1. gr. Með vísan til 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 439, 15. maí 2007 um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2006/2007 staðfestir ráðuneytið sérstök skilyrði vegna úthlutunar aflaheimilda í eftirfarandi sveitarfélagi: Fjallabyggð. Ákvæði reglugerðar 439 frá 16. maí 2007 gilda með eftirfarandi viðauka/breytingum: - Í stað þeirrar viðmiðunardagsetningar sem miðað er við í b- og c-liðum 1. gr. reglugerðarinnar, varðandi skráningu fiskiskipa og eigenda/leigutaka og lögaðila í viðkomandi byggðarlagi, verði miðað við 1. júlí 2007.
- Í stað 1. málsl. 1. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar kemur: Fiskiskipum er skylt að landa til vinnslu innan sveitarfélagsins afla sem nemur, í þorskígildum talið, tvöföldu magni þeirra aflaheimilda sem þau fá úthlutað samkvæmt reglugerð þessari og skal úthlutun til þeirra ekki fara fram nema að því leyti sem það skilyrði er uppfyllt.
- Byggðakvóta Siglufjarðar, 204 þorskígildistonnum, skal úthlutað til fiskiskipa á Siglufirði sem uppfylla skilyrði úthlutunarreglna.
- Byggðakvóta Ólafsfjarðar skal með sama hætti úthlutað til fiskiskipa á Ólafsfirði.
- Byggðakvóta skal úthlutað til fiskiskipa í hlutfalli af samtölu landaðs afla í viðkomandi byggðarlagi fyrir tímabilið 1. júlí 2006 til 30. júní 2007 og aflamarki í þorskígildum talið hjá viðkomandi skipi þann 30. júní 2007. Með aflamarki er átt við skilgreiningu Fiskistofu á aflamarki í þorskígildum.
2. gr. Auglýsing þessi, sem birt er samkvæmt heimild í 5. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi. Jafnframt eru felldar úr gildi áður auglýstar reglur ofangreinds sveitarfélags um úthlutun byggðakvóta á fiskveiðiárinu 2006/2007, þ.e. í 4. tl. auglýsingar nr. 579 frá 28. júní 2007. Sjávarútvegsráðuneytinu, 22. október 2007. F. h. r. Jón B. Jónasson. Hinrik Greipsson. |