I. KAFLI Takmörkun á inntöku nemenda í námsgreinar á félagsvísindasviði. 1. gr. Takmörkun á inntöku nemenda í námsgreinar félags- og mannvísindadeildar. I. Inntaka nemenda í meistaranám í blaða- og fréttamennsku. Fjöldi nýrra nemenda til MA náms í blaða- og fréttamennsku takmarkast við töluna 21. Ef þeir sem sækja um að hefja námið, og uppfylla inntökuskilyrði, eru fleiri en unnt er að taka inn mun val nemenda byggjast á eftirtöldum sjónarmiðum: - Einkunnum í háskóla.
- Dreifingu nemendahópsins á greinar.
- Reynslu af fjölmiðlastörfum.
- Reynslu af öðrum sviðum.
- Viðtali.
II. Inntaka nemenda í fyrri hluta meistaranáms í náms- og starfsráðgjöf. Fjöldi nýrra nemenda í fyrri hluta meistaranáms í náms- og starfsráðgjöf takmarkast við töluna 35. Ef þeir sem sækja um að hefja námið, og uppfylla inntökuskilyrði, eru fleiri en unnt er að taka inn mun val nemenda byggjast á eftirtöldum sjónarmiðum: - Einkunnum í háskóla.
- Starfsreynslu.
- Meðmælum frá vinnuveitanda ef umsækjandi hefur starfsreynslu, annars frá kennara umsækjanda í háskóla.
- Persónulegum greinargerðum um forsendur og áhugasvið.
- Viðtölum ef þurfa þykir.
Að auki kann að verða litið til dreifingar umsækjenda hvað varðar fyrstu prófgráðu, þannig að hlutfall nemenda verði sem jafnast með tilliti til greina sem þeir hafa lokið til BA-, B.Ed.- eða BS-prófs. 2. gr. Takmörkun á inntöku nemenda í námsgreinar félagsráðgjafardeildar. Fjöldi nýrra nemenda í framhaldsnámi í félagsráðgjöf til starfsréttinda takmarkast við töluna 30. Ef þeir sem sækja um að hefja námið, og uppfylla inntökuskilyrði, eru fleiri en unnt er að taka inn mun val nemenda byggjast á eftirtöldum viðmiðum: - Einkunnum í háskóla.
- Starfsreynslu.
- Persónulegum greinargerðum um forsendur og áhugasvið.
- Umsögn frá yfirmanni á stofnun á sviði félagsmála- og heilbrigðisþjónustu ef við á.
- Persónulegum viðtölum ef þurfa þykir.
- Persónuleika- og/eða hæfnisprófum.
- Heilbrigðisvottorði.
Nefndir, skipaðar starfsmönnum viðkomandi deilda, annast val nemenda skv. 1. og 2. gr. reglna þessara. Nánari ákvæði um inntökuskilyrði og inntöku nemenda í þessar greinar er að finna í kennsluskrá og á vef félagsvísindasviðs. II. KAFLI Takmörkun á inntöku nemenda í námsgreinar á menntavísindasviði. 3. gr. Takmörkun á inntöku nemenda í námsgreinar kennaradeildar á menntavísindasviði. Fjöldi nýrra nemenda í 60 eininga diplómanámi á meistarastigi í kennslufræðum takmarkast við töluna 90. Ef þeir sem sækja um að hefja námið, og uppfylla inntökuskilyrði, eru fleiri en unnt er að taka inn mun val nemenda byggjast á eftirtöldum sjónarmiðum: - Kennaraskorti í ákveðnum greinum.
- Einkunnum í háskóla.
- Starfsreynslu.
- Dreifingu nemendahópsins á kennslugreinar.
- Greinargerð umsækjenda.
- Meðmælum.
- Viðtali ef þurfa þykir.
Sérstök inntökunefnd skipuð starfsmönnum menntavísindasviðs annast valið. III. KAFLI Takmörkun á inntöku nemenda í námsgreinar á heilbrigðisvísindasviði. 4. gr. Takmörkun á inntöku nemenda í námsgreinar læknadeildar. Fjöldi nemenda á 1. námsári í læknisfræði takmarkast við töluna 48. Fjöldi nemenda á 1. námsári í sjúkraþjálfun takmarkast við töluna 25. Fjöldi nemenda á vormisseri 1. námsárs í lífeindafræði takmarkast við töluna 30. Um framkvæmd fjöldatakmörkunar í læknadeild gilda eftirfarandi reglur, sem aðgengilegar eru á vef læknadeildar: - Reglur nr. 1042/2003, um inntöku nýnema í læknisfræði og sjúkraþjálfun, með síðari breytingum.
- Reglur nr. 540/2005, um val nemenda til náms í geislafræði og lífeindafræði.
5. gr. Takmörkun á inntöku nemenda í námsgreinar hjúkrunarfræðideildar. Fjöldi nýrra nemenda í ljósmóðurfræði takmarkast við töluna 10. Um val nemenda til náms í ljósmóðurfræði gilda reglur um það efni sem háskólaráð setti þann 5. október 1995 og birtar eru í kennsluskrá. Fjöldi nemenda í hjúkrunarfræði á vormisseri 1. námsárs takmarkast við að 100 nemendur að hámarki öðlist rétt til áframhaldandi náms. Rétturinn ákvarðast af árangri í samkeppnisprófum. Um val nemenda í hjúkrunarfræði gilda reglur hjúkrunarfræðideildar nr. 502/2002 um val stúdenta til náms í hjúkrunarfræði með síðari breytingum. 6. gr. Takmörkun á inntöku nemenda í námsgreinar sálfræðideildar. Fjöldi nýrra nemenda í framhaldsnámi í sálfræði (til cand.psych.-gráðu, til 120 eininga, með starfsréttindi samkvæmt lögum nr. 40/1976) takmarkast við töluna 20. Ef þeir sem sækja um að hefja námið, og uppfylla inntökuskilyrði, eru fleiri en unnt er að taka inn mun val nemenda byggjast á eftirtöldum sjónarmiðum: - Röðun einkunna nemenda í námskeiðum og/eða aðaleinkunnar á lokaprófi í sálfræði.
- Námi að loknu BA/BS-prófi í sálfræði.
- Birtingum í ritrýndum tímaritum.
- Starfsreynslu umsækjenda.
- Greinargerðum um fyrirhugað starfsval.
- Meðmælabréfum.
- Viðtölum ef þurfa þykir.
- Inntökuprófi ef þurfa þykir.
Sérstök inntökunefnd sálfræðideildar annast val nemenda. 7. gr. Takmörkun á inntöku nemenda í námsgreinar tannlæknadeildar. Fjöldi nemenda á vormisseri 1. námsárs í tannlæknisfræði takmarkast við töluna 7. Fjöldi nemenda á vormisseri 1. námsárs í BS námi í tannsmíði takmarkast við töluna 5. Um val nemenda gilda reglur tannlæknadeildar um samkeppnispróf sem birtar eru í kennsluskrá. 8. gr. Takmörkun á inntöku nemenda í námsgreinar matvæla- og næringarfræðideildar. Fjöldi nemenda á vormisseri 1. námsárs til BS-prófs í næringarfræði takmarkast við töluna 30. Um val nemenda gilda reglur um val nemenda til náms í næringarfræði við matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands. IV. KAFLI Takmörkun á inntöku nemenda í þverfaglegt nám. 9. gr. Takmörkun á inntöku nemenda í þverfaglegt meistaranám í talmeinafræði. Fjöldi nýrra nemenda í meistaranám í talmeinafræði takmarkast við töluna 15. Tekið er inn í meistaranámið annað hvert ár. Ef þeir sem sækja um að hefja meistaranám í talmeinafræði og uppfylla inntökuskilyrði skv. reglum nr. 972/2009, um meistaranám við Háskóla Íslands í talmeinafræði, eru fleiri en unnt er að taka inn skal val nemenda byggjast á eftirtöldum sjónarmiðum: - Námsárangri í námskeiðum sem gerð er krafa um skv. b-lið 1. mgr. 7. gr. reglna nr. 972/2009 um meistaranám við Háskóla Íslands í talmeinafræði.
- Námsárangri í fyrra háskólanámi.
- Starfsreynslu, viðbótarnámi eða rannsókn sem styrkja umsókn að mati námsstjórnar.
- Viðtölum ef þurfa þykir.
10. gr. Gildistaka. Reglur þessar, sem háskólaráð Háskóla Íslands hefur samþykkt, að fengnum tillögum fræðasviða og deilda háskólans, eru settar samkvæmt heimild í 3. og 4. mgr. 18. gr. laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla. Reglurnar taka gildi 1. júlí 2010. Frá sama tíma falla úr gildi reglur nr. 318/2009 um takmörkun á inntöku nemenda í tilteknar námsgreinar við Háskóla Íslands háskólaárið 2009-2010. Háskóla Íslands, 10. febrúar 2010. Kristín Ingólfsdóttir. Þórður Kristinsson.
|