Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1053/2006

Nr. 1053/2006 15. desember 2006
REGLUR
um samvinnu lögregluembætta.

1. gr.

Gildissvið og markmið.

Reglur þessar gilda um öll lögregluembætti landsins og taka til samvinnu og samstarfs þeirra á milli.

Markmið reglnanna er að efla löggæslu með því að samhæfa og samræma vaktskipulag og almenna löggæslu milli lögregluembættanna, þar sem því verður við komið.

2. gr.

Skipulag samvinnu lögreglu.

Ríkislögreglustjóri fer með málefni lögreglunnar í landinu í umboði dómsmálaráðherra.

Lögreglustjórar fara með stjórn lögreglu hver í sínu umdæmi og bera ábyrgð á framkvæmd lögreglustarfa innan þess. Þeim ber einnig skylda til samvinnu við önnur lögregluumdæmi um samhæfingu og samræmingu vaktskipulags og almennrar löggæslu og að vinna sameiginlega að þeim verkefnum sem ríkislögreglustjórinn felur þeim

3. gr.

Samstarf lögregluembætta.

Eftirtaldir lögreglustjórar eiga samvinnu um samhæfingu og samræmingu vaktskipulags og almennrar löggæslu:

  1. Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu og lögreglustjórinn á Suðurnesjum.
  2. Lögreglustjórarnir á Vesturlandi, þ.e. á Akranesi, í Borgarnesi, á Snæfellsnesi og lögreglustjórinn á Ísafirði.
  3. Lögreglustjórarnir á Norðurlandi, þ.e. á Akureyri, á Blönduósi, á Húsavík og á Sauðárkróki.
  4. Lögreglustjórarnir á Austurlandi, þ.e. á Eskifirði og á Seyðisfirði.
  5. Lögreglustjórarnir á Suðurlandi þ.e. á Hvolsvelli, á Selfossi og í Vestmannaeyjum.

Lögreglustjórar geta komið á víðtækara samstarfi milli lögregluumdæma umfram það, sem fyrir er mælt í 1. mgr.

Einn lögreglustjóri úr hópi þeirra, sem taldir eru upp í 1. mgr. ber ábyrgð á samstarfi og samvinnu lögregluliðanna gagnvart ríkislögreglustjóra. Lögreglustjórarnir ákveða til allt að þriggja ára hver þeirra það er.

4. gr.

Fyrirkomulag samstarfs.

Sá lögreglustjóranna, sem ber ábyrgð á samstarfinu á hverjum tíma, sbr. 3. mgr. 3. gr., gerir ríkislögreglustjóra reglulega grein fyrir því.

Lögreglustjórnarnir koma sér saman um með hvaða hætti þeir eiga samstarf en þó skulu samráðsfundir haldnir eigi sjaldnar en 4 sinnum á ári. Haldnar skulu fundargerðir um fundina og þær sendar ríkislögreglustjóra.

Lögreglustjórar, sem vinna saman samkvæmt 3. gr., skulu samræma og samhæfa vaktskipulag og almenna löggæslu á milli umdæma með það að markmiði að efla lög­gæslu. Þar sem þess er kostur skal koma á sólarhringsvakt, sem þjóni lögreglu­umdæmum eða landsfjórðungi.

Ríkislögreglustjóri getur falið lögreglustjórum að eiga samstarf um einstök verkefni.

Lögreglustjórar, sem vinna saman samkvæmt 3. gr., skulu setja lögregluliðunum sameiginleg markmið til eins til þriggja ára. Markmiðssetning og verkefnaáætlun varðandi samstarf embættanna skal liggja fyrir eigi síðar en 1. apríl ár hvert og sendast embætti ríkislögreglustjóra.

Haldnar skulu fundargerðir um fundi lögreglustjóranna. Þær skal senda ríkislögreglustjóra til kynningar.

5. gr.

Fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra.

Við framkvæmd samstarfsverkefna skal gæta að samræmingarhlutverki Fjar­skipta­miðstöðvar ríkislögreglustjóra samkvæmt reglugerð þar um og verklagsreglum ríkis­lögreglu­stjóra sem settar hafa verið á grundvelli reglugerðarinnar. Senda skal Fjarskipta­miðstöð­inni verkefnaáætlanir um samstarf þegar þær ligga fyrir.

6. gr.

Gildistaka.

Reglur þessar, sem settar eru samkvæmt heimild í 6. gr. lögreglulaga nr. 90 13. júní 1996, sbr. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 46 13. júní 2006, öðlast gildi 1. janúar 2007.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 15. desember 2006.

Björn Bjarnason.

Halla Bergþóra Björnsdóttir.

B deild - Útgáfud.: 21. desember 2006