Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 550/2008

Nr. 550/2008 11. júní 2008
REGLUGERÐ
um flutning líflamba milli landsvæða.

1. gr.

Gildissvið og markmið.

Reglugerð þessi fjallar um alla flutninga á líflömbum og kiðum yfir varnarlínur vegna endur­nýjunar bústofns vegna niðurskurðar af völdum sjúkdóma, búháttabreytinga og/eða kynbóta á fjárstofni bús.

Markmið reglugerðarinnar er að koma í veg fyrir að alvarlegir smitsjúkdómar berist milli sóttvarnarsvæða við flutning líflamba.

2. gr.

Skilgreiningar.

Líflambasölusvæði: Sóttvarnarsvæði eða landsvæði innan sóttvarnarsvæðis sem afmark­ast af girðingum og/eða náttúrulegum hindrunum sem mynda farartálma eða hindrun á samgangi sauðfjár við svæði þar sem riðuveiki hefur greinst, og uppfylla ákvæði 3. gr.

Sóttvarnarsvæði: Landsvæði sem afmarkast af varnarlínum, ám, vötnum, sjó eða öræf­um sem ásamt fyrirskipaðri vörslu og öðrum varúðarráðstöfunum mynda farartálma eða fullkomna hindrun á samgangi dýra.

3. gr.

Líflambasölusvæði.

Líflambasölusvæði skulu uppfylla svofelld skilyrði:

  1. Riðuveiki má aldrei hafa greinst þar.
  2. Garnaveiki má ekki hafa greinst þar síðastliðin tíu ár.
  3. Girðingar og náttúrulegar hindranir umhverfis það skulu vera fjárheldar.
  4. Smitálag er lítið vegna riðuveiki á aðliggjandi sóttvarnarsvæðum.
  5. Sauðfé frá öðrum sóttvarnarsvæðum má ekki hafa verið flutt til lífs inn á svæðið síðastliðin tuttugu ár nema frá viðurkenndum líflambasvæðum.

4. gr.

Lungnapest, kregða, kýlapest og tannlos.

Óheimilt er að flytja líflömb frá sóttvarnarsvæðum þar sem lungnapest, kregða, kýlapest eða tannlos hafa greinst síðastliðin tíu ár inn á sóttvarnarsvæði eða landsvæði innan sóttvarnarsvæða sem eru laus við þessa sjúkdóma.

5. gr.

Leyfi til sölu líflamba.

Sauðfjárbændur sem óska eftir að selja líflömb skulu senda skriflega umsókn til Matvælastofnunar eigi síðar en 1. apríl hvers árs á eyðublöðum sem stofnunin lætur í té. Matvælastofnun skal halda skrá yfir sauðfjárbændur sem uppfylla skilyrði reglugerðar þessarar og heimild hafa til að selja líflömb.

Eigi síðar en 1. maí skal Matvælastofnun taka ákvörðun um hvort umsækjendum skv. 1. mgr. sé heimilt að selja líflömb enda uppfylli þeir eftirgreind skilyrði:

  1. Býli sauðfjárbónda er á líflambasölusvæði, sbr. 3. gr.
  2. Eðlilegur fjöldi fullorðins fjár skal hafa verið sendur frá býli sauðfjárbónda í sláturhús eða hausum skilað inn til sýnatöku vegna riðuveiki undanfarin ár.
  3. Sauðfjárbóndi skal uppfylla ákvæði reglugerða um aðbúnað, fóðrun og merkingar búfjár.
  4. Sauðfjárbóndi skal hafa haldið fullnægjandi skráningar á viðskiptum með búfé og skráningar á sjúkdómum og lyfjanotkun í fé undanfarin ár.
  5. Nautgripir skulu ekki hafa verið fluttir á bæinn frá bæjum utan sóttvarnarsvæðis nema með leyfi héraðsdýralæknis.
  6. Smitvarnir á bænum skulu vera fullnægjandi.

Sauðfjárbóndi heldur söluleyfi á milli ára, án umsóknar, svo lengi sem hann uppfyllir ofan­greind skilyrði. Héraðsdýralæknar skulu sinna reglubundnu eftirliti með að líflamba­sölu­bæir uppfylli skilyrði reglugerðar þessarar.

6. gr.

Leyfi til kaupa á líflömbum.

Þeir sem óska eftir að kaupa líflömb skulu senda skriflega umsókn til Matvælastofnunar eigi síðar en 1. júlí hvers árs á eyðublöðum sem stofnunin lætur í té.

Eigi síðar en 1. ágúst skal Matvælastofnun taka ákvörðun um hvort umsækjendum skv. 1. mgr. sé heimilt að kaupa líflömb enda uppfylli þeir eftirgreind skilyrði:

  1. Kaup eru gerð við sauðfjárbónda sem hefur leyfi til sölu líflamba skv. 5. gr. og ákvæði 4. gr. eiga ekki við.
  2. Kaup á líflömbum eru gerð í því skyni að endurnýja bústofn vegna niðurskurðar af völdum sjúkdóma, vegna búháttabreytinga og/eða kynbóta á fjárstofni bús.
  3. Kaupendur skulu uppfylla ákvæði reglugerða um aðbúnað, fóðrun og merkingar búfjár.
  4. Smitvarnir á býli kaupenda eru fullnægjandi.

7. gr.

Þrif á flutningstækjum.

Flutningsaðili líflamba skal sjá til þess að flutningstæki séu þrifin og sótthreinsuð fyrir flutning og skal hreinsunin tekin út og vottuð af héraðsdýralækni. Flutningsaðili skal framvísa vottorði héraðsdýralæknis sé þess óskað.

8. gr.

Lyfjameðhöndlun.

Matvælastofnun metur hverju sinni hvort þörf er á að meðhöndla líflömb gegn sníkju­dýrum fyrir flutning. Þóknun og ferðakostnaður héraðsdýralæknis, eða dýralæknis í umboði hans, vegna lyfjameðhöndlunar greiðist úr ríkissjóði. Kostnaður vegna lyfja skal greiddur af seljanda líflamba.

9. gr.

Skráningarskylda.

Kaupendur og seljendur líflamba skulu fyrir 1. desember ár hvert skila til Matvæla­stofnunar upplýsingum um viðskipti með líflömb á árinu á sérstökum eyðublöðum sem stofnunin lætur í té.

Matvælastofnun heldur skrá yfir viðskipti með líflömb og þá sem óska eftir leyfi til sölu á líflömbum og til kaupa á líflömbum.

10. gr.

Viðurlög.

Óheimilt er að flytja sauðfé til lífs yfir varnarlínur nema að fengnum leyfum og að upp­fylltum ákvæðum þessarar reglugerðar.

Brot gegn ákvæðum reglugerðarinnar varða viðurlögum samkvæmt ákvæðum 30. gr. laga um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim nr. 25/1993, með síðari breytingum. Með mál út af brotum skal farið að hætti opinbera mála.

11. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með heimild í lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim nr. 25/1993, með síðari breytingum, og lögum nr. 66/1998 um dýralækna og heilbrigðis­þjónustu við dýr, með síðari breytingum

Reglugerðin tekur þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.

Þrátt fyrir ákvæði þessarar reglugerðar er heimilt á árinu 2008 að sækja um leyfi til sölu á líflömbum til 1. júlí og um kaup á líflömbum allt til 15. ágúst. Matvælastofnun skal gefa út leyfi til sölu á líflömbum fyrir 1. ágúst og leyfi til kaupa á líflömbum fyrir 30. ágúst.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, 11. júní 2008.

F. h. r.

Sigurgeir Þorgeirsson.

Arnór Snæbjörnsson.

B deild - Útgáfud.: 12. júní 2008