin kveður upp rökstudda úrskurði og verður þeim ekki skotið til stjórnvalda, en heimilt er aðilum máls að leggja ágreining sinn fyrir dómstóla með venjubundnum hætti.

34. gr.
Bótaskylda.
    Brot á lögum þessum getur valdið skaðabótaskyldu í samræmi við almennar reglur skaðabótaréttar.
    Gera má lögaðila að greiða bætur þó svo að sök sannist ekki á neinn tiltekinn starfsmann lögaðilans ef sýnt þykir að einhver starfsmaður lögaðilans hafi gerst brotlegur við ákvæði laga þessara.
    Bætur sem dæmdar verða, sbr. 1. mgr., má innheimta hjá þeim einstaklingi sem dæmdur er bótaskyldur eða lögaðila þeim sem hann starfaði hjá þegar brot var framið.

35. gr.
Innleiðing.
    Lög þessi fela í sér innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/48/EB frá 23. apríl 2008 um lánssamninga fyrir neytendur og um niðurfellingu tilskipunar ráðsins 87/102/ EBE eins og hún var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 16/2009, frá 5. febrúar 2009, sem birt var 19. mars 2009 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 16/2009.

36. gr.
Gildistaka.
    Lög þessi öðlast gildi 1. september 2013. Á sama tíma falla úr gildi lög um neytendalán, nr. 121/1994, með síðari breytingum. Þó öðlast 37. gr. þegar gildi.
    Ákvæði 13.–15. gr., 2. mgr. 19. gr. og 20. gr. skulu gilda um opna lánssamninga, sbr. 15. gr., sem eru í gildi við gildistöku laga þessara.

37. gr.
Breyting á öðrum lögum.
    Við lög um neytendalán, nr. 121/1994, bætast tvö ný ákvæði til bráðabirgða er orðast svo:

    a. (I.)
    Frá og með 15. apríl 2013 má árleg hlutfallstala kostnaðar á neytendalánum ekki nema meira en 50 hundraðshlutum að viðbættum stýrivöxtum.

    b. (II.)
    Nú er ágreiningur milli lánveitanda og neytanda er varðar lögmæti verðtryggingar í lánssamningi þeirra í milli. Hyggist annar hvor aðilanna höfða mál vegna slíks ágreinings getur hann óskað eftir því að málið sæti flýtimeðferð eftir ákvæðum XIX. kafla laga um meðferð einkamála. Ákvæði þetta fellur úr gildi 1. september 2013.

Gjört á Bessastöðum, 27. mars 2013.

Ólafur Ragnar Grímsson.
(L. S.)

Steingrímur J. Sigfússon.

A deild - Útgáfud.: 4. apríl 2013