Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1132/2008

Nr. 1132/2008 28. nóvember 2008
SAMÞYKKT
um stjórn og fundarsköp Þingeyjarsveitar.

I. KAFLI

Um skipan sveitarstjórnar og verkefni hennar.

1. gr.

Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar er skipuð 7 sveitarstjórnarmönnum kjörnum samkvæmt lögum um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998, sbr. 8. og 12. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998.

2. gr.

Starfstímabil sveitarstjórnar hefst 15 dögum eftir kjördag í sveitarstjórnarkosningum og gildir til jafnlengdar að fjórum árum liðnum.

3. gr.

Sveitarstjórn fer með stjórn Þingeyjarsveitar samkvæmt ákvæðum sveitarstjórnarlaga og annarra laga. Jafnframt fer sveitarstjórnin með yfirstjórn stofnana og fyrirtækja á vegum sveitar­félagsins að svo miklu leyti sem sveitarstjórn hefur ekki falið öðrum slíka yfirstjórn.

4. gr.

Sveitarstjórn skal gæta hagsmuna sveitarfélagsins og vera í fyrirsvari fyrir það og vinna að sameiginlegum velferðarmálum íbúa þess.

5. gr.

Sveitarstjórn annast þau verkefni sem henni eru falin í lögum, reglugerðum og sam­þykkt­um. Þá getur sveitarstjórn ákveðið að sveitarfélagið taki að sér verkefni sem varðar íbúa þess sérstaklega enda sé það ekki falið öðrum til úrlausnar að lögum.

6. gr.

Meðal verkefna sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar er:

  1. Að kjósa oddvita og varaoddvita sveitarstjórnar, nefndir, ráð og stjórnir skv. V. kafla samþykktar þessarar, kjósa skoðunarmenn til að yfirfara ársreikninga sveitarfélagsins og ráða löggiltan endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtæki sem vinna skal að endurskoðun hjá sveitarfélaginu.
  2. Að setja samþykktir og gjaldskrár eftir því sem lög mæla fyrir um og þörf krefur.
  3. Að stjórna fjármálum sveitarfélagsins, stofnana þess og fyrirtækja skv. VI. kafla sveitarstjórnarlaga, sbr. og VI. kafla samþykktar þessarar.
  4. Að ákveða stjórnkerfi sveitarfélagsins og ráða sveitarstjóra og aðra starfsmenn í helstu stjórnunarstöður hjá sveitarfélaginu.

II. KAFLI

Um fundarsköp sveitarstjórnarinnar.

7. gr.

Sveitarstjórn heldur reglulega fundi tvisvar í hverjum mánuði, að jafnaði fyrsta og þriðja fimmtudag hvers mánaðar. Sveitarstjórnarfundir skulu að öllu jöfnu hefjast kl. 10.30. Heimilt er að fella niður fundi í sveitarstjórn í allt að einn mánuð að sumarlagi.

Aukafundi skal halda í sveitarstjórn eftir því sem þörf krefur að mati oddvita og sveitar­stjóra og skylt er að halda aukafund í sveitarstjórn ef a.m.k. þriðjungur sveitarstjórnar­manna krefst þess, enda geri þeir grein fyrir ástæðum og fundarefni.

8. gr.

Sá kjörinn fulltrúi í sveitarstjórninni sem á að baki lengsta setu í sveitarstjórn kveður hana saman til fyrsta fundar að afloknum sveitarstjórnarkosningum eigi síðar en 15 dögum eftir að hún tekur við störfum, þ.e. eigi síðar en 30 dögum eftir kjördag.

Hafi tveir eða fleiri fulltrúar í sveitarstjórn átt jafnlengi setu í sveitarstjórn fer aldurs­forseti þeirra með fundarboð skv. 1. mgr.

9. gr.

Sveitarstjóri, sbr. þó 8. gr., boðar sveitarstjórnarfundi og ákveður jafnframt fundarstað hafi sveitarstjórnin ekki gert það.

10. gr.

Íbúum sveitarfélagsins skal kunngert með auglýsingu hvar og hvenær sveitarstjórnar­fundir eru haldnir. Miðað skal við að sem flestir íbúar sveitarfélagsins hafi greiðan aðgang að auglýsingunni.

Í upphafi kjörtímabils sveitarstjórnar tekur sveitarstjórnin ákvörðun um hvernig fundir hennar verði auglýstir og með hvaða fyrirvara. Skal sú ákvörðun kynnt íbúum sveitar­félagsins með tryggum hætti, svo sem á heimasíðu sveitarfélagsins á netinu, í dreifibréfi eða auglýsingu í staðbundnu fréttablaði.

11. gr.

Sveitarstjóri semur dagskrá sveitarstjórnarfundar í samráði við oddvita og skal dagskráin fylgja fundarboði.

Á dagskrá sveitarstjórnarfundar skal taka:

  1. Lögákveðnar kosningar, svo sem kosningu oddvita og varaoddvita, kosningar nefnda, ráða og stjórna á vegum sveitarfélagsins, svo og ráðningar sveitarstjóra og annarra starfsmanna í helstu stjórnunarstöður hjá sveitarfélaginu.
  2. Fundargerðir nefnda, ráða og stjórna á vegum sveitarfélagsins, sbr. 49. gr. sveitar­stjórnarlaga.
  3. Önnur mál sem falla undir verksvið sveitarstjórnar og sveitarstjóri og/eða oddviti ákveður að taka á dagskrá eða einhver sveitarstjórnarmaður óskar að tekin verði á dagskrá. Sveitarstjórnarmaður sem óskar að fá mál tekið á dagskrá sveitar­stjórnar­fundar skal tilkynna það sveitarstjóra skriflega með tillögu eða fyrirspurn a.m.k. þremur sólarhringum fyrir fund.

Dagskrá sveitarstjórnarfundar skulu fylgja afrit fundargerða, tillagna og annarra gagna sem sveitarstjóri telur nauðsynleg til að sveitarstjórnarmenn geti undirbúið sig fyrir fundinn. Fundargerðir sveitarstjórnar skulu ávallt vera aðgengilegar.

12. gr.

Sveitarstjóri skal hafa sent sveitarstjórnarmönnum fundarboð sveitarstjórnarfundar ásamt dagskrá og fylgigögnum þannig að þau gögn berist þeim að jafnaði í síðasta lagi tveimur sólarhringum fyrir sveitarstjórnarfund.

13. gr.

Dagskrá sveitarstjórnarfundar skal vera aðgengileg íbúum sveitarfélagsins þegar hún hefur verið samin, svo sem á auglýsingatöflu eða heimasíðu sveitarfélagsins á netinu, á skrifstofu þess á venjulegum afgreiðslutíma, eða með öðrum hætti sem sveitarstjórnin ákveður.

14. gr.

Sveitarstjóri skal senda sveitarstjórnarmönnum fundarboð aukafundar í sveitarstjórn þannig að það berist þeim ásamt dagskrá a.m.k. sólarhring fyrir fund.

15. gr.

Sá sveitarstjórnarmaður er boðar til fyrsta fundar skv. 8. gr. setur fyrsta fund nýkjör­innar sveitarstjórnar og stýrir honum uns oddviti hefur verið kjörinn.

Oddviti sveitarstjórnar skal kjörinn til eins árs. Ef oddviti nýtur ekki lengur stuðnings meirihluta þeirra sem sæti eiga í sveitarstjórninni, skal hann víkja sæti og oddvitakjör fara fram á ný.

Sá er rétt kjörinn oddviti sem fengið hefur atkvæði meirihluta þeirra sem sæti eiga í sveitar­stjórninni. Verði þeim atkvæðafjölda ekki náð skal kjósa að nýju um þá tvo sem flest atkvæði fengu. Hafi þrír eða fleiri sveitarstjórnarmenn fengið jafnmörg atkvæði skal varpa hlutkesti um hverja tvo skuli kjósa. Verður þá sá rétt kjörinn oddviti sem fleiri atkvæði fær þó að hann fái ekki helming atkvæða. Verði atkvæði jöfn ræður hlutkesti kosningu.

Oddviti stjórnar kjöri varaoddvita sveitarstjórnar og skal sömu aðferð beitt við kosningu þeirra, sbr. 3. mgr. Varaoddvitar skulu kjörnir til jafnlangs tíma og oddviti.

Tilkynna skal kjör oddvita og varaoddvita til samgönguráðuneytisins þegar að því loknu.

Sé hvorki oddviti né varaoddviti á fundi gegnir aldursforseti störfum oddvita nema sveitar­stjórn ákveði að kjósa sérstakan fundarstjóra.

Ef oddviti deyr eða verður varanlega forfallaður frá störfum skal kjósa oddvita í hans stað til loka kjörtímabils oddvita.

16. gr.

Sveitarstjórn getur kosið tvo skrifara og tvo varaskrifara úr hópi sveitarstjórnarmanna til eins árs í senn á sama fundi og kosning oddvita fer fram. Skrifarar skulu telja saman atkvæði við kosningar og þegar atkvæðagreiðslur fara fram í sveitarstjórninni.

17. gr.

Sveitarstjórnarfundi skal að jafnaði halda í heyranda hljóði og almenningi heimilaður aðgangur að þeim eftir því sem húsrúm leyfir.

Sveitarstjórnarfundur skal haldinn í húsnæði sem fullnægir ákvæðum skipulags- og byggingarlaga og byggingarreglugerðar um aðgang fatlaðs fólks.

Sveitarstjórn getur ákveðið að einstök mál verði rædd fyrir luktum dyrum þegar það telst nauðsynlegt vegna eðlis málsins, svo sem viðkvæm einkamál manna eða viðskiptamál sem æskilegt er vegna hagsmuna sveitarfélagsins að rædd verði fyrir luktum dyrum. Jafnframt getur sveitarstjórnin ákveðið að sveitarstjórnarfundur þar sem eingöngu er fjallað um slík mál verði haldinn fyrir luktum dyrum. Tillaga um að mál skuli rædd fyrir luktum dyrum skal afgreidd umræðulaust í sveitarstjórn.

Óheimilt er að skýra frá því sem fram kemur við umræður á lokuðum fundi í sveitar­stjórn.

18. gr.

Sveitarstjórnarfundur er lögmætur ef meira en helmingur sveitarstjórnarmanna er mættur á fundinn og getur sveitarstjórnin enga bindandi ályktun gert nema sveitar­stjórnar­fundur sé lögmætur.

19. gr.

Oddviti sveitarstjórnar stýrir fundum hennar. Hann setur fund, kannar lögmæti hans, stjórnar umræðum og afgreiðslu mála og slítur fundi þegar dagskrá hans er tæmd. Jafnframt sér hann um að fundargerðir séu skipulega færðar í gerðabók sveitar­stjórnarinnar og að allar ályktanir og samþykktir séu rétt og nákvæmlega bókaðar.

Oddviti úrskurðar um skilning á fundarsköpum, en skjóta má úrskurði hans til úrlausnar sveitarstjórnar. Oddviti sér um að allt fari skipulega og löglega fram á sveitar­stjórnar­fundum og er sveitarstjórnarmönnum skylt að lúta valdi hans að því er varðar fundarsköp og góða reglu. Raski áheyrandi fundarfriði getur oddviti vísað honum úr fundarsal. Leyfi oddvita þarf til að taka myndir og hljóðrita umræður á sveitar­stjórnar­fundum.

20. gr.

Mál skulu tekin til umræðu og afgreidd í sveitarstjórn í þeirri röð sem þau eru á dagskrá, nema oddviti eða sveitarstjórn ákveði annað.

Heimilt er að taka til meðferðar á sveitarstjórnarfundi mál sem ekki hefur verið á dagskrá ef 2/3 viðstaddra sveitarstjórnarmanna samþykkja slíkt afbrigði.

21. gr.

Sveitarstjórn afgreiðir mál að jafnaði við eina umræðu. Þó skal hafa tvær umræður með a.m.k. einnar viku millibili um eftirtalin málefni:

  1. Fjárhagsáætlanir sveitarfélagsins, stofnana þess og fyrirtækja.
  2. Ársreikninga sveitarfélagsins, stofnana þess og fyrirtækja.
  3. Samþykktir, reglugerðir og gjaldskrár sem hljóta eiga staðfestingu ráðherra.
  4. Áætlanir fyrir sveitarfélagið sem gilda eiga til lengri tíma, svo sem þriggja ára áætlanir og skipulags- og framkvæmdaáætlanir.
  5. Tilkynningu til eftirlitsnefndar skv. 75. gr. sveitarstjórnarlaga.

22. gr.

Sveitarstjórnarmanni er skylt að sækja alla sveitarstjórnarfundi nema lögmæt forföll hamli, svo sem önnur brýnni skyldustörf eða veikindi.

Sé sveitarstjórnarmaður forfallaður um stundarsakir skal hann sjá til þess að boðaður verði varamaður í hans stað á fund. Varamenn taka sæti í sveitarstjórn í þeirri röð sem þeir eru kosnir. Þar sem sveitarstjórn hefur verið kjörin í bundinni hlutfallskosningu taka varamenn sæti í þeirri röð sem þeir eru kosnir þegar aðalmenn þess lista sem þeir eru kosnir af forfallast. Ef framboðslisti er borinn fram af tveimur eða fleiri stjórnmála­flokkum eða samtökum geta aðalmenn listans komið sér saman um mismunandi röð varamanna eftir því hver aðalmanna hefur forfallast.

Sveitarstjóri skal sitja fundi sveitarstjórnar með málfrelsi og tillögurétti en hann hefur ekki atkvæðisrétt nema hann sé kjörinn í sveitarstjórn.

Sveitarstjórn getur heimilað einstaklingi utan sveitarstjórnar að taka til máls á sveitar­stjórnar­fundi.

23. gr.

Sveitarstjórnarmanni ber að víkja sæti við meðferð og afgreiðslu máls þegar það varðar hann eða nána venslamenn hans svo sérstaklega að almennt má ætla að viljaafstaða hans mótist að einhverju leyti þar af.

Sveitarstjórnarmenn eru ekki vanhæfir þegar verið er að velja fulltrúa til trúnaðarstarfa á vegum sveitarstjórnarinnar eða ákveða þóknun fyrir slík störf.

Sveitarstjórnarmenn sem jafnframt eru starfsmenn sveitarfélagsins og hafa sem slíkir átt þátt í að undirbúa tiltekið mál sem lagt er fyrir sveitarstjórnina eru alltaf vanhæfir þegar sveitarstjórnin fjallar um málið. Þetta á þó hvorki við um sveitarstjóra né þegar sveitar­stjórnin fjallar um og afgreiðir fjárhagsáætlanir og ársreikninga sveitarfélagsins.

Sveitarstjórnarmanni sem veit hæfi sitt orka tvímælis ber að vekja athygli sveitarstjórnar á því. Sveitarstjórnarmanni er heimilt við meðferð máls sem hann er vanhæfur að afgreiða að gera stuttlega grein fyrir afstöðu sinni. Sveitarstjórn sker umræðulaust úr um hvort mál er svo vaxið að einhver sveitarstjórnarmanna sé vanhæfur. Sveitarstjórnar­maður sem hlut á að máli má taka þátt í atkvæðagreiðslu um hæfi sitt.

Sveitarstjórnarmaður sem vanhæfur er við úrlausn máls skal yfirgefa fundarsal sveitar­stjórnar við meðferð og afgreiðslu þess.

24. gr.

Sveitarstjórnarmaður hefur málfrelsi, tillögurétt og atkvæðisrétt á sveitarstjórnarfundum. Sveitarstjórnarmaður sem taka vill til máls skal óska heimildar oddvita. Að jafnaði skulu sveitarstjórnarmenn taka til máls í þeirri röð sem þeir hafa kvatt sér hljóðs. Víkja má frá þeirri reglu ef um er að ræða framkvæmdastjóra sveitarfélagsins, framsögumann í máli eða sveitarstjórnarmann sem óskar að gera stutta athugasemd eða koma leiðréttingu á framfæri. Hafi tveir eða fleiri sveitarstjórnarmenn kvatt sér hljóðs samtímis ákveður oddviti í hvaða röð þeir skuli tala. Sveitarstjórnarmaður skal flytja mál sitt úr ræðustól nema oddviti leyfi annað.

25. gr.

Sveitarstjórnarmaður skal beina máli sínu til oddvita eða fundarins. Þegar til umræðu er fundargerð nefndar, ráðs eða stjórnar skal sveitarstjórnarmaður taka fram hvaða lið/liði fundargerðarinnar hann óskar að ræða.

Sveitarstjórnarmaður má tala tvisvar við hverja umræðu máls. Heimilt er þó sveitar­stjórnar­manni að taka oftar til máls til að bera af sér ámæli eða til að gera stutta athugasemd um fundarstjórn oddvita. Sveitarstjóri, flutningsmaður tillögu eða fram­sögu­maður (talsmaður flutningsmanna) mega þó tala oftar en tvisvar við hverja umræðu máls.

Ekki má sveitarstjórnarmaður lesa upp prentað mál við umræður í sveitarstjórn nema með leyfi oddvita.

26. gr.

Beri sveitarstjórnarmaður aðra menn brigslum skal oddviti víta hann. Oddviti getur lagt til við sveitarstjórn að sveitarstjórnarmaður sem víttur hefur verið tvisvar á sama fundi verði sviptur málfrelsi á þeim fundi. Skal slík tillaga afgreidd umræðulaust. Hlýðnist sveitarstjórnarmaður ekki úrskurði oddvita eða sveitarstjórnar eða ef óregla kemur upp á fundi skal oddviti gera fundarhlé, fresta fundi eða slíta fundi ef nauðsyn krefur.

27. gr.

Telji oddviti umræður dragast úr hófi fram getur hann lagt fram dagskrártillögu um að ræðutími hvers sveitarstjórnarmanns verði takmarkaður, umræðum verði lokið á til­teknum tíma eða umræðum um mál verði lokið þá þegar. Hver sveitarstjórnarmaður getur og borið fram slíkar tillögur. Sveitarstjórn afgreiðir tillögur um takmörkun umræðna umræðulaust. Ekki má þó takmarka umræðu um mál svo að hún standi skemur en tvær klukkustundir ef einhver sveitarstjórnarmaður kveður sér hljóðs. Umræður um fjárhags­áætlun eru ekki háðar ákvæðum greinar þessarar.

28. gr.

Sveitarstjórnarmaður getur borið fram breytingartillögu, viðaukatillögu, frávísunartillögu eða frestunartillögu við hvert það mál sem til umræðu er á fundi. Slíkar tillögur skulu vera skriflegar ef oddviti óskar.

29. gr.

Mál er afgreitt í sveitarstjórn með því að samþykkja það eða fella það, vísa því frá sveitarstjórn eða vísa því til afgreiðslu nefndar, ráðs eða stjórnar eða sveitarstjóra. Máli sem sveitarstjórn ber að lögum að afgreiða verður þó eigi vísað til afgreiðslu annarra. Sveitarstjórn er heimilt að fresta afgreiðslu máls nema um sé að ræða mál sem að lögum ber að afgreiða fyrir tiltekinn tíma.

30. gr.

Atkvæðagreiðsla á sveitarstjórnarfundi fer að jafnaði fram með handauppréttingu. Oddviti biður þá sveitarstjórnarmenn sem samþykkja mál að rétta upp hönd sína. Að því búnu leitar oddviti mótatkvæða með sama hætti. Loks skýrir oddviti frá úrslitum atkvæða­greiðslunnar.

Ef mál er svo vaxið að oddviti telur ástæðulaust að atkvæðagreiðsla fari fram um það skýrir hann frá því að hann telji mál samþykkt eða fellt án atkvæðagreiðslu nema athuga­semd verði við það gerð

Oddviti getur ákveðið að mál verði afgreitt með nafnakalli. Einnig ber oddvita að láta fara fram nafnakall ef a.m.k. þriðjungur sveitarstjórnarmanna óskar þess. Við nafnakall skal farið eftir tölusettri nafnaskrá sveitarstjórnarmanna í stafrófsröð og skal það ráðast af útdrætti hvaða sveitarstjórnarmaður greiðir fyrst atkvæði við nafnakall. Við nafnakall skal oddviti greiða atkvæði síðastur. Við nafnakall svarar sveitarstjórnarmaður, þegar oddviti les upp nafn hans, já eða nei eftir því hvort hann er með máli eða móti eða tekur fram að hann greiði ekki atkvæði, en slík afstaða telst þó þátttaka í atkvæðagreiðslu.

Heimilt er að afgreiða mál með skriflegri atkvæðagreiðslu ef sveitarstjórnarmaður óskar og sveitarstjórn samþykkir.

Kosningar skulu ávallt vera skriflegar og leynilegar.

31. gr.

Á sveitarstjórnarfundum ræður afl atkvæða úrslitum mála. Hjáseta telst þátttaka í atkvæðagreiðslu.

Ef jafnmörg atkvæði eru með málefni og móti því fellur það, en við kosningar ræður hlut­kesti.

Kosningar sem fara fram í sveitarstjórn skulu vera hlutfallskosningar skv. d’Hondts reglu, sbr. 85. og 86. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998. Þegar um meiri­hlutakosningu er að ræða, svo sem við kjör eins fulltrúa úr hópi tveggja eða fleiri, skal kosning fara fram eins og við oddvitakjör.

32. gr.

Sveitarstjórn getur ráðið sérstakan fundarritara utan sveitarstjórnar til að annast ritun fundargerða í gerðabók sveitarstjórnar. Í fundargerð skal getið hvar og hvenær fundur er haldinn og hverjir sitji fundinn. Skrá skal þau mál sem tekin eru fyrir, dagsetningu þeirra, aðila máls og meginefni og hvernig mál er afgreitt. Sé mál ekki afgreitt samhljóða skal greina í fundargerð hvernig atkvæði hafa skipst. Þegar lagðar eru fram fundargerðir nefnda nægir að skrá í fundargerð sveitarstjórnar um hvaða nefndir er að ræða, dagsetningu fundargerða og fjölda töluliða.

Mál sem tekin eru fyrir á lokuðum fundi skal skrá sem trúnaðarmál.

Á fundinum skal fundargerð lesin upp og skulu allir viðstaddir sveitarstjórnarmenn sem fundinn sitja, undirrita hana nema sveitarstjórn ákveði annað.

Sveitarstjórn getur ákveðið að fundargerðir verði skráðar í tölvu. Verði það gert skal bóka í gerðabók sveitarstjórnarinnar númer fundar, hvar og hvenær fundurinn er haldinn og að fundargerð sé færð í tölvu. Þá skal færa í gerðabók fundarslit og greina blaðsíðutal fundargerða. Viðstaddir sveitarstjórnarmenn skulu rita nöfn sín við slit fundar í gerðabók. Í lok fundarins skal tölvuskráð fundargerð prentuð út og hún undirrituð af fundar­mönnum. Einnig skulu þeir allir setja upphafsstafi sína undir hverja blaðsíðu fundargerða sem blaðsíðusettar skulu í áframhaldandi töluröð. Undirritaðar tölvuskráðar fundargerðir skulu reglulega bundnar inn til varanlegrar varðveislu.

Sveitarstjórnarmaður sem gera vill athugasemd við eitthvert atriði í fundargerð getur undirritað fundargerðina með fyrirvara um það atriði.

Sveitarstjórn getur ákveðið að umræður á sveitarstjórnarfundum verði hljóðritaðar eða teknar upp með öðrum hætti. Verði það ákveðið skal sveitarstjórn setja um það nánari reglur.

III. KAFLI

Um réttindi og skyldur sveitarstjórnarmanna.

33. gr.

Sveitarstjórnarmanni er bæði rétt og skylt að sækja fundi sveitarstjórnar nema lögmæt forföll hamli.

Aðal- og varamönnum í sveitarstjórn er skylt að taka kjöri í nefnd, ráð eða stjórn á vegum sveitarfélagsins. Hverjum sveitarstjórnarmanni er skylt að taka að sér þau störf, sem sveitarstjórn felur honum og varða verkefni sveitarstjórnarinnar, svo sem oddvita­störf. Þó getur sá sem verið hefur oddviti eitt kjörtímabil eða lengur eða setið í nefnd sama tímabil skorast undan kosningu jafnlangan tíma og hann hefur haft starfið á hendi.

34. gr.

Sveitarstjórnarmanni ber að gegna störfum sínum í sveitarstjórn af alúð og samvisku­semi og gæta hagsmuna sveitarfélagsins, en í störfum sínum er sveitarstjórnar­maður einungis bundinn af lögum og sannfæringu sinni.

35. gr.

Sveitarstjórnarmaður hefur málfrelsi, tillögurétt og atkvæðisrétt á fundum sveitarstjórnar eftir því sem nánar er ákveðið í samþykkt þessari.

Sveitarstjórnarmanni er ekki skylt að taka þátt í atkvæðagreiðslu um einstök mál. Þegar um er að ræða mál sem sveitarstjórn er að lögum skylt að afgreiða, svo sem fjárhags­áætlun, ársreikninga eða kjör fulltrúa í lögboðnar nefndir, getur oddviti ákveðið að endurtaka atkvæðagreiðslu ef minna en helmingur sveitarstjórnarmanna tekur þátt í atkvæðagreiðslunni.

Sveitarstjórnarmaður á rétt á að fá mál skv. 4. og 5. gr. samþykktar þessarar tekið á dagskrá sveitarstjórnarfundar enda tilkynni hann það sveitarstjóra skriflega a.m.k. þremur sólarhringum fyrir fund.

36. gr.

Sveitarstjórnarmaður á aðgang að bókum og skjölum sveitarfélagsins og einnig óhindraðan aðgang að stofnunum og fyrirtækjum þess á venjulegum afgreiðslutíma til upplýsingaöflunar vegna starfa sinna.

37. gr.

Sveitarstjórnarmaður á rétt á að fá bókaða stutta athugasemd um afstöðu sína til þeirra mála sem til umræðu eru í sveitarstjórn.

38. gr.

Sveitarstjórnarmaður skal gæta þagnarskyldu um það sem hann fær vitneskju um í starfi sínu og leynt á að fara vegna einka- eða almannahagsmuna samkvæmt lögum eða eðli máls. Þagnarskyldan helst áfram eftir að sveitarstjórnarmaður lætur af þeim störfum.

39. gr.

Nú telur sveitarstjórnarmaður sig ekki geta gegnt skyldum sínum í sveitarstjórninni án óhæfilegs álags og getur sveitarstjórnin þá létt af honum störfum eða veitt honum lausn að eigin ósk um tiltekinn tíma eða til loka kjörtímabils. Varamaður tekur þá sæti hans skv. 24. gr. sveitarstjórnarlaga.

Missi fulltrúi í sveitarstjórn kjörgengi skal hann víkja úr sveitarstjórninni, sbr. þó ákvæði 4. mgr. 24. gr. sveitarstjórnarlaga.

Nú er sveitarstjórnarmaður af einhverjum ástæðum sviptur fjárforræði, svo sem ef bú hans er tekið til gjaldþrotaskipta, og skal sveitarstjórnin þá veita honum lausn frá störfum þann tíma er sviptingin gildir.

40. gr.

Sveitarstjórnarmaður skal fá hæfilega þóknun úr sveitarsjóði fyrir störf sín í sveitar­stjórn. Ef um langan veg er að fara milli heimilis sveitarstjórnarmanns og fundar­staðar sveitarstjórnar, getur sveitarstjórnin auk þess ákveðið að hann skuli fá hæfilega greiðslu vegna ferðakostnaðar. Takist sveitarstjórnarmaður á hendur ferð á vegum sveitar­félagsins samkvæmt ákvörðun sveitarstjórnarinnar á hann rétt á greiðslu hæfilegs ferða- og dvalarkostnaðar.

Sveitarstjórn setur nánari reglur um greiðslur skv. 1. mgr.

41. gr.

Haga skal fundum sveitarstjórnar þannig að sveitarstjórnarmenn eigi möguleika á að taka sér orlof árlega.

42. gr.

Ákvæði þessa kafla um réttindi og skyldur sveitarstjórnarmanna gilda einnig um vara­menn sem taka sæti í sveitarstjórninni.

IV. KAFLI

Nefndir, ráð og stjórnir.

43. gr.

Sveitarstjórn kýs fulltrúa í nefndir, ráð og stjórnir samkvæmt ákvæðum laga, reglugerða og samþykktar þessarar. Slíkar kosningar skulu vera leynilegar bundnar hlutfalls­kosningar ef einhver sveitarstjórnarmaður óskar þess.

Starfsmenn fyrirtækja og stofnana sveitarfélagsins eru ekki kjörgengir í nefndir, ráð og stjórnir þeirra fyrirtækja eða stofnana er þeir starfa hjá.

44. gr.

Á fyrsta fundi nefndar skal kjósa formann, varaformann og ritara nefndar, nema lög eða sveitarstjórnin ákveði annað.

Sveitarstjóri boðar nefnd saman til fyrsta fundar eða ákveður hver skuli gera það, nema formaður hafi áður verið valinn af sveitarstjórn. Formaður nefndar boðar eða lætur boða fundi í nefnd með a.m.k. eins sólarhrings fyrirvara.

45. gr.

Nefndarmanni er skylt að sækja fundi nema lögmæt forföll hamli. Þegar aðalmaður í nefnd forfallast um stundarsakir skal varamaður hans taka sæti í nefndinni. Þegar aðal­maður í nefnd flyst burt úr sveitarfélaginu, fellur frá eða forfallast á annan hátt varanlega tekur varamaður hans sæti nema sveitarstjórnin ákveði að kjósa aðalmann að nýju.

Hafi tveir eða fleiri flokkar eða framboðsaðilar haft samstarf um nefndarkosningar, skal sá sem tilnefndi viðkomandi nefndarmann einnig tilnefna varamann hans sé eigi öðruvísi ákveðið í yfirlýsingu skv. 2. mgr. 24. gr. sveitarstjórnarlaga.

46. gr.

Nefndarfundur skal haldinn fyrir luktum dyrum. Nefnd getur kvatt á sinn fund einstaka starfsmenn sveitarfélagsins. Ennfremur getur nefnd boðið aðila að koma á sinn fund til viðræðna um tiltekin mál.

47. gr.

Formaður nefndar stýrir fundum. Ákvæði II. og III. kafla samþykktar þessarar gilda um meðferð mála í nefndum, ráðum og stjórnum sveitarfélagsins eftir því sem við á.

48. gr.

Um hlutverk og valdsvið nefnda, ráða og stjórna á vegum sveitarfélagsins fer eftir því sem ákveðið er í lögum, reglugerðum eða samþykktum sveitarstjórnar.

Sveitarstjórn getur falið nefnd fullnaðarafgreiðslu einstakra mála eða málaflokka nema slíkt vald sé að lögum sérstaklega falið sveitarstjórn til ákvörðunar.

49. gr.

Nefndir, ráð og stjórnir sveitarfélagsins skulu halda gerðabækur. Kjörinn ritari nefndar skal færa fundargerð í gerðabók. Um ritun fundargerða nefnda, ráða og stjórna gilda sömu reglur og um ritun fundargerða sveitarstjórnarinnar, sbr. 32. gr.

50. gr.

Fundargerðir nefnda, ráða og stjórna sveitarfélagsins skulu teknar á dagskrá sveitar­stjórnar og skal það gert svo fljótt sem unnt er að afloknum nefndarfundi. Ef fundargerðir innihalda ekki ályktanir eða tillögur sem þarfnast sérstakrar staðfestingar sveitar­stjórnar­innar eru fundargerðirnar lagðar fram til kynningar. Ef ályktanir eða tillögur þarfnast staðfestingar sveitarstjórnarinnar ber að taka þær sérstaklega fyrir. Hafi ályktun nefndar, ráðs eða stjórnar í för með sér fjárútlát umfram áður veittar heimildir skal ályktunin ætíð lögð fyrir sveitarstjórnina.

51. gr.

Sveitarstjórn kýs fulltrúa í eftirtaldar nefndir, ráð, stjórnir og embætti. Sveitarstjórn kýs formann nefnda skv. B-lið:

A. Fulltrúar kjörnir til eins árs á fundi í júní ár hvert:

  1. Oddviti sveitarstjórnar.
  2. Varaoddviti sveitarstjórnar.

B. Til fjögurra ára. Á fyrsta eða öðrum fundi að afloknum sveitarstjórnarkosningum:

  1. Fræðslunefnd. Fimm aðalmenn og jafnmargir til vara. Nefndin fjalli um málefni grunn-, leik- og tónlistarskóla. Nánar er mælt fyrir um hlutverk og skyldur í erindisbréfi.
  2. Félags- og menningarmálanefnd. Fimm aðalmenn og jafnmargir til vara. Nefndin fjalli um málefni félagsþjónustu, málefni fatlaðra, aldraðra, forvarna, áfengis- og vímuvarna og húsnæðismála. Nefndin fjalli enn fremur um æskulýðs- og íþróttamál í sveitarfélaginu. Þá fjalli nefndin um menningarmál í sveitarfélaginu þar með talin almenningsbókasöfn og rekstur félagsheimila. Nánar er mælt fyrir um hlutverk og skyldur í erindisbréfi.
  3. Atvinnumálanefnd. Fimm aðalmenn og jafnmargir til vara. Nefndin fjalli um markaðs-, atvinnu-, ferða- og orkumál. Nefndin fjalli um málefni landbúnaðarins s.s. búfjárhald og forðagæslu, fjallskil, skógrækt og landgræðslu og samgöngur. Nefndin hafi umsjón með refa- og minkaeyðingu og búfjárgirðingum. Nefndin fjalli enn fremur um fasteignir í eigu sveitarfélagsins, kaup, viðhald, nýbyggingar o.fl. Nánar er mælt fyrir um hlutverk og skyldur í erindisbréfi.
  4. Skipulags- og umhverfisnefnd. Fimm aðalmenn og jafnmargir til vara. Nefndin fjalli um skipulagsmál, umhverfis- og hreinlætismál í sveitarfélaginu. Nefndin fjalli einnig um málefni slökkviliða og brunavarna. Nánar er mælt fyrir um hlutverk og skyldur í erindisbréfi.
  5. Kjörstjórn. Þrír aðalmenn og jafnmargir til vara skv. 15. gr. laga um kosningar til Alþingis nr. 24/2000 og 14. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998.
  6. Skoðunarmenn. Tveir aðalmenn og jafnmargir til vara skv. 69. gr. sveitar­stjórnar­laga nr. 45/1998.
  7. Fjallskilastjórar. Sex fjallskilastjórar eru í Þingeyjarsveit, einn fyrir hverja deild og einn til vara skv. 40. gr. laga um afréttamálefni, fjallskil o.fl. nr. 6/1986.

C. Til fjögurra ára. Sveitarstjórn kýs fulltrúa í eftirtaldar nefndir skv. sérstökum samningum:

  1. Skipulags- og byggingarnefnd Suður Þingeyinga. Þrír fulltrúar og þrír til vara skv. 6. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.
  2. Rekstrarstjórn Hafralækjarskóla. Tveir fulltrúar og tveir til vara skv. samningi rekstraraðila skólans.
  3. Hússtjórn Ýdala. Tveir fulltrúar og tveir til vara skv. samningi um rekstur Ýdala.
  4. Héraðsnefnd Þingeyinga. Einn fulltrúi og annar til vara skv. 6. gr. samþykktar um Héraðsnefnd Þingeyinga frá 2008 sbr. 81. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998.
  5. Aðalfundur Eyþings. Tveir aðalmenn og tveir til vara.
  6. Landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga. Einn aðalmaður og annar til vara.
  7. Aðalfundur Sorpsamlags Þingeyinga. Einn aðalmaður og einn til vara.
  8. Aðalfundur Hvamms, dvalarheimilis aldraðra. Einn aðalmaður og einn til vara.
  9. Aðalfundur Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga. Einn aðalmaður og annar til vara.
  10. Búfjáreftirlitsnefnd. Tveir aðalmenn og tveir til vara skv. 9. gr. laga um búfjárhald nr. 46/1991.

D. Þá gerir sveitarstjórn, þegar það á við, tillögur um fulltrúa á aðalfundi ýmissa félaga sem Þingeyjarsveit á aðild að svo sem:

  1. Iðnbær ehf.
  2. Tjarnir hf.
  3. Tröllasteinn ehf.
  4. Þeistareykir ehf.
  5. Greið leið ehf.
  6. Ýmis veiðifélög o.fl.

52. gr.

Sveitarstjórn getur kosið nefndir til að vinna að einstökum afmörkuðum verkefnum. Umboð slíkra nefnda fellur niður við lok kjörtímabils sveitarstjórnarinnar og fyrr ef verk­efni nefndar er lokið. Sveitarstjórn getur einnig afturkallað umboð slíkra nefnda hvenær sem er.

V. KAFLI

Um framkvæmdastjórn og starfslið sveitarfélagsins.

53. gr.

Sveitarstjórn ræður sveitarstjóra Þingeyjarsveitar. Gera skal skriflegan ráðningar­samning við sveitarstjórann þar sem meðal annars skal kveðið á um ráðningartíma hans, kaup og kjör. Ráðningarsamningur skal staðfestur af sveitarstjórn.

54. gr.

Sveitarstjóri undirbýr fundi sveitarstjórnar, semur dagskrá og boðar til funda. Hann á sæti á fundum sveitarstjórnarinnar og hefur þar málfrelsi og tillögurétt en eigi atkvæðis­rétt nema hann sé kjörinn fulltrúi í sveitarstjórnina. Hann hefur og rétt til setu á fundum nefnda sveitarfélagsins með sömu réttindum.

Sveitarstjóri hefur á hendi framkvæmd ákvarðana sveitarstjórnar og málefna sveitar­félagsins að svo miklu leyti sem sveitarstjórnin hefur ekki ákveðið annað.

Sveitarstjóri er prókúruhafi sveitarsjóðs. Hann undirritar skjöl varðandi kaup og sölu fasteigna sveitarfélagsins, lántökur og aðrar skuldbindingar eða ráðstafanir sem sam­þykki sveitarstjórnarinnar þarf til. Sveitarstjóra er heimilt með samþykki sveitar­stjórnar­innar að veita öðrum starfsmanni sveitarfélagsins prókúru.

Sveitarstjóri er æðsti yfirmaður starfsliðs sveitarfélagsins.

Sveitarstjóri ákveður hver gegna skuli störfum hans í forföllum.

55. gr.

Sveitarstjórn ræður starfsmenn í helstu stjórnunarstöður hjá sveitarfélaginu, svo sem yfirmenn stofnana og deilda sveitarfélagsins, og veitir þeim lausn frá störfum.

56. gr.

Sveitarstjóri eða sveitarstjórn gerir ráðningarsamninga við lausráðna starfsmenn. Um kaup og kjör fer eftir kjarasamningum viðkomandi stéttarfélaga.

57. gr.

Um starfskjör, réttindi og skyldur starfsmanna sveitarfélagsins fer eftir ákvæðum kjara­samninga hverju sinni og/eða ákvæðum ráðningarsamninga.

VI. KAFLI

Um fjármálastjórn sveitarfélagsins.

58. gr.

Fyrir lok desembermánaðar ár hvert skal sveitarstjórn afgreiða fjárhagsáætlun sveitar­sjóðs, fyrirtækja og stofnana sveitarfélagsins fyrir yfirstandandi ár að undan­gengnum tveimur umræðum í sveitarstjórn.

Form fjárhagsáætlunar skal vera í samræmi við form ársreiknings. Í fjárhagsáætlun skal koma fram rekstrar- og framkvæmdaáætlun, áætlun um efnahag í upphafi og lok árs, auk áætlaðra fjármagnshreyfinga.

Við afgreiðslu fjárhagsáætlunar tekur sveitarstjórn ákvarðanir um nýtingu tekjustofna sveitar­sjóðs og tekjuöflun, um öflun lánsfjár ef um það er að ræða og um ráðstöfun fjármuna á fjárhagsárinu bæði til rekstrar og eignabreytinga. Þá skal við gerð fjárhags­áætlunar hafa hliðsjón af fjárhagslegri stöðu sveitarsjóðs í byrjun fjárhagsársins.

Sveitarstjórnin skal árlega gæta þess svo sem kostur er að heildarútgjöld sveitar­félagsins, þar með talin rekstrarútgjöld, fari ekki fram úr heildartekjum þess.

59. gr.

Fjárhagsáætlun skv. 58. gr. skal vera meginregla um tekjuöflun, ráðstöfun fjármuna og fjármálastjórn sveitarfélagsins á fjárhagsárinu og ekki má stofna til útgjalda eða greiða fé úr sveitarsjóði, nema heimild sé til þess í fjárhagsáætlun, útgjöldin séu lögbundin, samningsbundin eða samþykkt af sveitarstjórninni.

Samþykki sveitarstjórn fjárveitingu eða útgjöld utan fjárhagsáætlunar skal hún jafnframt taka ákvörðun um hvernig afla skuli fjár til þeirra útgjalda, svo sem með lækkun annarra útgjalda, auknum tekjum eða lánsfé. Samþykki slíkrar fjárveitingar telst breyting á fjárhagsáætluninni.

60. gr.

Hafi forsendur fyrir gerð fjárhagsáætlunar breyst er sveitarstjórn heimilt að endurskoða fjárhagsáætlunina. Slíkar breytingar afgreiðir sveitarstjórn við eina umræðu á sveitar­stjórnar­fundi, enda hafi breytingartillögurnar verið sendar öllum fulltrúum í sveitarstjórn með dagskrá viðkomandi sveitarstjórnarfundar.

61. gr.

Til viðbótar árlegri fjárhagsáætlun skal sveitarstjórn semja og fjalla um þriggja ára áætlun um rekstur, framkvæmdir og fjármál sveitarfélagsins. Þessi þriggja ára áætlun skal vera rammi um árlegar fjárhagsáætlanir sveitarfélagsins. Skal hún unnin og afgreidd af sveitarstjórn innan tveggja mánaða frá afgreiðslu árlegrar fjárhagsáætlunar.

62. gr.

Strax að lokinni afgreiðslu sveitarstjórnarinnar skal senda samgönguráðuneytinu fjárhags­áætlun skv. 58. gr. og þriggja ára áætlun skv. 61. gr. Sama á við um endur­skoðaða áætlun eða breytta skv. 60. gr.

63. gr.

Ársreikningur sveitarfélagsins skal fullgerður, endurskoðaður og tilbúinn til afgreiðslu í sveitarstjórn fyrir lok aprílmánaðar.

Sveitarstjórnin skal taka til umfjöllunar og afgreiðslu álit, greinargerðir og tillögur endurskoðanda og skoðunarmanna.

Sveitarstjórn skal hafa lokið fullnaðarafgreiðslu ársreikninga sveitarsjóðs, stofnana sveitar­félagsins og fyrirtækja þess eigi síðar en 1. júní ár hvert. Sveitarstjórnarmenn og sveitarstjóri skulu árita ársreikninginn.

Eintak af ársreikningnum skal senda samgönguráðuneytinu og Hagstofu Íslands fyrir 15. júní ár hvert ásamt greinargerð endurskoðanda og skoðunarmanna.

Samþykkt þessi sem samin er og samþykkt af sveitarstjórn Þingeyjarsveitar samkvæmt 10. og 25. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998, staðfestist hér með til þess að öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi samþykktir um stjórn og fundarsköp Þingeyjarsveitar nr. 1210/2005 með síðari breytingum og samþykkt um stjórn og fundarsköp Aðaldælahrepps nr. 943/1999.

Samgönguráðuneytinu, 28. nóvember 2008.

F. h. r.
Hermann Sæmundsson.

Stefanía Traustadóttir.

B deild - Útgáfud.: 16. desember 2008