Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 557/2007

Nr. 557/2007 6. júní 2007
REGLUGERÐ
um afladagbækur.

1. gr.

Reglugerð þessi gildir um allar veiðar íslenskra fiskiskipa hvort sem þær fara fram innan eða utan íslensku fiskveiðilögsögunnar, nema annað sé sérstaklega tekið fram í reglum um viðkomandi veiðar.

2. gr.

Allir skipstjórar íslenskra fiskiskipa sem stunda veiðar í atvinnuskyni skulu halda sér­stakar afladagbækur.

Þær upplýsingar sem skráðar eru í afladagbækur skulu nýtast í vísindalegum tilgangi fyrir Hafrannsóknastofnunina, sem eftirlitsgögn fyrir Fiskistofu og Landhelgisgæslu og til annarra verkefna sem varða stjórnun fiskveiða. Að öðru leyti skulu upplýsingar úr afla­dagbókum vera trúnaðarmál milli ofangreindra aðila og skipstjóra.

3. gr.

Skipstjórum íslenskra fiskiskipa er skylt að halda rafræna afladagbók, sbr. þó ákvæði 12. gr.

Við færslu rafrænna afladagbóka skal nota forrit sem hlotið hefur samþykki Fiskistofu og skulu skráningar vera samkvæmt leiðbeiningum Fiskistofu. Í rafrænar afladagbækur skal færa allar upplýsingar sem kveðið er á um í reglugerð þessari. Allar breytingar sem kunna að vera gerðar á skráningum í rafrænar afladagbækur skulu vera sýnilegar og rekjan­legar.

4. gr.

Afladagbækur í bókarformi skulu vera innbundnar, í tvíriti og með númeruðum síðum. Skal Fiskistofa hafa yfirlit yfir hvaða síðunúmer eru í bókum sem ætlaðar eru til notkunar í hverju skipi. Óheimilt er að fjarlægja síður úr bókum, sbr. þó 9. gr.

Allt sem fært er í afladagbók á bókarformi, skal vera skýrt og læsilegt með varanlegu letri. Ekki má eyða eða gera á annan hátt ólæsilegt það sem eitt sinn hefur verið í þær fært þótt fyrst hafi verið misfært af vangá. Þurfi að gera breytingu á færslu skal það gert með annarri færslu eða þannig að hin ranga færsla verði áfram vel læsileg að leið­réttingu lokinni.

5. gr.

Óheimilt er að hefja veiðiferð nema búnaður til skráningar rafrænnar afladagbókar sé um borð, sbr. þó ákvæði 12. gr. Fiskistofu er heimilt að veita tímabundna undanþágu frá þessu ákvæði sé staðfest að búnaður til skráningar rafrænnar afladagbókar sé bilaður og skal skipstjóri þá, á meðan bilun stendur, halda afladagbók á bókarformi sem Fiskistofa lætur í té. Útgerð skips ber án tafar að tilkynna Fiskistofu um sérhverja bilun á búnaði til skráningar rafrænnar afladagbókar eða til sendingar upplýsinga úr rafrænni afladagbók enda leiði bilunin til þess að ekki sé unnt að skrá í afladagbók skipsins eða skila skráningum til Fiskistofu. Jafnframt skal útgerð skips láta lagfæra sérhverja bilun á búnaði til skráningar rafrænnar afladagbókar eða til sendingar upplýsinga úr rafrænni afladagbók án ástæðulauss dráttar.

6. gr.

Skipstjórum er skylt að skrá eftirfarandi upplýsingar í afladagbækur:

  1. Nafn skips, skipaskrárnúmer og kallmerki.
  2. Veiðarfæri, gerð og stærð.
  3. Staðarákvörðun (breidd og lengd) og tími þegar veiðarfæri er sett í sjó.
  4. Afli eftir magni og tegundum.
  5. Veiðidagur.
  6. Löndunarhöfn.

Upplýsingar um magn afla eftir tegundum skulu áætlaðar og skráðar eins nákvæmlega og unnt er.

Ef fleiri en eitt skip stunda veiðar með sama veiðarfærið, skal færa í afladagbók hvers hlutaðeigandi skips í samræmi við þessa reglugerð. Einnig skal skrá hvaða skip önnur stunda veiðarnar. Einungis skal skrá þann afla sem tekinn er um borð í viðkomandi skip.

Ef afli í uppsjávartegundum er fluttur milli skipa, er skylt að skrá í afladagbækur beggja hlutaðeigandi skipa upplýsingar um magn eftir tegundum, og eftir atvikum afurðum, á milli hvaða skipa aflinn er fluttur og hvort skipanna er veiðiskip aflans.

Að auki ber að færa í afladagbækur aðrar upplýsingar sem kveðið er á um í afla­dagbókunum sjálfum eða leiðbeiningum Fiskistofu varðandi færslu rafrænna afladagbóka og skulu færslur í afla­dagbókum vera í samræmi við leiðbeiningar Fiskistofu.

Skipstjóri skal með undirritun sinni staðfesta færslur á hverri síðu í afladagbók. Í raf­rænum afladagbókum skal vera kvittun skipstjóra fyrir færslum.

7. gr.

Upplýsingar um afla sem fæst í hverju hali/kasti skal færa í afladagbók svo skjótt sem verða má. Óheimilt er skipstjóra að eiga ólokið skráningum vegna fleiri en fimm hala/kasta áður en næsta hal eða kast er tekið um borð.

Í upphafi hverrar veiðiferðar skal byrja á nýrri síðu í afladagbók. Í rafrænum afla­dagbókum skulu færslur vegna hverrar veiðiferðar aðgreindar með greinilegum hætti.

Við línu-, neta- og handfæraveiðar er heimilt að færa fleiri en eina veiðiferð á hverja síðu í afladagbók. Þó skal færa heildarafla hvers sólarhrings sérstaklega. Við þessar veiðar er ekki nauðsynlegt að færa í samræmi við 3. lið 6. gr. að öðru leyti en tíma þegar veiðar hefjast og lýkur og veiðisvæði. Það á þó ekki við um færslur í rafrænar afladagbækur.

Í lok hverrar veiðiferðar og áður en lagst er að bryggju skal afladagbók skips vera að fullu færð.

8. gr.

Skipstjóra er skylt að veita eftirlitsmönnum Fiskistofu og starfsmönnum Landhelgisgæslu Íslands aðgang að rafrænni afladagbók og aðstoð við að sannreyna upplýsingar sem færðar hafa verið í afladagbókina. Sama gildir um skipstjóra sem heimild hefur til að færa afladagbók á bókarformi.

9. gr.

Upplýsingar úr rafrænum afladagbókum skal senda til Fiskistofu aldrei síðar en innan tveggja vikna frá lokum hvers mánaðar. Fiskistofa getur framlengt skilafrest um allt að fjórar vikur vegna sérstakra aðstæðna, s.s. langra veiðiferða, bilunar í tölvu- eða sendingarbúnaði skips eða ef veiðar eru stundaðar langt frá Íslandi.

Skylt er að senda útfyllt og undirritað frumrit afladagbókareyðublaðs til Fiskistofu innan tveggja vikna frá lokum hvers mánaðar. Fiskistofa getur framlengt skilafrest um allt að fjórar vikur vegna sérstakra aðstæðna s.s. langra veiðiferða, eða ef veiðar eru stund­aðar langt frá Íslandi.

Rafræn afladagbók skal ávallt vera um borð í fiskiskipi á meðan veiðiferð stendur og þar til að löndun og vigtun afla þess hefur verið lokið.

Afladagbók á bókarformi skal ávallt vera um borð í þeim fiskiskipum þar sem heimilað hefur verið að færa slíka afladagbók og skal afrit af henni geymt um borð í skipinu í a.m.k. 2 ár frá því að frumritum var skilað til Fiskistofu.

10. gr.

Fiskistofa skal veita áminningar og svipta skip leyfi til veiða í atvinnuskyni, fyrir brot á reglugerð þessari eftir því sem nánar er um mælt í lögum nr. 116/2006, um stjórn fisk­veiða, með síðari breytingum.

11. gr.

Brot á reglugerð þessari varða viðurlögum samkvæmt lögum nr. 116, 10. ágúst 2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, og lögum nr. 151, 27. desember 1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands.

Með mál út af brotum skal farið að hætti opinberra mála.

12. gr.

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 3. gr. er skipstjórum skipa sem eru 45 brúttótonn eða stærri heimilt að halda afladagbók á bókarformi til 1. febrúar 2008. Þá er skipstjórum skipa, sem eru stærri en 15 brúttótonn, en eru minni en 45 brúttótonn, heimilt að halda afladagbók á bókarformi til 1. júlí 2008. Loks er skipstjórum skipa, sem eru minni en 15 brúttótonn, heimilt að halda afladagbók á bókarformi til 1. október 2008.

Þá er Fiskistofu heimilt að veita tilteknum fiskiskipum tímabundna undanþágu til að halda afladagbók á bókarformi vegna sérstakra aðstæðna, s.s. þegar aðstæður um borð í fiskiskipi eru þannig að ekki er unnt að færa rafræna afladagbók þar.

13. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt ákvæðum laga nr. 116, 10. ágúst 2006, um stjórn fiskveiða með síðari breytingum, og laga nr. 151, 27. desember 1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, öðlast gildi 1. júlí 2007 og birtist til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli.

Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 303/1999, um afladagbækur, með síðari breytingum.

Sjávarútvegsráðuneytinu, 6. júní 2007.

F. h. r.

Jón B. Jónasson.

Þórður Eyþórsson.

B deild - Útgáfud.: 22. júní 2007