1. gr. Reglur þessar gilda við mat á umsóknum um leyfi til að nota starfsheitið skipulagsfræðingur. Skipulagsfræðingafélag Íslands er umsagnaraðili um hvort nám umsækjanda sé fullnaðarmenntun í skipulagsfræðum. Iðnaðarráðuneyti sendir umsóknir um leyfi til að nota starfsheitið skipulagsfræðingur til umsagnar Skipulagsfræðingafélags Íslands. Skipulagsfræðingafélagið fjallar um allar umsóknir sem félaginu berast frá iðnaðarráðuneytinu og sendir ráðuneytinu umsögn sína. Skipulagsfræðingafélagið skal leitast við að svara erindum frá iðnaðarráðuneyti svo skjótt sem verða má og eigi síðar en tveimur mánuðum eftir að þau berast. Séu fylgigögn ófullnægjandi skal félagið samstundis upplýsa ráðuneytið um að umsókn sé ábótavant og útskýra hvaða gögn vanti. 2. gr. Umsækjandi skal hafa lokið meistaraprófi í skipulagsfræði, sem veitir full starfsréttindi í því landi sem námi var lokið, að mati viðkomandi samtaka skipulagsfræðinga. Umsækjandi skal leggja fram yfirlit yfir námsferil og frumrit af prófskírteinum eða staðfest ljósrit frá viðkomandi skóla. Sú námsgráða getur ein verið grundvöllur löggildingar samkvæmt reglum þessum sem viðurkennd er sem slík af fagfélagi skipulagsfræðinga í því landi þar sem hennar var aflað. Staðfesting á viðurkenningu fagfélags í námslandi er á ábyrgð umsækjanda. Ef engin samtök skipulagsfræðinga eru í því landi sem námið var stundað leggur Skipulagsfræðingafélag Íslands mat á viðkomandi nám út frá matsgrunni félagsins. Til viðbótar skal horft til viðurkenndra erlendra samtaka um skipulagsfræðinám sem starfa á vegum European Council of Spatial Planners (ECTP) eða annarra álfusamtaka á sviði skipulagsfræða. Telji Skipulagsfræðingafélagið að synja beri umsækjenda um leyfi skal rökstyðja þá ákvörðun. 3. gr. Reglur þessar eru settar á grundvelli 3. gr. laga nr. 8/1996, um löggildingu nokkurra starfsheita sérfræðinga í tækni- og hönnunargreinum, með síðari breytingum og öðlast gildi við birtingu í Stjórnartíðindum. Frá sama tíma falla úr gildi reglur nr. 112/1997, um nám sem leiðir til fullnaðarmenntunar í skipulagsfræðum. Ákvæði til bráðabirgða. Þeir sem innritast hafa í skipulagsfræðinám fyrir 1. júlí 2012 og stunda nám sitt samfellt eiga þess kost að fá próf sitt metið eftir reglum nr. 112/1997. Iðnaðarráðuneytinu, 22. júní 2012. F. h. r. Kristján Skarphéðinsson. Hreinn Hrafnkelsson. |