I. Kafli Gildissvið. 1. gr. Gildissvið. Reglur þessar taka til fyrirtækja, einstaklinga, opinberra aðila og annarra sem selja þjónustu til neytenda á sölustað eða með húsgöngu- eða fjarsölu, þ.m.t. með rafrænum hætti. Reglur þessar kveða á um skyldu ofangreindra aðila til að verðmerkja og upplýsa neytendur skriflega um söluverð á þjónustu til að tryggja gagnsæi í verðupplýsingum. Reglur þessar taka ekki til verðupplýsinga við sölu: - á vöru eða
- á uppboði.
Reglur þessar gilda til fyllingar og túlkunar hafi Neytendastofa sett sérreglur um sölu á tiltekinni þjónustu. 2. gr. Orðskýringar. Merking orða í reglum þessum er sem hér segir: Söluverð: Endanlegt verð í íslenskum krónum fyrir hverja einingu vöru eða tiltekið magn vöru að meðtöldum virðisaukaskatti og öllum öðrum opinberum gjöldum. Neytandi: Einstaklingur sem kaupir vöru eða þjónustu gegn endurgjaldi, enda séu kaupin ekki gerð í atvinnuskyni. Fyrirtæki: Einstaklingur, félag, opinberir aðilar og aðrir sem selja vöru til neytenda á fastri starfsstöð eða sölustað, með húsgöngu- eða fjarsölu, eða á annan hátt í atvinnu- eða fjáröflunarskyni þ.m.t. með rafrænum hætti. II. Kafli Söluverð og verðupplýsingar. 3. gr. Söluverð. Á sölustað, þ.m.t. við fjarsölu, er skylt að gefa upp verð fyrir þjónustu með endanlegu söluverði í íslenskum krónum. Endanlegt söluverð er verð með virðisaukaskatti og öðrum opinberum gjöldum. Ef annar kostnaður bætist við söluverðið þarf að taka það sérstaklega fram. Fyrirtæki skal selja þjónustu á því verði sem gefið hefur verið upp einnig þótt um mistök sé að ræða. Þetta á hins vegar ekki við ef kaupanda má vera ljóst að um mistök sé að ræða. 4. gr. Verðupplýsingar. Verðskrá yfir alla framboðna þjónustu skal ávallt vera birt með áberandi hætti þar sem þjónustan er veitt. Skal verðskráin vera skýr, aðgengileg og greinileg þannig að augljóst sé hvaða þjónustu verðmerkingin á við. Í þeim tilvikum sem fjöldi þjónustumöguleika gerir seljanda ókleift að birta tæmandi verðskrá skv. 1. mgr. er skylt að birta með áberandi hætti útdrátt úr verðskrá, þar sem fram kemur verð á helstu þjónustuliðum. Í þeim tilvikum skal verðskrá yfir alla þjónustu þó ávallt vera aðgengileg á sölustað. Ef verð fyrir þjónustuna er háð breytingum og ómögulegt að gefa upp endanlegt verð fyrirfram skal tilgreina hæsta og lægsta mögulega verð. Í þeim tilvikum skal einnig greina frá því hvernig verðið er reiknað út. Verð á þjónustu skal innihalda efniskostnað, eftir því sem við getur átt. Veitingahús skulu ávallt hafa matseðil með verðskrá við inngöngudyr. Í verðupplýsingum um drykkjarföng skal jafnframt tilgreina magnstærðir. Kvikmyndahúsum ber að taka sérstaklega fram þegar kvikmynd er auglýst ef verð á aðgöngumiða þeirrar kvikmyndar er hærra en almennt verð aðgöngumiða kvikmyndahússins. III. KAFLI Eftirlit, málsmeðferð, viðurlög og gildistaka. 5. gr. Verðmerkingareftirlit Neytendastofu. Neytendastofa fer með eftirlit með reglum þessum, tekur við ábendingum og skipuleggur skoðanir á vettvangi í því skyni að greina frávik frá reglum þessum og beitir viðurlögum þegar það á við, sbr. 7. gr. 6. gr. Verðmerkingareftirlit fyrirtækja sem selja þjónustu. Fyrirtæki sem selja þjónustu bera ábyrgð á að framkvæmd verðmerkinga uppfylli ávallt kröfur reglna þessara og að þær séu að öðru leyti í samræmi við ákvæði laga og reglna settra samkvæmt þeim. 7. gr. Málsmeðferð. Um málsmeðferð fer samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum IX. kafla laga nr. 57/2005, um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, eftir því sem við getur átt. Ákvarðanir Neytendastofu um að leggja á stjórnvaldssektir eða dagsektir eru aðfararhæfar, svo og sakarkostnaður. Málskot til áfrýjunarnefndar neytendamála frestar aðför. 8. gr. Viðurlög. Neytendastofa tekur ákvörðun um beitingu viðurlaga við brotum á reglum þessum í formi stjórnvaldssekta eða dagsekta þegar það á við. Sektir geta numið allt að 10 milljónum króna, sbr. 2. mgr. 22. gr. laga nr. 57/2005. Sektarfjárhæðir skulu að öðru leyti taka mið af alvarleika brotsins svo og hvort seljandi hafi ítrekað brotið gegn reglum þessum, lögum nr. 57/2005 og öðrum reglum settum samkvæmt þeim. Um viðurlög, ábyrgð á greiðslu sektar o.fl. fer nánar samkvæmt IX. kafla laga nr. 57/2005. 9. gr. Gildistaka. Reglur þessar eru settar með heimild í 17. og 18. gr. laga nr. 57/2005 um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu og með hliðsjón af ákvæðum laga nr. 46/2000, um húsgöngu- og fjarsölusamninga. Jafnframt eru felldar úr gildi reglur nr. 725/2008 um verðmerkingar og aðrar verðupplýsingar. Reglur þessar öðlast þegar gildi. Neytendastofu, 31. maí 2011. Tryggvi Axelsson. Þórunn A. Árnadóttir. |