1. gr. Gildissvið. Reglur þessar gilda um greiðslustofnanir sem fengið hafa leyfi til starfrækslu greiðsluþjónustu skv. II. kafla laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011. 2. gr. Skylda til að varðveita fjármuni með tryggilegum hætti. Greiðslustofnun sem veitir einhverja þá þjónustu sem talin er upp í 4. gr. laga um greiðsluþjónustu skal varðveita fjármuni sem hún hefur tekið við frá notendum greiðsluþjónustu eða öðrum greiðsluþjónustuveitanda með tryggilegum hætti. Varðveisla fjármuna greiðslustofnana skv. þessari grein telst tryggileg ef hún samræmist ákvæðum 3. og 4. gr. þessara reglna. 3. gr. Fjárhagslegur aðskilnaður. Fjármuni sem greiðslustofnun tekur við frá einstaklingum eða lögaðilum skal aðskilja frá eigin fé greiðslustofnunar. Fjármunir sem mótteknir hafa verið frá notendum greiðsluþjónustu eða frá öðrum greiðsluþjónustuveitendum skulu teljast sértökukröfur í þrotabú greiðslustofnunar komi til gjaldþrots. Um rétthæð þeirra fer skv. 109. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., enda sýni eigandi fjármuna fram á eignarrétt sinn að þeim. Til fjármuna skv. 1. mgr. þessarar greinar teljast fjármunir notenda greiðsluþjónustu sem greiðslustofnun hefur í sinni vörslu og viðtakandi greiðslu hefur ekki fengið greidda við lok næstkomandi virks dags eftir viðtöku fjármunanna. Hafi þeir verið millifærðir til annars greiðsluþjónustuveitanda innan þess tímafrests er ekki gerð krafa um fjárhagslegan aðskilnað. 4. gr. Ráðstafanir til varðveislu fjármuna. Fjármunir skv. 1. mgr. 3. gr. skulu lagðir inn á sérmerktan reikning, eða eftir atvikum sérmerkta reikninga, hjá fjármálafyrirtæki eða þeim varið í öruggar, seljanlegar og áhættulitlar eignir. Með öruggum, seljanlegum og áhættulitlum eignum skv. 1. mgr. er átt við: lausafjáreignir sem falla undir stig 1 skv. reglum Seðlabanka Íslands um lausafjárhlutfall eða eignaliði sem falla undir einn af flokkunum sem settir eru fram í töflu 1 í 14. lið í viðauka I við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/49/EB, sbr. 55. gr. B reglna um eiginfjárkröfur og áhættugrunn fjármálafyrirtækja, nr. 215/2007, þar sem gjald fyrir tiltekið áhættufjármagn er 1,6% að hámarki, að undanskildum öðrum fullgildum liðum eins og þeir eru skilgreindir í 15. lið þess viðauka.
Til öruggra, seljanlegra og áhættulítilla eigna skv. 1. mgr. teljast einnig fjárfestingar í verðbréfasjóðum (UCITS), sem fjárfesta eingöngu í eignum sem tilgreindar eru í 2. mgr. þessarar greinar. Ef fjárfest er í verðbréfasjóðum (UCITS) skal þó bæta við 10% tryggingarálagi. 5. gr. Yfirlýsing til Fjármálaeftirlitsins. Greiðslustofnun skal fyrir lok aprílmánaðar ár hvert senda Fjármálaeftirlitinu, á þar til gerðu eyðublaði, sem Fjármálaeftirlitið lætur í té, yfirlýsingu, staðfesta af löggiltum endurskoðanda, um stöðu sérmerkts reiknings í banka þann 31. desember á liðnu ári. Í yfirlýsingunni skulu, eftir atvikum, koma fram upplýsingar um heildarvirði öruggra, seljanlegra og áhættulítilla eigna sem fjárfest er í á grundvelli 4. gr. Samtala tryggilega varðveittra fjármuna skv. 4. gr. skal ekki vera lægri en staða fjármuna í vörslu greiðslustofnunar samkvæmt bókhaldi fyrirtækisins. 6. gr. Gildistaka. Með reglum þessum eru tekin upp ákvæði 9. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2007/64/EB, um greiðsluþjónustu á innri markaðnum. Reglur þessar sem settar eru með heimild í 3. mgr. 18. gr. laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011, öðlast gildi þremur mánuðum eftir birtingu þeirra. Fjármálaeftirlitinu, 19. mars 2014. Unnur Gunnarsdóttir. Halldóra E. Ólafsdóttir. |