Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 652/2013

Nr. 652/2013 11. janúar 2013
REGLUR
byggðasamlags um málefni fatlaðra á Norðurlandi vestra um afgreiðslu umsóknar um stuðningsfjölskyldur.

1. gr.

Markmið.

Fjölskyldur fatlaðra barna skulu eiga kost á þjónustu stuðningsfjölskyldna eftir því sem þörf krefur. Dvöl barna hjá stuðningsfjölskyldu skal bundin í samningi og miðast við ákveðið tímabil. Verkefni stuðningsfjölskyldu er að taka fatlað barn í umsjá sína í skamman tíma í þeim tilgangi að létta álagi af fjölskyldu þess og auka möguleika barnsins á félagslegri þátttöku. Slíkri umsjá fylgir ekki krafa um sérstaka þjálfun eða hæfingu umfram þá daglegu þjálfun sem felst í almennum kröfum sem lúta að barnauppeldi.

2. gr.

Skipulag.

Þjónusta stuðningsfjölskyldu miðast að öllu jöfnu við sólarhringsþjónustu en semja má um aðra tilhögun á framkvæmd þjónustunnar sem fer eftir aðstæðum hverju sinni.

Þjónustan skal að jafnaði ekki vera lengri en fjórir sólarhringar á mánuði. Við sérstakar aðstæður er unnt að veita undanþágu frá þessu ákvæði og þá allt að sex sólarhringum á mánuði. Slík undanþága er ekki veitt nema að undangengnu faglegu mati á aðstæðum barnsins og stuðningsfjölskyldu.

Ekki er heimilt að fela stuðningsfjölskyldu umsjón fleiri en tveggja fatlaðra barna í senn nema ef um systkini er að ræða.

3. gr.

Hverjir eiga kost á þjónustu.

Þjónustan stendur til boða fyrir fjölskyldur fatlaðra barna sem eiga lögheimili á starfssvæði byggðasamlagsins. Börn með umönnunarmat 1. fl., 2. fl. og 3. fl. eiga rétt á þjónustu stuðningsfjölskyldna. Börn með umönnunarmat í 4. og 5. fl. eiga ekki rétt á stuðningsfjölskyldu.

Þjónustan getur einnig staðið til boða fyrir fatlaða einstaklinga, 18 ára og eldri, hafi samningur verið gerður þar að lútandi.

4. gr.

Val á stuðningsfjölskyldu.

Aðildarsveitarfélög byggðasamlagsins bera ábyrgð á skipulagi og framkvæmd þessarar þjónustu á grundvelli 1. mgr. 4. gr. laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks, með síðari breytingum. Í ábyrgðinni felst að ákvörðun um val á stuðningsfjölskyldu sé í samræmi við skýrar faglegar kröfur og að stuðningsfjölskylda uppfylli hverju sinni þau skilyrði sem ákvörðun byggist á.

Val á stuðningsfjölskyldu getur verið með tvennum hætti:

Á grundvelli umsókna aðila sem óska eftir að taka að sér stuðning.

Gengið til samninga við tiltekna fjölskyldu sem foreldrar barnsins óska eftir.

Stuðningsaðilar þurfa að hafa náð 23ja ára aldri að lágmarki, nema sérstakar aðstæður séu og þarf þá viðkomandi félagsþjónustusvæði að taka ákvörðun um það.

Áður en leyfi er veitt eða ákvörðun tekin metur félagsþjónustan aðstæður á heimili stuðningsfjölskyldu og skrifar umsögn að loknu mati. Umsækjanda skal kynnt umsögnin og gefinn kostur á að koma að athugasemdum.

Sé þjónusta stuðningsfjölskyldu sótt milli sveitarfélaga eða þjónustusvæða skal samstarf vera á milli þeirra um athugun. Félagsþjónusta lögheimilissveitarfélags barnsins er eftir sem áður ábyrgðaraðili við framkvæmd þjónustunnar.

Í leyfisbréfi skal það tekið skýrt fram að forsvarsmenn stuðningsfjölskyldu skulu tafarlaust tilkynna allar breytingar á atriðum sem máli geta skipt við framkvæmd þjónustunnar.

Við endurnýjun leyfis er metið hvort leggja beri fram ný gögn eins og um nýja umsókn sé að ræða. Þó skulu ætíð liggja fyrir upplýsingar úr sakaskrá og skýrar upplýsingar um atriði sem kunna að hafa breyst ef liðin eru meira en þrjú ár frá því að slíkar upplýsingar voru veittar, auk þess sem starfsmenn félagsþjónustu skulu hafa heimsótt heimilið á því tímabili.

5. gr.

Gagnaöflun.

Þeir sem óska eftir að taka að sér hlutverk stuðningsfjölskyldu skulu sækja um leyfi félagsmálanefndar í heimilisumdæmi sínu. Áður en leyfi er veitt eða ákvörðun tekin þarf að afla eftirfarandi gagna frá verðandi stuðningsfjölskyldu:

a) Búsetuvottorð.

b) Heilbrigðisvottorð.

c) Upplýsingar um hvort og með hvaða hætti stuðningsfjölskylda er vátryggð.

d) Samþykki allra heimilismanna eldri en 15 ára fyrir því að félagsþjónustan afli upplýsinga úr sakaskrá þar sem fram komi hvort viðkomandi hafi hlotið refsidóm vegna brota á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga.

e) Samþykki forráðamanna stuðningsfjölskyldu fyrir því að heimilt sé að leita upplýsinga um stuðningsfjölskyldu og aðbúnað á heimili hennar frá öðrum aðilum, svo sem vinnuveitendum, félagsþjónustu annarra sveitarfélaga og heilbrigðisfulltrúa.

f) Staðfesting þess að eldvarnir á heimilinu séu fullnægjandi.

g) Yfirlit yfir starfsferil umsækjanda, menntun og reynslu af starfi með börnum.

h) Upplýsingar um önnur leyfi eða verkefni, annaðhvort fyrir fötluð börn eða samkvæmt barnaverndarlögum.

6. gr.

Umsókn.

Sótt er um þjónustu á þar til gerðum eyðublöðum hjá því sveitarfélagi sem viðkomandi á lögheimili í eða hjá þeirri félagsþjónustu sem ber ábyrgð á þjónustunni.

Allar umsóknir eru afgreiddar hjá viðkomandi félagsþjónustu. Lagt er mat á umsóknir, magn þjónustunnar ákveðið og tímalengd samningsins.

Í umsókn skal eftirfarandi koma fram:

a) stutt lýsing á fötlun,

b) fötlunargreining,

c) ósk um fjölda sólarhringa í mánuði,

d) núverandi þjónusta,

e) hvenær óskað er eftir að þjónusta hefjist,

f) hvort óskað er eftir sérstakri fjölskyldu.

Umsækjendur fá skriflegt svar um afgreiðslu umsóknar innan sex vikna frá því að umsókn berst félagsþjónustunni. Ef umsóknin er sett á biðlista er umsækjanda tilkynnt það bréflega. Í synjunarbréfi skal bent á rétt til þess að óska eftir rökstuðningi fyrir synjun og upplýsingar um málskotsrétt.

Endurskoðun á framkvæmd þjónustunnar skal gerð eigi sjaldnar en á tólf mánaða fresti.

7. gr.

Samningur um þjónustu.

Við upphaf þjónustu er haldinn fundur allra aðila og grein gerð fyrir hlutverki hvers og eins. Gerður er þríhliða samningur milli stuðningsfjölskyldu, foreldra og viðkomandi félagsþjónustu.

Í samningnum kemur fram fjöldi sólarhringa á mánuði, almennar upplýsingar um samningsaðila og verkefni stuðningsfjölskyldunnar.

Heimilt er að segja samningnum upp á samningstímabilinu með eins mánaðar fyrirvara.

Samningsfjárhæð tekur almennt til þeirrar þjónustu sem stuðningsfjölskylda veitir hverju sinni. Miðað er við að þjónusta hefjist þegar barn er komið á heimili stuðningsfjölskyldu, eða stuðningsfjölskylda á heimili barns, ef því er að skipta. Ferðir barns við upphaf og lok dvalar teljast ekki til þjónustu stuðningsfjölskyldu nema sérstaklega sé um það samið.

Greiðslur eru stigskiptar eftir umfangi fötlunar og umönnunarþörf og styðjast við umönnunarmat frá Tryggingastofnun ríkisins og þá flokkun sem fram kemur í reglugerð nr. 504/1997 með síðari breytingum:

a) 1. fl.: Börn sem eru algerlega háð öðrum með athafnir daglegs lífs.

b) 2. fl.: Börn sem þurfa verulega aðstoð við athafnir daglegs lífs og gæslu.

c) 3. fl.: Börn sem þurfa minni aðstoð en skv. 1. og 2. fl. en þurfa eftirlit við athafnir daglegs lífs.

Heimilt er að semja um dvöl hjá stuðningsfjölskyldu, hluta úr sólarhring. Sömu greiðsluhlutföll eiga við og um sólarhringsþjónustu 1. – 3. fl. Hámarksdvöl er 50 klst. á mánuði.

Fjárhæð greiðslna er tilgreind í viðmiðunarreglum byggðasamlags um málefni fatlaðra á Norðurlandi vestra, vegna þjónustu stuðningsfjölskyldna við fötluð börn.

Ekki er innheimt gjald fyrir þjónustu stuðningsfjölskyldna. Forráðamenn barns greiða þó útlagðan kostnað vegna þátttöku þess í félagslífi með stuðningsfjölskyldunni. Kostnaður við akstur með barn til og frá stuðningsfjölskyldu greiðist af forráðamönnum þess.

Í samningnum kemur samningsfjárhæðin fram. Stuðningsfjölskyldu er greitt samkvæmt verktökusamningi við félagsþjónustu. Greiðslur til stuðningsfjölskyldna eru skattskyldar verktakagreiðslur en draga má frá kostnað samkvæmt reglum ríkisskattstjóra.

Stuðningsfjölskyldu er óheimilt að taka við greiðslu eða gjöfum frá þeim sem njóta þjónustunnar og kemur það fram í samningnum.

8. gr.

Einstaklingsbundin þjónustuáætlun.

Jafnhliða samningi um þjónustu skal gerð þjónustuáætlun sem felur í sér skýr markmið sem vinna skal að með því að veita stuðning og samhæfa úrræði mismunandi þjónustuaðila. Gerð áætlunar er á ábyrgð þeirra sem sjá um framkvæmd þjónustunnar. Þjónustuáætlunin skal endurmetin eigi sjaldnar en einu sinni á ári.

9. gr.

Málsmeðferð.

Umsókn og tillaga teymis fagfólks um þjónustu er afgreidd af viðkomandi félagsþjónustu sem tekur ákvörðun um hversu mikil þjónusta skuli veitt og hvert fyrirkomulag hennar verði. Leita skal umsagnar þjónustuhóps byggðasamlags um málefni fatlaðra sé þess þörf s.s. í veigameiri málum.

Umsækjendur fá skriflegt svar um afgreiðslu innan fjögurra vikna frá því að umsókn berst. Synjunarbréf innihalda rökstuðning fyrir synjuninni og upplýsingar um hvert umsækjandi geti snúið sér ef hann er ósáttur með niðurstöðuna. Í jákvæðu svari kemur annaðhvort fram að viðkomandi sé kominn á biðlista eftir þjónustu eða þá að hann fær tilboð um þjónustu.

10. gr.

Teymi.

Teymi fagfólks, skv. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks, starfar á hverju eftirtalinna þjónustusvæða: Húnaþingi vestra, Austur-Húnavatnssýslu, Skagafirði, Fjallabyggð og Dalvíkurbyggð. Félagsmálastjóri á hverju svæði ber ábyrgð á því að teymi sé virkjað. Teymið samanstendur að lágmarki af þremur fulltrúum skipuðum af félagsmálastjóra.

a) Teymið metur heildstætt sérstaka stuðningsþörf í samráði við umsækjanda eða aðstandanda hans. Niðurstaða um mat á þörf og úrræði skal liggja fyrir eigi síðar en þremur mánuðum eftir að umsókn berst teyminu. Ef umsækjandi er ekki sáttur við mat teymis fagfólks þá ber ráðgjafa að aðstoða umsækjanda að koma þeim athugasemdum til þjónustuhóps.

b) Teymið sendir niðurstöðurnar til umsækjanda. Teymið skráir umfjöllun um umsóknir og ákvarðanir í fundargerð.

11. gr.

Eftirfylgni þjónustu.

Það er á ábyrgð félagsþjónustu að þjónustuþörf sé endurmetin reglulega og leitað eftir mati notenda á gæðum þjónustunnar. Stuðningsfjölskylda ber ábyrgð á því að upplýsa sveitarfélag barnsins og forráðamenn þess um allt það sem upp kemur á meðan á dvöl stendur og gæti haft áhrif á líðan barnsins.

Félagsþjónustusvæði ber ábyrgð á því að stuðningsfjölskylda fái viðeigandi upplýsingar um allt það sem er mikilvægt velferð barnsins, þar á meðal ef barn er með óþol gagnvart tilteknum fæðutegundum, ofnæmi fyrir dýrum eða annað af þeim toga.

Stuðningsfjölskylda skal undirrita trúnaðaryfirlýsingu varðandi upplýsingar um barnið og fjölskylduhagi þess. Á sama hátt skulu forráðamenn barns undirrita trúnaðaryfirlýsingu varðandi hagi stuðningsfjölskyldu. Þagnarskyldan helst eftir að þjónustu lýkur.

12. gr.

Niðurstaða synjunar og málskot til málsmeðferðarnefndar.

Kynna skal umsækjanda niðurstöðu umsóknar svo fljótt sem unnt er. Sé umsókn hafnað í heild eða að hluta skal umsækjandi fá skriflegt svar þar sem forsendur synjunar eru rökstuddar. Synjun þjónustuhóps má skjóta til málsmeðferðarnefndar byggðasamlags um málefni fatlaðra á Norðurlandi vestra, og skal það gert skriflega innan þriggja mánaða frá því að umsækjanda berst vitneskja um synjun. Málsmeðferðarnefnd skal fjalla um umsókn og taka ákvörðun svo fljótt sem unnt er.

13. gr.

Málskot til úrskurðarnefndar félagsþjónustu.

Umsækjandi getur skotið ákvörðun málsmeðferðarnefndar til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála hjá velferðarráðuneytinu. Skal það gert innan þriggja mánaða frá því umsækjanda berst vitneskja um ákvörðun nefndarinnar.

14. gr.

Birting og endurskoðun.

Reglur þessar, sem settar eru skv. heimild í 21. gr. laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks, eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda, sbr. 55. gr. sömu laga. Reglur þessar skulu endurskoðaðar eigi sjaldnar en á tveggja ára fresti að teknu tilliti til viðeigandi þjónustu- og gæðaviðmiða, sbr. 2. mgr. 3. gr. laga um málefni fatlaðs fólks, með síðari breytingum.

15. gr.

Gildistaka.

Reglur þessar, sem samþykktar voru í stjórn byggðasamlagsins þann 4. desember 2012, öðlast þegar gildi.

Skagafirði, 11. janúar 2013.

F.h. samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra,
Jón Óskar Pétursson framkvæmdastjóri.

B deild - Útgáfud.: 10. júlí 2013