1. gr. Gildissvið. Reglugerð þessi gildir um tilkynningar vegna endurskipulagningar fjárhags og slita lánastofnana sem starfrækja útibú í öðrum aðildarríkjum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið og aðila að stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu. 2. gr. Tilkynning Fjármálaeftirlitsins um endurskipulagningu eða slit lánastofnunar. Fjármálaeftirlitið skal eins fljótt og unnt er og eigi síðar en þegar ákvörðun hefur verið tekin um endurskipulagningu fjárhags eða slit lánastofnunar, tilkynna eftirlitsstjórnvöldum aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins eða aðila að stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu um slíka ákvörðun. Í slíkri tilkynningu skulu m.a. koma fram upplýsingar um lánastofnun sem ákvörðun beinist að og réttaráhrif ákvörðunar. 3. gr. Endurskipulagning fjárhags. Tilkynning til þekktra kröfuhafa. Tilkynna skal kröfuhafa úrskurð um heimild lánastofnunar til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings. Slík tilkynning skal vera í samræmi við ákvæði 13. og 44. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Kröfuhafa sem á lögheimili, hefur fasta búsetu eða aðalstöðvar í öðru aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins eða aðila að stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu er heimilt að lýsa kröfu skv. 45. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. á tungumáli þess ríkis. Fyrirsögn kröfulýsingarinnar skal vera á íslensku. Sé eftir því leitað skal kröfuhafi framvísa íslenskri þýðingu á kröfulýsingunni. 4. gr. Slit lánastofnunar. Tilkynningar. Skiptastjóri lánastofnunar skal láta birta auglýsingu um ákvörðun um slit lánastofnunar í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins og a.m.k. tveimur innlendum dagblöðum í hverju gistiríki. Nú er þekktur kröfuhafi lánastofnunar búsettur í öðru aðildarríki innan Evrópska efnahagssvæðisins eða aðila að stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu og skal þá skiptastjóri tilkynna honum um upphaf skiptanna. Tilkynningin skal vera í formi auglýsingar og þar skulu fram koma upplýsingar um kröfulýsingarfrest, hvert beina skuli kröfulýsingu og viðurlög við vanlýsingum. Auglýsing skv. 1. og 2. mgr. skal birt á íslensku. Fyrirsögn auglýsingarinnar skal vera, Innköllun vegna gjaldþrotaskipta, kröfulýsingarfrestur, á öllum tungumálum aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins. Kröfuhafa lánastofnunar sem á lögheimili, hefur fasta búsetu eða aðalstöðvar í öðru aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins eða aðila að stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu er heimilt að lýsa kröfu á tungumáli þess ríkis. Fyrirsögn kröfulýsingar skal þó vera á íslensku. Skiptastjóri getur krafið kröfuhafa um íslenska þýðingu á kröfulýsingunni. 5. gr. Reglubundin miðlun upplýsinga til kröfuhafa. Skiptastjóri skal miðla upplýsingum reglulega og á viðeigandi hátt til kröfuhafa lánastofnunar, einkum um framvindu slitanna. 6. gr. Gildistaka. Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 3. og 4. mgr. 99. gr. og 3. og 4. mgr. 104. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi. Með reglugerðinni er innleiddur hluti tilskipunar 2001/24/EB sem tekinn var upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 167/2002 um breytingu á IX. viðauka (fjármálaþjónusta) við EES-samninginn. Viðskiptaráðuneytinu, 5. október 2006. Jón Sigurðsson. Kristján Skarphéðinsson. |