Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1082/2008

Nr. 1082/2008 28. nóvember 2008
REGLUR
um gjaldeyrismál.

1. gr.

Fjárfesting og viðskipti.

Fjárfesting í verðbréfum, hlutdeildarskírteinum verðbréfa- og fjárfestingarsjóða, peningamarkaðsskjölum eða öðrum framseljanlegum fjármálagerningum með erlendum gjaldeyri er óheimil. Þó er aðilum sem fjárfest hafa í slíkum fjármálagerningum fyrir gildistöku reglna þessara heimilt að endurfjárfesta.

Söluandvirði vegna viðskipta með fjármálagerning skv. 1. mgr. í íslenskum krónum milli innlendra og erlendra aðila og gerð eru upp hérlendis skal leggja inn á reikning viðkomandi seljanda í fjármálafyrirtæki hér á landi.

Uppgjör viðskipta í erlendum gjaldeyri með fjármálagerninga skv. 1. mgr. útgefnum í íslenskum krónum er óheimilt.

Gjaldeyrisviðskipti vegna fjármagnshreyfinga skv. 1. mgr. bráðabirgðaákvæðis laga um gjaldeyrismál, með síðari breytingum, á milli landa með úttektum af reikningum í íslenskum krónum í fjármálafyrirtækjum hér á landi eða Seðlabanka Íslands eru óheimil.

Fjármagnshreyfingar skv. 1. mgr. bráðabirgðaákvæðis laga um gjaldeyrismál, með síðari breytingum, vegna yfirfærslu eða flutnings á fjármunum frá landinu sem tengjast sölu á beinum fjárfestingum eru óheimilar.

2. gr.

Útgáfa og sala fjármálagerninga.

Óheimilt er að gefa út og selja verðbréf, hlutdeildarskírteini verðbréfa- og fjárfestingarsjóða, peningamarkaðsskjöl eða aðra framseljanlega fjármálagerninga þar sem uppgjör fer fram í öðrum gjaldeyri en útgáfan og íslensk króna er einn af gjaldmiðlum uppgjörs. Hafi útgáfa farið fram í íslenskum krónum er skylt að leggja andvirði sölu inn á reikning í íslenskum krónum á nafni útgefanda í fjármálafyrirtæki hér á landi.

3. gr.

Lántökur og lánveitingar.

Lántökur og lánveitingar milli innlendra og erlendra aðila í öðrum tilvikum en vegna viðskipta á milli landa með vöru og þjónustu skulu uppfylla eftirfarandi skilyrði:

  1. Lán hvers aðila sé eigi hærra en sem nemur 10.000.000 kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í gjaldeyri á almanaksárinu.
  2. Lánstími sé eigi skemmri en eitt ár.
  3. Gjaldeyrisyfirfærslur vegna lánsins séu í samræmi við ákvæði 8. gr. reglna þessara.
  4. Lánssamningar, þ.m.t. allir viðaukar og fylgiskjöl, séu sendir til þess fjármálafyrirtækis sem annast um fjármagnshreyfingar, innan einnar viku frá undirskrift slíkra samninga.

Ákvæði þessarar greinar gilda ekki um lántökur og lánveitingar milli félaga innan samstæðu.

4. gr.

Ábyrgðir.

Óheimilt er að ganga í eða takast á hendur ábyrgð á greiðslum á milli innlendra og erlendra aðila.

Ákvæði þessarar greinar gilda hvorki um ábyrgðir vegna vöru- og þjónustuviðskipta né um ábyrgðir milli félaga innan samstæðu.

5. gr.

Afleiðuviðskipti.

Óheimilt er að eiga afleiðuviðskipti þar sem íslensk króna er í samningi gagnvart erlendum gjaldeyri, hvort sem um er að ræða gjaldeyris- eða verðbréfasamning eða sambland gjaldeyris- og verðbréfasamnings eða sambærilegra fjármálagerninga.

Afleiðuviðskipti sem eingöngu eru vegna vöru- og þjónustuviðskipta falla ekki undir þetta ákvæði.

6. gr.

Ýmsir fjármagnsflutningar.

Fjármagnsflutningar vegna gjafa, styrkja og annarra fjármagnsflutninga skv. 6. tl. 1. mgr. bráðabirgðaákvæðis laga um gjaldeyrismál, með síðari breytingum, umfram 10.000.000 kr. á almanaksárinu eru óheimilir.

7. gr.

Vextir, verðbætur, arður, hagnaðarhlutur og afborganir.

Vextir, verðbætur, arður, hagnaðarhlutur af fjárfestingum og samningsbundnar afborganir teljast ekki vera fjármagnsflutningur í skilningi reglna þessara. Laun teljast ekki vera fjármagnsflutningur í skilningi reglna þessara. Fyrirframgreiðslur af fjármálagerningum milli landa eru hins vegar óheimilar.

8. gr.

Skilaskylda á erlendum gjaldeyri.

Öllum erlendum gjaldeyri sem innlendir aðilar eignast fyrir seldar vörur og þjónustu eða á annan hátt, skal skilað til fjármálafyrirtækis hér á landi innan tveggja vikna frá því að gjaldeyririnn komst eða gat komist í umráð eiganda eða umboðsmanns hans. Takist skilaskylda ekki innan ofangreinds frests skal skýringum komið á framfæri við fjármálafyrirtæki. Skilaskyldu samkvæmt 1. málsl. er unnt að uppfylla með því að varðveita erlendan gjaldeyri á gjaldeyrisreikningi hjá fjármálafyrirtæki hér á landi.

Skilaskylda nær ekki til innlendra aðila sem hafa fasta búsetu erlendis vegna starfs eða náms.

9. gr.

Úttektir af gjaldeyrisreikningum.

Úttekt af gjaldeyrisreikningum eða kaup á gjaldeyri hjá fjármálafyrirtækjum hér á landi skal háð því skilyrði að sýnt sé fram á að notkun fjárins sé í samræmi við reglur þessar. Óheimilt er að taka út af gjaldeyrisreikningum reiðufé í erlendum gjaldeyri, nema sýnt sé fram á að það verði notað til að greiða fyrir vöru eða þjónustu, þ.m.t. ferðalög.

10. gr.

Inn- og útflutningur gjaldeyris.

Óheimilt er að flytja út gjaldeyri í reiðufé umfram jafnvirði 500.000 kr. hjá hverjum aðila í hverjum almanaksmánuði.

11. gr.

Leiðbeiningar og umsóknir um undanþágur.

Seðlabankinn getur sett nánari leiðbeiningar um framkvæmd reglna þessara. Umsóknir um undanþágur samkvæmt reglum þessum skulu berast Seðlabanka Íslands fyrir milligöngu fjármálafyrirtækis.

12. gr.

Viðurlög.

Brot gegn ákvæðum þessara reglna varðar stjórnvaldssektum og refsingum skv. 15. gr. a.- 15. gr. d., 16. gr., 16. gr. a. og 16. gr. b. í lögum um gjaldeyrismál með síðari breytingum.

13. gr.

Reglur gilda ekki um Seðlabanka Íslands.

Ákvæði reglna þessara gilda hvorki um fjármagnsflutninga né gjaldeyrisviðskipti Seðlabanka Íslands.

14. gr.

Gildistaka o.fl.

Reglur þessar eru settar í samræmi við bráðabirgðaákvæði, með lögum um gjaldeyrismál, með síðari breytingum og öðlast þegar gildi. Reglur þessar skulu endurskoðaðar eigi síðar en 1. mars 2009. Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 8. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað binda reglur þessar alla þegar við birtingu.

Reykjavík, 28. nóvember 2008.

Seðlabanki Íslands,

Davíð Oddsson,
formaður bankastjórnar.

Eiríkur Guðnason
bankastjóri.

Ingimundur Friðriksson
bankastjóri.

B deild - Útgáfud.: 28. nóvember 2008