1. gr. Markmið. Markmið reglugerðar þessarar er að stuðla að því að koma í veg fyrir myndun raf- og rafeindatækjaúrgangs sem og að stuðla að endurnotkun, endurvinnslu eða annars konar endurnýtingu hans. Jafnframt að auka umhverfisvitund allra aðila sem framleiða, selja og nota raf- og rafeindatæki og þeirra sem meðhöndla raf- og rafeindatækjaúrgang. 2. gr. Gildissvið. Reglugerðin tekur til raf- og rafeindatækjaúrgangs, sbr. I. viðauka A og B. Reglugerðin gildir um móttöku, geymslu, söfnun, endurvinnslu og aðra meðhöndlun raf- og rafeindatækjaúrgangs. 3. gr. Skilgreiningar. Endurnotkun: Hvers kyns notkun þar sem raf- og rafeindatækjaúrgangur og íhlutir þeirra eru notaðir í sama tilgangi og þeir voru upphaflega ætlaðir. Endurnýting: Hvers kyns nýting á raf- og rafeindatækjaúrgangi eða íhlutum, önnur en endurnotkun, þ.m.t. endurvinnsla, orkuvinnsla og landmótun. Endurvinnsla: Endurframleiðsla vegna raf- og rafeindatækjaúrgangs eða íhluta til upprunalegra eða annarra nota, þó ekki orkuvinnsla. Framleiðandi og innflytjandi: aðili sem, óháð þeirri sölutækni sem er notuð, - framleiðir og selur raf- og rafeindatæki undir eigin vörumerki,
- endurselur raf- og rafeindatæki, undir eigin vörumerki, sem aðrir birgjar framleiða; endursöluaðilinn telst þó ekki vera framleiðandi ef vörumerki framleiðandans er á tækjabúnaðinum eins og kveðið er á um í i. lið,
- flytur raf- og rafeindatæki inn eða út úr landinu í atvinnuskyni, eða
- selur raf- og rafeindatæki í tollfrjálsri verslun hér á landi sem ætluð eru til innlendra nota.
Förgun: Aðgerð eða ferli þar sem raf- og rafeindatækjaúrgangi er umbreytt og/eða komið fyrir varanlega, s.s. brennsla og urðun úrgangs. Gámastæði: Svæði á móttökustöð eða söfnunarstöð sem nægir fyrir gám eða aðra geymslu fyrir raf- og rafeindatækjaúrgang. Hreinsun: Að fjarlægja spilliefni úr raf- og rafeindatækjaúrgangi. Meðhöndlun: Söfnun, geymsla, böggun, flokkun, flutningur, endurnotkun, endurnýting, pökkun og förgun úrgangs, þ.m.t. eftirlit með slíkri starfsemi og umsjón með förgunarstöðvum eftir að þeim hefur verið lokað. Móttökustöð: Staður og aðstaða þar sem tekið er við úrgangi til geymslu til lengri eða skemmri tíma, til umhleðslu, flokkunar eða annarrar úrvinnslu. Þaðan fer úrgangurinn til förgunar, endurnýtingar, endurnotkunar eða honum er fargað á staðnum. Undir móttökustöð falla flokkunarmiðstöðvar og förgunarstaðir. Raf- og rafeindatæki: Búnaður sem þarf rafstraum eða rafsegulsvið til að geta starfað á réttan hátt og búnaður til að framleiða, flytja og mæla slíkan rafstraum og rafsegulsvið, sbr. I. viðauka A og B. Raf- og rafeindatækjaúrgangur: Raf- eða rafeindatæki sem er úrgangur, þ.m.t. allir íhlutir, undireiningar og aukahlutir sem eru hluti af búnaðinum. Raf- og rafeindatækjaúrgangur frá heimilum: Raf- og rafeindatækjaúrgangur sem kemur frá heimilum, einnig raf- og rafeindatækjaúrgangur frá verslun, iðnaði, stofnunum og annars staðar frá sem er að eðli og umfangi svipaður þeim sem kemur frá heimilum. Skilakerfi: Fyrirtæki eða aðili sem tekur að sér ábyrgð framleiðanda og innflytjanda á raf- og rafeindatækjaúrgangi. Stýrinefnd: Nefnd sem hefur umsjón með starfsemi skilakerfa, skipuð af umhverfisráðherra. Söfnunarstöð (gámastöð): Staður og aðstaða þar sem tekið er við úrgangi frá almenningi og/eða smærri fyrirtækjum. Þaðan fer hann til endurnotkunar og endurnýtingar eða er fluttur til móttökustöðva. Úrgangur: Hvers kyns efni eða hlutir sem úrgangshafi ákveður að losa sig við eða er gert að losa sig við á tiltekinn hátt og skráðir eru á lista í reglugerð um skrá yfir spilliefni og annan úrgang. Úrvinnsla raf- og rafeindatækjaúrgangs: Hvers kyns aðgerðir sem eru framkvæmdar til endurnotkunar, endurnýtingar og/eða förgunar raf- og rafeindatækjaúrgangs. 4. gr. Upplýsingaskylda til kaupenda um skil. Raf- og rafeindatækjaúrgangi skal skila til söfnunarstöðva eða móttökustöðva sem hafa starfsleyfi til að meðhöndla slíkan úrgang. Framleiðandi og innflytjandi skulu upplýsa kaupendur um að hægt sé að skila raf- og rafeindatækjaúrgangi frá heimilum án greiðslu, hvar heimilt er að skila raf- og rafeindatækjaúrgangi og að ábyrgst sé að hann verði meðhöndlaður í samræmi við gildandi reglur. Framleiðandi og innflytjandi skulu merkja raf- og rafeindatæki með merki skv. IV. viðauka. Einnig skulu koma fram leiðbeiningar um þýðingu merkisins, þ.e. að raf- og rafeindatækjaúrgangi skuli safna sérstaklega. 5. gr. Skyldur sveitarfélaga. Söfnunarstöðvar sveitarfélaga skulu leggja til gámastæði fyrir skilakerfi á söfnunarstöðvum sveitarfélaga. Sveitarfélög skulu veita íbúum leiðbeiningar um hvernig beri að flokka og skila raf- og rafeindatækjaúrgangi til söfnunarstöðva sveitarfélaga. 6. gr. Ábyrgð framleiðenda og innflytjenda. Framleiðandi og innflytjandi skulu bera ábyrgð á þeim raf- og rafeindatækjum sem framleidd eru hér á landi eða flutt inn og falla undir I. viðauka A og B. Í ábyrgð framleiðanda og innflytjanda felst að þeir skulu fjármagna og tryggja meðhöndlun raf- og rafeindatækjaúrgangs að frátalinni söfnun til söfnunarstöðvar sveitarfélaga. Skulu framleiðendur og innflytjendur uppfylla skyldur sínar með rekstri eigin skilakerfis eða með aðild að sameiginlegu skilakerfi fleiri framleiðenda og innflytjenda. Ábyrgð framleiðenda og innflytjenda á geymslu og söfnun frá söfnunarstöð sveitarfélaga nær til landsins alls án tillits til hvar varan er seld og skal allur raf- og rafeindatækjaúrgangur sem fellur undir reglugerð þessa fara til meðhöndlunar. Seljandi raf- og rafeindatækja sem seld eru í tollfrjálsri verslun hér á landi og ætluð til innlendra nota ber ábyrgð framleiðanda og innflytjanda samkvæmt reglugerð þessari. 7. gr. Skilakerfi. Öllum rafeindatækjaúrgangi sem er safnað skal komið til úrvinnslu. Til að tryggja viðeigandi endurnotkun, endurvinnslu eða annars konar endurnýtingu skulu framleiðendur og innflytjendur raf- og rafeindatækja uppfylla skyldur sínar með rekstri eigin skilakerfis eða með aðild að sameiginlegu skilakerfi fleiri framleiðenda og innflytjenda. Skilakerfi skulu útvega gám eða gáma undir raf- og rafeindatækjaúrgang og semja við sveitarfélög um nánara fyrirkomulag söfnunar úrgangsins. Framleiðanda og innflytjanda annarra raf- og rafeindatækja en raf- og rafeindatækja fyrir heimili er heimilt að gera samkomulag um að kaupandi raf- og rafeindatækis yfirtaki ábyrgð framleiðanda og innflytjanda tækisins. Áður en skilakerfi hefur starfsemi skal það afla leyfis Umhverfisstofnunar. Skilakerfi ber að leggja fram upplýsingar til stýrinefndar um að það uppfylli kröfur samkvæmt ákvæðum greinar þessarar. Ef ekki er kveðið sérstaklega á um annað í samningi milli skilakerfis og viðkomandi söfnunar- eða móttökustöðvar skal skilakerfi sækja raf- og rafeindatækjaúrgang innan þriggja daga frá því að ósk um slíkt berst. 8. gr. Fjárhagsleg ábyrgð skilakerfa. Skilakerfi ber að leggja fram tryggingu um fjárhagslega ábyrgð vegna starfsemi sinnar. Trygging um fjárhagslega ábyrgð getur verið bankatrygging sem veitt er af fjármálastofnun, bundinn bankareikningur eða önnur fullnægjandi endurvinnslutrygging. Upphæð tryggingar um fjárhagslega ábyrgð skal miðast við að hún standi undir skuldbindingum skilakerfisins í 15 ár að teknu tilliti til markaðshlutdeildar kerfisins. Upphæð tryggingarinnar má nema allt að 400.000 SDR. Upphæð tryggingar um fjárhagslega ábyrgð skal hljóta samþykki Umhverfisstofnunar. Skilakerfi, sem hefur innan sinna vébanda a.m.k. 11 framleiðendur og innflytjendur raf- og rafeindatækja sem eru með samanlagða 30% lágmarksmarkaðshlutdeild eftir þyngd í a.m.k. einum flokki, sbr. I. viðauka A, er undanþegið tryggingu um fjárhagslega ábyrgð, sbr. 1. mgr. Falli trygging um fjárhagslega ábyrgð niður ber þeim er veitti trygginguna að tilkynna Umhverfisstofnun um niðurfellingu hennar. Enda þótt trygging sé fallin úr gildi, ber sá sem hana veitti, áfram ábyrgð gagnvart þriðja manni á tjónum sem verða þar til fjórar vikur eru liðnar frá því að tryggingin féll úr gildi, nema önnur fullnægjandi trygging hafi verið tekin. 9. gr. Meðhöndlun raf- og rafeindatækjaúrgangs. Geymsla og úrvinnsla raf- og rafeindatækjaúrgangs skal vera í samræmi við kröfur, sem settar eru fram í II. viðauka og ákvæði starfsleyfis. Hreinsun raf- og rafeindatækjaúrgangs skal framkvæma eins fljótt og mögulegt er. Fylgja skal að lágmarki þeim kröfum um meðhöndlun raf- og rafeindatækjaúrgangs sem getið er um í III. viðauka áður en raf- eða rafeindatækið er endurunnið eða sent úr landi til endurvinnslu, sbr. 3. mgr. Fjarlægja skal lausa hluti með þeim hætti að tryggt sé að hægt sé að endurnota eða endurnýta þá. Hættuleg smíðaefni og íhluti skal fjarlægja og aðgreina. Meðhöndlunin getur einnig átt sér stað erlendis, að því tilskildu að flutningur raf- og rafeindatækjaúrgangsins sé í samræmi við reglugerð um gildistöku EES-gerða um umsjón og eftirlit með flutningi úrgangs innan, til og frá Evrópubandalaginu. Raf- og rafeindatækjaúrgangur, sem er fluttur út skal einungis teljast uppfylla skyldur og markmið 1. og 2. mgr. 10. gr. ef útflytjandinn getur sannað að endurnýtingin, endurnotkunin og/eða endurvinnslan hafi farið fram við aðstæður sem eru sambærilegar við það sem krafist er í þessari reglugerð. 10. gr. Meðhöndlunarmarkmið. Skilakerfi skulu meðhöndla allan raf- og rafeindatækjaúrgang sem safnað er og skal stefnt að því að safna og meðhöndla að lágmarki 6 kg á hvern íbúa á ári, í réttu hlutfalli við markaðshlutdeild byggða á þyngd. Raf- og rafeindatækjaúrgangur skal meðhöndlaður í samræmi við 2. mgr. Endurvinnslu- og endurnýtingarmarkmið sem skilakerfum ber að ná eru eftirfarandi: - að því er varðar raf- og rafeindatækjaúrgang í 1. og 10. flokki í I. viðauka A skal;
- endurnýtingarhlutfall vera a.m.k. 80% miðað við meðalþyngd hvers tækis, og
- endurnotkun og endurvinnsla íhluta, efniviðar og efna vera a.m.k. 75% miðað við meðalþyngd hvers tækis,
- að því er varðar raf- og rafeindatækjaúrgang í 3. og 4. flokki í I. viðauka A skal;,
- endurnýtingarhlutfall vera í a.m.k. 75% miðað við meðalþyngd hvers tækis, og
- endurnotkun og endurvinnsla íhluta, efniviðar og efna vera a.m.k. 65% miðað við meðalþyngd hvers tækis,
- að því er varðar raf- og rafeindabúnaðarúrgang í 2., 5., 6., 7. og 9. flokki í I. viðauka A skal;
- hlutfall endurnýtingar vera a.m.k. 70% miðað við meðalþyngd hvers tækis, og
- endurnotkun og endurvinnsla íhluta, efniviðar og efna vera a.m.k. 50% miðað við meðalþyngd hvers tækis,
- að því er varðar gasúrhleðslulampa skal endurnýtingar- og endurvinnsluhlutfall íhluta, efniviðar og efna vera 80% af þyngd lampanna.
11. gr. Hlutverk stýrinefnda. Stýrinefnd skal hafa umsjón með starfsemi skilakerfa. Telji stýrinefnd að skilakerfi uppfylli ekki skyldur sínar ber henni að tilkynna það til Umhverfisstofnunar. Telji stýrinefnd að framleiðandi eða innflytjandi hafi ekki skráð sig í skráningarkerfi framleiðenda og innflytjenda og að hann framleiði eða flytji inn raf- eða rafeindatæki sem falla undir I. viðauka A og B skal stýrinefnd tilkynna það til Umhverfisstofnunar. Stýrinefnd getur leitað hagkvæmra leiða til þess að söfnun, móttaka og meðhöndlun raf- og rafeindatækjaúrgangs frá heimilum fari fram með landfræðilega skynsömum hætti. Ber henni að leita eftir áliti Samkeppniseftirlits í því sambandi. Stýrinefnd skal í þessu ljósi miða við að aðeins eitt skilakerfi fyrir hvern flokk raf- og rafeindatækja starfi á hverri söfnunarstöð sveitarfélaga. 12. gr. Skráningarkerfi framleiðenda og innflytjenda. Framleiðanda og innflytjanda raf- og rafeindatækja, eða skilakerfi fyrir hans hönd, ber að skrá sig hjá skráningarkerfi framleiðenda og innflytjenda a.m.k. 15 dögum áður en vara sem fellur undir I. viðauka A og B er markaðssett hér á landi. Stýrinefnd ber ábyrgð á skráningarkerfi framleiðenda og innflytjenda. Skráningarkerfi framleiðenda og innflytjenda skal halda skrá yfir framleiðendur og innflytjendur þar sem fyrir hvern einstakan framleiðanda og innflytjanda koma fram upplýsingar um heiti, aðsetur og kennitölu, ásamt upplýsingum um skilakerfi sem hann er aðili að og hvaða raf- og rafeindatæki hann flytur inn í samræmi við flokkun í I. viðauka A auk þess magns sem hann markaðssetur eða áætlar að setja á markað. Skilakerfi skulu skila inn til stýrinefndar eftirfarandi gögnum til skráningarkerfis framleiðenda og innflytjenda fyrir 1. júní ár hvert fyrir árið á undan. - Magn raf- og rafeindatækjaúrgangs sem er safnað; annars vegar raf- og rafeindatækjaúrgangur frá heimilum og hins vegar raf- og rafeindatækjaúrgangur frá öðrum en heimilum skipt upp eftir flokkum sbr. I. viðauka A. Einnig magn raf- og rafeindatækjaúrgangs sem er meðhöndlað hér á landi eða erlendis, skipt upp eftir flokkum, sbr. I. viðauka A.
- Magn í hverjum flokki sem er endurnýtt annars vegar og magn sem er endurnotað eða endurvinnsla íhluta, efniviðar og efna hins vegar.
- Magn raf- og rafeindatækjaúrgangs sem er endurnotað í heilu lagi flokkað eftir tegund, sbr. I. viðauka A.
- Markaðshlutdeild framleiðenda og innflytjenda, miðað við þyngd skipt upp eftir flokkum í I. viðauka A. Tilgreina skal innflutning, útflutning og framleiðslu.
Stýrinefnd skilar samantekt sömu upplýsinga til Umhverfisstofnunar fyrir 1. nóvember ár hvert fyrir árið á undan, í fyrsta skiptið fyrir árið 2009. 13. gr. Hlutverk Umhverfisstofnunar. Umhverfisstofnun er heimilt að fenginni tilkynningu stýrinefndar, sbr. 1. mgr. 11. gr. að beita skilakerfi þvingunarúrræðum samkvæmt reglugerð þessari og ef brot eru alvarleg að svipta skilakerfi leyfi til að starfa. Umhverfisstofnun sker úr um hvaða raf- og rafeindatæki falla undir reglugerð þessa. Umhverfisstofnun skal taka ákvörðun um hvort leggja skuli fyrir viðkomandi framleiðanda eða innflytjanda að skrá sig í samræmi við reglugerð þessa. Umhverfisstofnun skal að fenginni tilkynningu stýrinefndar, sbr. 2. mgr. 11. gr. gefa hugsanlegum framleiðanda og innflytjanda kost á að tjá sig um hvort hann framleiði eða flytji inn raf- eða rafeindatæki sem falla undir I. viðauka A og B. Ef aðili verður ekki við tilmælum Umhverfisstofnunar um skráningu er stofnuninni heimilt að beita þvingunarúrræðum samkvæmt reglugerð þessari. 14. gr. Upplýsingar til þeirra er meðhöndla úrgang. Framleiðendur og innflytjendur skulu veita upplýsingar um rétta meðhöndlun raf- og rafeindatækjaúrgangs til þeirra sem hafa starfsleyfi til að meðhöndla raf- og rafeindatækjaúrgang. Slíkar upplýsingar skulu veittar eigi síðar en ári frá því að raf- og rafeindatæki var markaðssett. Framleiðendur og innflytjendur raf- og rafeindatækja skulu koma á framfæri upplýsingum varðandi sundurhlutun tækjanna, t.d. með handbókum eða rafrænum miðlum, til þeirra sem hafa starfsleyfi til að meðhöndla raf- og rafeindatækjaúrgang. Þessar upplýsingar skulu vera tiltækar í síðasta lagi einu ári eftir að raf- og rafeindatæki, eða íhlutir þeirra, eru sett á markað til að tryggja rétta úrvinnslu raf- og rafeindatækjaúrgangs, þ.e. sem ekki skaðar umhverfið. Þessar upplýsingar skulu vera á íslensku, ensku eða norðurlandamáli öðru en finnsku. Í upplýsingunum skal tilgreina öll þau atriði sem eru nauðsynleg til að geta uppfyllt ákvæði reglugerðar þessarar, upplýsingar um mismunandi íhluti og efnivið raf- og rafeindatækja og einnig staðsetningu hættulegra efna og efnablandna í slíkum búnaði. 15. gr. Upplýsingagjöf. Stýrinefnd skal taka saman skrá yfir framleiðendur og innflytjendur og safna ár hvert upplýsingum, ásamt rökstuddu mati, um magn og flokka raf- og rafeindatækja sem sett eru á markað. Jafnframt skal nefndin taka saman upplýsingar um raf- og rafeindatækjaúrgang sem er safnað eftir öllum leiðum, endurnotaður, endurunninn og endurnýttur, sem og um úrgang sem hefur verið safnað og fluttur út, eftir vigt eða, ef það er ekki hægt, eftir fjölda tækja. Framleiðendur og innflytjendur, sem bjóða raf- eða rafeindatæki í gegnum netið skulu veita stýrinefnd upplýsingar um það hvort og hvernig þeir uppfylla kröfurnar sem eru settar fram í 4. mgr. 12. gr. og um magn og flokka raf- og rafeindatækja sem sett eru á markað þar sem kaupandi tækisins er búsettur. Þeir sem taka á móti eða sjá um úrvinnslu raf- og rafeindatækjaúrgangs og íhluta hans skulu halda skrá yfir magn úrgangsins, í samræmi við flokkun í I. viðauka A, og það hvernig honum er ráðstafað. Halda skal skrá yfir gerð og magn spilliefna og ráðstöfun þeirra. Skrárnar skulu vera aðgengilegar eftirlitsaðila. Stýrinefnd skal, fyrir 1. nóvember ár hvert, senda Umhverfistofnun upplýsingar þar sem gerð er grein fyrir magni raf- og rafeindatækjaúrgangs sem tekið var á móti á almanaksári þar á undan, heildarþyngd hans, hreinsun og sundurhlutun, í samræmi við flokkun í I. viðauka A. Tilgreina skal hvaða efni voru hreinsuð úr úrganginum og hvernig honum var ráðstafað. 16. gr. Ágreiningur. Rísi ágreiningur milli stýrinefndar, skilakerfa eða sveitarfélaga vegna söfnunarstöðva sveitarfélaga um framkvæmd reglugerðar þessarar skal vísa málinu til úrskurðar ráðherra. 17. gr. Þvingunarúrræði. Til að knýja á um framkvæmd ráðstöfunar samkvæmt reglugerð þessari er Umhverfisstofnun heimilt að veita viðkomandi aðila áminningu. Jafnframt skal veita hæfilegan frest til úrbóta ef þeirra er þörf. Ef aðili verður ekki við tilmælum um úrbætur innan tiltekins frests er heimilt að ákveða aðila dagsektir þar til úr er bætt. Dagsektir renna til ríkissjóðs og skal hámark þeirra vera 500.000 kr. á dag. Heimilt er að láta vinna verk á kostnað hins vinnuskylda ef tilmæli um framkvæmd eru vanrækt og skal sá kostnaður þá greiddur til bráðabirgða af Umhverfisstofnun eða heilbrigðisnefnd þar sem hún fer með eftirlit en innheimtast síðar hjá hlutaðeigandi. Kostnað við verkið sem og dagsektir skv. 3. mgr. má innheimta með fjárnámi. Leita skal aðstoðar lögreglu ef með þarf við framkvæmd þvingunarúrræða. 18. gr. Viðurlög. Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða sektum hvort sem þau eru framin af ásetningi eða stórfelldu gáleysi. Sé um stórfelld eða ítrekuð ásetningsbrot að ræða varða brot á reglugerð þessari fangelsi allt að fjórum árum. Tilraun til brota gegn reglugerðinni varðar refsingu sem fullframið brot, sbr. III. kafla almennra hegningarlaga. Sama gildir um hlutdeild í brotum. Sektir má ákvarða lögaðila þó að sök verði ekki sönnuð á fyrirsvarsmenn eða starfsmenn hans eða aðra þá einstaklinga sem í þágu hans starfa, enda hafi brotið orðið eða getað orðið til hagsbóta fyrir lögaðilann. Einnig má, með sama skilorði, gera lögaðila sekt ef fyrirsvarsmenn eða starfsmenn hans eða aðrir einstaklingar sem í þágu hans starfa gerast sekir um brot. 19. gr. Gildistaka. Reglugerð þessi er sett með stoð í 2. mgr. 15. gr., 4. mgr. 18. gr., 3. mgr. 20. gr. og 22. gr. laga nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs, með síðari breytingum, og 5. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, með síðari breytingum. Reglugerðin er sett til innleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/96/EB frá 27. janúar 2002 um raf- og rafeindabúnaðarúrgang og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/108/EB frá 8. desember 2003 um breytingu á tilskipun 2002/96/EB um raf- og rafeindabúnaðarúrgang, sem vísað er til í 1. undirmgr. í lið 32fa í XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 82/2004 og með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 134/2004. Jafnframt er reglugerðin sett að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga hvað varðar skyldur sveitarfélaga, sbr. ákvæði 3. mgr. 9. gr. laga nr. 7/1998 og 13. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs. Reglugerðin öðlast þegar gildi. Umhverfisráðuneytinu, 14. nóvember 2008. Þórunn Sveinbjarnardóttir. Magnús Jóhannesson. VIÐAUKAR (sjá PDF-skjal) |