1. gr. Gildissvið. Reglur þessar gilda um meistaranám í skattarétti og reikningsskilum við Háskóla Íslands. Námið er þverfaglegt og skipulagt sameiginlega af viðskiptafræðideild annars vegar og lagadeild hins vegar. Reglur um meistaranámið eru sérreglur gagnvart ákvæðum 69. gr. reglna nr. 569/2009, fyrir Háskóla Íslands, og reglum einstakra deilda um framhaldsnám. Reglur háskólans og deilda gilda þó eftir því sem við á ef þessar reglur hafa ekki að geyma ákvæði um einstök tilvik. Fyrirvarar deilda í reglum og kennsluskrá um fjárveitingar, fáanlegt kennaralið og slík atriði gilda gagnvart þeim nemendum sem skráðir eru í námið. 2. gr. Markmið. Meistaranám í skattarétti og reikningsskilum miðar að því að veita fræðilega sérmenntun á sviðum er snerta skattamál og reikningsskil. Með náminu er komið til móts við þarfir samfélagsins fyrir rannsóknir, þjónustu og stefnumótun sem tengjast skattamálum og reikningsskilum. 3. gr. Um námið. Námið er skipulagt og stundað í umboði tveggja háskóladeilda, viðskiptafræðideildar og lagadeildar. Deildirnar eru bundnar af reglum þessum, svo og af sérstöku samkomulagi þeirra um námið, sbr. 2. mgr. Samstarfsdeildirnar hafa gert með sér samkomulag um skipan þverfaglegs meistaranáms í skattarétti og reikningsskilum við Háskóla Íslands. Í því er meðal annars kveðið á um hvaða deild hefur umsjón með náminu, fjármögnun þess og önnur atriði sem lúta að fjárhagslegum samskiptum. Hvor samstarfsdeild hefur umsjón með náminu á víxl til þriggja ára í senn og kallast þá umsjónardeild skv. reglum þessum. Umsjónardeild annast umsýslu námsins, þ.e. upplýsingagjöf til nemenda, tilkynningar, móttöku umsókna og skráningareyðublaða, frágang í kennsluskrá og slík atriði. Nánar er kveðið á um í samkomulagi deilda hvert hlutverk umsjónardeildar er. Meistaranám í skattarétti og reikningsskilum skal vistast hjá umsjónardeild hverju sinni. Nemandi er skráður og brautskráist frá þeirri deild sem er umsjónardeild við innritun hans og gefur sú deild út prófskírteini og kemur þar fram að námið sé í samvinnu beggja deilda. 4. gr. Stjórn námsins. Stjórn félagsvísindasviðs skipar tveggja manna námsstjórn meistaranáms í skattarétti og reikningsskilum til þriggja ára í senn. Hvor deild tilnefnir einn fulltrúa af sinni hálfu í námsstjórn. Með tilnefningu í námsstjórn öðlast viðkomandi háskóladeild aðild að náminu með þeim réttindum og skyldum sem henni fylgja. Námsstjórn ber faglega ábyrgð á náminu í umboði þeirra deilda sem aðild eiga að því. Námsstjórn fer með öll sameiginleg málefni námsins fyrir hönd viðkomandi deilda, skipuleggur það og hefur yfirumsjón með því. Hún annast samskipti við Miðstöð framhaldsnáms við Háskóla Íslands, sbr. 66. gr. reglna nr. 569/2009. Námsstjórnin tryggir gæði námsins m.a. með því að skipuleggja námið, yfirfara og samþykkja umsóknir, samþykkja námsáætlanir og breytingar á þeim, skipa menn í meistaranámsnefndir og tilnefna prófdómara fyrir meistarapróf. Forseti félagsvísindasviðs Háskóla Íslands sker úr ágreiningi sem upp kann að koma í námsstjórn eða samskiptum deildanna um túlkun samkomulagsins eða framkvæmd námsins. 5. gr. Umsóknarfrestur. Umsóknarfrestur er til 15. apríl ár hvert fyrir innritun á haustmisseri. Námsstjórnin getur veitt undanþágu frá þessari tímasetningu ef sérstök ástæða er fyrir hendi. Afgreiðslu umsókna skal vera lokið og þeim svarað fyrir 25. maí sama ár. 6. gr. Meðferð umsókna. Umsóknum um meistaranám í skattarétti og reikningskilum skal skilað á rafrænu umsóknareyðublaði á vef HÍ. Námsstjórn fjallar um og afgreiðir umsóknir og ber að líta til gæða þeirra og inntökuskilyrða. Umsókn skal fylgja námsáætlun. Ferli umsókna um meistaranám í skattarétti og reikningsskilum er eftirfarandi: | a) | Nemandi sækir um inngöngu í meistaranám á rafrænu umsóknareyðublaði sem aðgengilegt er á vef HÍ. Nemendaskrá veitir umsjónardeild aðgang að umsókninni og umsjónardeild sendir hana til námsstjórnar. | | b) | Námsstjórnin fjallar um umsóknina og afgreiðir hana og sendir umsókn til umsjónardeildar. Umsjónardeild afgreiðir hana að uppfylltum skilyrðum með beiðni um að nemandinn hljóti skrásetningu til námsins. Umsjónardeild verður við slíkri beiðni nema veigamikil rök hamli skrásetningu. Að fenginni staðfestingu á skrásetningu afgreiðir umsjónardeildin umsóknina og sendir tilkynningu þar að lútandi til nemendaskrár. | | c) | Afgreiðslu umsóknar skal að jafnaði vera lokið og henni svarað skriflega innan sex vikna frá því að umsóknarfresti lýkur. Umsókn er synjað ef hún uppfyllir ekki gæðakröfur eða önnur lagaskilyrði. Skjóta má synjun til viðkomandi umsjónardeildar til endanlegrar afgreiðslu. | | d) | Nemandi sem námsstjórnin hefur samþykkt í meistaranám skal snúa sér til nemendaskrár og ganga frá skráningu sinni í námið og greiðslu skrásetningargjalds. Skráning og greiðsla skráningargjalds vegna náms á haustmisseri skal fara fram í síðasta lagi 10. júlí (eindagi gjaldsins). |
7. gr. Inntökuskilyrði. Til að innritast í meistaranám í skattarétti og reikningsskilum þarf umsækjandi að hafa lokið BA-prófi frá lagadeild Háskóla Íslands eða BS-prófi eða BA-prófi frá viðskiptafræðideild háskólans eða öðru háskólanámi sem metið er jafngilt fyrsta háskólaprófi í sambærilegum greinum. 8. gr. Einingafjöldi og tímalengd náms. Námslínur í skattarétti og reikningsskilum eru tvær. Annars vegar 90 ECTS eininga nám sem telst grunnur námsins. Hins vegar 120 ECTS eininga nám óski nemandi eftir því samkvæmt sérstakri umsókn. Nám í skattarétti og reikningsskilum er 90 ECTS einingar. Miðað skal við að lengd námsins sé tvö ár (fjögur misseri). Nemandi skal hafa lokið náminu eigi síðar en á því almanaksári þegar fjögur ár eru liðin frá innritun hans í námið. Námsnefnd getur veitt undanþágu frá þessu ákvæði um tímamörk ef veikindi eða aðrar vítaleysisástæður koma til. Við brautskráningu skal nemandi sýna fram á að hann hafi verið skráður og greitt skráningargjald allan námstímann, eða samkvæmt nánari reglum sem HÍ kann að setja. 9. gr. Framvinda og samsetning náms. Námið skal fela í sér þjálfun í vísindalegum vinnubrögðum og þátttöku í námskeiðum á framhaldsnámsstigi. Gerð er grein fyrir einstökum efnisþáttum meistaranáms í skattarétti og reikningsskilum í sérstöku fylgiskjali sem fylgir samkomulagi viðkomandi deilda um skipan þverfaglegs meistaranáms. Nemandi skal velja sér efni til lokaritgerðar (rannsóknarverkefnis) í síðasta lagi 8 mánuðum fyrir áætlaða brautskráningu, þ.e. fyrir 15. júní vegna útskriftar í febrúar árið eftir og fyrir 15. október vegna útskriftar í júní árið eftir. Þá skal einnig liggja fyrir lýsing á því verkefni sem rannsaka skal og áætlun um framkvæmd þess. Val ritgerðarefnis eða verkefnis skal háð samþykki verðandi umsjónarkennara/leiðbeinanda nemanda. Nemandi skal skila sérstöku eyðublaði til skrifstofu umsjónardeildar um val á efni og umsjónarkennara/leiðbeinanda, undirritað af þeim og nemanda, innan þeirra tímamarka sem tilgreind eru í 3. mgr. Námsstjórn samþykkir lýsinguna og áætlunina. Lokaritgerð skal samsvara 18 ECTS einingum ef um 90 eininga nám er að ræða en 30 ECTS einingum ef um 120 eininga nám er að ræða. Æskilegt er að ritgerðin taki mið af forsendum þverfaglegs náms. 10. gr. Umsjónarkennari og leiðbeinandi. Áður en nemandi hefur samningu lokaritgerðar (rannsóknarverkefnis) skal hann hafa valið sér umsjónarkennara sem hann ráðfærir sig við um lokaritgerð (rannsóknarverkefni), lýsingu hennar og áætlun um framkvæmd. Umsjónarkennari ásamt nemanda leggur fram rannsóknaráætlun sem stjórn námsins samþykkir. Umsjónarkennara er heimilt að hafa utanaðkomandi leiðbeinanda enda uppfylli hann kröfur þessara reglna og viðkomandi deildar. Umsjónarkennari er þó ávallt ábyrgur fyrir því að námið sé í samræmi við reglur um meistaranámið. Umsjónarkennari skal vera fastráðinn kennari (lektor, dósent eða prófessor) í viðkomandi deild. Nú er leiðbeinandi ekki fastur kennari og er þá nauðsynlegt að hann hafi a.m.k. lokið meistaraprófi á viðkomandi fræðasviði. Gæta þarf þess að verkefni nemandans sé á sérsviði leiðbeinandans. 11. gr. Gæðamál. Námsstjórn ber ábyrgð á að framgangur námsins sé í samræmi við námsáætlun, svo og að tryggja fagleg gæði rannsóknarvinnunnar í samræmi við reglur. 12. gr. Prófdómarar. Námsstjórnin tilnefnir prófdómara. Prófdómari og umsjónarkennari/leiðbeinandi prófa meistaranema og leggja mat á lokaverkefni. 13. gr. Námsmat og meistarapróf. Um einkunnir gilda sérreglur lagadeildar og viðskiptafræðideildar Háskóla Íslands fyrir einstök námskeið. Í meistaraprófi má ákveða að nemandi flytji opinberan fyrirlestur um lokaverkefnið en að honum loknum er nemandinn prófaður. Prófdómari og umsjónarkennari/leiðbeinandi, meta frammistöðu nemanda og úrskurða hvort nemandi hafi staðist prófið. 14. gr. Skil og frágangur meistararitgerða. Meistaraprófsritgerð skal leggja fram í þremur eintökum á skrifstofu umsjónardeildar, þann 5. janúar vegna útskriftar í febrúar og 5. maí vegna útskriftar í júní. Við frágang lokaritgerða og meðferð heimilda skal nemandi fylgja reglum um form ritgerða og reglum um meistararitgerðir sem gilda í þeirri samstarfsdeild sem ritgerðarefnið heyrir undir. Koma skal skýrt fram að verkefnið sé unnið innan skattaréttar og reikningsskila og við þá deild sem nemandinn brautskráist frá. Ritgerð skal vera á íslensku. Heimilt er að hafa hana á öðrum tungumálum ef námsstjórn samþykkir. 15. gr. Tengsl við aðra háskóla. Hluta meistaranáms má taka við aðra háskóla eða viðurkenndar rannsókna- eða vísindastofnanir með samþykki námsstjórnar. 16. gr. Lærdómstitill. Meistarapróf samkvæmt þessum reglum veitir rétt til lærdómstitilsins Magister artium í skattarétti og reikningskilum (Master of tax law and accounting). 17. gr. Gildistaka o.fl. Þessar reglur sem hafa verið samþykktar af viðkomandi háskóladeildum og hafa einnig hlotið staðfestingu háskólaráðs, sbr. 18. gr. laga nr. 85/2008 um Háskóla Íslands og 69. gr. reglna nr. 569/2009 fyrir Háskóla Íslands, öðlast þegar gildi. Auk birtingar í B-deild Stjórnartíðinda í samræmi við 1. mgr. 28. gr. laga nr. 85/2008, skal birta reglurnar í kafla þverfaglegs náms í kennsluskrá og á heimasíðu aðildardeildanna. Háskóla Íslands, 18. maí 2010. Kristín Ingólfsdóttir. Þórður Kristinsson. |