FORSETI ÍSLANDS gjörir kunnugt: Alþingi hefur fallist á lög þessi og ég staðfest þau með samþykki mínu: 1. gr. 10. gr. laganna orðast svo: Á hverju fiskveiðiári skal ráðherra hafa til ráðstöfunar aflaheimildir sem nema allt að 12.000 lestum af óslægðum botnfiski og hann getur ráðstafað þannig: 1. Til að mæta áföllum sem fyrirsjáanleg eru vegna verulegra breytinga á aflamarki einstakra tegunda. 2. Til stuðnings byggðarlögum, í samráði við Byggðastofnun, þannig: a. Til minni byggðarlaga sem lent hafa í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi og háð eru veiðum eða vinnslu á botnfiski. b. Til byggðarlaga sem hafa orðið fyrir óvæntri skerðingu á heildaraflaheimildum fiskiskipa sem gerð hafa verið út og landað hafa afla í viðkomandi byggðarlögum og sem hefur haft veruleg áhrif á atvinnuástand í byggðarlögunum. Heimilt er að ráðstafa aflaheimildum samkvæmt þessum lið til allt að þriggja ára í senn. Aflaheimildir samkvæmt þessari grein skulu skiptast milli tegunda í hlutfalli við leyfilegt heildarmagn í tegundunum og skulu dregnar frá leyfðum heildarafla þessara tegunda áður en honum er skipt á grundvelli aflahlutdeilda. Í reglugerðum sem ráðherra setur skv. 3. og 4. mgr. skal kveðið á um hvaða botnfisktegundir komi til úthlutunar. Ráðherra setur í reglugerð ákvæði um ráðstöfun aflaheimilda skv. 1. tölul. 1. mgr. Ráðherra setur í reglugerð ákvæði um ráðstöfun aflaheimilda skv. 2. tölul. 1. mgr. Þar skal kveðið á um skilgreiningu á byggðarlagi, viðmiðunar- og útreikningsreglur og aðrar reglur um úthlutun aflaheimilda til byggðarlaga. Ráðherra setur í reglugerð almenn skilyrði fyrir úthlutun aflaheimilda skv. 2. tölul. 1. mgr. til fiskiskipa innan einstakra byggðarlaga. Skulu þau skilyrði m.a. varða skráningarstað, skráningartíma, eignarhald, skiptingu milli fiskiskipa, lágmarksverð, tryggingar fyrir greiðslum og framkvæmd úthlutunar. Ráðherra getur heimilað á grundvelli rökstuddra tillagna sveitarstjórnar að sett verði sérstök skilyrði fyrir úthlutun aflaheimilda í einstökum byggðarlögum er víkja frá eða eru til viðbótar hinum almennu skilyrðum enda séu þau byggð á málefnalegum og staðbundnum ástæðum og í samræmi við hagsmuni viðkomandi byggðarlaga. Eftir að slíkar tillögur sveitarstjórna hafa borist skulu þær birtar með aðgengilegum hætti, svo sem á vefsíðu ráðuneytisins, eigi síðar en sjö dögum áður en tekin verður afstaða til þeirra. Fallist ráðherra á tillögur sveitarstjórna um slík skilyrði staðfestir ráðuneytið tillögurnar og auglýsir þær í B-deild Stjórnartíðinda. Framsal aflaheimilda, sem úthlutað er skv. 2. tölul. 1. mgr., er óheimilt en þó skulu heimil jöfn skipti á aflaheimildum í þorskígildum talið. Framsal aflaheimilda samkvæmt töluliðnum skal þó vera heimilt hafi fiskiskip efnt löndunar- og vinnsluskyldu í samræmi við 7. mgr. Fiskiskipum er skylt að landa til vinnslu innan hlutaðeigandi byggðarlaga afla sem nemur í þorskígildum talið tvöföldu magni þeirra aflaheimilda sem þau fá úthlutað skv. 2. tölul. 1. mgr. og skal úthlutun til þeirra ekki fara fram nema að því leyti sem það skilyrði er uppfyllt samkvæmt nánari reglum sem ráðherra setur. Ráðherra er heimilt að fengnum rökstuddum tillögum sveitarstjórnar að víkja frá þessu skilyrði enda sé það gert á grundvelli málefnalegra og staðbundinna ástæðna. Fiskistofa annast úthlutun aflaheimilda, sem koma í hlut einstakra byggðarlaga, til fiskiskipa. Ákvarðanir Fiskistofu um úthlutun aflaheimilda samkvæmt þessari grein er heimilt að kæra til sjávarútvegsráðuneytisins. Kærufrestur er tvær vikur frá tilkynningu Fiskistofu um úthlutun eða höfnun umsóknar um úthlutun og skal úthlutun ekki fara fram fyrr en að þeim fresti liðnum. Skal ráðuneytið leggja úrskurð á kærur innan tveggja mánaða. Ráðuneytið getur ákveðið að úthlutun aflaheimilda til skipa í tilteknu byggðarlagi verði frestað að hluta eða öllu leyti þar til það hefur lokið afgreiðslu á kærum sem borist hafa vegna úthlutunar þar.
2. gr. Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða er orðast svo: Á fiskveiðiárunum 2006/2007, 2007/2008 og 2008/2009 skal ráðstafa hluta þeirra aflaheimilda, sem tilgreindar eru í 1. mgr. 10. gr., til þeirra byggðarlaga sem fengið hafa úthlutað aflaheimildum á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða XXVI í lögum nr. 38/1990, sem hér segir: 750 þorskígildislestum á fiskveiðiárinu 2006/2007, 500 þorskígildislestum á fiskveiðiárinu 2007/2008 og 250 þorskígildislestum á fiskveiðiárinu 2008/2009 og skulu þær skiptast milli byggðarlaga í sömu hlutföllum og úthlutun samkvæmt bráðabirgðaákvæðinu skiptist á fiskveiðiárinu 2005/2006. Úthlutun aflaheimilda samkvæmt þessu ákvæði skal ekki hafa áhrif á ákvörðun um ráðstöfun aflaheimilda skv. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 10. gr., sbr. 3. og 4. mgr. sömu greinar. Um framkvæmd þessa ákvæðis gilda að öðru leyti ákvæði 2. mgr. og 5.–8. mgr. 10. gr. og reglur settar samkvæmt þeim.
3. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi og koma fyrst til framkvæmda fyrir fiskveiðiárið 2006/2007.
Gjört í Reykjavík, 23. mars 2007. Ólafur Ragnar Grímsson. (L. S.) Einar K. Guðfinnsson. |