Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 655/2013

Nr. 655/2013 11. janúar 2013
REGLUR
byggðasamlags um málefni fatlaðra á Norðurlandi vestra um afgreiðslu umsókna um þjónustu á heimilum fatlaðs fólks og sértæk húsnæðisúrræði vegna sértækra eða mikilla þjónustuþarfa.

1. gr.

Markmið.

Það er markmiðið með setningu reglna þessara að fatlað fólk fái þjónustu og sérstakan stuðning til þess að geta búið þannig að sem best henti hverjum og einum. Skal tekið mið af óskum, aðstæðum og þörf fyrir þjónustu. Fylgt skal þeirri meginreglu að fólk eigi val um hvernig það býr, enda sé það í samræmi við það sem almennt tíðkast.

Þjónustan skal vera einstaklingsbundin, heildstæð og sveigjanleg. Skal hún veitt með það að markmiði að efla vald fólks yfir aðstæðum sínum og lífi, styrkja sjálfsmynd þess, sjálfstraust, félagslega stöðu, sjálfsvirðingu og lífsgæði.

2. gr.

Umsókn.

Sótt er um þjónustu, á þar til gerðum eyðublöðum, hjá félagsþjónustu þess sveitarfélags þar sem viðkomandi á lögheimili eða þeirri félagsþjónustu sem ber ábyrgð á þjónustunni. Umsóknir eru gildar þegar umsækjandi hefur náð 16 ára aldri. Þjónusta kemur þó ekki til framkvæmda fyrr en eftir að 18 ára aldri hefur verið náð.

3. gr.

Fundur ráðgjafa félagsþjónustu með umsækjanda eða aðstandanda hans.

Fundur með ráðgjafa skal haldinn innan tveggja vikna frá því að umsókn barst. Lagt er mat á þörf fyrir þjónustu í samráði við umsækjanda. Sé niðurstaða matsins sú að þörf fyrir þjónustu sé önnur eða víðtækari en veitt er samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga skal sérstakt teymi fagfólks meta sérstaka stuðningsþörf umsækjanda.

4. gr.

Teymi fagfólks.

Teymi fagfólks, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks, starfar á hverju þjónustusvæði, þ.e. Húnaþingi vestra, Austur-Húnavatnssýslu, Skagafirði, Fjallabyggð og Dalvíkurbyggð. Félagsmálastjóri á hverju svæði ber ábyrgð á því að teymi sé virkjað. Teymið samanstendur að lágmarki af þremur fulltrúum skipuðum af félagsmálastjóra.

a) Teymið metur heildstætt sérstaka stuðningsþörf í samráði við umsækjanda eða aðstandanda hans. Niðurstaða um mat á þörf og úrræði skal liggja fyrir eigi síðar en þremur mánuðum eftir að umsókn berst teyminu. Ef umsækjandi er ekki sáttur við mat teymis fagfólks þá ber ráðgjafa að aðstoða umsækjanda að koma þeim athugasemdum til þjónustuhóps.

b) Teymið sendir niðurstöðurnar til umsækjanda og þjónustuhóps. Teymið skráir umfjöllun um umsóknir og ákvarðanir í fundargerð.

5. gr.

Málsmeðferð.

Umsókn og tillaga teymis fagfólks er lögð fram til kynningar og afgreiðslu þjónustuhóps byggðasamlags um málefna fatlaðra. Þjónustuhópur tekur ákvörðun um hversu mikil þjónusta skuli veitt og hvert fyrirkomulag hennar verði.

Umsækjendur fá skriflegt svar um afgreiðslu innan fjögurra vikna frá því að umsókn berst. Í jákvæðu svari kemur annað hvort fram að viðkomandi sé kominn á biðlista eftir þjónustu eða þá að hann fær tilboð um þjónustu. Synjunarbréf innihalda rökstuðning fyrir synjuninni og upplýsingar um hvert umsækjandi geti snúið sér ef hann er ósáttur með niðurstöðuna.

6. gr.

Tilboð um búsetuúrræði.

Eftir að hafa fengið jákvætt svar um búsetuúrræði er umsækjandi og í sumum tilvikum aðstandandi hans boðaður á fund hjá viðkomandi félagsþjónustu til að undirbúa væntanlega þjónustu.

7. gr.

Samningur um þjónustu.

Umsækjandi og þjónustuaðili gera með sér skriflegan samning um hvernig sérstakur stuðningur verði veittur. Notast skal við þar til gerð eyðublöð. Miðað skal við að gengið sé frá samningi innan tólf mánaða frá því umsókn berst sveitarfélagi.

8. gr.

Einstaklingsbundin þjónustuáætlun.

Jafnhliða samningi um þjónustu skal gerð þjónustuáætlun sem felur í sér skýr markmið sem vinna skal að með því að veita stuðning og samhæfa úrræði mismunandi þjónustuaðila. Gerð áætlunar er á ábyrgð þeirra sem sjá um framkvæmd þjónustunnar. Þjónustuáætlunin skal endurmetin eigi sjaldnar en einu sinni á ári.

9. gr.

Eftirfylgni þjónustu.

Eftir þrjá mánuði er viðkomandi og/eða aðstandandi hans boðaðir á fund til að meta hvernig til hefur tekist og fara yfir hvort eitthvað megi betur fara.

10. gr.

Niðurstaða synjunar og málskot til málsmeðferðarnefndar.

Kynna skal umsækjanda niðurstöðu umsóknar svo fljótt sem unnt er. Sé umsókn hafnað í heild eða að hluta skal umsækjandi fá skriflegt svar þar sem forsendur synjunar eru rökstuddar. Synjun þjónustuhóps má skjóta til málsmeðferðarnefndar byggðasamlags um málefni fatlaðra á Norðurlandi vestra, og skal það gert skriflega innan þriggja mánaða frá því að umsækjanda berst vitneskja um synjun. Málsmeðferðarnefnd skal fjalla um umsókn og taka ákvörðun svo fljótt sem unnt er.

11. gr.

Málskot til úrskurðarnefndar félagsþjónustu.

Umsækjandi getur skotið ákvörðun málsmeðferðarnefndar til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála hjá velferðarráðuneytinu. Skal það gert innan fjögurra vikna frá því umsækjanda berst vitneskja um ákvörðun nefndarinnar.

12. gr.

Heimildir til ákvarðana skv. reglum þessum.

Þjónustuhópur byggðasamlagsins tekur ákvarðanir skv. reglum þessum í umboði stjórnar byggðasamlags.

13. gr.

Birting og endurskoðun.

Reglur þessar, sem settar eru skv. 2. mgr. 5. gr., sbr. 8. og 10. gr. laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks, eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda, sbr. 55. gr. laganna. Reglurnar skulu endurskoðaðar eigi sjaldnar en á tveggja ára fresti að teknu tilliti til viðeigandi þjónustu- og gæðaviðmiða, sbr. 2. mgr. 3. gr. sömu laga.

14. gr.

Gildistaka.

Reglur þessar, sem samþykktar voru í stjórn byggðasamlagsins þann 4. desember 2012, öðlast þegar gildi.

Skagafirði, 11. janúar 2013.

F.h. samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra,
Jón Óskar Pétursson framkvæmdastjóri.

B deild - Útgáfud.: 10. júlí 2013