1. gr. Á eftir 25. gr. reglugerðarinnar kemur ný grein 25. gr. a. svohljóðandi: Aðilar sem geta óskað eftir því að vera fagfjárfestar. Aðilar, sem ekki teljast fagfjárfestar skv. a-d-lið 9. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 108/2007, geta óskað eftir því að fjármálafyrirtæki fari með þá sem fagfjárfesta. Fjármálafyrirtæki skal leggja mat á sérfræðikunnáttu, reynslu og þekkingu viðskiptavinarins og hvort hún veiti nægilega vissu fyrir því að hann geti sjálfur tekið ákvarðanir um fjárfestingar og skilji áhættuna sem í þeim felst. Til að farið verði með viðskiptavin sem fagfjárfesti samkvæmt þessari grein skal hann uppfylla a.m.k. tvö af eftirfarandi skilyrðum: | a) | hafa átt umtalsverð viðskipti á verðbréfamörkuðum næstliðna fjóra ársfjórðunga, að meðaltali a.m.k. tíu sinnum á hverjum ársfjórðungi, | | b) | verðgildi verðbréfaeignar fjárfestis skal nema meira en 46,2 millj. kr., fjárhæð þessi er grunnfjárhæð sem er bundin gengi evru (EUR) 3. janúar 2007 (92,37), | | c) | fjárfestir skal gegna eða hafa gegnt í að minnsta kosti eitt ár stöðu á fjármálamarkaði sem krefst sérþekkingar á fjárfestingum í verðbréfum. |
Til að viðskiptavinir skv. 1. mgr. geti óskað eftir því að teljast fagfjárfestar verða þeir að tilkynna fjármálafyrirtækinu skriflega hvort þeir óski eftir að hafa slíka stöðu almennt eða vegna einstakra viðskipta eða tegundar viðskipta. Þá skal fjármálafyrirtæki gefa þeim skýra skriflega viðvörun um þá réttarvernd og þann bótarétt sem þeir kunna að verða af og skulu viðskiptavinir í sérstöku skjali lýsa því yfir að þeim sé kunnugt um afleiðingar þess að missa slíka réttarvernd. Við mat fjármálafyrirtækis á sérfræðikunnáttu, reynslu og þekkingu viðskiptavinarins og hvort hún veiti nægilega vissu fyrir því að hann geti sjálfur tekið ákvarðanir um fjárfestingar og skilji áhættuna sem í þeim felst, sbr. 1. mgr., þá er fjármálafyrirtæki heimilt að byggja mat sitt á sérfræðikunnáttu og þekkingu viðskiptavinar á mati Fjármálaeftirlitsins á hæfi stjórnarmanna og framkvæmdastjóra fjármálafyrirtækis skv. 3. mgr. 52. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sbr. reglur nr. 887/2012 um framkvæmd hæfismats framkvæmdastjóra og stjórnarmanna fjármálafyrirtækja. Í tilfelli smærri fyrirtækja skal sá einstaklingur metinn skv. 1. mgr. sem hefur leyfi til að framkvæma viðskipti fyrir hönd fyrirtækisins. 2. gr. Reglugerð þessi er sett með heimild í 26. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti, með síðari breytingum, og öðlast þegar gildi. Fjármála- og efnahagsráðuneytinu, 30. apríl 2014. F. h. r. Tómas Brynjólfsson. Guðmundur Kári Kárason. |