1. gr. Veiting akademískrar nafnbótar. Háskólamenntuðum starfsmönnum Landspítala (LSH), sem gegna klínískum eða paraklínískum störfum í að a.m.k. 70% starfshlutfalli, er heimilt að sækja um viðurkenningu Háskóla Íslands (HÍ) á akademísku hæfi sínu, enda séu þeir ekki þegar ráðnir til HÍ í starf háskólakennara eða sérfræðings þar sem hæfnisdóms er krafist. Háskólarektor, í umboði háskólaráðs, gefur út viðurkenningu á akademísku hæfi, að fengnu áliti dómnefndar og tillögu háskóladeildar. Viðurkenning á akademísku hæfi veitir akademíska nafnbót eftir því sem fyrir er um mælt í reglum þessum. Akademískri nafnbót verður ekki jafnað til ráðningar í starf háskólakennara eða sérfræðings við HÍ, sbr. 17. gr. laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla og III. kafla reglna nr. 569/2009 fyrir Háskóla Íslands og nafnbótin veitir ekki önnur réttindi en þau sem kveðið er á um í 6. gr. Þeir sem ráðnir eru til HÍ og hafa hlotið hæfnisdóm geta ekki sótt um viðurkenningu á akademísku hæfi sínu skv. þessum reglum. 2. gr. Akademísk nafnbót. Akademísk nafnbót er veitt í tengslum við einhverja af deildum heilbrigðisvísindasviðs HÍ, þ.e. læknadeild, hjúkrunarfræðideild, tannlæknadeild, lyfjafræðideild, sálfræðideild og matvæla- og næringarfræðideild. Nafnbótin er veitt á grundvelli hæfnisdóms dómnefndar og viðurkenningar á akademísku hæfi skv. eftirtöldu: - Starfsmaður LSH sem ráðinn hefur verið til þess að gegna klínískum eða paraklínískum störfum við spítalann og hefur sótt um viðurkenningu á akademísku hæfi og fengið hæfnisdóm sem lektor má að fenginni heimild háskóladeildar kalla sig klínískan lektor.
- Starfsmaður LSH sem ráðinn hefur verið til þess að gegna klínískum eða paraklínískum störfum við spítalann og hefur sótt um viðurkenningu á akademísku hæfi og fengið hæfnisdóm sem dósent má að fenginni heimild háskóladeildar kalla sig klínískan dósent.
- Starfsmaður LSH sem ráðinn hefur verið til þess að gegna klínískum eða paraklínískum störfum við spítalann og hefur sótt um viðurkenningu á akademísku hæfi og fengið hæfnisdóm sem prófessor má að fenginni heimild háskóladeildar kalla sig klínískan prófessor.
Heimilt er að veita starfsmönnum heilbrigðisstofnana, annarra en LSH, akademískar nafnbætur, sbr. 1. mgr., enda sé gert ráð fyrir því í samstarfssamningi sem HÍ hefur gert við viðkomandi stofnun. Ennfremur er heimilt að veita akademískar nafnbætur við aðrar deildir Háskóla Íslands enda gegni sá starfsmaður sem um nafnbótina sækir starfi við LSH eða aðra heilbrigðisstofnun, sbr. 2. mgr., sem fyllilega er sambærilegt við störf þau sem skilgreind eru í 1. mgr. 1. gr. 3. gr. Umsókn um viðurkenningu á akademísku hæfi. Umsókn um viðurkenningu og endurnýjun viðurkenningar skal berast vísindasviði Háskóla Íslands fyrir lok maí ár hvert. Með hæfilegum fyrirvara skal birt tilkynning til starfsmanna LSH um að tekið sé við umsóknum og hvaða reglur gildi um meðferð þeirra. Umsókn skal uppfylla sömu skilyrði og hverju sinni eru í gildi varðandi umsóknir um laus störf og framgang, sbr. 37. og 38. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009. 4. gr. Móttaka umsóknar. Þegar umsókn berst skal tekin ákvörðun um meðferð málsins í samræmi við reglur hverrar deildar. Hafi deild ekki sett sér reglur um meðferð umsókna skal farið eftir almennum reglum um veitingu starfa, að breyttu breytanda. Ef mikill fjöldi umsókna berst, er deild heimilt að flokka umsóknir á grundvelli akademískra sjónarmiða enda sé kveðið á um það í reglum deildar. Skulu þá þær umsóknir teknar til áframhaldandi meðferðar sem best uppfylla slík skilyrði. Umsækjanda skal tilkynnt um móttöku umsóknar og hvenær hún verður tekin til meðferðar. Hafi farið fram forval á vegum deildar, sbr. 2. mgr., skal umsækjanda tilkynnt um það með greinargóðum rökstuðningi, ef ákveðið hefur verið að taka umsókn hans ekki til áframhaldandi meðferðar. 5. gr. Skipun dómnefndar. Rektor skipar til þriggja ára í senn þriggja manna dómnefnd til þess að meta umsóknir skv. reglum þessum. Skulu tveir tilnefndir af heilbrigðisvísindasviði og einn af háskólaráði og er sá formaður nefndarinnar. Í nefndina má þá eina skipa sem lokið hafa doktorsprófi eða hliðstæðu prófi úr háskóla. Formaður dómnefndar skal hafa verið metinn hæfur til að gegna starfi prófessors. Um sérstakt hæfi nefndarmanna fer eftir II. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Formaður skiptir verkum milli nefndarmanna. Ritari dómnefnda við Háskóla Íslands er nefndinni til aðstoðar og fylgist með störfum hennar. Heimilt er rektor að skipa mann „ad hoc“ til þess að fjalla um einstaka umsókn ef hæfisskilyrði eða aðrar ástæður krefjast þess. Ef umsækjandi er af öðru fræðasviði en heilbrigðisvísindasviði er rektor heimilt að skipa tvo menn af fræðasviði umsækjanda tímabundið í dómnefnd til að meta þá umsókn í stað þeirra sem tilnefndir eru af heilbrigðisvísindasviði. Nefndinni er heimilt að leita álits eins til tveggja viðurkenndra sérfræðinga á fræðasviði umsækjanda. Hafi dómnefnd talið umsækjanda á síðustu fimm árum uppfylla lágmarksskilyrði til að gegna starfi lektors, dósents eða prófessors skv. ákvæðum þeirra reglna sem tilgreindar eru í 3. mgr. 6. gr. er rektor heimilt að víkja frá skipun dómnefndar. 6. gr. Málsmeðferð. Vísindasvið tekur á móti umsóknum um viðurkenningu á akademískt hæfi og endurnýjun slíkrar viðurkenningar fyrir hönd rektors og sannreynir hvort umsækjandi uppfyllir formleg skilyrði sbr. 1. gr. Álíti rektor að auðsýnt sé að umsækjandi uppfylli ekki akademísk hæfisskilyrði, er honum heimilt að hafna umsókninni. Að öðrum kosti sendir hann umsóknina til meðferðar hjá dómnefnd. Um mat á hæfi umsækjanda og meðferð dómnefndar og vísindasviðs HÍ á málinu að öðru leyti, gilda eftir því sem við á: - Reglur fyrir Háskóla Íslands, nr. 569/2009, III. kafli.
- Reglur um framgang og ótímabundna ráðningu akademískra starfsmanna við Háskóla Íslands, nr. 263/2010.
- Reglur læknadeildar Háskóla Íslands um ráðningu og framgang starfsmanna með hæfnisdóm, nr. 498/2002.
Þegar álit dómnefndar eða eftir atvikum vísindasviðs HÍ, sbr. 6. mgr., liggur fyrir skal viðkomandi heilbrigðisvísindadeild gera tillögu um hvort gefa skuli út viðurkenningu á hæfi umsækjanda og hvaða akademíska nafnbót skuli veita. Rektor leggur tillögu deildar fyrir háskólaráð til afgreiðslu. Fallist háskólaráð á viðurkenninguna, gefur rektor út skjal því til staðfestu. Viðurkenning á akademísku hæfi er tímabundin og gildir ekki lengur en í fimm ár frá útgáfu. Að þeim tíma liðnum getur nafnbótarhafi sótt um endurnýjun nafnbótar. Umsókn um endurnýjun nafnbótar skal leggja fram á vísindasviði HÍ áður en gildistími hennar rennur út. Umsóknir um endurnýjun á óbreyttri nafnbót skulu afgreiddar til deildar af vísindasviði háskólans í samráði við formann dómnefndar. Umsóknir um nýja nafnbót (framgang) skulu teknar til umfjöllunar í dómnefnd. Við ákvörðun um endurnýjun og mat á akademísku hæfi umsækjanda skal taka mið af þeim reglum sem tilgreindar eru í 1.-3. tölul. 3. mgr. og framlagi umsækjanda til kennslu og rannsókna við HÍ í gildistíð fyrri nafnbótar. Ef vafi leikur á hvort skilyrði eru fyrir endurnýjun nafnbótar, t.d. ef umsækjandi hefur lítið eða ekkert birt í nafni háskólans eða með öðrum hætti ekki efnt með fullnægjandi hætti samning sinn við deild/fræðasvið HÍ, sbr. 7. gr., er umsóknin tekin fyrir í dómnefnd. Nafnbótin fellur niður láti viðkomandi af störfum við LSH eða heilbrigðisstofnun sem HÍ hefur gert samstarfssamning við. 7. gr. Samningur um akademíska nafnbót. Þegar fyrir liggur viðurkenning háskólaráðs á akademísku hæfi umsækjanda gerir forseti fræðasviðs að höfðu samráði við viðkomandi deildarforseta samning við viðkomandi starfsmann LSH um þau akademísku réttindi og skyldur sem nafnbót hans fylgja, svo sem um þátttöku í kennslu og rannsóknum. Í slíkum samningi skal kveðið á um að viðkomandi starfsmaður hlíti reglum um gæðamat á störfum, eftir því sem við getur átt, sbr. 41. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands. Nafnbótarhafa er meðal annars skylt að skila árlegri rannsóknaskýrslu til vísindasviðs HÍ. Heimilt er að taka upp í samning skilyrði um að viðkomandi uppfylli á samningstímanum tilteknar kröfur samkvæmt formlegu gæðakerfi HÍ. Akademískri nafnbót fylgir ekki réttur til þess að sækja um framlög úr rannsóknarsjóðum HÍ og vinnumatssjóði. Deild getur heimilað styrki úr sérstökum sjóðum í vörslu deildar, samkvæmt skipulagsskrá viðkomandi sjóðs. Um seturétt á deildarfundum og önnur slík atriði fer eftir reglum hverrar deildar. 8. gr. Gildistaka og endurskoðun. Reglur þessar sem háskólaráð hefur sett á grundvelli laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla og samstarfssamnings, dags. 27. apríl 2006, milli Háskóla Íslands og Landspítala, öðlast þegar gildi. Frá sama tíma falla úr gildi reglur nr. 838/2002 um viðurkenningu Háskóla Íslands á akademísku hæfi starfsmanna á Landspítala - háskólasjúkrahúsi og veitingu akademískrar nafnbótar. Reglurnar skulu endurskoðaðar fyrir lok árs 2015 í samráði við Landspítala. Háskóla Íslands, 15. febrúar 2011. Kristín Ingólfsdóttir. Þórður Kristinsson. |