I. KAFLI Vegabréfaskylda. 1. gr. Íslenskir ríkisborgarar skulu hafa vegabréf við brottför úr landi og komu til landsins. Sama gildir þegar ferðast er yfir innri landamæri Schengensvæðisins. Íslenskum ríkisborgurum er þó heimilt að fara beint til og koma beint frá Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð án þess að hafa í höndum vegabréf eða annað ferðaskilríki, sbr. norræna vegabréfaeftirlitssamninginn frá 12. júlí 1957 um afnám vegabréfaskoðunar við landamæri milli Norðurlandanna. Þegar sérstaklega stendur á getur lögreglan heimilað komu íslenskra ríkisborgara til landsins og för úr landi enda þótt hlutaðeigandi geti ekki gert grein fyrir sér með vegabréfi. II. KAFLI Gerð, form og efni vegabréfa. 2. gr. Gefnar eru út sex tegundir vegabréfa:
a. | Almenn vegabréf, gefin út af Þjóðskrá. | b. | Diplómatísk vegabréf, gefin út af utanríkisráðuneytinu samkvæmt reglum sem það setur. | c. | Þjónustuvegabréf, gefin út af utanríkisráðuneytinu samkvæmt reglum sem það setur. | d. | Vegabréf til bráðabirgða (neyðarvegabréf), gefin út af lögreglustjórum, sendiráðum, fastanefndum og ræðisskrifstofum samkvæmt VI. kafla. | e. | Vegabréf fyrir útlendinga, gefin út af Útlendingastofnun samkvæmt VII. kafla. | f. | Ferðaskilríki fyrir flóttamenn, gefin út af Útlendingastofnun samkvæmt VII. kafla. |
3. gr. Á forsíðu vegabréfs skal Íslands getið skýrum stöfum og einnig skal skjaldarmerki landsins vera þar greinilegt. Tegund vegabréfs skal tilgreind með áberandi hætti á forsíðu. Kápa vegabréfs skal vera úr slitþolnu efni. Litur á kápu skal vera heiðblár, en áletrun gyllt. Í vegabréfi skal vera persónusíða úr öryggispappír eða gerviefni. 4. gr. Vegabréf er forprentuð bók með öryggisþáttum í fjórum stigum til samræmis við tilmæli Alþjóða flugmálastofnunarinnar (ICAO) og persónusíðu sbr. 2. mgr. 5. gr. Þjóðskrávarðveitir nákvæma lýsingu á öryggisþáttunum. Vegabréfabókin skal vera 88 x 125 mm að stærð og 36 tölusettar blaðsíður, auk kápunnar. Bók fyrir neyðarvegabréf skal þó vera átta tölusettar blaðsíður, auk kápunnar. Vegabréf skal vera í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar íslenska ríkisins. 5. gr. Vegabréf skal að jafnaði ritað á íslensku, ensku og frönsku. Á persónusíðu vegabréfs skulu vera upplýsingar um nafn, ríkisfang, hæð, fæðingardag, kennitölu, kyn og fæðingarstað handhafa vegabréfsins. Einnig skal tilgreina útgáfudag vegabréfsins og gildistíma þess, ásamt upplýsingum um það stjórnvald sem gaf vegabréfið út. Á persónusíðu skal einnig vera ljósmynd af handhafa vegabréfsins. Vegabréf, önnur en neyðarvegabréf, skulu vera vélrænt lesanleg í samræmi við alþjóðlegar reglur og staðla. 6. gr. Í vegabréfi, öðru en neyðarvegabréfi, skal vera örflaga með upplýsingum sem unnar eru úr andlitsmynd, rithandarsýnishorni og fingraförum vegabréfshafa. Fingraför í örflögu skal vernda í samræmi við alþjóðlegar reglur og staðla, þannig að heimild Þjóðskrár þurfi til að geta séð þau. Þjóðskrá stýrir aðgangi að fingraförum í örflögunni í samræmi við reglur Schengensamstarfsins. Mynd og fingrafar í örflögu má nota til að sannreyna uppruna vegabréfsins. Þau má ennfremur nota til að bera saman við mynd og fingrafar sem tekin eru af handhafa þess við framvísun vegabréfs. Mynd og fingrafar í örflögu má ekki nota í öðrum tilgangi. III. KAFLI Umsókn um vegabréf. 7. gr. Umsækjandi um vegabréf skal mæta í eigin persónu á þann umsóknarstað, sem hann kýs óháð búsetu. Almennt vegabréf má sækja um hjá þeim sýslumönnum og lögreglustjórum sem hafa heimild Þjóðskrár til þess að taka við umsóknum. Erlendis má sækja um vegabréf hjá sendiráðum, fastanefndum og ræðisskrifstofum sem hafa heimild utanríkisráðuneytisins til móttöku umsókna. 8. gr. Umsækjandi um vegabréf skal skráður í umsóknarkerfi vegabréfa. Þegar sótt er um vegabréf skal eftirfarandi koma fram:
a. | Fullt nafn, lögheimili, kennitala, fæðingarstaður, ríkisfang, hæð og kyn umsækjanda. | b. | Tegund vegabréfs sem sótt er um. | c. | Tegund skilríkis sem umsækjandi framvísar til að sanna á sér deili. | d. | Hvert umsækjandi vill láta senda vegabréfið. | e. | Hvort óskað er forgangs vegna skyndiútgáfu. |
Eftir því sem við á skulu eftirfarandi gögn lögð fram:
a. | Hafi vegabréf glatast eða eyðilagst skal gera skriflega grein fyrir málavöxtum. | b. | Þegar sótt er um neyðarvegabréf skal skila inn tveimur ljósmyndum á ljósmyndapappír 35 x 45 mm að stærð, sem ekki eru eldri en sex mánaða gamlar og uppfylla öll þau skilyrði sem tilgreind eru í a-, c- og d-liðum 4. mgr. 10. gr. Myndin skal jafnframt uppfylla skilyrði b-liðar þeirrar málsgreinar eftir því sem aðstæður leyfa. | c. | Þegar sótt er um vegabréf fyrir barn, yngra en 18 ára, skal leggja fram skriflegt samþykki foreldris/foreldra sem fara með forsjá þess. Að öðru leyti fer um samþykki skv. 4. gr. laga um vegabréf nr. 136/1998. Ef aðrir en foreldrar barns fara með forsjá þess fer um samþykki þeirra með sama hætti. | d. | Samþykki lögráðamanns þarf til að gefið verði út vegabréf til þess sem sviptur hefur verið sjálfræði. |
9. gr. Þegar sótt er um vegabréf skal umsækjandi framvísa eldra vegabréfi, ökuskírteini eða öðru opinberu skírteini með mynd. Ef umsækjandi getur ekki með fullnægjandi hætti sannað á sér deili, skal hann kveða til tvo sjálfráða einstaklinga, sem geta gert grein fyrir sér á fullnægjandi hátt og skulu þeir votta og staðfesta með undirskrift sinni að umsækjandi sé sá sem hann segist vera. Skrá skal númer skilríkis sem framvísað er, eða taka mynd af (skanna) viðkomandi skjali. Starfsmaður skal gæta þess að allar nauðsynlegar upplýsingar í umsókn séu fyrirliggjandi, kanna þær upplýsingar sem skráðar eru í vegabréfaskrá og ganga úr skugga um að öll skilyrði til útgáfunnar séu uppfyllt. 10. gr. Tekin skal stafræn ljósmynd af umsækjanda, rithandarsýnishorn og fingraför af vísifingrum beggja handa. Umsækjanda er þó heimilt að koma með mynd frá ljósmyndara á rafrænum miðli sem uppfyllir kröfur þær sem gerðar eru til gæða myndarinnar, en með samanburði við stafræna mynd sem tekin er á umsóknarstað skal þá sannreynt að slík mynd sé fullnægjandi til að bera kennsl á umsækjanda með vélrænum hætti. Börn yngri en tíu ára þurfa ekki að gefa rithandarsýnishorn. Börn yngri en tólf ára og einstaklingar sem líkamlega er ekki hægt að taka fingrafar af eru undanþegnir fingrafaratöku. Ef ekki er hægt að taka fingraför af vísifingrum einstaklings má nota aðra fingur hans. Ef tímabundið er ekki hægt að nota neitt fingrafar má gefa út tímabundið vegabréf til allt að tólf mánaða. Þegar teknar eru myndir og fingraför af umsækjendum skal gæta réttinda þeirra í samræmi við grunnreglur mannréttindasáttmála Evrópu og samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, þannig að þeir haldi virðingu sinni þótt erfiðleikar þessu samfara komi upp. Mynd í vegabréfi skal uppfylla eftirtalin skilyrði:
a. | Myndin skal vera andlitsmynd, tekin þannig að andlitið snúi beint að myndavél og bæði augu sjáist. | b. | Myndin skal vera jafnlýst, bakgrunnur ljósgrár, hlutlaus og án skugga. | c. | Umsækjandi má ekki bera dökk gleraugu eða gleraugu með speglun. | d. | Umsækjandi má ekki bera höfuðfat. Þó má heimila slíkt ef umsækjandi fer fram á það af trúarástæðum. | e. | Ef umsækjandi kemur með ljósmynd á rafrænum miðli má ljósmyndin ekki vera eldri en sex mánaða gömul. |
IV. KAFLI
Útgáfa vegabréfa. 11. gr. Þjóðskrá gefur út almenn vegabréf ogannast útgáfu annarra vegabréfa sem getið er um í 2. gr. 12. gr. Vegabréf skal gefið út með fullu nafni umsækjanda, sbr. 1. gr. laga um mannanöfn nr. 45/1996. Samkvæmt alþjóðlegum reglum og stöðlum eru 38 stafbil í vegabréfi. Íslensku stafirnir þ, æ og ö taka tvö stafbil. Ef fullt nafn er lengra en 38 stafbil skal skammstafa eiginnafn/eiginnöfn og/eða millinafn, þó þannig að fyrsta eiginnafn í vegabréfi sé ritað fullum stöfum. 13. gr. Almennur frestur til útgáfu vegabréfs er þrír til fjórtán virkir dagar frá móttöku umsóknar. Heimilt er að veita forgang til skyndiútgáfu vegabréfs innan þriggja virkra daga. Þegar Þjóðskráhefur gefið út vegabréf skal það sent umsækjanda, eða til lögreglustjóra, sýslumanns, sendiráða, fastanefnda eða ræðisskrifstofa, þar sem umsækjandi getur fengið það afhent. V. KAFLI Aukavegabréf. 14. gr. Þjóðskrá er heimilt í sérstökum tilvikum að gefa út fleiri en eitt vegabréf fyrir sama einstakling. Aukavegabréf verður þó ekki gefið út nema umsækjandi sýni fram á brýna þörf fyrir handhöfn fleiri vegabréfa en eins, t.d. vegna tíðra vinnuferða til landa sem krefjast vegabréfsáritana. Gildistími aukavegabréfs getur verið allt að fimm ár. VI. KAFLI Vegabréf til bráðabirgða (neyðarvegabréf). 15. gr. Lögreglustjórum, íslenskum sendiráðum, fastanefndum og ræðisskrifstofum er heimilt að gefa út vegabréf til bráðabirgða (neyðarvegabréf) ef brýna nauðsyn ber til. Umsækjandi um neyðarvegabréf skal leggja fram þau gögn sem tilgreind eru í 8. og 9. gr. Áður en neyðarvegabréf er gefið út skal starfsmaður kanna þær upplýsingar sem skráðar eru í vegabréfaskrá, með sambærilegum hætti og um almenna útgáfu væri að ræða, og ganga úr skugga um að öll skilyrði til útgáfunnar séu uppfyllt. Alla útgáfu neyðarvegabréfa skal tilkynna Þjóðskrá þegar í stað svo hægt sé að færa hana í vegabréfaskrá. Gildistími neyðarvegabréfs ræðst af þeim ástæðum sem gera útgáfu þess nauðsynlega, en skal þó aldrei vera lengri en tólf mánuðir. Neyðarvegabréfi skal skila til lögreglu við komu til landsins eða til sendiskrifstofu erlendis. VII. KAFLI Vegabréf til útlendinga og ferðaskilríki fyrir flóttamenn. 16. gr. Útlendingastofnun er heimilt að gefaút vegabréf fyrir útlendinga, sem ekki geta með öðrum hætti aflað sér vegabréfs eða annars ferðaskilríkis. Vegabréf fyrir útlending verður því aðeins gefið út að umsækjandi sé löglega búsettur hér á landi og geti sýnt fram á að hann geti ekki fengið ferðaskilríki frá heimaríki, eða að hann sé ríkisfangslaus. Gildi vegabréfs fyrir útlending má binda við tiltekið svæði. Einnig má gefa slíkt vegabréf út með skemmri gildistíma en mælt er fyrir um í 1. mgr. 18. gr. 17. gr. Útlendingastofnun er heimilt að gefa út ferðaskilríki fyrir flóttamenn. Ferðaskilríki skal einungis gefið út til þeirra sem stjórnvöld hafa viðurkennt að hafi stöðu flóttamanna hér á landi og dveljast löglega hérlendis, sbr. 28. gr. samnings um stöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951. Gildi ferðaskilríkis fyrir flóttamann má binda við tiltekið svæði. Einnig má gefa slíkt skilríki út með skemmri gildistíma en mælt er fyrir um í 1. mgr. 18. gr. VIII. KAFLI Gildistími vegabréfs, gjöld o.fl. 18. gr. Gildistími almenns vegabréfs skal vera fimm ár frá útgáfudegi. Gildistími vegabréfs til útlendings og ferðaskilríkis fyrir flóttamann skal að jafnaði vera tvö ár frá útgáfudegi, sbr. þó 3. mgr. 16. gr. og 2. mgr. 17. gr. Þjóðskrá getur bundið gildi vegabréfs við tiltekið svæði. Hún getur og gefið vegabréf út með skemmri gildistíma en mælt er fyrir um í 1. mgr., þegar ákvæði 2. mgr. 5. gr. laga um vegabréf eiga við eða ætla má að viðkomandi hafi misfarið með vegabréf. Sömu heimild má beita hafi viðkomandi ítrekað glatað vegabréfi. Einstaklingur sem að eigin ósk hefur verið leystur undan íslenskum ríkisborgararétti, þar sem hann er orðinn eða verður erlendur ríkisborgari innan skamms tíma missir rétt sinn til að fá gefið út vegabréf. Hafi hann áður fengið gefið út vegabréf verður það ógilt sama dag og hann öðlast erlent ríkisfang eða sama dag og lausnin er veitt sé hann orðinn erlendur ríkisborgari. Ber þá að skila vegabréfinu til næsta sendiráðs, fastanefndar, ræðisskrifstofu eða lögreglustjóra, sem skal tilkynna Þjóðskrá um það. 19. gr. Þjóðskrá, lögreglustjórum, sýslumönnum, sendiráðum, fastanefndum og ræðisskrifstofum er heimilt að framlengja gildistíma vegabréfs, sem runnið hefur út á síðustu tólf mánuðum eða renna mun út innan skamms tíma, ef ekki er unnt að gefa út nýtt vegabréf í tæka tíð. Gildistími skal framlengdur með áritun þar um. Aldrei má framlengja gildistíma vegabréfs til lengri tíma en eins árs frá upphaflegum gildistíma. Einungis má framlengja gildistíma almenns vegabréfs einu sinni, en gildistíma vegabréfs fyrir útlending eða ferðaskilríkis fyrir flóttamann tvisvar. Upplýsingar um framlengingu gildistíma vegabréfs skulu sendar Þjóðskrá þegar í stað og færðar í vegabréfaskrá. 20. gr. Meðan vegabréf er í gildi er óheimilt að gefa út nýtt almennt vegabréf eða neyðarvegabréf fyrr en vegabréfið hefur verið tilkynnt glatað eða það hafi eyðilagst. Um tilkynningu fer samkvæmt a-lið 3. mgr. 8. gr. Vegabréfi sem hefur eyðilagst skal skila á afgreiðslustað. Þetta gildir þó ekki hafi Þjóðskrá heimilað útgáfu aukavegabréfs samkvæmt 14. gr. 21. gr. Um gjöld fyrir útgáfu vegabréfa fer samkvæmt lögum um aukatekjur ríkissjóðs hverju sinni. Ef umsækjandi óskar eftir að fá vegabréf afgreitt innan þriggja virkra daga skal hann greiða sérstakt gjald fyrir þessa skyndiútgáfu, sbr. lög um aukatekjur ríkissjóðs. IX. KAFLI Skrá um vegabréf. 22. gr. Þjóðskrá skal halda miðlæga skrá á tölvutæku formi, vegabréfaskrá, um öll útgefin vegabréf, þar með talin diplómatísk vegabréf, þjónustuvegabréf, neyðarvegabréf, vegabréf fyrir útlendinga og ferðaskilríki fyrir flóttamenn. Skráin skal geyma allar upplýsingar sem lagðar eru fram vegna umsóknar um vegabréf samkvæmt 8. og 9. gr. og þær upplýsingar sem skráðar eru í vegabréf um handhafa þess samkvæmt 5. gr. Stafræn ljósmynd, rithandarsýnishorn og fingraför af handhafa vegabréfs, sbr. 10. gr., skulu einnig geymd í skránni, nema ef um er að ræða neyðarvegabréf. Þeir sem taka við umsóknum um vegabréf skulu annast skráningu þessara upplýsinga. Þeir sem framlengja gildistíma vegabréfs eða gefa út neyðarvegabréf skulu þó senda Þjóðskrá upplýsingarnar til skráningar og skal það þá gert tafarlaust. Jafnframt skal Þjóðskrá, þegar vegabréf er gefið út, skrá útgáfudag, gildistíma og númer vegabréfs. Þjóðskrá skal einnig skrá upplýsingar um glötuð og stolin vegabréf, ásamt tilvísunum til annarra gagna sem gefa tilefni til afturköllunar eða synjunar á útgáfu vegabréfs. Jafnframt skal Þjóðskrá skrá upplýsingar vegna vegabréfa skv. 3. mgr. 18. gr. 23. gr. Vegabréfaskrá má nota á eftirfarandi hátt:
a. | Umsóknarstöðvar vegabréfa skulu kanna upplýsingar í vegabréfaskrá áður en umsókn um vegabréf er afgreidd, annað hvort með beinum aðgangi eða gegnum umsóknarstöð sem hefur slíkan aðgang. | b. | Þjóðskrá skal nota upplýsingar úr skránni við framleiðslu vegabréfa. | c. | Þjóðskrá og lögreglu er heimilt að nota vegabréfaskrá til að bera kennsl á mann eða staðreyna að hann sé sá sem hann segist vera. | d. | Þjóðskrá, lögreglu og sendiskrifstofum er heimilt að nota skrána til að birta erlendum stjórnvöldum númer glataðra og stolinna vegabréfa og segja þeim til um hvort tiltekið vegabréf sé gilt. |
Vegabréfaskráin skal þannig gerð, hvað tækni varðar, að hægt verði að veita mismunandi aðgang að henni í samræmi við 1. mgr. X. KAFLI Gildistaka o.fl. 24. gr. Reglugerð þessi sem sett er samkvæmt 11. gr. laga um vegabréf nr. 136 22. desember 1998, með síðari breytingum, svo og með hliðsjón af reglugerð 2252/2004/EB, sbr. C-deild Stjórnartíðinda nr. 18 28. október 2005, með síðari breytingu, öðlast gildi 28. júní 2009. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð um íslensk vegabréf nr. 624 27. september 1999 með síðari breytingu. Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 22. júní 2009. Ragna Árnadóttir. Skúli Guðmundsson. |