1. gr. Eftirfarandi breytingar verða á 29. gr.: - 1. mgr. orðast svo:
Forseti fræðasviðs, í umboði rektors, ræður þá akademísku starfsmenn sem ráðnir eru við fræðasvið og stofnanir sem heyra undir fræðasvið, auk aðjúnkta og stundakennara. Forseta fræðasviðs er ekki heimilt að framselja þetta ákvörðunarvald. Forseti fræðasviðs setur verklagsreglur um undirbúning ráðningar stundakennara. Rektor tekur ákvörðun um hvort ráðning akademísks starfsmanns er ótímabundin í samræmi við ákvæði 31. gr. reglna þessara og reglna um framgang og ótímabundna ráðningu akademískra starfsmanna við Háskóla Íslands og staðfestir slíka ráðningu. - 2. mgr. orðast svo:
Engan má ráða í starf prófessors, dósents, lektors, vísindamanns, fræðimanns eða sérfræðings án þess að meirihluti dómnefndar hafi talið hann uppfylla lágmarksskilyrði til að gegna viðkomandi starfi. Lágmarksskilyrðin eru skilgreind í 41. gr. reglna þessara. Hafi umsækjandi á síðustu fimm árum verið af dómnefnd talinn uppfylla lágmarksskilyrði til að gegna sambærilegu starfi er rektor heimilt að vísa umsókninni beint til valnefndar, sbr. 3. mgr.
2. gr. Eftirfarandi breytingar verða á 31. gr.: - 3. mgr. orðast svo:
Starfsmaður öðlast ekki sjálfkrafa rétt til ótímabundinnar ráðningar að lokinni tímabundinni ráðningu. Rektor tekur ákvörðun um hvort ráðning akademísks starfsmanns verður ótímabundin, að fenginni tillögu framgangsnefndar Háskóla Íslands í samræmi við ákvæði reglna um framgang og ótímabundna ráðningu akademískra starfsmanna við Háskóla Íslands. Forseti fræðasviðs annast ráðningu þeirra akademísku starfsmanna sem ráðnir eru ótímabundið að fenginni niðurstöðu rektors sbr. 29. gr. - 4. mgr. fellur niður.
3. gr. 38. gr. orðast svo: Framgangur kennara og sérfræðinga á milli starfsheita. Rektor er heimilt, án auglýsingar, að flytja lektor í dósentsstarf eða prófessorsstarf, dósent í prófessorsstarf, sérfræðing í starf fræðimanns eða vísindamanns og fræðimann í starf vísindamanns, enda liggi fyrir álit dóm- og framgangsnefndar viðkomandi fræðasviðs um að viðkomandi uppfylli lágmarksskilyrði til að gegna starfinu og framgangsnefnd Háskóla Íslands hafi gert tillögu um að framgangur verði veittur. Um framgang gilda ákvæði reglna um framgang og ótímabundna ráðningu akademískra starfsmanna við Háskóla Íslands sem háskólaráð hefur sett. 4. gr. 1. mgr. 40. gr. orðast svo: Rektor skipar fimm fastar dómnefndir til þess að meta hvort umsækjendur um laus störf uppfylla lágmarksskilyrði fyrir því starfsheiti sem í hlut á. Skal ein dómnefnd skipuð fyrir hvert af fræðasviðum háskólans til þess að fjalla um öll ráðningarmál á viðkomandi sviði þar sem hæfnisdóms er krafist, önnur en framgangsmál sbr. 31. gr. Fastar dómnefndir eru skipaðar til þriggja ára í senn. 5. gr. Eftirfarandi breytingar verða á 41. gr.: - Orðin „eða umsækjandi óskar eftir að flytjast í“ í 2. málslið 5. mgr. 41. gr. falla niður.
- 3. tölul. 6. mgr. orðast svo:
Við mat á umsækjendum um auglýst störf eða önnur ný störf skal höfð hliðsjón af ákvæðum 6. gr. reglna um framgang og ótímabundna ráðningu akademískra starfsmanna við Háskóla Íslands varðandi mat á rannsóknum, kennslu og öðrum starfsþáttum. Ekki skal þó gerð krafa um lágmarksstig fyrir kennslu. Þá er dómnefnd heimilt að hafa til hliðsjónar þau gögn sem kunna að vera til um umsækjendur í vörslu háskólans og snerta starfshæfni og vinnuframlag.
6. gr. 1. mgr. 109. gr orðast svo: Deild erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda veitir kennslu sem hér segir: - Til BA-prófs: Austur-Asíufræði, danska, enska, finnska, frönsk fræði, gríska, ítalska, japanska, kínversk fræði, latína, norska, rússneska, spænska, sænska og þýska. Auk þess er heimilt að taka upp kennslu í aukagreinum eftir nánari ákvörðun deildar.
- Til M.Paed.-prófs: Danska, enska, frönsk fræði, spænska og þýska. Heimilt er með samþykki deildar að taka þetta nám upp í öðrum greinum deildarinnar ef nauðsynleg aðstaða og sérþekking er fyrir hendi.
- Til MA-prófs: Danska, enska, frönsk fræði, hagnýt þýska í ferðaþjónustu og miðlun, Norðurlandafræði, spænska og þýska. Auk þess til MA-prófs í nytjaþýðingum, ráðstefnutúlkun og þýðingarfræði í samvinnu við íslensku- og menningardeild, sbr. 1. mgr. 113. gr.
- Til doktorsprófs: Á fagsviðum þar sem deild metur að nauðsynleg aðstaða og sérþekking sé fyrir hendi.
7. gr. Eftirfarandi breytingar verða á 113. gr.: 1. mgr. orðast svo: Íslensku- og menningardeild veitir kennslu sem hér segir: Til BA-prófs: Almenn bókmenntafræði, almenn málvísindi, íslenska, íslenska sem annað mál, kvikmyndafræði, listfræði, ritlist og táknmálsfræði. Auk þess er heimilt að taka upp kennslu í aukagreinum eftir nánari ákvörðun deildar. Til MA-prófs: Almenn bókmenntafræði, almenn málvísindi, hagnýt ritstjórn og útgáfa, íslenskar bókmenntir, íslensk málfræði, íslensk fræði, íslensk miðaldafræði (Medieval Icelandic Studies), íslenskukennsla, máltækni og menningarfræði. Auk þess til MA-prófs í nytjaþýðingum, ráðstefnutúlkun og þýðingafræði í samvinnu við deild erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda, sbr. 1. mgr. 109. gr. Til doktorsprófs: Á fagsviðum þar sem deild metur að nauðsynleg aðstaða og sérþekking sé fyrir hendi.
3. mgr. orðast svo: Íslensku- og menningardeild er skipað í eftirtaldar námsbrautir, sbr. ákvæði 21. gr. þessara reglna: íslenska, íslenska sem annað mál, menningargreinar.
8. gr. 1. mgr. 119. gr. orðast svo: Kennaradeild veitir kennslu sem hér segir: - Til B.Ed.-prófs: Grunnskólakennarafræði og leikskólakennarafræði.
- Til M.Ed.-prófs: Náms- og kennslufræði og kennslufræði framhaldsskóla.
- Til MA-prófs: Náms- og kennslufræði.
- Til doktorsprófs: Menntavísindi, Ph.D. og menntavísindi, Ed.D. og á fagsviðum þar sem deild metur að nauðsynleg aðstaða og sérþekking sé fyrir hendi.
9. gr. Reglur þessar, sem samþykktar hafa verið í háskólaráði Háskóla Íslands, eru settar á grundvelli laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla. Reglurnar öðlast þegar gildi. Háskóla Íslands, 15. mars 2010. Kristín Ingólfsdóttir. Þórður Kristinsson. |