Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 631/2008

Nr. 631/2008 20. júní 2008
REGLUGERÐ
um starfsleyfi flugleiðsöguþjónustu.

1. gr.

Markmið.

Markmið reglugerð þessarar er að kveða á um sameiginlegar kröfur um veitingu flugleiðsöguþjónustu innan Evrópska efnahagssvæðisins í þeim tilgangi að efla öryggi og skilvirkni.

2. gr.

Gildissvið.

Gildissvið reglugerðar þessarar tekur til flugleiðsöguþjónustu sem veitt er hér á landi, í lofthelgi Íslands og í því loftrými sem Íslandi hefur verið falin þjónusta í samkvæmt skuldbindingum og samningum á sviði þjóðaréttar.

3. gr.

Orðskýringar.

Vísað er til frekari orða og orðskýringa en hér greinir í reglugerð um flugleiðsögu í samevrópska loftrýminu nr. 870/2007.

Þegar eftirfarandi orð og orðasambönd eru notuð í reglugerð þessari hafa þau þá merkingu sem hér segir:

Flugleiðsöguþjónusta (Air Navigation Services): Með flugleiðsöguþjónustu er átt við flugumferðar- og fjarskiptaþjónustu, leiðsögu- og kögunarþjónustu, veðurþjónustu fyrir flugleiðsögu og upplýsingaþjónustu flugmála.

Loftrýmisreglugerðin (Airspace Regulation): Reglugerð Evrópu­þingsins og ráðsins (EB) nr. 551/2004 frá 10. mars 2004 um skipulag og notkun loftrýmis á samevrópska flugumferðarsvæðinu. Sjá fylgiskjal IV með reglugerð um flugleiðsögu í samevrópska loftrýminu nr. 870/2007.

Rammareglugerðin (Framework Regulation): Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 549/2004 frá 10. mars 2004 um setningu rammaákvæða um að koma á samevrópsku flugumferðarsvæði, sjá fylgiskjal II með reglugerð um flugleiðsögu í samevrópska loftrýminu nr. 870/2007.

Rekstrarsamhæfisreglugerðin (Interoperability Regulation): Reglugerð Evrópu­þingsins og ráðsins (EB) nr. 552/2004 frá 10. mars 2004 um rekstrarsamhæfi evrópska netsins fyrir rekstrarstjórnun flugumferðar. Sjá fylgiskjal V með reglugerð um flugleiðsögu í samevrópska loftrýminu nr. 870/2007.

Starfsmenn í öryggistengdum störfum (Safety-sensitive personnel). Starfsmenn sem gætu heft öryggi í flugi ef þeir framkvæma störf sín og skyldur á óviðeigandi hátt. Þeir eru, en þó ekki takmarkaðir við, flugáhafnir, viðgerðarmenn loftfara og flugumferðarstjóra.

Þjónustureglugerðin (Service Regulation): Reglugerð Evrópu­þingsins og ráðsins (EB) nr. 550/2004 frá 10. mars 2004 um að veita þjónustu á sviði flugleiðsögu á samevrópska flugumferðarsvæðinu. Sjá fylgiskjal III með reglugerð um flugleiðsögu í samevrópska loftrýminu nr. 870/2007.

4. gr.

Leiðbeiningarefni.

Víða í reglugerð þessari er vísað til krafna og leiðbeiningarefnis í viðaukum við Chicago samninginn (samningsins um alþjóðlegt almenningsflug) og leiðbeinandi efnis útgefins af Alþjóðaflugmálastofnuninni og krafna og leiðbeiningarefnis Evrópustofnunar um öryggi flugleiðsögu (EUROCONTROL).

Leiðbeiningarefnið hefur að geyma viðeigandi og tækar leiðir til að fullnægja skilyrðum þeim sem í reglugerð þessari er lýst eða er þeim kröfum til frekari uppfyllingar. Fylgja skal þessu leiðbeiningarefni til að uppfylla kröfur reglugerðarinnar, nema til komi a.m.k. jafngildar aðferðir sem ekki eru taldar skerða flugöryggi að mati Flugmálastjórnar Íslands. Til að samþykkja aðferðir sem jafngildar, þarf umsækjandi að sýna á fullnægjandi hátt fram á að flugöryggi skerðist ekki með sérfræðiáliti sem Flugmálastjórn metur viðunandi.

5. gr.

Eftirlitsstjórnvald.

Tilnefnt eftirlitsstjórnvald samkvæmt reglugerð þessari er Flugmálastjórn Íslands. Flugmálastjórn Íslands annast tilkynningar til Eftirlitsstofnunar EFTA á grundvelli reglugerðarinnar.

6. gr.

Ábyrgðarmaður daglegs rekstrar og öryggisstjóri.

Ábyrgðarmaður daglegs rekstrar ber ábyrgð á veitingu flugleiðsöguþjónustu í samræmi við ákvæði reglugerðar þessarar.

Öryggisstjóri hjá veitanda flugumferðarþjónustu og veitanda fjarskipta-, leiðsögu- eða kögunarþjónustu ber ábyrgð á öryggisstjórnunarkerfi skv. 3. gr. viðauka II við reglugerð þessa.

Ábyrgðarmaður daglegs rekstrar og öryggisstjóri skulu vera sérstakir trúnaðarmenn Flugmálastjórnar Íslands hjá þjónustuveitanda og hljóta til þess viðurkenningu stofnunarinnar samkvæmt umsókn. Skal mat Flugmálastjórnar á viðurkenningu grundvallast á forsendum um menntun, kunnáttu og reynslu.

Ef ábyrgðarmaður daglegs rekstrar og öryggisstjóri láta af störfum hjá þjónustuveitanda eða hyggjast gera það, ber að tilkynna Flugmálastjórn um það tafarlaust og sækja um viðurkenningu á eftirmanni. Starfsemi þjónustuveitanda má ekki halda áfram án leyfis Flugmálastjórnar fyrr en nýr ábyrgðarmaður daglegs rekstrar og öryggisstjóri hafa hafið störf að nýju.

Tilnefna má staðgengla ábyrgðarmanns daglegs rekstrar og öryggisstjóra. Leita ber viðurkenningar Flugmálastjórnar fyrirfram á hlutaðeigandi.

Nú telur Flugmálastjórn að ábyrgðarmaður daglegs rekstrar og öryggisstjóri uppfylli ekki lengur það traust sem honum er áskilið og skal stofnuninni þá heimilt að draga viðurkenningu sína til baka til bráðabirgða en að fullu telji stofnunin forsendur brostnar fyrir viðurkenningu. Flugmálastjórn skal eiga endanlegt mat á viðurkenningu á trúnaðarmönnum.

7. gr.

Gæðakerfi.

Þrátt fyrir ákvæði 3.2. í viðauka I við reglugerð þessa skal veitandi flugleiðsöguþjónustu frá og með gildistöku reglugerðar þessarar hafa komið á gæðakerfi sem tekur til allrar þjónustu sem starfsleyfi nær til.

8. gr.

Viðbragðsáætlanir.

Þrátt fyrir ákvæði 8.2. í viðauka I við reglugerð þessa skal veitandi flugleiðsöguþjónustu frá og með gildistöku reglugerðar þessarar hafa innleitt viðbragðsáætlanir fyrir alla þá þjónustu sem hann veitir, til að bregðast við atburðum sem hafa í för með sér verulega skerðingu eða truflun á viðkomandi þjónustu.

9. gr.

Misnotkun geðvirkra efna.

Hver sá sem hefur á hendi störf sem varða öryggi flugs (starfsmenn í öryggistengdum störfum), skal ekki gegna starfa sínum ef hann hefur neytt einhverra geðvirkra efna sem rýra starfshæfni hans. Slíkum starfsmönnum skal óheimil hvers konar misnotkun geðvirkra efna.

10. gr.

Tilkynningaskylda.

Leyfishafi skal tilkynna um öll frávik frá starfseminni í samræmi við ákvæði reglugerðar um tilkynningarskyldu flugslysa, alvarlegra flugatvika og flugatvika, eins og hún er á hverjum tíma.

11. gr.

Rekstrarfyrirmæli.

Flugmálastjórn Íslands getur gefið út rekstrarfyrirmæli til handhafa starfsleyfis varðandi einstaka rekstrarþætti eða reksturinn í heild. Rekstrarfyrirmæli geta lotið að því að banna tiltekna starfrækslu, binda hana takmörkunum eða gera hana háða því að tiltekin skilyrði sem stofnunin setur séu uppfyllt í þágu flugöryggis.

Rekstrarfyrirmæli skulu greina ástæðu fyrir útgáfu þeirra, gildissvið og gildistíma og þær ráðstafanir sem hlutaðeigandi ber að viðhafa.

12. gr.

Málskotsréttur.

Ákvarðanir Flugmálastjórnar Íslands sæta kæru samkvæmt almennum reglum stjórnsýslulaga.

13. gr.

Refsingar.

Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða refsingu samkvæmt 141. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998 með síðari breytingum.

14. gr.

Gildistaka og innleiðing.

Með reglugerð þessari öðlast gildi reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 2096/2005 frá 20. desember 2005 um sameiginlegar kröfur vegna veitingar þjónustu á sviði flugleiðsögu, sem er meðfylgjandi reglugerð þessari merkt fylgiskjal I, með þeim breytingum og viðbótum sem leiðir af XIII. viðauka samningsins og bókun 1 um altæka aðlögun og öðrum ákvæðum hans, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 122/2006.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt 57. gr. a., sbr. 145. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998 með síðari breytingum og staðfestist hér með til að taka gildi þann 1. júlí 2008. Samhliða fellur úr gildi reglugerð um starfsleyfi flugleiðsöguþjónustu nr. 535/2006.

Ákvæði til bráðabirgða.

Eftirlitsskyldir aðilar, sem þegar hafa fengið útgefin starfsleyfi til bráðabirgða í samræmi við ákvæði reglugerðar um starfsleyfi nr. 535/2006, við gildistöku reglugerðar þessarar, skal veittur aðlögunartími til 31. desember 2008 til að uppfylla ákvæði reglugerðar þessarar að fullu.

Samgönguráðuneytinu, 20. júní 2008.

Kristján L. Möller.

Ragnhildur Hjaltadóttir.

 

Fylgiskjöl.
(sjá PDF-skjal)

B deild - Útgáfud.: 30. júní 2008